Bækur, 1. mars 2019

Las Keisaramörgæsir eftir Þórdísi Helgadóttur. Frábær, og ekki beint hægt að segja að þetta smásagnasafn beri þess merki að hér sé um fyrsta verk höfundar að ræða. Hér er spjall við Þórdísi sem gekk á sínum tíma í ráðuneyti Leslistans.

Las einnig Þorpið, nýjustu spennusögu eftir Ragnar Jónasson, annan ráðunautLeslistans. Þar leikur höfundur sér með ýmis þekkt minni: lítið afskekkt þorp þar sem búa kynlegir kvistir, drykkfellda aðalpersónu sem getur ekki stólað á minni sitt, dáin börn sem sækja á þá sem eftir lifa. Snaggaraleg og spennandi saga, skemmtilega skrítin á köflum – hæfilega ógnvekjandi, hæfilega kósý.

Og fyrst við erum komin inn á myrkar lendur glæpasögunnar: The London Times útnefndi Patriciu Highsmith einhvern tímann besta glæpasagnahöfund allra tíma. Ég er ekki frá því að ég sé að verða sammála því vali. (Er reyndar ekki sérlega víðlesinn í glæpabókmenntum, viðurkenni það.) Brenndi í gegnum The Two Faces of January. Frábær inngangsreitur fyrir þá sem ekkert hafa lesið eftir Highsmith. Hún er svo nösk í að láta venjulegt fólk rata í hræðilegar aðstæður – og svo versnar ástandið og versnar eftir því sem söguhetjurnar reyna að bæta fyrir mistök sín.

Að síðustu hef ég svo verið að rifja upp kynnin við Reading Like a Writer eftir Francine Prose, bók sem ég las í ritlistarnámi á sínum tíma. Þá fannst mér Prose einblína óhóflega á orðaval og strangtæknileg atriði, en nú, eftir margra ára ströggl við að setja sjálfur saman sögur, finnast mér innsæi hennar og þekking æðisleg, og eins lag hennar á að miðla fáránlega djúptkafandi pælingum um, tja, efnisgreinina sem listrænt verkfæri. (Nokkuð sem ég hef sjálfur pælt mikið í.) Frábær lesning fyrir þá sem skrifa en einnig hvern þann sem hefur áhuga á texta, frásagnarlist, lestri. Óhjákvæmilegt að hripa hjá sér ýmsar góðar ráðleggingar, til að mynda þessa beinu tilvitnun um hvers vegna maður ætti alltaf að hafa handritsdrög sín yfir upphátt, innlifaðri röddu (bls. 56):
„A poet once told me that he was reading a draft of a new poem aloud to himself when a thief broke into his Manhattan loft. Instantly surmising that he had entered the dwelling of a madman, the thief turned and ran without taking anything, and without harming the poet. So it may be that reading your work aloud will not only improve its quality but save your life in the process.“ (SN.)


Óskalistinn:

Út er komin ný ensk þýðing á bók eftir uppáhaldshöfundinn minn, Cesar Aira: Birthday. Lestu hana – og allt annað eftir Aira.

Þá er hin mexíkanska Valeria Luiselli að senda frá sér nýja skáldsögu, Lost Children Archive. Hún er mjög klár og áhugaverður höfundur. Hefur í síðustu tveimur verkum sínum tekið fyrir innflytjendastraum frá Mexíkó til Bandaríkjanna, og einkum beint sjónum sínum að hlut barna.

Þá finnst mér Nervous States: Democracy and the Decline of Reason virka spennandi. Sú hlaut lof í The New York Times. Ég vitna í höfundinn: „As we become more attuned to ‘real time’ events and media, we inevitably end up placing more trust in sensation and emotion than in evidence. Knowledge becomes more valued for its speed and impact than for its cold objectivity, and emotive falsehood often travels faster than fact.” 

Ný íslensk bókaútgáfa, Una útgáfuhús, stendur fyrir endurútgáfu á Undir fána lýðveldisins eftir Hallgrím Hallgrímsson. Opnunar- og útgáfuhóf í Mengi sjötta mars næstkomandi. Ég ætla að mæta þangað ef einhver vill finna mig í fjöru. (SN.)

Hef lengi lesið bloggið Marginal Revolution sem bandaríski hagfræðingurinn Tyler Cowen heldur uppi ásamt kollega sínum Alex Tabarok. Hef nokkrum sinnum vísað á greinar eftir þá tvo og minnst á bækur eftir Cowen. Ég var því mjög glaður að sjá að það er væntanleg ný bók eftir Cowen sem er lofsöngur til kapítalismans. (KF.)

Bækur, 22. febrúar 2019

Hendurnar eru kirkjur sem tilbiðja heiminn.

Flott lína! – en hver ætli hafi skrifað hana? Jú, skáldið er Naomi Shihab Nye, ljóðið nefnist „Í dagsins önn“ og þar lýsir skáldið einföldum hversdagsstörfum sem við fremjum með höndunum: 

Umslagið sem ég skrifa utan á 
svo nafnið svífur einsog skýhnoðri 
mitt á heiðum himni

Skýhnoðri – nokkrir slíkir skreyta einmitt kápuna á bókinni þaðan sem þetta er tekið. Þýðandi er Magnús Sigurðsson og bókin nefnist Að lesa ský, safn ljóðaþýðinga gefið út af Dimmu. Þarna leynast einnig nokkrar þýðingar á örtextum uppáhaldshöfundarins Lydiu Davis, svo sem þessi sem ber heitið „Hugmynd að stuttri heimildarmynd“:

Fulltrúar ólíkra matvælaframleiðenda 
reyna að opna eigin umbúðir.

Þetta er gott ljóðasafn sem fer vel í vasa. (SN.)

Ég var aðeins að róta í bókasafninu mínu og sá bók sem ég keypti fyrir einhverjum árum en hef aldrei lesið almennilega. Þetta er bókin The Tacit Dimension eftir ungverska vísindamanninn Michael Polanyi. Hún geymir er samansafn fyrirlestra um sérstakt hugðarefni hans – undirskilda þekkingu. Með undirskilinni þekkingu (e. tacit knowledge) á hann við, í grófum dráttum, þekkingu sem við getum ekki fært í orð. “We know more than we can tell” er hann þekktur fyrir að hafa sagt um þetta hugtak en í hans huga er það nauðsynlegt til að skilja vísindalega þekkingu og hvernig heimurinn virkar í raun og veru. Ég má til með að breiða út fagnaðarerindið um þennan skemmtilega hugsuð, enda veit ég ekki til þess að það hafi mikið verið skrifað um hann og verk hans á íslensku. (KF.)


Óskalistinn:


Sá að það er forvitnileg bók að koma út sem rekur sögu sprotafjármögnunar (e. venture capital (er til einhver almennileg íslensk þýðing á þessu hugtaki?)). Ég er alveg vís til að lesa hana.

Karl Ove Knausgaard er að gefa út bók sem hefur að geyma hugleiðingar hans um listmálarann og landa hans Edward Munch. Lítur út fyrir að vera eitthvað sem ég hef áhuga á. 

Fyrst ég minntist á John Williams (ekki gæinn sem samdi Star Wars lagið) hér fyrir ofan þá má ég til með að minnast á að það er væntanleg endurútgáfa á bók hans Nothing But the Night sem ég bíð spenntur eftir að komast í. (KF.)

Bækur, 15. febrúar 2019

Ég er nýkominn til Íslands og þar beið mín svo stór stafli af nýútkomnum íslenskum (jóla)bókum að ég veit ekki hvar ég að að byrja. Og hef því ekki byrjað enn!

Annars las ég í flugvélinni The Seven Storey Mountain eftir Thomas Merton, bók sem kom út árið 1948 og sló strax í gegn. Þetta er sjálfsævisaga höfundar, segir af eirðarlausum, hæfileikaríkum ungum manni sem ákveður, tuttugu og sex ára gamall, að ganga í kaþólskt klaustur. Vinsældir bókarinnar skýrast hugsanlega af útgáfutíma hennar. Hún kom út þremur árum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, fann fljótlega stóran lesendahóp í Bandaríkunum og síðar úti um allan heim; fólk var langþreytt eftir margra ára stríðsbrölt, í leit að lífstilgangi, andlegri næringu, von – og saga ungs og efnilegs manns, sem snýr baki við lífsgæðakapphlaupi og metorðum og sest að í klaustri, virðist hafa átt upp á pallborðið. Verkinu hefur stundum verið líkt við Játningar Ágústínusar kirkjuföður. Þetta er ágætis-inngangsreitur að verkum Merton, og rödd hans, svo yfirveguð og ljóðræn, er gott mótvægi við asa og at á gervihnattaöld. (SN.)


Orðsnilld vikunnar:

Um daginn rakst ég á nýyrði úr smiðju Hallgríms Helgasonar, flettiorka. Samanber enska orðið pageturner. Skömmu síðar rataði á fjörur mínar annað sambærilegt hugtak, jafnvel ennþá betra og er það Guðmundur Andri Thorsson sem ábyrgð á því: fletta. Það finnst mér alveg snilldarlegt orð og vil endilega að fólk taki það upp. „Það er góð flétta og því frábær fletta í þessari bók.“ (SN.)

Bækur, 8. febrúar 2019

Fyrirfram hefði ég talið að Vernon Subutex, eftir Virginie Despentes, væri ansi ólíkleg metsölubók. Titilpersónan er 46 ára gamall náungi sem áður rak vinsæla plötubúð skammt frá Bastillunni í Parísarborg. Nú er plötubúðin (vitaskuld) löngu farin á hausinn og okkar maður búinn að selja allt frá sér til að eiga í sig og á, plötusafnið, myndasögur, plaköt, boli, hljóðfæri, íbúðin hans er tóm. Gamall vinur hans, rokkstjarnan Alex Breach, kemur Vernon til bjargar þegar plötusalinn heillum horfni getur ekki lengur staðið straum af húsaleigunni. En svo deyr Alex sviplega – og þar með hefur Vernon ekki lengur aðgang að digrum sjóðum rokkstjörnunnar. Brátt knýja harðsvíraðir innheimtumenn dyra og henda Vernon öfugum út af heimili sínu, og í kjölfarið flakkar hann á milli sófa hjá gömlum vinum (deilir meðal annars rúmi með nokkrum skrautlegum konum) en endar svo á götunni. Heimilislaus í París. Sá kvittur kemst á kreik að hann hafi undir höndum verðmæta þriggja klukkustunda upptöku sem Alex gerði eitt sinn heima hjá honum, uppskrúfaður á heróini, og ýmsir útsendarar eru því gerðir út af örkinni til að hafa hendur í hári Vernons. Persónugalleríið í bókunum (þetta er þríleikur) er ansi skrautlegt: háværar klámstjörnur, forhertir kvikmyndaframleiðendur, útbrunnir rokkararar, ofbeldisfullir eiginmenn, móðursjúkir áhættufjárfestar. Þá skjóta persónur úr fyrri verkum Despentes upp kollinum, svo sem Hýenan, sem áður starfaði sem einkaspæjari en er nú „internet-böðull“, þ.e. mannorðsmorðingi sem ráða má til að sverta stafræna ímynd óvina sinna á netinu. Despentes tekur á ýmsum brýnum samtímaþemum – „stingur á kaunum“ – og notar rokktónlistarþemað meðal annars til að benda á hversu kaldrifjaður og hugsjónalaus helvítis samtíminn er. Rokkið var hugsjón, leið til að gefa skít í stofnanir og staðlaða samfélagsgerð – en nú eru ekki til neinir rokkarar lengur. Allt er ímynd, dauðhreinsað útlit undir stjórn geldra aumingja í jakkafötum. Þá veitir hún merkilega naska innsýn i líf og huga heimilisleysingja og dregur fram í dagsljósið hversu fáir staðir finnast núorðið í stórborg á borð við París þar sem auralaust fólk má halda til án þess að neyðast til að kaupa eitthvað. Ég gæti skrifað langa ritgerð um þessar bækur en þarf núna að steikja pönnukökur handa eiginkonu minni og dóttur. Ég er ekki heimilislaus, hvað þá rokkstjarna – ég er það sem á frönsku kallast „un bobo“, þ.e. bourgeois-bohème, bóhem af burgeisastétt sem syplar vandað kaffi og borðar pönnukökur með lífrænni sultu. Tvær fyrstu bækurnar eru komnar út á ensku fyrir þá sem ekki lesa frönsku. Þessu ætti að snara yfir á íslensku, heyrið þið það, útgefendur? Gott dót. Mæli með. (SN.)

Sverrir sendi mér skeyti fyrir nokkrum dögum síðan þar sem hann sagði mér frá því að hann væri byrjaður að lesa bókina Straw Dogs eftir John Gray, uppáhalds hugsuðinn minn. Ég er ekki frá því að þetta sé ein besta bók sem ég hef lesið. Ég las hana fyrst, rétt rúmlega tvítugur, og minnist þess að hafa fengið nístandi höfuðverk þegar ég kláraði hana. Hún gjörsamlega umbylti heimsmynd minni og fékk mig til að hugsa margt, sem ég tók áður sem sjálfsögðum hlut, algjörlega upp á nýtt. Ég ákvað þess vegna að byrja að lesa hana aftur í vikunni, líklega í sjötta skiptið, og þótt áhrifin séu ekki alveg jafn sterk og í fyrsta skiptið kann ég að meta hana með öðruvísi hætti í dag. Ég var kominn nokkra kafla inn í bókina þegar ég sá hann vitna í taóisma, en þá sérstaklega í eitt af þremur höfuðpaurum þeirrar heimspekistefnu, Chuang Tzu. Þá mundi ég allt í einu að ég hafði keypt Bók Chuang Tzu, fyrir slysni, þegar ég ætlaði mér að kaupa enska útgáfu af Bókinni um veginn, sem er þekktasta rit taóismans. Ég varð eiginlega hálf svekktur þegar hún barst síðan til mín og ég lét hana safna ryki á bókahillunni minni þar til núna. Skil satt að segja ekki hvernig ég gat látið þetta meistaraverk í friði í öll þessi ár! Hún er djúp, skemmtileg, fyndin, alvarleg og einhvern veginn ótrúleg á sama tíma. Þetta er samansafn frásagna þessa skemmtilega manns og lærisveina hans um allt milli himins og jarðar. Enda þótt hann hafi verið uppi nokkur hundruð árum fyrir Krist eru hugmyndir hans merkilega viðeigandi í nútímalífi. Gott dæmi er t.d. þessi dæmisaga úr bókinni (sem er ensk þýðing á frumtextanum):
„Someone offered Chuang Tzu a court post. Chuang Tzu answered the messenger. ‘Sir, have you ever seen a sacrificial ox? It is decked in fine garments and fed on fresh grass and beans. However, when it is led into the Great Temple, even though it most earnestly might wish to be a simple calf again, it’s now impossible´.” Gott að hafa þetta viskukorn hugfast næst þegar manni er boðin stöðuhækkun.


Óskalistinn:

Komin er út á ensku ný bók eftir Roberto Bolaño – ég rak fyrir tilviljun augun í hana í bókabúð og undraðist mjög: The Spirit of Science Fiction. Bolaño ku hafa skrifað hana 31 árs gamall (hún er fyrst gefin út núna) og er þarna um að ræða eins konar prótótýpu Villingslegu spæjaranna, einnar þekktustu bókar Bolaño. Hér er gömul grein sem ég skrifaði á sínum tíma um Bolaño í tilefni þess að Ófeigur Sigurðsson gerði okkur þann greiða að þýða Amulet, aðra stutta skáldsögu eftir hann.

Þóra Hjörleifsddótir sendir frá sér sína fyrstu skáldsögu, Kviku. Kemur út 13. Feb. Hlakka til að lesa hana.

Þá sendir fyrrum ráðunautur Leslistans, Þorvaldur Sigurbjörn Helgason, frá sér fyrstu ljóðabók sína, Gangverk. Sú kemur (held ég) í búðir 14. feb. (SN.)

Bækur, 1. febrúar 2019

Kláraði fimmtu og síðustu bókina um Tom Ripley eftir Patriciu Highsmith, Ripley Underwater. Hef ekki dottið svona hressilega inn í bókasyrpu, sem í heild er kölluð Ripliad, síðan ég las Elenu Ferrante-bækurnar á sínum tíma.

Í fyrstu bókinni, The Talented Mr. Ripley (1955), er Tom Ripley kynntur til leiks. Hann er ungur maður sem strögglar við að ná endum saman í New York, og stundar þar ýmsa smáglæpi. Dag einn víkur sér að honum auðugur maður á miðjum aldri, Herberg Greenleaf, og fer þess á leit við Ripley að hann ferðist til Mongibello, á Ítalíu, til að telja hinn óstýriláta son sinn, Dickie Greenleaf, á að snúa aftur til Bandaríkjanna og taka við fjölskyldurekstrinum. Ripley fellst á hugmyndina, slær upp vináttu með Dickie (sem var áður einungis málkunnugur honum) og endar á því [Spoiler Alert] að myrða hann í árabáti. Upphefst þá margslungin atburðarás, þar sem Ripley spinnur sífellt flóknari lygavef í kringum sig.

Næsta bók, Ripley Under Ground (1970), gerist sex árum síðar. Ripley lifir nú kyrrlátu lífi sem hverfist kringum fagrar listir og notalegar tómstundir í Belle Ombre, stórri villu í uppdiktuðu frönsku þorpi, Villeperce-sur-Seine. Ripley hefur komist í álnir, kvænst franskri konu af góðum ættum, Héloïse Plisson, og flækt sig í svikamyllu ásamt listfölsurum. Þessi er frábær og ekki síður sú þriðja, Ripley’s Game (1974), þar sem okkar maður lendir upp á kant við ítalska mafíósa (og kemur tveimur þeirra fyrir kattarnef með afar ógeðfelldum hætti).

Í fjórðu bókinni, The Boy Who Followed Ripley (1980), birtist 16 ára bandarískur drengur í Villeperce, kynnir sig fyrir Ripley sem „Billy“ og falast eftir vinnu hjá honum sem garðyrkjumaður. Brátt kemur á daginn að drengurinn er í raun Frank Pierson, sonur nýlátins bandarísks auðjöfurs. Drengurinn kveðst hafa myrt föður sinn: ýtt honum fram af kletti (faðirinn var í hjólastól). Þessi er eiginlega sú skrítnasta í syrpunni, og jafnframt sú lengsta. Þeir félagar verja til að mynda löngum stundum saman í litríkri Berlín fyrir fall múrsins, og oft er ýjað að hómóerótísku ástarbáli þeirra á milli. Síðasta bókin, áðurnefnd Ripley Underwater (1991), geymir svo einn háðulegasta dauðdaga sem ég hef orðið vitni að í skáldverki.

Frábærar bækur. Ripley er í raun prótótýpa vissrar tegundar af skáldpersónu sem farið hefur eins og eldur í sinu um vitund lesenda og kvikmyndaunnenda á síðustu árum; kaldrifjaður listunnandi, heillandi sósíópati. Hann er til dæmis, að mínu mati, forveri Patrick Bateman í American Psycho eftir Brett Easton Ellis (nema hvað hann er áhugaverðari persóna og Ripley-bækurnar betri, að Ellis ólöstuðum). En nóg um það. Við tekur tregans tómarúm, tilvera þrungin söknuði eftir Ripley og ævintýrum hans. Hvað les ég næst?

Jú: til dæmis bókmenntir um yfirvofandi heimsendi. Að vanda er ég varla kominn til Parísar þegar ég byrja að kaupa bækur, svona er ég bara, haldinn sjúkdómi, og reyni að lifa með því. Keypti til að mynda tvær, sem lengi hafa verið á listanum hjá mér, eftir Pablo Servigne og Raphaël Stevens: Comment tout peut s’effondrer (Hvernig allt getur hrunið) og Une autre fin du monde est possible; vivre l’effondrement (et pas seulement) (Önnur heimslok eru möguleg). Báðar bækurnar fjalla um hrun, ekki þó í þeim skilningi sem við Íslendingar leggjumst oftast í orðið, þ.e. hrun efnahagsins, heldur hrun í víðtækara samhengi: hrun náttúrunnar, hrun siðmenningarinnar, og hvernig við getum brugðist við því sem er að gerast á jörðinni; sjöttu útrýmingunni, fyrirsjáanlegum vatns- og matarskorti, hækkandi hitastigi, hækkandi yfirborði sjávar, aukinni tíðni náttúruhamfara og svo framvegis. Bækurnar, sem eru skrifaðar á auðskilinn og læsilegan hátt, án þess þó að reyna að höfða til treggáfaðra, gera ráð fyrir því að hrunið sé þegar hafið og eru þó ekki svartsýnislegar (heldur, að mati höfunda sinna, raunsæislegar), þær hafa að markmiði að opna augu okkar fyrir nýjum möguleikum á því hvernig haga má tilveru sinni í lífríki sem verður sífellt fátæklegra og einsleitara. (SN.)

Ég rambaði á bæði gagnlega og skemmtilega bók fyrir stuttu. Hún kallastSystems Bible og fjallar í stuttu máli um hvernig kerfi, bæði stór og smá, eru oftast dæmd til að klúðrast. Kerfi gegna mjög veigamiklu hlutverki í daglegu lífi okkar og það er í raun nokkuð forvitnilegt hversu lítið er fjallað um hvernig maður á að hugsa í kerfum og fara að því að hanna skilvirk kerfi. Bókin fjallar um kerfi út frá þeirri grundvallarreglu að þau virka jafnan frekar illa eða bara alls ekki. Því flóknari og stærri sem kerfi verða, því minni líkur eru á að þau nái að afreka það sem þeim var ætlað að gera. Það spillir ekki fyrir hvað bókin er læsileg og fyndin – ég fékk heilmikið út úr lestri hennar og er vís til að leita til hennar aftur síðar. Það er ekki oft sem ég kaupi bækur á Kindilinn og vil svo í kjölfarið kaupa hana á prentuðu formi, en ég er nokkuð viss um að ég geri það í þetta skiptið. (KF.)

 


Óskalistinn:

Ég er að manna mig upp í að ráðast á The Age of Surveillance Capitalism: The Fight for a Human Future at the New Frontier of Power eftir Shoshönu Zuboff. Virðist vera tímabær bók. Shoshana rabbaði um bókina við uppáhalds-útvarpsmanninn minn, Christopher Lydon, í Open Source, og setur þar fram naskar og sláandi samlíkingar: með iðnbyltingunni var náttúran gerð að söluvöru og henni að lokum fórnað með þeim katastrófísku afleiðingum sem nú eru teknar að dynja yfir, s.s. útdauða og minnkandi fjölbreytni í náttúrunni, og nú, í kjölfar stafrænu byltingarinnar, er hið sama uppi á teningnum nema það er ekki náttúrunni sem er fórnað heldur okkur mönnunum þegar reynslu okkar er jafnóðum breytt í upplýsingar og söluvöru. Segir Zuboff – sem er mun færari í að orða þessar hugsanir en ég.

Og þá yfir í meira uppörvandi fréttir: Út er komin bókin Hafið starfar í þögn minni: Þýðingar á ljóðum eftir Pablo Neruda. Ritstjóri er Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands. Ég sendi Hólmfríði skeyti og fræddist um útgáfuna:
„Ég hef um árabil verið að safna ljóðaþýðingum úr spænsku á íslensku,“svarar hún. „Mjög fljótlega kom í ljós að um umfangsmikið safn var að ræða og gagnabankinn fylltist hratt. Því kviknaði hugmyndin um að gefa safnið út í hlutum. Fyrst kom út bókin Gustur í djúpi nætur: Ljóðasaga Lorca á Íslandi(2007) – verk eftir 21 þýðanda –  og er þar að finna allar þýðingar sem komið hafa út á kvæmum spænska skáldsins og leikritahöfundarins Federico García Lorca á Íslandi. Í kjölfarið fylgdi Yfir saltan mar: Þýðingar á ljóðum eftir Jorge Luis Borges (2012) – 16 þýðendur alls. Og … nú síðast kom Hafið starfar í þögn minni: Þýðingar á ljóðum eftir Pablo Neruda (1018) – 18 þýðendur alls. Það eru Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfan sem standa fyrir útgáfunni, sem er tvímála. Ljóðin birtast fyrst á frummálinu og því næst þýðing þeirra. Þeim er raðað í tímaröð eftir útkomu á spænsku og í neðanmálsgreinum birtast upplýsingar um úr hvaða ljóðasafni þau koma og frá hvaða ári, ásamt útgáfuári þýðingarinnar og upplýsingum um þýðandann. Í bókunum er að finna inngang um ævi og rithöfundaferli skáldanna.
Hver bók er fjársjóður! Í ljósi þess að mörg ljóðanna komu út í blöðum og tímaritum, ekki öllum langlífum, eða sem viðbætur eða eftirmálar í ljóðasöfnum íslenskra ljóðskálda hafa þau ekki verið aðgengileg – hvað þá í heildarsafni. Markmið útgáfunnar er þess vegna tvíþætt, þ.e. annars vegar að halda á lofti þeirri frábæru vinnu sem íslenskir þýðendur hafa unnið og um leið að kynna umrædd stórskáld fyrir nýjum lesendum. Söfnin gagnast enn fremur sem ítar- og kennsluefni um skáldin og til rannsókna í bókmennta- og þýðingararfræði.“

Annað nýlegt safn, sem kitlar forvitni mína, kemur frá hinum enskumælandi heimi: The Penguin Book of Hell. Þar eru lesendur leiddir í gegnum þrjú þúsund ára hugmyndasögu Helvítis, hvorki meira né minna. (SN.)

Ég var að byrja að kíkja á og koma fyrir á náttborðinu mínu nýrri ævisögu Skúla fógeta sem nefnist Skúli fógeti: Faðir Reykjavíkur – Saga frá átjándu öld og er eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur. Ég veit lítið sem ekkert um Skúla og Íslandssöguna á þessu tímabili þannig að ég er býsna spenntur fyrir að kafa í hana. (KF.)

Bækur, 25. janúar 2019

Sverrir hefur talað um bókina Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson allavega þrisvar sinnum á þessum vettvangi. Ég hugleiddi hana ekkert sérstaklega fyrr en móðir mín lánaði mér hana um helgina og ég byrjaði aðeins að glugga í hana í kjölfarið. Svo einhvern veginn gat ég ekki hætt að lesa fyrr en ég hafði rokið í gegnum hana í einum rykk – sem gerist býsna sjaldan. Það situr í mér hvað Ragnari tekst að fjalla vel um tvö aðskilin fyrirbæri á ótrúlega vandaðan hátt – annars vegar andlát föður síns og hins vegar dvínandi mikilvægi bókarinnar fyrir samfélagið. Yfirleitt þegar menn ætla sér að gera tvennt í einu verður útkoman býsna misheppnuð (sporkurinn er t.d. bæði léleg skeið og lélegur gaffall) en honum tekst að skrifa um þetta í einni samfelldri og skemmtilegri frásögn. Bókin er virkilega falleg – bæði að innan og að utan – og skilur mjög mikið eftir sig. Ég þarf greinilega að fara að lesa meira af því sem Sverrir mælir með. (KF.)

Ég er orðinn háður Patriciu Highsmith. Spændi í gegnum þrjár skáldsögur eftir hana í vikunni: bækur #2, #3 og #4 í syrpunni um Tom Ripley. Ég segi það hreint út: Tom Ripley er nýja uppáhalds-skáldsagnapersónan mín. Hann skiptist á að fremja harðsvíruð morð, tárast yfir fegurð klassískrar tónlistar, lesa ódauðlegar bókmenntir, neyta lostætrar fæðu, ljúga að konunni sinni og sinna garðrækt. Er það ekki draumalífið? Leikar berast vítt og breitt um Evrópu: sveitir Frakklands, París, Hamborg, Róm, Berlín… Að mínu viti er Patricia Highsmith mun merkilegri höfundur en margir samtímamanna hennar og samlanda frá Bandaríkjunum sem nutu meiri hylli og voru í tísku: Philip Roth, John Updike. Frábærar spennusögur sem eru í senn rökrænar og órökrænar – eins og ívið óþægilegir draumar, sem maður vill ekki vakna upp af. 

Juan Rulfo (1917 – 1986) var einn virtasti rithöfundur Mexíkó á tuttugustu öld. Venjulega léti ég það stoppa mig – ég er með ofnæmi fyrir mjög virtum rithöfundum – en ég hafði lesið annað þekktasta verk hans, nóvelluna ágætu Pedro Páramo (1955), og líkað vel, og greip því í vikunni með mér þýðingu á hinu meginverki hans, The Plain in Flames (El Ilano en Ilamas, 1953), í enskri bókabúð í Oaxaca. Smásögur, afar knappar. Þungar. Ég les eina eða tvær, verð að leggja bókina frá mér, þamba helst áfengan drykk. Carlos Fuentes, Julio Cortazar, allir þessir karlar, voru eins konar lærisveinar Rulfo, dáðu hann og dýrkuðu, og Borges lofaði hann í hástert. Maðurinn sendi ekki frá sér nema um 300 blaðsíður yfir ævina. Góður, en – líkt og svo margt í mexíkóskum bókmenntum – aðeins of þunglyndislegur fyrir mig.

Annar stór höfundur, sem ég hef verið að glugga í, er Machado de Assis (1839 – 1908), einn virtasti höfundur Brasilíu. Ó, allir þessir virtu spekingar! Nýlega kom út doðrantur með enskum þýðingum Margaret Jull Costa á smásögum hans. Í formála er honum líkt við Chekhov – ég er ekki enn tilbúinn að setja hann í slíkan þungavigtarflokk. (Það jafnast reyndar enginn á við Chekhov.) Segi frekar: Ef Woody Allen hefði búið í Rio de Janeiro á seinni hluta 19. aldar hefði hann kannski skrifað sögur í þessum dúr. Bókin er falleg. „Eiguleg“, eins og stundum er sagt. Það mun taka mig dágóðan tíma að renna í gegnum allar sögurnar – ef ég geri það mun ég skýra samviskusamlega frá því hér. En nú þarf ég að ná flugvél til Parísar! Sjáumst í næstu viku. (SN.)

Bækur, 18. janúar 2019

Eftir því sem ég verð eldri skil ég betur og betur að sumt fólk hænist meira að burknum en öðrum manneskjum. Í Oaxaca Journal lýsir Oliver Sacks ævintýrum sínum með bandaríska burkna-samfélaginu (e. American Fern Society) í Oaxaca-héraði Mexíkó. Ég viðurkenni fúslega að ég er enginn sérstakur áhugamaður um burkna (hverjum líkar samt ekki vel við burkna?) en las bókina vegna þess að ég er aðdáandi Sacks og á ferðalagi um Oaxaca. Og viti menn, ég lærði ýmislegt um burkna (og Oaxaca).

Ennþá betri fannst mér Insomniac City eftir Bill Hayes, en þar kemur áðurnefndur Oliver Sacks einnig við sögu; þeir Hayes voru elskendur síðustu árin sem Sacks lifði. Andvökuborgin er alveg sín eigin bók, ólík öðru sem ég hef áður lesið. Hún fjallar einkum um sorg og ástvinamissi; fyrri elskhugi Hayes til margra ára deyr óvænt og í kjölfarið flyst Hayes frá San Fransisco til New York-borgar, þar sem hann verður ástfanginn á nýjan leik – annars vegar af borginni, hins vegar af Sacks. Fyndin, falleg, mannleg, einlæg, ljóðræn – og frábær lýsing á Sacks, þeim óendanlega heillandi og skrítna manni. 

Hér er brot úr kaflanum „Sumarið þegar Michael Jackson dó“ í fúskaralegri þýðingu minni:

„Ég man að O hafði enga hugmynd um hver Michael Jackson var. „Hvað er Michael Jackson?” spurði hann mig daginn eftir að fregnirnar [af andláti MJ] bárust – ekki hver heldur hvað – sem var í senn afar skrítin og um leið fullkomlega viðeigandi leið til að orða það, í ljósi þess hvernig söngvarinn hafði smátt og smátt breyst úr mannveru yfir í furðufyrirbæri. O kvaðst ekki hafa neina þekkingu á poppmenningu eftir árið 1955, og það voru engar ýkjur. Hann vissi ekkert um popptónlistt, horfði varla nokkurn tímann á annað sjónvarpsefni en fréttir, hafði ekki gaman af samtímaskáldskap og nákvæmlega engan áhuga á stórstjörnum eða frægð (þar með talið sinni eigin). Hann átti ekki tölvu, notaði aldrei tölvupóst eða sendi textaskilaboð; hann skrifaði með sjálfblekungi. Þetta voru alls engir stælar í honum; hann stærði sig ekki af þessu; þvert á móti var sú vissa hans að hann væri ekki alveg „með á nótunum“ vatn á myllu hinnar miklu hlédrægni hans. En smekkur hans var fastmótaður, venjur hans og hegðun – allt var það óumbreytanlegt, og tilheyrði ekki okkar tíma.“

Einmitt svona langar mig að verða þegar ég verð stór!

Andvökuborgin er falleg hugleiðing um söknuð og sorg, og um leið óður til lífsins. Bókina prýða ljósmyndir höfundar af mannlífi New York-borgar, og klæða textann afar vel. Mæli með. (SN.)

Af einhverjum ástæðum keypti ég bókina Stoner eftir bandaríska rithöfundinn John Williams (ekki kvikmyndatónskáldið) fyrir einhverjum árum og hef síðan geymt hana í bókahillunni minni. Ég byrjaði að lesa hana í vikunni og finnst hún rosaleg – þótt söguþráður hennar sé mjög óspennandi við fyrstu sýn. Bókin fjallar um ævi bókmenntaprófessorsins William Stoner, misheppnað hjónaband hans og akademíska vinnustaðapólitík. Ég furða mig enn á því að ég hafi keypt þessa bók – þetta er svakalega óáhugaverður söguþráður. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því almennilega af hverju hún er jafn góð og raun ber vitni. Það getur verið vegna þess að hún kafar svo djúpt í persónu þessa brjóstumkennanlega manns og kannski vegna þess að hún er líka einhvers konar ástaróður til bókmennta. Ég get í hið minnsta ekki fest fingur á það, en ég hvet alla til að lesa hana. (KF.)