Af netinu, 28. desember 2018

Hér er skemmtileg grein um neikvæða gagnrýni og hvað skortur á slíkri gagnrýni getur verið skaðlegur.

Stórgott viðtal við vísindamanninn Laslo Barabasi sem hefur rannsakað ítarlega hvaða lögmál liggja að baki árangri í listum.

Financial Times tekur hér saman gagnlegar ráðleggingar um hvernig maður getur skapað sér meiri tíma til að lesa á komandi ári.

Falleg hugvekja til varnar letinni.

Hér eru gleðifréttir fyrir listunnendur. Höfundaréttur verður afnuminn af fjölda góðra verka árið 2019.

Hér er geggjað viðtal við Seamus Heaney þar sem hann fer yfir hvernig hann kennir fólki að skrifa. Góð lína hér:
“Poetry isn’t important in one sense — it’s more important to live your life and be a good person. Who cares about poetry, there’s plenty already around. Life is more important than art.” (KF.)

Ungur blaðamaður hjá The Spiegel skáldaði upp persónur, staðarlýsingar, atburði – og samstarfsfólk hans og lesendur gleyptu við bullinu. Fyrir hin skáldlegu skrif sín hlaut blaðamaðurinn ungi svo fjölda verðlauna. Hér er önnur úttekt á þessu skrítna máli.

Athyglisverð innsýn í líf manns sem selur maríúana til fastakúnna í New York-borg.

Nick Cave sendir út fréttabréf til aðdáenda sinna og glímir þar við dýpri spurningar en gengur og gerist hjá poppstjörnum. Mæli með bréfinu sem fjallar um ástvinamissi og sorg, og ekki síður þessu hér þar sem hann útskýrir hvers vegna hann kýs frekar að vera trúaður en trúlaus. (SN.)

Af netinu, 20. desember 2018

Þessi er líkleg til að vinna til verðlauna sem fallegasta grein ársins. Í henni segir kona söguna af því hvernig pabbi hennar, hefðbundinn úthverfapabbi, varð vinur körfuboltamannsins fræga, Charles Barkley.

The New York Times er hér með ágætan prófíl um sjónvarpsstjörnuna Ellen.

Michel Houllebecq fer hér lofsamlegum orðum um Trump. Við Sverrir erum sammála um að þetta sé hálfgert menntaskólaraus – en dæmi hver fyrir sig.

Hér er fantavel skrifuð og forvitnileg grein um fyrrum fanga sem stofnaði brauðgerð, varð moldríkur og missti svo vitið í kjölfarið.

Rambaði á þessa fínu greiningu Soffíu Auðar Birgisdóttur á stöðu bókmenntaumfjöllunar á vefritinu Skáld.is. Hún gekk einmitt í ráðuneyti Leslistans fyrir ekki svo löngu síðan.

Vísindamenn á sviði loftslagsmála virðast vera á einu máli um það að árið 536 hafi verið glataðasta ár allra tíma vegna eldfjalls sem gaus um það leyti. Hins vegar er deilt um hvort gosið hafi verið á Íslandi eða í Norður-Ameríku. Þeir sem hafa gaman af jöklarannsóknum, eldfjöllum og jarðfræði hafa gaman af þessari grein sem fjallar um málið.

Hér er líklega heiðarlegasti árslisti ársins. Nokkrir hafa hér tekið saman bestu bækurnar til að þykjast hafa lesið árið 2018.

Kanye West, vinur okkar, hefur mikið verið milli tannanna á fólki á árinu. Hérer sagt frá nýrri heimildarmynd um kauða sem varpar nýju ljósi á skrautlegan feril hans og einkalíf.

Hér er mjög forvitnileg grein úr veglegu jólablaði Economist um starfsumhverfi listamanna og ris nýrra „patróna“ með tilkomu vettvanga eins og Kickastarter og Patreon. Góð lína úr greininni:
„Writing in the 18th century, Edmund Burke described patronage as “the tribute that opulence owes to genius”. Today it is the spare change millennials pay podcasters.“

Frábær grein um hvernig internetið hefur breyst á síðustu árum frá írönskum bloggara sem var fangelsaður árið 2008 fyrir að blogga gegn ríkisstjórninni þar í landi og var leystur úr haldi árið 2014 þegar samfélagsmiðlar höfðu hertekið netheima. Nóg hefur reyndar verið skrifað um skaðsemi samfélagsmiðla og við höfum vísað í ýmsar greinar um það málefni, en mér fannst þetta mjög fersk nálgun. Merkilegt líka að greinin er þriggja ára gömul en er enn jafn viðeigandi. (KF.)

Elon Musk, ríka karlbarnið sem þráir að búa á Mars, er greinilega ekki geðþekkasti yfirmaður sem hægt er að hugsa sér.

Hér fær Fréttablaðið nokkra faglega álitsgjafa til að velja, með frekar snubbóttum rökstuðningi, fallegustu og ljótustu bókarkápur ársins. Eins finnst mér allt í lagi að sigta út það sem er fallegt – en til hvers að hæðast að því sem ekki þykir nógu vel gert?

Fyrir áhugafólk um glæpasögur og Agöthu Christie.

Uppáhalds-barnabókahöfundurinn minn, Tomi Ungerer, kveðst aldrei nota strokleður þegar hann teiknar. Spjall við franska dagblaðið Libération.

Ásgeir H. Ingólfsson er ötull í ljóðabókarýninni þetta haustið. Hér skrifar hann vandaða grein um Tregahandbókina eftir Magnús Sigurðsson. Hér er önnur um nýjustu ljóðabók Kristians Guttesen, Hrafnaklukkur; sú þriðja, um aðra ljóðabók Arngunnar Árnadóttur, Ský til að gleyma; og loks afar lofsamlegur dómur um Vistarverur Hauks Ingvarssonar.

Er heimurinn að farast? Tímaritið Nature tekur saman árið sem er að líða. (SN.)


Til að hlusta á:

Daniel Kahneman, einn virtasti sálfræðingur og fræðimaður samtímans, er hér í mjög forvitnilegu viðtali við Tyler Cowen. Fjallað er um atferlishagfræðina, fræðigreinina sem hann lagði grunninn að og einnig væntanlega bók eftir hann sem ég bíð mjög spenntur eftir. (KF.)

 

Af netinu, 14. desember 2018

Ég hafði til umfjöllunar á þessum vettvangi hina ágætu Factfulness eftir Hans Rosling um daginn. Þótti gaman að sjá að Viðskiptaráð hafði valið hana sem jólabók þeirra í ár. Hér er Hjálmar Gíslason að ræða bókina í skemmtilegu viðtali.

Nokkrum sinnum hef ég vísað á bandaríska sálfræðinginn Adam Grant og það sem hann skrifar. Hér er hann í viðtali um hvernig hann nálgast það að skrifa. Vek líka athygli á þessum miðli sem tekur hann í viðtal – Writing Routines. Þar eru ýmsir rithöfundar spurðir spjörunum úr um hvernig þeir vinna.

Hér er svo hinn sami Adam Grant með mjög góða grein um einkunnir og hvað þær skipta litlu máli í raunheimum.

Hér er ágæt grein þar sem vöngum er velt yfir stöðu bókaumfjöllunar og hvernig hún hefur breyst síðustu ár.

Ég hef lengi átt í ástar/haturssambandi við sjálfshjálparbækur. Finnst það vera miðill sem er í senn ótrúlega hallærislegur og undarlega aðlaðandi. Hér tekur hagfræðingurinn Tim Harford saman lista yfir sjálfshjálparbækur sem honum finnst virka.

Hér er mjög gagnrýninn og vandaður dómur um bókina The Undoing Project eftir stjörnurithöfundinn Michael Lewis sem fjallar um feður atferlishagfræðinnar, þá Daniel Kahneman og Amos Tversky. Þeir eru ákveðin átrúnaðargoð í mínum augum og þess vegna hollt og forvitnilegt fyrir mig að lesa þetta.

Dauða dagblaðsins hefur verið spáð í langan tíma og hann er greinilega orðinn raunverulegri erlendis en hér heima. Hér er ágæt grein sem fjallar um stöðu dagblaðanna í Bandaríkjunum.

Við hjá Leslistanum elskum alla leslista, sama hvaðan þeir koma. Hér er góður árslisti frá nokkrum vel völdum aðilum sem Bloomberg tekur saman yfir bestu bækur ársins. Nokkrar hafa verið til umfjöllunar á þessum vettvangi.

Mér fannst gaman að sjá að tveir ráðunautar Leslistans eru á langlista yfir þá sem eru tilnefndir til PEN verðlauna árið 2019. Þ.e. þýðingar á Sjón og Kristínu Svövu Tómasdóttur. (KF.)

Hér flytur fimmtán ára sænsk stúlka, Greta Thunberg, magnaða ræðu á COP24-ráðstefnunni í Póllandi. Hvers vegna ræða ekki fleiri um sjöttu útrýminguna, spyr Greta, og bætir því við að allt upp undir 200 dýrategundir deyi út á hverjum degi. Eins spyr hún hvers vegna henni beri að sækja nám í skóla til að búa sig undir framtíðina þegar enginn gerir nokkuð til að tryggja að hún eigi sér nokkra framtíð. Erfitt að hrífast ekki af svo skeleggri ungri stúlku.

Barnabækur – og skortur á umfjöllun um þær.

Snöfurmannlegur pabbi tekur til sinna ráða – og lýsir hér sex ára tímabili með „síma án truflana“.

Richard Brody, kvikmyndagagnrýnandi The New Yorker, velur bestu kvikmyndir ársins.

Ertu svartsýnn um framtíð mannsins á jörðinni, rotið eðli hans og ólæknandi sjálfelsku? Þá létta þessar rannsóknarniðurstöður sannarlega ekki lund þína. (Mest sláandi fannst mér að flestir karlmenn kjósa frekar að veita sjálfum sér rafstuð en að verja fimmtán mínútum í kyrrlátri íhugun!)

Afar nösk og áhugaverð greining á nýjustu bók Johns Gray, Sjö tegundir af trúleysi. Ég gríp niður í textann:
„Seduced by scientism, distracted by materialism, insulated, like no humans before us, from the vicissitudes of sickness and the ubiquity of early death, the post-Christian West believes instead in something we have called progress — a gradual ascent of mankind toward reason, peace, and prosperity — as a substitute in many ways for our previous monotheism. We have constructed a capitalist system that turns individual selfishness into a collective asset and showers us with earthly goods; we have leveraged science for our own health and comfort. Our ability to extend this material bonanza to more and more people is how we define progress; and progress is what we call meaning. In this respect, Steven Pinker is one of the most religious writers I’ve ever admired. His faith in reason is as complete as any fundamentalist’s belief in God.“

Gulu vestin í Frakklandi vilja sporna við loftslagsbreytingum. Þeim finnast frönsk stjórnvöld bara ekki setja fram nógu róttæka aðgerðaráætlun – og súrt í broti að það sé, líkt og endranær, almenningur (og hinir efnaminnstu) sem standa eiga straum af samfélagsbreytingunum, frekar en hinir auðugustu.

Jónas Reynir, rithöfundur, flutti skemmtilegt hátíðarávarp yfir menntskælingum á Egilstöðum.

Og svo eru það bóksalaverðlaunin 2018. (SN.)


Til að hlusta á:


Athyglisvert hlaðvarp hjá The Guardian. Heimspekingur rekur hugmyndir sem upprunnar eru í öðrum heimshlutum en Vesturlöndum.

Ragnar Helgi Ólafsson, höfundur Bókasafns föður míns, rabbar við Jórunni Sigurðardóttur í Orðum um bækur. (SN.)

Af netinu, 7. desember 2018

Tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna voru tilkynntar í vikunni. Tilnefningar í flokki fagurbókmennta voru vægast sagt … fyrirsjáanlegar. Mætti ekki hætta sér út úr hinum lygna meginstraumi á næsta ári?

Talandi um íslenskar bókmenntir: Svikaskáldin góðu fjalla á skemmtilegan hátt um nýjar íslenskar bækur á Facebook-síðu sinni.

„22 September 1962: Ted [Hughes] beat me up physically a couple of days before my miscarriage: the baby I lost was due to be born on his birthday.“
Út er komið safn með bréfaskrifum Silviu Plath. Hér er fjallað um útgáfuna í The Times Literary Supplement. (SN.)

New York Times hefur tekið saman lista yfir 10 bestu bækur ársins.

Og bókavefurinn Millions hefur tekið saman árið 2018 í bókalestri.

Svo er hérna annar góður listi. Það er listi frá Literary Hub yfir mest seldu bækur síðastliðinna 100 ára. Alveg sérstaklega eftirtektarvert hvað margir metsöluhöfundar fyrri ára hafa fallið í gleymskunnar dá.

Blaðamaðurinn Jason Zweig tekur hér saman ráðleggingar um skrif í þremur góðum og gagnlegum greinum. Fróðleg og skemmtileg yfirferð.

Heimspekingurinn John Gray spjallar við Rowan Williams um trú og trúleysi. Stórskemmtileg lesning frá upphafi til enda. Hnaut um eftirfarandi setningu sem rammar skemmtilega inn hugmyndir Gray um trúleysi:
„Most of the central traditions of atheism have been a continuation of monotheism by other means. Certain beliefs are rejected but the way of thinking that monotheism embodies can still go on in other ways. For example, pretty well all contemporary atheists subscribe to a view of the world in which humankind has some of the functions of the deity that they’ve got rid of, because they imagine that there’s something you could call humanity or humankind that acts as a sort of collective moral agent.“

Áfram um trúmál. Við höfum nokkrum sinnum hlekkjað í pistla vinar okkar, Halldórs Armand, á þessum vettvangi. Nýjasti pistillinn fjallar með beinum og óbeinum hætti um hið ríka erindi sem kristin hugmyndafræði á við okkar samtíma, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Mæli með þessum pistli – og öllum öðrum pistlum eftir hann. (KF.)

Hér eru skemmtilegar vangaveltur um eina af mínum uppáhalds bókabúðum – Strand í New York.

Svo eru hérna mjög gagnlegar ráðleggingar um hvernig maður á að vinna í skapandi verkefnum samhliða fullu starfi. (KF.)

Skordýrin eru að hverfa. Hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur hin?

Einhvers staðar las ég að 95% mannkyns andi dagsdaglega að sér lofti sem sé heilsuspillandi. Hér segir að loftmengun stytti líf okkar meira en nokkur annar áhrifavaldur.

Skemmtileg grein um hinn frábæra höfund og myndlistarmann Edward Gorey í The New Yorker. Tilefnið er ný ævisaga um Gorey, raunar sú fyrsta sem rituð er um hann – og alls ekki hnökralaus ef marka má yfirferð greinarhöfundar. (SN.)


Til að hlusta á:

Ég rakst á nýtt hlaðvarp, Library Talks, sem haldið er úti af The New York Public Library. Mjög skemmtilegt. Ekki spillir að í þættinum, sem ég hlustaði á, var rabbað við hinn ágæta John McPhee. Nýlega kom út bók með safni fyrri skrifa hans, The Patch, sem hlotið hefur góðar viðtökur. McPhee er allt að því goðsagnakenndur penni innan herbúða The New Yorker og af mörgum talinn einn mesti nonfikstjón-höfundur Bandaríkjanna á síðustu öld. Ég mæli með Draft nr. 4 fyrir þá sem hafa áhuga á hvers kyns ritstörfum.

Af netinu, 30. nóvember 2018

„Í nýútgefinni skýrslu alþjóðlegu dýraverndarsamtakanna WWF eru tölurnar sláandi, 60% af dýralífi jarðar hafa horfið á síðustu 45 árum.“
Snorri Sigurðsson skrifar um neyðarkall náttúrunnar. (SN.)

Brynhildur Bolladóttir benti mér nýlega á virkilega vandaðan prófíl um Lenu Dunham, höfund sjónvarpsþáttanna vinsælu Girls. Mér er alltaf minnistætt þegar hún sagði í fyrsta þætti þeirrar þáttaraðar: „Ég held að ég sé rödd minnar kynslóðar … eða rödd einhverrar kynslóðar“. Hvort sem manni líkar það vel eða illa þá held ég samt að hún sé að mörgu leyti holdgervingur minnar kynslóðar (eða einhverrar kynslóðar ef út í það er farið). Þetta er með betri prófílum sem ég hef lesið. Greinarhöfundur virðist mála mjög sanna mynd af Dunham.

Áfram um vinsæla sjónvarpsþætti. Ég hef horft á nokkra þætti af Silicon Valleyog haft gaman af. Hér lofar Bill Gates sjónvarpsþættina á bloggsíðu sinni. Gaman af þessu.

Fannst skemmtilegt að sjá umfjöllun Atlas Obscura um þrjár bækur sem eiga það allar sameiginlegt að fjalla um bókasöfn.

Tyler Cowen, uppáhalds bloggarinn minn, birtir árlega lista yfir bestu bækur ársins. Hér er topplistinn hans yfir skáldverk og hér er topplistinn yfir óskálduð verk (e. non-fiction). Ýmsar bækur á þessum listum hafa verið til umfjöllunar á þessum vettvangi.

Nú er tími árslista og við Leslistamenn fögnum því. Hér velja gagnrýnendur Financial Times bestu bækur ársins

Hér er svo listi yfir fimm bestu hagfræðibækur ársins. Hafði ekkert heyrt um þessar bækur fyrr en ég sá þennan lista, en þær lofa ansi góðu.

Ein besta leiðin til að skerpa hugann er að leggja það í vana sinn að lesa daglega og að skrifa daglega. Morgan Housel, fjármálapenni sem ég mæli oft með, tekur í sama streng í góðri grein.

Ég hef mjög litla þekkingu á málefnum trans-fólks (veit t.d. ekki hvort ég sé að nota rétt hugtak núna) en mér fannst alveg hreint svakalegt að lesa þessa frásögn í New York Times þar sem transmanneskja skrifar ítarlega um umbreytingarferlið. (KF.)

„Einn af síðri fylgifiskum þess sem er kallað ídentítetspólitík er ákveðin tilhneiging til þess að líta fyrst til þess hver segir eitthvað og láta það síðan vega furðu þungt þegar lagt er mat á það sem viðkomandi segir. Við stillum tortryggninemana og viðkvæmni þeirra eftir þessu. Þetta er slæm pólitík af ótal ástæðum.“
Eiríkur Örn Norðdahl í viðtali við Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur, tilefnið nýútkomin skáldsaga Eiríks, Hans Blær. Úr nýjasta tölublaði Tímarits Máls & menningar.

Langar þig að sjá bókaskáp Gyrðis Elíassonar?

Í nýjasta tölublaði New Yorker rifjar ritstjórn þess upp gömul, klassísk skrif – hér er til dæmis mögnuð grein frá einum kraftmesta höfundi Bandaríkjana á 20. öld, James Baldwin.

Skýr myndræn útlistun á því hvernig loftslagið á jörðinni mun þróast eftir því hversu stóra skammta af koltvísýringi við losum út í andrúmsloftið á næstu áratugum.

Soffía Auður Birgisdóttir skrifar um Ungfrú Ísland, nýjustu skáldsögu Auðar Övu.

„[…] heimurinn horfist nú í augu við takmörk sín, öll ytri umsvif eiga fyrir höndum að skreppa saman, sá lífs- og neyslumáti sem enn viðgengst á eftir að þykja fáránlegur, glæpsamlegur jafnvel. Að sama skapi mun hið innra vaxa, innlöndin, sköpunin, upplifunin, tjáningin – vistsporið á eftir að grynnka, listsporið að dýpka.“
Frábær hugleiðing eftir Pétur Gunnarsson, um starfslaun listamanna.

Bókmenntaborgin heldur úti vef, fyrir þá sem vilja fylgjast með umfjöllun um ný íslensk skáldverk. (SN.)

Til að hlusta á:

Ég þaut í gegnum Schulz and Peanuts eftir David Michaelis á hljóðbók. Mér fannst gaman að kynnast Charles Schulz betur, eða Sparky, eins og hann var jafnan kallaður, höfundi einnar þekktustu (og virtustu) myndasögusyrpu allra tíma. Sparky krafðist þess alla tíð að hann væri bara sáravenjulegur náungi, alls engin intellektúal, en það var augsýnilega ekki rétt. Og ekki var hann beint mjög hamingjusamur. Ævisagan rekur sögu hans og fjölskyldu allt frá fyrstu stigum til þeirra síðustu – og lygilegu príli teiknihöfundarins upp á tind frægðar og stjarnfræðilegra auðæva. Hér er umfjöllun um bókina í The New York Times. (SN.)

 

Af netinu, 23. nóvember 2018

Grein vikunnar. Bill McKibben, ein af hetjum samtímans (og ég nota það orð ekki af neinni léttúð), skrifar um hvernig hinn byggilegi heimur okkar er, bókstaflega, byrjaður að skreppa saman. „The poorest and most vulnerable will pay the highest price. But already, even in the most affluent areas, many of us hesitate to walk across a grassy meadow because of the proliferation of ticks bearing Lyme disease which have come with the hot weather; we have found ourselves unable to swim off beaches, because jellyfish, which thrive as warming seas kill off other marine life, have taken over the water. The planet’s diameter will remain eight thousand miles, and its surface will still cover two hundred million square miles. But the earth, for humans, has begun to shrink, under our feet and in our minds.“ (SN.)

Stórskemmtilegt viðtal við listspekinginn Söruh Thornton sem er líklega einna þekktust fyrir bók sína Seven Days in the Artworld sem ég mæli mikið með. Tilefni viðtalsins er bók sem hún var að gefa út sem fjallar um listamanninn og eðli hans.

Þeir Patrick Collison og Michael Nielsen skrifa hér stórmerkilega grein um vísindin og hversu mikið hefur hægt á framförum á því sviði á síðustu árum. Ég er sammála hverju orði í niðurlagi greinarinnar: „The evidence is that science has slowed enormously per dollar or hour spent. That evidence demands a large-scale institutional response. It should be a major subject in public policy, and at grant agencies and universities. Better understanding the cause of this phenomenon is important, and identifying ways to reverse it is one of the greatest opportunities to improve our future.“

Vísindamaðurinn Laslo Barabasi hefur hannað sérstakan algóritma sem reiknar út hvaða vísindamenn eru líklegir til að vinna Nóbelsverðlaun. Samkvæmt þessum algóritma átti maður að nafni Douglas Prasher að vinna verðlaunin árið 2008 en í staðinn vinnur kauði á bílasölu í Alabama-fylki í Bandaríkjunum. Hérskrifar hann skemmtilega grein um þetta furðulega mál.

Spámarkaðir (e. prediction markets) eru forvitnileg fyrirbæri. Þau eru svo forvitnileg að mínu mati að ég skrifaði BS ritgerðina mína á sínum tíma um þá. Þess vegna fannst mér gaman að lesa þessa grein um kvikmyndaspámarkaði – þ.e. spámarkaði fyrir sölutölur kvikmynda og af hverju þeir eru ekki til staðar lengur.

Áðurnefndur Barabasi hefur verið ansi duglegur við tölfræðigreiningar. Hér er skrifað um nýlega greiningu hans á starfsferlum listamanna. Hún sýnir fram á að listamenn sem komast snemma undir verndarvæng áhrifamanna í listheiminum eru töluvert líklegri en aðrir til að ná árangri. (KF.)

Ekki líst mér á hvert þessi heimur stefnir. Fólk les minna en áður, heldur minni athygli við hlutina en áður, þénar minna en áður, drekkur minna en áður … og nú er fólk einnig byrjað að stunda minna kynlíf en áður! (SN.)

New York Times tók á dögunum saman lista yfir 100 áhugaverðar bækur sem komu út á árinu 2018.

MMR birti í tilefni af Degi íslenskrar tungu í síðustu viku könnun á lestrarvenjum landsmanna. Mér fannst gaman að sjá hversu margir Íslendingar lesa sér til skemmtunar og alveg sérstaklega forvitnilegt að sjá tölurnar flokkaðar niður eftir stjórnmálaskoðunum þátttakenda. (KF.)

Auður Jóns kemur skáldsystur sinni, Birgittu Haukdal, til varnar.

Dagur Sig. og bleika bindið hans Egils Helgason.

Ný ljóðabók eftir Hannes Pétursson er komin út, Haustsaugu. Af því tilefni er ekki úr vegi að rifja upp þessi skrif bókmenntafræðingsins Viðars Hreinssonar, um heildarsafn á ljóðum skáldsins. (Þarna leynist einnig grein um bók HP frá 2006, Fyrir kvölddyrum.) Hér er Hannes svo í fínu spjalli í Kiljunni.

Fín grein í The New Yorker um ógnvænlega útbreiðslu, og í raun yfirtöku, Amazon á bandarísku samfélagi. Nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins verða á tveimur stöðum, í Norður-Vermont annars vegar og hins vegar í Queens. Flestum New York-búum hrýs hugur við þessum áformum, og þó gerðu borgarvöld allt til að lokka Bezos og félaga til borgarinnar, fullyrða að þetta muni reynast borginni vel og hafa heitið Amazon alls kyns skattundanþágum. Mér finnst dapurlegt að í þessum hugsjónalausa og kaldhamraða síðkapítalisma sem öllu virðist stýra í samtímanum skuli borgaryfirvöld New York „neyðast“ til að leyfa einu stærsta fyrirtæki heims (í eigu ríkasta manns í heimi) að komast hjá því að greiða til baka til samfélagsins, sem er jú einu sinni jarðvegurinn sem fyrirtækið spratt upp úr. Í greininni segir meðal annars: „The very idea that a trillion-dollar company run by the world’s richest man could run an American Idol auction on more than two hundred thirty cities across the United States (and Canada and Mexico) to extract data on sites and on incentives, and pick up a handy three billion dollars of taxpayer money in the process, is a sad statement of extreme corporate power in our time.” Niðurlag greinarinnar er líka gott. (SN.)

 


Til að hlusta á:

Ég hef nokkrum sinnum minnst á Benedict Evans og ágætt fréttabréf hans um tæknigeirann. Hér heldur hann mjög góðan fyrirlestur um það sem hann sér fyrir sér sem framtíð tækniþróunar. (KF.)

Nýjasti þátturinn af Kveik er áhugaverður. „Umræður um loftslagsmál og skuldbindingar Íslands í þeim efnum, enda iðulega á þessum nótum: Til hvers að standa í öllu þessu veseni – orkuskiptum og skógrækt og landgræðslu og að þróa græna tækni – ef 70 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi koma frá framræstu landi?“ (SN.)

Af netinu, 16. nóvember 2018

Don DeLillo, einn virtasti skáldsagnahöfundur Bandaríkjanna, er að skrifa bóksem gerist í framtíðinni. Hann ferðast þó ekki langt fram í tímann í skrifum sínum að þessu sinni heldur aðeins um þrjú ár. „I’m not trying to imagine the future in the usual terms. I’m trying to imagine what has been torn apart and what can be put back together, and I don’t know the answer.“

Skemmtilegt viðtal við Hallgrím Helgason um nýju skáldsöguna hans. Lestursins virði, einkum vegna allra orðanna/nýyrðanna sem fæðast jafnóðum á vörum höfundarins: „innanfróð“, „flettiorka“, „feigðarfagurt fyllimenni“.

„It is not remotely implausible that in the near future, a tremendous amount of communication could be conducted in tandem with an A.I.“ Kannski verður Leslistinn brátt tekinn saman og skrifaður af gervigreind? Muntu taka eftir breytingunni þegar það gerist, kæri lesandi?

Heimurinn er að farast og flest okkar eru furðu róleg yfir því. Ekki þó samtökin Extinction Rebellion í Bretlandi.

George Monbiot skrifar um ofannefnd samtök, Extincton Rebellion, og veltir fyrir sér hvers vegna það gangi svo hægt að skipta um orkugjafa og stemma stigu við frekari hamförum. „The oligarchic control of wealth, politics, media and public discourse explains the comprehensive institutional failure now pushing us towards disaster. Think of Donald Trump and his cabinet of multi-millionaires; the influence of the Koch brothers in funding rightwing organisations; the Murdoch empire and its massive contribution to climate science denial; or the oil and motor companies whose lobbying prevents a faster shift to new technologies.“

Íslendingar láta sig einnig umhverfismálin varða. Hér heldur Andri Snær um pennann. (SN.)

Móðir mín er farin að skrifa reglulega pistla í Kjarnann um kynlegan fróðleik. Hér er nýjasti pistillinn hennar, sem fjallar um sköpunarsöguna. Mæli mikið með þessu!

Og talandi um kynlegan fróðleik. Hér er forvitnilegt viðtal við Camille Paglia.

Það þekkja fáir danska heimspekinginn Sören Kierkegaard jafn vel og hann Guðmundur Björn Þorbjörnsson (sem var einmitt fyrsti Ráðunautur Leslistans). Hann benti okkur nýlega á flotta grein um Kierkegaard og mikilvægi hans í netheimum. Þökkum Guðmundi kærlega fyrir ábendinguna.

Ég er nokkuð viss um að Edge.org sé gáfulegasta síðan á internetinu. Á henni birtast reglulega viðtöl við alls konar gáfumenni sem rista verulega djúpt. Þetta spjall við mannfræðinginn Mary Catherine Bateson er eitt þeirra. Í því fjallar hún um hvað okkur skortir almennt kerfishugsun (slæm þýðing mín á hugtakinu systems thinking). Hér er ein góð lína frá henni: „The tragedy of the cybernetic revolution, which had two phases, the computer science side and the systems theory side, has been the neglect of the systems theory side of it. We chose marketable gadgets in preference to a deeper understanding of the world we live in.“

Hér er ágætur langlisti yfir bestu viðskiptabækur ársins að mati 800-CEO READ (sem hljómar eins og símanúmer sem ég gæti hugsað mér að hringja í).

Fáir hafa greint þjóðernishyggju með jafn ítarlegum og gáfulegum hætti og Isaiah Berlin. Hér er ágæt grein í Foreign Policy sem fjallar um skrif Berlin um þjóðernishyggju og það ríka erindi sem sú greining á í dag. Hér er góð lína frá Berlin sjálfum sem rammar hugmyndir hans ágætlega inn: „Few things have done more harm than the belief on the part of individuals or groups (or tribes or states or nations or churches) that he or she or they are in sole possession of the truth.“

Frábær grein eftir John Gray, lærisvein Berlin, um það hvernig þvagskál Duchamp er ein sterkasta tákmynd hins frjálslynda vesturs.

Ég hef lengi lesið Farnam Street bloggið, og oft vísað á það á þessum vettvangi. Það er rekið af hinum kanadíska Shane Parrish. New York Times fjallaði nýlega um kauða og dregur upp fína mynd af honum.

Hér er skemmtileg grein í Guardain um „erfiðar“ bækur og af hverju þær eru mikilvægar.

Þessi skýrsla fjallar um helstu áhugamál mín – bækur og tölfræði. Hér eru tekin saman gögn um lestur fólks, þ.e. hversu margir klára tilteknar bækur. Áhugaverð samantekt – þótt gögnin vísi eingöngu til rafbóka. (KF.)

Tveir þekktir höfundar, Raymond Chandler og Ian Fleming, hittust einu sinnitil að ræða saman um spennusöguna…

Tim Parks skrifar um Leopardi, ítalska skáldið sem var krypplað af bogri yfir bókum. (SN.)

 

Til að hlusta á:

Sverrir spjallaði við Jórunni Sigurðardóttur í þættinum Orð um bækur. Aðrir gestir voru Fríða Ísberg og Haukur Ingvarsson. (SN.)

Ég hlustaði nýlega á virkilega forvitnilegt viðtal við uppeldissérfræðinginn Barböru Coloroso um hvernig maður á að ala upp ábyrg og hamingjusöm börn. Sá sem tekur viðtalið er áðurnefndur Shane Parrish sem heldur úti skemmtilegu hlaðvarpi sem nefnist The Knowledge Project.  (KF.)