Ráðunautur Leslistans: Ragnar Jónasson

RJ0020.jpg

Ragnar Jónasson tók ungur að þýða Agöthu Christie af miklum móð, og virðist hafa lært vel til verka hjá mesta metsöluhöfundi 20. aldar, enda renna nýjustu glæpasögur Ragnars út eins og heitar lummur. Sú nýjasta kom út nú á dögunum og heitir „Þorpið“. Ég náði í skottið á Ragnar og lagði fyrir hann nokkrar spurningar.

– Sverrir Norland

Kæri Ragnar Jónasson, stígðu heill og upplitsbrattur inn í ráðuneyti Leslistans, við fögnum því að fá þig til liðs við okkur. Eins og þú sérð hangir hér uppi á vegg vatnslitamálverk af Agöthu Christie sem Kári málaði í frístundum, á kvöldnámskeiði, og mér datt í hug að þú hefðir gaman af því að fá þér sæti þar? Þú getur svo valið um snarpheitt súkkulaði, kaffibolla eða mjólkurglas með súkkulaðikökunni sem ég er að baka.

Fyrst langaði mig að forvitnast hvort þú værir að lesa eitthvað skemmtilegt þessa dagana?

Ég er með svona um það bil tuttugu bækur á borðinu, kominn mislangt með þær. Get nefnt nokkrar, ákveðið jólaþema í sumum þeirra: Ungfrú Ísland eftir Auði Övu, An English Murder eftir Cyril Hare, ABC-leyndarmálið eftir Agöthu Christie (sem ég hef reyndar lesið áður nokkrum sinnum, en BBC frumsýnir nýja seríu byggða á bókinni um jólin), The Mistletoe Murder eftir P.D. James (smásögur), Mr. Dickens and his Carol eftir Samönthu Silva, Bókasafn föður míns eftir frænda minn Ragnar Helga (bók um frænda minn og afa minn), Jólabækur Ísafoldar 1958–1974 (frábær rit!) og Conversations with Friends eftir Sally Rooney.

Áttu þér einhverja skemmtilega jólaminningu af bóklestri? Eru bækur nátengdar jólahaldinu í þínum huga?

Gæti ekki hugsað mér jól án bóka. Hef lesið bækur um jólin eins lengi og ég man eftir mér. Fyrst barna og unglingabækur, en held að fyrsta skáldsagan sem ég las um jól hafi verið Sniglaveislan hans Ólafs Jóhanns, frábær bók og eftir að ég las hana var ég eiginlega ákveðinn í að skrifa skáldsögur einn góðan veðurdag. Svo gerðist það einu sinni að ég hafði óskað mér ákveðinnar bókar í jólagjöf en enginn gaf mér hana. Það var hrikalegt og eftir það kaupi ég mér bækur sjálfur fyrir jólin til öryggis.

Áttu þér einhverja eftirlætis-jólasögu?

Fyrst við sitjum undir vatnslitamálverki af Agöthu Christie þá held ég að ég verði að nefna Jólaleyfi Poirots (Hercule Poirot’s Christmas). Verð eiginlega að nefna Jólaævintýri Dickens líka, bók sem ég á í ansi mörgum útgáfum. Besta útgáfan af henni er hins vegar í uppáhaldsbókasafninu mínu, Morgan Library í New York, þar sem er hægt að skoða upprunalega handritið hans. Mér finnst líka að allir rithöfundar ættu að skrifa eina skáldsögu, að minnsta kosti, sem gerist um jól. Langar að nefna tvær aðrar glæpasögur sem gerast um jól og eru frábærar, The Finishing Stroke eftir Ellery Queen og The Christmas Crimes at Puzzle Manor eftir Simon Brett. Og auðvitað Aðventaeftir Gunnar Gunnarsson. Fátt skemmtilegra en að hlusta á hana við arineld í Gunnarshúsi fyrir jólin.

En eftirlætis-höfund?

Mjög marga. Í glæpasögum þá nefni ég oftast P.D. James, Agöthu, Ellery Queen og S.S. Van Dine. Líka: Ian McEwan, Auður Ava, Þorsteinn frá Hamri, Sjón, Ólafur Jóhann, Jóhann Jónsson, fleiri og fleiri.

Hvað einkennir, að þínu viti, góða glæpasögu?

Óvænt (en rökrétt) sögulok, áhugaverðar sögupersónur, góð flétta og áhugavert sögusvið.

Hvernig lestu helst; af pappír, símaskjá, lesblysi? Og í hvaða stellingu; með fótleggi krosslagða í hægindastól, liggjandi út af uppi í rúmi, eða jafnvel hangandi niður úr loftinu eins og leðurblaka?

Nánast undantekningarlaust af pappír, helst gömlum pappír, bækur eldast almennt mjög vel, og ýmist liggjandi uppi í sofa eða í hægindastól. Annars las ég margar glæpasögur á gamla Landsbókasafninu á Hverfisgötu sem strákur, svo mér líður vel að lesa í því húsi.

Hefurðu fengið bók í möndlugjöf? (Og er rík möndluhefð hjá þér?)

Möndlugrautur er ómissandi, en ég held að ég hafi aldrei fengið bók í möndlugjöf, enda á ég allt of margar bækur til að nokkur nenni lengur að gefa mér bók.

Nú sýnist mér að það sé orðið algjörlega samfélagslega viðurkennt að vera í símanum á meðan maður ekur bíl — í gær sá ég til dæmis mann á hraðbraut í Mexíkó horfa á myndband meðan hann tók fram úr okkur fjölskyldunni á ógnvænlegum hraða — en telurðu að viðurkennt sé að lesa bækur undir stýri? Væri það skárra?

Ég held að það sé réttlætanlegt, og nánast siðferðileg skylda, að lesa bækur undir stýri, með eyrunum þó. Góður lesari í hljóðbók getur nefnilega gert góða bók enn betri.

Hvaða bók hefurðu oftast gefið öðrum? Finnast þér bækur henta vel til gjafa, eða er þreytandi að fá bók í gjöf, líkt og einn vinur minn heldur fram — ég er reyndar ekki sammála honum — því að þá er eins og maður sé að setja þiggjandanum fyrir heimaverkefni?

Ég gef bækur alveg óspart og reyni að koma mínum smekk yfir á vini mina. Gef samt oftast mínar eigin bækur, veit ekki alveg hvað það segir um mig. Gef líka oft Afleggjarann hennar Auðar Övu, það er eiginlega uppáhaldsbókin mín.

Þú ert ekki einn um það. En að lokum, langar þig að benda vöskum áskrifendum Leslistans á einhvern fjársjóð sem njóta mætti meiri hylli, og þá á ég við skáldsögu eða annað ritverk, jafnvel gleymdan rithöfund?

Hmm. Nefndi Ellery Queen og S.S. Van Dine hér að ofan, endilega lesa þá félaga. P.D. James er líka að miklu leyti gleymd hér heima, einn besti glæpasagnahöfundur síðari ára. Josephine Tey átti nokkrar klassískar glæpasögur í gamla daga, en fáir lesa hana í dag. Nýjustu bækur Anthony Horowitz, frábærar sakamálasögur. Vidar Sundstol frá Noregi, Minnesota-þríleikurinn. Og svo ættu allir að lesa Elías Mar, hann var frábær. Ég safna tveimur höfundum, Elíasi og Agöthu. Dálítið ólík — en tenging samt. Elías viðurkenndi það fyrir mér tveimur árum áður en hann dó að hann hefði þýtt bók eftir Agöthu (Hús leyndardómanna, 1963). Elías sagðist hafa þýtt söguna að undirlagi þáverandi dagskrárstjóra Útvarpsins, en var ekki nafngreindur sem þýðandi þegar bókin kom út. Jón Leifs, tónskáld sagði víst við Elías af þessu tilefni, eða svo sagði Elías mér, að Jóni þætti fyrir neðan virðingu Elíasar að lesa í útvarpi bók eftir Agöthu Christie. Elías nefndi þá að sjálfur hefði Jón líklega þurft að stjórna hljómsveitum í Þýskalandi sem léku verk sem honum höfðu væntanlega þótt misgóð. (Þessi bók eftir Agöthu er hins vegar frábær, og eftir að Elías lést sannfærði ég vin minn Jakob Ásgeirsson um að endurútgefa þýðinguna og þá var Elíasar loks getið sem þýðanda verksins).

Það var vel af sér vikið hjá þér — takk fyrir spjallið, og gleðileg jól!

Ráðunautur Leslistans: Rán Flygenring

42862325_2534442676784016_3721192405790097408_n

Rán Flygenring þarf vart að kynna fyrir samfélagi Leslistans, hún er einn dáðasti teiknari þjóðarinnar og verk hennar hafa ratað víða. Við Rán skrifuðumst á yfir nokkurra mánaða skeið, með löngum hléum, ýmsu raski og alls kyns flakki um veröldina; oft þegar ég settist niður til að slá inn skeyti til hennar trufluðu klístraðir barnafingur mig og kröfðust þess að slá „sdfkldsjfsdlfje“ á lyklaborðið — sem var raunar viðeigandi þar sem umræðuefni okkar Ránar voru frjáls leikgleði og barnabækur; klassískar, vanmetnar, vöntun á umfjöllun um þær og einnig sú spurning hvort sjálft hugtakið barnabókmenntir sé kjánalegt, og raunar óþarft. Hér á eftir fer sýnishorn af því sem fór okkar á milli.

– Sverrir Norland

Velkomin í ráðuneyti Leslistans, kæra Rán Fygenring! Það gleður mig að fá þig hingað til okkar. Viltu ekki setjast þarna við Kjarvalsmálverkið, þar sem ég lagði nýbakaðar múffur á disk og kaffibolla. Fáðu þér. Endilega svo teikna á veggina og gólfið og kaffibollann þinn. Hér er allt leyfilegt.

Ég veit að þú hefur, eins og vera ber, sterkar skoðanir á barnabókum. Ég, sem faðir fróðleiksfúsrar lítillar stúlku, sem er þegar afar hænd að bókum, er stöðugt á hnotskóg eftir góðum barnabókum, einkum á íslensku — það verður þreytandi til lengdar að lesa sömu bókina um Einar Áskel tólf sinnum á kvöldi — og því dettur mér í hug hvort þú lumir á góðum ábendingum um skemmtilegar sögur á íslensku?

Það er af miklu af taka (barnabækur er víðfemt hugtak á sama hátt og það er sjaldan talað um fullorðinsbækur). Ég gef mér það að dóttir þín sé ekki læs og þið lesið saman bækur þar sem hlutfall mynda er meira en texta?

Jú, stendur heima. Hún rífur reyndar stundum af mér bókina og les fyrir mig, en ég skil oftast ekki ekki alveg túlkun hennar á textanum … Oftast er það sem betur fer ég sem les.

Gott. Það er nefnilega ágætur rammi sem ég held ég haldi mig við hér eftir, til að einfalda aðeins málið.

Ég á mínar uppáhalds myndabækur, bæði úr æsku og bækur sem ég hef kynnst síðar. Tveggja ára sonur minn er hinsvegar ekkert endilega sammála mér um afþreyingargildi þessara bóka, sumt sem má eflaust skrifa á aldurinn en annað á sögurnar sjálfar. Meðal þeirra íslensku bóka sem við mæðgin getum sammælst um að þykja skemmtilegar er Vísnabókin gamla með teikningum Halldórs Baldurssonar, Konan sem kyssti of mikið eftir Hallgrím Helgason, Stína stórasæng eftir Lani Yamamoto (ok, það er reyndar ennþá mest ég sem fíla hana), Maxímús Músíkús eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson og Enginn sá hundinn eftir Hafstein Hafsteinsson. Svo einhverjar séu nefndar. Þessi listi er síður en svo tæmandi.

Fyrirtak, takk. Ekkert og enginn pínir okkur þó til að að einskorða okkur við eyjuna okkar eldsorfnu, fögru, og mig grunar raunar að þú horfir stundum líka til Norðurlandanna í leit að góðum barnabókum. Er það rétt hjá mér eða er ég úti að aka?

Heldur betur! Almennt þá sæki ég helst í norskar og sænskar myndabækur. Gróskan er svo mikil, ekkert er tabú og alltaf einhver bullandi húmor og kaldhæðni undirliggjandi. Serían um Max eftir Barbro Lindgren með myndum eftir Evu Eriksson er í miklu uppáhaldi, þetta eru stuttar bendibækur fyrir allra yngstu lesendurna en fá foreldra (a.m.k. mig) til að grenja úr hlátri (Barbro skrifaði svo fullorðinsbarnabókina Titta Max grav! þar sem Max vex úr grasi, eldist og deyr og núna hefur hún gefið út aðra álíka í samstarfi við Önnu Höglund, en sú er endursögn á Hamlet í bendibókaformi fyrir fullorðna — bók sem ég bilast úr gleði yfir). Astrid Lindgren þarf auðvitað ekki að nefna, en hálf fáránlegt að gera það samt ekki. Af nýrri demöntum verð ég að nefna Dumma teckning! eftir Jóhönnu Thydell og Emma Adbåge, brilliant teikningar og bilaðslega sniðugt plott. Sögurnar Bárðar Oskarssonar eru líka skemmtilegar. Svo eru allar bækurnar eftir Fam Ekman listaverk sem og bækur Øyvind Torseter. Því miður eru fáar af þessum bókum fáanlegar á íslensku.

Já, það er synd og skömm. Þyrfti ekki að stofna sérstakan barnabókasjóð til að efla útgáfu á íslenskum barnabókum og aðgengi foreldra að þeim? Eða taka upp sömu aðferð og Norðmenn og láta ríkið kaupa visst lágmarksupplag útgefinna bóka, sem þar með nýtist öllum; höfundum, útgefendum, lesendum. Hvað finnst þér, ef nokkuð?

Æ, veistu. Mér finnst ýmislegt og segi hiklaust já við þessu hvoru tveggja, en hvað er ráðlegast og líklegast til árangurs hef ég ekki forsendur til að meta.

Án þess að draga nokkuð úr mikilvægi þess að þýða bækur, þá eru góðu fréttirnar þær að myndabókin hefur þann kost að vera aðgengileg langflestum, sér í lagi þeim sem kunna smá hrafl í viðkomandi tungumáli.

Og svo ef við leggjum allan heiminn undir, Evrópu í heild sinni og slengjum hinum heimsálfunum með, hvaða barnabókahöfundar, lífs eða liðnir, hafa helst heillað þig, jafnvel verið þér innblástur? Þá er ég bæði að hugsa um teiknara og höfunda — eða jafnvel þá sem eru svo hæfileikaríkir að þeir ná að sameina þetta tvennt …?

Quintin Blake er í uppáhaldi og teikningarnar hans gefa mér alltaf innblástur eins áreynslulausar og fullar af lífi þær eru. Samstarf hans og Roald Dahl er eins vel heppnað og samband teiknara og höfundar getur verið. Þó Carl Barks og Don Rosa séu ekki beinlínis barnabókahöfundar þá eru þeir sagnahöfundar og teiknarar sem hafa haft gífurleg áhrif á mig og gera enn, hver á sinn hátt. Hin ítalska Beatrice Alemagna bæði skrifar og teiknar sínar bækur, margverðlaunuð og bækurnar hennar bæði gullfallegar og góðar. Hinumegin á hnettinum má finna Shaun Tan, allt öðruvísi, en algjörlega á heimsklassa.

Svo verð ég líka að nefna Finn-Ole Heinrich, samstarfsmann minn til margra ára. Hann er orðagaldramaður.

Hvað einkennir góða barnabók, er hægt að svara því?

Mér finnst góðar barnabækur yfirleitt eiga það sameiginlegt að þær ná yfir öll landamæri og aldursmæri og segja lesendum eitthvað nýtt við hvern lestur. Á það ekki annars við um bækur almennt?

Jú, það held ég. Eftirlætis-„barnabókahöfundurinn“ minn, Tomi Ungerer, skrifar til að mynda bækur sem höfða til allra óháð aldri. Þekkirðu hann?

Ég þekki helst Tomi Ungerer af teikningunum hans, en verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið neina bóka hans mjög lengi. Hver þeirra er í mestu uppáhaldi hjá þér?

Hann hefur, held ég, gefið út um það bil 140 bækur, svo það er af nógu af taka. En ef ég yrði að velja eina, þá er The Autobiography of a Teddy Bearalgjört meistaraverk.

Áttu þér uppáhaldshöfund sem hefur fylgt þér lengi?

Astrid Lindgren er einfaldlega sú sem hefur fylgt mér hvað lengst og haft sem mest áhrif á mig. Það er bara ekkert flóknara en það. Ég ætlaði alltaf að verða rithöfundur eins og hún — þangað til ég uppgötvaði að það væri einhver sem faktískt starfaði við að teikna í bækurnar hennar, þá bættist það við listann.

Hvað finnst þér að mætti gera til að efla íslenska barnabókamenningu, hefurðu einhverjar skoðanir á því?

Ég myndi vilja sjá meiri faglega umfjöllun um barnabækur. Það er tvískinnungur í því að tala um „bara barnabækur“ og hafa svo áhyggjur af dvínandi lestri barna. Ég spyr mig hvort það sé almennt einhver feimni við að gagnrýna barnabækur, eins og höfundar þeirra séu börn sem ekki má særa. Eða að umfjöllun um barnabækur eigi bara heima í miðlum fyrir börn.

Manstu hvaða bók — fyrir börn óháð aldri þeirra — heillaði þig fyrst, og hvar þú varst stödd, hvernig þér leið, hvernig veðrið var, lyktin í kringum þig, árstíðin, hvort það skrjáfaði í síðunum, hvort þú last jafnvel í leyfisleysi langt fram yfir settan háttatíma?

Ronja ræningjadóttir er biblía barnæsku minnar og ég á óteljandi margar minningar tengdar þeirri bók. Ekki endilega með hana í kjöltunni heldur teygði hún sig langt út fyrir spjöld bókarinnar. Við æskuvinkonurnar neituðum að hlýða öðrum nöfnum en Ronja, fengum okkur Ronjuskó (leðurskó með kögri) og lékum okkur svo tímunum saman niðrí móa að stökkva yfir helvítisgjánna (milli tveggja stóra steina) og tína animónur (holtasóley). Ég man eftir að hafa gjörsamlega tryllst af hræðslu yfir ímynduðum skógarnornum og verið húðskömmuð fyrir að hafa leikið rassálf úti í garði.

Áttu þér eftirlætisfullorðinsbók? Eða er kannski, þegar öllu er á botninn hvolft, ómögulegt að flokka bækur með þessum hætti, eftir aldri viðtakandans?

Eftirlætisfullorðinsbók, því er alveg vita ómögulegt að svara. Ronja? Er það ekki ágætis yfirlýsing og svarar síðari spurningunni um leið?

Ráðunautur Leslistans: Þórdís Helgadóttir

svikaskald_5

Þórdís Helgadóttir sendi á dögunum frá sér smásagnasafniðKeisaramörgæsir. Hún hefur áður birt smásögur, örsögur og aðra texta í ýmsum tímaritum, og gaf árið 2016 út litla og fallega bók, Út á milli rimlanna. Leikverk Þórdísar Þensla verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu í janúar 2019. Einnig er hún hluti af skáldahópnum Svikaskáld. Ég lagði nokkrar orðasnörur fyrir Þórdísi og útkoman fylgir hér að neðan. — Sverrir Norland

Stígðu hjartanlega velkomin hingað til okkar inn í ráðuneyti Leslistans, kæra Þórdís, það gleður okkur að fá þig til liðs við okkur. Gráupplagt að sitja á gólfinu í lótusstellingu eða þá þú getur lagt undir þig brúna sófann, þar er góð lesbirta og snarpheitt te innan seilingar. Gulrótarkakan er svo inni í ofninum, þetta er ný uppskrift sem ég er að prófa, nóg af engifer.

Fyrst langar mig að vita hvort þú sért að lesa eitthvað eftirminnilegt þessa dagana, bók eða annan texta sem þig langar að deila með fróðleiksfúsum áhangendum Leslistans?

Takk fyrir boðið! Kakan ilmar dásamlega!

Það minnir mig á það þegar ég var á Ítalíu fyrir stuttu og borðaði pistasíuís og ætiþistla og las einmitt svo stórkostlega bók: Ritgerðasafnið Litlu dyggðirnar — The Little Virtues / Le piccole virtú — eftir Nataliu Ginzburg. Ginzburg var virtur ítalskur höfundur, aktívisti og seinna þingmaður. Hún er hérna að skrifa um eigið líf, rithöfundarstarfið, móðurhlutverkið, barnauppeldi og hvernig manneskjur breytast við það lifa af stríð, en hún bjó ásamt eiginmanni sínum um tíma í útlegð áður en hann var pyntaður til dauða fyrir að taka þátt í andspyrnu gegn fasismanum. Titillinn vísar í það hvað við ættum að vera að kenna börnunum okkar, ekki litlu dyggðirnar heldur hinar stóru: Veglyndi fram yfir hagsýni, hugrekki fram yfir varkárni, mannkærleik fram yfir kurteisi. Þessi bók er bara algjör negla, atmósferísk en heiðskír, tímabær og tímalaus, hjartnæm, beitt og djúp. Á hverri blaðsíðu er eitthvað sem talar til mín og á einhvern undraverðan hátt er eins og textinn sé skrifaður í gær en ekki fyrir hálfri öld.

Þar er ég þér sammála, ég las þessa bók einmitt fyrir ekki svo ýkja löngu. Kápan er skemmtilega appelsínugul, ef ég man rétt. Og hvað fleira?

Uppgötvun ársins er kannski The Water Cure eftir Sophie Mackintosh, ungan höfund sem flaug beint inn á Man Booker longlistann með frumraunina. Óvenjuleg og einstök dystópía sem magnar upp stemningu sem lifði með mér vikum og mánuðum saman eftir lesturinn. Eiginlega langaði mig til að borða þessa bók, eins og drengurinn sem fékk bréf frá Maurice Sendak og var svo ánægður með það að hann át það.

Svo hef ég verið að lesa ógrynni af leikritum undanfarna mánuði og hef eignast mörg ný uppáhaldsleikskáld. Duncan Macmillan og Caryl Churchill standa upp úr.

Ég verð líka að fá að nefna eina ljóðabók en Calling a Wolf a Wolf eftir Kaveh Akhbar hafði djúp áhrif á mig þegar ég las hana í sumar. Stórfengleg bók. Lesið bara Orchids are sprouting from the Floorboards.

Þú varst að gefa út bók með smásögum, og þar sem ég er mikill aðdáandi og stuðningsmaður þess góða forms langar mig svolítið að vita hvort þú eigir þér einhverja eftirlætis-smásagnahöfunda og/eða -bækur?

Já! George Saunders!

Svo ég bakki um einn þá hef ég smám saman orðið hrifnari af knöppum formum. Kannski tengist það því að ég á tvö lítil börn svo tíminn er dálítið tvístraður núna, en svo er það líka bara glíman við hömlurnar sem getur oft orðið svo frjó. Góð smásaga (eða góð stuttmynd ef út í það er farið) er svona eins og vel heppnað popplag. Eða vel heppnuð máltíð. Frekar en heilt ferðalag. Fullkomin lítil heild með sína eigin laglínu og stemningu, heill heimur teiknaður upp með nokkrum strikum.

Ég les smásögur skelfilega ómarkvisst. Skemmtilegast finnst mér að fá tímarit inn um lúguna og lesa sögurnar án þess að vita einu sinni deili á höfundunum. Reyndar vil ég yfirleitt vita sem minnst og les t.d. aldrei aftan á bækur. Smásagnahöfundar sem ég er skotin í eru til dæmis Julio Cortázar, áðurnefnd Sophie Mackintosh, Joyce Carol Oates, Roxane Gay og James Salter. En mest er ég samt skotin í George Saunders. Lesið þið bara Sea Oak og reynið að skemmta ykkur ekki! Kannski er ég bara svona barnalegur lesandi en ég heimta að mér sé skemmt. Og Saunders, ofan á það að vera frumlegur, fyndinn, skarpur og með risastórt hjarta, er bara svo fáránlega skemmtilegur höfundur.

Akkúrat núna er ég svo einmitt með þrjú girnileg smásagnasöfn úr jólabókaflóðinu á náttborðinu: Ástin Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Ég hef séð svona áður eftir Friðgeir Einarsson og Kláði eftir Fríðu Ísberg.

Aldeilis fínt. Og ekkert að því að láta skemmta sér, mér finnst George Saunders líka mjög skemmtilegur, en þó eru sögurnar hans oft svolítið ógnvekjandi líka, eða finnst þér það ekki? Einkum til að mynda fyrsta bókin hans, CivilWarLand in Bad Decline? Það er alltaf broddur í sögunum hjá honum, mér finnst hann ná að sameina ádeilu, jafnvel heimsósóma-predikanir, og skemmtun, grín — og svo áminningu um að við séum ennþá (og verðum alltaf) manneskjur, að við þörfnumst nándar og innileika í heimi sem verður sífellt tæknivæddari og eftir því stundum kaldranalegri, ópersónulegri. Er það ekki svolítið galdurinn hjá honum?

Jú! Ekki spurning. Hann er flugbeittur satíristi og stórkostlegur húmanisti. Fólk er gjarnt á að líkja honum við Vonnegut, sem mér finnst að mörgu leyti vel til fundið.

Já, eflaust nokkuð til í því, þó mér finnist Saunders reyndar talsvert fjölhæfari höfundur en Vonnegut (að honum ólöstuðum), fleiri litir í pallettunni…

Sjálfum finnst mér smásagnaformið — eða jafnvel „skáldsögur í hæfilegri lengd,“ eins og ég hef aðeins verið að skrifa upp á síðkastið — tilvalið form handa tættum foreldrum, og raunar almennt séð handa slæptu nútímafólki. Getur verið að smásagan (og nóvellan) sé í sókn á Íslandi? Fullt af smásgnasöfnum að koma út …

Já, klárlega. Og kominn tími til. Smásögur eru kúl! Eins og bæði Suður-Ameríka og Norður-Ameríka hafa til dæmis vitað lengi. Nóvellur líka. Eiginlega finnst mér bara frekar skrýtið að skáldsagan sé eins ráðandi form og raun ber vitni. Ég elska skáldsögur en þær eru svo langt frá því að vera endilega aðgengilegasta eða skemmtilegasta formið fyrir lesendur, að mínu mati. En jú, það er gróska í íslenskum smásögum og það er gaman. Þegar ég var að byrja að skrifa fyrstu sögurnar í Keisaramörgæsum bauðst mér að birta sögur annars vegar í ritröðinni Meðgöngumál frá Partus Press og hins vegar í vefritinu Skíðblaðni á vegum Tunglsins (þar sem þú komst sjálfur við sögu sem ritstjóri og höfundur!) — hvorttveggja verkefni með þann yfirlýsta tilgang að rækta og lyfta smásögunni. Það var bæði hvetjandi og inspírerandi.

Já, sællar minningar — gaman að heyra það.

Hvenær vaknaði hjá þér áhugi á að skrifa? Manstu eftir að hafa uppgötvað einhvern söguheim, eða annan höfund, sem kveikti á slíkri löngun?

Ég skrifaði alltaf frá unga aldri, eða ölllu heldur var ég alltaf að byrja á sögum sem ég kláraði svo aldrei. Einhvers staðar á ég í stílabókum hálfkláraða en afar metnaðarfulla glæpasögu í anda Agöthu Christie, sem var uppáhaldshöfundurinn minn þegar ég var 11 ára. Fljótlega upp úr því kynntist ég Stephen King og gleypti hann í mig. Á einhverjum tímapunkti uppgötvaði ég svo töfraraunsæi, valdi Hús andanna úr bókasafnshillu út af kápunni og skildi reyndar lítið í bókinni en hún kveikti samt á einhverju í kollinum á mér. Fyrst bækur gátu verið svona þá fannst mér að þær ættu klárlega að vera svona. Og fann að svona langaði mig að búa til.

Síðan kláraði ég ekki að skrifa heila sögu fyrr en einhvern tíma um eða eftir þrítugt. En það er önnur saga.

Hvaða bók hefurðu oftast gefið öðrum?

Tiny Beautiful Things eftir Cheryl Strayed. Áður en hún meikaði það með sannsögunni Villt var þessi dásamlegi höfundur með vandamáladálk sem hét Dear Sugar. Í þessari bók er bestu bréfunum safnað saman og Cheryl leysir öll vandamál heimsins. Hún er svo vitur og heiðarleg að ég grét margsinnis í strætó og keypti síðan lager af bókinni til að gefa.

Ég hef líka stundum gefið Department of Speculation eftir Jenny Offill: „Ég ætlaði aldrei að giftast. Ég vildi frekar verða listaskrímsli. Konur verða næstum aldrei listaskrímsli vegna þess að listaskrímsli sinna engu nema listinni, aldrei hversdagslegum hlutum. Nabokov gekk ekki einu sinni frá sinni eigin regnhlíf. Vera sleikti fyrir hann frímerkin.“

Ég þekki ekki þá Tiny Beautiful Things — mun bæta úr því — enDepartment of Speculation er frábær og þessi tilvitnun hjá þér … einmitt! Ég á meira að segja ókláruð drög að skáldsögu þar sem þessi orð eru „inngangsmottó“. Og mig langaði alltaf svo að þýða hana … nema kannski þú verðir fyrri til?

En gaman! Ég er líka alveg til í að gera það í samstarfi, þá verðum við helmingi fljótari!

Áttu þér uppáhaldsskáldsögu?

Jesús! Uppáhalds getur merkt svo margt ólíkt, veistu hvað ég meina? Í einhverjum skilningi er það Meistarinn og Margaríta, í einhverjum skilningi Söngvar SatansCloud Atlas eftir David Mitchell eða The White Hotel eftir D.M. Thomas. Það koma samt ótalmargar aðrar til greina, sumar bækur eru kannski greinilega meingallaðar en standa hjarta manns á einhvern hátt nærri. Það er gaman að spá í þetta.

Einmitt — ég held að mér hafi aldrei líkað bók nema hún sé meingölluð.Hlustarðu líka á hljóðbækur?

Nei, ég á óskaplega erfitt með að halda þræði í gegnum heila hljóðbók. Ég þarf helst að hafa prentgrip í höndunum til að horfa á, eða í versta falli raftæki. Aftur á móti nýt ég þess að hlusta á útvarpsþætti og podköst. Ég held t.d. mikið upp á Í ljósi sögunnarS-town og The New Yorker Fiction Podcast, sem er frábært prógramm helgað smásögum.

Já, ég hlustaði afturábak á allt New Yorker-hlaðvarpið nokkrum árum, þegar ég bjó í París og eigraði þar angistarfullur um göturnar, drakk tólf espressóa á dag og borðaði ekkert nema dísætar eplamuðlur — upprennandi smásagnahöfundar gætu sjálfsagt gert margt vitlausara (þ.e. en að hlusta á hlaðvarpið; ég mæli frekar með öðru mataræði).

Tólf! Ég var mest í svona 7–8 espressóum þegar ég bjó í Bologna og var ung með sterkan maga. En ekki lengur.

En í hvers konar umhverfi finnst þér best að lesa, Þórdís? Í strætó, í sundlaug, uppi í sófa, við stýrið á rauðu ljósi?

Strætó fyrir allan peninginn!

Ráðunautur Leslistans: Ævar Þór Benediktsson

Aevar_kynningarmynd.jpg

Ævar Þór Benediktsson hefur sent frá sér fjöldamargar vinsælar barnabækur á síðustu árum og skipað sér sess sem einn helsti baráttumaður þjóðarinnar fyrir auknum lestri barna og unglinga. Hann hefur haldið úti lestrarátaki Ævars og var árið 2017 tilnefndur til ALMA-verðlaunanna (Astrid Lindgren Memorial Award), sem ,,promoter of reading”, eða ,,lestrarhvetjari”. Og er þá fátt eitt talið.

Heill og sæll, kæri Ævar, og hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans. Þú mátt annaðhvort hlamma þér þarna á grjónasekkinn — alveg óþarfi að fara úr skónum — eða þá þú mátt leka dæsandi niður í þennan flosmjúka, forláta hægindastól hér við gluggann. Heitt á könnunni og kleinur eins og þú getur í þig látið.

En við erum ekki hingað komnir til að ræða bakkelsi. Ertu að lesa eitthvað gott þessa dagana?

Ég er að reyna að lesa sem mest af nýjum íslenskum barnabókum til þess að sjá hvað kollegarnir eru að skrifa. Ég er til dæmis nýbúinn að klára Nærbuxnaverksmiðjuna eftir Arndísi Þórarinsdóttur og sem unnandi orðagríns (og auðvitað nærbróka) hafði ég mjög gaman af. Ég er reglulegur gestur í Nexus, sem þýðir að teiknimyndasögur er eitthvað sem ég les líka mikið af. Í síðustu viku var ég til dæmis að lesa fyrstu tvö safnritin af Sweet Tooth, einstaklega grimmri og um leið fallegri distópíu sem er eins og blanda af Mad Max og Bamba. Þá var ég sömuleiðis að endurlesa Wytches eftir Scott Snyder sem er ein besta hrollvekja sem ég hef nokkurn tímann lesið. Þá var ég líka að fá einstaklega fallegt bókaknippi í póstinum eftir Sverri nokkurn Norland og bíð kátur eftir að ráðast á það.

Já, líst vel á nærbuxurnar og knippið. Lestu einnig tímarit eða vefsíður?

Ég er mikill áhugamaður um kvikmyndir og glugga reglulega í Empire-tímaritið. Það er nýkomið út aukablað frá þeim sem fókustar bara á sögu Alien-myndanna og ég er að lesa það þessa dagana. Annars les ég mest greinar í gegnum netið, oftar en ekki tengdar kvikmyndum eða viðtöl við höfunda, leikstjóra eða leikara. Hér er síða sem ég kíki reglulega á.

Notarðu jafnvel einhverjar vefsíður til að leita uppi áhugaverðar bókatillögur, annað þess háttar?

Ég nota goodreads til að fá hugmyndir að bókum og höfundum og kíki oft á amazon og skoða hvað er nýtt á ferðinni. Ég er einnig að „elta“ fjölmarga útgefendur og höfunda á twitter og þeir eru duglegir að mæla með bókum, sem ég bæti svo á “Want to read” listann á goodreads og hef þá næst bak við eyrað þegar ég kíki í bókabúð.

Einu sinni, endur fyrir löngu — eða reyndar kannski ekki fyrir svo ýkja löngu — varstu ungur drengur, og þá velti ég fyrir mér hvort þú hafir átt þér einhverja uppáhaldshöfunda? Eða varstu forfallinn tölvuleikjaspilari eins og ég? Varstu jafnvel bæði tölvuleikja- og bókaunnandi? Eða eyddirðu æskunni úti í sveit á hestbaki? Það sem ég er að reyna að fiska eftir: Hvaða rullu spiluðu bækur í uppvexti þínum?

Ég drakk í mig Stephen King þegar ég var yngri, ásamt Roald Dahl og Don Rosa. Ég var aðeins í tölvuleikjum, en litli bróðir minn, barnabókahöfundurinn Guðni Líndal, var alltaf mun betri í þeim heldur en ég, þannig að ég gaf honum oftast tölvutímann minn svo við kæmumst lengra í leiknum — enda ekki alltaf hægt að vista hvert maður var kominn í þá daga. Bækur spiluðu stóra rullu og það var farið oft í mánuði á bókasafnið til að skila og fá fleiri bækur. Ég held að þá hafi líkað kviknað árátta mín til að safna bókum, sem er eitthvað sem ég mun þurfa að lifa með alla ævi. Lúxusvandamál samt, svona ef við erum alveg hreinskilnir.

Áttu þér einhvern eftirlætishöfund, sem hefur verið þér leiðarstjarna, fyrirmynd, sem opnaði fyrir þér leiðir til að skrifa eða semja?

Kurt Vonnegut og Lemony Snicket kenndu mér að leika mér með texta, bæði í orðum og uppsetningu. Þeir kenndu mér líka að endurtekningar geta verið óvæntar og skemmtilegar, að orðagrín getur tekið margar blaðsíður og að endurtekningar geta verið óvæntar og skemmtilegar.

Í hvaða stellingu finnst þér best að lesa og í hvers kyns umhverfi? Viltu hafa einhvers konar snarl innan seilingar og þá hvernig (salt? sætt? beiskt?) eða jafnvel drykkjarföng (heitt? kalt? kolsýrt?).

Ég skrifa allar mínar bækur á kaffihúsum. Ég set risastór heyrnartól á höfuðið, hlusta á kvikmyndatónlist eða söngleiki, sötra kaffi og maula ristað brauð. Mér finnst erillinn þægilegur.

Einmitt, sama hér — svona skapandi áreiti. Hvaða bók hefurðu oftast gefið öðrum?

Bókaþjófinn eftir Markus Zusak. Frábær bók sem ég þori ekki að lesa aftur vegna þess að mér fannst hún svo góð.

Þú getur þá kannski lesið nýju bókina sem Zusak var að gefa út í staðinn? Hvaða bók hefur haft mest áhrif á líf þitt til þessa? Áttu þér slíka bók, eða eru þær kannski fleiri en ein?

Nornirnar eftir Roald Dahl, vegna þess að þar lærði ég að stundum enda barnabækur illa og að bók getur bæði verið smásögur og ein stór saga í einu. I Am Legend eftir Richard Matheson hafði líka áhrif á mig, vegna þess að það er eina bókin sem ég hef lesið sem hefur náð að bregða mér. Afrek sem ég stefni að — en mun líklega aldrei ná.

Ráðunautur Leslistans: Sjón

1_G39a6oSXfUoPpKVdS3MATA

Ég mælti mér mót við Sjón klukkan 16:03 á ónefndu kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur. Fyrst þurfti ég reyndar að ljúka erindi hjá bókaforlagi einu í grenndinni og sat þar góðan fund ásamt forleggjara. Að svo búnu yfirgaf ég bækistöðvar nefnds forlags og rölti sem leið lá að kaffihúsinu. Ég var þangað kominn klukkan 16:02. Mínútu síðar, eða á slaginu 16:03, birtist Sjón inn úr gættinni. Slík nákvæmni er til fyrirmyndar, en um leið nánast absúrd. Hann hafði þá einnig verið að sinna erindi hjá bókaforlagi í grenndinni — raunar hjá sama bókaforlagi og ég — og ekki nóg með það heldur hafði hann ætlað að hitta þar sömu manneskju og ég hafði hitt og fundað með. Því miður hefði sú manneskja hins vegar verið, af augljósum ástæðum, vant við látin, „á fundi með öðrum höfundi“. Ég ljóstraði því upp að sá höfundur hefði að líkindum verið ég. Sjón tók því vel. Upp úr dúrnum kom í kjölfarið að við hlytum að hafa yfirgefið bækistöðvar forlagsins um svipað leyti, eða klukkan 15:56 og 15:57, og svo að líkindum gengið samsíða götur áleiðis að kaffihúsinu — ég Vesturgötuna, Sjón Ránargötu. Klukkan var nú orðin 16:05. Sjón tók fram að fundur minn með forleggjaranum hefði sem betur fer ekki hindrað hann í að reka sitt erindi hjá sama forleggjara, sem var að skrifa undir pappíra, hann hefði gert það í góðu samstarfi við aðra góða manneskju innan vébanda sama forlags. Við ákváðum að fagna farsælum lyktum erinda okkar með því að panta okkur kaffi; ég ameríkanó, Sjón latte. En nefndur latte kemur einmitt við sögu síðar í viðtalinu, á leikrænasta augnabliki þess.

– Sverrir Norland

Sæll og blessaður, Sjón, velkominn í ráðuneyti Leslistans. Oftast byrja ég nú bara á að inna fólk eftir því hvað það sé að lesa í augnablikinu… Ertu að lesa eitthvað sem þér þætti gaman að spjalla um, benda á?

Já, ég er að lesa einhverja allra sérkennilegustu skáldsögu, eða skáldsagnaflokk, sem ég hef nokkurn tímann komist í. Það er þríleikur eftir Mariu Gabrielu Llansol, sem er portúgalskur höfundur, hún var í útlegð frá herforingjastjórninni og bjó í Belgíu held ég meira og minna öll sín fullorðinsár. Á ensku heitir þríleikurinn A Geography of Rebels, og er gefinn út af Deep Vellum-útgáfunni í Texas. Bókin kom út fyrir bara nokkrum vikum. Þetta er texti sem er staðsettur einhvers staðar við öll hugsanleg mörk, og fer yfir þau — mörk veruleika, ímyndunar, nútíma, fortíðar, hins mennska, hins dýrslega. Það er eitthvert flot þarna sem ég hef aldrei séð áður í texta. Þarna eru þekktar persónur úr heimspeki og bókmennta- og trúarsögu, og taka á sig ýmsar myndir í huga höfundar og helsta sögumanns verksins. Nietzsche er þarna og flæmskir sértrúarmenn frá tímum siðaskiptanna… og þetta er bara einhver mest spennandi og furðulegasti texti sem ég hef komist í lengi. Já, þetta er ég sem sagt að lesa núna.

Hljómar vel.

Já, og ég er nýbúinn að lesa aðra bók úr hinum latneska heimi, það er bók sem er einnig nýkomin út í Bandaríkjunum, sú er eftir mexíkanskan höfund og heitir The Taiga Syndrome — Taige-heilkennið — og er eftir höfund sem heitir Cristina Rivera Garza. Það er einnig með sérstakari bókum sem ég hef lesið lengi.

Og er einnig skáldsaga?

Það er líka skáldsaga, stutt skáldsaga. Í upphafi þykist hún vera einhvers konar spennusaga, eða saga með einkennum spæjarasögunnar. Kona fær það hlutverk að hafa uppi á annarri konu sem hefur stungið af frá eiginmanni sínum með öðrum manni og hefur flúið inn á svæði sem heitið Taiga, þaðan sem fæstir eiga afturkvæmt. Og það verður þarna einhvern ofboðslega sérkennilegur heimur til sem minnir í ýmsu á Stalker, kvikmyndina eftir Tarkovsky, þarna verður til svæði þar sem öll lögmál mannlegs samfélags og náttúru eru úr skorðum. Mjög heillandi bók.

Og svo er ég nú líka að lesa eitthvað íslenskt. Ég er akkúrat í þessu augnabliki að lesa Kjalnesinga sögu.

Ja-há?

Hún er ógurlega skemmtileg. Létt og skemmtileg. Stutt. Tuttugu blaðsíður, eitthvað svoleiðis. Maður bara klárar hana.

Og ertu að lesa hana þér til gamans eða er þetta hluti af einhvers konar rannsóknarvinnu?

Ég er fyrst og fremst að lesa hana mér til skemmtunar en líka sem undirbúning fyrir bók sem ég mun hugsanlega skrifa eftir þrjú ár og kannski aldrei.

Svo er ég líka nýbúinn að lesa Patrick Modiano, skáldsögu sem heitir á ensku Such Good Boys. Góðir strákar.

Já, þýðingu sem var að koma út?

Einmitt, var að koma út. Þar er Modiano á slóðum æsku sinnar. Bókin segir frá drengjum í heimavistarskóla og lýsir því hvað um þá verður, og er sögð með þessari sérstöku aðferð sem Modiano notar jafnan, þar sem minningar og tilbúningur eru á floti. Það má eiginlega segja að allar þessar bækur, sem ég er að lesa, séu þannig: það verður eitthvert veruleikarof í þeim…

Ertu aðdáandi Modiano?

Já, mikill aðdáandi. Ég hafði fyrst gríðarlega fordóma gagnvart honum. Þegar hann fékk Nóbelsverðlaunin rámaði mig eitthvað í nafnið. Það voru til í bókabúðum eftir hann verk á ensku, á milli ’85 og ’95 komu út nokkrir titlar. Og ég mundi eftir honum, hafði lesið mér eitthvað aðeins til um hann, og svo þegar hann fékk Nóbelsverðlaunin og rökstuðningurinn var gefinn — að þetta fjallaði um minnið og það að maður gæti ekki munað og væri að reyna að muna, og væri staðsett mjög nákvæmlega á tilteknum stöðum í París, og að höfundurinn sneri alltaf aftur og aftur til þessara staða, þessara minninga — þá fannst mér þetta hljóma eins og … eins og …

Þreytandi kokteill?

… já, svakalega þreytandi, franskur, heimspekilegur skáldskapur. En svo, á meðan ég var í þessu fordómakasti, þurfti ég fyrir tilviljun að tala við Sigurð Pálsson í síma og sagði við hann: Hvað geturðu sagt mér um þennan Modiano? Mikið svakalega hljómar þetta eitthvað óspennandi.

Uppáhaldshöfundur Sigga …

Já, þá fékk ég bara tuttugu mínútna fyrirlestur um Modiano. Dreif mig svo út samstundis og náði í bók sem heitir á frummálinu Dóra Bruder. Og heillaðist alveg.

Sú er einmitt komin út á íslensku.

Já, kom út nú fyrir skemmstu í þýðingu Sigurðar. Og ég las hana og gat ekki hætt, lauk henni klukkan fjögur um nóttina. Og hugsaði með mér að jafnvel þótt maðurinn hefði aldrei skrifað neitt annað en þessa bók ætti hann skilið að hljóta Nóbelsverðlaunin.

Og síðan hef ég haldið áfram að lesa hann. Í rauninni er ég orðinn einn af þessum Modiano-fíklum, sem hann heldur í sífelldri spennu, með loforði um að segja alla söguna … og svo gerir hann það aldrei.

Hann minnir mig mjög á film noir, það er andrúmsloft film noir í sögum hans. Og alveg eins og þar er hann alltaf með sitt fasta persónugallerí sem endurtekur sig. Og ég get horft endalaust á film noir… Vúps!

[Hér hellir sjón niður latte-num sínum. Uppi verður fótur og fit. Ég tel, eftir á að hyggja, líklegt að Sigurður Pálsson hafi hér verið kominn til okkar í anda, uppnuminn yfir fjörlegum samræðum um eftirlætishöfundinn hann. Hann hafi af glettnisskap staðfest nærveru sína með því að pota í Sjón, sem svo rak sig í kaffibollann.]

[Mínútu síðar, þegar menn hafa jafnað sig eftir óhappið.] Hvaða bók, eða höfundur, kveikti á þér sem höfundi, hjálpaði þér að finna leið til að skrifa bækur?

Ég hef haldið mig við það síðustu þrjátíu og fimm árin að sú bók sem skipt mig hefur mestu sé Meistarinn og margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov. Ég las hana fyrst í enskri þýðingu, þá var hún ekki komin út á íslensku. Það var bók sem Alfreð Flóki lánaði mér og krafðist þess að ég læsi svo ég yrði viðræðuhæfur. Það voru þrjár bækur sem ég þurfti að lesa til að hægt yrði að tala við mig. Meistarinn og margarítaGólem eftir Gustav Meyrink og og Krókódílastrætið eftir Bruno Schulz.

Það er góð bók…

Sem er ein af mínum uppáhaldsbókum, já, líka. En Meistarinn og margarítaer sennilega sú bók sem hefur haft mest áhrif á mig og skipt mig mestu máli. Hún sýndi mér að það væri hægt að vinna með ólíka þræði, ólíkar aðferðir, innan sömu skáldsögunnar. Þarna ertu með þrjár sögur undir; söguna af djöflinum, eða Lúsífer, sem kemur til Moskvu og setur allt á annan endann, afhjúpar alla veikleika mannsins; svo er það saga meistarans og margarítu, sem er saga hins ofsótta höfundar og þeirrar manneskju sem veitir honum von í hinum harða heimi ofsókna Stalíntímans; og svo ertu með söguna af fundi frelsarans og Pontíusar Pílatusar. Og að hægt sé að vinna með þessa þrjá þræði í einu og sama verkinu er alveg með ólíkindum. Þarna ertu með harmleikinn, dramað, eina stærstu sögu vestrænnar menningar, og svo sögu sem er sögð af satanískri gleði — ærslasögu. Þetta er bókin sem í rauninni gerði það að verkum að mig langaði til að takast á við skáldsagnaformið. Fram að því fannst mér allar skáldsögur svolítið eins.

Auðvitað höfðu þó fleiri höfundar áhrif á mig: Guðbergur Bergsson, með bæði Tómasi Jónssyni: metsölubók og Ástum samlyndra hjóna og Thor Vilhjálmsson með Fljótt, fljótt sagði fuglinn og Turnleikhúsinu. Það eru skáldsögur sem sýna manni að það er hægt að gera hvað sem er.

Á sama tíma var ég líka að uppgötva höfunda eins og William Burroughs, sem hafði heilmikil áhrif á mig og mikla þýðingu fyrir mig. Úrvinnsla hans á alls konar reyfaraefni; glæpasögum, vísindaskáldsögum, samsærisbókum, manúölum um samsetningu á skammbyssum … hvernig hann gat steypt öllu þessu saman.

Þannig að þú heyrir að allir þessir höfundar eiga það sameiginlegt að þeir eru að steypa hlutum saman. Það er einhver ofgnótt í verkum þeirra. Og þó að ég hafi nú stundum getið haldið mig frá ofgnóttinni og skrifað svona frekar mínímalískar skáldsögur, þá hef ég ofboðslega gaman af því að reyna að hafa allan heiminn undir í einu og sama verkinu.

Hefurðu þá ekki lesið Lífið: notkunarreglur eftir Georges Perec?

Jú, jú, ég las hana á sínum tíma. Fyrir hundrað árum. Þá var það ein af þessum bókum sem allir urðu að lesa. Það er annar svona hvalur.

Annar nýrri hvalur, sem hafði mikil áhrif á mig á sínum tíma, er Infinite Jest eftir David Foster Wallace, tæpar tólf hundruð blaðsíður. Ég veit ekki hvort þú þekkir hana?

Ég þekki bara þetta nafn, kannast auðvitað við bókina og hef lesið mikið um hann. Hann höfðaði samt aldrei til mín. Það gerði hins vegar annar bandarískur höfundur, sem er á svipuðum aldri, William T. Vollmann. Hann er einn af þessum höfundum sem eru af einhverri stærð sem stendur fyrir utan okkar tíma.

Vollmann var einmitt að gefa út langt og þunglyndislegt verk um loftslagsbreytingarnar, Carbon Ideologies, í tveimur bindum — No Immediate Danger og No Good Alternative. (Sjá Leslista 14. september 2018.) En einhvern veginn hefur hann aldrei náð að snerta mig á jafn persónulegan, eða tilfinningalegan, hátt og Wallace.

Nei, nei, ég skil það mjög vel. Hjá Vollmann eru þetta svo stór prójekt. Hvalir.

Og fyrst þú nefnir lofslagsbreytingarnar — ég hét vinkonu minni, henni Laurie Anderson, sem ég kom fram með nýlega í New York, að beina talinu framvegis, í hverju einasta viðtali, aðeins að loftslagsbreytingunum. Getum við haft það með?

Við skulum hafa það með.

En hvenær uppgötvaðirðu galdur ímyndunaraflsins, gleðina að lesa? Byrjaðirðu að skrifa ljóð af því bara, eða tendraði eitthvað neistann?

Ég byrjaði að skrifa ljóð þegar ég uppgötvaði atómskáldin. Þá var ég fimmtán. Það var þannig, á þeim tíma, að það var staðnæmst við Stein Steinarr í íslenskri bókmenntasögu. Við fengum að lesa einhver þrjú, fjögur erindi úr Tímanum og vatninu. Og það var haft með sem eitthvað svona skringilegt í lokin. Skólaljóðabókin minnir mig að hafi endað á nokkrum erindum úr Tímanum og vatninu. Í rauninni vissi raunverulegur íslenskur krakki ekkert að til væri eitthvað sem hét nútímaljóð.

Ég hafði reyndar gluggað öðru hverju í bók sem var til heima hjá mér, hið fræga safn Erlend nútímaljóð, sem er þýðingar mest Birtingsmanna. Þessi bók var til heima, móðir mín átti hana. Og af því að ég var lesandi krakki var ég alltaf að athuga hvað væri í hillunum. Þarna voru nokkur ljóð sem snertu við mér. „Blökkumaður talar við fljót“ eftir Langston Hughes, svo var þarna ljóð eftir Nazik Hikmet, tyrkneska ljóðskáldið, einnig eftir Vítězslav Nezval, tékkneska ljóðskáldið, svo að ég á sterkar minningar um að þessi ljóð snertu við mér.

En svo var ég svo heppinn að vera einn af þeim sem voru í Háskólabíói þegar Listaskáldin vondu lásu upp. Ég var þrettán ára gamall. Við bjuggum uppi í Breiðholti, við móðir mín, og það hefur sjálfsagt verið sagt frá þessu undir lok fréttatíma eða verið lesin einhver tilkynning um þetta eftir fréttir, eða hvort það leyndist ekki lítil fréttatilkynning í Þjóðviljanum? Allavega, við mamma drifum okkur. Við fórum í bæinn og komum tímanlega, fengum góð sæti. Og ég varð þarna fyrir mjög mikilli upplifun, held ég að ég geti fullyrt. Þarna var stigið fram í nafni ljóðsins, í nafni skáldskaparins, og þetta var skemmtilegt.

Og margt fólk líka.

Fullt af fólki! Og svo var þetta bara svo skemmtilegt. Og skrítið á sama tíma. Ég held að það hafi setið í mér.

Sem sagt: Lesturinn á erlendu nútímaljóðunum. Og að hafa séð listaskáldin vondu. Og síðan, þegar ég er fimmtán ára, þá var ég sem sagt í Hólabrekkuskóla og var þar í nemendaráði, sem þýddi að maður hafði ákveðna aðstöðu í kjallaranum, þar voru geymslur, fjölritunarvélar og fleira sem nemendaráð þurfti að nota — og þar ofan í geymslu fann ég bók sem gefin hafði verið út af Bókaútgáfu námsbóka, eða hét það Íslenskar námsbækur? — — það var svona námsbókafélag ríkisins, sem gaf út allar skólabækur á Íslandi á þeim tíma — og þar leyndist bók sem var safnrit með nútímaljóðum. Og sjálfsagt hefur meiningin verið sú að maður lyki við að lesa Skólaljóðin, bláu bókina sem margir minnast með mikilli nostalgíu.

Og var endurútgefin nýlega.

Einmitt. Og þegar henni lyki — þá er maður kannski tólf, þrettán ára — þá fengi maður þessa sem viðauka. Nema að ég veit ekki til þess að hún hafi nokkru sinni verið kennd, eða nokkur hafi séð þessa bók. Þarna fann ég í geymslu bunka af þessum bókum. Og fékk að taka eina með mér, það átti ekkert að nota þetta hvort sem er. Ég tók þetta heim með mér og heillaðist algjörlega, einn, tveir og þrír, af Hannesi Sigfússyni. Upphafi Dymbilvöku. Bifreiðinni sem hemlar í rjóðrinu eftir Stefán Hörð.

Og fyrr en ég vissi var ég byrjaður að svara þessu.

Skrifa sjálfur…

Ráðunautur Leslistans: Þórður Sævar Jónsson

ego

Þórður Sævar Jónsson gerir sér lítið fyrir og sendir frá sér tvær þýðingar á verkum eftir Richard Brautigan þetta haustið, annars vegar smásagnasafnið Hefnd grasflatarinnar — sem er reyndar ein af mínum uppáhaldsbókum — og hins vegar skáldsöguna Hawkline-skrímslið. Brautigan hefur fylgt mér lengi, ferðast með mér út um allan heim, bæði bókstaflega og í huganum, og því fagna ég mjög þessum nýju þýðingum. Mér tókst meira að segja að ná í skottið á þýðandanum.

– Sverrir Norland

Sæll og blessaður, Þórður, og mikið gleður það okkur að fá þig, og raunar einnig Richard Brautigan, sem fylgir þér í anda, hingað til okkar í ráðuneyti Leslistans. Hvenær kynntistu Brautigan fyrst, hefur hann fylgt þér lengi?

Blessaður, Sverrir, og takk fyrir að bjóða mér í ráðuneytið! Satt best að segja man ég ekki almennilega hvenær leiðir okkar lágu fyrst saman. Mig minnir að ég hafi verið átján eða nítján, ég er allavega nokkuð viss um að ég hafi verið í MR. Ég byrjaði að lesa Gyrði af einhverri alvöru í menntó (ég veit það að minnsta kosti fyrir víst!) og fyrstu kynni mín af Brautigan voru í gegnum þýðingarnar hans.

Já, Gyrðir hefur verið iðinn við kolann og þýtt fjórar bækur eftir Brautigan, ef ég man rétt: Svo berist ekki burt með vindum,VatnsmelónusykurSilungsveiði í Ameríku, og Ógæfusömu konuna, auk þess sem hann lét nokkur ljóð eftir Brautigan fljóta með í þýðingasafninuAð snúa aftur og gott ef það leyndust ekki einnig nokkur í Flautuleikur álengdar. Óskar Árni hefur svo þýtt brot úr verkum Brautigan og Hörður Kristjánsson íslenskað heila bók, sem hann nefnir Heljarslóðarhattinn (e.Sombrero Fallout). Og ég sé það nú, þegar ég slæ þessu upp á Gegni, að ég sjálfur þýddi meira að segja ljóð eftir Brautigan á sínum tíma og birti í annarri ljóðabókinni minni, Með mínum grænu augum. (Hafði steingleymt því! Það var hið ómótstæðilega ljóð „Nefið á mér er að verða gamalt“.) Hvað er það sem gerir verk Brautigan svona heillandi, heldurðu?

Í fyrsta lagi er Brautigan bara svo brjálæðislega fyndinn og skemmtilegur. Sumar sögurnar hans eru eintómur galsi og skemmtilegheit frá upphafi til enda. Ég var til að mynda með strengi í kviðnum í þrjá sólarhringa eftir Sombrero Fallout. Ef ekki lengur. WillardDreaming of Babylon og seinni hluti Hawkline-skrímslisins eru sama marki brenndar, finnst mér. Þar eru ærslagangur og sprell í algjöru fyrirrúmi. Svo er framvindan í þeim svo yndislega furðuleg, það fer einhver atburðarás í gang sem vindur hægt og bítandi upp á sig þar til hún nær hámarki í einhverri allsherjar-pandemonumringulreið.

Þetta á nota bene ekki við um allar bækurnar, þær eru síður en svo allar steyptar í sama mótið. Bækurnar, sem Gyrðir hefur þýtt, eru til að mynda töluvert dramatískari en þær sem ég nefndi hér að ofan, þar er harmrænni undirtónn, ef þannig má að orði komast. Svo er leitun að frumlegra skáldi. Líkinga- og myndmálið hjá Brautigan er svo ferskt, óvænt og skemmtilegt að það er engu líkt. Svo er hann aldrei klisjukenndur. Aldrei nokkurntímann. Hvað get ég talið fleira til … samræðurnar hjá honum er sérkapítuli fyrir sig. Þær geta verið mjög sérkennilegar. Svo er formið á bókunum frekar óhefðbundið. Nýir lesendur gætu hnotið um það, ímynda ég mér. Kaflarnir eru mjög mergjaðir, þeir stystu ekki nema ein setning. Fyrir vikið fá sögurnar á sig dálítið mósaíklegan blæ, en það er ekki þar með sagt að þær séu sundarlausar, heldur mynda þessir örkaflar afar sterka heild. Svo svífa einhverjir naívískir andar yfir vötnum hjá honum, textinn er mjög ljóðrænn, tær og blátt áfram. Enginn óþarfa orðavaðall eða rembingur á þeim bænum.

Það er satt: Brautigan gefur manni leyfi til að ærslast, til að vera óhóflega ljóðrænn, til að leika sér. Og bókmenntirnar eru auðvitað, fyrst og síðast, leikur.

Ég man vel þegar ég las fyrst A Confederate General from Big Sur. Lokasíðurnar sprengdu algjörlega hausinn á mér. Ég las sögulokin, og svo kemur annar örstuttur kafli sem nefndist „Önnur sögulok“ og svo „Þriðju sögulok“, „Fjórðu sögulok“, „Fimmtu sögulok“ … Hann stingur sem sagt upp á nokkrum leiðum til að reka lokahöggið á bókina. Síðasti kaflinn nefnist svo „186.000 sögulok á sekúndu“ og hljóðar svo (í lélegri þýðingu minni):

Síðan koma fleiri og fleiri sögulok: þau sjöttu, þau fimmtugustu og þriðju, þau hundrað þrítugustu og fyrstu, þau fjögur hundruð þrítugustu og fimmtu, sögulok sem þjóta hjá hraðar og hraðar, fleiri og fleiri sögulok, hraðar og hraðar allt þar til þessi bók er komin með 186.000 sögulok á sekúndu.

Þessi kafli bæði eyðilagði og bjargaði lífi mínu. Ég man að ég hugsaði um þetta í marga daga á eftir — vikur — mánuði. Mátti virkilega skrifa svona?

Ég held að Brautigan hreiðri um sig í hjörtum lesenda sinna og yfirgefi mann aldrei, ef honum þá á annað borð tekst að skríða þangað inn. Svo er saga hans svo hrífandi og sorgleg: hvernig hann strögglaði við að fá bækur sínar útgefnar, hvernig hann sló í gegn og varð einn þekktasti rithöfundur hippatímans, og svo hvernig hann gleymdist og hætti að seljast — og endaði á því að fremja sjálfsmorð. Einhvern veginn er saga hans eins og tekin beint út úr einni bókanna hans. Gætirðu hugsað þér að skrifa ævisögu hans, á íslensku?

Ég treysti mér ekki til ráðast í ævisögu Brautigans, áreiðanlega fullt af fólki betur til þess fallið en ég. Svo fyndist mér ég vera að bera í bakkafullan lækinn, það hafa verið skrifaðir heilu doðrantanir um hann. Bókin hennar Ianthe er t.a.m. mjög fín. Væri kannski nærtækara að snara henni yfir á íslensku, hver veit?

Kannski, hún [You Can’t Catch Death eftir Ianthe Brautigan, dóttur Richards] er fín. En hvernig finnast þér textar Brautigan henta íslenskunni? Hefurðu rekið þig á einhver sérstök vandamál við að þýða hann?

Ég held að íslenskan klæði Brautigan bara nokkuð vel. (Vissirðu, Sverrir, að barnabarn Brautigans, eina barnabarnið hans vel að merkja, er að einhverjum hluta íslensk. Eiginmaður Ianthe er nefnilega Vestur-Íslendingur!)

Nei, það vissi ég ekki.

En aftur að efninu … Ég held að það sé ekkert við enskuna sem slíka sem standi þýðandanum fyrir þrifum, þannig lagað, miklu frekar einhverjir sérviskulegir tilburðir í Brautigan. Hann á það til að framandgera hversdagslegustu hluti, stundum að því er virðist að ástæðulausu, það olli mér ponsu heilabrotum. Eins geta líkingarnar hans verið mjög loðnar (ef ég man rétt stendur einhversstaðar í Hawkline-skrímslinu að Greer „renni af hestinum einsog vínviður“ sem þýðir einfaldlega að hann steig af baki!). Hann á það líka til að skrifa mjög langar málsgreinar, með ótal útúrdúrum og U-beygjum, en best af öllu er þegar hann blandar þessu tvennu saman, þ.e.a.s, hnoðar saman löngum og nett ruglingslegum líkingum. Í Hawkline-skrímslinu er til að mynda að finna mjög skemmtilega lýsingu á hrægömmum:

„Urmull af hrægömmum að hætti Gamla testamentsins hnitaði hringi, lenti og hóf sig til flugs á enginu. Þeir voru einsog holdi klæddir englar, boðaðir til helgiathafnar í stóru víðáttumiklu hofi margra lítilla hluta sem enn voru lifandi.“

Textin hjá Brautigan er oft og tíðum ansi talmálslegur, það er töluvert um slangur og blótsyrði og annað slíkt, það gat verið krefjandi gera því almennileg skil á íslensku, en vonandi hefur það sloppið fyrir horn.

Hvers vegna valdirðu Hefnd grasflatarinnar og Hawkline-skrímslið til þýðingar, frekar en önnur verk?

Sannast sagna byrjaði ég að þýða grasflötina svona af því bara. Ég hafði aldrei þýtt úr ensku áður, og datt í hug að þýða eina eða tvær sögur bara í gamni, það stóð aldrei til að þýða hana í heild sinni. Síðan vatt þetta bara uppá sig! Ég lenti bara í því að þýða hana. Ég þýddi stærstan hluta flatarinnar sumarið 2016, þá var ég með voða fínt vaktaplan, vann í viku og fékk svo vikufrí, sem ég nýtti mér til að dytta að Flötinni.

Ég las Skrímslið nokkrum mánuðum eftir að ég kláraði Flötina. (Ég reyndi að treina mér bækurnar hans eins mikið og ég mögulega gat, tilhugsunin um að vera búinn með Brautigan var skelfileg!) Mér fannst hún bara svo skemmtileg að ég hugsaði með mér að ég yrði að þýða hana. Flóknara var það nú ekki. Síðan var líka fínt að hamra járnið meðan það var heitt, Brautigan var ennþá sveimandi í kollinum á mér eftir Flötina. Þegar hér var komið sögu var ég byrjaður í meistaranámi í ritlist, þannig að mér fannst liggja beinast við að gera skrímslið að lokaverkefninu mínu. Sem varð svo raunin.

Já. Ertu jafnvel með fleiri þýðingar í bígerð? (Gaman væri að fá ljóðasafn …)

Ég hef augastað á tveimur-þremur bókum í viðbót eftir Brautigan. Ég las Willard (and His Bowling Trophies) þegar ég var búinn að leiða Flötina og Skrímslið til lykta. Ef ég hefði lesið Willard og skrímslið á sama tíma hefði ég átt mjög erfitt með að gera upp á milli þeirra, ég held sveimérþá að Willard hefði orðið fyrir valinu. (Kannski er ástæðan sú að mér finnst ég vera ískyggilega líkur einni aðalsöguhetjunni, klunnalegum sveimhuga sem hefur mikið dálæti á forngrískum bókmenntum!) Mér finnst hún allavega alveg kostuleg. Langar að spreyta mig á henni. Síðan er ég byrjaður að þýða ljóðabók eftir Brautigan.

Leslistinn lýsir yfir eindregnum stuðningi við þessi áform þín. Takk fyrir spjallið, Þórður. Og fyrir þýðingarnar …

Ráðunautur Leslistans: Bubbi Morthens

bubbi-morthens

Bubbi Morthens er listamaður fram í fingurgóma, einn afkastamesti og dáðasti tónlistarmaður okkar, og hefur nú á síðustu árum einnig haslað sér völl sem eitt kraftmesta ljóðskáld þjóðarinnar. Fyrsta ljóðabók hans nefndist Öskraðu gat á myrkrið, næst kom Hreistur og nú hefur sú þriðja litið dagsins ljós og nefnist Rof. Leslistinn settist niður með Bubba til að ræða um þennan vistvænasta orkugjafa samtímans: ljóðlistina.

– Sverrir Norland

Sæll og blessaður, kæri Bubbi, og stígðu fagnandi inn í ráðuneyti Leslistans. Ég hellti upp á kaffi, hér er bolli — gjörðu svo vel. Einnig sykurmolar eins og þú getur í þig látið.

Mér leikur hugur á að vita hvaða ljóðskáld hafa skipt þig mestu máli. Áttu þér eftirlætisljóðskáld? Uppáhaldsljóðabók? Og ef svo er, vildirðu þá vera svo höfðinglegur að deila því með okkur hver skáldin eru, hvað bækurnar heita?

Ég á mér mörg eftirlætis ljóðskáld. Það skáld, sem ég hef verið að lesa þessa dagana og er því í uppáhaldi, heitir Maram al-Masri og hafa ljóð hennar íBarefooot Souls verið mér ofarlega í huga. Hún er fædd í Latakia í Sýrlandi og þessi ljóðaflokkur hennar er mjög flottur. Hann fjallar um ofbeldi gegn konum og börnum, ofbeldi sem þrífst í öllum borgum og þorpum jarðar að einhverju leyti, og beinist sérstaklega gagnvart flóttafólki og börnum á vegum úti og heima fyrir.

„Ég sem fæ ekki sofið,“ upphafslínur Dymbilvöku eftir Hannes Sigfússon, eru þesslegar að það er engin leið til baka. Sem sagt, Dymbilvaka er sú ljóðabók sem ég leita í aftur og aftur. Það er galdur ofin í ljóð Hannesar í þeirri bók og fyrir mér eru þetta jafn kröftug upphafsorð og í öðru verki sem byrjar á þessum línum: „Kallið mig Ishmael.“ Mörg íslensk skáld eiga í vitund minni sína hillu, ég gæti talið upp í dágóða stund þau skáld sem hafa snert mig þannig að maður verður ríkari við hvern lestur. Ég ætla að nefna skáld sem höfðu áhrif á mig ungan. Hannes Sigfússon sló mig kaldan og einnig til dæmis Leonard Cohen, hann hafði gríðarleg áhrif á mig og ég tel hann með betri skáldum. Hann á svo mörg ljóð og eftirminnilegar línur að það hálfa væri nóg. Þessi eru sleggja, þau er að finna í ljóði hans um um pókerspilarann í The Stranger Song: „His golden arm dispatching cards, but now it’s rusted from the elbows to the finger.“ Síðan er það Einar Ben. Hrannir — í hana kíki ég oft. Þar er ljóð sem orkaði sterkt á mig þegar ég var ungur maður og heitir „Líkskurður“. Fyrsta erindinu lýkur á þessum línum:

Nýfreðinn maður, meðalhár,
mátulega horaður nár,
aumingi ofan af Skaga.

Önnur bók, sem ég eignaðist 1981, er með ljóðum eftir Vilborgu Dagbjartsdóttir og heitir Ljóð. Ég veit ekki hvað það er en ég finn fyrir eins konar tengingu við ljóðin hennar. Ég man hvað mér fannst ljóðið hennar „Skref“ fínt og það má finna línu á milli þess og ljóðs sem er að finna í nýju ljóðabókinni minni, Rof.

Já, bókmenntirnar eru samvinnuverkefni, ljóðskáld ræðast við í verkum sínum.

Í ritgerð einni segir Borges eitthvað í líkingu við þetta (ég umorða eftir minni): „Ég fullyrði að byggingareiningar lífsins eru ljóðlist. Ljóðlist er okkur ekki framandi — hún situr ævinlega um okkur á næsta götuhorni. Hún stekkur beint í flasið á okkur þá síst varir.“ Hvernig myndir þú skilgreina ljóðlist? Hvers vegna sækja menn eins og við í ljóðlistina, hvað finnum við þar sem er svona magnað, orkuríkt og lífsnauðsynlegt? Ég veit að þetta er stór og flókin spurning, en mig grunar að þú lumir á svari …

Ljóð sýna okkur heiminn ekki sem heild heldur sem marga heima, allskonar heima þar sem hvert orð er stjarna á festingu vitundarinnar. Að yrkja er frávik, einskonar dásamleg fötlun. Samskynjun. Ljóðið er lykill sem opnar skáldinu heim þar sem öll flóra orðanna hefur sína liti og hver stafur sinn lit. Að vera skáld er hinn fullkomni flótti frá dauðanum. Að vera ljóðskáld er farmiði á fyrsta farrými hjartans. Öll skáld yrkja gegnum hjartað. Vitsmunir eru verkamenn hjartans. Ljóðið býr í öllum mönnum. Þessi forni seiður að klæða orðin í ljóð er í raun andardráttur lífsins.

Takk kærlega fyrir þetta, Bubbi. „Þessi forni seiður að klæða orðin í ljóð er í raun andardráttur lífsins“ — þessi orð munu fylgja mér út í daginn, reynast drjúgt veganesti …