Af netinu, 16. nóvember 2018

Don DeLillo, einn virtasti skáldsagnahöfundur Bandaríkjanna, er að skrifa bóksem gerist í framtíðinni. Hann ferðast þó ekki langt fram í tímann í skrifum sínum að þessu sinni heldur aðeins um þrjú ár. „I’m not trying to imagine the future in the usual terms. I’m trying to imagine what has been torn apart and what can be put back together, and I don’t know the answer.“

Skemmtilegt viðtal við Hallgrím Helgason um nýju skáldsöguna hans. Lestursins virði, einkum vegna allra orðanna/nýyrðanna sem fæðast jafnóðum á vörum höfundarins: „innanfróð“, „flettiorka“, „feigðarfagurt fyllimenni“.

„It is not remotely implausible that in the near future, a tremendous amount of communication could be conducted in tandem with an A.I.“ Kannski verður Leslistinn brátt tekinn saman og skrifaður af gervigreind? Muntu taka eftir breytingunni þegar það gerist, kæri lesandi?

Heimurinn er að farast og flest okkar eru furðu róleg yfir því. Ekki þó samtökin Extinction Rebellion í Bretlandi.

George Monbiot skrifar um ofannefnd samtök, Extincton Rebellion, og veltir fyrir sér hvers vegna það gangi svo hægt að skipta um orkugjafa og stemma stigu við frekari hamförum. „The oligarchic control of wealth, politics, media and public discourse explains the comprehensive institutional failure now pushing us towards disaster. Think of Donald Trump and his cabinet of multi-millionaires; the influence of the Koch brothers in funding rightwing organisations; the Murdoch empire and its massive contribution to climate science denial; or the oil and motor companies whose lobbying prevents a faster shift to new technologies.“

Íslendingar láta sig einnig umhverfismálin varða. Hér heldur Andri Snær um pennann. (SN.)

Móðir mín er farin að skrifa reglulega pistla í Kjarnann um kynlegan fróðleik. Hér er nýjasti pistillinn hennar, sem fjallar um sköpunarsöguna. Mæli mikið með þessu!

Og talandi um kynlegan fróðleik. Hér er forvitnilegt viðtal við Camille Paglia.

Það þekkja fáir danska heimspekinginn Sören Kierkegaard jafn vel og hann Guðmundur Björn Þorbjörnsson (sem var einmitt fyrsti Ráðunautur Leslistans). Hann benti okkur nýlega á flotta grein um Kierkegaard og mikilvægi hans í netheimum. Þökkum Guðmundi kærlega fyrir ábendinguna.

Ég er nokkuð viss um að Edge.org sé gáfulegasta síðan á internetinu. Á henni birtast reglulega viðtöl við alls konar gáfumenni sem rista verulega djúpt. Þetta spjall við mannfræðinginn Mary Catherine Bateson er eitt þeirra. Í því fjallar hún um hvað okkur skortir almennt kerfishugsun (slæm þýðing mín á hugtakinu systems thinking). Hér er ein góð lína frá henni: „The tragedy of the cybernetic revolution, which had two phases, the computer science side and the systems theory side, has been the neglect of the systems theory side of it. We chose marketable gadgets in preference to a deeper understanding of the world we live in.“

Hér er ágætur langlisti yfir bestu viðskiptabækur ársins að mati 800-CEO READ (sem hljómar eins og símanúmer sem ég gæti hugsað mér að hringja í).

Fáir hafa greint þjóðernishyggju með jafn ítarlegum og gáfulegum hætti og Isaiah Berlin. Hér er ágæt grein í Foreign Policy sem fjallar um skrif Berlin um þjóðernishyggju og það ríka erindi sem sú greining á í dag. Hér er góð lína frá Berlin sjálfum sem rammar hugmyndir hans ágætlega inn: „Few things have done more harm than the belief on the part of individuals or groups (or tribes or states or nations or churches) that he or she or they are in sole possession of the truth.“

Frábær grein eftir John Gray, lærisvein Berlin, um það hvernig þvagskál Duchamp er ein sterkasta tákmynd hins frjálslynda vesturs.

Ég hef lengi lesið Farnam Street bloggið, og oft vísað á það á þessum vettvangi. Það er rekið af hinum kanadíska Shane Parrish. New York Times fjallaði nýlega um kauða og dregur upp fína mynd af honum.

Hér er skemmtileg grein í Guardain um „erfiðar“ bækur og af hverju þær eru mikilvægar.

Þessi skýrsla fjallar um helstu áhugamál mín – bækur og tölfræði. Hér eru tekin saman gögn um lestur fólks, þ.e. hversu margir klára tilteknar bækur. Áhugaverð samantekt – þótt gögnin vísi eingöngu til rafbóka. (KF.)

Tveir þekktir höfundar, Raymond Chandler og Ian Fleming, hittust einu sinnitil að ræða saman um spennusöguna…

Tim Parks skrifar um Leopardi, ítalska skáldið sem var krypplað af bogri yfir bókum. (SN.)

 

Til að hlusta á:

Sverrir spjallaði við Jórunni Sigurðardóttur í þættinum Orð um bækur. Aðrir gestir voru Fríða Ísberg og Haukur Ingvarsson. (SN.)

Ég hlustaði nýlega á virkilega forvitnilegt viðtal við uppeldissérfræðinginn Barböru Coloroso um hvernig maður á að ala upp ábyrg og hamingjusöm börn. Sá sem tekur viðtalið er áðurnefndur Shane Parrish sem heldur úti skemmtilegu hlaðvarpi sem nefnist The Knowledge Project.  (KF.)

Af netinu, 9. nóvember 2018

Við fengum ábendingu frá Jóhanni Helga Heiðdal en hann skrifaði nýlega grein um Ísland, Nato og kjarnavopn. Þökkum honum kærlega fyrir ábendinguna.

Anna Pigott heldur því hér fram að mannkynið þurfi ekki að stráfella lífríki jarðar, eins og við gerum nú, heldur sé við ráðandi samfélagskerfi okkar að sakast: kapítalismann.

Starafugl birtir brot úr Stormskeri – fólkið sem fangaði vindinn, nýjustu bók Birkis Blæs Ingólfssonar, en fyrir hana fékk hann Íslensku barnabókaverðlaunin nú á dögunum. (SN.)

Mér fannst þessi grein eftir hagfræðinginn Eirík Ragnarsson um Evruna helvíti fín. Góð greining á mannamáli – sem er býsna sjaldgæft á meðal hagfræðinga, því miður.

Ég hef haft miklar mætur á því sem Scott Adams, höfundur Dilbert teiknimyndasagnanna, hefur skrifað í gegnum tíðina. Upp á síðkastið hefur hann öðlast frægð að nýju eftir að hann spáði því réttilega að Donald Trump myndi sigra forsetakosningarnar. Hann er enginn stuðningsmaður Trump en hann bendir (að mínu mati réttilega) á að Trump hefur alveg ótrúlegan sannfæringarmátt og að það hafi verið sá kraftur sem tryggði honum forsetastólinn. Hér er Adams í skemmtilegu viðtali þar sem hann ræðir m.a. um Trump.

Magnea Guðmundsdóttir, arkitekt, skrifar hér flotta grein um nýjan miðbæjarkjarna á Selfossi. Yfirveguð og góð greining á þessu skrítna máli.

Hér færir blaðamaður hjá tónlistarmiðlinum Pitchfork ágætis rök fyrir því að rapparinn Old Dirty Bastard úr Wu Tang Clan hefði verið stórstjarna í dag ef hann væri á lífi. (KF.)

Götustrákur í Reykjavík – um Hasim Ægi Khan, aðalviðfangsefni nýrrar bókar eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur.

Viðar Hreinsson ritar um Hvalárvirkjun – og samband okkar við náttúruna.

Gauti Kristmannsson fjallar um nýútkomna þýðingu á Víti eftir Dante. (SN.)

Af netinu, 2. nóvember 2018

Þetta er frábær grein um listsköpun og peninga. Fíllinn í herberginu, þegar kemur að því að fólk hafi ráðrúm til að búa til list, er einmitt sá að fjárstuðningur þarf að vera fyrir hendi og það eru jafnan foreldrar listamanna sem borga brúsann.

Og talandi um foreldra. Móðir mín skrifar hér geggjaða grein í Kjarnanum þar sem hún fer yfir „kynlegan fróðleik um menn“.

Mig langaði að vekja athygli á því að Nýlistasafnið er að fara af stað með skemmtilegt verkefni. Þar er nýbúið að stofna lestrarfélag sem kemur til með að hittast á vel völdum fimmtudagskvöldum til að ræða áhugaverðar greinar eða bókakafla. Fyrsta kvöldið er í næstu viku en hér er hægt að finna frekari upplýsingar.

Hér er viðtal við Susan Orlean um nýju bókina hennar, sem fjallar um bókasöfn. Mér finnst í raun bara áhugavert út af fyrir sig að það sé verið að gefa út bækur um bókasöfn.

Starf bóksalans er ekki jafn rómantískt og það virðist í fyrstu – í hið minnsta skv. þessari grein. Hún er ekki fyrir viðkvæma, enda koma ógeðfelldir líkamsvessar við sögu.

Yuval Noah Harari, höfundur Sapiens og eitt vinsælasta gáfumenni samtímans, mælir hér með bókum sem hafa haft mikil áhrif á hann.

Talandi um bókameðmæli, þá er hér skemmtileg samantekt frá handahófskenndum gáfumönnum um áhrifamestu bækur síðustu 20 ára.

Morgan Housel skrifar hér mjög mikilvæga hugleiðingu um „brjálaðar“ ákvarðanir. Eins og t.d. þá að kaupa gommu af lottómiðum þegar maður er fátækur. (KF.)

Ágúst Borgþór Sverrisson ritar rýni um nýjustu skáldsögu Gyrðis Elíassonar, Sorgarmarsinn.

Skemmtileg grein í Bókaskáp Ástu um þekkta bókmenntaritstjóra, skrifuð af því tilefni að einn af helstu samtímaritstjórum okkar Íslendinga, Sigþrúður Gunnarsdóttir, flutti nýlega erindi um bókaritstjórn á vegum Félags íslenskra fræða. Erindið byggðist á meistararitgerð hennar.

George Monbiot skefur ekki utan af hlutunum þegar hann skrifar um neysluvenjur okkar Vesturlandabúa.

Og hér er svo ein fyrir þá sem fá bara ekki nóg af Elenu Ferrante – hver svo sem hún annars er. (SN.)

Af netinu, 26. október 2018

Hér er alveg merkilega ítarleg grein um byggingu háhýsa í áranna rás og því velt upp hvort einhver framþróun hefur orðið á því sviði.

Hvað eru góðir litir? Höfundur þessarar ágætu bloggfærslu reynir að svara þeirri spurningu og tekst nokkuð vel til.

G.K. Chesterton var eins konar spakmælavél. Allt sem ég hef lesið eftir hann er skemmtilegt og hnyttið. Flestir minnast hans fyrir að hafa samið Father Brown-bókaflokkinn og jafnframt fyrir eina af mínum uppáhalds skáldsögum, The Man Who Was ThursdayHér dregur fjármálablaðamaðurinn Jason Zweig saman viskukorn frá Chesterton og tengir við fjármálaheiminn. Góð hugleiðing.

Fínt greinarkorn frá frumkvöðlinum Paul Graham, stofnanda Y-Combinator, sem ég sá deilt einhvers staðar á Twitter um daginn. Mæli með því að skoða greinarnar hans sem eru jafnan býsna umhugsunarverðar.

Hér er ítarleg umfjöllun um vellauðug hjón í Kanada sem voru myrt undir lok síðasta árs. Málið er enn óleyst og vekur upp ýmsar spurningar. (KF.)

Fílar hafa löngum verið í uppáhaldi hjá mér og heillað mig á einhvern sérkennilegan hátt sem fæst önnur dýr (eða menn) gera. (Ég mæli í því samhengi með bók sem ég hef áður imprað á hér: Beyond Words eftir Carl Safina.) Í þessari grein eru færð fyrir því rök að fílar hafi skýra sjálfsvitund, ekki svo ýkja ólíkt okkur mönnunum. „I believe it’s possible that elephants have all the cognitive and emotional capacities it takes to be persons. I’m not claiming they belong to the species Homo sapiens, obviously: rather, I mean they might have the potential to deserve the label ‘person’ in recognition of their particular status or identity.“ Ég staldraði sérstaklega við lýsingar á fílum sem eiga erfiða æsku og verða fyrir vikið ofbeldisfullir og óstöðugir á unglings- og fullorðinsárum. Kunnuglegt? (SN.)

Seðlabankinn gaf í vikunni út nýja skýrslu um fjármálastöðugleika landsins sem nefnist … Fjármálastöðugleiki. Þetta er án gríns uppáhalds tímaritið mitt.

Æðislegur prófíll um Tyler the Creator, tónlistarmann sem hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Hér er lýsing á honum úr viðtalinu sem er mjög góð: “He’s a human fidget spinner, and a prolific artist with a keen attention to detail. He’s a provocateur who gleefully shares his favorite YouTube clip of an anaconda eating a vomiting dog, and an asthmatic with a dog allergy who can’t help but pet the nearest puppy. He’s an artist banned in the U.K., in part, because of homophobic lyrics, and yet he has an increasingly open penchant for men himself.” Hér er svo gott nýlegt lag með honum og A$ap Rocky.

Benedikt Jóhannesson benti okkur á að hann skrifaði grein um ljóðabók eftir Völu Hafstað á vefsvæði sínu. Við þökkum honum fyrir ábendinguna.

Flestar spár um framtíðina eru dæmdar til að reynast rangar, sér í lagi vegna þess að við vanmetum hvað það breytist lítið í raun og veru í áranna rás, auk þess sem við vanmetum breytingar í samfélagsgerðinni. Spár um skrifstofur framtíðarinnar frá fyrri hluta síðustu aldar gerðu ekki ráð fyrir einni einustu konu á vinnustaðnum, svo dæmi sé tekið. Þessi fína grein fjallar um einmitt þetta.

Rambaði á þessa fínu síðu um stjórnmálabækur á vegum stjórnmálavefsins Real Clear Politics.

Sá þessa fáránlega ítarlegu grein um svefn og svefnvenjur. Veit ekki hversu mikið mark maður á að taka á þessu en ég tek hattinn að ofan fyrir þeim sem skrifaði þetta fyrir mikla rannsóknarvinnu.

Hér er vönduð umfjöllun um hagvöxt og tekjujöfnuð. Í henni er farið í saumana á þeirri fullyrðingu að hagvöxtur síðustu áratuga hafi aðeins gagnast þeim efnamestu og skilið þá fátæku eftir með sárt ennið. Gögnin segja aðra sögu að mati greinarhöfundar. Það væri skemmtilegra ef svona vandaðar greinar væru skrifaðar í kringum t.d. núverandi kjarabaráttu. (KF.)

Nicholas Carr, sem ritað hefur umhugsunarverðar bækur um Internetið og tækniblæti samtímans, meðal annars hina fínu The Shallows, birtir hér greinarkorn þar sem hann bendir okkur á að nálgast tæknina á skeftískan hátt og taka yfirlýsingum útsendara tækninnar (sem eru yfirleitt fyrst og síðast bissnessmenn sem hagnast ótæpilega á því hversu háð við erum orðin söluvörum þeirra) með hæfilegum fyrirvara. (SN.)

Af netinu, 19. október 2018

Fólk virðist í dag lesa töluvert meira en það hefur áður gert í krafti tækninnar en lesturinn er orðinn brotakenndari. Í bókinni Reader, Come Home eru færð rök fyrir því að fólk nú til dags sé farið að glata þeirri gáfu að geta lesið lengri texta af einbeitingu. Þessi grein fjallar um þessa áhugaverðu bók.

Hefur þig ekki alltaf langað til að vita hvað Tina Turner les sér til dægradvalar? New York Times er búið að afhjúpa það í þessu stutta viðtali.

Jaron Lanier færir í fínu viðtali sannfærandi rök fyrir því að við ættum að sniðganga samfélagsmiðla.

Stundum væri ég til í að eiga svona körfuboltaspjöld, nema að í stað körfuboltaleikmanna væru heimspekingar og önnur gáfumenni. Þá myndi ég eiga gyllt spjald með mynd af Isaiah Berlin. Hér er góð yfirlitsgrein um hann í Times Literary Supplement í ágætum dálki þeirra um þekkta hugsuði. (KF.)

Þjóðskjalasafn Íslands heldur úti syrpu sem nefnist „Heimild mánaðarins“, þar sem sígrúskandi sagnfræðingar vekja athygli á starfsemi safnsins og skrifa skemmtileg greinarkorn um eitthvað sem vakið hefur athygli þeirra. Heiðar Lind Hansson skrifar hér kostulega lýsingu um hrakfarir Óla norska, sem lenti í því óláni að treflinum hans var stolið með bíræfnum hætti.

Ragnar Jónasson veltir vöngum yfir framtíð íslenskunnar – og það vitaskuld á ensku, í The Guardian. (SN.)

Cy Twombly er einn af mínum uppáhalds málurum. Í þessari fínu grein er farið yfir skrautlegt einkalíf hans.

Mér þótti gaman að sjá þennan lista yfir 10 áhugaverða skandínavíska samtímalistamenn. Þar er að finna nokkra flotta íslenska fulltrúa.

Því hefur oft verið haldið fram að fyrsti abstraktmálarinn hafi verið Vasily Kandinsky. Í þessari grein er hins vegar fullyrt að fyrsti abstraktmálarinn hafi verið hin sænska Hilma af Klint. Hana þekkti ég mjög takmarkað og hafði því mjög gaman af þessari grein.

Hagstofan ber saman, í virkilega áhugaverðri grein, útgjöld heimila fullveldisárið 1918 og í ár. Hvað haldið þið t.d. að kíló af kartöflum hafi kostað fyrir 100 árum á nútímaverðlagi?

Hér eru tekin saman nokkur ágæt ráð til að koma hlutunum í verk og takmarka frestunaráráttu. Alltaf gott að lesa svona greinar þegar maður er að fresta stórum verkefnum.

Paul Allen, einn stofnenda Microsoft, lést fyrir nokkrum dögum. Hér er falleg minningargrein um hann eftir samstarfsmann hans til margra ára, Bill Gates. (KF.)

 

Til að hlusta á:

Joan Baez leit inn í spjall hjá David Remnick, í The New Yorker Radio Hour. Hún flutti einnig tvö lög – og þvílíkur flutningur! (SN.)

Spekingarnir og fjárfestarnir Nassim Taleb og Naval Ravinkat spjalla hér saman um heima og geima. Mæli mikið með þessu.

Heimspekistjarnan John Gray var á dögunum í viðtali við hagfræðinginn Russ Roberts sem heldur úti uppáhaldshlaðvarpinu mínu, Econtalk. Veit ekki hvort þið, kæru lesendur, eruð jafn spenntir fyrir þessu og ég, en jólin komu snemma í ár í mínu tilviki. Gray ræðir í viðtalinu nýju bókina sína, Seven Types of Atheism, sem fjallar um margar gerðir trúleysis. Svo fer hann yfir grundvallarspeki sína sem snýst í grófum dráttum um það að mannkynið þróist ekkert endilega til betri eða verri vegar.

Ofannefndur Heiðar Lind deildi á Facebook ágætu viðtali við yfirmann sinn, þjóðskjalavörð, um störf Þjóðskjalasafnsins. Það endaði á því að verða forvitnilegra en ég bjóst við. (KF.)

Af netinu, 12. október 2018

Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna gefur út og kynnir skýrslu um horfurnar á jörðinni næstu áratugi.

Bill McKibben kveður Trump og kóna hans hafa fullan skilning á þeim hörmungum sem skýrslan boðar – en að þeim sé einfaldlega alveg sama.

Og svo ættu hinir allra huguðustu einnig að lesa þessa hér. (SN.)

Robert Caro hefur borið á góma nokkrum sinnum á þessum vettvangi. Hann er einfaldlega einn besti núlifandi ævisagnahöfundurinn. Hér eru tekin saman nokkur skrifráð frá honum sem mér fannst býsna gagnleg. Góður bútur hér:“Most biographers give you fact after fact. Caro gives you image after image.”

Ný rannsókn staðfestir það sem áskrifendur Leslistans hafa reyndar alltaf vitað: Börn, sem alast upp á heimilum sem eru full af bókum, eru klárari en önnur börn.

Ég talaði aðeins í síðasta lista um nýja ljóðabók sem er væntanleg eftir Leonard Cohen. Þar vék ég að því að hann hefði skrifað stutt ljóð um Ísland. Svo les ég þessa áhugaverðu frétt um að hann skrifaði líka ljóð um Kanye West. Ég er enn að melta þetta.

Stöntið hjá huldulistamanninum Banksy hjá uppboðshúsinu Sotheby’s um daginn fór líklega ekki fram hjá neinum. Blaðamaður New York Times fer héraðeins yfir málið og bendir, réttilega, á að gjörningurinn er líklegur til að auka verðmæti listaverksins, þrátt fyrir að það sé tæknilega séð eyðilagt. Bendið mér á annan markað þar sem slíkt gæti gengið eftir. [Svo kemur í ljós, eftir að ég hafði skrifað þetta, að kaupandi verksins hefur ákveðið að gangast við kaupunum og að Banksy hefur endurskýrt það „Love is in the Bin“. You can’t make this shit up, eins og skáldið sagði.]

Fín hugvekja í Guardian um skortinn á kvenkyns arkitektum og hvernig sá skortur hefur áhrif á nærumhverfi okkar.

Rambaði á þessa ágætu hagfræðiritgerð sem nýtir gögn frá Meniga til að leggja mat á það undir hvaða kringumstæðum fólk notast við skammtímalán (kreditkort) og hvernig gögnin koma heim og saman við kenningarnar. Í ljós kemur að kenningarnar eiga litla stoð við raunveruleikann, eins og svo oft áður.

Önnur skemmtileg rannsókn hér á ferð. Í henni er gefið í skyn að fólk sem fílar raunsæja list er hrifnara af Brexit.

Það er vandasamt verkefni að skrifa myndlistargagnrýni sem er bæði skýr og áhugaverð. Í þessari fínu rýni á Starafugli tekst höfundi ágætlega upp.

Vinir okkar hjá Five Books tóku nýlega viðtal við formann dómnefndar hjá Baillie Gifford Prize sem veita verðlaun fyrir bestu óskálduðu (e. nonfiction) bók ársins. Hafði aldrei heyrt um þessar bækur áður, fannst listinn því áhugaverður.

Fyrir þá sem hafa áhuga á viðskiptum og efnahagsmálum þá er þetta stóra viðtalvið Cliff Asness, stofnanda AQR Capital, virkilega áhugavert. (KF.)

 

Til að hlusta á:

Magnað viðtal við Chris Hedges í Open Source, um Bandaríkin í dag. Ég stóð stjarfur við uppvaskið og hlustaði í hálftíma án þess að hreyfa mig. Við lifum sennilega ekki mjög vitsmunalega tíma – fjölmiðlaumfjöllun versnar; háskólar breytast í starfsþjálfunarstöðvar fyrir fyrirtæki; þvert á áeggjanir vísindamanna höldum við áfram að eitra plánetuna okkar – og þess vegna sæki ég svo mikinn styrk í að heyra gáfað og góðhjartað fólk tala og lýsa heiminum. Að heyra í slíku fólki er eins og að anda að sér súrefni – og Chris Hedges er ein nýjasta uppgötvunin. Niðurlag þáttarins er tilfinningaþrungið og sterkt. (SN.)

Sá skemmtilegt viðtal við sjóðstjóra lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna í Nevada í Kveik í vikunni. Hann er einmitt þekktur fyrir að gera sem allra minnst og ráðstafa fjármagni fyrst og fremst í vísitölusjóði. Ég minnist þess einmitt að hafa lesið skemmtilega grein um þennan mann fyrir nokkrum árum síðan. Gaman að RÚV skildi fara þessa leið og bera saman við íslensku lífeyrissjóðina. Þeim til varnar má reyndar minnast á að meginþorri erlendra fjárfestinga íslensku lífeyrissjóðanna er einmitt varið í slíka vísitölusjóði og að það eru yfirleitt ekki margir starfsmenn á fjárfestingasviði íslenskra lífeyrissjóða. En það má alveg velta því fyrir sér af hverju þeir eru svona margir. (KF.)

Af netinu, 5. október 2018

Langar þig að vita sannleikann að baki því hvernig Donald Trump varð ríkur? Í meira en ár hafa blaðamenn The New York Times legið yfir skattskýrslum föður hans og öðrum gögnum sem tengjast Trump-fjölskyldunni. Eitt er ljóst: Trump er sannarlega ekki sá „self-made man “ sem hann kveðst vera.

Frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Er þetta nógu vel hugsað? Kannski væri nær að taka Norðmenn sér til fyrirmyndar? Stofna sjóð sem kaupir bækur í vissu magni af útgefendum og tryggir að þær séu aðgengilegar lesendum, jafnt börnum sem fullorðnum? Þannig bera allir sigur úr býtum: útgefendur, rithöfundar, lesendur – þjóðin. (SN.)

Hér er mjög fín hugvekja frá rithöfundinum unga Ryan Holiday um mikilvægi þess að einblína á gæði þess sem maður skapar, frekar en á leiðir til að efla starfsframann.

Egill Helga bloggaði nýlega um ljóðabók sem er væntanleg frá Leonard Cohen þar sem hægt er að finna ljóð um Ísland. Ekki kannski hans besta kvæði en skemmtilegt þó.

Þetta er æðislega fyndið og kannski smá sorglegt líka. Hópur fólks hefur verið að senda frá sér gerviritgerðir í félagsvísindatímarit með það fyrir augum að ljóstra upp hversu mikið sorp er gefið út í slíkum tímaritum um þessar mundir. Meðal þess sem hópurinn hefur náð að birta er ritgerð um femímisma þar sem þrjár síður úr Mein Kampf eftir Hitler fengu að fljóta með. (KF.)

Dagar mínir eru ekki sjónvarpsþáttur, / vinir og grannar ekki persónur / í Seinfeld eða Friends, / enginn æðir inn án þess að banka, / segir eitthvað óviðeigandi / opnar ísskápinn/ og drekkur beint úr fernu / í leyfisleysi.
Hver hefur ekki sungið svipaðan harmasöng? Línur úr ljóði eftir Þórdísi Gísladóttur.

Tónlistarkonan Joan Armatrading, 67 ára, er enn í fullu fjöri. Hér er fjallað um splunkunýja plötu frá henni. Ég staldraði við þessar línur: „Being recognizably queer is a way to escape what time traditionally does to women, forcing them from maiden to mother to crone along the grand old heteronormative timeline.“ (SN.)

Út er komið nýtt hefti af Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra. Þar er að finna safarík gögn úr skattframtali einstaklinga árið 2018 auk fleira góðgætis. Alveg er ég viss um að það leynast jafn miklir furðufuglar og ég á meðal áskrifenda Leslistans sem hafa gaman af svona efni. Ef ekki þá biðst ég fyrirfram afsökunar á þessari uppástungu.

Nýr aðalhönnuður Louis Vuitton, Virgil Abloh, spjallar hér við stjörnuarkitektinn Rem Koolhaas um allt milli himins og jarðar. Virkilega forvitnilegt samtal.

Tók eftir skemmtilegum nýjum dagskrárlið í útvarpsþættinum Lestinni þar sem umsjónarmenn þáttarins fá til sín vel valda gesti til að spjalla um áhugaverðar bækur. Fyrsti viðmælandinn er Kristrún Heimisdóttir en hún ræðir um bókina Weapons of Math Destruction eftir bandaríska stærðfræðinginn Cathy O’Neil. (KF.)

„[Þ]að er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að á vorum byltingarkenndu tímum felist mesta andófið í þeirri gamalgrónu hefð að sitja einhvers staðar og lesa bók. Já, það eru nefnilega bókaunnendur sem eru hinir einu sönnu radíkalar í dag vegna þess að þeir neita að láta fylgjast með sér. Þeir hafna eftirlitinu.“Halldór Armand skrifar fínan pistil.

Grein fyrir þá sem fylgst hafa með fjaðrafokinu í kringum skipun Bretts Kavanaugh til hæstaréttardómara í Bandaríkjunum. Höfundurinn, lögfræðingur sem þekkt hefur Kavanaugh lengi, skrifar af yfirvegun, rökfestu og (alltof sjaldgæfum) hæfileika til að grunda málið af mörgum ólíkum sjónarhólum. Hann kveðst ekki mundu treysta sér til að mæla með Kavanaugh. (SN.)

Til að hlusta á:

Brad Mehldau gefur út plötuna After Bach. Tilvalið til að hlusta á hana fyrir svefninn eða á meðan maður les vandaðar bókmenntir, skrifar í dagbókina sína eða japlar á ostum og sötrar rauðvínstár.

Mads Mikkelsen, danskur leikari, spjallaði við Guðrúnu Sóley Gestsdóttur í Menningunni. Mér fannst Mads svo sem ekki hafa neitt áhugavert að segja. Það sem aðdáun vakti var vald Guðrúnar Sóleyjar á danskri tungu. Vel gert!

Jill Lepore, höfundur These Truths, doðrants sem fjallar um sögu Bandaríkjanna og ég hef verið að lesa að undanförnu (af veikum mætti), gerði víðreist í vikunni og spjallaði við gáfumenni í þremur hlaðvörpum sem ég hlusta jafnan á; Open SourceThe New Yorker Radio Hour og The New York Times Book Review. Lepore er eldklár og alltaf gaman að hlusta á hana; ef þér, kæri lesandi, nægir hins vegar að heyra aðeins eitt spjall við hana, mundi ég velja Open Source (elsta hlaðvarp í heiminum, hvorki meira né minna), þar sem hún rabbar við séníið Christopher Lydon.

The Daily, hið daglega hlaðvarp The New York Times, gerði þátt sem helgaður var sannleikanum um hvernig Trump komst í raun og veru í álnir. Þáttur sem kallast á við grein sem ég hlekkjaði á hér efst.