Bækur, 28. desember 2018

Þegar smásagnasafnið Tales of Natural and Unnatural Catastrophes kom út árið 1987 var höfundur þess, Patricia Highsmith, gagnrýnd fyrir að sýna (mennskum) sögupersónum sínum ekki nægjanlega samúð. Highsmith er raunar með þekktari mannafælum í bókmenntum tuttugustu aldar. Einu sinni var hún innt eftir því hvers vegna hún byggi ekki til geðþekkari sögupersónur. „Eflaust er það vegna þess að mér geðjast ekki að neinum,“ sagði hún. „Hugsanlega munu síðustu bækur mínar fjalla um dýr.“

Annar sigursæll mannhatari, Alfred Hitchcock, lét einu sinni hafa eftir sér greindarlega athugasemd um frásagnarlist: ef innbrotsþjófur er fyrsta persónan sem við sjáum í kvikmynd, þá höldum við framvegis með innbrotsþjófnum. (Eitthvað svoleiðis; og ég held að ég fari rétt með að Hitchcock hafi sagt þetta.) Gott dæmi um slíkt söguupphaf væri „Moby Dick II; or The Missile Whale“, önnur sagan í fyrrnefndu safni Highsmith. Tveir búrhvalir synda um í söltum sjó og kýrin er um það bil að ala kálf – þegar hópur manna ræðst að hinu ástfangna pari og myrðir hana. Tarfurinn stendur því einn eftir, dapur og reiður. Hefst nú mikið ævintýri þar sem búrhvalurinn kemur tugum, ef ekki hundruðum, manna fyrir kattarnef – og það hlakkar í lesandanum.

Hinar sögurnar í safninu fjalla um ýmsar skemmtilegar hliðar jarðlífsins: kjarnorkustríð, siðblinda stjórnmálamenn, kakkalakka-faraldur. Mæli með.

Highsmith er auðvitað þekktust fyrir bækur sínar um hinn hæfileikaríka herra Ripley (sem kvikmyndaleikstjórinn Anthony Minghella gerði eftir frekar doðalegar kvikmyndir), og það er leitun að ósympatískari aðalpersónu en í þeim fimm bóka flokki. Það væri þá helst að sama höfundi hefði tekist að fitja upp á meira fráhrindandi sögupersónu í öðru verki sínu, This Sweet Sickness, sem kom út árið 1960 og fjallar um David Kelsey, afburðagreindan vísindamann sem starfar í plastverksmiðju, býr á gistiheimili í litlum bæ og ekur burt um helgar undir því yfirskini að hann verji frídögunum með veikri móður sinni. Sannleikurinn er hins vegar sá að móðir hans er löngu látin. David hefur keypt rándýrt hús undir fölsku flaggi, sem William Neumeister, og unir sér um helgar í sveitinni; þar ímyndar hann sér að Annabelle sé með honum og þau sötri í sameiningu kokteila, snæði fínan mat, hlusti á klassíska tónlist. David er með öðrum orðum ástsjúkur og ímyndunarveikur narsissisti sem missir smám saman tökin á lífi sínu og fjarlægist veruleikann. Lengi vel fannst mér að Highsmith hefði hér færst of mikið í fang; Kelsey/Neumeister væri einfaldlega of hrjúf og kaldranaleg persóna, en eftir því sem líður á verkið byggist upp knýjandi spenna og ég hlakkaði til að halda áfram með bókina. Sem sagt: Fínasta bók og festir Highsmith enn í sessi sem einn af eftirlætishöfundum mínum til að lesa í sumar- eða jólafríi. (SN.)

Ég fékk eina áhugaverða bók í jólagjöf frá konunni minni og börnunum mínum. Það er bókin Kristur – Saga hugmyndar eftir Sverrir Jakobsson sem við höfum áður rætt um stuttlega í Leslistanum. Mér fannst hún svo góð að ég ákvað að setja hana á áðurnefndan árslista okkar Sverris, en þar er hægt að lesa meira um hana. (KF.)

Þegar ég er á ferðalögum finnst mér alltaf skemmtilegt að grípa í bækur sem leynast á gistiheimilum eða í leiguíbúðum, uppi í hillum hjá vinum eða ættingjum. Í vikunni fékk ég þetta í andlitið. Við fjölskyldan höfum síðustu vikurnar verið á ferðalagi um Mexíkó, og því fannst mér við hæfi að glugga í The Vintage Book of Latin-American Short Stories, sem leyndist í kiljubroti í húsinu þar sem við gistum yfir hátíðardagana. Bókin var hundseyrð og nokkuð snjáð eftir talsverðan velting, en ég lét það ekkert á mig fá. Á mig runnu hins vegar tvær grímur þegar ég tók eftir því að fyrri lesandi hafði rifið út inngangsorð Julio Ortega (sem ritstýrði safninu ásamt Carlos Fuentes) og einnig fyrstu smásöguna, „The Aleph“ eftir Borges. Nokkuð pirrandi, en sjálfsagt hefur nefndur lesandi bara heillast svo ákaflega af kröftugri innsýn Ortega í heim suður-amerískrar smásgnalistar og jafnframt af hinni þekktu sögu Argentínumannsins, að hann stóðst ekki mátið og heftaði síðurnar inn í dagbókina sína. Gott og vel. Þegar ég hafði hins vegar lesið nokkrar sögur úr safninu og fundist sumar þeirra nokkuð endasleppar, tók ég eftir því að það var raunar engin tilviljun: í gegnum alla bókina var búið að rífa hér og þar út eina og eina blaðsíðu, eins og gagngert til að hrekkja græskulausan sakleysingja á borð við mig. Sem betur fer þekkti ég reyndar margar sagnanna fyrir – sumar þeirra birtustu nýlega í íslenskri þýðingu í Smásögum heimsins – Rómönsku Ameríku, sem ég las síðastliðið sumar – og því naut ég lestursins þrátt fyrir stöku gloppur og glompur. Ég held líka að í þessari ergelsislegu upplifun leynist efniviður í smásögu en ég á eftir að klóra mig fram úr því á hvaða lund hún verður, nákvæmlega. Ég mæli annars með smásögum frá þessum heimshluta; það kraumar í suður-amerískum bókmenntum einhver sérstakur kraftur, ólgar eitthvert sérstakt hugarflug sem þrífst ekki annars staðar.

Ragnar Jónasson, spennusagnahöfundur, gekk í ráðuneyti Leslistans í síðustu viku og mælti með fjölmörgum spennandi bókum, meðal annars The Mistletoe Murder eftir P.D. James. Ég tók Ragnar á orðinu og spændi í gegnum hana í stuttri flugferð. Ég hafði ekki lesið neitt eftir hina heimsþekktu P.D. James áður, og fundust sögurnar góðar, vel uppbyggðar – notalegar. (SN.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

  

Elísabet Kristín Jökulsdóttir gaf á dögunum út nýja ljóðabók, Lítil sál sem aldrei komst til jarðar. Hún fór auðvitað beint á óskalistann hjá mér og séðir áskrifendur Leslistans munu ekki tvínóna við að tryggja sér eintak. Hér er gamalt Leslistaspjall við skáldið. (SN.)

 

Bækur, 20. desember 2018

José Saramago er einn þeirra höfunda sem endurskilgreindu fyrir mér hvað hægt væri að gera í skáldskap þegar ég uppgötvaði hann á sínum tíma. Sigrún Ástríður Eiríksdóttir vann það þjóðþrifaverk að íslenska þekktustu bók Saramagos, Blindu, og ég hvet alla, sem ekki hafa lesið hana, til að leggja niður störf á stundinni, hætta við að stinga sér ofan í sundlaugina, leyfa smákökubakstrinum að bíða – og hlaupa heldur út í búð eða á bókasafnið til að næla sér í eintak af þessu meistaraverki.

Í vikunni las ég Hellinn, eða The Cave, eftir sama höfund. Sú fjallar um leirkerasmið sem  neyðist til að hætta framleiðslu þegar fólk byrjar að kaupa fjöldaframleiddar plastvörur í staðinn fyrir leirmunina hans. Verkið má lesa sem eins konar dæmisögu um það hvernig kapítalisminn upprætir líf handverksfólks; en styrkur sögunnar býr þó fyrst og síðast í persónusköpuninni. Bókin er, líkt og eiginlega allar skáldsögur, aðeins of löng – og alls ekki mitt eftirlætisverk eftir Saramago – en þó vel lestursins virði, líkt og raunar flest annað sem Saramago sendi frá sér. (Hellirinn var í sérstöku uppáhaldi hjá hinu mætu Ursulu K. Le Guin.) Hér er önnur ágæt umfjöllun um bókina. (SN.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

 

Ég sá fyrir stuttu að það er væntanleg í vor ný bók frá ævisagnameistaranum Robert Caro. Það sem gladdi mig sérstaklega var að bókin fjallar fyrst og fremst um skriftækni hans og rannsóknaraðferðir. Ég get ekki beðið eftir að lesa hana. (KF.)

Bækur, 14. desember 2018

Í síðasta Leslista nefndi ég að ég væri að lesa Guadalupe Nettel, mexíkanskan höfund, og væri afar ánægður með þá uppgötvun mína. Í kjölfarið barst Leslistanum bréf frá Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur, dósent í spænsku við Háskóla Íslands: 
„Ég fylgist reglulega með leslistanum ykkar og hef gaman af. Ég sá ykkur minnast á Guadalupe Nettel í síðasta listanum. Kannski hafið þið gaman af því að vita að ég er að þýða Historias naturales á íslensku. Og aldrei að vita nema að þýðingarnar verði fleiri. Sennilega þá El cuerpo en que nací.“
Við höfum sannarlega gaman af því! – Historias naturales var einmitt önnur bókanna sem ég las eftir Nettel, og hreifst af. Tilhlökkunarefni.

Ég færði mig annars í skáldsögulestri frá Mexíkó til Morokkó í vikunni og las (í enskri þýðingu) bók eftir hinn franska Matthias Énard, Street of Thieves. Fyndin, ævintýraleg, fjörug – og afar hressilega rituð. Sögusviðið er Tangier í Morokkó, leikar berast einnig til Túnis og Spánar, og efniviðurinn arabíska vorið.

Þá endurnýjaði ég kynni mín við Thomas Bernhard; kveikjan var sú að Bragi Ólafsson talaði svo fjálglega um hann í frábæru spjalli við Leslistann síðastliðið sumar. Konan mín hafði orð á þessu nýlega þegar ég sat snemma morguns í rólu á leikvelli á meðan þær dóttir mín léku sér í kastalanum: „Mér finnst eitthvað dásamlegt við að þú sért að lesa Útrýmingu eftir Thomas Bernhard hér á rólóvellinum.“ Ég kom af fjöllum; er ekki daglegt brauð að fólk uni sér á rólóvelli á kafi í bók eftir Thomas Bernhard? Þetta er mögnuð skáldaga – en líka óþolandi, langdregin, þung, erfið, ruglingsleg, klikkuð. Ég get ekki lesið hana nema í smáskömmtun, annars missi ég vitið. (SN.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

 

Þar sem ég er búinn að vera að röfla á þessum vettvangi um að taka upp úr bókakössum þá benti Gyrðir Elíasson mér á mjög forvitnilega ævisögu Donald Hall sem heitir einmitt Unpacking the Boxes: A Memoir of a Life in Poetry. (KF.)

Bækur, 7. desember 2018

Í síðasta Leslista nefndi ég að ég væri flytjast í nýtt húsnæði og þess vegna að taka upp úr bókakössum þessa dagana. Það minnti mig á grein sem fjallar einmitt um tilfinningarnar og minningarnar sem vakna við að taka upp úr gömlum bókakössum. Ég gerði hins vegar þau mistök að ég fór rangt með nafn höfundar þessarar ritgerðar. Ég sagði að hún væri eftir Stefan Zweig, þegar hið rétta er að hún er eftir Walter Benjamin. Enginn annar en ofannefndur Gyrðir Elíasson sendi okkur línu og leiðrétti misskilninginn og þakka ég honum kærlega fyrir ábendinguna. Svo fatta ég það þegar ég er búinn að taka megnið af bókunum mínum upp úr kössunum að þessi ritgerð er til í góðri íslenskri þýðingu Jóns Bjarna Atlasonar í bókinni Fagurfræði og miðlun þar sem safnað hefur verið saman úrvali greina eftir Benjamin undir ritstjórn Benedikts Hjartarsonar. Ég hef átt þessa bók í mörg ár og skil ekki af hverju ég gleymdi henni – og enn síður af hverju ég ruglaði þessum ágætu rithöfundum saman. Það er engum mönnum hollt að vera aðskilinn bókasafninu sínu í langan tíma. Nú finn ég loks að ég get andað léttar, lesið og lifað betur. Hér er ágæt lína úr þessari góðu grein Benjamin sem ég er nokkuð sammála:
„Til fallegustu minninga safnarans telst hins vegar það augnablik þegar hann kom bók til bjargar – sem hann hafði jafnvel aldrei hugsað um og hvað þá dreymt um að eignast – vegna þess að hún lá svo umkomulaus og yfirgefin á opnum markaði, og keypti hana til að veita henni frelsi, líkt og í ævintýrinu í Þúsund og einni nótt þegar prinsinn kemur fallegu ambáttinni til bjargar. Fyrir bókasafnarann er nefnilega hið sanna frelsi allra bóka einhver staðar á hillum hans.“ (KF.)

Ég er á ferðalagi um Mexíkó og seildist því eftir bókmenntum sem þaðan eru upprunnar – þannig lágu leiðir okkar Guadalupe Nettel saman. Það er alltaf jafn gaman að uppgötva nýjan höfund sem höfðar til manns. Skáldsaga Nettel, sem í enskri þýðingu nefnist After the Winter, fannst mér afar bitastæð. Ekki spillir að sögusviðið er einkum tvær borgir sem ég þekki vel: New York og París. Galdur Nettel er hversu rólyndislega hún vefur sögu sína, og það af fádæma öryggi og hlýju, og hversu flink hún er að lýsa sögusviði, magna upp stemningu og búa til persónur. Mikill happafundur.

Um leið og ég lauk við After the Winter kannaði ég hvort góðir menn hefðu ekki unnið það þjóðþrifaverk að þýða fleiri verk eftir Nettel yfir á ensku – og jú, ég hafði heppnina með mér. Smásagnasafnið Natural Histories stendur fyrrnefndri skáldsögu kannski ekki alveg á sporði, en er þó stórfínt. Sögurnar hverfast einkum um sambönd manna og dýra, og draga á lúmskan hátt fram líkindin á milli okkar og dýranna. Einkum finnst mér eftirminnileg önnur sagan, sem fjallar um glímu fjölskyldu einnar við kakkalakka sem gera innrás á heimilið. Næst hlakka ég til að lesa þriðju ensku þýðinguna á bók eftir Nettel, The Body Where I Was Born. Þangað til ég kemst yfir hana er ég (loksins) að lesa hina klassísku The House on Mango Street eftir hina mexíkósku/bandarísku Söndru Cisneros, bók sem fór víða á sínum tíma og er skrifuð í stuttum, ljóðrænum köflum.


 

Óskalisti Leslistans:

 

Ég sá auglýsta nýja bók um myndhöggvarann Einar Jónsson sem vekur áhuga minn. Hann er einn af mínum uppáhalds íslensku listamönnum og saga hans er alveg hreint ótrúleg. Ég mæli líka með sjálfsævisögu hans, Minningar/Skoðanir, sem er alveg hreint stórskemmtileg.

Bandaríski rithöfundurinn Cal Newport gefur á næstunni út bók sem nefnist Digital Minimalism og fjallar um það hvernig hægt er að lifa eðlilegu og uppbyggilegu lífi án þess að láta samfélagsmiðla og önnur stafræn tól stjórna manni. Eflaust holl lesning fyrir marga – mig með talinn. (KF.)

Í skemmtilegu litlu bókasafni í Mexíkóborg, Aeromotto, rak ég augun í verk sem ég verð að eignast – Wildwood Wisdom eftir Ellsworth Jaeger. Bókin kom fyrst út árið 1945 og geymir meðal annars leiðsögn í því hvernig best sé að tendra bálköst, sigla kanó, nota exi og hníf, og búa til skjólshús úr því sem hendi er næst hverju sinni. Ef ég fæ þessa í jólagjöf verð ég glaður og sæll. (SN.)

 

Bækur, 30. nóvember 2018

Fullorðinsbækur:

Nú var ég loksins að flytjast í húsið mitt eftir að hafa dvalið hjá tengdaforeldrum mínum í átta mánuði. Ég mun verja helginni í að taka upp úr bókakössunum mínum sem ég hef saknað ógurlega síðustu mánuði. Mér var þá hugsað til þessarar fallegu greinar eftir Stefan Zweig sem fjallar einmitt um þetta, tilfinningarnar og minningarnar sem flæða um mann þegar maður tekur upp úr rykföllnum bókakössum. Þessa grein er að finna í enskri þýðingu í ritgerðarsafninu Illuminations sem ég mæli mikið með.

Ég rambaði í vikunni á fáránlega áhugaverða síðu á vegum CIA þar sem njósnadeildin bandaríska birtir ýmis upplýsingarit um njósnir og skilvirka upplýsingaöflun. Það sem mér fannst einna áhugaverðast að finna þar var bók um „njósnasálfræði“ eða Psychology of Intelligence Analysis. Ég hef aðeins blaðað í henni (enda leiðinlegt að lesa langan texta af síma eða tölvuskjá) en finnst hún bæði áhugaverð og gagnleg þrátt fyrir að ég starfi ekki sem njósnari (ennþá). Ég staldraði sérstaklega við fyrsta kaflann sem ber titilinn Thinking About Thinking og fjallar einmitt um hvernig maður á að fara af því að þroska og betrumbæta það hvernig maður hugsar.

Ég vil helst ekki dæma bækur áður en ég klára þær í heild sinni (fyrir utan að lýsa yfir áhuga mínum) en ég má til með að segja nokkur orð um bókina Factfulness eftir Hans Rosling sem ég byrjaði á fyrir nokkrum dögum. Hún hefur verið lofuð í hástert síðan hún kom út fyrr á árinu – áðurnefndur Bill Gates talaði t.d. um að hún væri ein besta bók sem hann hefði lesið. Markmið bókarinnar er fyrst og fremst að benda á nokkrar staðreyndir um stöðu heimsins sem sýna fram á að hann sé að þróast til betri vegar. Bókin er virkilega vönduð og vel skrifuð (byrjar þannig allavega) og fær mann svo sannarlega til að horfa bjartari augum á stöðu mála á heimsvísu. Mér finnst t.d. alveg sláandi að sjá hvað það hefur dregið mikið úr fátækt í heiminum á síðustu áratugum. Eftir sem áður er ég ekki sannfærður um að heimurinn sem slíkur sé að þróast í átt til betri vegar. Ég trúi því að maðurinn geti stuðlað að framförum á sviði tækni og vísinda en ég held að mannlegt eðli sé mjög torbreytanlegt – þ.e. að mannskepnan verði jafn grimm og jafn góð eftir 100 ár og hún var fyrir 100 árum síðan. Þannig eru allar framfarir í eðli sínu afturkræfar og ekki hægt að gera ráð fyrir að þær endist – en það er vissulega enn betri ástæða til að berjast fyrir þeim. Ég ætla að klára bókina áður en ég felli lokadóm um hana. Held því líka til haga að það er öllum mönnum hollt að lesa efni sem maður er ósammála. Mig grunar að ég komi klárari úr þessum lestri í hið minnsta. (KF.)

Út er komin snotur, lítil bók, eftir eftirlætishöfundinn minn, hinn argentíska Cesar Aira, og nefnist í enskri þýðingu On Contemporary Art, gefin út af David Zwirner Books. Aira lýsir dálæti sínu á list og liststefnum, og einkum listtímaritum, og veltir vöngum yfir stöðu listarinnar í samtímanum – á sinn einstaka hátt. (SN.)

 

 

Barnabækur:

Door eftir eftir suður-kóreska teiknarann og höfundinn Jihyeon Lee rataði á fjörur mínar í vikunni – og er algjörlega stórfengleg. Teiknistíllinn er mjög sérstakur, í senn aðlaðandi og framandi – og sagan, sem sögð er án (skiljanlegra) orða, heillandi. Bók í sérflokki.

Þá keypti ég aðra barnabók, sem ég hafði fyrst tekið á bókasafninu en vildi eignast: Extra Yarn eftir Mac Barnett, með teikningum eftir Jon Klassen. Þeir félagar hafa unnið að nokkrum bókum í samstarfi og hlotið fyrir lófatak og viðurkenningar. Í Extra Yarn finnur Annabelle litla öskju með lopa í öllum regnbogans litum og tekur að sauma peysur á alla í þorpinu sínu – og síðan einnig á dýrin þar, húsin, trén. Lopinn virðist aldrei þrjóta. Þetta er afar falleg og eftirminnileg bók, með fléttu sem gengur upp á órökrænan hátt, eins og svo margt í góðum skáldskap. (SN.)

 

 

Óskalisti Leslistans:

 

Ég hef haft gaman af því að lesa það sem stærðfræðingurinn Steven Strogatz hefur frá að segja. Þess vegna fannst mér gaman að sjá að það er væntanleg bók eftir hann sem nefnist Infinite Powers og fjallar um undraheima stærðfræðinnar.

Ég minntist á tvær greinar eftir vísindamanninn Laslo Barabasi í síðasta lista. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig ég fór að því að uppgötva þennan áhugaverða mann. Upp úr þurru byrjaði hann að elta mig á Twitter fyrir nokkrum mánuðum síðan og ég hef í kjölfarið farið að lesa mér til um ýmislegt sem hann hefur gert. M.a. tók ég eftir því að hann gaf nýlega út bók sem nefnist Formula – Universal Laws of Success sem lítur út fyrir að vera helvíti áhugaverð.

Talandi um flókin kerfi, stærðfræði og tölur. Miðað við Amazon körfuna mína þessa dagana virðist það vera það eina sem mér er hugleikið. Ég hnaut t.d. um þessa bók hér sem er nýútkomin og er kennslurit um „flókin kerfi“ (e. complex systems). Ég er alveg viss um að ég muni ekki skilja neitt í henni ef ég fæ hana í hendurnar – en mér finnst hún samt fjári áhugaverð. (KF.)

Titillinn á The New Dark Age: Technology and the End of the Future, nýrri bók eftir James Bridle, höfðar afar sterkt til mín. Eitthvað handa öllum þeim sem óttast að tæknin muni hugsanlega með tímanum gera – eða hafi jafnvel nú þegar gert – okkur að einsleitari og glámskyggnari dýrategund. Úr lýsingu frá Verso-útgáfunni: „As the world around us increases in technological complexity, our understanding of it diminishes. Underlying this trend is a single idea: the belief that our existence is understandable through computation, and more data is enough to help us build a better world.“ Í myndböndunum, sem fylgja hlekknum hér fyrir ofan, ræðir Bridle meðal annars á afar næman hátt um hvernig tölvukerfi og forrit eru ekki hlutlaus heldur oft t.d. afar rasísk – enda byggist ákvarðanir þeirra alfarið á því sem þau hafa úr að moða, þ.e. gögnum um sögu/skoðanir/kreddur okkar, mannkynsins. Ef við ætlum að treysta tölvum til að hugsa fyrir okkur, á hvaða upplýsingum mötum við þá tölvukerfin? Eins lýsir hann því hvernig infrastrúktúr internetsins mótast af heimsvaldastefnu fyrri tíma, og minnir okkur á að internetið er ekki einhver svífandi og óefnislegur undraheimur í skýi fyrir ofan kollinn á okkur, heldur knúinn áfram í risastórum byggingum við útjaðar borga og í sæstrengjum, mannvirkjum sem senda frá sér mikinn hita og krefjast gríðarlegs rafmagns. (SN.)

Út er komin bók um hvernig nýta má gagnavísindin til góðs sem heitir Model Thinker: What you Need to Know to Make Data Work for You. Þar sem ég lifi og hrærist í þessum heimi í starfi mínu er ég nokkuð öruggur með að ég kaupi þessa bók. (KF.)

Bækur, 23. nóvember 2018

Í síðustu viku nefndi ég hina kraftmiklu King Kong Theory eftir vitsmunanaglann Virginie Despentes. Þegar ég hafði lokið lestri á þeirri bók, sem er löng ritgerð, seildist ég eftir skáldsögu úr ranni sama höfundar, sú ber þann töffaralega titil Apocalypse Baby. Flott bók. Leit einkaspæjara – tveggja afar ólíkra kvenna – að týndri stúlku veitir höfundinum færi á að grannskoða og krítísera ýmsa anga vestræns nútímasamfélags. Despentes er hin pönkaða systir Michel Houllebecq, frænka Charles Bukowski, og yrði flott á barnum með Simone de Beauvoir. Eiturklár, flink í að ögra á snjallan hátt – stundum fellur hún þó í gildru pönksins, sem er að ganga aðeins of langt í því að ögra og þá fær lesandinn á tilfinninguna að hún sé að rembast. Slíkt heyrir þó til undantekninga. Haganlega fléttuð skáldsaga og jafnframt góður þverskurður af frönsku samfélagi, París og Barselónu. Gef þessari bók 3,645 stjörnur.

Á sínum tíma las ég útgáfu Philips Pullman á Grímmsævintýrunum, það var ágæt bók. Sú kom síðar út í yndislegri þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur (mæli með því að lesendur verði sér úti um hana ef hún prýðir ekki nú þegar hillu). Ævintýrum þeirra Grímsbræðra fylgdu hugleiðingar Pullman um þessa tegund frásagnarlistar, og mér fundust þær settar fram af miklum skýrleika og greind. Ég sperrti því eyru þegar ég fregnaði að væntanlegt væri safn með úrvali af ritgerðum hans og fyrirlestrum, Daemon Voices: Essays on Storytelling, og ég verð að segja það nú, þegar ég hef lesið bókina, að þarna leynast einhverjar snjöllustu hugleiðingar sem ég hef lesið um sagnagerð. Pullman notar þekktasta verk sitt, His Dark Materials (sem til er á íslensku og ég hef NB ekki lesið), til að varpa ljósi á aðferðir sínar og hugmyndir, og fjallar einnig rækilega um hvaðan hann sótti innblástur við skrif sögunnar; í Paradísarheimt Miltons, í goðsögnina um Adam og Evu og brottrekstur þeirra úr Paradís, um tiltekna ritgerð eftir Heinrich von Kleist. (Þegar ég var að skrifa þessa klausu rifjaðist upp fyrir mér að eitt sérrita hins yndislega bókmenntatímarits Bjarts & frú Emilíu, sem kom út á árunum 1990-2001, var helgað nóvellu Kleists, Jarðskjálftanum í Síle. Eða dreymdi mig það bara? Rannsóknarvinna leiddi í ljós að allir árgangur Bjarts & frú Emilíu eru aðgengilegir hér á timarit.is – auðvitað eru þeir það! þetta gladdi mig mikið – en ég náði hins vegar ekki að grafa upp í hvaða tölublaði áðurnefnd nóvella leynist, þar sem ég var orðinn of seinn Þakkargjörðarmáltíð og fjölskylda mín tekin að reka á eftir mér. „Leggðu nú frá þér tölvuna, Sverrir!“) Og já. Sem sagt. Hvert var ég nú aftur kominn? Heinrick von Kleist … og Philip Pullman! Ég var afar ánægður með þetta ritgerðasafn hans. Mæli sérstaklega með því gagnvart þeim sem hafa áhuga á sagnalist og því hvernig sögur er skrúfaðar saman. (SN.)

 

Óskalisti Leslistans:

Ég tók eftir því að út er komin bók sem fjallar um speki Tómasar frá Akvínó og hagfræði, og heitir Aquinas and the Market: Toward a Humane Economy. Ég hef held ég aldrei áður heyrt um rit sem fjallar til jafns um guð- og hagfræði og þess vegna vekur þessi bók áhuga minn.

Ég fjallaði eitt sinn á þessum vettvangi um frábæra bók sagnfræðingsins Peter Frankopan – Silk Roads sem segir sögu Mið-Austurlanda frá skemmtilegum sjónarhóli. Hann var að gefa út framhald af þeirri bók sem nefnist einfaldlega New Silk Roads og lofar góðu.

Sá að það var komin út ný bók um Isaiah Berlin sem nefnist In Search of Isaiah Berlin: A Literary Adventure. Bókin er skrifuð af samstarfsmanni hans til margra ára sem hefur helgað líf sitt því að skrásetja og gefa út það sem Berlin hefur skrifað og sagt. Held að þetta sé helvíti áhugaverð bók. (KF.)

Og síðast en ekki síst: Hans Blær, ný skáldsaga eftir Eirík Örn Norðdahl, er komin út. (SN.)

Bækur, 16. nóvember 2018

Ég las loks King Kong Theory, eftir hina frönsku Virginie Despentes, sem gert hefur það gott að undanförnu með þríleiknum um Vernon Subutex. Despentes er magnaður höfundur, rödd hennar eins og elding. Í King Kong-kenningunni fjallar hún meðal annars um það þegar henni var nauðgað og skefur ekki utan af hlutunum. Mér finnst stimpillinn „skyldulesning“ oft kjánalegur, en set hann engu að síður á þessa bók. Eitt kraftmesta femínista-manífestó sem ég hef lesið. Fyrir þá sem ekki lesa frönsku: Bókin er til í vandaðri enskri þýðingu, sem gefin var út af The Feminist Press í New York, og hér má svo hlýða á Despentes í ágætu spjalli á alheimstungunni.

Dagur Hjartarson hefur gefið út nýja ljóðabók, Því miður. Þar snýr hann skemmtilega upp á kunnuglegar setningar sem iðulega óma í símsvörum fyrirtækja: Því miður eru allir þjónustufulltrúar okkar uppteknir… Höfundur hefur margt til síns máls um samskipti (eða samskiptaleysi) okkar í samtímanum, því miður.

Jón Ólafsson, tónlistarmaðurinn knái, hefur sent frá sér tvær sniðugar bækur, Sönglögin okkar og Vögguvísurnar okkar. Þar leynast laga- og vísnatextar, ásamt spilara með undirleik við lögin. Ég hef nýtt mér þennan spilara óspart og farið á kostum ásamt dóttur minni. Brjálað stuð, og stundum verið hringt á lögregluna í Queens. Bækurnar eru myndskreyttar á skemmtilega galgopalegan hátt af Úlfi Logason. Mæli mikið með þessum bókum fyrir söngelska foreldra sem vilja kenna börnunum sínum íslenska texta og halda uppi fjöri á síðkvöldum. (SN.)

Óskalisti Leslistans:

Hinn knái þýðandi, Sigurjón Björnsson, hefur sent frá sér aðra þýðingu á skáldsögu eftir franska meistarann Honoré de Balzak; Evgeníu Grandet. Ég las fyrri þýðingu Sigurjóns á annarri þekktri skáldsögu eftir Balzac, Föður Goríot, og einnig íslenskun hans á ævisögu Stefans Zweig um höfundinn franska. Báðar voru þær stórvel unnar, á ríku og auðugu máli. Hlakka til að næla mér í þessa. (SN.)

Ég hef séð mikið fjallað um nýja bók um Kaupþing eftir Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans. Bókin heitir Kaupthinking: Bankinn sem átti sjálfan sig og lofar ansi góðu miðað við það sem ég hef lesið og heyrt um hana. Hér er höfundurinn í viðtali í Silfrinu síðastliðna helgi.

Svo sá ég í Bókatíðindum minnst á þýðingu á bók eftir Arthur Koestler, Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki. Eftir smá gúggl sé ég reyndar að hún kom út í fyrra og skil ekki alveg hvernig sú útgáfa gat farið fram hjá mér. Koestler er einn af þessum höfundum sem maður hefur eins konar samviskubit yfir að hafa ánægju af, vegna þess hversu mikill hrotti hann var í daglegu lífi. Hann skrifaði tvær bækur sem eru á meðal bestu bóka sem ég hef lesið: Scum of the Earth og Darkness at Noon, sem er líklega hans þekktasta verk. (KF.)