Af netinu, 17. maí 2019

Það er gott að vera klár – bara ekki of klár. Afburðagreind börn eiga oftar en ekki erfitt uppdráttar. Ákjósanleg er greindarvísitala er á bilinu 125-155 en fari maður mikið fyrir ofan það er hætt við að maður skeri sig um of úr, þyki vera furðufugl og eigi fyrir vikið undir högg að sækja félagslega. Hér má lesa um bölvun séníanna.

Chris Hughes, einn af stofnendum Facebook, vakti á dögunum mikla athygli fyrir grein sem hann birti í The New York Times. Þar heldur Hughes því fram að stærð og drottnun Facebook á sviði samfélagsmiðla – og mundu að Instagam og WhatsApp heyra undir Facebook – brjóti gegn lýðræðislegum hefðum í bandarísku samfélagi. Hann kveður Mark Zuckerberg orðinn alltof valdamikinn og telur að bandarísk stjórnvöld ættu að leysa fyrirtækið upp í smærri einingar.

Atli Bollason skrifaði grein um Ísrael, Palestínu og Hatara.

Tímarit Máls & Menningar hefur stofnað nýja vefsíðu. (SN.)

Ég hef verið að hugsa um þessa grein mjög mikið alla vikuna. Hún fjallar um hvernig (óskálduðum) bókum og fyrirlestrum mistekst oftast ætlunarverk sitt – að fræða lesendur/áheyrendur.

Hvernig hefur þessari konu tekist að skrifa 179 bækur á meðan hún hefur eignast níu börn?

Mjög djúp grein um hvernig hlutir breiðast út í gegnum net (e. network – erfitt að þýða þessi hugtök almennilega á íslensku). Hún er líka skemmtilega framsett – gagnvirk og fræðandi.

Þetta er besta grein um rusl sem ég hef lesið í langan tíma. (KF.)


Fyrir augu og eyru:

Fílaði þennan þátt með tónlistarkonunni Cat Power í Song Exploder-hlaðvarpinu. Hún er eitthvað svo svakalega mikill listamaður (á mjög heillandi hátt) og nær að tala um lagasmíðar á dýpri hátt en gengur og gerist. Hér kryfur hún tilurð eins síns þekktasta lags, „Woman“.

Virkilega fínt viðtal við myndlistarmanninn Mark Bradford í 60 mínútum. (KF.)

Af netinu, 10. maí 2019

Skemmtileg grein um Ólaf Elíasson og það hvers vegna hann er svona góður listamaður.

Góð grein um annan góðan listamann.

Hér skrifar bókagagnrýnandi og blaðamaður um hversu erfitt það er að hafa í sig og á með því að skrifa í dag.

Forvitnileg tölfræði um hátt hlutfall kvenna í íslenskum háskólum.

Mjög fyndin grein hér. Ljóðskáld viðurkennir að geta ekki svarað krossaspurningum um eigin ljóð.

Viðtal við Björk í New York Times.

Hvað eru skrif? Góð spurning.

Þvert á það sem margir halda þá ráða stórfyrirtæki ekki lögum og lofum í bandarískum stjórnmálum. Þessu heldur einn hlekkjaðasti greinarhöfundur Leslistans fram í góðri grein.

Aðalfundur Berkshire Hathaway – fjárfestingafélags öldunganna Warren Buffet og Charlie Munger – fór fram fyrir nokkrum dögum. Af því tilefni las ég aftur þessa grein um speki hins síðarnefnda. (KF.)

Virkilega flott umfjöllun, um hægan dauða verksmiðjubæjarins Lordstown í Bandaríkjunum. Sá má muna fífil sinn fegri.

Einu sinni hélt mannkynið að við gætum ekki rústað jörðina – hún væri einfaldlega of stór. Það var rangt. Nú vilja sumir færa stóriðnað til tunglsins. Við getum ekki rústað geiminn – hann er of stór, segja menn. Ætli okkur skjátlist?

Einu sinni, endur fyrir löngu, voru The Paris Review-viðtölin öll aðgengileg ókeypis á vefsíðunni þeirra. Þá las ég þau næstum öll, enda um frábært efni að ræða, og skemmtileg hvernig oft tekst að kjarna hugmyndir og persónu höfundanna á hnitmiðaðan hátt. Á hinum síðustu og verstu er vefsíðan læst öðrum en áskrifendum, en þau opna reglulega fyrir eitt og eitt gamalt og gott viðtal, nú síðast þetta hér, við séníið Iris Murdoch.

Bendi svo loks á Samráðsgáttina. Verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun óskar eftir umsögnum um landsrýniskýrslu (e. Voluntary National Review) um innleiðingu Íslands á heimsmarkmiðunum. Sauðsvartur almúginn getur sent inn athugasemdir við staka kafla eða skýrsluna í heild – þar með talið þú. Gott til að dunda sér við þetta á síðkvöldum. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Hér er skrifað um Joni Mitchell og farið yfir feril hennar með því að spá í 33 lög eftir hana. Væri til í að sjá mun fleiri svona yfrlitsgreinar um listamenn. Einfalt en áhrifaríkt módel.

Myndi segja að þetta væri eitt besta viðtal sem ég hef hlustað á á árinu. Ég veit að allir eru komnir með leiða á Karl Ove Knausgård – en þetta viðtal er vel hlustunar virði hvort sem þú hatar hann eða elskar. (KF.)

David Wallace-Wells sendi frá sér eina umtöluðustu bók síðustu mánuða, The Uninhabitable Earth. Sú mynd, sem hann dregur upp af framtíðinni, er ekki björt og aðlaðandi. Hér er Wallace-Wells í ágætu spjalli við Longform-hlaðvarpið.

Og ef þú vilt enn fræðast um loftslagsbreytingarnar: BBC gaf nýlega út klukkustundarlanga heimildarmynd með Íslandsvininum David Attenborough, Climate Change – The Facts. Síðast þegar ég vissi hafði einhver réttsýnn jarðarbúi hnuplað henni af BBC-vefnum og lætt inn á YouTube svo að fólk úr öðrum heimshlutum en Bretlandseyjum gæti horft. (SN.)

Af netinu: 3. maí 2019

Hér er fjallað um fimm bækur sem varpa ljósi á klassískan uppruna verka Shakespeares. Mjög forvitnilegt.

Hvernig býr maður til 10.000 ára stofnanir? Gaman að einhver skuli spyrja svo stórra spurninga.

Í síðasta lista vísaði ég á ágæta grein þar sem talað var gegn hlaðvörpumHér er önnur svipuð grein þar sem greinarhöfundur finnur hljóðbókum allt til foráttu.

Það komst í fréttirnar fyrir ekki svo löngu að breski stjórnmálamaðurinn og heimspekingurinn Roger Scruton var rekinn úr Íhaldsflokknum eftir að hafa látið ósæmileg ummæli flakka í viðtali við New Statesman. Síðar kom í ljós að sá, sem tók viðtalið, hefði tekið það sem Scruton lét flakka í viðtalinu úr samhengi. Hér er farið ítarlega yfir þetta furðulega mál en niðurlag greinarinnar ratar, að mínu viti, beint í mark:
“Our world is replete with complex matters that need discussing. We need philosophers, thinkers and even politicians of courage to help us find our way through this. We live in the age of character assassination. What we now desperately need is a counter-revolution based on the importance of individuals over mobs, the primacy of truth over offence, and the necessity of free-thought over this bland, dumb and ill-conceived uniformity.”

Ég (Kári) skrifaði í Markaðinn í vikunni um áhættustýringu fyrirtækja, ef einhver lesandi Leslistans kynni að hafa áhuga á slíku.

Hér er listi yfir vanmetna hæfileika.

Góð greining hér á stöðu listmarkaðarins.

Hvað er hægt að læra af munkum um að starfa í stafrænum heimi? Heilmargt að mati höfundar þessarar greinar.

Hér er farið ítarlega yfir kvilla sem gæti verið rótin af fjölmörgum veikindum sem nútímamaðurinn glímir við.

Skemmtilegt viðtal við píanistann fræga Víking Ólafsson í Guardian um Bach plötuna sem hann gaf út fyrir ekki svo löngu síðan og hefur verið mærð á þessum vettvangi.
(KF.)

Françoise Sagan, höfundur Bonjour, tristesse, er hér í gömlu viðtali við The Paris Review.

Og hér er ansi langt og innilegt viðtal, nýtt af nálinni, við leikkonuna Anjelicu Huston.

Jim Bendell nefnist prófessor einn sem öðlaðist talsverða frægð fyrir að leiða að því rök að við, sem nú erum uppi á tímum loftslagsbreytinga og vistfræðilegs hruns í náttúrunni, þurfum að aðlaga okkur með djúpstæðum hætti, bæði vitsmunalega og veraldlega, að gjörbreyttum lífsskilyrðum á jörðinni (á ensku notar hann hugtakið deep adaptation). Fyrir skrif sín hefur Bendell hlotið bæði lof – meðal annars fyrir að tala á raunsæjan hátt um staðreyndir – og last. Gagnrýnisraddirnar, til að mynda þessi hér, herma að ef við einfaldlega föllumst á og sættum okkur við að hinn náttúrulegi heimur sé að tortímast – jafnvel nú þegar glataður – þá sé hætt við að björgunaraðgerðir og frekari tilraunir til að breyta lífsstíl okkar verði framkvæmdar með hangandi hendi og hálfum hug og fari þar með fyrir bí („Þetta er hvort sem er allt til einskis“) og þá er voðinn vís og útséð um að við, sem tegund, þraukum ekki mikið lengur. Enn sé tími til aðgerða. En hvað er bjartsýni og hvað er raunsæi? Verðum við ekki að trúa því að aðgerðir okkar hafi jákvæð áhrif? Ég hef áður imprað á frönskum bókum þar sem höfundarnir mæla á svipaða lund og Bendell og tala um eins konar hruninn heim: Comment tout peut s’effondrer (Hvernig allt getur hrunið) og Une autre fin du monde est possible; vivre l’effondrement (et pas seulement) (Önnur heimslok eru möguleg; að lifa hrunið (og rúmlega það)).) Eflaust lifum við á tímum hrunsins (og þá er ég ekki að tala um eitthvert smávægilegt bankahrun árið 2008 heldur miklu viðameiri hörmungar).

Í beinu framhaldi af þeirri glaðværu nótu: Höfundurinn og náttúruverndnarsinn Mark Boyle kveðst hafa lifað um þriggja ára skeið án þess að nota peninga, og nú býr hann utan nútímasamfélagsins á Írlandi án þess að nota neins konar nútímatækni. Sem sagt, mikill töffari. (Ég öfunda hann í hið minnsta af kjarkinum og því að láta slíkan draum rætast. Að komast burt, orti Sigfús Daðason; þessum manni virðist hafa tekist það.) Áður en Boyle tók af skarið starfaði hann í fjármálaheiminum,  og segist hafa óttast á þeim tíma að líða í gegnum ævina án þess að finna nokkurn tímann fyllilega til lífsins, eins og hálgerð vofa. Hér mælir Boyle, í fróðlegu spjalli, með fimm bókum sem fjalla á einn eða annan hátt um óbyggðir eða villta náttúru. Þeirra á meðal er The Road eftir Cormac McCarthy, sem til er í vandaðri íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Michael Lewis fjallar um Salvator Mundi – dýrasta málverk allra tíma – í nýja hlaðvarpinu sínu. Virkilega forvitnilegt.

Hér er skemmtilegt viðtal við Austen Allred, stofnanda Lambda School sem er nýstárleg leið fyrir fólk til að mennta sig. Skólinn er gjaldfrjáls í upphafi en síðan borga nemendur hluta af tekjum sínum að námi loknu ef þau ná að þéna meira en 50.000 dollara í árstekjur. Í viðtalinu ræðir hann bæði um skólann og stöðu menntunar á gervihnattaöld. Mjög forvitnilegt.

Þetta samtal er verulega gagnlegt ef þú hefur áhuga á að verða betri í mannlegum samskiptum. (KF.)

Skemmtilegt: Paul Holdengräber rabbar við portúgalska rithöfundinn António Lobo Antunes. Myndskreytt af Flash Rosenberg. (SN.)

Af netinu, 26. apríl 2019

Helvíti góð grein hér um samspil tækni og myndlistar.

Hvað á maður að lesa næst? Þetta er spurning sem allir lesendur Leslistans kannast við. Hér er að finna ansi gagnlega aðferð við val á næstu bók.

Hér er splunkunýtt viðtal við síunga fjárfestinn Warren Buffet.

Hlaðvörp virðast verða vinsælli með hverjum deginum og ég get allavega sagt fyrir mitt leyti að ég er mjög mikill aðdáandi þeirra. Fannst þess vegna hressandi að lesa þessa grein þar sem höfundur finnur hlaðvörpum allt til foráttu.

Áhugaverð nálgun á íþróttamennsku.

Fannst ekki nógu mikið talað um þessa fínu grein Árna Heimis Ingólfssonar um Passíusálma Hallgríms Péturssonar: „Það er hins vegar grundvallarmisskilningur á sálmakveðskap Hallgríms Péturssonar – og raunar á öllum íslenskum sálmakveðskap 17. og 18. aldar – að slíkir textar hafi verið ortir til upplestrar. Sálmar voru ávallt sungnir, hvort heldur var í kirkju eða innan veggja heimilisins. Tónlistin var ekki aukaatriði sem bætt var við eftir á heldur sjálfur grundvöllur kveðskaparins.

Penguin Random House var að kynna áhugaverða nýjung. Þau ætla að bjóða upp á svokallað reader loyalty program – þ.e. að dyggir lesendur bóka, sem gefnar eru út af útgáfufyrirtækinu, geti unnið sér inn fríar bækur. Ef einhver lesenda Leslistans eru bókaútgefendur (sem ég er nokkuð viss um) þá mega þeir endilega skoða þetta. (KF.)

Ágætis yfirlitsgrein um Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Hvernig væri að loka bara fangelsum? Ruth Wilson Gilmore hefur skýra skoðun á því: „There should be no jails. They do not accomplish what they pretend to accomplish.

Frábær hugleiðing frá Rebeccu Solnit, sem hefst, líkt og svo margt þessa dagana, á Íslandi. Hún fjallar meðal annars um ómótstæðilegt aðdráttarafl hetjunnar (s.s. Gretu Thunberg) og ber það saman við kraft fjöldans þegar við komum mörg saman og vinnum að sameiginlegu markmiði. Hvort er fýsilegra og vænlegra til langtímaárangurs, hetjudýrkun eða samstaða?
„The standard action movie narrative require one exceptional person in the foreground, which requires the rest of the characters to be on the spectrum from useless to clueless to wicked, plus a few moderately helpful auxiliary characters. There are not a lot of movies about magnificent collective action, something I noticed when I wrote about what actually happens in sudden catastrophes—fires, floods, heat waves, freak storms, the kind of calamity that we will see more and more as the age of climate change takes hold. Disaster movies begin with a sudden upset in the order of things—the tower becomes a towering inferno, the meteor heads toward earth, the earth shakes—and then smooths it all over with a kind of father-knows-best here-comes-a-hero plotline of rescuing helpless women and subduing vicious men. Patriarchal authority itself is shown as the solution to disasters, or a sort of drug to make us feel secure despite them.“

Anthony Burgess ljóstrar því upp, í gamalli grein sem The Times Literary Supplement endurbirti nýlega, hvernig hann skrifaði ævisögu sína um D.H. Lawrence og fjallar jafnframt um ævisagnaskrif almennt. „The importance of cultivating the memory if one is going to be a writer cannot be stressed too often.“ Orð að sönnu, og kannski þörf áminning fyrir okkur gleymnu gúgglarana. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Margaret Atwood er hér í skemmtilegu spjalli við Tyler Cowen, góðvin Leslistans.

Ég var að hlusta á þennan ágæta fyrirlestur um hvað vestræn tæknifyrirtæki gætu lært af tekjumódeli kínverskra tæknifyrirtækja. Það sem mér fannst sérstaklega áhugavert og vekur kannski einna helst áhuga lesenda Leslistans er það sem kemur fram á svona sirka mínútu 06:30. Þar er farið yfir fjölbreytilegt tekjumódel rafrænnar bókaútgáfu í Kína. Margt þarna sem rithöfundar og bókaútgefendur mættu skoða. (KF.)

Af netinu, 12. apríl 2019

Hér er fjallað um nýjan mælikvarða á þjóðarframleiðslu sem tekur tillit til stafrænna gæða.

Grein um söfnun bóka og „ógnina“ sem stafar af tiltektarmeistaranum Marie Kondo.

Eru bækur orðnar vinsæll „fylgihlutur“? Veit ekki hvað mér finnst um þessa þróun.

Hér er gömul en sígild tölfræðileg greining á frægð og frama Justin Timberlake.

Þegar Ray Dalio, stofnandi eins stærsta vogunarsjóðs heims, skrifar langa greinum að það þurfi að bylta kapítalismanum þá er vert að skoða það.

John Gray, góðvinur Leslistans, mælir hér með fimm bókum um trúleysi.

Þorgeir Þorgeirsson setur niður hugleiðingar sínar um August Strindberg, sænska höfundinn.

Hvernig nýtist stærðfræðin við varðveislu listaverka? Betur en ég hefði búist við.

Sá að Sjón, annar góðvinur Leslistans, tvítaði þessari áhugaverðu grein frá Guardian. Í henni er nokkuð hávært shout out á okkar eigin Árna Magnússon.

Flott grein í The New Yorker um mikilvægi „hægrar“ blaðamennsku.

Hvers konar list eru tölvuleikir? Eru tölvuleikir list? Hér er kafað í málið.

Besta ráðið til að auka framleiðni og ná árangri? Að gera ekkert. (KF.)

Af netinu, 5. apríl 2019

Eftir að ég lauk námi í New York fyrir um sjö árum síðan starfaði ég stuttlega á fjármáladeild hjá Mary Boone Gallery sem var stýrt af miklum reynslubolta í listbransanum. Mary reyndist á endanum ansi erfiður yfirmaður og ég fann mig knúinn til að hætta störfum hjá henni eftir stutta dvöl. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar hún kenndi mér að forðast „red flags“ hjá skattayfirvöldum, hvernig hún blandaði saman persónulegu fjármálum sínum við bókhald fyrirtækisins og eins allar sögurnar af gamla rafvirkjanum hennar, honum Jean-Michel Basquiat. Svo frétti ég af því nýlega að hún hefði verið dæmd í fangelsi fyrir stórfelld skattsvik. Af því tilefni var skrifaður um hana ítarlegur prófíll í New York Times, sem ég verð að viðurkenna að er ekki alveg samkvæmt sannleikanum (svolítið fegruð mynd af frúnni) en sumt í honum er ansi nærri lagi. Eins og t.d. þessi lína hér: “Her eyes are dark and intense. When she is happy, the gaze is kind enough to reach across an avenue. When she is angry or afraid, it can be hard to meet.

Hér er forvitnileg grein í Guardian um konu sem greinarhöfundur kveður vera raunverulega listamanninn á bak við þvagskálina frægu sem franski listamaðurinn Marcel Duchamp er hvað þekktastur fyrir.

Bubbi Morthens, góðvinur Leslistans, skrifaði lesendabréf í Fréttablaðið í gær sem er alveg virkilega gott og ég vona að sem flestir lesi það. Í því fjallar hann um mótlæti og hvernig hann náði árangri í lífinu þrátt fyrir að gert hafi verið lítið úr honum vegna skrifblindu. Í greininni hvetur hann ungt fólk til dáða eins og honum einum er lagið: “Ungt fólk í tónlistarbransanum hefur sagt við mig í gegnum árin að það vilji frekar nota ensku en íslensku því það vilji ekki láta niðurlægja sig fyrir að nota ekki málið rétt. Þetta er svo sorglegt því íslenskan þolir allskonar bragðtegundir. Hvernig eiga stelpa eða strákur sem ætla að syngja á sínu máli að taka því þegar það er sagt við þau: þú getur ekki skrifað dægurlagatexta eða rappað nema stuðlar og höfuðstafir séu yfir og allt um kring? Ég hvet alla, hvort sem þeir eru skriftblindir eða hafa ekki hlotið menntun og telja sig ekki geta skrifað, til að gefa dauðann og djöfulinn í það. Skrifið eins og enginn sé morgundagurinn. Skrifið á vegginn ykkar á fésinu, á tvitter eða instagram, stígið útúr kassanum, þorið, elskið málið ykkar, skriftina ykkar. Það eina sem skiptir máli er að fólk skilji ykkur.

Svo virðist sem  ungir Bandaríkjamenn séu farnir að stunda töluvert minna kynlíf en jafnaldrar þeirra gerðu hér áður fyrr. Farið er yfir þessa geigvænlegu þróun í fínni grein í Washington Post. Hvernig ætli staðan sé á Íslandi?

Ritstjóri NYRB var látinn fara fyrir ekki svo löngu fyrir að hafa birt grein eftir Kanadískan útvarpsmann sem var sakaður um kynferðislega áreitni. Hér fjallar hann um málið í mjög forvitnilegri grein. Hvað sem manni finnst um kauða og það sem hann gerði sem ritstjóri þá er ég býsna sammála eftirfarandi línu úr greininni: „Silencing people we don’t like will make it easier for others to silence the people we do.

Hvernig skapar maður verðmæti? Ég rambaði á gamla grein eftir tæknifjárfestinn fræga Paul Graham sem svarar þeirri spurningu býsna ítarlega: „Someone graduating from college thinks, and is told, that he needs to get a job, as if the important thing were becoming a member of an institution. A more direct way to put it would be: you need to start doing something people want. You don’t need to join a company to do that. All a company is is a group of people working together to do something people want. It’s doing something people want that matters, not joining the group.

Ég hef verið mikill aðdáandi Michael Jackson alveg frá því að ég man eftir mér. Þess vegna hefur mér fundist býsna erfitt að heyra umræðu síðustu daga eftir að ný heimildarmynd leiðir í ljós að hann hafi að öllum líkindum verið barnaníðingur. Halldór Armand skrifaði á dögunum góðan pistil um málið.

Hvað verður um menningu á internetinu? Eru þetta andstæðar fylkingar? Tyler Cowen, góðvinur Leslistans, veltir þessu fyrir sér í ansi djúpri grein. (KF.)

Óskar Arnórsson sendir Leslistanum góða ábendingu frá New York, um ágætis spjall í héraðssneplinum The New York Times við góðvin Leslistans, ævisagnahöfundinn merka Robert Caro. Tilefnið er útgáfa nýrrar bókar eftir Caro, Working, þar sem hann lýsir aðferðum sínum við skrif og heimildaöflun. Óskar segir meðal annars um viðtalið: „Eitthvað svo undarlegt að sjá einhvern tileinka líf sitt því að skrifa um tvo menn. Lyndon B. Johnson var forseti í fjögur ár, en Caro er búinn að vera 40 ár að skrifa um hann. Uppáhaldssetningin mín? It’s probably the understatement of all time, but I have not rushed these books.“ (SN.)


Augu og eyru:

Hér er mjög gott og virkilega djúpstætt viðtal við rithöfundinn Neil Gaiman um starf rithöfundarins. Það verður reyndar aðeins of ítarlegt þegar hann heldur langa ræðu um hvernig penna og hvernig skrifblokk hann notar við skriftir, en það er reyndar alveg fyndið eftir á að hyggja. Hugsa að þetta sé sérstaklega gaman fyrir aðdáendur hans. Undir lokin fjallar hann um góðvin sinn heitinn, Terry Pratchett, og samstarf þeirra. Mæli með þessu.

Svo hlustaði ég líka á nokkuð sem ég held að hljóti að enda sem eitt allra dýpsta og áhugaverðasta hlaðvarpsviðtal sem rekur á mínar fjörur þetta árið. Í því ræðir hagfræðingurinn Russ Roberts við heimspekinginn Jacob Stegenga um bók hins síðarnefnda, Medical Nihilism. Í bókinni lítur hann gagnrýnum augum á læknisfræðilegar rannsóknir og telur hann að inngrip lækna séu alltof tíð. Ég er harðákveðinn í að lesa bókina eftir að ég hlustaði á þetta viðtal. (KF.)

Mér var bent á Guðmundarkviðu: sögu þjóðar, hlaðvarp þar sem Guðmundur Ingi Þorvaldsson, leikari, leikstjóri og tónlistarmaður lítur sér nær og rannsakar ættarsögu sína sjö kynslóðir aftur til að reyna að komast að því hvort, og þá hvað, af sorgum og áföllum forfeðra hans og og formæðra gætu setið í honum, líkt og segir í lýsingu Ríkisútvarpsins. Við erfum hæfileika, útlit og húmor en getum við erft sorgir og áföll? Ég hlustaði á fyrsta þátt og þetta fer vel af stað. (SN.)

Af netinu, 29. mars 2019

Einu sinni skrifaði ég óútgefið, óagað og óklárað skáldsöguuppkast sem gerðist í framtíðinni og var að mestu leyti sviðsett í „Nýju-Nýju Jórvík“; Manhattan-eyja var svo til sokkin í sæ og efstu stigar þjóðfélagsins höfðust við, bókstaflega, í efstu lögum borgarinnar, í svifhúsum sem sveimuðu yfir skýjakljúfunum. Hinir lægra settu og fátæku sigldu svo um neðstu lögin í göndólum og kajökum, og drukknuðu reglulega. Hér sé ég að Kim Stanley Robinson hefur skrifað skáldsögu, New York 2140, sem gerist í afar svipuðum heimi. Í nefndri grein er jafnframt tekið fram að vísindamenn ættu að hlusta í auknum mæli á listamenn – kannski verður hugarflugið okkar eina von í harðneskjulegri framtíð?


„Við megum aldrei gleyma því að mark­að­ur­inn er góður leið­bein­andi en afleitur hús­bónd­i,“skrifar Þröstur Ólafsson, hagfræðingur, og bendir á skort á samkennd og ábyrgð, sem áður hélt samfélögum saman, í nútímanum. „Nú er komið rof í þetta sam­fé­lags­lega lím, bæði innan þjóð­fé­laga sem og alþjóð­lega. Ofur áhersla hefur of lengi verið lögð á fram­gang ein­stak­lings­ins, for­gang hans og afkomu sem og rúm­gott sam­fé­lags­legt oln­boga­rými. Það er orðið lofs­yrði að skara eld að eigin köku.“
 

Gervigreindar-„listamaðurinn“ (listavélin? listfengi algóritminn?) AICAN hélt í samstarfi við Dr. Ahmed Elgammal sólósýningu í HG Contemporary-safninu í Chelsea nú nýlega, Faceless Portraits Transcending Time. Sumar myndirnar eru ansi flottar.Hér er svo án vafa áhugaverðasta greininn sem ég las í vikunni um samband myglusvepps og rafgeislunar.

Grein sem potar aðeins í nokkuð sem ég hef stundum velt fyrir mér: Hvernig stendur á því að næringarséní, hugsjóna-hipsterar og auglýsingastofur hafa gert aðfinnslur við nánast allt í ísskápnum okkar og forðabúrinu – fitu, sykur, kjöt, brauð, glúten, gos, vín, ost, jógúrt – en alltaf heldur kaffi áfram að skipa heiðurssess í lífi okkar?

Áhugavert um ellikerlingu: sífellt koma út fleiri og fleiri bækur um ellina og þau hryðjuverk sem hún vinnur á líkama og sál okkar. Er jákvætt að flest okkar séu að lifa lengur og lengur? Eða er einungis verið að draga dauðann á langinn? (SN.)

Hér er stórgott viðtal við myndlistarmanninn Luc Tuymans sem virðist vera nokkuð svartsýnn á stöðu heimsmála.

Svo er hér að finna ítarlega lýsingu á því hvernig dýr listaverk eru flutt á milli landa.

Heyrði fregnir af því að von væri á nýju safni tileinkað Dieter Roth á Seyðisfirði. Fagna því mjög mikið.

Teiknarinn Lóa Hjálmtýsdóttir var að birta mjög skemmtilega seríu um Reykjavík frá augum túrista í Guardian. Mæli með.

Það má segja ansi margt slæmt um Trump en svo virðist sem það sé orðum aukið að hann sé á einhvern hátt hliðhollur nýnasistum. Hér er farið yfir ummæli sem voru höfð eftir honum í kjölfar Charlottsville mótmælanna árið 2017 sem voru greinilega röng.

Sálfræðingurinn Jonathan Haidt er hér í löngu og góðu viðtali um aumingjavæðingu ungu kynslóðarinnar. Virkilega forvitnilegt.

Internetið hefur fjölgað starfsmöguleikum svo um munar – flestir vita bara ekki af því. Hér er rætt um það.

Um dauða, skatta og nokkra aðra hluti. Frábær greining Morgan Housel sem tekst einhvern veginn alltaf að láta texta um fjármál og fjárfestingar hljóma eins og ódauðlega lífsspeki.

Hvað eiga þorskar og menn sameiginlegt? Mun meira en ég bjóst við. (KF.)

 

Augu og eyru:

Kári fór í útvarpið og rabbaði um engin smáræðis tíðindi úr listheiminum: Met-safnið í New York mun frumsýna nýtt verk eftir Ragnar Kjartansson í sumar!

Einhvern tímann velti ég því fyrir mér hvernig segja mætti „brain drain“ á íslensku. Svo fékk ég svarið: Spekileki nefnist útvarpsþáttur í umsjón Höllu Þórlaugar Óskarsdóttur. Þar er spurt hvort spekileki ógni íslenska heilbrigðiskerfinu.

Góður maður benti mér á hlaðvarp sem ku vera skemmtilegt: The Rewatchables. Þar fara kvikmyndafróðir menn ofan í saumana á vinsælum bíómyndum frá Hollywood, mestmegnis hágæða poppmenningu frá níunda og tíunda áratuginum. (SN.)

Fyrir þá sem hafa áhuga á lífi hins vinnandi manns þá mæli ég með hlaðvarpinu Work Life með sálfræðingnum Adam Grant sem ég hef áður vísað í á þessum vettvangi. Í nýjasta þættinum fjallar hann um hversu slæm hugmynd það er að fylgja ástríðu sinni þegar kemur að því að velja starfsvettvang til framtíðar. 

Pókerspilarinn frægi Annie Duke fjallar hér í skemmtilegu viðtali um skilvirka ákvarðanatöku. Spjallið er svolítið miðað að fólki í fjárfestingabransanum en það á klárlega við um alla sem vilja taka skynsamlegri ákvarðanir. (KF.)