Af netinu, 19. október 2018

Fólk virðist í dag lesa töluvert meira en það hefur áður gert í krafti tækninnar en lesturinn er orðinn brotakenndari. Í bókinni Reader, Come Home eru færð rök fyrir því að fólk nú til dags sé farið að glata þeirri gáfu að geta lesið lengri texta af einbeitingu. Þessi grein fjallar um þessa áhugaverðu bók.

Hefur þig ekki alltaf langað til að vita hvað Tina Turner les sér til dægradvalar? New York Times er búið að afhjúpa það í þessu stutta viðtali.

Jaron Lanier færir í fínu viðtali sannfærandi rök fyrir því að við ættum að sniðganga samfélagsmiðla.

Stundum væri ég til í að eiga svona körfuboltaspjöld, nema að í stað körfuboltaleikmanna væru heimspekingar og önnur gáfumenni. Þá myndi ég eiga gyllt spjald með mynd af Isaiah Berlin. Hér er góð yfirlitsgrein um hann í Times Literary Supplement í ágætum dálki þeirra um þekkta hugsuði. (KF.)

Þjóðskjalasafn Íslands heldur úti syrpu sem nefnist „Heimild mánaðarins“, þar sem sígrúskandi sagnfræðingar vekja athygli á starfsemi safnsins og skrifa skemmtileg greinarkorn um eitthvað sem vakið hefur athygli þeirra. Heiðar Lind Hansson skrifar hér kostulega lýsingu um hrakfarir Óla norska, sem lenti í því óláni að treflinum hans var stolið með bíræfnum hætti.

Ragnar Jónasson veltir vöngum yfir framtíð íslenskunnar – og það vitaskuld á ensku, í The Guardian. (SN.)

Cy Twombly er einn af mínum uppáhalds málurum. Í þessari fínu grein er farið yfir skrautlegt einkalíf hans.

Mér þótti gaman að sjá þennan lista yfir 10 áhugaverða skandínavíska samtímalistamenn. Þar er að finna nokkra flotta íslenska fulltrúa.

Því hefur oft verið haldið fram að fyrsti abstraktmálarinn hafi verið Vasily Kandinsky. Í þessari grein er hins vegar fullyrt að fyrsti abstraktmálarinn hafi verið hin sænska Hilma af Klint. Hana þekkti ég mjög takmarkað og hafði því mjög gaman af þessari grein.

Hagstofan ber saman, í virkilega áhugaverðri grein, útgjöld heimila fullveldisárið 1918 og í ár. Hvað haldið þið t.d. að kíló af kartöflum hafi kostað fyrir 100 árum á nútímaverðlagi?

Hér eru tekin saman nokkur ágæt ráð til að koma hlutunum í verk og takmarka frestunaráráttu. Alltaf gott að lesa svona greinar þegar maður er að fresta stórum verkefnum.

Paul Allen, einn stofnenda Microsoft, lést fyrir nokkrum dögum. Hér er falleg minningargrein um hann eftir samstarfsmann hans til margra ára, Bill Gates. (KF.)

 

Til að hlusta á:

Joan Baez leit inn í spjall hjá David Remnick, í The New Yorker Radio Hour. Hún flutti einnig tvö lög – og þvílíkur flutningur! (SN.)

Spekingarnir og fjárfestarnir Nassim Taleb og Naval Ravinkat spjalla hér saman um heima og geima. Mæli mikið með þessu.

Heimspekistjarnan John Gray var á dögunum í viðtali við hagfræðinginn Russ Roberts sem heldur úti uppáhaldshlaðvarpinu mínu, Econtalk. Veit ekki hvort þið, kæru lesendur, eruð jafn spenntir fyrir þessu og ég, en jólin komu snemma í ár í mínu tilviki. Gray ræðir í viðtalinu nýju bókina sína, Seven Types of Atheism, sem fjallar um margar gerðir trúleysis. Svo fer hann yfir grundvallarspeki sína sem snýst í grófum dráttum um það að mannkynið þróist ekkert endilega til betri eða verri vegar.

Ofannefndur Heiðar Lind deildi á Facebook ágætu viðtali við yfirmann sinn, þjóðskjalavörð, um störf Þjóðskjalasafnsins. Það endaði á því að verða forvitnilegra en ég bjóst við. (KF.)

Af netinu, 12. október 2018

Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna gefur út og kynnir skýrslu um horfurnar á jörðinni næstu áratugi.

Bill McKibben kveður Trump og kóna hans hafa fullan skilning á þeim hörmungum sem skýrslan boðar – en að þeim sé einfaldlega alveg sama.

Og svo ættu hinir allra huguðustu einnig að lesa þessa hér. (SN.)

Robert Caro hefur borið á góma nokkrum sinnum á þessum vettvangi. Hann er einfaldlega einn besti núlifandi ævisagnahöfundurinn. Hér eru tekin saman nokkur skrifráð frá honum sem mér fannst býsna gagnleg. Góður bútur hér:“Most biographers give you fact after fact. Caro gives you image after image.”

Ný rannsókn staðfestir það sem áskrifendur Leslistans hafa reyndar alltaf vitað: Börn, sem alast upp á heimilum sem eru full af bókum, eru klárari en önnur börn.

Ég talaði aðeins í síðasta lista um nýja ljóðabók sem er væntanleg eftir Leonard Cohen. Þar vék ég að því að hann hefði skrifað stutt ljóð um Ísland. Svo les ég þessa áhugaverðu frétt um að hann skrifaði líka ljóð um Kanye West. Ég er enn að melta þetta.

Stöntið hjá huldulistamanninum Banksy hjá uppboðshúsinu Sotheby’s um daginn fór líklega ekki fram hjá neinum. Blaðamaður New York Times fer héraðeins yfir málið og bendir, réttilega, á að gjörningurinn er líklegur til að auka verðmæti listaverksins, þrátt fyrir að það sé tæknilega séð eyðilagt. Bendið mér á annan markað þar sem slíkt gæti gengið eftir. [Svo kemur í ljós, eftir að ég hafði skrifað þetta, að kaupandi verksins hefur ákveðið að gangast við kaupunum og að Banksy hefur endurskýrt það „Love is in the Bin“. You can’t make this shit up, eins og skáldið sagði.]

Fín hugvekja í Guardian um skortinn á kvenkyns arkitektum og hvernig sá skortur hefur áhrif á nærumhverfi okkar.

Rambaði á þessa ágætu hagfræðiritgerð sem nýtir gögn frá Meniga til að leggja mat á það undir hvaða kringumstæðum fólk notast við skammtímalán (kreditkort) og hvernig gögnin koma heim og saman við kenningarnar. Í ljós kemur að kenningarnar eiga litla stoð við raunveruleikann, eins og svo oft áður.

Önnur skemmtileg rannsókn hér á ferð. Í henni er gefið í skyn að fólk sem fílar raunsæja list er hrifnara af Brexit.

Það er vandasamt verkefni að skrifa myndlistargagnrýni sem er bæði skýr og áhugaverð. Í þessari fínu rýni á Starafugli tekst höfundi ágætlega upp.

Vinir okkar hjá Five Books tóku nýlega viðtal við formann dómnefndar hjá Baillie Gifford Prize sem veita verðlaun fyrir bestu óskálduðu (e. nonfiction) bók ársins. Hafði aldrei heyrt um þessar bækur áður, fannst listinn því áhugaverður.

Fyrir þá sem hafa áhuga á viðskiptum og efnahagsmálum þá er þetta stóra viðtalvið Cliff Asness, stofnanda AQR Capital, virkilega áhugavert. (KF.)

 

Til að hlusta á:

Magnað viðtal við Chris Hedges í Open Source, um Bandaríkin í dag. Ég stóð stjarfur við uppvaskið og hlustaði í hálftíma án þess að hreyfa mig. Við lifum sennilega ekki mjög vitsmunalega tíma – fjölmiðlaumfjöllun versnar; háskólar breytast í starfsþjálfunarstöðvar fyrir fyrirtæki; þvert á áeggjanir vísindamanna höldum við áfram að eitra plánetuna okkar – og þess vegna sæki ég svo mikinn styrk í að heyra gáfað og góðhjartað fólk tala og lýsa heiminum. Að heyra í slíku fólki er eins og að anda að sér súrefni – og Chris Hedges er ein nýjasta uppgötvunin. Niðurlag þáttarins er tilfinningaþrungið og sterkt. (SN.)

Sá skemmtilegt viðtal við sjóðstjóra lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna í Nevada í Kveik í vikunni. Hann er einmitt þekktur fyrir að gera sem allra minnst og ráðstafa fjármagni fyrst og fremst í vísitölusjóði. Ég minnist þess einmitt að hafa lesið skemmtilega grein um þennan mann fyrir nokkrum árum síðan. Gaman að RÚV skildi fara þessa leið og bera saman við íslensku lífeyrissjóðina. Þeim til varnar má reyndar minnast á að meginþorri erlendra fjárfestinga íslensku lífeyrissjóðanna er einmitt varið í slíka vísitölusjóði og að það eru yfirleitt ekki margir starfsmenn á fjárfestingasviði íslenskra lífeyrissjóða. En það má alveg velta því fyrir sér af hverju þeir eru svona margir. (KF.)

Af netinu, 5. október 2018

Langar þig að vita sannleikann að baki því hvernig Donald Trump varð ríkur? Í meira en ár hafa blaðamenn The New York Times legið yfir skattskýrslum föður hans og öðrum gögnum sem tengjast Trump-fjölskyldunni. Eitt er ljóst: Trump er sannarlega ekki sá „self-made man “ sem hann kveðst vera.

Frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Er þetta nógu vel hugsað? Kannski væri nær að taka Norðmenn sér til fyrirmyndar? Stofna sjóð sem kaupir bækur í vissu magni af útgefendum og tryggir að þær séu aðgengilegar lesendum, jafnt börnum sem fullorðnum? Þannig bera allir sigur úr býtum: útgefendur, rithöfundar, lesendur – þjóðin. (SN.)

Hér er mjög fín hugvekja frá rithöfundinum unga Ryan Holiday um mikilvægi þess að einblína á gæði þess sem maður skapar, frekar en á leiðir til að efla starfsframann.

Egill Helga bloggaði nýlega um ljóðabók sem er væntanleg frá Leonard Cohen þar sem hægt er að finna ljóð um Ísland. Ekki kannski hans besta kvæði en skemmtilegt þó.

Þetta er æðislega fyndið og kannski smá sorglegt líka. Hópur fólks hefur verið að senda frá sér gerviritgerðir í félagsvísindatímarit með það fyrir augum að ljóstra upp hversu mikið sorp er gefið út í slíkum tímaritum um þessar mundir. Meðal þess sem hópurinn hefur náð að birta er ritgerð um femímisma þar sem þrjár síður úr Mein Kampf eftir Hitler fengu að fljóta með. (KF.)

Dagar mínir eru ekki sjónvarpsþáttur, / vinir og grannar ekki persónur / í Seinfeld eða Friends, / enginn æðir inn án þess að banka, / segir eitthvað óviðeigandi / opnar ísskápinn/ og drekkur beint úr fernu / í leyfisleysi.
Hver hefur ekki sungið svipaðan harmasöng? Línur úr ljóði eftir Þórdísi Gísladóttur.

Tónlistarkonan Joan Armatrading, 67 ára, er enn í fullu fjöri. Hér er fjallað um splunkunýja plötu frá henni. Ég staldraði við þessar línur: „Being recognizably queer is a way to escape what time traditionally does to women, forcing them from maiden to mother to crone along the grand old heteronormative timeline.“ (SN.)

Út er komið nýtt hefti af Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra. Þar er að finna safarík gögn úr skattframtali einstaklinga árið 2018 auk fleira góðgætis. Alveg er ég viss um að það leynast jafn miklir furðufuglar og ég á meðal áskrifenda Leslistans sem hafa gaman af svona efni. Ef ekki þá biðst ég fyrirfram afsökunar á þessari uppástungu.

Nýr aðalhönnuður Louis Vuitton, Virgil Abloh, spjallar hér við stjörnuarkitektinn Rem Koolhaas um allt milli himins og jarðar. Virkilega forvitnilegt samtal.

Tók eftir skemmtilegum nýjum dagskrárlið í útvarpsþættinum Lestinni þar sem umsjónarmenn þáttarins fá til sín vel valda gesti til að spjalla um áhugaverðar bækur. Fyrsti viðmælandinn er Kristrún Heimisdóttir en hún ræðir um bókina Weapons of Math Destruction eftir bandaríska stærðfræðinginn Cathy O’Neil. (KF.)

„[Þ]að er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að á vorum byltingarkenndu tímum felist mesta andófið í þeirri gamalgrónu hefð að sitja einhvers staðar og lesa bók. Já, það eru nefnilega bókaunnendur sem eru hinir einu sönnu radíkalar í dag vegna þess að þeir neita að láta fylgjast með sér. Þeir hafna eftirlitinu.“Halldór Armand skrifar fínan pistil.

Grein fyrir þá sem fylgst hafa með fjaðrafokinu í kringum skipun Bretts Kavanaugh til hæstaréttardómara í Bandaríkjunum. Höfundurinn, lögfræðingur sem þekkt hefur Kavanaugh lengi, skrifar af yfirvegun, rökfestu og (alltof sjaldgæfum) hæfileika til að grunda málið af mörgum ólíkum sjónarhólum. Hann kveðst ekki mundu treysta sér til að mæla með Kavanaugh. (SN.)

Til að hlusta á:

Brad Mehldau gefur út plötuna After Bach. Tilvalið til að hlusta á hana fyrir svefninn eða á meðan maður les vandaðar bókmenntir, skrifar í dagbókina sína eða japlar á ostum og sötrar rauðvínstár.

Mads Mikkelsen, danskur leikari, spjallaði við Guðrúnu Sóley Gestsdóttur í Menningunni. Mér fannst Mads svo sem ekki hafa neitt áhugavert að segja. Það sem aðdáun vakti var vald Guðrúnar Sóleyjar á danskri tungu. Vel gert!

Jill Lepore, höfundur These Truths, doðrants sem fjallar um sögu Bandaríkjanna og ég hef verið að lesa að undanförnu (af veikum mætti), gerði víðreist í vikunni og spjallaði við gáfumenni í þremur hlaðvörpum sem ég hlusta jafnan á; Open SourceThe New Yorker Radio Hour og The New York Times Book Review. Lepore er eldklár og alltaf gaman að hlusta á hana; ef þér, kæri lesandi, nægir hins vegar að heyra aðeins eitt spjall við hana, mundi ég velja Open Source (elsta hlaðvarp í heiminum, hvorki meira né minna), þar sem hún rabbar við séníið Christopher Lydon.

The Daily, hið daglega hlaðvarp The New York Times, gerði þátt sem helgaður var sannleikanum um hvernig Trump komst í raun og veru í álnir. Þáttur sem kallast á við grein sem ég hlekkjaði á hér efst.

Af netinu, 28. september 2018

Móðir mín skrifaði frábæra grein í Kjarnann á dögunum tengda vandræðunum í Orkuveitunni.

Hvort kom á undan, brauðið eða bjórinn? Ný rannsókn virðist hafa svarið á reiðum höndum.

Gunnar Gunnarsson, samstarfsmaður minn, skrifaði góða grein í Fréttablaðið á dögunum þar sem hann veltir vöngum yfir tækniþróun á íslenskum fjármálamarkaði.

Áhugaverð hugleiðing frá Branko Milanovic um kínverskt stjórnskipulag – Kommúnismi að hætti Hayek.

Hvernig á maður að skrifa vel? Hér er flott grein í Guardian um einmitt það viðfangsefni sem vísar í orðheppna snillinga á borð við George Orwell, Virginiu Woolf, Rainer Maria Rilke og Kate Moss. (KF.)

The Village Voice, götublaðið sögufræga sem barðist gegn misrétti á strætum New York-borgar, hefur nú endanlega lagt upp laupana. The New York Times fjallaði í síðustu helgarútgáfu um ýmis þekkt atvik úr sögu Raddarinnar, Seven Ways the Village Voice Made New York a Better Place.

Góð leið til að ýta undir sölu í bókabúðum … virðist vera að falbjóða þar einnig lostætar pylsur. (SN.)

Af hverju eru bækur orðnar svona langar? Hér er skrifað um þessa skrítnu þróun í bókmenntaheiminum. (KF.)

Maður heyrir stjórnmálamenn oft tala um „þarma atvinnulífsins“, ég meina, „þarfir atvinnulífsins“ í tengslum við menntakerfið. Hér er imprað á því hvernig skólakerfið víða í heiminum hefur breyst í útungunarvél fyrir framtíðarstarfsfólk fyrirtækja frekar en fræðasetur þar sem fólk ræktar hug og sál. Spurning hvort að það er heillavænleg þróun?

Vel stætt fólk hörfar sífellt hærra upp á land á flótta undan rísandi yfirborði sjávar og hinir efnaminni sitja eftir með sárt ennið – og stundum vatn upp að hnjám. Hér eru frásagnir fólks í Bandaríkjunum sem orðið hefur fyrir barðinu á loftslagsbreytingum.

Listin að fanga veðurkvíða. Spjall Nönnu Hlínar Halldórsdóttur við myndlistarhópinn International Young Female Artists Club. Birtist á Starafugli.

Og talandi um snjallar listakonur: Ein vinsælasta listakona heims er 89 ára gömul japönsk kona, sem hefur búið áratugum saman sjálfviljug á geðsjúkrahúsi. Hvernig útskýrum við vinsældir hennar? Jú, með einu orði: Instagram. Ýmsar áleitnar pælingar settar fram þarna, og því til að mynda velt upp hvort framsetning listaverkasýninga sé tekin að litast af því hvernig verkin líta út á Instagram, og hvort það hefur bein áhrif á hönnun og uppsetningu sjálfra sýninganna.

Viðtalið sem Kristín Ómarsdóttir tekur við Anne Carson í nýjasta tölublaði Tímarits Máls & menningar er frábært – en því miður er tímaritið ekki enn fáanlegt á netinu. Myndi hlekkja á það – en þið verðið bara að næla ykkur í ilmandi prenteintak. (SN.)

 

Til að hlusta á:

Hér sitja bandarísku rithöfundarnir Malcolm Gladwell og Michael Lewis og ræða ýmislegt skemmtilegt.

Það má alltaf finna eitthvað áhugavert í Econtalk hlaðvarpinu, sem ég held að ég hafi mælt með svona fjórtán sinnum á þessum vettvangi. Hér ræðir þáttastjórnandinn, Russ Roberts, við Rodney Brooks – sérfræðing í gervigreind – um hvernig framtíð gervigreindar og vélmenna verður í raun og veru. Virkilega djúpt, fróðlegt og skemmtilegt.

Frábært spjall við portúgalska stjórnmálaspekinginn Bruno Maçães um stjórnmál í Evrasíu. Spjallið er byggt á nýlegri bók eftir hann, The Dawn of Eurasia, sem fer rakleiðis í innkaupakörfuna mína á Amazon. Hér er t.d. ein lína frá honum sem vakti mig til mikillar umhugsunar:
„The most impressive thing about Russia is, in fact, something that you might not think at first: the power of organization. We have this image of Russia as a failed state in many respects.

But in order to keep that empire, in order to keep it together throughout the centuries, in order to develop it to some extent, in order to bring together so many ethnicities, so many religions . . . it’s fair to say that Russia has done a better job of integrating its Muslim population, which is close to 15 percent, than any other country, I would argue — certainly any other major country.“ (KF.)

„To this day I wake up early and I have to get to my desk to write almost immediately. I mean fast. Before the demons get me. I got to get writing. And once I’ve written almost anything, I’ll pretty much write all day, I don’t leave my desk, I have no other life. I’m not part of the world except when I go to see shows.“ Jerry Saltz, listgagnrýnandinn þekkti, í Longform-hlaðvarpinu. Bráðskemmtilegt. Áður en Saltz landaði, fyrir algjört slembilán, starfi listkrítíkers, rak hann listgalleríi, reyndi fyrir sér sem listamaður – og starfaði sem trukkabílstjóri. (SN.)

Af netinu, 21. september 2018

Rithöfundurinn Steven Johnson er að gefa út bók um hvernig á að taka stórar ákvarðanir. Þessi fína grein er dregin úr þeirri bók.
Mikið hefur verið talað um falsfréttir síðustu misserin og hætturnar af því að dreifa röngum upplýsingum í fréttamiðlum. Ég fann nýlega tvær greinar sem fjalla um hætturnar af raunverulegum fréttum – hvernig fjölmiðlar geta dregið ranga mynd af samtímanum, þrátt fyrir að þeir segi satt og rétt frá. Fyrri greinin er hér, seinni greinin hér. Mér finnst þetta vera virkilega umhugsunarvert. (KF.)

„I had not been alone in a decade. I had not been alone because I am a mother, and a mother is never alone.“ Claudia Day skrifar um hlutskipti rithöfundarins sem einnig er móðir.

Og fyrst móðurhlutverkið ber á góma: Nýtt íslenskt veftímarit, Flóra, hefur hafið göngu sína, og í fyrstu útgáfu þess er fjallað um móðurhlutverkið á tímum loftslagsbreytinga.

Þetta fannst mér áhugaverð lesning um Ingibjörgu Þórðardóttur, ritstjóra stafrænna teyma CNN á heimsvísu. Greinilega leiftrandi klár kona (en ljóður á umfjöllunni hversu heimskuleg fyrirsögnin er!).

Af hverju tökum við ekki upp norsku leiðina í bókaútgáfu? spyr Margrét Tryggvadóttir í grein sem birtist í apríl síðastliðnum en vert er að rifja upp nú. „Norð­menn skil­greina tungu­málið sitt sem örtungu­mál í útrým­ing­ar­hættu sem beri að styðja og styrkja með ráðum og dáð. Í Nor­egi er starf­rækt sér­stakt inn­kaupa­ráð sem kaupir ákveð­inn ein­taka­fjölda af öllum almenni­legum norskum barna­bók­um, þó ekki fleiri en eina frá hverjum höf­undi á hverju ári. Bæk­urnar eru keyptar á föstu verði óháðu mark­aðs­verði (þótt heim­ilt sé að hækka eða lækka greiðslur þegar ástæða er til). Greiðslan er styrkur sem skipt­ist á milli útgef­and­ans og höf­und­ar­ins en í stað­inn fær inn­kaupa­stofn­unin ein­tök af bók­inni sem dreift er á almenn­ings­bóka­söfn og söfn grunn- og leik­skóla. Norska leiðin tryggir bæði höf­undum og útgef­endum „sölu“ svo bæði skrifin og útgáfan standa undir sér og síð­ast en ekki síst, öllum norskum börn greiðan aðgang að nýjum vönd­uðum og skemmti­legum bók­um.“ Ekki svo galið, ha? (SN.)

Hér er grein um svipuð málefni eftir þær Auði Jónsdóttur og Báru Huldu Beck.
(KF.)

Greinarhöfundur starfaði um þriggja vikna skeið í Amazon-vöruhúsi í Bretlandi. Hann ber stórfyrirtækinu ekki vel söguna„I fully expected warehouse work to be tough. Yet what I witnessed at Amazon went far beyond that. This was a workplace environment in which decency, respect and dignity were absent.“Berum við, sem neytendur, einhvers konar móralska skyldu til að skipta ekki við stórfyrirtæki sem kemur svona fram við starfsfólk sitt? Spyr sá sem ekki veit. (SN.)

Eru tölvuleikir list? Ég hef sjálfur aldrei fengið almennileg svör við þeirri spurningu og hef ekki náð að mynda mér skoðun. Hér er fín grein um einmitt þetta.

Auðjöfurinn Marc Benioff keypti Time tímaritið á dögunum. Blaðamaður New York Times tók viðtal við hann af því tilefni í gegnum SMS á meðan téður auðjöfur var í nuddi.

Hér er skemmtileg grein um nýja bók um ævi og störf Nietzsche. (KF.)

Hugljúf skrif um fornbókabúðir.

Valda góðu vestrænu sjálfboðaliðarnir kannski meiri skaða en þeir gera gagn? Ekki útilokað. Og eins auðvitað ekki fráleitt að vestrænt fólk í sjálfboðastarfi í öðrum heimshlutum sé ekki síður að rembast við að bjarga sjálfu sér – eigin sál – en heiminum.

John Bunn lenti í því að vera ásakaður um morð aðeins fjórtán ára gamall og settur í fangelsi, blásaklaus. Saga hans er nöturleg og lýsandi fyrir þá meðferð sem hörundsdökkir Bandaríkjamenn þurfa oft að sæta, einkum ungir karlmenn; lagakerfið virðist álíta sem svo að þeir bara hljóti að vera sekir um eitthvað. Í fangelsinu björguðu bækur lífi Bunns og nú er það lífsköllun hans að auka aðgengi krakka að bókum og hvetja þá til lesturs.

Guardian tekur saman lista yfir 50 spennandi (enskar) bækur sem eru að koma út. (SN.)

 

 

Til að hlusta á:

Ég hef lengi hlustað á hlaðvarpið Invest Like the Best, sem er eitt besta viðskiptahlaðvarp sem fyrir finnst (þótt titillinn sé býsna hallærislegur). Þáttastjórnandinn, Patrick O’Shaughnessy, hefur haldið úti hlaðvarpinu í tvö ár og skrifaði af því tilefni fínan pistil um það sem hann hefur lært á þeim tíma. Langflestir þættirnir eru góðir en ég mæli sérstaklega með heimildaþáttaröðsem hann gerði um dulmyntir. Held að ég hafi aldrei fengið jafn góða útskýringu á þessu annars mjög flókna viðfangsefni. Svo mæli ég líka með fréttabréfinu hans þar sem hann skrifar um allar þær bækur sem hann les á hverjum mánuði.

Fyrst ég er að þvaðra um viðskiptahlaðvörp, þá var bandaríska sjóðsstýringafélagið AQR Capital að byrja með nýtt hlaðvarp þar sem leitast er við að fræða fólk um fjárfestingar. Virkilega fróðlegt og vel unnið. (KF.)

 

Af netinu, 14. september 2018

Bandaríkjamenn, einkum pólítíkusar og atvinnurekendur, hamra á því að fleiri störf séu lausnin á fátæktarvanda þjóðarinnar og leiði til velsældar og aukinnar hamingju. Samkvæmt þessari grein í The New York Times er sú alls ekki raunin. Atvinnuleysi í landinu er lítið og nóg af störfum í boði, en vandinn sá að flest starfanna eru svo illa launuð og tryggingar lélegar. Jafnvel þó að fólk vinni myrkranna á milli nær það ekki endum saman og hefur jafnvel ekki efni á að leigja sér þak yfir höfuðið. Hið heimilislausa vinnuafl er nýtt hugtak í Bandaríkjunum. (SN.)

Hér er ágætis greining á þróun sem hefur því miður átt sér stað of lengi í listheimum. Auðmenn þrýsta upp verðinu á listaverkum sem gerir það að verkum að miðstéttinni er bolað út af markaðnum.

Grein um hættur þess að verðleggja bækur of lágt. Góðar pælingar fyrir þá sem eru að skrifa og/eða gefa út rafbækur. (KF.)

Hér skrifar pabbi sem fílar ekki pabbahlutverkið. Ég fíla reyndar ekki þennan pabba og þann tón sem hann slær í greininni, en hugleiðingin er áhugaverð. Nútímapabbinn fær sjokk þegar það rennur upp fyrir honum að barnauppeldi er ekki einungis skemmtilegur leikur – fótbolti eða stangveiði með lotningarfullum syni – heldur oft einhæft og krefjandi og langdregið. Þá kveinkar hann sér undan þeirri staðreynd að barnið geti ekki enn myndað flóknar og greindarlegar málsgreinar og, að því er virðist, rabbað við sig um vísindaleg álitaefni.

Þorgeir Tryggvason, ráðunautur Leslistans þessa vikuna, las Biblíuna og staldraði við eftir hvern kafla/bók og skrifaði vangaveltur. Lesverkefni þetta stóð í nokkur ár. Auðvelt að gleyma sér við að kafa í þessa síðu.

Elisa Gabbert segir að uppáhaldsstaðurinn hennar á bókasafninu sé hillan með nýlega skiluðum bókum. Þar sé að finna eins konar hlutlaust rými, ekki kyrfilega skipulagt af neinum, heldur ráði hendingin – og raunverulegur lestraráhugi bókasafnsgesta – ferðinni. Skemmtileg pæling. (SN.)

Paul Holdengraber ræðir hér við Sjón í skemmtilegu viðtali.

Hér er píanistinn frábæri Víkingur Heiðar Ólafsson í viðtal við Morgunblaðið. Nýjasta platan hans er algjörlega tryllt.

Nú á ég tvö börn á grunnskólaaldri og hef átt í vandræðum með að finna áhugavert lesefni sem hentar þeim. Svo rambaði ég á þessa ágætu samantekt á vefsíðunni Lestrarklefinn. Gaman af þessu.

Áhugaverð hugleiðing um listina frá Ólafi Elíassyni. (KF.)

Umhverfisvænu götumálin þín munu ekki bjarga plánetunni, nei, ekki að mati George Monbiot, greinarhöfundar The Guardian. Götumálin séu aðeins enn ein birtingarmynd klækja stórfyrirtækjanna sem vilja að við höldum óuppteknum hætti í heilalausri neyslu okkar.

Jóhann Helgi Heiðdal skrifar um nýja þýðingu á verki eftir Dostojevskí, Hinum smánuðu og svívirtu, skáldsögu sem Kári hefur áður minnst á hér á þessum vettvangi.

“How much was the direction of the internet influenced by the perspective of nineteen-, twenty-, twenty-one-year-old well-off white boys?’ That’s a real question that sociologists will be studying forever.” Úr The New Yorker. Um Mark Zuckerberg og Facebook. (SN.)

Til að hlusta á:

Sodajerker on Songwriting nefnist hlaðvarp sem ég hef hlustað á í mörg ár, næstum frá því að þeir Simon Barber og Brian O’Connor sendu út fyrsta þáttinn. Í hverjum þætti rabba þeir við nýtt söngvaskáld og fara í saumana á listinni að semja lög. Þeir félagar eru gamlir vinir og hafa afslappaða nærveru – eða fjarveru, þar sem þetta er útvarpssþáttur – og ekki spillir fyrir að þeir eru fyndnir, leiftrandi klárir og ótrúlega vel að sér í músík. Nú eru þættirnir orðnir hundrað tuttugu og tveir og það hefur verið gaman að fylgjast með því hvernig hróður þeirra hefur smám saman breiðst út. Árum saman börðust þeir við að fá til sín þekkta lagahöfunda en nú er svo komið að stórstjörnur virðast keppast við að komast í þáttinn. Síðast var það sjálfur Paul McCartney sem mætti til leiks – en hann var það söngvaskáld sem þá drengi dreymdi helst um að fá til sín í spjall þegar þeir ýttu úr vör með þættina fyrir mörgum árum. Svona rætast draumarnir. Ég mæli með því að kafa í ríkulegt úrval fyrri gesta hjá þeim. Þættirnir ættu ekki aðeins að hugnast þeim sem spila tónlist eða hafa áhuga á lagasmíðum, heldur öllum þeim sem velta fyrir sér hvernig sköpunarkrafturinn virkar og listamenn starfa.

Fyrst ætlaði ég að skrifa að nýjasta bók David Sedaris, Calypso, væri myrkari en mörg fyrri verka hans. En svo rifjast upp fyrir mér að í þeim öllum suðar reyndar undir niðri í bland við húmorinn nokkuð drungalegur undirtónn. Að því sögðu, þá er David Sedaris einn fyndnasti rithöfundur sem nú lifir og starfar. (Ef þið vitið um einhvern sem skákar honum, endilega bendið mér á viðkomandi.) Sá sem einhvern tímann hefur hlustað á Sedaris lesa sögurnar sínar, veit að þar standast honum fáir snúning; gallinn er sá að í kjölfarið á maður bágt með að lesa bækurnar sjálfur (ég heyri allavega bara fyrir mér einhverja lélega eftirhermu af David Sedaris í kollinum) og vill heldur hlusta á höfundinn lesa þær. Ég hlustaði á þessa sem hljóðbók og hún stóð undir væntingum. Sedaris fjallar um líf sitt á Englandi, þráhyggju sína gagnvart fitbit-úrinu sínu og göngutúrafíkn, samband sitt við kærastann sinn, hinn dularfulla Hugh, réttindabaráttu samkynhneigða og skrautlega fjölskyldu sína, og vinnur jafnframt úr þungbærri reynslu svo sem sjálfsvígi systur sinnar og eigin veikindum. (SN.)

Hlekkir, 7. september 2018

Mögnuð umfjöllun í National Geographic. Kona ein fremur misheppnaða sjálfsmorðstilraun: hún ætlar að skjóta sig í höfuðið en tætir í staðinn af sér allt andlitið og lifir af. Óhugnanlegt. Önnur ung kona, í mikill neyslu, tekur inn of stóran skammt og deyr. Andlitið er tekið af henni og grætt á þá fyrri. Sjón er sögu ríkari. (SN.)

Hér segir Literary Hub (skemmtilegur vefur) frá afrískum dreng sem varð þýskur heimspekingur á átjándu öld.

Financial Times mælir hér með átta nýútkomnum viðskiptabókum (KF.)

Vingjarnleg pólsk hjón reka litla matvörubúð skammt frá heimili mínu og þar má næla sér í ýmsar matvörur frá gamla heiminum sem og erfðabreyttar bandarískar afurðir. Tómata á stærð og þyngd við keilukúlur. Gulrætur á stærð við fullvaxta fótlegg. Þangað fer ég oft til að kaupa mér búrek og feta – og í vikunni einnig ávexti, sem ég tíndi samviskusamlega í taupokann sem ég hef ævinlega yfir öxlina. Eigandinn, karlinn, brosti í kampinn þegar ég tíndi afurðirnar aftur upp úr taupokanum – fjórar plómur, tvær nektarínur, sjö epli og svo framvegis – svo hann gæti vigtað góðgætið. „Ætlarðu að bjarga New York-borg frá tortímingu?“ spurði hann glottandi, í góðlátlegum tón, og vísaði til þess að ég væri eini kúnninn sem ekki stingi öllu í litla plastpoka. Það sama gerist stundum þegar ég bið um að fá brothætt glas frekar en plastglas á kaffihúsum New York-borgar: þá er horft á mig eins og ég sé snobbað merkikerti að setja sig á háan hest. Og sjálfsagt er ég það líka: snobbað merkikerti. Hér má gæða sér á grein um sögu einnota plastokans. (SN.)

Atlas Obscura fjallar um harðfiskinn, það mikla sælgæti.

Economist með vandaða umfjöllun um þrjá hugsuði sem skrifuðu einna mest um frelsi. Isaiah Berlin, John Rawls og Robert Nozick.

Scientific American skrifa um Karl Popper og vísindaheimspeki hans.

Hér eru dregin fram tólf viskukorn um viðskipti frá rapparanum Chance the Rapper, á einu af mínum uppáhalds bloggum, 25IQ. Þetta er eins konar kennslurit um viðskipti þar sem höfundur síðunnar, Tren Griffin, tekur saman spakmæli frá athafnamönnum og stundum röppurum um viðskipti og fyrirtækjarekstur. Mæli mikið með þessu.

Við höfum nokkrum sinnum tekið fyrir umfjöllun um bókina Bullshit Jobseftir David Graeber. Ég var orðinn nokkuð leiður á greinum um þetta málefni en þessi stutti pistill í Slate Star Codex er helvíti góður og setur það í ágætt samhengi.

Japanskur verkfræðingur hefur stofnað sjálfvirkan fjölmiðil. Guð minn góður.

Ég fylgist stundum með blogginu hjá Michael Orthofer sem hefur gagnrýnt ótrúlegt magn af bókum. Rambaði á nýlega gagnrýni hans á bók eftir Braga Ólafsson, sem einmitt var ráðunautur Leslistans fyrir stuttu. (KF.)

Parul Sehgal rýnir svo í verk eftir annan íslenskan höfund, Sjón.

Fyrir nokkrum dögum ýtti Le Monde úr vör ógnvekjandi syrpu, Sept voyages en terres sacrifiées – sjö ferðalög til staða sem stóriðnaður hefur leikið grátt, gjöreyðilagt. Flakkað er frá Anniston í Bandaríkjunum til Dzerjinsk í Rússlandi og þaðan til Kanada, Brasilíu, Japan, Ítalíu, Kyrrahafsins. Stór svæði jarðarinnar, sem áður voru búsældarleg og fögur, eru ónýt.

Og áfram á sömu nótum: Elizabeth Kolbert fjallar um skógarelda í The New Yorker. Svokallaðir risabrunar heyrðu áður til algjörra undantekninga í Bandaríkjunum, en eru nú nýja normið. „A blaze that consumes more than a hundred thousand acres is known as a megafire. It used to be rare for fires to reach this threshold. Now it’s routine.“

Starafugl er kominn úr sumarfríi og gefur í kjölfarið út leshefti. „Um þrifalega staði með góðri lýsingu.“ Skemmtilegt. (SN.)