Ráðunautur Leslistans: Hermann Stefánsson

IMG-20190426-WA0001 (1).jpg

Hermann Stefánsson ásamt argentíska höfundinum Samöntu Schweblin. Nýlega kom út á íslensku skáldsaga hennar Bjargfæri, í þýðingu Jóns Halls Stefánsson, bróður Hermanns.

Fyrsta bók Hermanns Stefánssonar kom út árið 2003, Sjónhverfingar hét hún, skáldfræðirit, og árið eftir fylgdi smásagnasafnið Níu þjófalyklar. Síðan þá hefur Hermann sent frá sér fjölda bóka, ljóð, skáldsögur, minningaskrif, meðal annars hina frábæru Spennustöðin — stílabók(Tunglið: 2014), kostulega glæpasögu, Hælið (1005 tímaritröð: 2013), skáldsöguna Leiðina út í heim (Sæmundur: 2015), þar sem höfundur snýr upp á barnasöguna Palli var einn í heiminum, og Bjargræði (Sæmundur: 2016), um kraftaskáldið Látra-Björgu. Þá hefur Hermann þýtt verk erlendra höfunda, meðal annars Juan José Millás, Manuel Rivas og Zizou Corder, og þýðing hans á Fásinnu eftir Horacio Castellanos Moya er sérdeilis vel heppnuð. Ég tók Hermann tali í tilefni af útgáfu flunkunýrrar bókar eftir hann, Dyr opnast, sem er kímerubók.

  • Sverrir Norland

Sverrir Norland: Kæri Hermann Stefánsson, vertu velkominn í ráðuneyti Leslistans og hjartans hamingjuóskir með nýju bókina þína, Dyr opnast. Hvaða dyr eru það sem hér opnast okkur?

Hermann Stefánsson: Takk fyrir hamingjuóskirnar. Auðvitað vonar maður að dyr opnist að einhverjum nýjum sannleika hverju sinni með bækur en getur ekki vitað það.

Já, ég held að það sé mikilvægt að opna sem flestar dyr og helst glugga líka. (Hver var það aftur sem sagði að það væri einkenni á greindum og skýrum mannshuga að geta hýst tvær öndverðar skoðanir samtímis?)

Fyrsta skrefið í vígsluathöfninni er jafnan sáraeinfalt og svohljóðandi: Ertu að lesa eitthvað bitastætt í augnablikinu, og ef svo er, í hverju leynist sá galdur?

Ég er með ansi margar bækur opnar eins og endranær en er kannski ekki alveg á góðum lestrarfasa þessa dagana, hef verið eitthvað svo upptekinn. Eina af þessum bókum er ég búinn að treina mér lengi að lesa. Það er bók sem er í algeru uppáhaldi hjá mér, bara bókin mín, hreinlega: Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur. Ég hef hreinlega ekki þorað að lesa hana aftur af ótta við að eyðileggja fyrstu lestrarupplifunina með þeirri nýju, sem verði ekki eins góð, ekki eins mikil hugljómun. Ég þóttist einhvern veginn muna hana svo vel, ég gæti bara flett upp á hvaða blaðsíðu sem er í kollinum og þyrfti ekki að endurlesa. Maður les heldur aldrei sömu bókina tvisvar, annar lestur er alltaf öðruvísi. Eiginlega óttaðist ég mest af öllu að mér myndi hreinlega þykja þessi bók sem ég hef dýrkað svo lengi barasta léleg. Hrifnæmi mitt væri bara farið. Þessar áhyggjur reyndust blessunarlega ástæðulausar. Mér finnst Meistarinn og Margarítaenn stórkostleg bók. Að vísu hafði ég í minninu bætt við hana einu atriði eða ýkt það upp en ég er viss um að ég finn það aftur þegar ég fletti upp í bókinni að lestri loknum. Svo furða ég mig einhvern veginn svolítið á hvað ég sjálfur, eða bara allir, hafa verið opnir og læsir á bækur. Núna hef ég meiri tilhneigingu til að flokka hana sem erfiða og tilraunakennda bók. Á sínum tíma fannst mér hún hreinn skemmtilestur, furður og dásemdir út í gegn. Auðvitað breytist orðaforði tungunnar hratt, það gæti verið skýringin. Bókin var skrifuð á Stalínstímanum og kom ekki út fyrr en 1966 aldarfjórðungi eftir dauða höfundarins, og þá fyrst í ritskoðaðri útgáfu. Eða er ég kominn út í aðra spurningu? Myndirðu spyrja mig um efni bókarinnar og galdur hennar?

Já, efni bókarinnar? Það er nú sjálfsagt ýmsum lesendum kunnugt. Sjálfum fannst mér Meistarinn & margaríta frábær þegar ég las hana á unglingsárunum, „hreinn skemmtilestur“ og enn glórir sterkt af minningunni. Mig grunar að hún haldi velli hjá hinum fínt stilltari vitsmunaverum þjóðarinnar, einnig þeim yngri. Ég hef ekki endurlesið hana (geri það einn daginn). Nefnd skáldsaga Búlgakovs hefur greinilega reynst mörgum af okkar frumlegri rithöfundum gott veganesti; þér og hér er annað dæmi.

En hvernig barn varstu, Hermann? Varstu yfirhöfuð einhvern tímann barn?

Ég veit ekki til þess að ég hafi nokkru sinni hætt að vera barn. Alla vega ætti það að vera manns helsta takmark í lífinu, að glata ekki barninu í sjálfum sér. Það er mitt mottó og hefur alltaf verið. En ég var rólegt og blítt barn og frekar feimið. Það þurfti lítið að hafa fyrir mér. Ég mælti varla orð af vörum fyrstu fimm ár ævi minnar en byrjaði þá að tala og var altalandi. Hafði bara ekki fundist ástæða til að blanda mér í umræðuna fram að því. Enda er tungumálið svo sem stórhættulegt og best að segja sem minnst. Líklega var ég svolítið melankólískt barn því ég kynntist dauðanum snemma, eins og svo sem margir. Ég las mikið sem barn. En ég var líka fjörugur og ærslabelgur. Ég átti góða vini. Besta vinkona mín alveg frá eins árs aldri var Halldóra Geirharðsdóttir leikkona sem bjó við hliðina á mér og og fór með mér í gegnum alla skólagönguna alveg frá leikskóla, sú vinátta helst enn. Það var mikið fjör í götunni, líflegir útileikir og mikil sköpunargleði í ímyndunarleikjum. Það var líka samheldni í krökkunum og árið sem Sverrir Guðjónsson söngvari var kennarinn okkar var það besta. Ég las það annars í Meistaranum og Margarítu að fólk breyttist ekki, væri alltaf eins. Ég las líka þar að ragmennskan væri versti lösturinn. Sem barn var í mér blanda af feimni og fífldirfsku. Ætli ég sé ekki þannig ennþá.

Bækurnar þínar eru ólíkar eins og þær eru margar. Er það meðvitað? Heillastu af höfundum sem eru ólíkindatól og leita helst á nýjar slóðir með hverju verki?

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki neitt í neinu þegar fólk segir að ég sé ólíkindatól. Ég kvarta ekkert yfir því en sjálfur upplifi ég mig ekki þannig og geri ekkert til að vera ólíkindatól, mér vitanlega. Er þetta ekki bara annað orð yfir húmor? Húmor er auðvitað dauðans alvara eins og einhver sagði. Ég upplifi mig sem hreinskilinn og blátt áfram, einlægan og stundum kannski óþægilega gefinn fyrir að segja satt og stríða fólki, það er bara í ættinni. En maður ræður sem sé ekki yfir upplifun annarra á sér. Né heldur á bókum sínum. Ég er sammála þér að bækur mínar séu ólíkar. Sumir segja að þær séu „hermannskar“ og það má alveg, ég verð ekkert fúll, en mér finnst sjálfum að þær séu gerólíkar, þótt eflaust megi sjá ættarmót með þeim. Ef þær eru ólíkar felst það einfaldlega í því að ég kann ekki að skrifa bækur. Eða með öðrum orðum: Ég held að það sé ekki hægt að kunna að skrifa bækur vegna þess að það er sín aðferðin við hverja þeirra og þá þarf alltaf að byrja upp á nýtt. Læra nýja aðferð. Ég var á Iceland Writers Retreat hennar Elizu Reid í ár og enski rithöfundurinnn Sarah Moss lagði til þá aðferð sína við skáldsagnaritun að skrifa fyrst skáldsögu, henda henni svo (og tæma ruslið) og byrja alveg upp á nýtt á sömu skáldsögu, eftir minni. Þetta er frábær aðferð sem ég blóðöfunda hana af. Ég hef aldrei gengið svona langt þótt ég hendi miklu, ég geymi alltaf einhver öryggisafrit þótt ég sé komin að næstu drögum. Ég væri til í að prófa þetta. En annars er það svo að mér finnst ég þurfa að leita á nýjar slóðir með hverju verki, eins og þú segir — og stundum er maður lengi að komast út úr eigin bók, ég er fyrst núna að komast almennilega út úr skáldsögu minni Bjargræði, með nýrri bók, sem mér finnst sjálfum að sé gerólík henni. Ég henti ofboðslega miklu, alltof miklu, en svo bætti ég mörgu af því við aftur og meiru til því að það þýðir ekki að editera lífsmarkið úr bók.

Nei, það er auðvelt að editera allt líf úr list, við þurfum líka subbuskap, óreiðu og annmarka.

En heldurðu kannski, Hermann, að heimurinn yrði betri staður ef bækur hyrfu og öll samskipti færu fram í gegnum lítið rafbox sama stórfyrirtækisins með atbeina eins og sama forrits sama stórfyrirtækis? Heldurðu að slík þróun hafi örvandi áhrif á listsköpun, tjáningu og einstaklingshugsun?

Hvað meinarðu með „ef“? Erum við ekki komin á þennan stað? Og nei, ég finn það best á sjálfum mér að hugsunin breytist. Ég hætti á Facebook fyrir nokkrum mánuðum, enn eitt skiptið. Stefni ekki þangað aftur. Ég ætla ekki að vera með neitt svartagallsraus en ég held að það þurfi að taka það alvarlega sem margt bendir til, að félagsmiðlar séu varasamir fyrir margvíða hugsun, breyti einbeitingunni, hindri ýmislegt sem gott er, séu jafnvel hættulegir bæði lýðræði og skapandi hugsun, enda þótt þeir séu til margra hluta nytsamlegir og umfram allt: Skemmtilegir (annars væri enginn á þeim).

Stórskemmtilegir — og fá mig reglulega til að rifja upp hina ágætuAmusing Ourselves to Death eftir Neil Postman.

En hvaða ljóðskáld hæfir þig alltaf í hjartastað?

Þorsteinn frá Hamri. Síðustu ár hef ég í rólegheitum verið að þýða argentínska stórskáldið Alejöndru Pizarnik. Hún er svona uppgötvun löngu síðar, það bar lítið á henni meðan hún lifði (til 1972) en nú er hún á allra vörum í hinum spænskumælandi heimi. Reynar hæfir hún mig mjög í hjartastað og ég get ekki verið við þessar þýðingar lengi í einu, hún er svo biksvört. Bandarískur útgefandi hennar sagði mér að þeir sem hefðu spreytt sig hefðu hver og einn einasti næstum þurft frá að hverfa vegna þungbærra hugsana, sjálfsvígshugsana. Ráðlagður dagskammtur er sem sé ekki mikill og mér liggur ekkert á.

Ertu sammála því að vélin í gangvirki skáldskaparins sé minnið og því mikilvægt að höfundar reiði sig ekki um of á minnishækjur við skrifin, svo sem sítengingu við netið, og geti flögrað frjálsir um eigin huga með allri þeirri frelsandi gleymsku og glöpum sem jafnan ríða mannshöfði? Eru rangfærslur og misskilningur jafnvel skáldskapnum nauðsynlegt fóður?

Minnið er auðvitað kolómöguleg vél og þarf alls kyns hækjur. Það má sjá Wikipediu stað nokkuð víða og sú heimildavinna er einhvern veginn öðruvísi en heimildavinna með bókum, þetta verður gagnsærra. Maður sér þetta líka í sjónvarpsefni; ég hef verið að horfa á þá frábæru þætti Elementary á Netflix og stundum er neyðarlegt hvernig litlir fróðleiksmolar koma augljóslega beint af netinu, í gegnum handritshöfundinn og í munninn á Sherlock Holmes sem á að hafa þetta allt í kollinum. Ég held að það sé vert að skrifa með penna og nota minniskompur alla vega að einhverju leyti við skáldskaparskrif. Samband líkamans við textann verður allt annað þegar skrifað er með penna, það er líkamlegur verknaður að skrifa með penna og sá verknaður hefur líka annað samband við minnið en skrif á tölvu með aðstoð netsins.

Þú hefur löngum laðast að spænskum bókmenntum, ekki satt? Hvað finnurðu þar?

Sumt af því sem ég er hrifnastur af í spænskum bókmenntum eru hreinræktaðar héraðsbókmenntir frá Galisíu. Þaðan var stutt til Parísar í heimsmenninguna en fyrir var allskonar furðumenning, nornamenning, galdrar, þjóðlegir kenjar. Blandan af módernisma og þessu er svo ofboðslega fín. Margt af því sem ég er hrifnastur af er frá Suður-Ameríku, oftast kannski Argentínu þar sem var ótrúlegur suðupottur á síðustu öld. Það nýjasta er nýútkomin bók eftir Samöntu Schweblin sem heitir Bjargfæri (titillinn minnir mjög á bók eftir mig, Bjargræði, en hann er þýðandans, Jóns Halls bróður míns, sem fékk góðfúslegt leyfi hjá mér einfaldlega vegna þess að þetta var besta lausnin á merkingu titils á frummáli). Ég ataðist töluvert í að fá þessa bók útgefna, það vildi þannig til að við bræður fengum samtímis þá hugmynd að þýða hana án þess að vita af hugmynd hins. Ég vék eins og yngri bróður sæmir. Samanta kom á bókmenntahátíð og við héldum sameiginlegt útgáfupartý, með brúðuleikhúsi, upplestri og ekki síst Megasi og hljómsveit, mér fannst þetta algerlega frábært útgáfuteiti. En Samanta Schweblin er eiginlega eitthvert alstærsta nafnið í bókmenntum hins spænskumælandi heims í dag. Þetta er ansi svört bók. Hún hefur einstakt lag á hinu ósagða. Gefur mátulega litlar upplýsingar — það verður ansi hrollvekjandi, nístir mann. Kannski er þetta einmitt svipuð blanda af nútímaskáldskap og þjóðlegum kenjum og heillar mig við galisískan héraðsmódernisma. Í það minnsta finnst mér Samanta Schweblin vera eitt af því merkilegasta sem er að gerast í bókmenntum heimsins í dag.

Hvaða lykt fyllir þig fortíðarþrá og hvers vegna? Fyllir einhver þefur þig alveg sérstakri skelfingu?

Lyktin af tartalettum er góð. Þá langar mig til ömmu minnar sem hafði þær um jólin. Sama má segja um steikta rauðsprettu. Stundum finn ég ávæning af ofboðslega megnri og sérstakri lykt sem barst úr lestinni á loðnuskipi lengst norður í höfum sem ég var háseti á eftir að loðnan var orðin dragúldin. Hún fyllir mig dálítilli skelfingu vegna þess að hvort tveggja kviknaði í skipinu svo það næstum sprakk og svo var það næstum sokkið. Loks varð það vélarvana. Stundum berst þessi lykt með vindinum. Ég veit ekki hvaðan.

Ertu ánægður með nýju bókina þína? Hvernig vonastu til að henni verði tekið?

Já, ég held að ég sé bara ansi ánægður með hana. Ég vonast auðvitað til að henni verði tekið vel og ég hef fengið mjög góð viðbrögð. Það er kannski alltaf hætta í samtímanum að fréttapunktur yfirtaki viðtökur á bók, ég hef verið spurður mikið út í einn textann, „Vitaverðir rjúfa þögnina“. Það er marglaga texti, ekki einvíður. Það verða stundum til miklar umræður um bók sem fólk hefur ekki lesið. Það er kannski ekki það vitrænasta en ég er ekkert að kvarta.

Hefur fólk í litlu samfélagi eins og Íslandi tilhneigingu til að hampa bragðdaufu en samþykktu miðjumoði, t.d. í bókmenntum — verkum sem þeim, sem hrósinu útdeilir, stendur sjálfum lítil ógn af — og forðast að draga það sem raunverulega sker sig úr, er bitastætt og dýrmætt, um of fram í dagsljósið, af ótta við að slík aðgerð kynni að afhjúpa viðkomandi (þann sem hrósar) sem einmitt en einn meginstraumsfiskinn, jafnvel einungis pósufiman loddara?

Transgressívar bókmenntir eru kannski ekki beinlínis í algleymingi á Íslandi í dag. Þá er öruggast að hampa því sem ekki ögrar nema mátulega mikið, því sem ýtir á réttu takkana. Eftir að kommúnisminn féll fögnuðu menn ákaflega, meðal annars vegna þess að nú væri ritskoðun bókmennta úr sögunni, þeirrar sem sópaði m.a. Meistaranum og Margarítu út af sviðinu. Á þeim tíma tók ég svolítið viðtal við Álfrúnu Gunnlaugsdóttur (sem aldrei birtist). Hún varaði við því strax þá að menn skyldu kannski ekki fagna um of og ekki gerast of hróðugir, það væri ekki öruggt að kapítalisminn reyndist ekki jafn harður eða harðari húsbóndi þegar upp væri staðið, þótt hann notaði allt aðrar aðferðir og væri ísmeygilegri. Annars var ég fyrst núna að koma mér að því að lesa Ég er sofandi hurð eftir Sjón og er ansi hrifinn. Ritskoðunin sigrar sannarlega ekki alltaf.

Ég rak mig á það, þegar ég var að fara yfir útgáfulistann þinn, að ég virðist oftar en ekki hafa lesið verk þín í flugferð: Ég gleypti Hælið í mig í flugi til Frakklands, þýðingu þína á Fásinnu eftir Horacio Castellanos Moya las ég í flugvél á leiðinni til Íslands (og fannst ég hafa himin höndum tekið) og Bjargræði las ég einu sinni á leiðinni heim til New York. Ætli þetta sé tilviljun? Nýtur maður verka þinna best í háloftunum?

Og ætti ég að þjást af flugskömm? Eigum við öll að skammast okkar sem mest, sem oftast?

Það heitir „flugviskubit“, er það ekki? Ég er ekki sannfærður um að flugviskubitið muni vera það sem sigrar loftslagsvandann. Það fá ekki nógu margir nógu mikið flugviskubit. Að flokka plast? Er það mikið meira en örlítið viðleitni eða í versta falli friðþæging smáborgarans? Það eina sem getur spornað við vandanum eru stórfelldar stjórnvaldsaðgerðir. Mér er til efs að framtíðin beri annað í skauti sér en kvóta á flug. Í ljósi þess að stjórnvöld heimsins hafa ekki veitt miklu fé í að finna upp rafmagnsflugvélar. Nú mótmæla börn fyrir utan Alþingi á föstudögum. Vel að merkja fyrir utan Alþingi, ekki á bensínstöðvum eða flugvöllum. Hvað merkir það? Hlýtur það ekki að fela í sér beiðni um sterkt ríkisvald? Á loftslagsráðstefnum kemur alltaf upp það vandræðalega andartak þegar einhver bendir á að Kína hefur tekið forystuna í loftslagsmálum. Kína er alræðisríki. Grenndarkynning í lýðræðisríki felur í sér samtal og samráð við haghafa og allt það. Grenndarkynning í Kína felur í sér að yfirvöld segja plastpokaframleiðandanum bara að nú sé hann hættur þeirri framleiðslu. Ef hann ekki hlýðir því er hann bara settur í fangelsi eða skotinn. Það er mjög effektív grenndarkynning að skjóta fólk. Í norrænu þingunum er núna rætt um að gefa umhverfisráðherrum miklu meira vald en áður hefur verið, kannski ekki alræðisvald en vald til að taka fram fyrir hendurnar á öðrum ráðherrum þegar eitthvað liggur fyrir sem eykur loftslagsvandann. Auðvitað má fólk hafa flugskömm, ég tala nú ekki um þegar það flýgur mörgum sinnum á ári til þess eins að taka þátt í ráðstefnum um loftslagsvandann — og það jafnvel á einkaþotum — og sér ekkert athugavert við þetta, óskar sér bara hjartanlega til hamingju með hugsjónastarfið. En flugviskubitið leysir ekki vandann. Sjálfur flýg ég reyndar sáralítið en kannast vel við hvað það er gott að lesa í flugvél, það stafar ekki síst af því að þá er slökkt á netinu. En ég vona að það sé hægt að njóta bóka minna á jörðu niðri líka, að þær feli kannski í sér eitthvert flugtak sjálfar.

Já, það er gott að lesa í flugvél — en best er reyndar að lesa í lest. Og ég vona að lesendur hafi notið þess að þræða sig í gegnum þetta spjall okkar, kæri Hermann (og hafi jafnvel gert það í lest) og svo óska ég þér alls hins besta. Hjartanlega velkominn í ráðuneytið.

 

Ráðunautur Leslistans: Kristinn Árnason

Kristinn Árnason er mörgum gáfum gæddur; ein þeirra skín skært í greiðu aðgengi hans að skáldskaparæðinni: ljóðinu. Nýlega gaf hann út falleg verk, Regntímabilið, sem hér má panta beint frá býli. Við Kristinn tókum okkur á víxl stuttar pásur frá fjörugu barnauppeldi og alls kyns daglegu amstri og skiptumst á hugleiðingum um lífið, listina og austræna speki. Það er einhver yfirvegaður og eftirsóknarverður tónn í rödd Kristins, kærkomið og þarft mótvægi við háreysti

– Sverrir Norland

Sverrir Norland: Kæri Kristinn, hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans og innilegustu hamingjuóskir með nýju ljóðabókina þína,Regntímabilið.

Til að hefja leik: Mér þætti vænt um það ef þú uppfræddir okkur aðeins um bókina?

Kristinn Árnason: Bókin er sprottin úr nokkurra ára tímabili í lífi mínu sem einkenndist af líkamlegum veikindum og í raun upplausn í sálarlífinu. Ég varð alvarlega veikur árið 2008, þegar ég var 27 ára og starfaði í útrásarteymi í íslenskum banka sem stefndi í þrot. Ég lét af störfum sumarið fyrir hrun því ég var farinn að þjást af alvarlegum sjóntruflunum, alls konar óútskýrðum verkjum og þrekleysi, höfuðverkjum og meltingarvandræðum, og svo framvegis. Og við tók þetta einkennilega tímabil umbrota sem bókin talar úr og fær heitið Regntímabilið. Aftast í bókinni er smáljóð eða textabútur sem ber þennan titil og smám saman varð það að viðeigandi nafni á bókina og þetta tímabil.

Þetta er ferðasaga en að forminu til er þetta ljóðabók. Skýringin á greininum í undirtitlinum, þ.e. „Ljóðabókin“, er sú að bókin á sér systurverk í lengra formi ferðasögu eða eins konar sjálfsögu. Það er annars lítið um tilraunir með form í bókinni sjálfri, ljóðin eru í ólíkum og frjálsum formum. Helsta formtilraun verksins er í raun upplýst með greininum í undirtitlinum.

Hvaða ljóðskáld, eða aðrir höfundar, eru í uppáhaldi hjá þér? Voru einhverjir þeirra þér til halds og stuðnings við skrif Regntímabilsins?

Um miðbik þessa tímabils, árin 2010 til 2012, bjó ég í Stokkhólmi. Ég var enn ómögulegur í augunum og líkamanum og varði tíma mínum m.a. í að ganga máttfarinn og verkjaður milli garða og kaffihúsa borgarinnar, sat inni í kirkjum og undir trjám og reyndi að hætta að hugsa. Ég var að vinna að einhvers konar núllstillingu, heilsunnar vegna. Og í Stokkhólmi er mikið af stórum trjám sem voru alltaf nálæg á ferðum mínum um borgina. Ég fór að gefa þeim mikinn gaum og á þessum tíma lærði ég loksins að horfa á tré. Að horfa á falleg tré er auðvitað eins konar ljóðalestur. Trén voru á bylgjulengd sem átti við kyrrðina sem var byrjuð að gera vart við sig innra með mér í bland við allan óróann. Ætli lauftrén í Skandinavíu séu því ekki bara þau skáld sem höfðu mest áhrif á mig við gerð þessarar bókar, ég myndi giska á það.

Annars varð ég mér líka út um ljóðabækur ýmissa mannlegri skálda eftir því sem augun tóku að róast aðeins og samband mitt við trén batnaði. Heilsan tók að sýna fyrstu merki um afar varfærnislegan viðsnúning og ljóð voru heppileg fyrir augun því þau eru oft frekar stutt! Ég dvaldi lengi við ljóðasöfn súfískra miðaldaskálda á borð við Kabir og Rumi, sem mér fannst hressandi og í þeim heimspekilega anda sem mér fannst skynsamlegur á þessum tíma. Eftir því sem á leið á fór ég svo að geta lesið meira og þá varð ég til dæmis mjög hrifinn af ljóðunum sem Fernando Pessoa skildi eftir sig undir öðrum nöfnum, og las Pablo Neruda og Juan Ramón Jiménez og Rilke, svo einhverjir séu nefndir.

Hvernig barn varstu — dreymið, leitandi, leshneigt, eða hávært, baldið, hugrakkt? Eða kannski þeytingur samsettur úr öllum fyrrgreindum eiginleikum?

Ég var orkumikill en ekkert sérstaklega dreyminn framan af, þótt ég hafi orðið það smám saman eftir því sem ég óx úr grasi. Þessi draumóraárátta er eitt af því sem ég hef þurft að hafa töluvert fyrir að vinda ofan af nú seinna mér. Ég var ekki áberandi listhneigður en mér féll vel við dýr og var viðkvæmur eða næmur á sumt. Eftir að ég byrjaði að geta lesið sjálfur fletti ég mest Atlasnum sem pabbi gaf mér þegar ég varð sjö ára. Af orðunum í spurningunni er „leitandi“ hugsanlega það sem lýsir mér skást sem barni. Annars er ég ekki einu sinni viss um það, og seinna meir hef ég hallast að því að draga sem allra mest úr þessari eilífu leit líka.

Áttu þér gullin trikk til að koma þér í skapandi gír við skrifin? Eða ertu maður hins óvænta, og óútreiknanlega, innblásturs?

Ég myndi segja að hugarástandið sé mér mikilvægast þegar kemur að ljóðum, ég þarf að stilla mig inn á líðandi stund og leyfa huganum að hljóðna svolítið. Ég má ekki vera of upptekinn og ég þarf að hafa næði og tíma til að dvelja einfaldlega við ástandið inni í mér og í kringum mig. Við þær aðstæður þarf oft bara litla kveikju og þá opnast fyrir eitthvað, og kveikjurnar eru alls staðar, allt sem er endalaust að eiga sér stað. Stundum hjálpar mér þó að vera að lesa ljóð frekar en aðra texta, þegar ég er að skrifa eða vinna með ljóð.

Nú veit ég að þú ert maður hugleiðslu og kennir meira að segja jóga. Liggur þráður í gegnum slíka andlega iðkun og skrifin? Eru lestur og skrif hugleiðsla?

Hjá mér liggur þráður þarna á milli já, en þá á ég ekki við neina hugmyndafræði heldur kannski einkum áhersluna á ástand vitundarinnar og vissa innhverfni, að huga að jarðveginum og hreinsa hann eftir fremsta megni, svo maður verði móttækilegur fyrir einhverju sem er ekki bara manns eiginn hugarburður. Að rækta með sér næmni og vinda ofan af hlutunum frekar en að blása sig út með hugmyndum og sjálfsmyndum. Í mörgum austrænum hefðum er þessi áhersla á skynjun og að læra að horfa á hlutina milliliðalaust og án orða. Ég velti þessu oft fyrir mér í sambandi við ljóðlistina. Það er ekki að ástæðulausu að mörgum ljóðskáldum er tíðrætt um þögnina og mikilvægi þess að geta sleppt því að nota orð þegar við horfumst í augu við hlutina. Ég hugsa að ég hefði ekki farið að skrifa ljóð hefði ég ekki þagnað svolítið hið innra fyrst. Allavega hugsa ég að hjá mörgum skáldum komi þögnin fyrst, svo ljóðið. Varðandi spurninguna um hvort lestur og skrif séu hugleiðsla mundi ég telja það afar misjafnt, en hvort tveggja býður upp á þann möguleika þegar best lætur.

Fyrst austræna speki ber á góma: Ég er staddur í Japan, mun eyða hér stórum hluta sumars og hef af því tilefni aðeins reynt, af veikum mætti, að setja mig inn í japanska hugsun (sem er ekki alltaf auðvelt vestrænu fólki). Eitt sem situr í mér: fegurð í gerð hluta er þegar notagildi og útlit fara saman. Þetta tvennt er raunar óaðskiljanlegt: fallegt áhald er líka ákjósanlegt verkfæri, ekki aðeins skrautmunur. Þetta stríðir í raun þvert á hugmyndafræði síðkapítalismans, sem reynir sífellt að búa til gerviþarfir og selja okkur gagnslaust skran eða skammlíft fjöldaframleiðsluvíl, breyta okkur í ósjálfbjarga neytendur söluvarnings. Nýjustu atlögunni virðist svo stefnt gegn hugum okkar og innra lífi: þú ert ekki til nema þú varpar daufri eftirmynd af þér inn í forrit gegnum raftæki undir vökulu eftirliti stjarnfræðilega auðugs stórfyrirtækis. Og þetta samþykkjum við, kannski vegna þess að fagurfræði samtímans — hugmyndir okkar um fegurðina, ef einhverjar eru — hafa beðið (furðu mótþróalausa) hnekki. Þetta umhverfi hampar ekki sjálfstæðri hugsun — einstaklingum, lesendum — heldur býflugnabúskrafti læksins. Fjöldasamþykkisins. Andhverfu bókmenntanna.

Getur verið að fegurð bókmennta rýrni í þessu staðlaða umhverfi stafrænunnar, sem útskýrir að nokkru yfirstandandi krísu fagurbókmennta og hugarspunnina frekar staðreyndadrifinna skrifa?

Og skiptir útlit bókmennta máli? Pappír vs. raf, og svo framvegis.

Nú vekurðu hjá mér töluverða löngun að vera í japanskri sveit. En jú, það er margt bogið við það hvernig tæknin neyðir okkur til lags við allt mögulegt sem við ættum helst að hlaupa í burtu frá. En hugur mannsins hefur kannski aldrei verið sérstaklega frjáls frá umhverfi sínu, þannig að það vandamál er eftir sem áður af sambærilegum toga og áður, hugsa ég, fyrir hvert og eitt okkar.

Og ég veit ekki með áhrif alls þessa á fegurð bókmennta. Ég er ekki viss um að vaxandi aðdráttarafl staðreyndadrifinna skrifa, svokallaðra, sé eitthvað sem ætti að líta á sem eitthvað andstætt fagurbókmenntum sérstaklega. Þetta er að vissu leyti þróun sem sumir spekingar kölluðu eftir fyrir löngu síðan, fyrir fagurbókmenntirnar. Svo eru mörkin í þessu öllu svo óljós og það er ekkert nýtt. Maður situr uppi með sjálfan sig. Mér finnst áhugavert verkefni að setja staðreyndadrifin skrif í fagurfræðilegan búning, ég get sagt það. Í ljóðum fást sumir við það.

Varðandi pappír og útlit bóka. Já, og Japan. Mér finnst góð endurskilgreiningin á efnishyggju, sem bendir á hefðir í zen búddisma, um að raunveruleg efnishyggja snúist um að hlúa vel að efninu og nýta það vel. Við verðum bersýnilega öll að fara í þá áttina, og þetta er jú allt orðið ansi brýnt, þetta með meðferð okkar á efninu, og það verður áhugavert að sjá hver áhrif alls þessa verða á bókmenntirnar. Bækur hafa auðvitað þann stóra kost að vera áþreifanlegar.

Einmitt — og áþreifanleikinn er vanmetinn. Og vanmetum við ekki líka — þjökuð af kvíða og minnimáttarkennd, þunglyndi og framtíðarbeyg — notagildi hins hægláta miðils sem prentaða ljóðabókin t.d. er? Ég yrki ljóð, og teikna, langoftast fyrir sjálfan mig: til að reyna að sjá veröldina betur sjálfur, án rafknúinnar hækju. Og mér finnst það hjálpa mér. Og mér finnst hjálpa mér að lesa ljóð, af pappír. Getur verið að í alltumlykjandi andapotti tækninnar fljóti hvergi lausn hinna mörgu aðstenjandi vandamála mannkyns — hrun náttúrunnar, hnignandi virsmunalíf og svo framvegis — heldur einmitt sjálf rót vandans?

Mig grunar — ég óttast — það.

En kærar þakkir fyrir spjallið, Kristinn Árnason. Ég hlakka mikið til að fá áþreifanlega útgáfu af Regntímabilinu í hendurnar (ég á nú þegar eitt sem bíður mín í Reykjavík).

Ráðunautur Leslistans: Karitas M. Bjarkadóttir

VKUx1CJg.jpeg

Karitas M. Bjarkadóttir er ljóðskáld og hefur verið iðin við kolann að undanförnu: hún gaf nýlega út sína fjórðu bók, o.s.frv. (og þar fram eftir götunum). Ég plataði hana í stutt spjall um bókina, skrifin, lestur, lykt og tungumál draumanna. — Sverrir Norland

Sverrir Norland: Kæra Karitas M. Bjarkardóttir, hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans. Ertu nokkuð til í, eða ertu kannski ekki til í, að segja mér aðeins frá nýjustu bókinni þinni?

Karitas M. Bjarkardóttir: o.s.frv. (og þar fram eftir götunum) er fjórða bókin mín í heildina, en sú þriðja og síðasta í því sem ég kalla skammstöfunarröðinni. Hún er líka eina af þessum þremur sem er ekki skrifuð í ástarsorg og einhverskonar uppgjör mitt við hinar tvær. Mér finnst allavega fallegt að hugsa þannig um hana.

Hvað er ljóð í þínum huga (ef eitthvað)?

Ég veit ekki alveg hvað ljóð er í mínum huga. Ég held það sé frekar erfitt að skilgreina það, og í rauninni gæti ég alveg eins sagst vera að gefa út prósa, eða textabók. En ég kalla þau ljóð því mér þykja þau ljóðræn og svo er líka eitthvað svo hátíðlegt að titla sig ljóðskáld.

Hvert er uppáhaldshljóðið þitt á daginn? En á næturþeli? Og hvaða hljóð leiðist þér helst að heyra í morgunsárið (eða hafa kannski öll hljóð eitthvað til síns ágætis)?

Uppáhaldshljóðið mitt á daginn er hljóðið í kaffivélinni minni eða tónlistin sem ég hlusta á, sem er margs konar og mismunandi. Svo er fuglasöngur alltaf voðalega næs, svona á vorin til að vakna við. Hljóðið sem mér leiðist mest á morgnanna en þykir kannski líka vænst um er hljóðið í rakvélinni hans pabba míns sem er oftast það sem ég vakna við.

Áttu þér ljóðskáld, eða aðra höfunda, sem þú heldur upp á, og ef svo er, hvers vegna eru þau í uppáhaldi?

Ég lít mikið upp til allskonar höfunda. Eydísar Blöndal og Fríðu Ísberg, svona sem nútímadæmi en ég les líka mikið af Ástu Sigurðar og Svövu Jakobs. Mér finnst skáldskapur kvenna svo óttalega heillandi, og sæki mestan innblástur þangað.

Já, það er flott að vera ljóðskáld og mjög hátíðlegt, og um að gera að breyta lífinu sem oftast, og á sem fjölbreyttastan hátt, í hátíð.

En hvers vegna skammstöfunarröðin (þ.e. hvers vegna skammstafaðir titlar?).

Það er alveg ótrúlega skemmtileg spurning! Fyrsta ljóðabókin mín a.m.k. (ég hata þetta orðasamband) heitir það einfaldlega af því ég notaði þessa skammstöfun miskunnarlaust á þeim tíma — og fékk á endanum ógeð á henni. Ég samdi svo í kjölfarið eftirfarandi titilljóð:

a.m.k. (ég hata þetta orðasamband)

hver er minnsti kosturinn?

hver ákvarðar hann?

minnsti kosturinn af hverju?

ER ALDREI NEITT NÓG?

Á eftir henni fylgdi svo m.b.kv. — annað orðasamband sem ég varð einstaklega hugfangin af á þeim tíma — svo ég ákvað að loka þríleiknum með einu orðasambandinu til viðbótar.

Ef við gefum okkur að þig langi að skrifa fleiri bækur (sem er auðvitað aldrei víst með nokkurn höfund; stundum er komið nóg og mann langar kannski frekar að rækta grænmeti eða fara á sjó), hvers konar bók væri það þá?

Mig langar alveg ofboðslega mikið að feta í fótspor minnar heittelskuðu Ástu Sigurðardóttur og semja smásagnasafn. En ég fikra mig í áttina. Ætli ég byrji ekki fyrst á einskonar prósa- og örsagnasafni. Það þarf að taka svona hluti í skrefum, eða ég þarf það a.m.k..

Hvaða tungumál, sem þú skilur ekki, finnst þér fallegast?

Franska. Tvímælalaust. Þó svo að ég skilji ritaða frönsku ágætlega á ég enn erfitt með þá töluðu, og hún heillar mig gjörsamlega. Áður en ég dey ætla ég að skilja talaða frönsku — að geta notið ljóðlistar á frönsku er svo draumurinn.

En á hvaða tungumáli, ef nokkru, dreymir þig?

Mig dreymir svona oftast á íslensku bara — en stundum á einhverju bullmáli sem drauma-ég þekki ekki einu sinni. Það er þá oftast staðgengill fyrir eitthvað tungumál í draumnum sem ég skil ekki. Mig dreymir stundum ferðalög, núna síðast var ég stödd í Kína í draumi — og þá var kínverskan bara einhver tilbúningur sem ég bjó til. Það var soldið flippað.

Getur karlmaður breyst í konu þegar hann skrifar, þó ekki sé nema örstutta stund, og öfugt? (Ég leyfi mér — stundum — að vona það.) Geta ljóðskáld jafnvel breyst í fugl?

Það er falleg hugmynd — en ég held ekki. Ég held að enginn geti til fullnustu skilið eitthvað sem viðkomandi hefur ekki upplifað á eigin skinni. Það er hægt að setja sig í spor og ímynda sér, en aldrei verða og þekkja nákvæmlega.

Svekkjandi — en úr misheppnuðum tilraunum verður fegurðin til.

Hvor er betri, lyktin af nýslegnu grasi eða vandaðri prentbók sem maður opnar í fyrsta skipti?

Lyktin af nýslegnu grasi!!! Ég er að vísu með frjókornaofnæmi — en það gerir lyktina bara þeim mun meira spennandi. Mér finnst nefnilega lyktin af gömlum bókum betri en nýprentuðum, svona eins og lyktin af notuðum Rauða kross fötum er betri en þeim sem eru ný.

Haha, veltur það nú samt ekki á því hver átti fötin?

En hér kemur önnur hugleiðing: Ég man alltaf að í Flugum, hinu frábæra ljóða- og smáprósasafni Jóns Thoroddsen, les ljóðmælandi einhvern texta eftir annan höfund og fagnar því sérstaklega að hafa ekki þurft að skrifa textann sjálfur og geta bara notið hans og nært sig á honum, sem lesandi. Ég hugsa oft til þessara orða. (Það eru örugglega fimmtán ár síðan ég las Flugur síðast, en þetta rifjast oft upp fyrir mér.) Hvort heldurðu að sé meiri list — að skrifa eða lesa?

Ég held kannski að það sé ekki sambærilegt. Þetta er smá svona eins og að spurja hvort sé meiri list — að mála eða myndhöggva. Ég held nefnilega að lestur sé vanmetin listgrein sem allt of fáir gera sér grein fyrir því að þeir búi yfir, því hvað er texti ef hann er ekki lesinn? Og hvað er spennandi við texta sem er bara lesinn á eina vegu?

Akkúrat ekki neitt. Og ekkert er sambærilegt, en samt berum við allt saman, ekki rétt?

Í beinu framhaldi af því: Er til sú bók sem þú vildir óska að þú hefðir skrifað? Eða ætti maður kannski alltaf frekar að fagna því þegar aðrir taka sig til og skrifa meistaraverkin fyrir mann (við erum jú öll svo til sama manneskjan og bisum við að skrifa sömu stóru ofurbókina) og okkar er einungis að lesa þær og njóta þeirra?

Þær eru óteljandi! En flestar eru barnabækur, því það er kúnst sem ég held að sé erfitt að tileinka sér rétt. Draumurinn minn — sem ég gleymdi kannski að minnast á áðan — er að skrifa góða barnabók. Astrid Lindgren bækurnar eru mér ofarlega í huga þegar ég les þessa spurningu, hún var svo ótrúlega lunkin í því að flétta saman boðskap, sterkar aðalpersónur og spennandi atburðarásir. Og svo bara allar smásögurnar hennar Ástu. Ég hugsa alltaf með mér: „En hvað ég hefði nú verið sniðug að láta mér detta þennan stíl eða söguþráð í hug!“

Ráðunautur Leslistans: Friðgeir Einarsson

Fridgeir

Friðgeir Einarsson er sviðslistamaður og rithöfundur, sendi nú síðast frá sér bókina Ég hef séð svona áður og samdi og flutti, ásamt Snorra Helgasyni, tónlistarmanni, einleikinn Club Romantica í Borgarleikhúsinu, sýningu sem sló í gegn og fékk frábær viðbrögð jafnt gagnrýnenda sem óbreyttra leikhúsgesta.

Sverrir Norland: Kæri Friðgeir Einarsson, hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans. Þú mátt setjast eða standa meðan við röbbum og fá þér, eða fá þér ekki, kaffi. Velkominn!

Friðgeir Einarsson: Takk. Með auðmýkt, stolti og þökk þigg ég sæti í ráðuneyti Leslistans.

Fyrsta spurning, þ.e. fyrsta skref í vígsluathöfninni, er jafnan einföld og blátt áfram: Ertu að lesa eitthvað gott í augnablikinu?

Þegar þetta er skrifað er ég með tvær bækur í takinu, en hvor um sig er svo þykk að það er mér verulega til efs að ég eigi nokkurn tímann eftir að klára þær. Fyrst ber að nefna Moby Dick eftir Melville. Ég er að taka baðherbergið mitt í gegn og hlusta því á hana í hljóðbókarformi meðan ég ríf út flísar og myglaðar spýtur. (Ég hef hlustað í margar klukkustundir en það sér ekki högg á vatni). Við lesturinn (hlustunina) hef ég haft uppi „Top Gun-gleraugun“, þ.e. ég hef gert í því að oftúlka kynferðisleg tákn og ætlaða ástleitni milli persóna sögunnar, sem vel að merkja eru nánast allar karlkyns, rétt eins og skemmtilegt er að gera þegar horft er á kvikmyndina Top Gun. Það hefur reynst mér heilladrjúgt.

Hins vegar hef ég verið að lesa Sapiens eftir Yuval Harari, sem er einkar áhugaverð, en ekki beint skemmtileg, því hafi ég haldið að ég væri eitthvað merkilegri en hver annar apaköttur sem lifir og deyr án þess að skilja eftir sig neina varanlega minnisvarða, eða að maðurinn væri eða hefði nokkurn tímann verið annað en vargur og meinsemd á jörðinni, þá hefur Harari fært þær hugmyndir í rétt form.

Heldurðu að þú munir einn daginn skrifa sögu eða leikrit, sem heitirBaðherbergið, og fjallar um mann sem er að gera upp baðherbergið hjá sér og hlusta á Móbý Dick, stóra skáldsögu sem gerist úti á hafinu mikla og tekur við daglegum sendingum okkar þegar við sturtum niður (í baðherberginu sem við vorum að gera upp)?

Af því að ég er listamaður í fullu starfi þarf ég að gera eins mikið og ég get sjálfur í baðherbergisframkvæmdinni til að eiga efni á henni. Ég þarf að tileinka mér ýmis konar handbragð og kunnáttu sem ég hef fram að þessu ekki haft hundsvit á og garfa í ýmsu sem ég hef sannast sagna engan áhuga á. Þetta bjástur útheimtir mikinn tíma sem ég hefði vel getað hugsað mér að nýta einhvern veginn öðruvísi, en til að minnka skaðann hef ég einmitt lagt á ráðin með að nýta reynsluna í listaverk. Ég gæti vel hugsað mér að skrifa sögu um óviljuga hetju sem neyðist til að rífa út baðherbergisinnréttingu til að uppræta myglu, tileinka sér vinnubrögð sem henni eru ekki töm og hugleiða feigð — feigð og myglu. Myglan er stórmerkilegt fyrirbæri, hún á eftir að lifa okkur öll og mola niður þessa kumbalda okkar eftir að mannkynið er horfið af sjónarsviðinu. Hvort umrædd sögupersóna hlustar á Moby Dick á hljóðbók á meðan hún starfar veit ég ekki, en ég hef raunar verið að gæla við að nota hvali sem umfjöllunarefni í öðru verki sem ég ætla ekki að tjá mig um að svo stöddu.

Sögurnar þínar fá mig stundum, eins og allar góðar bókmenntir, til að hugsa til annarra fínna höfunda — Alejandro Zambra, Lydiu Davis, Braga Ólafs — en þó eru þínar bækur alveg sér á báti, með sinn eigin tón. Sem sagt, áður en þú hnakkreiðist og slítur viðtalinu í fússi: ég er ekki að ásaka þig um að stæla aðra. (Róaðu þig niður.) En kannastu við að eiga þér áhrifavalda? Eða er veröldin bara ein stór áhrifakrumla sem lýkst um þig og krestir þannig að stíllinn — húmorinn, viðfangsefnin — vætla af sjálfu sér út úr vitund þinni, eins og skrúfað sé frá krananum inni á baðherberginu sem þú ert að gera upp? Og fyrrgreind nafnatog mitt þar með bara ég að slá um mig?

Ég hef hvorki heyrt um Alejandro Zambra né Lydiu Davis, en hlakka til að kynna mér þeirra verk. Braga Ólafs hef ég hins vegar lengi haldið upp á. Raunar skrifaði ég B.A. ritgerðina mína á sínum tíma um Gæludýrin, og get vel fallist á að bækur Braga hafi veitt mér innblástur, jafnvel að ég sé undir áhrifum. Hann kemur svo vel til skila ákveðinni stemningu sem einkennist af vanmætti, verkleysi, tómleika og kvíða sem mér finnst afar heillandi. Ég held líka mikið upp á Carver og Bukowski, en þeir fara allt aðra og einfaldari leið að fyrrnefndum tilfinningum. Og auðvitað Gyrðir Elíasson. Og auðvitað Kafka. Upp á síðkastið hef ég líka orðið fyrir áhrifum frá Miröndu July sem er feiknarlega lunkin að spinna þræði og flækja þá.

En annars er það einna helst smáborgarlegt vafstur sem veitir mér innblástur fyrir verk og sögur. Í gær var ég til að mynda í Sorpu og fylgdist þar með rosknum karli taka hækju af palli á bíl og fleygja henni í gám. Þessi sýn á örugglega eftir að rata í sögu hjá mér, þó að ég viti enn ekki hvenær eða hvernig. (Að sama skapi hlýtur mygla í baðherbergisinnréttingu að vera gjöf til mín frá skáldgyðjunni, happadrættisvinningur).

Lestu inni á baðherberginu (þegar þú ert ekki að gera það upp) og þá hvað helst? Henta sumar bókmenntir betur á baðherberginu en aðrar og gætu þar með talist svokallaðar baðherbergisbókmenntir? Og les maður kannski eitthvað allt annað á klósettinu en í heitu baði? Og síðast en ekki síst: Heldurðu að lestrarvenjur þínar inni á baðherberginu muni breytast, nú þegar þú lýkur við að gera það upp? Með öðrum orðum: Hefur náumhverfið áhrif á lestur okkar og einbeitingu og er best að vera hreinn, þ.e. nýkominn úr baði, þegar maður les eða er það málinu óskylt?

Ég þarf mikið næði og góðan tíma til að geta einbeitt mér að lestri, en hef aldrei komist upp á lagið með að lesa inni á klósetti. Kannski taka búklegar athafnir of skjótt af til að ég geti helgað mig verkefninu með fullnægjandi hætti. Yfirleitt fikta ég í símanum mínum meðan ég geng örna minna (ef fólk skyldi þyrsta að vita það). Við konan mín höfum verið að velta fyrir okkur hvort við eigum að fá okkur baðkar, þar sem ég gæti þá legið í næði og flett í bókum, en því miður held ég að það sé bara pláss fyrir sturtu, og í sturtu er ákaflega erfitt að einbeita sér að lestri. Ég öfunda fólk sem getur lesið hvar og hvenær sem er, óháð stað og tíma, í bíl, á diskóteki, fullt, dópað, eða já, á dollunni.

Ráðunautur Leslistans: Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir var að senda frá sér sína sjöundu ljóðabók,Undrarýmið, fallegt bókverk, ríkulega myndskreytt. Ég var svo heppinn að rekast á ljóðskáldið á förnum vegi og við áttum stutt spjall saman.

– Sverrir Norland

Kæra Sigurlín Bjarney, hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans og til hamingju með Undrarýmið, nýju ljóðabókina þína. Einstaklega falleg kápan og í stíl við ævintýralegt umhverfið hér í ráðuneytinu.

Kæri Sverrir! Takk fyrir gott boð.

Til að hefja leik: Einu hef ég verið að velta fyrir mér upp á síðkastið, ef ekki frá fæðingu — hvað er ljóð, veistu það?

Ég held að ljóð sé margt og eigi sér margar hliða, ljóðið býr einhvers staðar í björtu kjallaraherbergi með vinkonum sínum myndlist og tónlist og það er óttalegt ólíkindatól og neitar að láta skilgreina sig, um leið og maður hefur fest það niður í stól og gefið því skilgreiningu þá stekkur það upp með látum (eða laumast burt) og breytist í eitthvað annað. Í mínum huga er ljóðformið mest spennandi því þar er fullkomið frelsi og allt hægt, ljóð eru orð sem raðast saman á áður óvæntan hátt, umbreyta lesandanum ef móttökuskilyrðin eru til staðar, ljóðinu er alveg sama um viðtökur eða sölutölur eða vinsældir, það gerir það sem því sýnist og þess vegna er ekki annað hægt en að heillast gjörsamlega af því.

Já, kannski ljóðið sé einn síðasti útvörður frjálsrar og skapandi hugsunar — og uppreisnarinnar — í mannlegu samfélagi? Rokkið er dautt — en ljóðið lifir.

En manstu hvenær ljóðið smeygði sér fyrst inn í líf þitt, hvað varstu gömul, hvar varstu stödd?

Já, ljóðið er klárlega pattaralegur útvörður. Nei, ég man ekki hvenær nákvæmlega ljóðið læddist inn í taugakerfið, man að ég var byrjuð að fikta við ljóðagerð í 7. eða 8. bekk og þá helst gamankvæði um vinkonur mínar en svo tók alvaran fljótlega við, og fyrir há-alvarlegan ungling er gott að leita í ljóðin, þar er alveg jafn mikið pláss fyrir drama og hlátur. Var alltaf að skrifa hjá mér hugmyndir, ljóð og andvörp en hélt því fyrir mig. Gæti trúað að tónlist hafi haft mikil áhrif, lærði lengi á píanó.

Og áttu þér ljóðskáld sem fylgt hafa þér lengi, og þá hvernig og hvers vegna?

Þau eru nokkur ljóðskáldin sem hafa fylgt mér lengi, dettur helst í hug Sigurbjörgu Þrastardóttur og Óskar Árna Óskarsson en svo eru þarna líka Kristín Eiríksdóttir og Elísabet Jökulsdóttir og Kristín Ómarsdóttir. Þau eru öll svo frjó og búa til nýja rafleiðni í hausnum á mér, opna nýjar og gamlar (gleymdar) víddir. Féll fyrir nokkrum árum fyrir Tomas Tranströmer og svo er ég alltaf að hnjóta um eitthvað fallegt eftir Rilke.

Nýja bókin þín er skreytt afar fallegum og sérstæðum myndum, sem eru „birtar með góðfúslegu leyfi frá Hagströmer lækningasögubókasafninu, Karónlínsku stofnuninni í Stokkhólmi“. Hver var kveikjan að ljóðabókinni, ortirðu út frá myndunum?

Já, ég notaði myndirnar sem kveikjur eða stökkpall inn í skáldskapinn, ákvað síðan að leyfa kveikjunum að vera með í bókinni enda dáldið mergjaðar finnst mér. Mig grunar að úrvinnsla mynda og texta eigi sér stað á ólíkum svæðum í heilanum og þá kannski kannski myndast nýjar tengingar í því undrarými sem heilinn er þegar ljóðin eru lesin og myndirnar teknar inn á sama tíma. Skokk með tónlist í eyrunum er ein svakalegast ljóðakveikja sem ég þekki, nenni bara svo sjaldan að skokka að ljóðin koma seint og hægt.

Ráðunautur Leslistans: Guðrún Eva Mínervudóttir

Guðrún Eva Mínervudóttir ætti að vera lesendum að góðu kunn, hún hefur sent frá sér fjöldamargar bækur og á sér marga aðdáendur. Hún var vígð inn í ráðuneyti Leslistans undir skafheiðum, bláum himni nú í vikunni, og að því tilefni áttum við stutt og kjarnríkt spjall — um lestur, skrif og, síðast en ekki síst, sálina.

  • Sverrir Norland

Kæra Guðrún Eva, hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans. Mér datt í hug að við gætum stigið út á svalir og haft fyrir augunum útsýnið yfir hafið á meðan við röbbum saman, það örvar heilann að komast út í súrefnið. Og gjörsovel, heitur tebolli til að ylja sér á lófum og í kverkum.

Takk innilega, Sverrir.

Þú hófst rithöfundaferilinn með smásagnasafni, Á meðan hann horfir á þig ertu María Mey, og sendir nú á dögunum frá þér safn númer tvö,Ástin, Texas (frábær titill!). Hvernig finnst þér að skrifa smásögur í samanburði við skáldsögur, er mikill munur, ef nokkur, þar á? Hvernig mundirðu skilgreina smásöguformið (ef þú þá skilgreinir það yfirhöfuð)?

Smásögur eru svo spennandi, bæði aflestrar og að skrifa þær, vegna þess að í samanburði við skáldsöguna eru þær mikil ólíkindatól. Þú veist aldrei hvert þær ætla með þig. Það vandræðalega við skáldsagnaformið er að það er iðulega hægt að setja skáldsögu inn í formúluna: Aðalpersóna (stundum fleiri en ein) gengur í gegnum eitthvað dramatískt og lærir af því/breytist. Smásögur (í það minnsta af þeim toga sem ég kann helst að meta) snúast meira um það að höndla óræðan en samt raunverulegan sannleika í gegnum reynslu persónanna. Þær skilja þig eftir með þá tilfinningu að þú hafir upplifað eitthvað sem þú sem lesandi þarft sjálfur að leiða til lykta. Að loknum lestri verður smásaga hluti af manni með öðrum hætti en skáldsaga. Skáldsaga er meira eins og heill hlutur, aukalíffæri, kannski, sem þú lætur græða í þig. Smásaga getur verið eins og skinnágræðsla; aukaskinn sem bráðnar smám saman við það skinn sem fyrir er þar til mörkin mást út. Þetta á auðvitað aðeins við í þeim tilvikum sem skáldsaga eða smásaga hefur djúp áhrif á lesandann. Líkaminn á það til að hafna aukahlutum.

Þetta er frábærar, og virkilega áhugaverðar, skilgreiningar. Það höfðar til mín að hlutgera bókmenntaverk svona, skynja þau sem líffæri. Rímar líka við upplifun mína sem lesandi: mörg eftirlætisverk eru eins og framlengingar á heilanum í mér, geyma reynslusvið sem eru mér allt eins nærtæk og atburðir úr lífi mínu; þarna eru handleggir sem ég veifa, fótleggir sem ég dansa á, augu sem ég nota til að skoða veröldina…

Svo eru aðrir sem mundu fetta fingur út í skilgreininguna á skáldsögunni. Reka upp ramakvein og fullyrða að um einföldun sé að ræða. Vissulega sendir kunnugleg formúla aðalpersónuna í gegnum reynslu sem þroskar viðkomandi, breytir, eflir jafnvel; og ritstjórar og ritlistarkennarar hvetja sjálfsagt margir höfunda sína og nemendur sína til að sníða sögur á slíkan hátt. (Ég gerði það vísvitandi í annarri skáldsögunni minni, Fyrir allra augum, til að sanna fyrir mér að ég gæti það: sagan fylgir klassískri byggingu í þremur hlutum og persónan hefur tekið út lærdóm og þroskast undir lokin. Þetta gat ég!) Ég óttast samt stundum að þessi formúla beri vitsmunalegri leti og dvínandi hugarflugi okkar vitni; og að Hollywood-þroskasagan verði altæk, innprentuð svo freklega í vitund okkar að öðruvísi sögur orki ekki lengur á okkur.

Því þetta gildir engan veginn um allar skáldsögur, eða hvað? Margar þeirra bestu eru alveg sín eigin verk, fylgja engri formúlu, eru kannski frekar eins og ljóð (eða opnar smásögur). Jafnvel meistaraverkin: Anna Karenína, þar fremur titilpersónan sjálfsmorð og síðasti hluti verksins fylgir eftir afdrifum hálfgerðrar aukapersónu í verkinu. Þroskast einhver? Það er ógerningur að súmmera upp efni þeirra skáldsögu sem er sú besta sem ég hef lesið á þessari öld: 2666 eftir Roberto Bolano. Sama gildir um Infinite Jest eftir David Wallace (er það skáldsaga?) og stuttu skáldsögurnar hans Cesar Aira. Sjálfur leita ég alltaf að nýstárnlegum félagsskap þegar ég les bækur og laðast að skáldsögum sem kannski eru varla skáldsögur: Richard Brautigan, Hervé Guibert, José Saramago, Marguerite Duras, Chris Kraus …

Milan Kundera — þú afsakar allt þetta nafnatog, úff! — mundi ábyggilega skilgreina skáldsöguna, sérstaklega stórar skáldsögur frá 19. öld og byrjun þeirra 20., sem eins konar dótakassa þar sem allt er leyfilegt. (Skáldsögurnar hans eru líka dæmi um vinsæl verk, sem brjóta formúluna, og daðra við að vera ritgerðir.) Maður án eiginda eftir Robert Musil væri annað gott dæmi; hér má allt. Og svo önnur, nýlegri, sem fer í flokk með þeim bestu sem komið hafa út á síðustu áratugum: The Last Samurai eftir Helen DeWitt (það má þó kannski segja að þar þroskist persónurnar, ég veit það ekki). Íslenskt dæmi: Kristnihald undir jökli?

Getur verið að við séum vönkuð, að vitsmunaleg fimi okkar sé að dala? Að við séum latir lesendur sem vilja láta mata sig á því kunnuglega og að þessi vegna hafi smásagan, sem virðist vera í svolítilli sókn, svona hressandi áhrif á okkur? Að þar megi endurstokka reglurnar með hætti sem ekki leyfist lengur í skáldsögum? Útgefendur spyrja þegar höfundur kemur með handrit inn á forlag: Fyrir hvern er þetta? Það er hættulegt fyrir listgrein ef hún þarf að mata stirðnaðan neytendahóp með fyrirframgefnar kröfur. Því ég held nebbla að virkilega góð skáldsaga sé ekki fyrir neinn þegar hún kemur út — hún gerir eitthvað alveg nýtt og segir við lesendur:

Hér er ég, þú vissir ekki að þú þarfnaðist mín fyrr en ég kom óvænt inn í líf þitt …

Ó, já, takk innilega fyrir þessa fínstillingu. Vissulega hafa verið skrifaðar fjölmargar skáldsögur sem falla ekki nákvæmlega í formið. Og aðrar sem falla í formið en gera það svo vel að maður tekur ekki eftir því. Þegar ég gaf út mínar fyrstu bækur, á tíunda áratug síðustu aldar, var mikið rætt um póstmódernisma og það þótti sjálfsagt að skrifa óhefðbundnar skáldsögur. Það er helst á síðustu tuttugu árum eða svo sem mér finnst að góðar og gegnar vangaveltur um strúktúr hafi verið teknar full bókstaflega. Hér áður fyrr spáði fólk mikið í stíl en svo fór orðið plott að heyrast æ oftar í tengslum við fagurbókmenntir. Þetta hélst í hendur við vinsældir glæpasögunnar. Eins og fagurbókmenntir fengju allt í einu minnimáttarkennd gagnvart glæpasögunni. Sumir eru jafnvel viðkvæmir fyrir því að aðgreina með þessum hætti, en mér finnst sjálfsagt að greina á milli glæpasagna og fagurbókmennta því þar með er ekki verið að segja að eitt sé betra en annað. Við sækjumst eftir ólíkum hlutum í þessum ólíku tegundum skáldskapar.

Þessi krafa um hefðbundið plott er hvorki höfunda- né lesendavæn. Hún er mögulega markaðssetningavæn. En fyrst og fremst, held ég, byggð á þeim misskilningi að lesandinn sé svo Disney-væddur að hann þoli ekkert annað en formúlu af einhverjum toga. Það er ekki rétt. Lesendur eru stórkostlega vanmetnir og eiga betra skilið. Fyrst og fremst eiga þeir skilið fjölbreytni.

Sem höfundur tek ég ekkert af þessu nærri mér. Ég á í einföldu sambandi við skáldskapargyðjuna. Hún segir mér hvað hún vill, án þess þó að vera með dólg. Ég reyni að hlusta almennilega og hlýði síðan með bros á vör. En sem lesandi verð ég stundum fyrir vonbrigðum. Það gerist æ oftar að ég fæ í hendur það heitasta utan úr heimi, eitthvað sem ég hef áður lesið um og litist vel á. Við lesturinn breytist forvitni í hrifningu: Þvílíkur sagnaheimur! Þvílíkir hæfileikar! En svo kannski um eða eftir miðja bók fer einhver svona klunnaleg plott-vél í gang og þar með rofna töfrarnir. Þá segi ég við sjálfa mig til huggunar að þessi tiltekni höfundur hljóti að vera fæddur til að auðga heiminn með opnum smásögum eða óhefðbundnari skáldsögum en sé bara ekki almennilega búinn að gefa sér leyfi til þess ennþá.

Allt þetta sem ég er að segja er auðvitað ekki annað en mínar upplifanir og alls enginn algildur sannleikur. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af stöðu skáldskaparins sem listgrein í nútímanum. Það er stöðugt verið að framleiða hugvíkkandi, vekjandi og dýpkandi skáldskap. Töfra sem rofna ekki. Þá er ekki endilega (en þó einnig!) að finna meðal þess sem mest er haldið að manni. Og á síðustu árum hef ég helst fundið þessa töfra í vissri tegund af smásögum en einnig í svokölluðum sannsögum (já, Karl Ove Knausgard) og hugrenningabókum á borð við þær sem Patti Smith er að skrifa (Just Kids, M-Train).

Einmitt, og þríleikurinn hennar Rachel Cusk, hann er frábær og skyldur verkum Knausgaards.

En hlustaðu nú: Ég heyrði þig einu sinni tala á höfundarkvöldi í Gunnarshúsi, að mig minnir, og þar nefndirðu að alltaf hefði legið vel fyrir þér að skrifa góðan stíl, en síður, í hið minnsta til að byrja með, að setja saman plott — skýran og samhangandi söguþráð. Þú skrifaðir fallegan texta sem átti til, ef þú passaðir þig ekki, að enda út í móa. Af þessum sökum hefðirðu tekið þig til og virkilega kafað í sagnagerð, strúktur, og snúið svo aftur að sagnagerðinni tvíefld, þá búin að læra tökin á því að byggja upp skáldsögur, eins og sannast á bókunum þínum. Er ég að búa þetta til, eða er þetta á sannleika byggt, ljóstraðirðu þessu upp þetta dimma vetrarkvöld í Gunnarshúsi, meðan snjóiðurnar þyrluðust um ljóskeilur götustauranna? Og hvað gerðirðu, nákvæmlega, þegar þú stúderaðir sögubygginguna, tókstu í sundur sígild meistaraverk bókmenntanna, kafla fyrir kafla, klipptir jafnvel í sundur bækur og hengdir upp á þvottasnúru til að fá heildaryfirlit, eða lastu leiðbeinandi verk um ritstörf, eða æsktir ráða hjá vitru fólki? Og hvað nú, plottarðu bækurnar þínar, skref fyrir skref, áður en þú skrifar þær? Ertu til í að veita Leslistanum örlitla innsýn í sköpunarstarfið hvað þetta snertir, eða er ég of nærgöngull, alltof nærgöngull?

Það er rétt að hér áður fyrr eltist ég fyrst og fremst við fegurð augnabliksins með fiðrildaháfinn á lofti og skrif mín báru þess merki. Fyrstu skáldsöguna skrifaði ég átján og nítján ára og hún var eiginlega 200 síðna prósaljóð. Hún kom aldrei út en var mér góður skóli og höfundarröddin tók að mótast. Það var ekki fyrr en tíu árum síðar, eða með Yosoy sem kom út 2005, að ég áttaði mig á að efnið sem ég var að vinna með hrópaði á strúktúr. Þar voru margar fyrirferðarmiklar persónur og hver og ein þeirra þurfti sinn söguboga. Allt þurfti síðan að falla saman saumlaust. Ég átti maraþonsamtöl við gáfaða vini, flest við Val Antonsson, Nýhíl ljóðskáld og heimspeking sem var lengi vel óformlegur ritstjóri minn. Ég las bækur um kvikmyndahandrit, vegna þess að þær voru svo skírar og skorinorðar að það var ekki nokkur leið að taka þær alveg hátíðlega (á blaðsíðu 50 skal vera vendipunktur númer eitt, hahaha). Frá og með Yosoy hafa skáldsögur mínar staðið undir nafni og haft grjótharðan strúktúr sem samt fellur þannig inn í landslagið að lesandinn á ekki að verða var við hann sem slíkan. Þær eru Skaparinn, Allt með kossi vekur, Englaryk og Skegg Raspútíns.

En ég myndi aldrei plotta bækurnar fyrirfram. Starf mitt felst fyrst og fremst í að þvælast sem minnst fyrir undirvitundinni. Eins og Stephen King (sem fyrirfram-plottar heldur ekki sínar bækur) lýsti því þá má líkja skáldsagnaskrifum við það að grafa upp risaeðlubeinagrind. Það væri fljótlegast að nota stórvirkar vinnuvélar, en þær leggja allt í rúst. Þess vegna er maður að potast þetta með teskeið og mjúkan bursta og láta heildina smám saman koma í ljós. Þá er samt betra að vita eitthvað um anatómíu forndýra og að sama skapi að hafa kynnt sér hvernig plott virkar.

Líkingin hans Stephen King um risaeðlur finnst mér sniðug og „spot on“. Nærtækari líking fyrir mig sem er af annarri kynslóð er samt niðurhal. Maður þarf að leyfa þessu að hlaðast niður í rólegheitum og það gerist helst þegar líkaminn er í slökunarástandi. Stundum vakna ég um miðjar nætur og átta mig á að andardrátturinn er eitthvað þvingaður. Þá leyfi ég mér að ofanda í smástund og eftir það hefst niðurhalið. Þetta er allt í andardrættinum, eins og jógarnir segja. Ég er eiginlega hætt að rjúka á fætur um miðjar nætur til reyna að skrifa allt niður. Eftir að niðurhalið kemur er innihaldið aðgengilegt, bara þegar hentar. Það að reyna að plotta eða skrifa áður en niðurhalið kemur er ekki til neins annars en að tefja fyrir. Þess vegna bíð ég bara róleg eftir að undirvitundin skili af sér einni og einni kjúku og stundum lærlegg. Eins og ég er innilega óþolinmóð manneskja. Minn heittelskaði þarf til dæmis stöðugt að minna mig á að leyfa bílnum að nema staðar áður en ég stekk út.

Hvað finnst þér um skáldsöguna almennt þessa dagana, er hún að syngja sitt síðasta eða einungis rétt að hefja flugið? Sumum virðist mjög í mun að lýsa því reglulega yfir að hún sé á dánarbeðinum — en þó þykist ég nokkuð viss um að hún muni koma í útför okkar beggja, rjóð í vöngum og í góðu formi, enda ekki svo ýkja gömul, bara nokkurra hundrað ára (og það er enginn aldur). Hvað finnst þér?

Skáldsagan er ekki að syngja sitt síðasta, heldur rétt að hefja flugið, eins og þú segir. Eða eru ekki fuglar himinsins einmitt beinir afkomendur risaeðlanna?

Jú!

Og svo er það smásagan: Áttu þér einhverja eftirlætis-smásagnahöfunda, innlenda, erlenda? Ef svo er, hvernig koma galdrarnir fram hjá þeim?

Ég á mér mjög marga eftirlætis smásagnahöfunda og það sem þeir eiga sameiginlegt er nánd og hægð. Þeir eru nærgöngulir við persónur sínar og sýna breyskleika þeirra í nærmynd en hætta ekki fyrr en við höfum eignast einhvers konar samúð og skilning. Vegna þess að reynsla persónanna er núna reynsla okkar líka. Vegna þess að höfundurinn hefur með nákvæmni og þolinmæði sett okkur í þeirra spor. Galdurinn felst líka í því að hafa söguna opna í báða enda án þess þó að segja of mikið eða of lítið. Lesandanum á helst að finnast fullkomlega eðlilegt að sagan endi þar sem hún endar, en án þess þó að vita nákvæmlega hvers vegna sögunni lýkur á akkúrat þessum stað.

En á hvað trúirðu, Guðrún Eva, hver ertu? Og hvers vegna gerðistu rithöfundur?

Nú fyrst geristu nærgöngull. Það er gott hjá þér! (Mér er alveg sama þótt fólk viti hvernig ég vinn. Það er bara tæknilegt atriði.)

Fyrst seinni spurningin og þú mátt velja svarið úr eftirfarandi möguleikum: a) Ég gerðist rithöfundur vegna þess að fyrsta skáldsagan byrjaði að hlaðast niður. b) Ég þráði að tengjast heiminum gegnum lestur og skrif. c) Mig langaði að vekja á mér athygli? d) Níutíu og fimm ára feneysk kona aumkaði sig yfir mig átján ára bjálfa á interrail ferðalagi og forðaði mér frá því að eyða nótt á síkisbakka. e) Eftir barns- og unglingsævi sem einkennist af stanslausum lestri er náttúrulegt viðbragð að byrja að skrifa, næstum sjálfsögð kurteisi, líkt og að svara þegar á mann er yrt.

Síðan seinni spurningin: Áðan sagði ég að þetta væri allt í andardrættinum og nú geng ég enn lengra: Ég er andi. Ég er ekki líkami með sál heldur sál íklædd líkama. Ég finn fyrir smá hræðslu í hvert sinn sem ég viðurkenni þetta vegna þess að fullt af fólki sem ég met mikils hefur ofnæmi fyrir lífsskoðunum á borð við þessa. En maður verður víst að standa og falla með því sem maður er. Auðvitað gæti ég haft rangt fyrir mér — sem er í góðu lagi, það er hin sjálfgefna áhætta sem maður tekur í hvert sinn sem maður leyfir sér að hafa skoðun — ég veit ekkert fyrir víst frekar en aðrir. En á endanum er þetta minn daglegi veruleiki og mín fyrirferðarmesta sjálfsmynd: Ég er sál.

Ráðunautur Leslistans: Þórarinn Eldjárn

Mynd: Þorsteinn Haraldsson. Tekin á túninu fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík 22. ágúst 2009 á sextugsafmæli skáldsins.

Þórarinn Eldjárn, rithöfund, þarf vart að kynna fyrir landsmönnum, hvað þá einstaklega vel upplýstu samfélagi Leslistans. Við Þórarinn skrifuðumst á og hér gefur að líta afraksturinn.

– Sverrir Norland

Hjartans þakkir fyrir að ganga í ráðuneyti Leslistans, kæri Þórarinn Eldjárn, okkur er mikill styrkur að því að fá þig til liðs við okkur. Vonandi væsir ekki um þig í gula skeljastólnum frá Eames. Þú getur valið um ískalda Appelsín í gleri, gerjað greipte af krana eða togarakaffi á brúsa — og svo er Kári með fínar brauðbollur, skreyttar sesamfræjum, inni í ofninum. Rabarbarasulta frá ömmu (eins og þú getur í þig látið!).

Fyrsta spurning er blátt áfram, einföld og hnitmiðuð: Ertu að lesa eitthvað gott og skemmtilegt í augnablikinu sem þig langar að gauka að hinu fróðleiksfúsa samfélagi Leslistans?

Ég hef nú síðast verið að lesa endurminningar sænska rithöfundarins Torgnys (Þórgnýs) Lindgren (ekkert skyldur Astrid, nafnið er mjög algengt). Hann var fæddur 1938 uppi í Vesturbotni, lést 2017. Bókin kom fyrst út 2010 og heitir ósköp einfaldlega Minnen, þeas. Minningar.

Bókin fer nokkuð sérkennilega af stað þar sem hún byrjar á lýsingum á því hvernig höfundur hefur um langa hríð reynt að færast undan kröfum forleggjara sinna hjá Norstedts um að skrifa endurminningar. Vísar ætíð til þess að hann muni ekki neitt. Svarar kvabbi forleggjaranna með því að hann hafi haft lifibrauð af ímyndunum sínum, en…. „Að taka nú til við að kalla þær minningar væri allpínlegt.“

Þórgnýr sló í gegn 1982, minnir mig, með skáldsögunni Ormens väg på hälleberget. Mergjuð stutt saga skrifuð á norrlenskri mállýsku, þýdd á íslensku af Hannesi Sigfússyni og kölluð Naðran á klöppinni. Eins komu út amk. tvö smásagnakver hans í Syrtluseríu Mom, einnig í þýðingu Hannesar. Frábærar bækur.

Minningabókin líður áfram með stanslausum pælingum um eðli minnisins og minninganna kringum ýmis atvik og tímabil og lesningu í ævi höfundar, engan veginn í línulegri röð. Eins og fleiri Norrlendingar á hann sér rætur í sértrúarsöfnuðum og kynntist berklahælum ungur. Náði heilsu og varð kennari, lagði stund á heimspeki, einkum Schopenhauer og Nietzsche. Gætir þess og einnig kristinna pælinga mjög í verkum hans.

Áhugaverð fyrir Íslendinga er frásögn hans af því þegar hann er hér staddur og fær að hitta Halldór Laxness. Hefur áður sent honum bréf og farið mjög fögrum orðum um Kristnihaldið.

Hann er líka staddur hérlendis þegar fregnir berast af því að Olof Palme hafi verið myrtur (TL var eindreginn sósíaldemókrati). Þannig vill til að sænski sendiherrann hringir í hann þar sem hann er nýsofnaður á hótelherbergi. Sendiherrann hefur mörg orð um að hann þurfi að búa sig undir hræðilegar fréttir, spyr hvort hann sitji standi eða liggi, þannig að TL fer að halda að eitthvað hræðilegt hafi komið fyrir í fjölskyldunni. Þegar svo loks sendiherrann lætur hryllingsfréttina vaða: Olof Palme hefur verið myrtur svarar kratinn Þórgnýr spontant því svari sem hann segist gera ráð fyrir að varðveitt sé einhversstaðar í skjalasafni sænska utanríkisráðuneytisins: Gud ske lov att det bara var en sådan bagatell.

Þannig er að nokkrar línur úr nýjustu bók Péturs Gunnarssonar,Skriftum, hafa suðað í kollinum á mér síðan ég las bókina skömmu eftir að hún kom út um jólin 2016. Ég er ekki með hana við höndina, en ég man þetta ágætlega. Á 168. — 169. síðu er Pétur með tvo heimsþekkta Frakka í brennidepli, Jean-Paul Sartre og Michel Focault, áhrifaríka rithöfunda og svona „public intellectuals“ af þeirri tegund sem við Íslendingar höfum aldrei átt. (Eigum við bara gárunga?)

Og spurningin hjá Pétri er: Hvert er gildi bókmennta?

Koma þær, þegar öllu er á botninn hvolft, nokkru til leiðar? Undir lok ævi sinnar voru bæði Sartre og Focault nokkuð bölsýnir. Mennirnir komast af án bókmennta, slík var í raun niðurstaða þeirra. Allt hverfur og „allt fer“, svo ég vitni í nýlegan titil íslensks höfundar. Allt vort blekstrit er sjálfsagt aðeins ryk og hégómi, hugarleikfimi, snobb. Og ef ég skil Pétur rétt dregur hann af lestri verka þeirra Sartre og Focault þá niðurstöðu að þeir telji að bókmenntir (bæði þeirra og annarra) komi litlu til leiðar og að það — plús yfirvofandi dauða þeirra sjálfra — marki í raun eins konar heimsslit, endalok alls. Þeir deyja — og öllu lýkur. Bókmenntirnar fjara út. Allt fer.

Pétur er ekki endilega á sama máli, og segir:

Svona tala náttúrlega bara barnlausir menn […].

Þessi lína! Hún situr föst í kollinum á mér. Og ómar jafnvel stundum þegar ég les bók eftir barnlaust karlkyns séní (Já, svona tala náttúrlega bara barnlausir menn …).

Síðustu tvö árin hef ég varið meiri tíma í að ýta barnavagni um stræti en penna um pappír. Stundum sest ég niður, örþreyttur eftir að hafa eldað fyrir lítið barn, leikið við það, lesið fyrir það, skammað það, huggað það, skipt um bleyju á því, svæft það — og finnst eins og ég hafi ekkert að segja. Ég legg fingurna á lyklaborðið en hrekk skyndilega í kút við barnagrát — sem ómar einungis í kollinum á mér. Og mér finnst ég ekki hafa sama sjálfsálitið og ég hafði áður — þegar ég var barnlaus maður. Þetta er klisja, en um leið hljóta barnseignir að gjörbreyta lífssýn þeirra sem hafa að starfi að hugsa um veröldina og færa undur hennar og veruleika í orð.

Eitthvað hefur allavega breyst innra með mér. Stundum finnst mér næsta ómögulegt að taka öll hin barnlausu karlkyns séní alvarlega (sem er auðvitað fáránlegt!).

Og þá kem ég loks að spurningunni: Telurðu að barnlausir karlmenn geti skrifað sannar og merkilegar bókmenntir?

Jú, ætli það hljóti ekki að vera. Ekkert síður en barnlausar konur. En áreiðanlega vex samt blessun með barni hverju. Að nútímaáliti fékk ég sjálfur ekki langa reynslu af barnleysi, aðeins tæp 23 ár. Það þótti reyndar ekkert sérlega ungt á þeirri tíð (1972). Allir mínir föðurbetrungar hafa ekki gert neitt annað en að bæta mig og bæta gegnum tíðina, jafnt sem mann og höfund. (Þó vissulega sé ekki endilega samasemmerki milli þess að vera góður maður og góður höfundur.)

Ég er reyndar alveg viss um að margir góðir eldri karlhöfundar (þeas. miklu eldri en ég sem er ekki nema 69 ára), þó feður séu, sem aldrei hafa skipt á barni, sett í þvottavél eða eldað mat hefðu jafnvel orðið enn betri ef þeir hefðu ekki misst af þessari góðu reynslu.

Nú hefur þú sent frá þér fjöldamargar góðar barnabækur, sum klassísk verk í íslenskum bókmenntum. Telurðu að þú hefðir ort og skrifað fyrir börn í slíkum mæli ef þú værir barnlaus?

Nei það hefði ég áreiðanlega ekki gert. Hefði líklega þótt slíkt of barnalegt og allnokkur skömm minnar meintu hátimbruðu listamennsku.

Áttu þér eftirlætis-smásögu eða -smásagnahöfund?

Eftirlætin eru mörg. Spanna næstum allan Tsékov/Maupassant-skalann. Má ég svo nefna William Saroyan, John Cheever, Alice Munro, Janet Frame? Áðurnefndur Þórgnýr Lindgren kemur sterkur inn. Situr óþyrmilega í mér t.d. titilsagan í Fimmfingramöndlunni (eins og kverið heitir í þýðingu Hannesar Sigfússonar).

Ég las einu sinni smásögu eftir þig, endur fyrir löngu, en man ekki hvað hún heitir. Sagan (sem er alveg frábær) fjallar um par sem er í fríi (helgarferð?) til Parísar. Þar verður á vegi þeirra götulistamaður, teiknari sem hefur lifibrauð sitt af því að snara andlitum fólks á pappír gegn vægu gjaldi. Þau hjónakornin (kærustuparið?) slá til, og reka upp stór augu þegar afraksturinn blasir við þeim. Þau líta eitthvað svo kjánalega út. Er þetta virkilega sannferðug túlkun á þeim? Eða er listamaðurinn svona lélegur? Þau greiða honum í hálfgerðu fússi og hraða sér burt. Taka teikninguna með sér upp á hótelherbergi og eru nú, ef ég man rétt, byrjuð að hnakkrífast. Þau eru hlægilegt fólk; listamaðurinn sá beint í gegnum þau. Segjum að þau leggi teikninguna á skrifborðiðið við gluggann og láti hana vísa niður svo að þau þurfi ekki að hafa hana fyrir augunum (horfast í augu við sjálf sig). Eiginmaðurinn (kærastinn?) hrekkur svo upp af svefni um nóttina, kófsveittur. Vondar draumfarir. Í hálfgerðu óráði stjáklar hann fram úr rúminu, dregur fram teikninguna — og sér nú … að skopmyndin er fullkomin eftirmynd þeirra! Hann starir á unnustu sína (eiginkonu) í rúminu og sér að hún lítur alveg eins út í raunveruleikanum og á teikningunni. Afar raunsæ túlkun. Og ekki skánar ástandið þegar hann lítur í baðherbergisspegilinn. Svona líta þau út. Þau eru svona skopleg!

Ég man ekki hvenær ég las þessa sögu — fyrir mörgum árum — en ég hef síðan reynt að finna hana, án árangurs. Fletti upp í sagnaúrvalinu þínu einhvern tímann, einnig gömlum sagnakverum. Finn hana hvergi! Og því spyr ég blátt áfram: Varst það ekki örugglega þú sem skrifaðir þessa góðu sögu? Því ef svarið er nei hlýtur það að þýða að í raun og sannleika var það ég sem fitjaði upp á henni. Þá ætla ég að skrifa hana og gefa út. Gengstu við því að hafa skrifað hana?

Þetta mun vera saga sem nefnist „Í svip“. Hún birtist fyrst í smásagnasafninu Sérðu það sem ég sé (1998) og var endurprentuð í Sagnabelg (1999). (Hefur líka komið út á frönsku undir nafninu „Simples malentendus“). Í aðalatriðum er söguþráðurinn svona eins og þú lýsir honum nema hvað teikningarnar eru í alvöru vondar (að mati fyrirmyndanna amk.) og rándýrar að auki og tilkomnar af hálfgerðri nauðung. Þetta er það sem veldur ósætti hjónanna en þó tekst þeim að ákveða í sameiningu að rífa myndirnar í tætlur og sturta þeim niður um klósettið og ímynda sér í staðinn að þau hafi verið rænd. Maðurinn hrekkur svo upp af svefni um nóttina og sér ekki betur en konan hans sé orðin alveg eins og myndin í framan. Hann staulast skelfingu lostinn fram á klósett og þorir ekki að líta í spegilinn og lýkur þar sögunni … Þannig var nú það. Annars er ég ekki frá því að þín versjón sé betri en mín.

Í beinu framhaldi: Ég hef stundum heyrt mikil gáfnabúnt lýsa því yfir að smásagan sé fullkomasta bókmenntaformið og erfiðara að skrifa góðar smásögur en skáldsögur. Og einnig yfirlýsinguna: „Ég skrifaði langa bók í þetta skiptið því ég hafði ekki tíma til að skrifa stutta bók.“ Nú hænist þú svolítið að knöppum formum. Ertu sammála ofanfarandi fullyrðingum? Er eitthvað erfiðara að skrifa smásögu en skáldsögu?

Leiðslurnar í mér eru nú svo einfaldar að mér finnst miklu erfiðara að skrifa skáldsögu en smásögu. Af þeirri nauðaeinföldu ástæðu að skáldsögur eru lengri en smásögur.

Það þykir mér velt mælt — og tek undir. Og viðeigandi þar með að hafa þetta ekki lengra.

Velkominn í ráðuneytið!