Bækur, 19. október 2018

Hvernig skrifar maður um hamfarir sem eru svo yfirþyrmandi að þær smætta einstaklinginn niður í ekki neitt? Það er merkilegt hversu fáar (vel heppnaðar) skáldsögur hafa verið samdar um stærsta málefni samtímans, loftslagsbreytingarnar. Besta bókin, sem reynir með einhverjum hætti að glíma við þessi mál og ratað hefur á mínar fjörur, er The Overstory eftir Richard Powers. Hún fjallar fyrst og síðast um tré. Um menn og tré; samband manna við tré; og hvernig trén hafa verið hér miklu lengur en við og hafa vitsmuna- og tilfinningalíf sem okkur er framandi, en er eflaust ekki síður margslungið og flókið. Þetta er doðrantur, og ég er einungis hálfnaður, en það er nokkuð síðan skáldsaga hefur heillað mig jafn rækilega. Strigi höfundarins er svo svimandi stór, og nóturnar sem hann slær spanna svo vítt tónsvið, að leitun er að öðru eins samtímaverki. Haldinn barnslegri tilhlökkun get ég ekki beðið eftir að hverfa aftur inn í hana og ég hugsa að ég láti það eftir mér … Það er komið miðnætti og ég sit hér við kertaljós … Hér skrifar Barbara Kingsolver um The Overstory í The New York Times. (SN.)

Ég forpantaði og fékk afhenda í vikunni bókina Stubborn Attachements eftir hagfræðinginn Tyler Cowen sem ég vék að í óskalistanum um daginn. Mér fannst alveg sérstaklega ánægjulegt að komast að því að Cowen skilar öllum ágóða af bókinni til manns sem hann hitti í Eþíópíu og dreymir um að stofna eigið ferðaþjónustufyrirtæki. Í örstuttu máli er bókin eins konar óður til hagvaxtar og í henni færir hann mjög sterk rök fyrir því að hagvöxtur sé driffjöður allra framfara heimsins og að við ættum að gera allt sem við getum til að efla og viðhalda honum. Bókin er töluvert dýpri en þú heldur – þetta er ekki bakþanki í Fréttablaðinu eftir einhvern SUS-ara – þetta er úthugsuð og virkilega vönduð bók sem fær mann til að hugsa. Ég er ekki búinn að klára hana, en hún er strax á fyrstu metrunum farin að sitja mikið eftir sig. Hér er höfundurinn í mjög löngu viðtali um bókina. (KF.)

 

Óskalisti Leslistans:

Þessa vikuna langar mig einungis í ljóðabækur.

Væntanleg er Að ljóði munt þú verða eftir Steinunni Sigurðardóttur. Síðasta ljóðabók hennar, Af ljóði ertu komin, var frábær og þetta eru því aldeilis fín tíðindi.

Dagur Hjartarson gefur út ljóðabókina Því miður. Hana má panta eins og pítsu. Síðasta bók dags, Heilaskurðaðgerðin, er í miklu uppáhaldi hjá Leslistanum.

Arngunnur Árnadóttur gefur út Ský til að gleyma, bók sem ég mun lesa.

Loks gefur Ragnar Axelsson út ljósmyndabókina Jökull, „ljóðabók í myndum,“ eins og höfundur lýsir henni sjálfur.

Fjórar ljóðabækur sem ég hlakka til að fá í hendurnar. (SN.)

Ég er búinn að heyra mikið um bókina Listamannalaun eftir Ólaf Gunnarsson sem fjallar um vini hans, listamennina Alfreð Flóka, Dag Sigurðarson og Steinar Sigurjónsson. Þetta eru allt listamenn sem ég hef haft áhuga á og vil lesa meira um og því er ég nokkuð viss um að ég útvegi mér þessari bók með einum eða öðrum hætti. (KF.)

Bækur, 12. október 2018

Heimsveldi rísa og hníga og nú virðist sem Bandaríkin séu að liðast í sundur. Sú er í hið minnsta tilfinning mín – hefur aukist mikið eftir að Trump komst til valda – og ég veit að ekki er ég einn um það. Í America: The Farewell Tour færir Chris Hedges rök fyrir því að Bandaríkin beri nú öll helstu einkenni deyjandi heimsveldis. Idíótarnir taka við stjórnartaumunum á lokadögum deyjandi siðmenningar, ritar hann. Fólk flýi í síauknum mæli inn í ímyndaða heima til að forðast að horfast í augu við veruleikann – símaskjái, kvalalosta, stríðsbrölt, haturskölt, vímuefni, klám. Höfundur skiptir bók sinni upp í sjö kafla: Hnignun, Heróín, Vinna, Sadismi, Hatur, Fjárhættuspil og Frelsi. Í þeim fyrsta vitnar hann í ýmsa góða menn, meðal annars Karl Marx, sem kannski hefur fengið uppreist æru á síðustu árum og reynst sannspár, eftir allt saman. Kapítalisminn er eldur: einn daginn hefur allt breyst í ösku. (Bókstaflega: Það er 11. október og ég hef aldrei upplifað jafn heitt haust í New York.) Kaflarnir, sem fjalla um vímuefnafaraldurinn, sem nú rænir hundruð Bandaríkjamanna lífinu daglega, og sadismann, meðal annars klámiðnaðinn, eru vægast sagt lýjandi lesning, og ég þurfti margsinnis að líta upp úr bókinni og taka mér hvíld. Undangengin sex þúsund ár hafa siðmenntuð samfélög í fyllingu tímans varpað velmegun sinni á glæ með geypilegri heimsku og drambi, ritar Hedges. Trump er aðeins andlit þess sem er að gerast: viðeigandi leiðtogi þessa fyrrum heimsveldis.

Hvað er ljóðlist? Því er vandsvarað, en ég ber kennsl á hana þegar hún ratar til mín. What Is Poetry? (Just Kidding, I Know You Know): Interviews from the Poetry Project Newsletter (1983-2009) er bók sem ég hef verið að lesa í smáskömmtum undanfarið árið. The Poetry Project hefur verið starfrækt í hálfa öld í St. Mark’s-kirkju á The Bowery, í New York, og tórir enn í miðri tortímingunni á Manhattan, starfsemi sem gægist eins og agnarlítið blóm upp úr sprengjurústunum. Í bókinni, sem gefin er út af hinu fína forlagi Wave Books, eru tekin saman viðtöl við fjöldamörg skáld sem viðriðin hafa verið The Poetry Project, meðal annars þekktustu nöfn New York-skólans svokallaða, svo sem Allen Ginsberg og Kenneth Koch, og einnig við yngri höfunda, svo sem Maggie Nelson og Eileen Myles. Góð bók til að grípa í yfir morgunkaffinu, á klósettinu eða í Greyhound-rútu sem stefnir inn í sólarlagið.

Las svo einnig Sorgarmarsinn eftir Gyrði Elíasson. Mjög fín. (Mun birta ritdóm um hana á Starafugli – meira síðar.) Höfundurinn ræddi um verk sitt í nýjustu Kiljunni. (SN.)
 

Óskalisti Leslistans:

Sá nýlega að Háskólaútgáfan var að að gefa út bók um hönnun Gísa B. Björnssonar sem er þekktur fyrir að hafa hannað mörg af flottustu lógó-um Íslands. Gaman að þetta sé til. (KF.)

Sögurnar berast enn heimshorna á milli, og nú er komið út safn með nokkrum vel völdum frá Asíu og Eyjaálfu.

Ég er mjög spenntur fyrir Dansað í Odessa eftir rússnesk-bandaríska skáldið Ilya Kaminsky. Sigurður heitinn Pálsson hóf þýðingarstarfið, og Sölvi Björn Sigurðsson lauk verkinu.

Rebecca Traister gefur út Good and Bad: The Revolutionary Power of Women’s Anger. Fjallar að stóru leyti um #MeToo-hreyfinguna. (SN.)

Bækur, 5. október 2018

Í ofannefndri bók Jill Lepore, These Truths, er að finna ýmislegt sem lesandinn staldrar við. Bókin, sem fjallar um sögu Bandaríkjanna, leyfir röddum, sem sjaldan fengu að heyrast í sagnfræðiritum fyrri tíma, að óma; undirokuðum hópum, svo sem innfæddum, Afríkubúum sem píndir voru í þrældóm, konum. Lýsingarnar eru átakanlegar; einkum þegar fjallað er um fólk sem slitið er upp frá heimkynnum sínum, læst niðri í skipslest og flutt þvert yfir hafið til annarrar heimsálfu. Margir misstu vitið, létust á leiðinni. Framarlega í bókinni ritar Lepore að á milli 1500-1800 hafi rúmlega tvær og hálf milljón Evrópubúa flust til Ameríku; landnemarnir fluttu með sér tólf milljón Afríkubúa í ánauð. Á sama tímabili dóu um það bil fimmtíu milljónir innfæddra (Native Americans), mest af völdum sjúkdóma sem innflytjendurnir fluttu með sér. Maður á erfitt með að ná utan um aðrar eins tölur.

Ljóðabækur vikunnar hjá mér eru því miður á ensku (ég hlakka til að komast yfir allar íslensku bækurnar sem eru að koma út): The Latest Winter og Something BrightThen Holes eftir Maggie Nelson. Ég hef áður fjallað um bók eftir hana, sannsöguna The Last Parts, en hafði ekki lesið ljóðin hennar fyrr. Hún hefur sterka og grípandi rödd og maður veit aldrei hvert förinni er heitið næst. Hér fjallar Hilton Als um höfundarverk hennar í The New Yorker.

Hakaði við klausu úr ritgerðasafninu Attention eftir Joshua Cohen (sem ég nefndi í síðustu viku): “If one of the barest necessities of fiction is keeping two characters apart for enough time for a misunderstanding to ensue–a misunderstanding that can be resolved only by the protagonists individually moving toward each other, and toward the book’s conclusion–cellphones, now “smartphones,” have become the chief antagonists of fiction.” Þetta rifjaði upp fyrir mér nokkuð sem Bret Easton Ellis lét hafa eftir sér í viðtali við The Paris Review; að ef fyrsta skáldsagan hans, Less Than Zero, hefði verið rituð eftir að allir eignuðust farsíma, hefði sagan varla slefað upp í tuttugu blaðsíður. “There’s a long stretch in the book where Clay is driving around looking for Julian, stopping off at friends’ houses to use their phones. He even stops in at a McDonald’s to use a pay phone. But people can find each other very easily now. A single text—‘Dude, where the f–k are you? I want my money’—would take care of three-fourths of the action in the book.”

Að lokum – heimspeki. Það liggur í hlutarins eðli að bók sem þessi á sér enga von, ritar Eugene Thacker í inngangsorðum að Infinite Resignation(Takmarkalaus undirgefni), bók sem fjallar um pessímisma sem heimspekistefnu. Thacker virðist finna vissa hugsvölun í því að gefa sig bölsýninni algjörlega á vald – hann hefur einnig sent frá sér bækur um loftslagsbreytingar, útrýmingu dýra, hryllingssögur (sem sagt eldhress gaur) – og reyna, eða reyna ekki, að klæða bölsýnina í búning heilsteyptrar heimspekistefnu. En svartsýnn maður veit að það verkefni að rita bók um svartsýni er dauðadæmt frá fyrstu stundu. Bókin er skrifuð í stuttum brotum, sumar hugleiðinganna aðeins ein setning, og fyrir vikið hefur bókin yfir sér svipbragð dagbókar. Mér þykir afar vænt um að þessi bók sé til, og gríp reglulega niður í hana. Thacker vitnar í þekkta heimspekinga (Nietsche, Kierkegaard, Pascal) en notar einnig brot úr eigin hversdagslífi. Til að slá tóninn: Í einni dagbókarfærslunni situr hann á kaffihúsi með espressó og minnisbók. Loksins, loksins, friður til að hugsa! Nema hvað, um leið og rósemdarstundin mikla er runnin upp (sem hann hefur hlakkað til alla vikuna), tekur hann að harma að nú sé hún brátt á enda. Kaffið, svo sjóðheitt og hressandi, er strax tekið að kólna. Hann skrifar nokkrar línur í minnisbókina sína … og hvað svo? Þarf hann nú að skrifa fleiri línur? Og svo ennþá fleiri línur? Til hvers? Að lokum getur hann ekki hætt að hugsa um allt hitt sem hann þarf að gera – kaupa í matinn, svara tölvupóstum, sækja föt í hreinsun – og stundin dýrmæta er ónýt. Kaffið er orðið kalt, og í minnisbókinni bara eitthvert illa skrifað krot. Allt er vonlaust. Ef þér hugnast að lesa bók um svartsýni – og finnst slíkt jafnvel uppörvandi og skemmtilegt – þá mæli ég eindregið með þessari. (SN.)

 

Óskalisti Leslistans:

Michael Lewis, höfundur Moneyball, Big Short, Liars Poker og fleiri góðra bóka var að gefa út nýja bók í vikunni. Mér hafa fundist allar bækur sem ég hef lesið eftir hann skemmtilegar þannig að ég geri ráð fyrir að þessi verði góð. Í henni fjallar hann um stjórnarskiptin frá Obama til Trump og ýjar greinilega að því að ýmislegt hefði mátt betur fara. Hér er nýlegt viðtal við hann þar sem hann ræðir bókina.

Stjörnufjárfestirinn Howard Marks var að senda frá sér nýja bók á dögunum þar sem hann ræðir leyndardóminn á bak við fjárfestingarspeki sína. Bókin heitirMastering the Market Cycles og lofar góðu. Ég hef lengi fylgst með minnispunktum sem hann sendir reglulega út þar sem hann fjallar um viðskipti og fjárfestingar á mannamáli. Allir sem hafa áhuga á slíku ættu að gerast áskrifendur að fréttabréfinu hans.

Mér finnst ný bók Guðrúnar Nordal, Skiptidagar, virka mjög spennandi og er vís til að lesa hana. Hér er brot úr kynningartexta: „Skiptidagar er persónulegt ferðalag höfundar um sögu Íslands og bókmenntir allt frá landnámi til okkar daga. Þar er spurt hvaða lærdóm við getum dregið af frásögnum aldanna um okkur sjálf og hvernig við getum miðlað þeim á nýrri öld. Höfundur leggur áherslu á sögur kvenna á öllum tímum og sækir alltaf samanburð til nútímans til að sýna að sagan er ein og allt tengist.“

Robert Greene, höfundur 48 Laws of Power var að klára nýja bók sem er væntanleg í verslanir hvað úr hverju. Hún lítur út fyrir að vera mjög forvitnileg. (KF.)

Bækur, 28. september 2018

Ég hnuplaði forvitnilegri bók hjá foreldrum mínum um helgina. Sú heitir Kynlegir kvistir og er eftir Maxím Gorkí. Þetta eru brot úr dagbók hans í þýðingu Kjartans Ólafssonar og voru þau upphaflega gefin út árið 1925, en íslenska þýðingin sem ég fann var gefin út 1975. Ég hafði ekki hugmynd um við hverju ég átti að búast en þurfti ekki að lesa lengi til að verða hugfangin. Fyrir utan það hvað hún er listilega vel skrifuð þá eru frásagnirnar í bókinni magnaðar. Gorkí hefur greinilega verið ótrúlegur mannþekkjari, sem er náttúrulega skilyrði til að vera góður skáldsagnahöfundur. Mannlýsingarnar eru svo ljóslifandi að mér líður á köflum eins og ég sé að lesa um gamla fjölskyldumeðlimi. Mæli sérstaklega með kaflanum „Eldsvoðar“, þar sem hann rekur ýmsar óskyldar sögur um … eldsvoða. Bókina er að öllum líkindum ekki hægt að finna í bókaverslunum í þessari þýðingu en mér sýnist hún vera til á nokkrum bókasöfnum. (KF.)

Sarah Bakewell er ótrúlega flinkur höfundur, með lag á að matreiða flóknar hugmyndir með einföldum hætti ofan í fáfróða lesendur á borð við … mig. Mér fannst How to Live: A Life of Montaigne in One Question and Twenty Attempts at an Answer algjör himnasending, og svo hefur Bakewell víst einnig ritað bók um Jörund hundadagakonung, þann erkitöffara, verk sem til er í íslenskri þýðingu. Nú síðast las ég The Existensialist Café og bjóst af einhverjum ástæðum, þrátt fyrir dálæti mitt á Bakewell, við að verða fyrir vonbrigðum … sem gerðist ekki. Bakewell rekur með líflegum hætti ofan af franska (og þýska) existensíalismanum, útlistar hugmyndir (og stormasama ævi) Þjóðverjanna Husserl og Heidegger, og svo stíga erkitöffaranir Sartre og Simone de Beauvoir inn á sviðið og fleiri góðir spekingar. Þessi lestur endurvakti áhuga minn á tilvistarspekinni (mig minnir að ég hafi skrifað heimspekiritgerð um Tilvistarstefnan er mannúðarstefna í menntó) og svo er svo hressandi að verja tíma með listamönnum frá skeiði í mannkynssögunni þegar menn lifðu virkilega fyrir list sína og voru trúir hugsjónum sínum – Sartre fúlsaði til að mynda við Nóbelsverðlaununum og fjöldamörgum öðrum stöðluðum orðuveitingum sem eru svo svæfandi og leiðinlega alltumlykjandi í samtímanum. Mæli með!

Joshua Cohen sendir frá sér hnausþykkt ritgerðasafn, sem ber þann knýjandi  titil Attention; dispatches from a land of distraction. Þetta er svona doðrantur sem hentar vel til að bægja burt innbrotsþjófum eða ráða niðurlögum flóðhesta með. Ég kann vel að meta hvað hatur Cohens á samtímanum og lífsvenjum okkar nútildags er ódulið og glóandi; um leið er hann greinilega ljúf og hlý manneskja, samanber nýlegt viðtal við hann í Bookforum. Maður að mínu skapi. Í formálanum skilgreinir Cohen orðið „distracted“, sem þýðir meðal annars að vera beside oneself, og ekki langt að sækja sambærilegt orðalag á íslensku; að vera utan við sig. Truflunin leiðir til þess að við erum utangátta, ekki samferða sjálfum okkur, á flökti, ekki í flútti. Eyðum við dögunum í síauknum mæli í slíku ástandi? Þrátt fyrir fjöldamargar tímabærar og góðar vangaveltur heillar Cohen mig ekki sérstaklega sem penni, eins leiftrandi klár og iðinn sem hann greinilega er; ég stóð mig til dæmis ítrekað að því, meðan á lestri fyrstu ritgerðarinnar í safninu stóð, sem fjallar um hinstu daga bandarísks sirkús (allt er í heimi hér hverfult), að óska þess að samlandi hans heitinn, David Foster Wallace, héldi frekar um pennann, maðurinn sem masteraði þá vandmeðförnu kúnst að flétta í krafti hárrar greindarvísitölu saman poppvísunum, hámenningu og nostalgíu. Þó leynist þarna margt gott, til að mynda hugleiðingar Cohens um eina mergjuðustu útgefnu bók síðustu ára, enska þýðingu á Zibaldone eftir ítalska skáldið Leopardi, bók sem er gígantísk að vöxtum, skagar upp í 2.600 blaðsíður; það er tilvalin afþreying að seilast í á sunnudagseftirmiðdegi þegar maður liggur undir teppi með tebolla, eða þegar maður kemur heim klukkan fimm að morgni eftir sturluð partíhöld og þarfnast vitsmunalegs veruleikatékks sem kippir manni aftur niður á jörðina.

Haruki Murakami var í miklu uppáhaldi hjá mér á táningsárunum. Gott ef ég las ekki hverja einustu bók eftir hann og komst að þeirri niðurstöðu að hæst rysi snilldin í smásagnasöfnunum tveimur, The Elephant Vanishes og Blind Willow, Sleeping Woman. Nýjasta safn Murakamis á ensku nefnist Men Without Women, og ég verð að viðurkenna að mér finnst komin viss þreyta í karlinn. Allar kvenpersónurnar „eru ekki beinlínis fallegar“ og allir karlmennirnir, oftar en ekki sögumenn, „eru ákaflega venjulegir menn“. Bestu sögur Murakamis eru knappar og dularfullar, erfitt að skýra hvar galdurinn liggur, og svo skilja þær eftir sig sterkar og eftirminnilegar myndir í huga lesandans, líkt og um gott ljóð væri að ræða; prýðisdæmi væri „Birthday Girl“. Þessu er því miður sjaldan að heilsa hér. Sterkustu sögurnar fundust mér vera sú fyrsta, „Drive My Car“, og „Scheherazade“ (sem er skemmtilega skrítin), en hinar liðu hjá hægt og dauflega, og stundum engu líkara en að Murakami væri að herma eftir Murakami. Sama fannst mér gilda um síðustu útgefnu skáldsögu hans, sem til er á íslensku undir því viðeigandi heiti Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans, sú var hvorki fugl né fiskur í samanburði við fyrri verk þessa gamla vinar míns. En gott og vel, það er nú allt í lagi; öll sláum við stundum vindhögg. Nú er væntanleg enn ein skáldsagan, Killing Commendatore, í þetta skiptið verk af sömu stærðargráðu og Króníkan um upptrekkta fuglinn (í hið minnsta hvað lengd snertir), og mér finnst lýsingin á henni raunar lofa nokkuð góðu. (SN.)
 

Dæmi um bækur sem Leslistinn gefur vinum sínum í tækifærisgjafir:


Vinkona mín ritaði nýlega mér bréf og sagði að maðurinn hennar – sem er líka, merkilegt nokk, góður vinur minn – hefði að undanförnu ítrekað lýst yfir áhuga sínum á ljóðlist, en að hann væri ráðvilltur, svolítið eins og vegvilltur ferðalangur í skógi, hvarvetna blasa við stígar og slóðir, en hann veit ekki hvern skal velja. Og þar kæmi ég inn í myndina. Nefndur vinur ætti nefnilega bráðum afmæli og nú skyldu vinir hans, að uppástungu eiginkonunnar, færa honum vel valin ljóð að gjöf; heimagerðar upptökur, frumsamin kvæði, útprent af netinu, nú, eða bækur. Þetta leist mér vel á. Ég vissi líka strax hvaða bækur mig langaði að gefa honum. (Það takmarkaði möguleikana talsvert að títtnefndur vinur les ekki íslensku, Norðurlandamálin, frönsku, heldur aðeins lingua franca samtímans, ensku, og hrafl í japönsku (það er tungumál sem ég kann hins vegar því miður ekki)). Fyrst valdi ég Madness, Rack, and Honey eftir Mary Ruefle. Ég hef áður auglýst yfirburði þeirrar yndislegu bókar hér; að vísu er ekki um ljóðasafn að ræða, heldur safn ritgerða, sem flestar fjalla um ljóðlist, minnið, hlutskipti ljóðskáldsins, nauðsyn þess að fúlsa við vissum kröfum (og leiðindum) umheimsins – frábær bók sem lesa má aftur og aftur. Næst valdi ég bók eftir heimsmeistarann í ljóðlist, hinn sænska Tomas Tranströmer. Það er skáld sem heillar alla, hugsaði ég, jafnt djúpt sokkna ljóðalesendur sem nýgræðinga. Tranströmer er að auki eitt þeirra örfáu skálda sem „auðvelt“ er að þýða milli tungumála og menningarheima. Að því sögðu, þá finnast mér reyndar íslenskar þýðingar Njarðar P. Njarðvík taka flestum enskum þýðingum, sem ég hef lesið, fram. (Uppheimar gáfu um árið út Ljóð 1954-2004, bók sem ég hef lesið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.) Eftir því sem ég kemst næst er lunknasti enski þýðandinn einnig ljóðskáld sjálfur, Robert Bly, en þeir Tranströmer voru góðir félagar og skrifuðust löngum á – Airmail, safn bréfaskrifa þeirra, er skemmtileg lesning fyrir aðdáendur T.T. – og því hreppti ég The Half-Finished Heaven; selected poems úr hillu í The Strand. Rúsínan í pylsuendanum er svo safn sem spannar allan feril Wislöwu Szymborska, Poems; new and collected. Szymborska hefur talsvert verið þýdd á íslensku; gott dæmi væri Upphaf og endir, afar fínt þýðingasafn sem Geirlaugur Magnússon sendi frá sér árið 1999 (og þýddi þar beint úr pólsku). Þar er einmitt að finna sterkt ljóð um konurnar sem hreinsa til eftir stríðsbrölt karlanna;  pólska ljóðskáldið kallast skemmtilega á við íslenska skáldsystur sína sem orti um konurnar sem hleypa út vindlareyknum. Þetta eru sem sagt bækurnar þrjár … og bannað að segja vini mínum hvað er í pakkanum. (SN.)

Óskalisti Leslistans:

Þórdís Gísladóttir, ljóðskáld, þýðandi og barnabókahöfundur, gefur út sína fyrstu skáldsögu, Horfið ekki í ljósið. Þórdís er frábært ljóðskáld og þessi tíðindi fagnaðarefni.

Kamilla Einarsdóttir gefur einnig út sína fyrstu skáldsögu, Kópavogskróníku. Kamilla er fyndinn og hress penni og spennandi að sjá hvort það skili sér ekki út í skáldskapinn.

Guðrún Eva Mínervudóttir sendir frá sér smásagnasafn með þeim skemmtilega titli Ástin, Texas.

Og svo er komin út Saga tveggja borga eftir Charles Dickens, í þýðingu Þórdísar Bachmann. Leslistinn fagnar því – alltaf fáar bækur eftir Dickens til á íslensku.

Önnur stórtíðindi: Ellefti snertur af yfirsýn, splunkuný ljóðabók eftir Ísak Harðarson var að rata í bókabúðir. Hann á sér marga, og góða, aðdáendur. (SN.)

Ég minntist á það á dögunum að greiðslumiðlunarfyrirtækið Stripe hefur stofnað bókaútgáfu. Frábært framtak sem fleiri fyrirtæki mættu tileinka sér. Ég rak sérstaklega augun í tvær bækur úr þeirri útgáfu. Annars vegar bókina Stubborn Attachments eftir Tyler Cowen sem heldur úti uppáhalds blogginumínu og hins vegar bókina Dream Machine eftir M. Mitchell Waldrop, sem fjallar um frumkvöðul í tölvuheiminum sem ég hafði aldrei áður heyrt um. (KF.)

Síðast en ekki síst: These Truths eftir Jill Lepore. Þar rekur Lepore sögu Bandaríkjanna frá stofnun landsins – rúmlega fimm hundruð ára sögu. Ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur þar. Hún spjallaði nýlega við David Remnick, ritstjóra The New Yorker, um tilurð bókarinnar og nálgun sína gagnvart viðfangsefninu. Ég hlakka mikið til að festast á eyðieyju og fá tóm og næði til að sökkva mér í þessa, á meðan öldurnar gjálfra við tærnar, í fjöruborðinu. (SN.)

Bækur, 21. september 2018

Jæja. Stundum verður maður fyrir vonbrigðum með bækur. Ég las enska þýðingu á norskri skáldsögu eftir Geir Gulliksen, The Story of a Marriage. Utan heimalandsins er Gulliksen sjálfsagt þekktastur fyrir að vera ritstjóri Karl Ove Knausgaard; sjálfsagt skýra þau tengsl hvers vegna þessi skáldsaga kemur nú út á ensku, beint í kjölfarið á sigurgöngu KOK. Ef þú fílar að lesa tíðindalitlar frásagnir um norskt millistéttarfólk sem hugsar ekki um neitt annað en eigin starfsframa, kynlíf og íþróttaiðkun í frístundum … þá er þetta einmitt rétta bókin fyrir þig! Mér fannst hún byrja vel – sterkt hvernig höfundi tekst að fanga hlutskipti norræna heimavinnandi fyrirmyndarpabbans á svamli í óumflýjanlegri miðjumoðstilveru, á meðan hin framasækna eiginkona glansar á vinnustaðnum – en upp úr miðbikinu (þegar eiginkonan stofnar til ástarsambands með hörkulega skíðagarpinum) er eins og allan vind þverri úr seglunum og öfugsnúnar kynferðisfantasíur sögumannsins (sem eiga sjálfsagt að hrista upp upp í pjöttuðum norskum smáborgurum?) verða langdregnar og þreytandi. Og karakterarnir alltof narsissískir til að verða nokkurn tímann áhugaverðir. Jævel!

Hin umtalaða Fear, eftir Bob Woodward, hefði eins mátt nefna Gamlir hvítir valdamiklir karlar að rífast. Fyrir þá sem ekki vita, þá lýsir bókin fyrsta árinu í forsetatíð Trumps. Þetta er mikil nafnasúpa, sífellt dúkka upp nýir karakterar sem gegna hinum og þessum starfstitlum, og frásögnin stekkur út og suður – kjarnorkuvopn í Norður-Kóreu, stríð í Afganistan, fikt Rússa í kosningunum, Charlottesville – og nöfnin kunnuglegu streyma hjá: Bannon, Kushner, Ivanka Trump, Cohn, Comey … Stíll Woodward, sem er snarpur og að stóru leyti borinn upp af samtölum, leiðir til þess að frásögnin verður oft hálf teiknimyndaleg, útkoman sápuópera í Hvíta húsinu þar sem leikendurnir æra hverjir aðra og plottið er mjög á reiki. Trump hefur engan skýran verkefnalista, stýrist alfarið af eigin geðþótta. Uppljóstranir Woodward eru margar hverjar sláandi og færa heim sanninn um það sem maður vissi svo sem fyrir – að forsetinn er tilfinningalega óstabíll og algjörlega vanhæfur. Merkilegur minnisvarði um fáránlegt tímabil í sögu bandarísku þjóðarinnar og slær vonandi ekki tóninn fyrir það sem koma skal næstu árin. (SN.)

Því eldri sem ég verð, því íhaldssamari verð ég. Þetta er líklega nokkuð sem gildir um flesta en þessi þróun hefur samt komið sjálfum mér á óvart. En það er kannski vegna þessarar þróunar sem ég fór að hafa áhuga á írska hugsuðinum Edmund Burke og hef verið að lesa mér til um hann og verk hans síðustu vikur. Ég keypti á dögunum ævisögu hans eftir breska þingmanninn Jesse Norman. Sú ber titilinn Edmund Burke: The Visionary Who Invented Modern Politics. Þetta er alveg fantagóð bók – vel skrifuð og forvitnileg. Fyrri hluti hennar rekur ævi Burke en seinni hlutinn kafar í hugmyndafræði hans. Höfundurinn reynir að leggja mat á það hver arfleið Burke er og hvaða erindi hugmyndir hans eigi í dag. Mér finnst Burke aðdáunarverður karakter. Hann talaði bæði fyrir auknu frelsi Bandaríkjamanna fyrir Frelsisstríðið en varaði jafnframt við myrku hliðum frönsku byltingarinnar. Hann var greinilega rökfastur en varaði fólk á sama tíma við því að treysta um of á mátt rökhyggjunnar. Hér er ein góð lína sem kemst svolítið að kjarna hugmyndafræði hans: „Politics ought to be adjusted, not to human reasonings, but to human nature; of which the reason is but a part, and by no means the greatest part.“ (KF.)

 

Óskalisti Leslistans:

Dimma gefur út tvær bækur sem ég get ekki beðið eftir að komast yfir. Í fyrra lagi eru það nýjar ljóðaþýðingar eftir Magnús Sigurðsson, Að lesa ský – ljóð frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Í seinna lagi, splunkuný skáldsaga eftir Gyrði Elíasson, Sorgarmarsinn. Sú rekur lokahöggið á þríleik um einmana og útskúfaða listamenn (fyrri bækur eru Sandárbókin og Suðurglugginn). Gyrðir er einn fárra höfunda sem ég hef lesið hvert einasta útgefið pappírssnifsi eftir (þýðingar þar meðtaldar) og ég mæli auðvitað eindregið með því að áskrifendur Leslistans varpi öllum áformum sínum fyrir róða, geysist út úr húsi (helst með regnhlíf ef það tæki að rigna – aldrei of varlega farið) og tryggi sér eintak. Taki sér svo veikindafrí … og lesi bókina … tvisvar.

Komin er út íslensk þýðing á þekktri bók Naomi Klein um loftslagsmálin, Þetta breytir öllu. Þýðandi er Jóhannes Ólafsson. (Ég las hana á frummálinu á sínum tíma, en fagnaðarefni að hún sé nú fáanleg á íslensku.) Boðskapurinn er sá að við jarðarbúar þurfum endilega að fitja upp á nýju efnahagskerfi; það sem nú er við lýði sé komið langleiðina með að tortíma plánetunni okkar. Vúps.

Rúnar helgi Vignisson gefur út nýja skáldsögu með skemmtilegum titli – EftirbáturÚtgáfuhóf í Sjóminjasafninu á laugardaginn. Hlakka til að lesa þessa.

Loks bíð ég spenntur eftir að fá í hendurnar fyrsta sagnasafn Þórdísar Helgadóttur, Keisaramörgæsir. (SN.)

Ég er nánast fullviss um að ég kaupi mér prentað eintak af bókinni Big Debt Crises eftir fjárfestinn þekkta Ray Dalio. Hægt er að nálgast ókeypis eintak á pdf-formi hér. Síðasta bók hans, Principles, sló heldur betur í gegn og mér finnst þessi lofa góðu. Þetta er kannski mestmegnis miðað að fjármálanördum – en ég held að það sé öllum hollt að fræðast um skuldakrísur. (KF.)

Bækur, 14. september 2018

Mér barst í pósti falleg ljóðabók, nýútkomin: Smáa letrið eftir Lindu Vilhjálmsdóttur. Ég er búinn að lesa hana einu sinni, en það er erfitt að tjá sig af viti um ljóðabækur eftir aðeins einn lestur. Staldraði við margt sterkt og fallegt. Eflaust meira síðar.

Ríkisstjórnin kynnir nýja stefnu í loftslagsmálum og því er viðeigandi að tæpa á doðranti sem ég hef verið að lesa meðfram öðru, No Immediate Danger eftir hinn skemmtilega ýkta William T. Vollmann. (Seinni hluti verksins, No Good Alternative, kom út fyrir skemmstu.) Það sem er hressandi við þetta tröllaukna verk Vollmanns, sem fjallar um loftslagsbreytingar og (ó)meðvitað sjálfsmorð okkar mannkyns, er að hún boðar enga bjartsýni. Við erum búin að eyðileggja jörðina og ástandið mun bara versna og versna. Og hvað táknar það, siðferðilega, fyrir okkur sem dýrategund? Nathaniel Rich ritar um bókina í The Atlantic (og ég mæli með þeirri grein fyrir þá sem vilja fá fyllri lýsingu á verki Vollmanns): „Nearly every book about climate change that has been written for a general audience contains within it a message of hope, and often a prod toward action. Vollmann declares from the outset that he will not offer any solutions, because he does not believe any are possible[.]“  Uppörvandi orð, það. Ég segi ekki að ég sé sammála; á maður ekki alltaf að reyna sitt besta jafnvel gegn ofurefli og í vonlausum aðstæðum? Í greininni segir enn fremur: „The victims of these carbon ideologies are not only the species of fauna and flora that are going extinct, the fragile ecosystems that will collapse, and the future generations of humans who will have to subsist on insects. The victims are us—we who are now living and who deny, to varying extents, the degree of damage we are inflicting upon ourselves. Carbon Ideologies is a chronicle of self-harm.“ (SN.)
 

Óskalisti Leslistans:

Hið íslenska bókmenntafélag gefur út bók eftir nafna minn Sverri Jakobsson, Kristur. Saga hugmyndar. Sú finnst mér lofa afar góðu.

Bryndís Björgvinssdóttir er að gefa út bókina Krossgötur; álfatrú á Íslandi og áhrif álfabyggða og annarrar bannhelgi á landslag og umhverfi. Ég hef oft hugsað með mér að einmitt slíka bók vantaði tilfinnanlega í bókaskápinn minn. Og nú hefur Bryndís sem sagt skrifað hana. Takk. Svala Rögnvaldsdóttir skreyttir verkið ljósmyndum sínum. Væntanleg.

Partus forlag gefur út Hefnd grasflatarinnar, þýðingu Þórðar Sævars Jónssonar á The Revenge of the Lawn eftir Richard Brautigan, bók sem ég hef líklega lesið tólf sinnum. Fengur að því.

Helgi Ingólfssonar gefur út Kver um kerskni og heimsósóma og sameinar þar tvö helstu áhugasvið mín í einum titli.

Þá kom út þann 11. september bókin Fear: Trump in the White House eftir Bob Woodward. Mér skilst að fólk hafi flykkst í bókabúðir og myndað langar biðraðir. Ég er byrjaður að lesa hana og hún er lipur og grípandi. Og skelfileg auðvitað. Stephen Bannon er, ef marka má bókina, afar áhugaverð blanda af snillingi og hálfvita, einfeldningi og djúpum hugsuði. (SN.)

Hlustaði á hlaðvarp um bókina The Virtue of Nationalism eftir Yoram Hazony. Var skeptískur fyrirfram en er frekar spenntur fyrir henni eftir þáttinn.

Út er komin bókin Coddling of the American Mind eftir Jonathan Haidt. Held að þetta verði algjör negla.

Hér er umfjöllun um væntanlega bók um Ólaf Elíasson og list hans. Þetta er svona kaffiborðsbók (þoli þær ekki) en virðist vera virkilega forvitnileg – sérstaklega ef maður er jafn áhugasamur um list Ólafs og ég er. (KF.)

Bækur, 7. september 2018

Ég las í vikunni ævisögu Sam Walton, stofnanda Wal-Mart keðjunnar – Sam Walton: Made in America. Hún var að einhverju leyti alveg eins og ég hafði ímyndað mér og að öðru leyti nokkuð óvænt. Þetta er rosalega amerísk frásögn af dugnaði og eljusemi – um mann sem ólst upp í kreppunni miklu, byrjaði með ekkert og endaði sem ríkasti maður Bandaríkjanna. Ég lærði sitthvað um viðskipti, fyrirtækjarekstur og hugvitssemi við lestur þessarar bókar. Walton var alveg ekta frumkvöðull – bæði tilraunagjarn og skapandi en að sama skapi ótrúlega drífandi og fylginn sér. Það er merkilegt að hugsa til þess hvað uppgötvanir hans hafa haft mikil áhrif á daglegt líf allra vesturlandabúa. Þróun matvöruverslana til hins betra (lægra verð, meira úrval) og hins verra (glötuð upplifun, útrýming lítilla verslana) hefur að miklu leyti litast af tilkomu Wal-Mart keðjunnar. Maður veit svosum ekki hvað hefði orðið ef hún hefði ekki komið til sögunnar en það er alveg ljóst að Sam Walton er meðal áhrifamestu kaupsýslumanna síðustu aldar. (KF.)

Ég er hálfnaður með Forest Dark, skáldsögu eftir Nicole Krauss. Rakst á viðtal við hana í einhverju frönsku tímariti og fannst hún virka heillandi. Bókin hefst afar vel, en er virkilega brokkgeng, á víxl grípandi og langdregin. Rithöfundur hverfur frá fjölskyldu sinni og heldur til Ísrael í von um að geta haldið áfram með skáldsöguna sína. Auðkýfingur tekur á efri árum að gefa frá sér eigur sínar og helga sig andlegri leit. Skarast leiðir þeirra? Kraus minnir mig á marga höfunda: Paul Auster, Jonathan Safran Foer, Sebald, Kafka (sem kemur raunar heilmikið við sögu).

Og svo er það örstutt bók, Inadvertent (Why I Write) eftir Karl Ove Knausgaard. Bókin byggist á Windham-Campbell fyrirlestri Knausgaard í Yales og er annað innlegg í þeirri seríu; það fyrsta kom frá Patti Smith. Svo sem ekkert möst að renna í gegnum bók Knausgaard, einkum ekki ef maður hefur áður lesið hann (satt að segja er þetta litla kver svo stutt að ég las það í bókabúðinni áður en ég vissi af, án þess að það væri ætlunin). Í stuttu máli á Knausgaard bágt með að svara því hvers vegna hann skrifar – og hvað hið ritaða orð, skrifaður texti, sé nákvæmlega. (SN.)


Bækur sem við höfum ekki lesið:

Lífið: notkunarreglur
Ég á mér mikla uppáhaldsbók,
 Lífið: notkunarregur (fr. La vie mode d’emploi) eftir George Perec. Rétt er þó að taka fram að ég hef ekki lesið bókina. Eða svo öllu sé nú haldið til haga: Ég hef lesið fystu sextíu blaðsíðurnar. Og það um það bil sex sinnum. Mér líka þær alltaf jafnvel vel, þessar fyrstu sextíu blaðsíður – en lengra hef ég þó aldrei komist. Með smá hártogunum mætti þó segja að ég sé hálfnaður gegnum verkið – 6 x 60 blaðsíður gerir 300 blaðsíður af 641 (veltur að vísu á við hvaða útgáfu er miðað). Annars er saga að segja frá glímu minni við þennan doðrant. Þetta hafa verið mikil átök í áranna rás. Ég man hvar ég komst fyrst yfir eintak af Lífið: notkunarreglur. Það var í fornbókabúð einni í Hampstead Heath í London, sennilega haustið 2010. Ég rambaði niður í kjallara, drekkhlaðinn bókum, og þar leyndist ensk þýðing Johns Bellos, í alveg átakanlega ljótri útgáfu. Ég er hins vegar – líkt og glöggir áskrifendur Leslistans hafa veitt eftirtekt – maður andans en ekki yfirborðsins. Smekkleysi í kápuhönnun aftraði mér því ekki frá því að festa kaup á bókinni! Við búðarborðið bograði afgamall karl sem var svo illa tenntur að brosið á honum hefur verið greypt í minnið á mér æ síðan og verður sjálfsagt meðal þess síðasta sem líður fyrir hugskotssjónum mér rétt fyrir andlátið. Nóg um það. Síðdegis sama dag las ég fyrstu sextíu blaðsíðurnar af Lífið: notkunarreglur á kaffihúsi í Camden Town og þótti mikið til þeirra koma. En lengra komst ég ekki að sinni. (Lífsstíll minn á þessum tíma var afar kaótískur.) Líður nú og bíður … og á vafri mínu um Internetið einn daginn, mörgum mánuðum síðar, sé ég að út er komin uppfærð útgáfu af enskri þýðingu Johns Bellos á Lífið: notkunarreglur – með svona líka fáránlega töff kápu! Ekki get ég farið að lesa einhverja gamla og úrelta útgáfu, hugsaði ég með mér, og það með ljótri kápu. Vafningalaust pantaði ég mér því eintak af nýju gerðinni með flottu kápunni. Um leið og bókin barst með pósti settist ég skyldurækinn út á svalir og las fyrstu sextíu blaðsíðurnar. Mikið er þetta góð bók! hugsaði ég með mér. Því miður komst ég þó ekki lengra að sinni; ég var á leiðinni í ferðalag. Hvað ætti ég að lesa á ferðalaginu? Ekki Lífið: notkunarreglur, ég nenni ekki að burðast með slíkan hlunk í töskunni. En hvað ef ég les hana bara á Kyndlinum? hugsaði ég með mér. Jú: Ég kaupi rafútgáfuna. Í flugferðinni – mig minnir að ég hafi verið á leiðinni til Vínarborgar – les ég svo fyrstu sextíu blaðsíðurnar og fundust þær afar áhugaverðar og hugljómandi. En þegar ég kem til Vínarborgar tóku við önnur ævintýri … Ævintýri sem ekki eru við hæfi viðkvæmra og fínt stilltra lesenda Leslistans! Þær lýsingar bíða betri tíma. Til að gera langa sögu stutta þjóta nú hjá nokkur ár. Mér að óvörum er ég skyndilega búsettur í París. Ég er meira að segja tekinn að læra frönsku. Og mér verður, líkt og svo oft, ratað inn í bókabúð. Nei, blasir þá ekki við mér eintak af Lífið: notkunarreglur! Og það á frummálinu auðvitað. Nei, sveiattan, ekki get ég farið að lesa þetta masterpís á ensku, hugsa ég og ákveð að gera atlögu við frumtextann. Já, ekki spurning! Án þess að hika slengdi ég eintaki á búðarborðið og segi: „Fæ þessa, takk,“ hugdjarfur á svip. Síðdegis sama dag les ég svo fyrstu sextíu blaðsíðurnar af La vie mode d’emploi á kaffihúsi í Belleville og nú kom sér vel að hafa áður lesið þær þrisvar sinnum á ensku. Og það var engum blöðum um það að fletta: bókin er náttúrlega miklu betri á frönskunni! Þvílík bók! Ekki kemst ég þó lengra með lesturinn í þetta skiptið og einhvern veginn hafnar þriðja fysíska eintakið af verkinu við hlið ensku þýðinganna tveggja uppi í bókaskáp. (Glöggir lesendur ættu að hafa veitt því gaum að ég hafði nú fjárfest fjórum sinnum í verkinu.) Nokkrum árum síðar er ég svo staddur á Íslandi. Ég er í heimsókn hjá foreldrum mínum og rek augun í eintak af Lífið: notkunarreglur í einum af fjölmörgum bókaskápum pabba. Þetta er franska útgáfan. Stal sá gamli eintakinu mínu? hugsa ég. Útsmoginn er hann! Ég blaða hratt í gegnum fyrstu sextíu blaðsíðurnar (þvílík leikgleði, þvílík stílsnilld!) og inni svo föður minn eftir skýringum. Upp úr dúrnum kemur að bókin er hans prívat eign, pöntuð af Internetinu. Ólesin, að sjálfsögðu. En væri ekki auðveldara fyrir þig að lesa hana á ensku? spyr ég. Heyrðu, ég á hana líka á ensku, segir pabbi – og leiðir mig að öðrum bókaskáp. Þar leynist þá hin uppfærða útgáfa Johns Bellos (NB: ólesin) … og það í tveimur útgáfum! Áttu þrjú eintök af bókinni? spyr ég undrandi og bæti því við að ég eigi fjögur: þrjú fysísk og eitt raf. Já, æ, ég pantaði óvart tvö eintök af ensku gerðinni, segir pabbi og brosir afsakandi. Síðan bætir hann því við að hann eigi raunar ekki þrjú eintök. Hann leiðir mig að enn öðrum bókaskáp. Ég á fjögur, segir hann og bendir mér á enn eina útgáfuna – í þetta skiptið á dönsku! Livet – en brugsanvisning. Ég tylli mér með hana í hægindastólinn – helli upp á kaffi – og skauta gegnum fyrstu sextíu blaðsíðurnar. Æ, alltaf svo notalegt tungumál, danskan! Kannski ég ætti bara að lesa Lífið: notkunarreglur á dönsku? En lengra kemst ég því miður ekki að sinni: daginn eftir á ég bókað flug til Frakklands og ekki get ég farið að rogast með þennan doðrant með mér. Svo að ég hala henni niður á nýja Kyndilinn minn ef vera kynni að mig langaði að glugga í hana í flugvélinni … Það geri ég reyndar ekki. En þegar kem á ákvörðunarstað, í gamalt hús frá nítjándu öld í litla smábænum Tauves, í Mið-Frakklandi, hegg ég eftir því að á litlu borði í svefnherberginu mínu liggur eintak af Lífið: notkunarreglur. Fyrsta útgáfa, frá 1978! Ég kippi bókinni með mér út í garð. Veðrið er frábært. Sólskin og skafheiður himinn! Dóttir mín er sofnuð í barnavagninum. Aðrir húsgestir eru farnir út í göngutúr. Algjör kyrrð. Næði. Friður.
Og ég tek að lesa …
(SN.)