Af netinu, 22. febrúar 2019

TLS skrifar hér skemmtilega yfirferð um heimspeki Iris Murdoch.

LA Review of Books er hér með til umfjöllunar forvitnilega bók um ævi og störf Isaiah Berlin, sem ég fjalla mikið um á þessum vettvangi og er hvergi nærri hættur.

Sjón velur í samtali við Vulture 10 uppáhalds bækurnar sínar. Ég þekki þær fæstar og finnst listinn því mjög áhugaverður. Svo má ekki gleyma því að hann gekk í ráðuneyti Leslistans á dögunum.

Annar góðvinur Leslistans, Jóhann Helgi Heiðdal, skrifar í Starafugli rýni um nýjustu kvikmynd Lars Von Trier. Ég hef  verið á báðum áttum með hvort ég ætli mér að sjá hana en grein Jóhanns gerir mig mjög áhugasaman.

Þetta er bæði spennandi og ógnvænleg lesning. Nýr gervigreindarbúnaður er farinn að skrifa ansi sannfærandi texta. Mun Leslistinn brátt vera skrifaður af gervigreindarhugbúnaði? Er hann það kannski nú þegar? Starafugl fjallaði einnig stuttlega um málið í vikunni.

Mjög skemmtilegt viðtal við hershöfðingjann fræga Stanley McChrystal.

Hvað geta taugavísindin kennt okkur um listina? Ég er ekki viss um að það sé mikið en þessi grein færir sannfærandi rök fyrir hinu gagnstæða.

Börnin mín hafa tekið ástfóstri við nýtt leikfangaæði, svokallaðar LOL dúkkur, sem ég er ekki hrifinn af. Svo virðist sem fjörið snúist aðallega í kringum andartakið þar sem leikfangið er opnað – ekki endilega leikfangið sjálft. Það kom mér því ekki mjög á óvart þegar ég las í ágætri grein um þessar dúkkur að tilurð þeirra megi rekja til vinsælla myndbanda á Youtube þar sem börn opna leikföng í gríð og erg. Nú veit ég hvernig foreldrum mínum leið yfir ruglinu sem ég hafði gaman af þegar ég var lítill.

Ég fjallaði fyrir ekki svo löngu um bókina Stoner eftir John Williams (ekki tónskáldið) sem ég hafði mikið gaman af. Hér er að finna vandað viðtal við eiginkonu Williams um þennan frábæra rithöfund.

Karl Lagerfield lést fyrir nokkrum dögum. Ég hef í raun ekki mikla skoðun á honum. Heyri að hann hafi ekki borið mikla virðingu fyrir konum en einnig að hann hafi verið merkilegur hönnuður og bókasafnari. Hér er gamall prófíll um hann úr The New Yorker sem varpar einhverju ljósi á þennan furðulega mann.

Rambaði á þessa frétt um fjárfestingasjóð í eigu Peter Thiel sem virðist vera mjög undarlega rekinn. Rak sérstaklega augun í neðangreinda klausu sem lýsir „vandamáli“ sem ég væri til í að glíma við:
“Royan was known internally for a “book ordering problem” — a former employee said that “unbelievable amounts of books” would be delivered each week to the office by Amazon to maintain the firm’s extensive library.” (KF.)

Tvær hæfileikaríkar nöfnur eru tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs: Kristín Ómarsdóttir og Kristínar Eiríksdóttir. Leslistinn óskar þeim hjartanlega til hamingju!

Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur skrifar um vörslumenn víðernanna– okkur Íslendinga.

David Wallace-Wells kveður löngu orðið tímabært að panikkera. (SN.)


Augu og eyru:

Mér hefur lengi þótt tölvuleikjaiðnaðurinn ansi áhugaverður bransi, þó ég sé fyrir löngu hættur að spila tölvuleiki sjálfur. Fannst þess vegna mjög gaman að hlusta á þetta viðtal við forstjóra Activision Blizzard, eins stærsta tölvuleikjaframleiðanda heims.

Það gladdi mig verulega þegar gáfumannatímaritið Edge tilkynnti í vikunni að það hefði stofnað hlaðvarp í kringum viðtölin sem þar eru tekin reglulega við „gáfaðasta“ fólkið í heiminum.

Svo þótti mér frábært að hlusta á þetta viðtal við rithöfundinn Jim Collins sem er þekktur fyrir vandaðar viðskiptabækur sínar. (KF.)

 

Af netinu, 15. febrúar 2019

Hér er forvitnileg grein um Andy Warhol.

Fann mjög skemmtilegt íslenskt fréttabréf þar sem birtar eru margvíslegar hugleiðingar um gögn og allt sem þeim tengist. Mæli með skráningu.

Hér er lærdómsrík frásögn frá manni sem reyndi að stofna fyrirtæki með milljarð dollara veltu að markmiði – og mistókst.

Robert Ryman er látinn. Algjör meistari og flottur myndlistarmaður – fullkomlega sjálflærður. Góð minningargrein um hann í NYT.

Áhugaverður leslisti um borgir og borgarskipulag, fyrir þá sem hafa áhuga á slíku.

Ég er hjartanlega sammála höfundi þessarar greinar – enda fjallar hún um mikilvægi góðs nætursvefns. Yngsta dóttir mín mætti gjarnan lesa hana líka.

Og fyrst börn ber á góma. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvers vegna gerðar eru reglulegar mælingar á lestrarhraða barna í stað t.d. mælinga á lesskilningi. Hér er fínt viðtal við Hermund Sigmundsson, sálfræðiprófessor, sem skrifaði fína grein um þetta mál í síðasta Sunnudagsmogga.

Og fyrst lestur ber á góma. Hér er ágætis grein um hvernig lestrarvenjur okkar breytast á internetöldinni. (KF.)

Ný íslensk bókmenntaverðlaun – fyrir erlenda höfunda.

Falleg hugleiðing í The New Yorker eftir Oliver Sacks. Texti sem hann ritaði skömmu fyrir andlát sitt. Fjallar yfirvofandi dauða hans (sem Sacks óttast ekki) og jafnframt (yfirvofandi?) dauða þeirrar menningar sem hann lifði og hrærðist í.

Sorgarfréttir: Tomi Ungerer, mikill uppáhalds-listamaður, barnabókahöfundur og teiknari, er látinn. Hann sendi frá sér meira en 150 bækur á ótrúlega frjórri ævi.

Góðar fréttir frá New York: Amazon-risinn hættir við að reisa nýjar höfuðstöðvar á Long Island – vegna þrýstings og mótmæla frá stjórnvöldum og staðarfólki. Peningafólk fær greinilega ekki alltaf sínu framgengt.

Og fleiri góðar fréttir frá New York. Nokkru áður en ég fluttist frá borginni tók ég að heyra slúður um að til stæði að loka eftirlætis-bókabúðinni minni þar, McNally Jackson í Soho. Þar er einnig kaffihús sem gleypt hefur stóra sneið af lífi mínu. Sem sagt: ég get ekki ímyndað mér New York án þessarar bókabúðar. Mér skildist að leigusamningurinn hjá þeim væri að renna út og eigendur húsnæðisins vildu (að sjálfsögðu) skrúfa upp leiguna, meira en tvöfalda hana, hrekja þannig burt bækurnar og fá til dæmis banka, skó eða gleraugu í staðinn. Hér kemur hins vegar fram að þau áform hafi breyst. Búðin verður áfram í Soho. Og tvær nýjar eru meira að segja í bígerð, ein á Manhattan, hin í Brooklyn (og nýlega spratt upp enn önnur í Brooklyn). Er þá enn von í heiminum?

Um Dansað í Odessa eftir Ilya Kandinsky, í þýðingu Sigurðar Pálssonar.

Ráðunautur Leslistans, Þórarinn Eldjárn, segir að íslenskan sé stórmál.

Tveir vinir mínir ferðuðust meðfram landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og ræddu við fólk sem varð á vegi þeirra. Birtu svo nýlega grein um þá reynslu sína í Time Magazine. (SN.)


Augu og eyru:

Mig langar að benda á frábæra heimildarmynd um hinn einstaka Tomi Ungerer, Far Out Isn’t Far Enough: The Tomi Ungerer Story. Ævi Ungerers er ekki síður áhugaverð en allar bækurnar hans. Til rökstuðnings: Á sjöunda áratuginum fluttist hann til New York borgar og sló þar í gegn sem barnabókahöfundur. Meðfram því hélt hann svo einhverju sinni sýningu á klámfengnum teikningum (eins og allir góðir barnabókahöfundar ættu reglulega að gera) – sýningin fór svo fyrir brjóstið á frómum siðferðispostulum útgáfubransans að Ungerer var bókstaflega hrakinn burt frá Bandaríkunum. Hann bjó um skeið í Kanada en varði síðustu áratugum ævi sinnar á Írlandi. Hugur hans var fjársjóðskista. (SN.)

Af netinu, 8. febrúar 2019

Gengur þú með bók í maganum? Hér er góð grein um af hverju þú ættir ekki að skrifa bók.

Vissuð þið að það er til sérstakur iðnaður í kringum svefnbókmenntir, þ.e. bækur sem eru beinlínis skrifaðar í því skyni að svæfa lesendur? Galdurinn, að mati reynslubolta í faginu, er að hafa bækurnar ekki of spennandi – en að sama skapi ekki of leiðinlegar.

Við Sverrir höfum rætt ansi oft um bókina Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson á þessum vettvangi og erum báðir mjög ánægðir með hana. Þetta umfjöllunarefni virðist vera vinsælt út fyrir landsteinana. Blaðamaður Financial Times skrifar hér ansi fína grein um það þegar hann þurfti að róta í bókasafni föður síns að honum látnum.

Hér er býsna forvitnilegt viðtal við manninn sem stýrir norska olíusjóðnum. Skemmtilegt að lesa að hann er menntaður í heimspeki, lögfræði, stjórnmálum, hagfræði og viðskiptum. Virðist býsna klár og áhugaverður af þessu viðtali að dæma.

Nú hef ég bæði mjög gaman af myndlist og bókmenntum, en finnst ekki margar bækur um myndlist neitt sérlega góðar. Þótti þess vegna gaman að lesa þetta viðtal við listgagnrýnandann Andrew Graham Dixon þar sem hann mælir með fimm bókum um myndlist – allt verkum sem ég hafði aldrei heyrt um áður.

Sverrir talaði um bókina The Age of Surveillance Capitalism eftir Shoshönu Zuboff í síðasta Leslista og vakti áhuga minn á henni. Svo sá ég að tveir hugsuðir og rithöfundar, sem ég hef miklar mætur á, birtu gagnrýni um bókina í vikunni; annars vegar breski heimspekingurinn John Gray og hins vegar hvítrússneski rithöfundurinn Evgeny Morozov.  

Ég hef oft átt í miklum rökræðum við sjálfan mig um hvort ég fíli bandaríska myndlistarmanninn Jeff Koons eða hvort ég þoli hann ekki. Þetta frábæra viðtalvið hann fékk mig ekki endilega til að komast til botns í þeim vangaveltum, en það var helvíti áhugavert.

Annað þessu tengt. Hver kannast ekki við það þegar krakkarnir sletta kornflexi á 100 milljón dollara Basqiat málverkið sitt um borð í fjölskyldusnekkjunni? Þið getið vælt eins og þið viljið um flóttafólk og loftslagsbreytingar en hugur minn er hjá auðmönnum sem slysast til að skemma verðmætu listaverkin sín. Hér er skemmtileg grein í Guardian um þetta aðkallandi vandamál.

Friedrich Nietzche hefur af einhverjum ástæðum oft verið álitinn ofstækismaður, ruddi og brjálæðingur. Ný ævisaga um hann færir hins vegar rök fyrir því að hann hafi víst verið algjört ljúfmenni. (KF.)

Ég strengdi þess áramótaheit, af siðferðisástæðum, að byrja aftur að borða kjöt – eða öllur heldur: geta borðað hvað sem er, gerast alæta. (Það hefur reyndar ekki gengið vel.) Hér skrifar íslenskur karlmaður aftur á móti um veganisma – og karlmennsku.

Statistík fyrir áhugafólk um listamannalaunin. Birtist á Starafugli.

Því er ekki tekið út með sældinni að vera offitusjúklingur.

Magnús Guðmundsson skoðar ljóðabækur sem skolaði upp á strendur okkar í síðasta jólabókaflóði.

Nú ætlar fjölskylda J.D. Salingers loks að byrja að tutla út bókunum sem hann dundaði sér við að skrifa í einrúmi í hálfa öld. Sonur Salingers segir að verkin muni koma út næsta áratuginn. Ég fyllist, af einhverjum ástæðum, kvíða. (SN.)


Til að hlusta á:

Sá ágæti sjónvarpsmaður, Jón Ársæll, tekur viðtöl við öðruvísi, og þar með áhugavert, fólk í þáttaröðinni Paradísarheimt. Í þriðja og fjórða þætti spjallar hann meðal annars við ljóðskáldið unga, Soffíu Láru. Mjög gott. (SN.)

Mér fannst þetta viðtal við blaðamannin Celeste Headlee í Knowlegde Project hlaðvarpinu býsna gott. Hún ræðir um samræðulistina og hvað maður þarf að gera til að læra að hlusta betur á annað fólk. Ég heyrði ansi margar hollar áminningar í þessu viðtali og mig grunar að það geri öðrum gott. Hér er líka TED fyrirlestur frá henni (þoli oftast ekki TED fyrirlestra, en sumir eru ágætir, þar á meðal þessi). (KF.)

 

Af netinu, 1. febrúar 2019

Ef maður hefur áhuga á „að ná árangri“ (þá kannski sérstaklega sem frumkvöðull í hugbúnaðargeiranum) er þetta ágæt lesning. Fyrir okkur hin, dauðlegt fólk, er þetta fróðleg innsýn inn í heim metnaðarfullra.

Ragnar Kjartansson opnaði nýja sýningu í vikunni og af því tilefni var tekið skemmtilegt viðtal við hann fyrir Mbl.

Ég er mikill aðdáandi Costco, ekki endilega verslunarinnar sjálfrar heldur viðskiptamódelsins sem býr að baki hennar. Hér er ágæt glærukynning sem útskýrir kosti þess.

Dálkahöfundurinn og blaðamaðurinn Russel Baker lést nýlega og af því tilefni dró blaðamaður Atlantic fram nokkura ára gamalt viðtal við kauða. Ég kannaðist ekkert við hann áður en ég las viðtalið en mér fannst það virkilega skemmtilegt.

Það er greinilega ekki séríslenskt vandamál að eiga í erfiðleikum með að kaupa eigið húsnæði. Hér er ágæt erlend grein sem fer í saumana á vandamálinu.

Rory Sutherland skrifar hér algjöra neglu um skilvirknivæðingu auglýsingabransans. Get ekki beðið eftir að hlusta á hann tala í næstu viku.

Munuð þið eftir rokkstjörnunni Andrew WK? Hér er hann með frábært svar við hræðilegri spurningu. Hér er líka myndband með honum sem ætti að keyra helgina í gang fyrir ykkur. (KF.)

Pamela Anderson, fyrrum strandvörður, er hér í bitastæðu spjalli við tímaritið Jacobin og heimspekinginn Srećko Horvat um mótmælaölduna í Frakklandi, vandræði Evrópusambandsins, eigin aktívisma og margt fleira. (SN.)


Til að hlusta á:

Hallgrímur Helgason tók við íslensku bókmenntaverðlaununum og flutti skemmtilega ræðu. (SN.)

Talandi um Rory Sutherland, vin okkar. Ég var að uppgötva að hann væri með nýtt hlaðvarp á BBC. Búinn að hlusta á einn þátt og er vís til þess að klára alla seríuna á einu bretti.

Ég hlustaði í vikunni á stórgott viðtal við Josh Wolfe, sem er framkvæmdastjóri sprotasjóðs. Það sem mér fannst forvitnilegast við viðtalið var viðhorf hans til barnauppeldis og hvað hann telur barneignir eiga stóran hlut í að móta góðan stjórnanda. Annars ágætt spjall um hvernig maður á að taka ákvarðanir og hvernig maður á að tækla stór verkefni.

Ég hef stundum minnst á Patrick Collison, ungan frumkvöðul sem er einna þekktastur fyrir að hafa stofnað greiðslumiðlunarfyrirtækið Stripe. Þrátt fyrir að vera ungur að árum virðist hann bæði djúpur og víðlesinn. Fyrir ekki svo löngu minntist ég á frábæra grein eftir hann og Michael Nielsen, vin hans, þar sem þeir velta vöngum yfir því sem virðist vera minnkandi ábati af vísindum. Á mánudaginn síðastliðinn birtist svo viðtal við hann í uppáhalds hlaðvarpinu mínu, Econtalk, þar sem hann fjallar ítarlega um greinina og margt annað. Þetta var eiginlega með því besta sem ég hef hlustað á lengi – mæli mikið með þessu samtali.

Þetta var greinilega vika góðra hlaðvarpa hjá mér. Hef af og til hlustað á hlaðvarpið The Moment með handritshöfundinum Brian Koppelman. Nýlega tók hann viðtal við rithöfundinn Steven Pressfield sem er þekktur fyrir að skrifa skáldsögur og bækur um ritstíflu og hvernig rithöfundar og aðrir listamenn geta fundið leiðir til að útrýma henni. Ég las einmitt eina þeirra fyrir nokkrum árum sem ég mæli með. Hún kallast Nobody Wants To Reads Your Shit og er góð lesning fyrir hvern þann ætlar sér að starfa við einhvers konar ritstörf. Viðtalið fjallar einmitt um starf rithöfundarins, ritstífluna og hvernig atvinnumenn vinna bug á henni. (KF.)

Af netinu, 25. janúar 2019

Hagfræðingurinn Tim Harford varð vinsæll fyrir rétt rúmum áratug síðan – þegar það var í tísku að skilja hversdagslega hluti út frá lögmálum hagfræðinnar. Hann skrifaði bókina Undercover Economist sem var feikilega vinsæl á þeim tíma, rétt eins og Freakonomics sem margir muna eftir. Svo varð hér hrun, eins og sumir muna, og hagfræðin datt svolítið úr tísku í kjölfarið. Sem meikar alveg sens – ef hagfræðin nýtist ekki við að skilja einmitt það sem hún var hönnuð til að útskýra, af hverju ætti einhver að nota hana til að skilja hversdagsleg fyrirbæri? Ég staldraði samt við þegar ég sá að Harford hafði skrifað skemmtilega grein í Financial Times um hvernig hann beitti kenningum atferlishagfræðinnar (e. behavioral economics) til að venja sig af snjallsímanotkun.

Hér er ansi góð grein um það sem rokkstjörnur geta kennt okkur um rekstur fyrirtækja.

Talandi um rokkstjörnur. Ég sé alveg fyrir mér að einn daginn mun ég eiga samtal við krakkana mína um hljómsveitir eins og Bítlana og Rolling Stones á meðan þau ranghvolfa augum og vita ekkert hvað ég er að röfla um. Einn daginn gleymist allt sem okkur finnst merkilegt í dag. En hvernig gerist þetta? Hvernig hverfa hlutir úr minni heilu samfélaganna? Hér er eðlisfræðingurinn Cesar Hidalgo í skemmtilegu viðtali um rannsóknarverkefni sitt sem fjallar einmitt um þetta – hvernig mannfólkið gleymir á endanum karakterum eins og John Lennon og Mick Jagger. Hidalgo hefur áður borið á góma á þessum vettvangi í tengslum við bókina Why Information Grows sem hann skrifaði og ég held mikið upp á.

Í síðasta Leslista minntist ég á ágæta grein eftir Jökul Sólberg félaga minn þar sem hann skrifaði um umhverfi sprotafyrirtækja. Hann skrifaði aðra áhugaverða grein nýlega um fyrirhugaðan þjóðarsjóð og gagnrýnir þau áform harðlega.

Hér er að finna virkilega góða grein úr New Yorker þar sem greinarhöfundur veltir fyrir sér listinni að taka ákvarðanir og reynir að draga fram hvað raunverulega býr að baki stórum ákvörðunum í lífi okkar.

New Yorker er greinilega með nokkrar neglur þessa dagana. Hér er brot úr dagbók eftir Robert Caro, þann mikla ævisagnameistara, sem hann skrifaði þegar hann dvaldist í Texas við rannsóknarvinnu vegna bókarflokks hans um Lyndon Johnson, bandaríkjaforseta.

Skemmtileg hugleiðing hér um vinnusemi og af hverju hún er ekki jafn mikil dyggð og af er látið. (KF.)

Grein þar sem reynt er að draga fram það jákvæða sem gerðist árið 2018.

Njóttu hvers kaffibolla – á meðan þú getur.
„Among the world’s 124 coffee species, […] 60 percent are at risk of extinction in the wild. Climate change and deforestation are to blame.“

David Byrne heldur úti fréttabréfi og vefsíðu: Reason to Be Cheerful. Ég sá hann ýta verkefninu úr vör á sínum tíma í The New School í New York, þar sem hann lýsti því hvað fyrir honum vakti á sinn einkennandi, taugaveiklaða máta. Hann sagði að við mættum ekki einungis starblína á hið hræðilega – aukna misskiptingu, loftslagsbreytingar, hrottalega valdhafa o.s.frv. – heldur þyrftum við einnig að sækja orku í það góða sem mannfólk áorkar. Og er ekki bara nokkuð til í því?

Heimskan sigrar endanlega á Íslandi.

Blaðamennska tórir enn, í hið minnsta hjá The New York Times. Viðtal við Jill Abramsson, fyrrum ritstjóra New York Times. Hún var að gefa út áhugaverða bók, Merchants of Truth: The Business of News and the Fight for Facts.

Mary Oliver, eitt þekktasta samtímaskáld Bandaríkjanna, lést í hárri elli í vikunni. Viðbrögð lesenda sýna að hún átti sér marga fylgjendur. Falleg lýsing á henni í þessari grein:
„Oliver lived a profoundly simple life: she went on long walks through the woods and along the shoreline nearly every day, foraging for both greens and poetic material. She kept her eyes peeled, always, for animals, which she thought about with great intensity and intimacy, and which often appear in her work not so much as separate species but as kindred spirits.“
Nýlega kom út úrval verka hennar, Devotions.

Óskar Arnórsson, dyggur fylgjandi Leslistans, benti mér á að til eru þessar ágætu íslensu þýðingar á ljóðum gríska skáldsins Kavafís. Þýðandi: Atli Harðarson. Þarna leynist meðal annars eitt eftirlætisljóða minna, „Borgin“, í laglegri (en þó ekki lýtalausri) þýðingu.

… Og þá rifjast upp fyrir mér að annar slyngur þýðandi, Þorsteinn Vilhjálmsson, sendi frá sér úrval þýðinga á grískum og rómverskum ljóðum árið 2016, Mundu líkami (Partus Press), og sú geymir meðal annars þýðingar á ljóðlist Kavafís. Ég sé að bókin er uppseld, sem er súrt því ég var ekki á réttri breiddargráðu þegar hún kom út og gat því ekki orðið mér úti um hana. Ef einhver vill senda Leslistanum eintak, þá má það…

Ásgeir H. Ingólfsson skrifar fína grein um listamannalaunin.
„Höfum það líka alveg á hreinu að fyrir ríkið eru þessar 650 milljónir smápeningar. Þetta er það sem kostar að malbika 13 kílómetra, Þjóðkirkjan kostar þrefalt meira (og þá eru sóknargjöld undanskilin), sem og varnarmál þessarar herlausu þjóðar, ört fjölgandi aðstoðarmenn ráðherra og þingmanna munu bráðum kosta nærri því jafn mikið og öll listamannalaun, framlög til stjórnmálaflokka eru hærri en listamannlaun, það kostar meira að reka Íslandsstofu (áður Inspired by Iceland) og jafnvel á menningarsviðinu sjálfu eru þetta litlir peningar; Harpan, Þjóðminjasafnið, Sinfóníuhljómsveitin og Þjóðleikhúsið eru allt stofnanir sem eru töluvert dýrari í rekstri en listamannalaun.“

Magnús Halldórsson ritar einnig ágæta hugleiðingu um listamannalaunin og bendir á hið augljósa:
„Það sem mér finnst slá­andi við lista­manna­launin er hversu lág þau eru. Hugs­unin að baki laun­un­um, eins og umfjöll­unin um þau er í lög­un­um, er að þau geti gefið lista­mönnum svig­rúm til að sinna list­sköp­un­inn­i. 
Ekki er hægt að segja 392.498 krónur á mán­uði séu góð laun. Þau veita ekki svig­rúmið sem þarf, eins og lagt er upp í lög­unum um lista­manna­laun­in. Það held ég að sé nokkuð aug­ljóst.“
 (SN.)

Af netinu, 18. janúar 2019

Fallegt viðtal við Kristínu Jóhannesdóttur, þá snjöllu leikhús- og kvikmyndagerðarkonu, um Núna, verk sem hún sviðsetur í Borgarleikhúsinu og geymir frumraun þriggja höfunda í leikritaskrifum.
Talið berst að Sigurði Pálssyni, skáldi, sem kvaddi okkur á síðasta ári.
„Ég ætla að hafa Sigurð með mér hér áfram, þangað til ég veit ekki hvenær,“ segir hún ofureðlilega. „Það var einhver að minnast á það við mig um daginn, varfærnislega, að röddin hans væri enn í símsvaranum hér heima, hélt þetta væri eitthvað sem ég hefði ekki athugað. En ég geri það stundum bara sjálf að hringja heim og þá heyri ég röddina hans … ljóð muna rödd, segir einhvers staðar!“

Snorri Másson, blaðamaður, birti langt viðtal við Halldór Armand í Stúdentablaðinu. Talið barst meðal annars að stöðu skáldskapar, og bókarinnar, á okkar skrítnu tímum, og að listamannalaunum. (SN.)

Talandi um Halldór. Hann flutti nýlega mjög skemmtilegan pistil í Lestinni á RÚV um það hvernig hann misskildi góða tilvitnun í Andy Warhol.

Jökull Sólberg, stofnandi sprotafyrirtækisins Takumi, skrifaði aðsenda grein í Viðskiptablaðið í síðustu viku um umhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi. Mikið real-talk hér á ferð.

Hér er frábær greining á skapandi listum og mikilvægi þeirra fyrir samfélagið. Góð hugleiðing í tilefni útnefninga listamannalauna.

Marie Kondo og tiltektarráð hennar hafa öðlast miklar vinsældir. Hún hefur gefið út vinsælar bækur um naumhyggjulífstíl og var að byrja með þætti á Netflix um snyrtitlegt líferni. Hún hefur m.a. talað fyrir því að fjarlægja bækur af heimilum (í hið minnsta þeim sem vekja ekki gleði innra með manni). Hér er skrifað skemmtilega um einmitt það.

Fannst áhugavert að lesa þessa skýrslu frá Reuters þar sem rýnt er í framtíð fjölmiðla. Þar er m.a. talað um aukið mikilvægi hlaðvarpa og áskriftarmiðla á kostnað netmiðla sem reiða sig á auglýsingar og samfélagsmiðla.

Ég ræddi fyrir nokkrum mánuðum um bók sem ég las eftir Winston Churchill þar sem hann talar um ástríðu sína fyrir listmálun. Nú sé ég að út er komin ný bók þar sem fjallað er ítarlega um Churchill sem listmálara. Hér er fín grein um hana.

Uppáhalds slóvenski heimspekingur allra, Slavoj Žižek, skrifar hér ágæta greinum Metoo-byltinguna og afleiðingar hennar. Í henni minnist hann m.a. á Klaustursmálið alræmda.
(KF.)

Ef Pétur Gunnarsson skrifar eitthvað, les ég það. Hér er fjallað um klukkuna og tímann: „Það jaðrar við ofskynjanir að sjá þau trítla í myrkrinu með töskurnar á bakinu eins og litlir fallhlífarhermenn innan um æðandi stálflykkin, oft við akstursskilyrði sem nálgast blindakstur.“ (SN.)


Til að hlusta á:


Friðrik Rafnsson, íslenskur þýðandi Michels Houllebecq, segir frá nýjustu bókfranska ólíkindatólsins. (SN.)

Fannst skemmtilegt að heyra þetta viðtal við listfræðinginn Ólaf Gíslason á RÚV um ítalska ljóðskáldið og fræðimanninn Giacomo Leopardi sem hefur nokkrum sinnum verið til umfjöllunar á þessum vettvangi. Við Sverrir erum einmitt báðir miklir aðdáendur doðrantsins Zibaldone sem hefur að geyma hugleiðingar þessa merka manns. Leopardi er kannski þekktastur hér á landi fyrir að hafa skrifað Samtal á milli náttúrunnar og Íslendings sem er aðgengileg í íslenskri þýðingu Ólafs hér.

Ég hef sjaldan náð að klára að hlusta á heilt hlaðvarp frá Joe Rogan, sem er ein stærsta hlaðvarpsstjarna hins vestræna heims. Ég hlustaði þó á viðtal hans við bandaríska sálfræðinginn Jonathan Haidt frá byrjun til enda á dögunum og hafði mjög gaman af. Í viðtalinu fjallar hann fyrst og fremst um nýja bók sem hann skrifaði ásamt Greg Lukianoff og nefnist The Coddling of the American Mind. Í henni fjallar hún um hvað ofverndun barna getur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér og að slík ofverndun sé farin að hafa mikil áhrif á bandarískt samfélag. (KF.)

Af netinu, 11. janúar 2019

Ég hef gaman af kommúnistatímaritinu bandaríska Jacobin þrátt fyrir að vera býsna langt frá því að geta talist vinstrisinnaður sjálfur. Fannst þess vegna áhugavert að lesa þessa fínu grein um tímaritið og stofnanda þess.

Hér er viðtal við bjartsýnispostulann Steven Pinker þar sem hann svarar m.a. gagnrýnendum sínum. Hann gerir það frekar illa að mínu mati, en dæmi hver fyrir sig.

Að öðrum bjartsýnispostula. Matt Ridley er rithöfundur sem ég hef ekkert sérstaklega gaman af en mér fannst þessi pistill hans (sem er mjög í anda bókarinnar Factfulness sem ég fjallaði um í árslistanum okkar) nokkuð fínn. Hann fjallar um af hverju fólk, og þá sérstaklega fjölmiðlar, heillast svona mikið af svartsýni.

Nokkuð góð grein í New York Times um breyttar siðgæðiskröfur til rithöfunda frá útgefendum.

Mér fannst þetta vera svakalega góð grein eftir Malcolm Gladwell um lögleiðingu maríjúana. Fékk mig til að hugsa tvisvar um þetta hitamál.

Hér eru ágætar skrifráðleggingar frá J.K. Rowling.

Þessi fína grein fer í ágætlega í saumana á verkum Nassim Taleb.

Frábær og ítarleg grein um bandaríska háskóla og af hverju þeir eru svona andskoti dýrir.

Hér er fjallað um nýja bók sem hefur að geyma verk eftir breska listmálarann Lucian Freud sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Annar höfunda þessarar bókar skrifaði líka kraftmikla bók um sama málara sem nefnist Man With a Blue Scarfog fjallar um það þegar hann sat fyrir á mynd eftir hann. Sú bók er ein allra besta bók sem ég hef lesið um myndlist – og ég hef lesið þær ansi margar.

Hér hefur snjall greinarhöfundur tekið saman gagnrýni um klassísk verk á Goodreads og komist að þeirri niðurstöðu að því lengri sem bækur eru – því betri séu þær.

Sálfræðingurinn Judith Rich Harris lést fyrir skömmu og af því tilefni tók gáfumannavefurinn Edge saman nokkrar greinar eftir hana og viðtöl við hana. Hér er mjög forvitnilegt viðtal við hana þar sem hún heldur því fram að foreldrar hafi lítil sem engin áhrif á börn sín.

Fann þessa mögnuðu frásögn frá ungum viðskiptablaðamanni sem glímdi við skæða heróínfíkn samhliða störfum sínum sem blaðamaður. (KF.)

Langar þig að lesa hnitmiðað yfirlit – að minnsta kosti nokkuð hnitmiðað – um fyrri heimsstyrjöldina? Þá er William T. Vollmann, sá yndislega ýkti og öfgakenndi höfundur, þinn maður.

Jón Bjarki Magnússon skrifar góða grein um dapurlega hlið á íslenskum leigumarkaði.
„Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins áætlar að á bilinu fimm til sjö þúsund manns haldi nú til í atvinnu- og iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þar af 860 börn. […] Atvinnu- og iðnaðarhverfi voru ekki hönnuð með íbúabyggð í huga og eru því almennt ekki hentug til búsetu.“

Rakst á þetta skemmtilega spjall, nokkurra mánaða gamalt, við teiknarann flinka, Elínu Elísabetu.

Maður sem starfað hefur árum saman sem penni hjá Sports Illustrated ekur nú á seinni hluta starfsferilisins sendibifreið á vegum Amazon. Tímanna tákn?
„Let’s face it, when you’re a college-educated 57-year-old slinging parcels for a living, something in your life has not gone according to plan.“

Og fyrst Amazon ber á góma: Ættum við öll að gefa skít í gamaldags bókaútgáfur og hverfa á náðir sjálfsútgáfu í faðmi Amazon-báknsins? Eru ritstjórar ekki brátt bara útdauð dýrategund og tilheyra gamaldags bókaforlög ekki eins fljótlega fortíðinni? Ég held ekki – en hitt er þó ljóst, að rithöfundar þurfa að hugsa og skipuleggja útgáfustarf með ólíkum hætti en áður.

Smásaga eftir ungan höfund, Maríu Elísabetu, en hún frumflytur annan hvern föstudag smásögu eða annan frumsaminn texta í morgunþættinum Múslí. (SN.)


Til að hlusta á:


Hér er áhugaverður þáttur af This American Life, „The Room of Requirement“, sem fjallar um bókasöfn. Í fyrsta hluta þáttarins er bókasafn eitt á landamærum Kanada og Bandaríkjanna tekið til umfjöllunar. Þetta er afar óvenjulegt bókasafn að því leytinu til að það tilheyrir, bókstaflega, tveimur löndum: landamærin kljúfa safnið í tvennt. Íranskir stúdentar í Bandaríkjunum hafa að undanförnu nýtt sér þetta safn í óvæntum tilgangi. Í öðrum hluta þáttarins er fjallað um The Richard Brautigan Library Project, sérkennilegt bókasafn sem sprettur beint út úr The Abortion, skáldsögu eftir Brautigan. Mjög skemmtilegt. Vinkona mín, Constance Parpoil, á heiðurinn að þessari fínu ábendingu.