Af netinu, 11. janúar 2019

Ég hef gaman af kommúnistatímaritinu bandaríska Jacobin þrátt fyrir að vera býsna langt frá því að geta talist vinstrisinnaður sjálfur. Fannst þess vegna áhugavert að lesa þessa fínu grein um tímaritið og stofnanda þess.

Hér er viðtal við bjartsýnispostulann Steven Pinker þar sem hann svarar m.a. gagnrýnendum sínum. Hann gerir það frekar illa að mínu mati, en dæmi hver fyrir sig.

Að öðrum bjartsýnispostula. Matt Ridley er rithöfundur sem ég hef ekkert sérstaklega gaman af en mér fannst þessi pistill hans (sem er mjög í anda bókarinnar Factfulness sem ég fjallaði um í árslistanum okkar) nokkuð fínn. Hann fjallar um af hverju fólk, og þá sérstaklega fjölmiðlar, heillast svona mikið af svartsýni.

Nokkuð góð grein í New York Times um breyttar siðgæðiskröfur til rithöfunda frá útgefendum.

Mér fannst þetta vera svakalega góð grein eftir Malcolm Gladwell um lögleiðingu maríjúana. Fékk mig til að hugsa tvisvar um þetta hitamál.

Hér eru ágætar skrifráðleggingar frá J.K. Rowling.

Þessi fína grein fer í ágætlega í saumana á verkum Nassim Taleb.

Frábær og ítarleg grein um bandaríska háskóla og af hverju þeir eru svona andskoti dýrir.

Hér er fjallað um nýja bók sem hefur að geyma verk eftir breska listmálarann Lucian Freud sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Annar höfunda þessarar bókar skrifaði líka kraftmikla bók um sama málara sem nefnist Man With a Blue Scarfog fjallar um það þegar hann sat fyrir á mynd eftir hann. Sú bók er ein allra besta bók sem ég hef lesið um myndlist – og ég hef lesið þær ansi margar.

Hér hefur snjall greinarhöfundur tekið saman gagnrýni um klassísk verk á Goodreads og komist að þeirri niðurstöðu að því lengri sem bækur eru – því betri séu þær.

Sálfræðingurinn Judith Rich Harris lést fyrir skömmu og af því tilefni tók gáfumannavefurinn Edge saman nokkrar greinar eftir hana og viðtöl við hana. Hér er mjög forvitnilegt viðtal við hana þar sem hún heldur því fram að foreldrar hafi lítil sem engin áhrif á börn sín.

Fann þessa mögnuðu frásögn frá ungum viðskiptablaðamanni sem glímdi við skæða heróínfíkn samhliða störfum sínum sem blaðamaður. (KF.)

Langar þig að lesa hnitmiðað yfirlit – að minnsta kosti nokkuð hnitmiðað – um fyrri heimsstyrjöldina? Þá er William T. Vollmann, sá yndislega ýkti og öfgakenndi höfundur, þinn maður.

Jón Bjarki Magnússon skrifar góða grein um dapurlega hlið á íslenskum leigumarkaði.
„Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins áætlar að á bilinu fimm til sjö þúsund manns haldi nú til í atvinnu- og iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þar af 860 börn. […] Atvinnu- og iðnaðarhverfi voru ekki hönnuð með íbúabyggð í huga og eru því almennt ekki hentug til búsetu.“

Rakst á þetta skemmtilega spjall, nokkurra mánaða gamalt, við teiknarann flinka, Elínu Elísabetu.

Maður sem starfað hefur árum saman sem penni hjá Sports Illustrated ekur nú á seinni hluta starfsferilisins sendibifreið á vegum Amazon. Tímanna tákn?
„Let’s face it, when you’re a college-educated 57-year-old slinging parcels for a living, something in your life has not gone according to plan.“

Og fyrst Amazon ber á góma: Ættum við öll að gefa skít í gamaldags bókaútgáfur og hverfa á náðir sjálfsútgáfu í faðmi Amazon-báknsins? Eru ritstjórar ekki brátt bara útdauð dýrategund og tilheyra gamaldags bókaforlög ekki eins fljótlega fortíðinni? Ég held ekki – en hitt er þó ljóst, að rithöfundar þurfa að hugsa og skipuleggja útgáfustarf með ólíkum hætti en áður.

Smásaga eftir ungan höfund, Maríu Elísabetu, en hún frumflytur annan hvern föstudag smásögu eða annan frumsaminn texta í morgunþættinum Múslí. (SN.)


Til að hlusta á:


Hér er áhugaverður þáttur af This American Life, „The Room of Requirement“, sem fjallar um bókasöfn. Í fyrsta hluta þáttarins er bókasafn eitt á landamærum Kanada og Bandaríkjanna tekið til umfjöllunar. Þetta er afar óvenjulegt bókasafn að því leytinu til að það tilheyrir, bókstaflega, tveimur löndum: landamærin kljúfa safnið í tvennt. Íranskir stúdentar í Bandaríkjunum hafa að undanförnu nýtt sér þetta safn í óvæntum tilgangi. Í öðrum hluta þáttarins er fjallað um The Richard Brautigan Library Project, sérkennilegt bókasafn sem sprettur beint út úr The Abortion, skáldsögu eftir Brautigan. Mjög skemmtilegt. Vinkona mín, Constance Parpoil, á heiðurinn að þessari fínu ábendingu.

Af netinu, 4. janúar 2019

Hér er listi sem Literary Hub tók saman um þær bækur sem höfundar þessa ágæta miðils bíða hvað spenntastir eftir á nýju ári.

Þessi grein geymir frábæra hugleiðingu um „bók framtíðarinnar“ og hvernig bækur hafa þróast í allt aðra átt en menn höfðu spáð fyrir um. Framtíðin er ekki endilega fólgin í rafbókum eða flóknum rafrænum framsetningum á rituðu máli heldur er hún fólgin í auðveldari útgáfu bóka í krafti internetsins. Höfundur greinarinnar lýsir þessu töluvert betur – hvet alla til að lesa.

Skemmtileg áramótahugleiðing frá George Dyson um hina „hliðrænu framtíð“. Svolítið flókið en vel lestursins virði. Hér er ágætur bútur úr greininni:
„The next revolution will be the ascent of analog systems over which the dominion of digital programming comes to an end. Nature’s answer to those who sought to control nature through programmable machines is to allow us to build machines whose nature is beyond programmable control.“

Bandaríski blaðamaðurinn David Brooks velur árlega úrval greina sem hann telur vera þær bestu á liðnu ári. Hér er samantekt hans fyrir árið 2018 en þar er að finna nokkrar greinar sem hafa ratað í Leslistann á árinu.

Nassim Taleb, vinur okkar, hefur oft skrifað um greindarvísitöluna og hversu lélegur mælikvarði slíkar mælingar eru á raunverulegar gáfur. Hann tók þetta saman í ágætri grein sem hann birti á Medium síðu sinni á dögunum.

Flott grein í London Review of Books um skoðanir ýmissa Evrópubúa á Brexit. Mun áhugaverðari skrif en kann að virðast við fyrstu sýn.

Hér er djúp og forvitnileg grein um framfaratrúna sem oft hefur verið til umræðu á þessum vettvangi.

Evan Spiegel, forstjóri Snapchat, ræddi nýlega við blaðamann Financial Times um stöðu og stefnu þessa sveiflukennda samfélagsmiðils.

Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku, skrifar hér góða hugleiðingu í áramótablaði Viðskiptablaðsins um spádómsgáfu greiningaraðila. (KF.)

Ég er með sólsting í Mexíkó og hef ekkert verið á internetinu í vikunni. Kem hins vegar tvíefldur til leiks hér að neðan. (SN.)

Af netinu, 28. desember 2018

Hér er skemmtileg grein um neikvæða gagnrýni og hvað skortur á slíkri gagnrýni getur verið skaðlegur.

Stórgott viðtal við vísindamanninn Laslo Barabasi sem hefur rannsakað ítarlega hvaða lögmál liggja að baki árangri í listum.

Financial Times tekur hér saman gagnlegar ráðleggingar um hvernig maður getur skapað sér meiri tíma til að lesa á komandi ári.

Falleg hugvekja til varnar letinni.

Hér eru gleðifréttir fyrir listunnendur. Höfundaréttur verður afnuminn af fjölda góðra verka árið 2019.

Hér er geggjað viðtal við Seamus Heaney þar sem hann fer yfir hvernig hann kennir fólki að skrifa. Góð lína hér:
“Poetry isn’t important in one sense — it’s more important to live your life and be a good person. Who cares about poetry, there’s plenty already around. Life is more important than art.” (KF.)

Ungur blaðamaður hjá The Spiegel skáldaði upp persónur, staðarlýsingar, atburði – og samstarfsfólk hans og lesendur gleyptu við bullinu. Fyrir hin skáldlegu skrif sín hlaut blaðamaðurinn ungi svo fjölda verðlauna. Hér er önnur úttekt á þessu skrítna máli.

Athyglisverð innsýn í líf manns sem selur maríúana til fastakúnna í New York-borg.

Nick Cave sendir út fréttabréf til aðdáenda sinna og glímir þar við dýpri spurningar en gengur og gerist hjá poppstjörnum. Mæli með bréfinu sem fjallar um ástvinamissi og sorg, og ekki síður þessu hér þar sem hann útskýrir hvers vegna hann kýs frekar að vera trúaður en trúlaus. (SN.)

Af netinu, 20. desember 2018

Þessi er líkleg til að vinna til verðlauna sem fallegasta grein ársins. Í henni segir kona söguna af því hvernig pabbi hennar, hefðbundinn úthverfapabbi, varð vinur körfuboltamannsins fræga, Charles Barkley.

The New York Times er hér með ágætan prófíl um sjónvarpsstjörnuna Ellen.

Michel Houllebecq fer hér lofsamlegum orðum um Trump. Við Sverrir erum sammála um að þetta sé hálfgert menntaskólaraus – en dæmi hver fyrir sig.

Hér er fantavel skrifuð og forvitnileg grein um fyrrum fanga sem stofnaði brauðgerð, varð moldríkur og missti svo vitið í kjölfarið.

Rambaði á þessa fínu greiningu Soffíu Auðar Birgisdóttur á stöðu bókmenntaumfjöllunar á vefritinu Skáld.is. Hún gekk einmitt í ráðuneyti Leslistans fyrir ekki svo löngu síðan.

Vísindamenn á sviði loftslagsmála virðast vera á einu máli um það að árið 536 hafi verið glataðasta ár allra tíma vegna eldfjalls sem gaus um það leyti. Hins vegar er deilt um hvort gosið hafi verið á Íslandi eða í Norður-Ameríku. Þeir sem hafa gaman af jöklarannsóknum, eldfjöllum og jarðfræði hafa gaman af þessari grein sem fjallar um málið.

Hér er líklega heiðarlegasti árslisti ársins. Nokkrir hafa hér tekið saman bestu bækurnar til að þykjast hafa lesið árið 2018.

Kanye West, vinur okkar, hefur mikið verið milli tannanna á fólki á árinu. Hérer sagt frá nýrri heimildarmynd um kauða sem varpar nýju ljósi á skrautlegan feril hans og einkalíf.

Hér er mjög forvitnileg grein úr veglegu jólablaði Economist um starfsumhverfi listamanna og ris nýrra „patróna“ með tilkomu vettvanga eins og Kickastarter og Patreon. Góð lína úr greininni:
„Writing in the 18th century, Edmund Burke described patronage as “the tribute that opulence owes to genius”. Today it is the spare change millennials pay podcasters.“

Frábær grein um hvernig internetið hefur breyst á síðustu árum frá írönskum bloggara sem var fangelsaður árið 2008 fyrir að blogga gegn ríkisstjórninni þar í landi og var leystur úr haldi árið 2014 þegar samfélagsmiðlar höfðu hertekið netheima. Nóg hefur reyndar verið skrifað um skaðsemi samfélagsmiðla og við höfum vísað í ýmsar greinar um það málefni, en mér fannst þetta mjög fersk nálgun. Merkilegt líka að greinin er þriggja ára gömul en er enn jafn viðeigandi. (KF.)

Elon Musk, ríka karlbarnið sem þráir að búa á Mars, er greinilega ekki geðþekkasti yfirmaður sem hægt er að hugsa sér.

Hér fær Fréttablaðið nokkra faglega álitsgjafa til að velja, með frekar snubbóttum rökstuðningi, fallegustu og ljótustu bókarkápur ársins. Eins finnst mér allt í lagi að sigta út það sem er fallegt – en til hvers að hæðast að því sem ekki þykir nógu vel gert?

Fyrir áhugafólk um glæpasögur og Agöthu Christie.

Uppáhalds-barnabókahöfundurinn minn, Tomi Ungerer, kveðst aldrei nota strokleður þegar hann teiknar. Spjall við franska dagblaðið Libération.

Ásgeir H. Ingólfsson er ötull í ljóðabókarýninni þetta haustið. Hér skrifar hann vandaða grein um Tregahandbókina eftir Magnús Sigurðsson. Hér er önnur um nýjustu ljóðabók Kristians Guttesen, Hrafnaklukkur; sú þriðja, um aðra ljóðabók Arngunnar Árnadóttur, Ský til að gleyma; og loks afar lofsamlegur dómur um Vistarverur Hauks Ingvarssonar.

Er heimurinn að farast? Tímaritið Nature tekur saman árið sem er að líða. (SN.)


Til að hlusta á:

Daniel Kahneman, einn virtasti sálfræðingur og fræðimaður samtímans, er hér í mjög forvitnilegu viðtali við Tyler Cowen. Fjallað er um atferlishagfræðina, fræðigreinina sem hann lagði grunninn að og einnig væntanlega bók eftir hann sem ég bíð mjög spenntur eftir. (KF.)

 

Af netinu, 14. desember 2018

Ég hafði til umfjöllunar á þessum vettvangi hina ágætu Factfulness eftir Hans Rosling um daginn. Þótti gaman að sjá að Viðskiptaráð hafði valið hana sem jólabók þeirra í ár. Hér er Hjálmar Gíslason að ræða bókina í skemmtilegu viðtali.

Nokkrum sinnum hef ég vísað á bandaríska sálfræðinginn Adam Grant og það sem hann skrifar. Hér er hann í viðtali um hvernig hann nálgast það að skrifa. Vek líka athygli á þessum miðli sem tekur hann í viðtal – Writing Routines. Þar eru ýmsir rithöfundar spurðir spjörunum úr um hvernig þeir vinna.

Hér er svo hinn sami Adam Grant með mjög góða grein um einkunnir og hvað þær skipta litlu máli í raunheimum.

Hér er ágæt grein þar sem vöngum er velt yfir stöðu bókaumfjöllunar og hvernig hún hefur breyst síðustu ár.

Ég hef lengi átt í ástar/haturssambandi við sjálfshjálparbækur. Finnst það vera miðill sem er í senn ótrúlega hallærislegur og undarlega aðlaðandi. Hér tekur hagfræðingurinn Tim Harford saman lista yfir sjálfshjálparbækur sem honum finnst virka.

Hér er mjög gagnrýninn og vandaður dómur um bókina The Undoing Project eftir stjörnurithöfundinn Michael Lewis sem fjallar um feður atferlishagfræðinnar, þá Daniel Kahneman og Amos Tversky. Þeir eru ákveðin átrúnaðargoð í mínum augum og þess vegna hollt og forvitnilegt fyrir mig að lesa þetta.

Dauða dagblaðsins hefur verið spáð í langan tíma og hann er greinilega orðinn raunverulegri erlendis en hér heima. Hér er ágæt grein sem fjallar um stöðu dagblaðanna í Bandaríkjunum.

Við hjá Leslistanum elskum alla leslista, sama hvaðan þeir koma. Hér er góður árslisti frá nokkrum vel völdum aðilum sem Bloomberg tekur saman yfir bestu bækur ársins. Nokkrar hafa verið til umfjöllunar á þessum vettvangi.

Mér fannst gaman að sjá að tveir ráðunautar Leslistans eru á langlista yfir þá sem eru tilnefndir til PEN verðlauna árið 2019. Þ.e. þýðingar á Sjón og Kristínu Svövu Tómasdóttur. (KF.)

Hér flytur fimmtán ára sænsk stúlka, Greta Thunberg, magnaða ræðu á COP24-ráðstefnunni í Póllandi. Hvers vegna ræða ekki fleiri um sjöttu útrýminguna, spyr Greta, og bætir því við að allt upp undir 200 dýrategundir deyi út á hverjum degi. Eins spyr hún hvers vegna henni beri að sækja nám í skóla til að búa sig undir framtíðina þegar enginn gerir nokkuð til að tryggja að hún eigi sér nokkra framtíð. Erfitt að hrífast ekki af svo skeleggri ungri stúlku.

Barnabækur – og skortur á umfjöllun um þær.

Snöfurmannlegur pabbi tekur til sinna ráða – og lýsir hér sex ára tímabili með „síma án truflana“.

Richard Brody, kvikmyndagagnrýnandi The New Yorker, velur bestu kvikmyndir ársins.

Ertu svartsýnn um framtíð mannsins á jörðinni, rotið eðli hans og ólæknandi sjálfelsku? Þá létta þessar rannsóknarniðurstöður sannarlega ekki lund þína. (Mest sláandi fannst mér að flestir karlmenn kjósa frekar að veita sjálfum sér rafstuð en að verja fimmtán mínútum í kyrrlátri íhugun!)

Afar nösk og áhugaverð greining á nýjustu bók Johns Gray, Sjö tegundir af trúleysi. Ég gríp niður í textann:
„Seduced by scientism, distracted by materialism, insulated, like no humans before us, from the vicissitudes of sickness and the ubiquity of early death, the post-Christian West believes instead in something we have called progress — a gradual ascent of mankind toward reason, peace, and prosperity — as a substitute in many ways for our previous monotheism. We have constructed a capitalist system that turns individual selfishness into a collective asset and showers us with earthly goods; we have leveraged science for our own health and comfort. Our ability to extend this material bonanza to more and more people is how we define progress; and progress is what we call meaning. In this respect, Steven Pinker is one of the most religious writers I’ve ever admired. His faith in reason is as complete as any fundamentalist’s belief in God.“

Gulu vestin í Frakklandi vilja sporna við loftslagsbreytingum. Þeim finnast frönsk stjórnvöld bara ekki setja fram nógu róttæka aðgerðaráætlun – og súrt í broti að það sé, líkt og endranær, almenningur (og hinir efnaminnstu) sem standa eiga straum af samfélagsbreytingunum, frekar en hinir auðugustu.

Jónas Reynir, rithöfundur, flutti skemmtilegt hátíðarávarp yfir menntskælingum á Egilstöðum.

Og svo eru það bóksalaverðlaunin 2018. (SN.)


Til að hlusta á:


Athyglisvert hlaðvarp hjá The Guardian. Heimspekingur rekur hugmyndir sem upprunnar eru í öðrum heimshlutum en Vesturlöndum.

Ragnar Helgi Ólafsson, höfundur Bókasafns föður míns, rabbar við Jórunni Sigurðardóttur í Orðum um bækur. (SN.)

Af netinu, 7. desember 2018

Tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna voru tilkynntar í vikunni. Tilnefningar í flokki fagurbókmennta voru vægast sagt … fyrirsjáanlegar. Mætti ekki hætta sér út úr hinum lygna meginstraumi á næsta ári?

Talandi um íslenskar bókmenntir: Svikaskáldin góðu fjalla á skemmtilegan hátt um nýjar íslenskar bækur á Facebook-síðu sinni.

„22 September 1962: Ted [Hughes] beat me up physically a couple of days before my miscarriage: the baby I lost was due to be born on his birthday.“
Út er komið safn með bréfaskrifum Silviu Plath. Hér er fjallað um útgáfuna í The Times Literary Supplement. (SN.)

New York Times hefur tekið saman lista yfir 10 bestu bækur ársins.

Og bókavefurinn Millions hefur tekið saman árið 2018 í bókalestri.

Svo er hérna annar góður listi. Það er listi frá Literary Hub yfir mest seldu bækur síðastliðinna 100 ára. Alveg sérstaklega eftirtektarvert hvað margir metsöluhöfundar fyrri ára hafa fallið í gleymskunnar dá.

Blaðamaðurinn Jason Zweig tekur hér saman ráðleggingar um skrif í þremur góðum og gagnlegum greinum. Fróðleg og skemmtileg yfirferð.

Heimspekingurinn John Gray spjallar við Rowan Williams um trú og trúleysi. Stórskemmtileg lesning frá upphafi til enda. Hnaut um eftirfarandi setningu sem rammar skemmtilega inn hugmyndir Gray um trúleysi:
„Most of the central traditions of atheism have been a continuation of monotheism by other means. Certain beliefs are rejected but the way of thinking that monotheism embodies can still go on in other ways. For example, pretty well all contemporary atheists subscribe to a view of the world in which humankind has some of the functions of the deity that they’ve got rid of, because they imagine that there’s something you could call humanity or humankind that acts as a sort of collective moral agent.“

Áfram um trúmál. Við höfum nokkrum sinnum hlekkjað í pistla vinar okkar, Halldórs Armand, á þessum vettvangi. Nýjasti pistillinn fjallar með beinum og óbeinum hætti um hið ríka erindi sem kristin hugmyndafræði á við okkar samtíma, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Mæli með þessum pistli – og öllum öðrum pistlum eftir hann. (KF.)

Hér eru skemmtilegar vangaveltur um eina af mínum uppáhalds bókabúðum – Strand í New York.

Svo eru hérna mjög gagnlegar ráðleggingar um hvernig maður á að vinna í skapandi verkefnum samhliða fullu starfi. (KF.)

Skordýrin eru að hverfa. Hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur hin?

Einhvers staðar las ég að 95% mannkyns andi dagsdaglega að sér lofti sem sé heilsuspillandi. Hér segir að loftmengun stytti líf okkar meira en nokkur annar áhrifavaldur.

Skemmtileg grein um hinn frábæra höfund og myndlistarmann Edward Gorey í The New Yorker. Tilefnið er ný ævisaga um Gorey, raunar sú fyrsta sem rituð er um hann – og alls ekki hnökralaus ef marka má yfirferð greinarhöfundar. (SN.)


Til að hlusta á:

Ég rakst á nýtt hlaðvarp, Library Talks, sem haldið er úti af The New York Public Library. Mjög skemmtilegt. Ekki spillir að í þættinum, sem ég hlustaði á, var rabbað við hinn ágæta John McPhee. Nýlega kom út bók með safni fyrri skrifa hans, The Patch, sem hlotið hefur góðar viðtökur. McPhee er allt að því goðsagnakenndur penni innan herbúða The New Yorker og af mörgum talinn einn mesti nonfikstjón-höfundur Bandaríkjanna á síðustu öld. Ég mæli með Draft nr. 4 fyrir þá sem hafa áhuga á hvers kyns ritstörfum.

Af netinu, 30. nóvember 2018

„Í nýútgefinni skýrslu alþjóðlegu dýraverndarsamtakanna WWF eru tölurnar sláandi, 60% af dýralífi jarðar hafa horfið á síðustu 45 árum.“
Snorri Sigurðsson skrifar um neyðarkall náttúrunnar. (SN.)

Brynhildur Bolladóttir benti mér nýlega á virkilega vandaðan prófíl um Lenu Dunham, höfund sjónvarpsþáttanna vinsælu Girls. Mér er alltaf minnistætt þegar hún sagði í fyrsta þætti þeirrar þáttaraðar: „Ég held að ég sé rödd minnar kynslóðar … eða rödd einhverrar kynslóðar“. Hvort sem manni líkar það vel eða illa þá held ég samt að hún sé að mörgu leyti holdgervingur minnar kynslóðar (eða einhverrar kynslóðar ef út í það er farið). Þetta er með betri prófílum sem ég hef lesið. Greinarhöfundur virðist mála mjög sanna mynd af Dunham.

Áfram um vinsæla sjónvarpsþætti. Ég hef horft á nokkra þætti af Silicon Valleyog haft gaman af. Hér lofar Bill Gates sjónvarpsþættina á bloggsíðu sinni. Gaman af þessu.

Fannst skemmtilegt að sjá umfjöllun Atlas Obscura um þrjár bækur sem eiga það allar sameiginlegt að fjalla um bókasöfn.

Tyler Cowen, uppáhalds bloggarinn minn, birtir árlega lista yfir bestu bækur ársins. Hér er topplistinn hans yfir skáldverk og hér er topplistinn yfir óskálduð verk (e. non-fiction). Ýmsar bækur á þessum listum hafa verið til umfjöllunar á þessum vettvangi.

Nú er tími árslista og við Leslistamenn fögnum því. Hér velja gagnrýnendur Financial Times bestu bækur ársins

Hér er svo listi yfir fimm bestu hagfræðibækur ársins. Hafði ekkert heyrt um þessar bækur fyrr en ég sá þennan lista, en þær lofa ansi góðu.

Ein besta leiðin til að skerpa hugann er að leggja það í vana sinn að lesa daglega og að skrifa daglega. Morgan Housel, fjármálapenni sem ég mæli oft með, tekur í sama streng í góðri grein.

Ég hef mjög litla þekkingu á málefnum trans-fólks (veit t.d. ekki hvort ég sé að nota rétt hugtak núna) en mér fannst alveg hreint svakalegt að lesa þessa frásögn í New York Times þar sem transmanneskja skrifar ítarlega um umbreytingarferlið. (KF.)

„Einn af síðri fylgifiskum þess sem er kallað ídentítetspólitík er ákveðin tilhneiging til þess að líta fyrst til þess hver segir eitthvað og láta það síðan vega furðu þungt þegar lagt er mat á það sem viðkomandi segir. Við stillum tortryggninemana og viðkvæmni þeirra eftir þessu. Þetta er slæm pólitík af ótal ástæðum.“
Eiríkur Örn Norðdahl í viðtali við Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur, tilefnið nýútkomin skáldsaga Eiríks, Hans Blær. Úr nýjasta tölublaði Tímarits Máls & menningar.

Langar þig að sjá bókaskáp Gyrðis Elíassonar?

Í nýjasta tölublaði New Yorker rifjar ritstjórn þess upp gömul, klassísk skrif – hér er til dæmis mögnuð grein frá einum kraftmesta höfundi Bandaríkjana á 20. öld, James Baldwin.

Skýr myndræn útlistun á því hvernig loftslagið á jörðinni mun þróast eftir því hversu stóra skammta af koltvísýringi við losum út í andrúmsloftið á næstu áratugum.

Soffía Auður Birgisdóttir skrifar um Ungfrú Ísland, nýjustu skáldsögu Auðar Övu.

„[…] heimurinn horfist nú í augu við takmörk sín, öll ytri umsvif eiga fyrir höndum að skreppa saman, sá lífs- og neyslumáti sem enn viðgengst á eftir að þykja fáránlegur, glæpsamlegur jafnvel. Að sama skapi mun hið innra vaxa, innlöndin, sköpunin, upplifunin, tjáningin – vistsporið á eftir að grynnka, listsporið að dýpka.“
Frábær hugleiðing eftir Pétur Gunnarsson, um starfslaun listamanna.

Bókmenntaborgin heldur úti vef, fyrir þá sem vilja fylgjast með umfjöllun um ný íslensk skáldverk. (SN.)

Til að hlusta á:

Ég þaut í gegnum Schulz and Peanuts eftir David Michaelis á hljóðbók. Mér fannst gaman að kynnast Charles Schulz betur, eða Sparky, eins og hann var jafnan kallaður, höfundi einnar þekktustu (og virtustu) myndasögusyrpu allra tíma. Sparky krafðist þess alla tíð að hann væri bara sáravenjulegur náungi, alls engin intellektúal, en það var augsýnilega ekki rétt. Og ekki var hann beint mjög hamingjusamur. Ævisagan rekur sögu hans og fjölskyldu allt frá fyrstu stigum til þeirra síðustu – og lygilegu príli teiknihöfundarins upp á tind frægðar og stjarnfræðilegra auðæva. Hér er umfjöllun um bókina í The New York Times. (SN.)