Bækur, 25. janúar 2019

Sverrir hefur talað um bókina Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson allavega þrisvar sinnum á þessum vettvangi. Ég hugleiddi hana ekkert sérstaklega fyrr en móðir mín lánaði mér hana um helgina og ég byrjaði aðeins að glugga í hana í kjölfarið. Svo einhvern veginn gat ég ekki hætt að lesa fyrr en ég hafði rokið í gegnum hana í einum rykk – sem gerist býsna sjaldan. Það situr í mér hvað Ragnari tekst að fjalla vel um tvö aðskilin fyrirbæri á ótrúlega vandaðan hátt – annars vegar andlát föður síns og hins vegar dvínandi mikilvægi bókarinnar fyrir samfélagið. Yfirleitt þegar menn ætla sér að gera tvennt í einu verður útkoman býsna misheppnuð (sporkurinn er t.d. bæði léleg skeið og lélegur gaffall) en honum tekst að skrifa um þetta í einni samfelldri og skemmtilegri frásögn. Bókin er virkilega falleg – bæði að innan og að utan – og skilur mjög mikið eftir sig. Ég þarf greinilega að fara að lesa meira af því sem Sverrir mælir með. (KF.)

Ég er orðinn háður Patriciu Highsmith. Spændi í gegnum þrjár skáldsögur eftir hana í vikunni: bækur #2, #3 og #4 í syrpunni um Tom Ripley. Ég segi það hreint út: Tom Ripley er nýja uppáhalds-skáldsagnapersónan mín. Hann skiptist á að fremja harðsvíruð morð, tárast yfir fegurð klassískrar tónlistar, lesa ódauðlegar bókmenntir, neyta lostætrar fæðu, ljúga að konunni sinni og sinna garðrækt. Er það ekki draumalífið? Leikar berast vítt og breitt um Evrópu: sveitir Frakklands, París, Hamborg, Róm, Berlín… Að mínu viti er Patricia Highsmith mun merkilegri höfundur en margir samtímamanna hennar og samlanda frá Bandaríkjunum sem nutu meiri hylli og voru í tísku: Philip Roth, John Updike. Frábærar spennusögur sem eru í senn rökrænar og órökrænar – eins og ívið óþægilegir draumar, sem maður vill ekki vakna upp af. 

Juan Rulfo (1917 – 1986) var einn virtasti rithöfundur Mexíkó á tuttugustu öld. Venjulega léti ég það stoppa mig – ég er með ofnæmi fyrir mjög virtum rithöfundum – en ég hafði lesið annað þekktasta verk hans, nóvelluna ágætu Pedro Páramo (1955), og líkað vel, og greip því í vikunni með mér þýðingu á hinu meginverki hans, The Plain in Flames (El Ilano en Ilamas, 1953), í enskri bókabúð í Oaxaca. Smásögur, afar knappar. Þungar. Ég les eina eða tvær, verð að leggja bókina frá mér, þamba helst áfengan drykk. Carlos Fuentes, Julio Cortazar, allir þessir karlar, voru eins konar lærisveinar Rulfo, dáðu hann og dýrkuðu, og Borges lofaði hann í hástert. Maðurinn sendi ekki frá sér nema um 300 blaðsíður yfir ævina. Góður, en – líkt og svo margt í mexíkóskum bókmenntum – aðeins of þunglyndislegur fyrir mig.

Annar stór höfundur, sem ég hef verið að glugga í, er Machado de Assis (1839 – 1908), einn virtasti höfundur Brasilíu. Ó, allir þessir virtu spekingar! Nýlega kom út doðrantur með enskum þýðingum Margaret Jull Costa á smásögum hans. Í formála er honum líkt við Chekhov – ég er ekki enn tilbúinn að setja hann í slíkan þungavigtarflokk. (Það jafnast reyndar enginn á við Chekhov.) Segi frekar: Ef Woody Allen hefði búið í Rio de Janeiro á seinni hluta 19. aldar hefði hann kannski skrifað sögur í þessum dúr. Bókin er falleg. „Eiguleg“, eins og stundum er sagt. Það mun taka mig dágóðan tíma að renna í gegnum allar sögurnar – ef ég geri það mun ég skýra samviskusamlega frá því hér. En nú þarf ég að ná flugvél til Parísar! Sjáumst í næstu viku. (SN.)

Bækur, 18. janúar 2019

Eftir því sem ég verð eldri skil ég betur og betur að sumt fólk hænist meira að burknum en öðrum manneskjum. Í Oaxaca Journal lýsir Oliver Sacks ævintýrum sínum með bandaríska burkna-samfélaginu (e. American Fern Society) í Oaxaca-héraði Mexíkó. Ég viðurkenni fúslega að ég er enginn sérstakur áhugamaður um burkna (hverjum líkar samt ekki vel við burkna?) en las bókina vegna þess að ég er aðdáandi Sacks og á ferðalagi um Oaxaca. Og viti menn, ég lærði ýmislegt um burkna (og Oaxaca).

Ennþá betri fannst mér Insomniac City eftir Bill Hayes, en þar kemur áðurnefndur Oliver Sacks einnig við sögu; þeir Hayes voru elskendur síðustu árin sem Sacks lifði. Andvökuborgin er alveg sín eigin bók, ólík öðru sem ég hef áður lesið. Hún fjallar einkum um sorg og ástvinamissi; fyrri elskhugi Hayes til margra ára deyr óvænt og í kjölfarið flyst Hayes frá San Fransisco til New York-borgar, þar sem hann verður ástfanginn á nýjan leik – annars vegar af borginni, hins vegar af Sacks. Fyndin, falleg, mannleg, einlæg, ljóðræn – og frábær lýsing á Sacks, þeim óendanlega heillandi og skrítna manni. 

Hér er brot úr kaflanum „Sumarið þegar Michael Jackson dó“ í fúskaralegri þýðingu minni:

„Ég man að O hafði enga hugmynd um hver Michael Jackson var. „Hvað er Michael Jackson?” spurði hann mig daginn eftir að fregnirnar [af andláti MJ] bárust – ekki hver heldur hvað – sem var í senn afar skrítin og um leið fullkomlega viðeigandi leið til að orða það, í ljósi þess hvernig söngvarinn hafði smátt og smátt breyst úr mannveru yfir í furðufyrirbæri. O kvaðst ekki hafa neina þekkingu á poppmenningu eftir árið 1955, og það voru engar ýkjur. Hann vissi ekkert um popptónlistt, horfði varla nokkurn tímann á annað sjónvarpsefni en fréttir, hafði ekki gaman af samtímaskáldskap og nákvæmlega engan áhuga á stórstjörnum eða frægð (þar með talið sinni eigin). Hann átti ekki tölvu, notaði aldrei tölvupóst eða sendi textaskilaboð; hann skrifaði með sjálfblekungi. Þetta voru alls engir stælar í honum; hann stærði sig ekki af þessu; þvert á móti var sú vissa hans að hann væri ekki alveg „með á nótunum“ vatn á myllu hinnar miklu hlédrægni hans. En smekkur hans var fastmótaður, venjur hans og hegðun – allt var það óumbreytanlegt, og tilheyrði ekki okkar tíma.“

Einmitt svona langar mig að verða þegar ég verð stór!

Andvökuborgin er falleg hugleiðing um söknuð og sorg, og um leið óður til lífsins. Bókina prýða ljósmyndir höfundar af mannlífi New York-borgar, og klæða textann afar vel. Mæli með. (SN.)

Af einhverjum ástæðum keypti ég bókina Stoner eftir bandaríska rithöfundinn John Williams (ekki kvikmyndatónskáldið) fyrir einhverjum árum og hef síðan geymt hana í bókahillunni minni. Ég byrjaði að lesa hana í vikunni og finnst hún rosaleg – þótt söguþráður hennar sé mjög óspennandi við fyrstu sýn. Bókin fjallar um ævi bókmenntaprófessorsins William Stoner, misheppnað hjónaband hans og akademíska vinnustaðapólitík. Ég furða mig enn á því að ég hafi keypt þessa bók – þetta er svakalega óáhugaverður söguþráður. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því almennilega af hverju hún er jafn góð og raun ber vitni. Það getur verið vegna þess að hún kafar svo djúpt í persónu þessa brjóstumkennanlega manns og kannski vegna þess að hún er líka einhvers konar ástaróður til bókmennta. Ég get í hið minnsta ekki fest fingur á það, en ég hvet alla til að lesa hana. (KF.)

Bækur, 11. janúar 2019

Þann 23. júní 1802 gerði prússneski náttúruvísindamaðurinn og landkönnuðurinn Alexander von Humboldt sér lítið fyrir og kleif ásamt fylgdarliði sínu upp Chimborazo, óvirkt eldfjall sem tilheyrir Andes-fjallgarðinum og var á þeim tíma talið hæsta fjall í heimi, tæpur sex og hálfur kílómetri. Aldrei fyrr hafði nokkur lifandi maður komist svo hátt til himna, andað að sér svo þunnu lofti. „Sem hann stóð á tindi veraldarinnar og virti fyrir sér fjallgarðinn sem teygði úr sér fyrir neðan hann, tók Humboldt að líta heiminn nýjum augum. Hann skildi að jörðin er ein stór lífvera þar sem allt tengist innbyrðis, og sló þar með tóninn fyrir nýja náttúrusýn sem mótar enn þann dag í dag hvernig við skynjum hinn náttúrulega heim.“

Þessi orð, hér í frekar lélegri þýðingu minni, eru tekin úr The Invention of Nature: Alexander von Humboldt’s New World eftir Andreu Wulf. Humboldt var af samferðamönnum sínum lýst sem frægasta manni í heimi á eftir Napóleon. Hann fæddist árið 1769 inn í prússneska aristókratafjölskyldu, en gaf forréttindalífið upp á bátinn og lagðist í flakk til að læra hvernig heimurinn virkaði. Ungur að árum hélt hann í fimm ára rannsóknarleiðangur um Suður-Ameríku og lenti oft í bráðum lífsháska, en uppskar fyrir vikið dýpri skilning á náttúrunni og í kaupbæti frægð um víða veröld. Hann var í miðpunkti vísindastarfs síns tíma, mikilsvirkur bréfritari og afkastamikill höfundur, og leit svo á að þekking ætti að vera öllum aðgengileg. Bækur Humboldts komu út á fjölmörgum tungumálum og voru svo vinsælar að ákafir lesendur mútuðu bóksölum til að tryggja sér fyrstu eintök; engu að síður dó Humboldt bláfátækur maður. Hann var annálaður fyrir þekkingu sína og vísindaleg vinnubrögð, en hélst þó sjaldan lengi við í vinnustofu sinni innan um bækur, vildi heldur þeysast um fjöll og firnindi, láta reyna á líkamlega getu sína. Vitaskuld mætti greina og analýsera fyrirbæri í náttúrunni, sagði hann, en ekki væri þó síður mikilvægt að kynnast náttúrunni milliliðalaust með skynfærum sínum og tilfinningum. Markmið Humboldts var að vekja með fólki ást á náttúrunni – nokkuð sem ekki er vanþörf á í samtímanum.  

Humboldt kemur einnig við sögu í einni af betri skáldsögum úr penna mikils eftirlætishöfundar hjá mér, hins argentíska César Aira: An Episode in the Life of a Landscape Painter. Þar sendir Alexander von Humboldt landslagsmálarann Johann Moritz Rugendas (1802-1858) í leiðangur um Suður-Ameríku, tilgangurinn að fanga stórbrotið landslagið þar á mynd. Á ferðum sínum um Argentínu verður Rugendas fyrir eldingu og kemst við illan leik aftur til byggða; slysið gerbreytir því hvernig hann man landslagið sem hann hefur verið að skoða. Aira hrærir saman sagnfræði, heimspeki og skáldskap í afar sérkennilegri, ljóðrænni og eftirminnilegri bók. (SN.)

Í vikunni hlustaði ég á magnað viðtal við stríðsfréttaritarann og rithöfundinn Sebastian Junger í uppáhalds hlaðvarpinu mínu, Econtalk. Viðtalið fjallaði um stutta bók sem hann hafði skrifað um áfallastreituröskun (e. PTSD) sem hann þjáðist sjálfur af eftir að hafa skrifað um stríðið í Afganistan. Bókin, sem heitir Tribe: On Homecoming and Belonging, fjallar samt í raun og veru um hvað nútímasamfélag hefur einangrað fólk í hinum vestræna heimi og hvað það er hægt að rekja mörg vandamál til þessarar einangrunar. Ég ákvað í kjölfarið að lesa þessa bók og var býsna hrifinn af henni. Að mörgu leyti kallast hún á við bjartsýnispostulana sem ég nefndi í hlekkjahlutanum hér að ofan. Á alla mögulega mælikvarða virðist heimurinn vera snúast til betri vegar, við erum ríkari, þjáumst af færri sjúkdómum og ofbeldi virðist vera á undanhaldi. Þrátt fyrir þetta erum við þunglyndari og sjálfsmorðstíðni hefur aukist. Mér finnst þessi bók komast ansi nærri því að útskýra þessa skrítnu þversögn. (KF.)

Ég er að fara í gegnum skeið þar sem ég fæ ekki nóg af verkum Patriciu Highsmith, þess fáláta sénís. Í ævisögu um hana, Beautiful Shadow: A Life of Patricia Highsmith eftir Andrew Wilson, er lýst atviki sem varð henni efniviður í skáldsögu um lesbískar ástir, The Price of Salt (1952, undir dulnefni), endurútgefinni árið 1990 undir réttu nafni höfundarins, sem Carol (nýlega var gerð eftir bókinni ágæt kvikmynd). Highsmith starfaði um skeið sem sölustúlka í Bloomingdale’s, og í desember 1948 kemur inn í búðina heillandi og fáguð ljóshærð kona í minkapels og kaupir handa dóttur sinni snotra dúkku, skráir niður heimsendingarupplýsingar. Highsmith fellur kylliflöt fyrir konunni við fyrstu sýn, og einu og hálfu ári síðar, að sumarlagi 1950, tekur hún meira að segja lest frá Penn Station, í New York, að heimili konunnar í New Jersey, þar sem hún sér henni aftur bregða fyrir. Í kjölfarið ritar höfundurinn ungi í dagbók sína: „Það var einkennilegt, en í gær fannst mér ég vera fær um að fremja morð, þegar ég fór að sjá konuna sem fangaði næstum hjarta mitt þegar ég sá henni bregða fyrir í desember, 1948. Morð felur í sér eins konar ástaratlot, yfirtöku. (Nær morðinginn ekki, í eitt augnablik, fullkominni og ástríðufullri athygli viðfangs síns?) Að þrífa skyndilega til hennar, hendur mínar grípa um hálsinn (sem ég þrái í raun að kyssa) og það er eins og ég sé að taka ljósmynd, geri konuna samstundis nákalda og stjarfa sem styttu.“

Þessi hugmynd – að morð sé náskylt ástaratlotum og feli yfir sér eins konar yfirtöku á líkama og sál fórnarlambsins – gengur eins og rauður þráður í gegnum eitt þekktasta verk Highsmith, skáldsöguna The Talented Mr. Ripley. Hinn ungi og munaðarlausi Tom Ripley myrðir ungan og efnaðan félaga sinn og (til skamms tíma) sambýling, Dickie, sem nýtur fjárstuðnings úr foreldrahúsum og hefur sest að á Ítalíu, þar sem hann dundar sér við að mála landslagsmyndir, án þess þó að státa af sérstökum hæfileikum á því sviði, og í framhaldinu tekur Ripley svo yfir persónu Dickeys, bregður sér í gervi hins látna og teymir alla á asnaeyrum. Fáir eru jafn flinkir í að magna upp draumkennda ógn, ávanabindandi spennu og Highsmith, og ég mæli sannarlega með þessari skáldsögu. Bækurnar um Tom Ripley eru samtals fimm talsins: lestu þær allar. (SN.)


 

Óskalisti Leslistans:

  

Ég sá nýlega mælt með bókinni Mannlíf milli húsa eftir danska arkitektinn Jan Gehl í nýrri þýðingu Steinunnar Stefánsdóttur. Lítur út fyrir að vera forvitnileg umfjöllun um arkitektúr og borgarskipulag sem mér finnst líklegt að ég lesi. (KF.)

Og svo er komin út ný skáldsaga eftir vitsmunaprakkarann Michel Houllebecq: Sérotonine. Hlakka til að lesa hana. (SN.)

 

Bækur, 4. janúar 2019

Ég naut lífsins á ströndu við Kyrrahafið yfir jól og áramót, og las nokkrar bækur á milli þess sem ég svamlaði í söltum sjó og át entomatadas.

En finir avec Eddy Bellegueule eftir Édouard Louis lýsir uppvexti höfundar í Hallencourt í Norður-Frakklandi. (Á ensku: The End of Eddy.) Bókin geymir sárar lýsingar á fátækt, ofbeldi, grimmd og angist, og vakti mikla athygli þegar hún kom út í Frakklandi, seldist í hundruðum þúsunda eintaka og hlaut prís og lof. Við vitum hins vegar, kæri lesandi, að fjölmiðlafár og hrós gagnrýnanda er ekki endilega ávísun á gott bókmenntaverk, og þó að umrædd bók sé vissulega lipurlega skrifuð fannst mér fátt við hana sérstaklega eftirtektarvert: Söguefnið – viðkvæmur, listrænn, samkynhneigður strákur í litlu þorpi á undir högg að sækja því allir hinir þorpsbúa eru vondir og hata háleit hugðarefni – er afar kunnuglegt, og úrvinnslan (stíll og frásagnaraðferð) nokkuð dæmigerð. Þarna leynast þó eftirminnilegar senur, til að mynda þegar móðir Eddys missir sér að óvörum fóstur í klósettið og reynir í fáti að sturta því niður og út í sjó. Stutt og fljótlesin skáldsaga/minningabók, en alls engin skyldulesning. Franska útgáfan af annarri metsölubók, Hillbilly Elegy eftir J.D. Vance, sem mér fannst skárri.

Öllu meira bragð var af Kitchen Confidential eftir einn ritfærasta kokk í heimi, Anthony Bourdain; það er raunar ein skemmtilegasta bók sem ég hef lesið lengi. Þarna bullsýður í hverjum potti, sósurnar malla, kaffið er sterkt og hressandi. Bourdain sló í gegn með nefndri minningabók og stjórnaði í kjölfarið árum saman vinsælum sjónvarpsþætti, No Reservations, þar sem hann ferðaðist vítt og breitt um jarðarkringluna og kynnti sér matarmenningu framandi þjóða. Bourdain stytti sér aldur á árinu sem er að líða og var fjöldamörgum aðdáendum sínum mikill harmdauði; eftir lestur þessarar sprellfjörugu og litríku bókar skil ég betur hvers vegna. Mæli mikið með henni; ég hló oft upphátt. Frábær bók fyrir þá sem þekkja vel til New York-borgar (eða hafa aldrei komið þangað); stórgóð lesning fyrir þá sem hafa áhuga á mat (eða alls engan áhuga á mat – en hvaða vítamínlausa vampíra væri það annars?). Bókin spannar allt frá æsku Bourdain – hann fær hugljómun í sumarfríi í Frakklandi, landi forfeðra sinna, þegar hann bragðar hráa ostru beint upp úr sjónum – og brokkgengan feril í eldhúsinu sem hefst með starfi fyrir skrautlegt sjávarveitingahús á Cape Cod og vafasömum vímuefnaknúnum veisluþjónusturekstri, og svo liggur leiðin til New York-borgar þar sem hæðir og lægðir á starfsferlinum eru býsna margar og sögurnar óborganlegar. Mikið smjör, mikið vín, mikið af eiturlyfjum, margar steikur, og stór skammtur af hvínandi blótsyrðum: eldhús undir stjórn Bourdain virðist raunar helst draga dám af þilfarinu á sjóræningjaskipi. Bókin minnti mig aðeins, í krafti orðkynngi sinnar og myndrænna lýsinga, á tvær frábærar (og alls kostar óskyldar) bækur: annars vegar hina frábæru A Fan’s Notes, eftir Frederick Exley, og hins vegar skemmtilegustu sjálfsævisögu poppstjörnu sem ég hef nokkru sinni lesið, Lifeeftir Keith Richards.

Loks endurlas ég hina meitluðu The Tale of the Unknown Island eftir uppáhaldshöfundinn José Saramago, portúgalska Nóbelsverðlaunaskáldið. Maður einn gengur fyrir konung í ónefndu konungsríki og biður hann um að gefa sér bát svo að hann geti lagt úr vör í leit að „óþekktu eyjunni“. Konungurinn fullyrðir að allur heimurinn hafi verið kortlagður; sérhverja eyju megi nú finna á landakorti. Nei, á landakortinu eru aðeins þekktar eyjur, segir maðurinn; ég er í leit að óþekktri eyju. Sögulokin eru óvænt – og falleg. Kjörinn inngangsreitur fyrir þá sem aldrei hafa lesið Saramago. (SN.)

Það er mikill misskilningur að maður þurfi að hafa lesið allar bækur sem eru í bókasafni manns. Margir hafa vísað í ítalska rithöfundinn Umberto Eco í þessu ljósi og minnst á að jafnvel þótt hann hafi verið gríðarlegur lestrarhestur hafði hann ekki lesið nema um helming þeirra bóka sem voru í bókasafni hans. Bókasafnið er, að hans mati, rannsóknartól – ekki minnisvarði um áður lesnar bækur. Ég hugsa mitt bókasafn með svipuðum hætti – í því liggja bækur sem mér áskotnaðust fyrir mörgum árum og ég hef ekki enn lesið. Ein þeirra er ágætt safn móralskra hugleiðinga grísk/rómverska sagnfræðingsins Plútark sem ég byrjaði að lesa nú á milli jóla og nýárs. Plútark þessi var uppi á fyrstu öld eftir að okkar tímatal hefst og er einna þekktastur fyrir að hafa skrásett ævisögur grískra og rómverskra keisara. Ritgerðirnar í þessu safni eru í enskri þýðingu og nefnist samantektin einfaldlega Essays. Þetta er í raun réttnefni, enda hafði Plútark gríðarleg áhrif á hinn franska Michel Montaigne sem er jafnan talinn faðir ritgerðarinnar (eða essegjunnar líkt og sumir vilja segja) eins og við þekkjum hana í dag. Ritgerðir þessar fjalla um allt milli himins og jarðar – ein þeirra um listina við að hlusta betur, önnur um hvernig maður á að greina raunverulega vini og enn önnur um hvernig maður á að byrgja inni reiði. Þetta eru sígild skrif í orðsins fyllstu merkingu og eiga alveg jafn mikið erindi við okkar samtíma og fyrir 1.000 árum síðan. Ég hlakka til að kafa í ævisögurnar eftir hann, en þær bíða mín þolinmóðar í bókasafninu mínu. Veit einhver glöggur lesandi og áhugamaður um fornfræði til þess að Plútark hafi verið þýddur yfir á íslensku? Ef svo er má sá hinn sami endilega senda mér línu. (KF.)


 

Óskalisti Leslistans:

 

Út er komin skáldsagan Rauður maður/Svartur maður eftir Kim Leine, í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar. Glæsileg þýðing Jóns Halls á fyrri skáldsögu Leine, Spámennirnir í Botnleysufirði, vakti mikla lukku á Íslandi, seldist vel og fór víða. (SN.)

Ég hef margoft vísað í greinar eftir hinn stórskemmtilega auglýsingamógul Rory Sutherland. Það gladdi mig mjög þegar ég sá að væntanleg væri ný bók í vor þar sem hann tekur saman speki sína um auglýsingabransann og hvernig hann hefur beitt atferlishagfræði í starfi sínu. Svo gladdi það mig jafnvel enn meira að sjá að hann er væntanlegur til landsins í febrúar með fyrirlestur.

Konseptlistamaðurinn Lawrence Weiner er einn af mínum eftirlætis listamönnum. Ég held að ég hafi sjaldan verið jafn star-strucked og þegar ég fékk þann heiður að taka viðtal við hann þegar ég vann sem blaðamaður hjá Viðskiptablaðinu. Eitt skemmtilegasta viðtal sem ég hef tekið. Ég sá nýlega að væntanleg er ný bók eftir hann sem hann vinnur í samstarfi við hönnuð sem hann hitti einu sinni á bar fyrir tilviljun. Hér er áhugavert spjall þeirra á milli um bókina. (KF.)

Bækur, 28. desember 2018

Þegar smásagnasafnið Tales of Natural and Unnatural Catastrophes kom út árið 1987 var höfundur þess, Patricia Highsmith, gagnrýnd fyrir að sýna (mennskum) sögupersónum sínum ekki nægjanlega samúð. Highsmith er raunar með þekktari mannafælum í bókmenntum tuttugustu aldar. Einu sinni var hún innt eftir því hvers vegna hún byggi ekki til geðþekkari sögupersónur. „Eflaust er það vegna þess að mér geðjast ekki að neinum,“ sagði hún. „Hugsanlega munu síðustu bækur mínar fjalla um dýr.“

Annar sigursæll mannhatari, Alfred Hitchcock, lét einu sinni hafa eftir sér greindarlega athugasemd um frásagnarlist: ef innbrotsþjófur er fyrsta persónan sem við sjáum í kvikmynd, þá höldum við framvegis með innbrotsþjófnum. (Eitthvað svoleiðis; og ég held að ég fari rétt með að Hitchcock hafi sagt þetta.) Gott dæmi um slíkt söguupphaf væri „Moby Dick II; or The Missile Whale“, önnur sagan í fyrrnefndu safni Highsmith. Tveir búrhvalir synda um í söltum sjó og kýrin er um það bil að ala kálf – þegar hópur manna ræðst að hinu ástfangna pari og myrðir hana. Tarfurinn stendur því einn eftir, dapur og reiður. Hefst nú mikið ævintýri þar sem búrhvalurinn kemur tugum, ef ekki hundruðum, manna fyrir kattarnef – og það hlakkar í lesandanum.

Hinar sögurnar í safninu fjalla um ýmsar skemmtilegar hliðar jarðlífsins: kjarnorkustríð, siðblinda stjórnmálamenn, kakkalakka-faraldur. Mæli með.

Highsmith er auðvitað þekktust fyrir bækur sínar um hinn hæfileikaríka herra Ripley (sem kvikmyndaleikstjórinn Anthony Minghella gerði eftir frekar doðalegar kvikmyndir), og það er leitun að ósympatískari aðalpersónu en í þeim fimm bóka flokki. Það væri þá helst að sama höfundi hefði tekist að fitja upp á meira fráhrindandi sögupersónu í öðru verki sínu, This Sweet Sickness, sem kom út árið 1960 og fjallar um David Kelsey, afburðagreindan vísindamann sem starfar í plastverksmiðju, býr á gistiheimili í litlum bæ og ekur burt um helgar undir því yfirskini að hann verji frídögunum með veikri móður sinni. Sannleikurinn er hins vegar sá að móðir hans er löngu látin. David hefur keypt rándýrt hús undir fölsku flaggi, sem William Neumeister, og unir sér um helgar í sveitinni; þar ímyndar hann sér að Annabelle sé með honum og þau sötri í sameiningu kokteila, snæði fínan mat, hlusti á klassíska tónlist. David er með öðrum orðum ástsjúkur og ímyndunarveikur narsissisti sem missir smám saman tökin á lífi sínu og fjarlægist veruleikann. Lengi vel fannst mér að Highsmith hefði hér færst of mikið í fang; Kelsey/Neumeister væri einfaldlega of hrjúf og kaldranaleg persóna, en eftir því sem líður á verkið byggist upp knýjandi spenna og ég hlakkaði til að halda áfram með bókina. Sem sagt: Fínasta bók og festir Highsmith enn í sessi sem einn af eftirlætishöfundum mínum til að lesa í sumar- eða jólafríi. (SN.)

Ég fékk eina áhugaverða bók í jólagjöf frá konunni minni og börnunum mínum. Það er bókin Kristur – Saga hugmyndar eftir Sverrir Jakobsson sem við höfum áður rætt um stuttlega í Leslistanum. Mér fannst hún svo góð að ég ákvað að setja hana á áðurnefndan árslista okkar Sverris, en þar er hægt að lesa meira um hana. (KF.)

Þegar ég er á ferðalögum finnst mér alltaf skemmtilegt að grípa í bækur sem leynast á gistiheimilum eða í leiguíbúðum, uppi í hillum hjá vinum eða ættingjum. Í vikunni fékk ég þetta í andlitið. Við fjölskyldan höfum síðustu vikurnar verið á ferðalagi um Mexíkó, og því fannst mér við hæfi að glugga í The Vintage Book of Latin-American Short Stories, sem leyndist í kiljubroti í húsinu þar sem við gistum yfir hátíðardagana. Bókin var hundseyrð og nokkuð snjáð eftir talsverðan velting, en ég lét það ekkert á mig fá. Á mig runnu hins vegar tvær grímur þegar ég tók eftir því að fyrri lesandi hafði rifið út inngangsorð Julio Ortega (sem ritstýrði safninu ásamt Carlos Fuentes) og einnig fyrstu smásöguna, „The Aleph“ eftir Borges. Nokkuð pirrandi, en sjálfsagt hefur nefndur lesandi bara heillast svo ákaflega af kröftugri innsýn Ortega í heim suður-amerískrar smásgnalistar og jafnframt af hinni þekktu sögu Argentínumannsins, að hann stóðst ekki mátið og heftaði síðurnar inn í dagbókina sína. Gott og vel. Þegar ég hafði hins vegar lesið nokkrar sögur úr safninu og fundist sumar þeirra nokkuð endasleppar, tók ég eftir því að það var raunar engin tilviljun: í gegnum alla bókina var búið að rífa hér og þar út eina og eina blaðsíðu, eins og gagngert til að hrekkja græskulausan sakleysingja á borð við mig. Sem betur fer þekkti ég reyndar margar sagnanna fyrir – sumar þeirra birtustu nýlega í íslenskri þýðingu í Smásögum heimsins – Rómönsku Ameríku, sem ég las síðastliðið sumar – og því naut ég lestursins þrátt fyrir stöku gloppur og glompur. Ég held líka að í þessari ergelsislegu upplifun leynist efniviður í smásögu en ég á eftir að klóra mig fram úr því á hvaða lund hún verður, nákvæmlega. Ég mæli annars með smásögum frá þessum heimshluta; það kraumar í suður-amerískum bókmenntum einhver sérstakur kraftur, ólgar eitthvert sérstakt hugarflug sem þrífst ekki annars staðar.

Ragnar Jónasson, spennusagnahöfundur, gekk í ráðuneyti Leslistans í síðustu viku og mælti með fjölmörgum spennandi bókum, meðal annars The Mistletoe Murder eftir P.D. James. Ég tók Ragnar á orðinu og spændi í gegnum hana í stuttri flugferð. Ég hafði ekki lesið neitt eftir hina heimsþekktu P.D. James áður, og fundust sögurnar góðar, vel uppbyggðar – notalegar. (SN.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

  

Elísabet Kristín Jökulsdóttir gaf á dögunum út nýja ljóðabók, Lítil sál sem aldrei komst til jarðar. Hún fór auðvitað beint á óskalistann hjá mér og séðir áskrifendur Leslistans munu ekki tvínóna við að tryggja sér eintak. Hér er gamalt Leslistaspjall við skáldið. (SN.)

 

Bækur, 20. desember 2018

José Saramago er einn þeirra höfunda sem endurskilgreindu fyrir mér hvað hægt væri að gera í skáldskap þegar ég uppgötvaði hann á sínum tíma. Sigrún Ástríður Eiríksdóttir vann það þjóðþrifaverk að íslenska þekktustu bók Saramagos, Blindu, og ég hvet alla, sem ekki hafa lesið hana, til að leggja niður störf á stundinni, hætta við að stinga sér ofan í sundlaugina, leyfa smákökubakstrinum að bíða – og hlaupa heldur út í búð eða á bókasafnið til að næla sér í eintak af þessu meistaraverki.

Í vikunni las ég Hellinn, eða The Cave, eftir sama höfund. Sú fjallar um leirkerasmið sem  neyðist til að hætta framleiðslu þegar fólk byrjar að kaupa fjöldaframleiddar plastvörur í staðinn fyrir leirmunina hans. Verkið má lesa sem eins konar dæmisögu um það hvernig kapítalisminn upprætir líf handverksfólks; en styrkur sögunnar býr þó fyrst og síðast í persónusköpuninni. Bókin er, líkt og eiginlega allar skáldsögur, aðeins of löng – og alls ekki mitt eftirlætisverk eftir Saramago – en þó vel lestursins virði, líkt og raunar flest annað sem Saramago sendi frá sér. (Hellirinn var í sérstöku uppáhaldi hjá hinu mætu Ursulu K. Le Guin.) Hér er önnur ágæt umfjöllun um bókina. (SN.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

 

Ég sá fyrir stuttu að það er væntanleg í vor ný bók frá ævisagnameistaranum Robert Caro. Það sem gladdi mig sérstaklega var að bókin fjallar fyrst og fremst um skriftækni hans og rannsóknaraðferðir. Ég get ekki beðið eftir að lesa hana. (KF.)

Bækur, 14. desember 2018

Í síðasta Leslista nefndi ég að ég væri að lesa Guadalupe Nettel, mexíkanskan höfund, og væri afar ánægður með þá uppgötvun mína. Í kjölfarið barst Leslistanum bréf frá Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur, dósent í spænsku við Háskóla Íslands: 
„Ég fylgist reglulega með leslistanum ykkar og hef gaman af. Ég sá ykkur minnast á Guadalupe Nettel í síðasta listanum. Kannski hafið þið gaman af því að vita að ég er að þýða Historias naturales á íslensku. Og aldrei að vita nema að þýðingarnar verði fleiri. Sennilega þá El cuerpo en que nací.“
Við höfum sannarlega gaman af því! – Historias naturales var einmitt önnur bókanna sem ég las eftir Nettel, og hreifst af. Tilhlökkunarefni.

Ég færði mig annars í skáldsögulestri frá Mexíkó til Morokkó í vikunni og las (í enskri þýðingu) bók eftir hinn franska Matthias Énard, Street of Thieves. Fyndin, ævintýraleg, fjörug – og afar hressilega rituð. Sögusviðið er Tangier í Morokkó, leikar berast einnig til Túnis og Spánar, og efniviðurinn arabíska vorið.

Þá endurnýjaði ég kynni mín við Thomas Bernhard; kveikjan var sú að Bragi Ólafsson talaði svo fjálglega um hann í frábæru spjalli við Leslistann síðastliðið sumar. Konan mín hafði orð á þessu nýlega þegar ég sat snemma morguns í rólu á leikvelli á meðan þær dóttir mín léku sér í kastalanum: „Mér finnst eitthvað dásamlegt við að þú sért að lesa Útrýmingu eftir Thomas Bernhard hér á rólóvellinum.“ Ég kom af fjöllum; er ekki daglegt brauð að fólk uni sér á rólóvelli á kafi í bók eftir Thomas Bernhard? Þetta er mögnuð skáldaga – en líka óþolandi, langdregin, þung, erfið, ruglingsleg, klikkuð. Ég get ekki lesið hana nema í smáskömmtun, annars missi ég vitið. (SN.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

 

Þar sem ég er búinn að vera að röfla á þessum vettvangi um að taka upp úr bókakössum þá benti Gyrðir Elíasson mér á mjög forvitnilega ævisögu Donald Hall sem heitir einmitt Unpacking the Boxes: A Memoir of a Life in Poetry. (KF.)