Ráðunautur Leslistans: Ana Stanićević

ana-stanicevic_mynd.jpg

Önu Stanićević er margt til lista lagt. Hún er, að því er virðist, flugmælt á sérhvert tungumál sem talað er á vesturhveli jarðar, og er auk þess norðurlandafræðingur, fagurbókmenntaþýðandi og doktorsnemi. Um þessar mundir er Ana búsett í Kóngsins Köbenhavn, en Leslistinn ritaði henni línu frá New York og reisti þannig streng þvert um haf í því markmiði að bjóða henni sæti í ráðuneyti Leslistans. Ana þáði boðið og er nú sérlegur erindreki Leslistans í Danmörku. Á eftir fer stutt spjall við Önu um frumuppsprettu lífsins: lestur.

– Sverrir Norland.

Sæl, Ana, og velkomin í ráðuneytið! Hvaða bók, ef nokkra, ertu að lesa þessa dagana?

Ég var einmitt á útgáfuhófi nýju bókar Madame Nielsen, The Monster. Náði mér í eintak og hlustaði á Madame lesa upp úr henni, tvisvar! Það er af því að hún las byrjunina aftur í höfundaspjalli við höfundinn Theis Ørntoft rétt eftir bókahófið. Ég mun lesa hlutann aftur, því þrír er góð tala. Get varla beðið eftir að byrja á bókinni, af því að síðustu tvær bækur sem ég las eftir Madame, Det Højeste Væsen og Den Endeløse Sommer, gleypti ég í mig. Þær fjölluðu báðar um ást að einhverju tagi og voru skrifaðar með einstakri gáfu og í smitandi vímu. Auk þess hefur hinn umdeildi einleikur eftir Madame, White N*****/Black Madonna, heillað mig upp úr skónum! Ég þori að segja að mér finnist Madame Nielsen ein mest spennandi lifandi listakona í heiminum. Ég er líka mikill aðdáandi Claus Beck-Nielsen sem skapaði og skrifaði áður en Madame varð til, en mér finnst hún vera með ómótstæðilegan glæsileika og aðlaðandi höfundarrödd. The Monster er svokölluð New York-hrollvekja og fylgir ungum Evrópubúa sem í 1993 kemur til Nýju-Jórvíkur og langar til að taka yfir sviðið og verða nýi Willem Dafoe.

Annars hef ég verið að njóta þess að lesa í litlum skömmtum nýjustu bók Peter Adolphsen, Jeg kan ikke huske. Hún er skrifuð með klifun í stuttum köplum sem (næstum því!) allir byrja á þessari setningu og segja sjálfsævisögu höfundarins í samtali við verk Joe Brainards, I remember, og Martin Larsens, Hvis jeg var kunstner. Þessi bók er tilvalinn upplestur t.d. fyrir elskendur eða maður getur lesið upp hana með einhverjum öðrum sem manni þykir vænt um og sem er með áhuga á lestri!

Ég hef nýlega einnig byrjað á langtímaverkefni að lesa Þúsund og eina nóttfyrir svefn. Stundum svindla ég og les fleiri en eina sögu á nótt! Sjerasade er efnilegur sagnaþulur og það er stundum heilmikil vinna að fylgjast með í öllum rammafrásögnum.

Síðast, en ekki síst hef ég líka verið að dekra við sjálfa mig með ljóðum Gerðar Kristnýjar, því hvað er lífið án fagurrar ljóðlistar!

Og fræða. Það eru heldur betur alltaf einhverjar fræðibækur liggjandi í kringum mig.

Já, margt spennandi þarna, takk.

Og skemmtilegur útúrsnúningur á „Ég man“-bókunum hjá Adolphsen. Ef ég teygi mig upp í hillu, leynist hér einmitt I Remember eftir Joe Brainard (og dagbækurnar hans) og einnig Je me souviens eftir George Perec … og gott ef Þórarinn Eldjárn gaf ekki einu sinni líka út bók sem hét Ég man? Það minnir mig.

Ég öfunda þig annars af því að liggja í allri þessari dönsku. Danska er svo vanmetið tungumál. Ég fyllist oft knýjandi þörf til að lesa eitthvað bitastætt á Norðurlandamálunum þegar ég hef verið of lengi í enskumælandi umhverfi (eða frönskumælandi), en vandinn er bara sá að slíkar bækur eru oftar en ekki langt utan seilingar; þó ég sé þrjóskur, þá á ég til dæmis erfitt með að teygja arminn alla leið yfir Atlantshafið. En ætla að reyna að verða mér úti um þær sem þú nefnir.

Segðu mér nú, lestu einnig vefsíður, dagblöð, tímarit? Og ef svo er, værirðu þá til í að uppljóstra um hver þau eru?

Þessa dagana hef ég einmitt haft gaman af að lesa Leslistann!

Uppáhaldsdagblaðið mitt er Københavnske Istidende, svo ég vanræki ekki dönskuna mína! Þetta er fagurbókmenntalegt dagblað sem kemur út tvisvar á ári á örforlagi Det københavnske forlag Cris & Guldmann. Það er dagblað að mínu skapi.

Ég eyði annars miklum tíma í að lesa orðabækur. Islex.is er t.d. ekki bara fögur sjón að sjá með næstum öllum norrænum tungumálum á einum stað, en líka skemmtilegur lestur með oft einstaklega fyndnum dæmum sem einnig eru fróðleg og hagnýt.

Ég mæli líka með málið.isordnet.dkordbok.uib.nosprotin.fo svo dæmi séu nefnd, en þar er mikla visku og skemmtun að finna. Af og til les ég líka Tímarit máls og menningar, The Reykjavík GrapevineStarafuglInformationVagantog Facebook. Ég er nefnilega svo heppin að eiga marga áhugaverða (Facebook)vini, svo það er þvílík ánægja að lesa Facebookfærslur þeirra daglega. Skyndibókmenntir!

Glæsilegt. Orðabækur eru auðvitað bestu bækurnar, frumuppsprettan. Ég þekki mann sem lesið hefur íslensku orðabókina sjö sinnum, nýtt eintak í hvert skipti, og hver yfirferð getur af sér nýjar undirstrikanir, nýtt spássíukrot. (Íslenska orðabókin er hans golfvöllur, undirstrikunarpenninn hans pútter.) Sami maður hefur svo lesið gamla þýsk-íslenska orðabók álíka oft, hún er öll trosnuð um kilinn og dottin í sundur — ákaflega fallegur gripur.

En mér leikur hugur á að vita, kæra Ana, hver er fyrsta minning þín af lestri? Byrjaðirðu snemma að lesa? Áttu þér minningar af fyrstu bókunum sem heilluðu þig?

Fyrsta minning mín af eigin lestri hlýtur að vera þessi — heitur sumardagur, allir krakkar úti í garði að leika sér, en ég að fela mig fyrir þeim og sólinni, liggjandi í skugganum í svefnherberginu og alveg niðursokkin í persnesk ævintýri. Ég var annars mjög félagslyndur krakki og kannski einmitt þess vegna man ég svo vel eftir þessum viðburði. Ég elskaði að lesa ævintýri svo mikið að ég skrifaði þau líka sjálf!

Annað sem ég man frá þessum tíma er að mér fannst mjög gaman að læra ljóð utan að og sérstaklega eftir eitt helstu serbnesku skáldanna, Desanku Maksimović, sem hugsanlega gæti hafa verið pínu óvenjulegt fyrir barn á mínum aldri. Bókin sem mér þótti mjög vænt um þá og sem ég las mörgum sinnum var Hajduci eftir Branislav Nušić, en ég gat hlegið á meðan ég las hana svo ég grét.

Ég man ekki hversu gömul ég var þegar ég byrjaði sjálf að lesa, það var fyrst lesið mikið fyrir mig, en ég man að það vildi svo til að ég byrjaði að læra ensku þriggja ára gömul. Það er kannski þess vegna að einir af fyrstu rithöfundum sem heilluðu mig snemma á aldri voru William Shakespeare og Edgar Allan Poe, sem ég las á þeim tíma á frummálinu þegar maður ætti að vera að lesa Harry Potter, en þær bækur náði ég aldrei að lesa. Einhverra hluta vegna get ég ennþá farið með brot úr Hamlet eða Romeo and Juliet og ljóð eftir Poe sem einfaldlega festust í minni.

Mér finnst sanngjarnt að nefna í þessu samhengi aðra höfunda sem voru meðal hinna fyrstu til að heilla mig á hverju nýju tungumáli sem ég fór að lesa á. Að lesa bókmenntir á nýju tungumáli í fyrsta skipti er svolítið eins og að lesa bókmenntir í fyrsta skipti. Henrik Ibsen og hans síðustu tólf samtímaleikrit höfðu mikið áhrif á mig. H.C. Andersen og ævintýri hans gerðu það einnig. Gæludýrin eftir Braga Ólafsson, sem var ein af fyrstu skáldsögum sem ég las á íslensku, hefur heillað mig mikið. Þar sem vindarnir hvílast — og fleiri einlæg ljóð eftir Dag Hjartarson var ein af fyrstu ljóðlistarupplifunum mínum á þessu eftirlætistungumáli mínu og hefur snert mig svo með einfaldleika sínum og einlægni (!) sinni. Sjón setti líka með skáldskap sínum mark sitt á mig snemma á íslenskuferli mínum.

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Ég les helst á íslensku, dönsku, norsku, sænsku, færeysku, ensku, (mætti vera duglegri að lesa á móðurmálinu) serbnesku. Stundum les ég innihaldslýsingar á finnsku.

Já, alltaf til dæmis gaman að lesa á sultukrukkur. En áttu þér eftirlætisbókmenntaverk eða -höfund sem þig langar að deila með fróðleiksþyrstu samfélagi Leslistans?

Það er eins og að biðja mig um að velja uppáhaldsbókstaf minn. Þó að hver og einn sé að einhverju leyti fagur í sjálfu sér og með ákveðinn lit, þá eru þeir fyrst í samspili hver við annan að búa til dásamleg orð, tungumál og litaróf!

Ráðunautur Leslistans: Þorgeir Tryggvason

4688945349_a2c03662e3_b

Þorgeir Tryggvason ætti að vera samfélagi Leslistans að góðu kunnur, bæði sem gagnrýnandi bókmennta og leiksýninga í sjónvarpi og ritmiðlum og eins sem einn liðsmanna hljómsveitarinnar Ljótu hálfvitanna. Við gómuðum Þorgeir á förnum vegi og lögðum fyrir hann nokkrar krefjandi spurningar.

Hjartanlega margblessaður og sæll, Þorgeir! Og velkominn í ráðuneyti Leslistans. Mætti ég inna þig eftir því hvaða bók/bækur þú ert að lesa þessa dagana?

Mín er ánægjan!

Ég er allajafnan með tvær bækur í gangi á hverjum tíma. Þrjár þegar Kiljan er í gangi, eða einhver önnur menningarstofnun hefur beðið mig um álit á einhverju. Önnur bókanna er alltaf á Kindlinum, og fylgir mér hvert sem ég fer. Þar er ég núna að lesa The Speakers eftir Heathcote Williams, sem fjallar um nokkrar af helstu stjörnum Speaker’s Corner í Hyde Park í byrjun sjöunda áratugarins. Mikil tíðarandabók auðvitað, og þættir af einkennilegum mönnum er ein af mínum eftirlætisbókmenntagreinum. Svo er líka mjög gaman að spegla nútímann í henni, núna þegar heimurinn er allur orðinn að slíku horni og við öll kallar á kassanum.

Ástæða þess að ég er að lesa þessa gömlu og mikið til gleymdu bók tengist hinni bókinni sem ég er með fyrir framan mig í þessum skrifuðum orðum. Heathcote Williams leikur nefnilega Prospero í mynd Dereks Jarman upp úr Ofviðri Shakespeares. Hana horfði ég á um daginn og gúggl leiddi mig til The Speakers. Ég er semsagt að klára stórt lesverkefni sem ég bjó mér til. Undanfarin tvö ár hef ég verið að lesa verk Shakespeares á frummálinu í (líklegri) tímaröð og skrifa um þau stuttar ritgerðir sem vefritið Starafugl birtir. Nú er það Henry VIII, sem er næstsíðasta leikrit skáldsins og skrifað í samvinnu við arftaka hans sem aðalskríbent Globe-leikhússins, John Fletcher. Alls ekki með betri verkum Shakespeares, en mikið er þetta nú búið að vera skemmtilegur tími í kompaníi við höfuðskáld heimsins. Já ég sagði höfuðskáld.

Lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð?

Tímarit varla, fyrir utan TMM. Dagblöðum fletti ég og les menningarumfjöllun og álitsgreinar eftir fólk sem mér þykir skrifa vel. Fréttir sæki ég nánast eingöngu í sjónvarp og á netið. Ég er ekkert rosalega víðförull í leit að „efnismeira“ lesefni á netinu, kíki reglulega á hvað New York Review of Books er með í opinni dagskrá, og það sem flýtur með af ritgerðum, bóka- og leikdómum og slíku efni í fréttamiðlunum sem ég heimsæki daglega. Reglulega dett ég svo í grúsk á timarit.is og jafnvel í landsaðgangi Landsbókasafnsins að misfurðulegum fræðitímaritum.

Það er annars merkilegt hvað ég er latur við tímaritin, þegar ritgerðasöfn í bókaformi eru meðal þess sem ég hef mest dálæti á, og ritgerðirnar nánast undantekningarlaust úr þessum sömu tímaritum og ég nenni ekki að lesa. Nýleg dæmi eru Jon Ronson, Zadie Smith, Charles Nicholl og Halldór Laxness.

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Einu sinni ofbauð mér hvað enskan var fyrirferðarmikil í lesefninu og hélt mig alfarið við íslenskuna í heilt ár. Eftir að Kindillinn kom til sögunnar er næstum ófrávíkjanleg regla að prentefnið er á íslensku en rafefnið á ensku. Nema þegar ég „verð“ að lesa eitthvað enskt sem er ófáanlegt fyrir lesbrettið. Það er allavega sæmilegt jafnvægi í dag. Ég les norrænar bókmenntir gjarnan á dönsku, en er reyndar nýbúinn að rekast á vegg þar: fann að ég myndi ekki njóta Kongens Fald eftir Johannes V. Jensen sem bókmennta með því að brjótast í gegnum hana á frummálinu og fannst ótækt að nota svona öndvegisverk eins og hverja aðra dönsku-crossfitþraut. Svo ég skipti yfir í Atla Magnússon.

Og talandi um að ofbjóða: Innra með mér blundar lítill kverúlant sem finnst skáldskapur ofmetinn á kostnað „Non-fiction“ (óþýðanleg hugtak). Þessi kverúlant hneykslast til dæmis á fólki sem notar orðið „bækur“ sem samheiti við „skáldsögur“. Einu sinni benti hann mér á að ég hafði um langa hríð lesið nánast eingöngu skáldskap og í framhaldinu ákvað ég að lesa ekkert nema fræði og sannsögur í heilt ár. Það var fínt ár. Mér finnst líka stundum gleymast hvað sumt fólk sem skrifar aðallega NF er stórkostlegir pennar. Will og Ariel Durant, Halldóra B. Björnsson, Theodór Friðriksson og Magnús Björnsson frá Syðra-Hóli eru meðal hæst skrifuðu rithöfunda hjá mér.

Hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp hlustarðu mest á?

Þegar ég er ekki að gera eitthvað annað er ég að lesa. Fyrir vikið hlusta ég nánast aldrei á útvarp nema í bíl. Það sama gildir um hlaðvörp og hljóðbækur. Ef ég reyni að hlusta á svoleiðis heima er ég fljótlega búinn að seilast í bók og farinn að heyra malið í heyrnartólunum sem truflun. Reyni samt að hlusta á Dómsdag af því að vinir mínir sem standa fyrir honum eru svo fyndnir, og nýlega bættist Dead Rock Stars hlaðvarpið á listann af því að dauðar rokkstjörnur.

Áttu þér eftirlætisbók- eða höfund?

Stephen King. Það þýðir ekki að mér þyki hann afbragð annarra höfunda. Ég held með honum eins og ég held með Arsenal, þó Henry sé löngu farinn og liðið komist ekki í meistaradeildina, og sé í eigu tveggja moldríkra skíthæla. Myndi hætta að horfa ef það félli, en halda með því sem aldrei fyrr. Eins er með King, en þess ber að geta að ég les enn allt sem hann skrifar og það eru ekki nema sjö ár síðan hann sendi frá sér topp-fimm-bók: 11.22.63.

En Shakespeare er auðvitað mestur og bestur. Leikritin sem komu mest á óvart í þessari yfirstandandi yfirferð eru Julius CaesarHenry VThe Merchant of Venice og Timon of Athens. Meistaraverkin eru öll enn í meistaradeildinni.

Hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera einn eða innan um aðra?

Fyrir nokkrum árum fékk ég brjósklos og átti mjög bágt með að sitja og vandi mig á að vinna (og lesa) standandi. Verkirnir vöktu mig gjarnan milli fjögur og fimm á morgnana. Á þessum tíma var ég að lesa Biblíuna með sömu formerkjum og Shakespeare nú: skrifa hugleiðingaritgerðir eftir hverja bók. Svo ef einhver hefði horft inn um stofugluggann hjá mér síðla nætur hefði sá séð miðaldra karl á náttslopp stika fram og til baka, niðursokkinn í heilaga ritningu. Sem er fögur sjón.

Mér finnst enn gott að lesa standandi. Sitjandi og liggjandi heilla líka. Og í baðinu. Bara alltaf þegar færi gefst. Ágætt að hafa næði, en ekki nauðsynlegt.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Ég var meiri Jansonmaður en Lindgren, en engin barnabók breytti lífi mínu eins róttækt og Gúmmí-Tarsan. Ég var semsagt settur í það á unglingsaldri að leika titilhlutverkið í leikgerð á þeirri bók hjá leikfélaginu heima á Húsavík, eiginlega gegn vilja mínum. Síðan hefur leikhúsið verið fyrirferðarmikill hluti af tilveru minni. Hinsvegar finnst mér Ottó nashyrningur betri saga. Ég verð líka að nefna Galdramanninn hennar Ursulu Le Guin. Stórkostleg bók og það var mikil gleðistund þegar ég komst að því í menntaskóla að til voru fleiri sögur um galdrastrákinn Ged og vinur minn átti þær.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Undanfarin ár hafa Síðustu dagar Sókratesar farið í alla fermingargjafapakka frá mér. Talsvert léttara aflestrar en Passíusálmarnir, mögulega hollara fóður, og líkt og kvæði Hallgríms um andóf gegn valdinu í nafni sannleikans, píslarvættisdauða og ódauðleika sálarinnar. Hef ekki fengið neinar kvartanir.

Lestu bækur öðruvísi sem gagnrýnandi en sem venjulegur, óbreyttur lesandi? Eða ætti kannski ekki að vera nokkur munur þar á?

Nú hef ég í nokkur ár skrifað gagnorðar umsagnir um allar bækur sem ég les, sett þær á Facebook og kallað „lesskýrslur“. Mögulega hefur þetta haft áhrif á hvernig ég les bækur, breytt mér sem lesanda almennt. Held samt ekki, allavega nýt ég þess í botn að lesa (flestar) bækur eins og áður, hverf inn í þær þegar best lætur. Það er svo aukakikk ef ég næ að orða það hvað mér finnst sæmilega.

Þegar ég les eitthvað og veit að fyrir mér liggur að skrifa lengra mál um það þá punkta ég hjá mér hugleiðingar jafnóðum, Jafnvel minnispunkta um eftir hverju ég vill horfa í lestrinum. En mér finnst ég betri í að miðla upplifun en að setja fram greiningu, svo sennilega eru lestrarhesturinn og gagnrýnandinn að mestu samferða í mér.

Stærsti munurinn er kannski sá að gagnrýnandinn ég ræður ekki hvað hann les. Sem er frábært. Mér finnst alger snilld að smekkvíst fólk setji mér fyrir. Eins og að hafa bókmenntalegan markþjálfa.

Er einhver bók sem þú skammast þín fyrir að hafa ekki lesið?

Skömm er stórt orð, en vissulega er ég meðvitaður um skörðin í mínum innri bókaskáp, og hvað þau eru mörg og stór og ljót. Stundum reyni ég að fylla í þau meðvitað, jafnvel kerfisbundið, eins og þegar ég einsetti mér að lesa eitthvað eftir öll sem fengið hafa Nóbelinn síðan ég fæddist. Svo hafði ég um tíma augun á 200 efstu sætunum á „Kanónunni“ sem var tekin saman fyrir Kiljuna fyrir nokkrum árum. Þar er orðið frekar fátt um eyður hjá mér. Þó á ég eftir að lesa Ævisögu Árna Þórarinssonar eftir Þórberg, og hef reyndar lýst því yfir að hana ætli ég aldrei að lesa, þverhausinn sem ég er. Skammast mín ekkert.

Finnst þér þú þurfa að klára bækur?

Stutta svarið: Já. Langa svarið: Já, því miður. Mikið hefði nú verið gott að leggja sumar langlokur frá sér þegar ljóst var á blaðsíðu 50 (eða 5) að þetta væri hreinræktuð tímasóun eða sálardrepandi leiðindi. En nei, það er mér lífsins ómögulegt.

Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

The Two Noble Kinsmen er hinn kvíðvænlegi lokapunktur Shakespearelestursins. Á Kindlinum verður það How to live? — bók Söruh Bakewell um Montaigne. Sem er auðvitað bein afleiðing af þessu Shakespearegrúski öllu. Annars hefur Sarah þessi skrifað stórfína bók um sjálfan Jörund hundadagakonung sem er til á íslensku og allir ættu að lesa. Þvílíkt lífshlaup! Það má auðvitað halda því fram að valdatími hans á Íslandi sé hápunktur þess, en það er nú bara með herkjum.

Svo er Egill niðri í vélarrúmi að ræsa Kiljuna. Hvað það verður veit nú enginn …

Ráðunautur Leslistans: Bragi Ólafsson

bragiólafssonmyndmeðtrjám

Bragi Ólafsson hefur sent frá sér margar bækur — ljóð, smásögur, skáldsögur — og heldur úti bloggsíðu sem var að vakna úr dvala. En bækur hans og bloggsíða verða ekki hér til umfjöllunar (nema kannski óbeint) því Leslistanum lék hugur á að vita hvort Bragi léti ekki við það sitja að skrifa eigin bækur heldur læsi einnig verk annarra höfunda.

Sverrir Norland: Sæll og blessaður, Bragi, og hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans! Þú þarft ekki að fara úr skónum, en strýkur kannski af þeim á dyramottunni. Mér datt svo í hug að þér myndi líka vel sætið þarna í miðjunni, þar er skugg- og hljóðsælt og enginn trekkur. Ef þú vilt meira kaffi — eða te eða límónaði, jafnvel bjór — þá lyftirðu bara upp litla fingri. En hvernig er það, lestu einnig bækur?

Bragi Ólafsson: Einnig? Ég les fleiri bækur en ég skrifa. Um leið og ég segi það geri ég mér grein fyrir að ég hef aldrei lesið mínar eigin bækur á sama hátt og bækur eftir aðra. Nema hugsanlega þegar ég tók saman safn af eigin smásögum fyrir tveimur árum. Þá reyndi ég að lesa sögurnar eins og ég hefði ekki hugmynd um hver skrifaði þær.

Og tókst það?

Nei.

Jæja. Ef það er þér einhver huggun, þá tókst mér það hins vegar– það er að lesa umrætt smásagnaúrval þitt eins og ég hefði ekki skrifað það. En hvaða bók/bækur ertu helst að lesa þessa dagana?

Samhliða öðrum er ég að lesa bók sem kallast Holy S*it, eftir bókmenntafræðing sem heitir Melissa Mohr. Þetta er einstaklega upplífgandi og fræðandi bók um sögu blótsyrða, bölvs og formælinga, aðallega í enskri tungu og latínu, allt frá Rómarveldi til okkar daga, með viðkomu í Biblíunni, Shakespeare og James Joyce. Líklega er þetta dónalegasta bók sem ég hef lesið. Meðal hinna bókanna sem liggja við hliðina á Holy S*it (eða undir henni í bunkanum) eru The Way Home, safn prósa eftir Oulipo-höfundinn Harry Matthews; Dauði harmleiksins eftir George Steiner; Journey to the End of the Night eftir Louis-Ferdinand Céline (sem hefur dregist allt of lengi að lesa); tvær bækur um Luis Buñuel (minningar Jeanne Rucar, eiginkonu Buñuels; og ritgerðir eftir Victor Fuentes, Frá súrrealisma til terrorisma). Undanfarna mánuði og ár hef ég lesið talsvert af bókum um ákveðið tímabil í sögu popptónlistar, í tengslum við skáldsöguna sem ég er að skrifa. Það er freistandi að segja aðeins frá því, hvaða tímabil þetta er, og hverjir koma þar helst við sögu, en mér finnst ég verða að eiga það inni. Ég verð samt að geta einnar bókar úr þessum bunka, því hún er alveg sérstaklega skemmtileg og fræðandi: Future Days eftir David Stubbs. Svo er ég að lesa aftur The Driver´s Seat eftir Muriel Spark (Muriel er í miklu uppáhaldi), og tvær ævisögur liggja á náttborðinu: Beautiful Shadow, um Patriciu Highsmith, og Room to Dream, sem David Lynch skrifaði um sjálfan sig ásamt Kristine McKenna. Titillinn á bókinni um Patriciu Highsmith er ansi vel til fundinn. Ég var að horfa á í fyrrakvöld myndina sem var gerð eftir fyrstu bók Highsmith um Tom Ripley, Plein soleil — virkilega fín mynd — og þá kom sér vel að vera með ævisögu hennar á náttborðinu. Í henni er til dæmis fjallað um áhrif Oscars Wilde og J. K. Huysmans á Patriciu Highsmith, nokkuð sem mér hefði ekki dottið í hug að væri raunin, en liggur líklega ljóst fyrir þegar manni er sagt það. Það gleður mig alltaf mjög mikið þegar hinn stórkostlegi höfundur Huysmans er nefndur í samhengi við nútímabókmenntir. Það gerðist til dæmis með eftirminnilegum hætti í síðustu bók Michels Houellebecq, Undirgefni. En svo má ekki gleyma því að nefna nýjustu bók Magnúsar Sigurðssonar, Tregahandbókina, sem kom út fyrr á árinu; hún hefur verið uppi á borðum síðan hún kom út — ótrúlega fín bók, örugglega bók ársins, eins og Hermann Stefánsson vill meina. En auðvitað er árið ekki liðið. Kannski kemur út einhver önnur bók sem Hermann, eða bara einhver annar, vill meina að sé bók ársins. Fyrr á árinu las ég til dæmis bók sem í mínum huga var bók ársins, á meðan ég las hana, þótt hún hefði komið út fyrir einu eða tveimur árum. Solar Bones, eftir Írann Mike McCormack. Það virkar oft ekki vel þegar bókum er líkt við eitthvað annað en þær eru, en þessi bók, Solar Bones, er í mínum huga ein af mjög fáum skáldsögum sem standa undir því að vera kallaðar prósaljóð.

Lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð? Ekki hika við að senda okkur ábendingar!

Jafnvel dagblöð? Ég les öll dagblöð sem ég kemst í. Að minnsta kosti fletti ég þeim. Sé ég staddur í lest eða rútu, og einhver hefur skilið eftir dagblað í auðu sæti, þá er það dagblað lesefni mitt næstu mínúturnar. Á sama hátt, ef boðið er upp á dagblað í móttöku hótels, þá er ég náunginn sem fer með það upp á herbergi. Eina blaðið sem ég er áskrifandi að, fyrir utan Stundina, er Times Literary Supplement. Svo les ég Grapevine þegar það verður á vegi mínum. Og nú þegar ég hef nýlega hitt og talað við ritstjóra Bændablaðsins, þá liggur beint við að ég grípi það blað með mér næst þegar ég fer í kjörbúðina. Ég fletti mikið upp á bókmenntatímaritum á netinu, og alls konar tónlistarumfjöllun, en gleymi jafnóðum hvað þeir miðlar heita. Hér er eitt sem ég kíki stundum á. Og annað. Svo auðvitað Guardian-vefurinn, New York Times, El País og önnur dagblöð.

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Á ensku, íslensku og spænsku. Aðeins í frönsku, ef ég þarf. Ég lærði heilmikla frönsku, en asnaðist ekki til að halda henni almennilega við (sem er eiginlega það sem ég sé mest eftir í lífinu, fyrir utan að hafa ekki lært rússnesku). Ég nota orðabækur fyrir öll tungumálin.

Hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp — ef nokkur — hlustarðu mest á?

Eini útvarpsþátturinn sem ég hlusta reglulega á er Morgunútvarp Ríkisútvarpsins. Ég nota líka hlaðvarp Ríkisútvarpsins. Og hlusta á BBC (ríkisútvarp Breta) þegar ég keyri bíl.

Áttu þér eftirlætisbók- eða höfund?

Það er svo tilviljunarkennt hvað manni finnst hverju sinni, hvaða bók eða höfundur kemur upp í hugann. Ég myndi til dæmis vilja nefna Samvisku Zenos eftir Italo Svevo, þá dásamlegu bók, Raunir Gilberts Pinfold eftir Evelyn Waugh, Pedro Páramo eftir Juan Rulfo, Steintré eða Suðurglugganneftir Gyrði Elíasson; en ég held að sú bók sem kemur oftast upp í hugann sé Skógarhögg eftir Thomas Bernhard (Holzfällen á frummálinu, Woodcuttersá ensku). Fyrir utan að vera einhver fyndnasta skáldsaga sem ég hef lesið, þá er sjónarhorn og frásögn höfundarins með þeim hætti að mér finnst ég sjálfur nánast daglega sitja í þeim sama stól og hann gerir á meðan hann segir söguna, hinum svokallaða eyrnaslapastól, og horfa þaðan á heiminn með sömu augum og Thomas Bernhard. Hver bók þessa höfundar líkt og inniheldur allar hinar eftir hann, og þannig má ef til vill segja að allt hans verk, jafnvel æviminningar hans, sé ein bók.

Sú bók eftir Thomas Bernhard sem situr sterkast í mér — og mér fannst raunar allólík hinum — er sjálfsævisagan hans, sem ég las á ensku undir titlinum Gathering Evidence í eyðimörk í Texas (sem gerði upplifunina ennþá þungbærari). Það fannst mér alveg mögnuð bók — reiðin, endurtekningarnar, illskan, hörmungarnar sem hann upplifði og svo síðast en ekki síst misheppnaði gamli rithöfundurinn með teppið á herðunum (afi hans), allt ógleymanlegt. Ég vona að ég þurfi aldrei að lesa þessa bók aftur; ég kæmist ekki lifandi frá því. En hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera einn eða innan um aðra? Hefurðu sofnað yfir bók í freyðibaði eða öðrum viðlíka lífshættulegum aðstæðum? Hvenær sólarhringsins er best að lesa? Í hvers kyns hugarástandi? Úthvíldur eða lúinn? Saddur eða svangur? (Þú þarft alls ekki að svara öllum spurningunum.)

Allt jafn gott: sitjandi, liggjandi og standandi. Hvar sem er, þannig lagað. En helst ekki innan um aðra, ef „aðrir“ eru að tala, og sérstaklega ekki ef þeir eru að lesa yfir öxlina á mér. Ég hef mjög oft sofnað yfir bók, en ekki í freyðibaði. Að sofna yfir, eða inn í bók, er eflaust eitt af því besta sem maður gerir í lífinu, trúi maður því að bókin fari með manni inn í svefninn — hin góða bók, það er að segja. En það er ábyggilega ekki rétt.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Litlu fiskarnir (nú man ég ekki nafnið á höfundinum — Erik eitthvað); og Jakob ærlegur eftir Frederick Marryat. Svo myndi ég nefna Sigurð Fáfnisbana, bókina sem var búin til upp úr þýsku bíómyndinni, og Prins Valiant-bækurnar, sem ég keypti flestar í Bókinni við Skólavörðustíg. En áhrif þeirra bóka hafa eflaust dvínað allverulega frá því ég las þær fyrst. Enda er ekkert fjallað um sjálfsíkviknun í Sigurði Fáfnisbana og Prins Valiant, eins og gert er í Jakobi ærlegum. (Ég skil reyndar ekki af hverju er ekki meira fjallað um sjálfsíkviknum í skáldskap yfirhöfuð, og hvers vegna ég er ekki sjálfur búinn að því. Þetta hefur kannski verið afgreitt endanlega í Jakobi ærlegum.) Áhrif Sígildu sagna-blaðanna (Hamlets, Moby Dick, Stikilsberja-Finns, osfrv.) hafa án efa verið talsverð líka. En svo er alltaf spurning hvenær æsku manns lýkur — ég treysti mér ekki til að nefna þær bækur sem gætu legið á þeim mörkum. Annars þyrfti ég helst að fara niður í geymslu til að rifja upp allt þetta. (Ég fer niður í geymslu, og kem upp aftur.) Ég finn ekki bækurnar. Sem er skrítið, því ég veit að þær eru í geymslunni. Mig langaði einmitt svo mikið til að rifja upp fyrstu setninguna í Litlu fiskunum, sem er eitthvað á þá leið að þegar óhreint vatn er soðið, þá myndast hroði á yfirborðinu. Sagan gerist í fátækrahverfi á Ítalíu.

Kannski bækurnar séu orðnar feimnar og mannfælnar eftir langa búsetu í geymslunni (þær földu sig fyrir þér). Vildirðu stundum óska þess að manneskjur væru eins og bækur: hægt að opna þær eftir vild og hentisemi og svo loka þeim aftur þegar þær byrja að fara í taugarnar á manni?

Ég hef ekki ímyndunarafl til að svara svona flókinni spurningu. Það fyrsta sem kemur upp í hugann eru textalínur eftir David Bowie; og þegar ég rýni aðeins í þær (sem ég hafði hingað til bara hlustað á, ekki lesið) finnst mér eins og svarið við spurningunni sé falið í þessum línum: I can see you as a corpse / hanging from a beam / I can read you like a book / I can feel you falling / I hear you moaning in your room.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Þær bækur sem ég vildi hafa gefið sem flestum (en hef ekki gert ennþá) eru Skógarhögg eftir Thomas Bernhard, og Lævirkinn (á ensku Skylark) eftir ungverska höfundinn Dezsö Kosztolányi. Sú bók er einhver fallegasta — og furðulegasta — lýsing á sambandi foreldra og barns sem ég hef lesið. En líklega hef ég oftast gefið fólki hinar og þessar útgáfur af leikritum Harolds PinterHvernig ég kynntist fiskunum eftir Ota Pavel, í þýðingu Gyrðis Elíassonar, er bók sem ég hef gefið og mælt með. Og Steinsteypa eftir Thomas Bernhard, í þýðingu Hjálmars Sveinssonar. Og líka íslenskar þýðingar á smásögum Gogols. Annars vildi ég að smásagan Fíllinn eftir hinn pólska Slawomir Mrozek væri til í íslenskri bók, þá myndi ég gefa þá bók í afmælisgjafir.

Telurðu að mannkynið lifi nú afar blómlegt menningarskeið eða ríkir lægð, mikil lægð, í vitsmunalífi tegundarinnar? Er þetta þreytandi spurning?

Sjálf spurningin er ekki þreytandi. Ég verð samt óskaplega þreyttur þegar ég reyni að svara henni. Kannski vegna þess að maður þarf að vera ansi gamall til að hafa þá yfirsýn sem svarið við henni krefst.

Finnst þér þú þurfa að klára bækur?

Nei. Því ef ég segði já, þá væri ég líklega hættur að láta mér detta í hug að byrja á bók. Um daginn las ég tvo þriðju úr nýrri Pulitzerverðlaunaskáldsögu, Less eftir Bandaríkjamanninn Andrew Sean Greer. Yfirleitt finnst mér ótækt að leggja frá mér bók þegar ég er kominn svo langt, en líklega hafði Pulitzerstimpillinn á kápunni þau áhrif að ég leyfði mér að segja þetta gott. Enski rithöfundurinn Tim Parks, sem hefur skrifað mikið um bækur annarra, segir að því fleiri vondar bækur sem maður les, þeim mun færri verði góðu bækurnar sem maður byrjar á. Í sömu grein segir hann frá bréfi sem hann fékk frá öðrum rithöfundi, sem hafði verið að lesa eina af bókum Tims, þá lengstu þeirra, og langaði til að tjá ánægju sína með bókina. Tim var skiljanlega upp með sér yfir að fá hrós, og var um það bil að fara að „stinga þessari fjöður í hattinn sinn“, eins og hann orðar það, þegar hann las niðurlag bréfsins, en þar segir bréfritarinn frá því að hann hafi ekki lokið við bókina; hann hafi hætt þegar hann átti 50 blaðsíður eftir; honum hafi fundist bókin vera búin þá. Tim játar að hafa látið þetta angra sig, og fyllst efasemdum — hefði hann átt að hafa bókina 50 blaðsíðum styttri? — en eftir svolitla umhugsun ákvað hann að taka gott og gilt það sem bréfritarinn sagði honum, að hann hefði verið hæstánægður þegar 50 blaðsíður voru eftir af bókinni; honum fannst hann bara ekki þurfa að lesa meira. Mér finnst þetta mjög umhugsunarvert. Og fyrst ég nefndi áðan verðlaunabækur, þá las ég rúmlega helming af bók George Saunders, Lincoln in the Bardo, sem fékk Bookerverðlaunin, áður en ég skilaði henni aftur á safnið. Þetta er algerlega frábær texti, mjög sterkt andrúmsloft; en eins og pennavini Tim Parks, þá fannst mér ég hafa fengið nóg. Bókin lifir mjög sterkt í mér, þótt ég hafi ekki klárað hana.

Ég las einnig þessa grein eftir Tim Parks! Gott ef hún birtist ekki upprunalega í The New York Review of Books og síðar í ritgerðasafni eftir hann? En segðu mér, Bragi, hvers konar bók langar þig að skrifa næst?

Ég veit hvaða bók ég er að skrifa í augnablikinu. Og um leið og segi það, þá geri ég mér grein fyrir að ég hef kannski ekki hugmynd um hvernig bók þetta er. Hún hefur að minnsta kosti reynst mér svolítið erfið, mögulega vegna þess að hún er á ákveðinn hátt sjálfsævisöguleg — á ská. Á sama hátt og maður þarf reglulega að hvíla sig á sjálfum sér hef ég þurft að leggja þetta handrit frá mér oftar en einu sinni, og byrja á öðrum verkefnum. Og þau verkefni halda lífi í þessari bók sem ég var að tala um. En eins og ég sagði frá áðan hef ég verið að lesa svolítið af bókum um popptónlist í tengslum við þetta handrit. Líka bækur um blaðamennsku, sósíalisma og sovéskan geimfara.

Það líst mér vel á. Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

Um daginn sagði ég vini mínum (í tölvupósti) að ég væri að gíra mig upp í að lesa allan Proust, meðal annars með því að lesa bækur um Proust og bókina hans, t.d. eina virkilega skemmtilega og fræðandi, eftir mann að nafni Patrick Alexander. Ég mæli sérstaklega með þeirri bók; hún beinir athyglinni ekki síst að húmornum í texta Prousts. En um leið og ég hafði sent póstinn til vinar míns mundi ég eftir að hafa sagt þetta við hann áður, fyrir tveimur eða þremur árum, einmitt í tölvupósti, að ég ætlaði mér að fara í gegnum allan Proust. Þannig að. En þetta er samt á dagskrá. Ég finn að það byggir mann upp að hafa dagskrá, jafnvel þótt það geti dregið mann niður að ná ekki að fara eftir henni að fullu. Annars býst ég við að næsta bók sem ég les verði ævisaga Johns Kennedy Toole, höfundar hinnar stórkostlegu bókar A Confederacy of Dunces. Ævisagan heitir Butterflies in the Typewriter, ég er að bíða eftir henni í póstinum. Og talandi um póstinn. Eða Póstinn öllu heldur (með stóru P-i, hinn einkarekna, áður ríkisfyrirtækið). Fyrir nokkrum vikum pantaði ég mér geisladisk frá Englandi. Hann kostaði eitthvað á bilinu 4 til 5 pund. En þegar geisladiskurinn kom til landsins sendu þeir á Póstinum mér tölvupóst þess efnis að ég þyrfti að útvega þeim reikning fyrir sendingunni. Sem ég gerði. Nokkrum dögum síðar kom annar póstur frá þeim: Gæti ég sent þeim reikning fyrir sendingunni? Ég gerði það — aftur — og benti þeim á í leiðinni að þeir mættu opna pakkann, til að sjá á meðfylgjandi reikningi hvað þetta kostaði allt saman. (Kannski ástæða til að nefna að sendingarkostnaðurinn sem bættist við verð bókarinnar var innan við tvö pund.) Þegar þriðja beiðnin um reikning vegna sendingarinnar barst mér í tölvupósti ákvað ég að láta svolitla orðsendingu fylgja reikningnum. Ég sagði þeim á Póstinum að ef þetta dygði ekki til að sendingin yrði afgreidd, þá mættu þeir eiga geisladiskinn. Og enn hef ég ekki fengið hann í hendurnar. Ég hef ekki hugmynd um hvar hann er niðurkominn núna, hvort hann var sendur aftur til Englands, eða hvort þeir á Póstinum hefðu þegið boð mitt um að nota diskinn sjálfir. Ég er aftur á móti nokkuð viss um að þessi stirðu viðskipti mín við Póstinn hafi haft áhrif á það sem ég ímynda mér að hafi gerst fyrir næstu sendingu sem mér barst frá Englandi, bók sem ég pantaði mér sérstaklega sem afmælisgjöf. Ég fékk nefnilega tilkynningu um að ná í þann pakka á pósthúsið — engin beiðni um reikning að þessu sinni — en þegar ég fékk pakkann í hendurnar reyndist hann vera gegnblautur, og bókin ónýt. Það er stundum sagt að maður viti ekki hvað maður eigi að segja eða hugsa, ekki síst þegar maður hneykslast á einhverju, eða veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið; en ég veit nákvæmlega hvað ég hugsaði þegar ég opnaði pakkann með blautu bókinni. Nú verð ég bara að vona að Fiðrildabókin skili sér óblaut.

Ráðunautur Leslistans: Alexander Dan Vilhjálmsson

DSC_6134_bw.jpg

Alexander Dan Vilhjálmsson, einn efnilegasti furðusagnahöfundur landsins, sendi árið 2014 frá sér skáldsöguna Hrímland, og hyggur áenska útgáfu verksins á næstunni. Skáldsagan Vættir er einnig væntanleg frá forlaginu Benedikt nú í haust. Leslistinn hitti Alexander fyrir í dimmu húsasundi síðla nætur og tók hann í létt spjall.

Sverrir Norland: Hæ, Alexander! Gott að fá þig í ráðuneyti Leslistans. Hvaða bók/bækur ertu helst að lesa þessa dagana?

Alexander Dan Vilhjálmsson: Ég er eiginlega út um allt í lestri þessa dagana, með allt of mikið af bókum í startholunum eins og er. Svona er lestrarmynstrið hjá mér, virðist vera, þar sem ég er að grúska í einhverjum fimm bókum í einu með enn fleiri á biðlista. Þegar ég klára eina þá bætist önnur við. Gallinn er að núna undanfarið hefur verið of mikið að gera — eða kannski frekar að ég tími ekki að gefa mér leyfi til þess að lesa almennilega — og þá klára ég ekki neitt því ég er með einhverjar sjö bækur í gangi. Það er frekar glatað, en bráðum kemur betri tíð með bók í haga. Eða eitthvað svoleiðis.

The Black Tides of Heaven eftir JY Yang er helmingurinn af nóvellupari sem kom nýlega út samtímis. Tvíburi bókarinnar heitir The Red Threads of Fortune, en bækurnar fjalla einmitt um tvíburapar. Söguheimurinn sem Yang býr til er ótrúlega heillandi. Menningarlegu áhrifin sem hán sækir í eru greinilega asísk, en heimurinn er samt algjörlega sitt eigið element. Galdrar spila sterklega inn í frásögnina, sem heillar mig næstum undantekningarlaust. Það er eitthvað við sögu galdramannsins sem mér finnst ómótstæðilegt. Svo á líka að vera fullt af stórkostlegum furðusagnaelementum í sögunum. Ég segi sem minnst um það, tékkið bara á þessu! Þriðja nóvellan í Tensorate-bókaflokknum heitir The Descent of Monsters og er væntanleg í lok júlímánaðar. Ég er næstum búinn með Black Tides og er mjög spenntur fyrir restinni.

Mér fannst athyglisvert hvernig þau gáfu út tvær nóvellur samtímis sem eru sjálfstæðar, en tengjast þó. Það á víst ekki að skipta neinu máli á hvorri nóvellunni þú byrjar. Lesandinn fær leyfi til að ráða því hvernig hann kynnist söguheiminum. Kannski er allt önnur upplifun að lesa aðra bókina á eftir hinni, þegar skilningur manns á söguheiminum er öðruvísi. Tveir lesendur sem byrjuðu á sitthvorri bókinni áður en þeir lásu næstu gætu lagt mjög ólíka meiningu í persónur og atburði. Svoldið eins og áhorfendur sjá Svarthöfða allt öðrum augum ef þeir hafa séð Episode I-III áður en horft er á upprunalega þríleikinn.

Margt í fantasíugeiranum gengur út á það að byggja upp stóra söguheima í þríleikum og stærri sagnabálkum, lesendur þekkja vel biðina eftir nýjum bókum í Harry Potter eða Song of Ice and Fire (Game of Thrones). Mér finnst eitthvað brilljant við að skrifa styttri bækur sem koma út samtímis, eða með stuttu millibili. Jeff VanderMeer gaf til dæmis út Area X-þríleikinn sinn yfir nokkurra mánaða tímabil, ef ég man rétt komu bækurnar allar út sama árið. Lesendurnir fengu þetta upp í hendurnar með mjög litlum biðtíma, miðað við hvernig útgáfuheimurinn starfar. Þegar fólk er vant margra ára bið þá getur þetta verið eins og ferskur andvari.

Ég er nýbyrjaður á Sisyphean eftir Dempow Torishima og finn samstundis að þetta er bók sem mun þurfa nokkrar tilraunir til að detta almennilega inn í. Það er sjaldan sem maður les eitthvað sem manni finnst virkilega stórfurðulegt og næstum óskiljandi. Ég sem lesandi er stöðugt að leita eftir þessu elementi, ég vil lesa furðusögu og átta mig hægt og rólega á undarlegri heimsmyndinni. Það er óþolandi þegar maður er símataður á upplýsingum og er ekki treyst fyrir því að púsla hlutunum saman. Sisyphean málar súrrealíska framtíðarsýn þar sem mennskan er seigfljótandi hugtak og líftækni hefur gjörbreytt líkamanum í framandi, næstum óskiljanlegt fyrirbæri. Bókin átti víst að heita næstum óþýðanleg, sökum þess hversu listilega Torishima notaði japönskuna og lék sér með einstök element í tungumálinu. Mikið hefur víst glatast í þýðingunni, en það sem stendur eftir er engu að síður kynngimagnað.

Þegar Eyland eftir Sigríði Hagalín kom út varð ég samstundis gjörsamlega heillaður af þessu konsepti. Hversu oft hefur maður ekki leitt hugann að því hvernig verði að búa á einangruðu Íslandi? Það er ekki fyrr en nú sem ég er loksins að komast í lesturinn.

Kláraði nýlega The Poppy War eftir R.F. Kuang og The Traitor Baru Cormorant eftir Seth Dickinson. Báðar bækurnar eru mjög pólitískar og fjalla um stríð á sinn eigin máta. Baru er hörkuflétta þrungin spennu og pólitík, en The Poppy War fjallar um hrylling styrjaldarinnar. Sú bók fær skýran innblástur frá Kína og ópíumstríðunum og fléttar inn í það stríðinu gegn Japan í seinni heimsstyrjöldinni. Hún er mjög átakanleg eftir að stríðið hefst, þar sem hliðstæða Nanjing-fjöldamorðanna á sér stað í sögunni. Báðar bækurnar eru fyrstar í sínum bókaflokkum og ég mæli með að lesendur í leit að ferskum furðusögum kíki á þessar bækur.

Takk fyrir aldeilis yfirgripsmikið og gott svar! En lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð? Ekki hika við að senda okkur ábendingar!

Tor.com er ómissandi fyrir alla sem hafa áhuga á furðusögum í sem allra víðasta skilningi. Þau birta mjög skemmtilegar greinar um bókmenntir, sjónvarpsþætti og kvikmyndir, ásamt því að birta reglulega úrvalssmásögur eftir frábæra höfunda. Myndskreytingarnar sem fylgja með þeim eru einnig í hæsta gæðaflokki. Tor er bandarískur útgáfurisi og notar vefsíðuna til að birta smásögur og annað efni, en nýlega byrjuðu þau einmitt á nóvelluútgáfu, á t.d. Tensorate-flokknum eftir JY Yang.

Weird Fiction Review er vefsíða rekin af Jeff og Ann VanderMeer. Ann er fyrsti furðusagnaritstjórinn sem vakti athygli mína og að mínu mati ein af þeim allra bestu í geiranum. Sögurnar sem hún fær inn (hægt t.d. að fletta henni upp á Tor.com) eru undantekningarlaust stórgóðar. Ég byrjaði að fylgjast með henni þegar hún var ritstjóri Weird Tales, enduruppvakinni útgáfu klassíska pölptímaritsins frá því fyrir seinni heimsstyrjöld. Hún stýrði blaðinu listilega og varð mér mikill innblástur þegar ég gaf út tímaritið FurðusögurWFR birtir greinar og smásögur tengdar furðusögum — allt frá Kafka yfir í Lovecraft yfir í Murakami og þar fram eftir götunum.

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Ég les á íslensku og ensku, en töluvert meira á ensku á heildina litið. Mér finnst samt betra að lesa á íslensku.

Hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp hlustarðu mest á?

Welcome to Night Vale var örugglega fyrsti hlaðvarpsþátturinn sem virkilega náði mér. Þátturinn er settur upp sem útvarpsþáttur í ímynduðum bæ sem heitir Night Vale, þar sem hið undarlega ræður ríkjum á alla vegu. Viku eftir viku fylgjumst við með bænum breytast þegar undarlegir atburðir setja svip sinn á landslagið og fólkið.

Oft er gott að hlusta bara á fólk tala og grínast (Night Vale er meira í átt að hljóðbók á köflum) og þá hlusta ég oft á My Brother, My Brother, And Me, þar sem þrír bræður svara spurningum frá hlustendum og nafnlausum aðilum á spurningaþjónustu Yahoo. Þessir bræður eru líka með þátt sem heitir The Adventure Zone, þar sem þeir spila spunaspil ásamt föður sínum. Spunaspil eru fyrir mér tæki sem fullorðið fólk notar til að leika sér að því að segja sögu í sameiningu og það er mjög gaman að fylgjast með því. Ég mæli með að allir forvitnir um spunaspil prófi að spila það eða hlusta á svona þátt.

Í ljósi sögunnar stendur alltaf fyrir sínu. Yfirleitt vel ég þátt af handahófi og hef aldrei verið svikinn enn sem komið er. Gandreiðin er svo nýr íslenskur hlaðvarpsþáttur sem fókusar á furðusögur í víðtækum skilningi. Ég njósnaði um daginn hvað þau eru að bralla og gott efni er í vændum. Ég er líka að hlusta aftur á Shit Town, eða S-town, sem er örugglega einn vandaðasti hlaðvarpsþáttur sem ég hef hlustað á.

Áttu þér eftirlætisbók- eða höfund?

Mér finnst þetta vera svona spurning sem fólk vill ekki eiga pottþétt svar við. Er ekki frekar óspennandi að geta sagt hiklaust hver er í algjöru uppáhaldi hjá þér?

Jú, það er svolítið hættulegt að eiga sér uppáhalds-hitt eða þetta, þá er hætt við stöðnun.

Þegar ég byrjaði að lesa furðusögur af krafti á unglingsárunum þá breyttist öll sýn mín á geirann við að lesa eina bók. Ég keypti hana í Nexus af einhverri rælni, ég hafði aldrei heyrt áður um höfundinn eða bókina. Perdido Street Station eftir China Miéville er kannski ekki alltaf uppáhaldsbókin mín, eða besta bók sem ég hef lesið, en hún hafði djúpstæð áhrif á mig. Það tók mig dálítinn tíma að taka þessa bók niður af stallinum sem ég reisti henni eftir fyrsta lesturinn. Það var eitthvað sem ég gerði mjög meðvitað. Mér fannst óskynsamlegt, sem rithöfundi, að ætla að halda einni bók svona á lofti. Ég set hana ekki á háan stall í dag, en hún sýndi mér algjörlega nýja hlið á furðusögunni og færði lestraráhuga minn yfir á nýja braut.

Manazuru eftir Hiromi Kawakami er líka í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Á meðan ég var að skrifa Vætti hellti ég mér í lestur á japönskum bókum. Kawakami er stórkostlegur höfundur og finnst mér Manazuru algjörlega magnað verk. Angurvært og hugljúft og biturt, undiraldan í textanum samtímis sterk og næstum ógreinanleg. Þetta er ótrúleg bók.

Uppáhaldshöfundurinn minn er á sífelldu reiki. Tove Jansson finnst mér þó bera af. Hún var ótrúlegur rithöfundur. Múmínskáldsögurnar eru með bestu bókum sem ég hef lesið.

Tove Jansson! Þar er ég þér sammála. En hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera einn eða innan um aðra?

Það truflar mig mjög lítið að hafa annað fólk eða læti í kringum mig þegar ég er að lesa. Mér reynist mjög auðvelt að detta í bók og gleyma mér. Áður en ég fer í ferðalag nýt ég þess að plana lesturinn fyrir ferðina á áfangastað. Mér finnst allra best að lesa í lest. Það er svo fyrirhafnarlaust að stíga um borð og síðan horfa á landslagið líða hjá. Best þótti mér að lesa í margra tíma lestarferðalagi í Japan. Fyrst fór ég með Shinkansen-hraðlest frá Tokyo til Hokkaido, nyrstu eyjunnar. Þaðan tók við önnur lest sem fór til borgarinnar Sapporo, en þessir tveir ferðaleggir tóku sirka jafn langan tíma þó kílómetramunurinn væri töluverður. Á vissum tímapunkti á Hokkaido fylgdu lestarteinarnir ströndinni eftir um stund. Stundum langar mig að fara þangað aftur, bara til að geta farið með lestinni norður og lesið á leiðinni.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Ég las mjög mikið sem barn, Narnía var lengi í uppáhaldi áður en Harry Potter kom út. Ég hugsa að fyrsta bókin sé sú bók sem ég hef lesið oftast. Gyllti Áttavitinn eftir Philip Pullman var hinsvegar það sem virkilega kitlaði mig. Heimurinn sem þar birtist var keimlíkur okkar eigin, en samt svo frábrugðinn. Þetta var ekki hulinn heimur eins og í Harry Potter og Narníu, heldur var hið undarlega og furðulega fyrir opnum dyrum. Veröldin sem þarna birtist var flókin og raunveruleg og göldrum gædd.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Ætli það sé ekki Perdido Street Station, ef fólk hefur áhuga á furðusögum. En núna mæli ég með að allir lesi Manazuru eftir Kawakami.

Finnst þér þú þurfa að klára bækur?

Oftast langar mig til þess, mér finnst ég sjaldan lenda á bók sem mér finnst ekki þess virði að klára. En svo er staðreyndin sú að oft verða bækur bara útundan. Stundum er það því ég þarf að skila þeim á bókasafnið, en yfirleitt bara því hún náði mér ekki alveg. Mér finnst það allt í lagi. Erfiðara finnst mér að ákveða að lesa ekki t.d. hinar tvær bækurnar í þríleik, ef maður lauk við fyrstu bókina. Svona þríleikir eru oft settir upp sem eitt heildstætt verk. Hefur maður virkilega lokið við söguna ef maður les bara eina bók? Þetta er bölvun furðusagnalesandans.

Hvers konar bók langar þig að skrifa næst? Og hvernig er að skrifa til skiptis á ensku og íslensku? Er það ruglingslegt eða stækkar það jafnvel ímyndunaraflið?

Ég er með hugmynd að bók sem ég ætla að fara í eftir að Hrímlandsbók tvö fer í ritstýringu. Ég hugsa að hún standi bara ein og sér. Sú saga fjallar um stúlku sem bindur drauginn af ægilegum dreka við sig með forneskju. Sjáum til hvenær ég hef tíma til að fara í það. Næsta bók sem ég mun hinsvegar skrifa er framhaldið af Hrímlandi.

Þegar ég þýddi Hrímland var ég að skrifa Vætti á íslensku fyrir hádegi og þýða yfir á ensku eftir hádegi. Það reyndist mér mjög vel. Þetta er mjög mismunandi vinna, þar sem ég lét alveg eiga sig að endurskrifa handritið að Hrímlandi á meðan ég þýddi. En núna þegar ég er að ritstýra báðum bókum samtímis þá finn ég að það er of mikið í einu. Þannig ég held að tungumálið spili ekki svo mikið inn í, vandamálið sem ég horfist í augu við núna er frekar að troða allri þessari sögu í hausinn á sér til að koma skipulagi á þetta. Endurskrif eru erfið og eiginlega bara pláss fyrir eitt verk í einu. Það er ekkert svo bilað að vinna á tveimur tungumálum, mér finnst mikilvægara að vinnan sé mismunandi þegar tvö verk eru í gangi. Best væri samt að geta bara unnið eingöngu á íslensku. Draumurinn var ekki að skrifa líka á ensku, það var eitthvað sem ég þurfti að gera til að finna verkinu farveg.

Þessa dagana er ég að ritstýra handritinu að Hrímlandi á ensku undir titlinum Shadows of the Short Days, ásamt því að ritstýra íslenska handritinu að Vættum sem kemur út í haust. Um leið og þessi tvö verk eru komin á skikkanlegan stað fer ég að skrifa framhaldsbók Hrímlands af krafti, ásamt því að vinna í öðrum verkum. Til dæmis vonast ég til þess að fá tækifæri til að þýða Shadows of the Short Days aftur yfir á íslensku (kannski með titilinn Skammdegisskuggar), þar sem bókin hefur tekið stórtækum breytingum. Mér þætti algjör synd ef lokaútgáfan væri ekki til á íslensku, þar sem ég hefði ekki getað frumskrifað bókina öðruvísi en á íslenskri tungu. Allur heimurinn í sögunni á allt sitt tungumálinu að þakka. Svo mun ég dunda mér við að þýða Vætti á ensku um leið og hún er tilbúin. Ætli næst langi mig ekki mest að skrifa bók sem ég þarf ekki að þýða sjálfur. En mig grunar að þetta séu örlög mín um ókomna tíð.

Ég hlakka til að sjá nýju bókina (þá íslensku) og hvert þetta ævintýri leiðir þig. Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

Úff, það er allt of mikið af bókum sem bíða. Erfitt að segja hvað ratar efst í bókahrúguna. Robert Jackson Bennett skrifaði skemmtilegan bókaflokk sem heitir The Divine Cities og er nú að byrja á nýrri seríu. Foundryside er fyrsta bókin og kemur bráðlega út, ég er spenntur að sjá hvernig rætist úr því. Ég hef heyrt mjög góða hluti um Koparborgina eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur, sem er næst í röðinni. The Fifth Season eftir N.K. Jemisin hefur einnig beðið allt of lengi.

Það er algjör lúxus að eiga allt of mikið af góðum, ólesnum bókum eftir, svo lengi sem maður nái að lesa eitthvað af þeim. Það er svo geðveikt að lesa góða bók. Ég vona að ég fái aldrei á tilfinninguna að engar góðar bækur bíði aflesturs. Þá er eitthvað mikið að mér.

Ráðunautur Leslistans: Elísabet Kristín Jökulsdóttir

37293327_10156523097661170_7170947547102445568_o

Hér er Elísabet 14 ára í Heiðargerði með nýja ritvél sem hún fékk í fermingargjöf

Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur þarf vart að kynna fyrir samfélagi Leslistans: hún er skáld fram í fingurgóma, aktívisti, frambjóðandi — og auðvitað, líkt og svo margt kraftmikið fólk, bókaunnandi.

*Stutt útskýring:

Fulltrúi Leslistans var á göngu um Fossvogskirkjugarð þegar viðtalið við Elísabetu var tekið (með fingurgómunum á símaskjá) — en lýsingar á göngutúrnum hafa, af fagurfræðilegum ástæðum, verið klipptar út úr textanum — en þetta skýrir hvers vegna Elísabet víkur um miðbik spjallsins að áletrunum á legsteinum.

Sæl og blessuð, Elísabet! Við hefjum auðvitað leik með að bjóða þig hjartanlega velkomna í ráðuneyti Leslistans. Fyrsta spurning er einföld: Hvaða bók/bækur ertu helst að lesa þessa dagana?

Heyrðu, elskan, núna er ég að lesa bókina Mannsævi eftir rússneska höfundinn Konstantin Pastovskí. Ég kynntist þessari bók, eða 4 binda ritsafni þegar ég var 13 ára. Kennarinn minn í Hagaskóla, Bjarni Jónsson, kynnti mig fyrir henni. Og núna þegar ég les hana aftur sé ég hvurslags snillingur ég hef verið 13 ára að lesa hana.

En ég er að hugsa um ævisögur núna og rússneskar sögur og langar til Rússlands til að vita hvernig þeir skrifa og segja sögur. Ég fór til Írlands til að rannsaka þeirra sögugerð og komst að því að Írar setja alltaf eitthvað SKRÍTIÐ í sínar sögur. Undirvitundin segir mér að ég þurfi safa eða element núna frá Rússunum.

Já og þess má geta að Konstantin Pastovskí var fæddur í Kænugarði og telst því sjálfsagt Úkraínumaður.

Lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð? Eða læturðu þér sjóinn og náttúruna, sólskinið og ævisögurnar nægja?

Ég er mjög léleg að lesa af netinu, en varð að gera það þegar ég var í LHÍ í sviðslistum og fæ oft voða móral að ég sé ekki alltaf að lesa Washington Post og svona. En ef ég fæ brennandi áhuga á einhverju einsog gyðjunni Baubo eða Bóbó, þá háma ég í mig netsíður. Bóbó er gyðja dónabrandara, sjálfsfróunar. Hún flassar og er gyðja trommunnar, magans ofl., grísk gyðja sem var þögguð niður. Ég hef gert Bóbógjörninga þarsem ég málaði augu á brjóstin og varir á píkuna og fór svo í síða mikla kápu og flassaði hvað eftir annað í Myndlistartíma í Listaháskólanum.

Bóbó er frelsandi afl. Ég get sagt þér söguna af því þegar hún frelsaði jörðina þegar Demetra jarðargyðja lá í þunglyndi.

Gerðu það, takk!

Það var af því Hades undirheimaguð hafði rænt dóttur hennar Persefónu.

Trén og blómin voru hætt að spretta og Demetra hékk bara við brunninn og grét. En þá kom Bóbó og hún skakklappast því hún er frík eða kríp, ekki sona fegurðardót einsog Aþena og Afródíta.

Svo hún krípaðist til Demetru og fór að segja henni dónabrandara og þá hló Demetra.

Þegar trén og blómin heyrðu hlátur Demetru fóru þau aftur að spretta.

Hefurðu lesið bækur á tungumáli sem þú skilur ekki? Og á hvaða tungumáli (sem þú skilur) lestu helst?

Mér finnst mjög gaman að lesa á legsteina.

Kirkjugarðstungumál.

Og dettur í hug gjörningur núna að fara með upptökutæki og lesa á fullt af legsteinum.

En ég á barnabók á ungversku og litla prinsinn á frönsku. En ég hef aldrei lesið þær, góður punktur. Les aðallega íslensku, stundum læt ég trufla mig að fræðibækur séu á ensku.

Hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Geturðu lesið gangandi, jafnvel hlaupandi, svo að ég tali nú ekki um akandi?

Nei, en tengdadóttir mín segir að hreyfivirkum börnum finnist best að lesa í trambólíni, hoppandi.

Yfirleitt liggjandi held ég.

En ég á púlt svo ég skrifa stundum standandi og hef skrifað heilt leikrit standandi.

Ég gat ekki lesið í heilt ár en svo fór ég að lesa aftur og byrjaði á Elín, ýmislegt. Mér fannst hún svo góð að ég reif hana í sundur og líka af þakklæti að geta lesið aftur, svo núna er Elín ýmislegt í tveimur hlutum. Af því hún var svo góð.

Langaði lílka að gera þetta við Halldór Laxness, að grýta henni útí horn en þá var ég of feimin.

Hefurðu skrifað ljóð í svefni?

Nei en vakna stundum og hef alltaf penna og blað á náttborðinu. Hef aldrei skrifað í svefni en oft í transi, en það er atvinnuleyndarmál. Trans er vitundarástand, einsog vaka, svefn, hálfsvefn, dá, draumur. Þessvegna finnst mér oft erfitt en frelsandi að fara útí búð þegar ég búin að skrifa, og vildi hafa mann til þess eða sendisvein, en sendlar eru sjaldséðir nú á dögum.

Ég er í rauninni sendill.

Í grunninn er ég sendill.

Sem skáld. Elísabet sendill.

Hvaða bók hefurðu oftast mælt með eða gefið öðrum?

Úps.

Litli Prinsinn, Sjálfstætt fólk, Women Who Run with Wolves, Hundshjarta, Ásta Sigurðardóttir, og Þögnin sem stefndi í nýja átt. Verðlaunabókin hans Sjón. um Refinn.

Njála.

Völuspá.

Ásta Sigurðardóttir er sennilega einn mesti ritsnillingur á sl. öld.

Já, Kristnihald undir jökli, klikkuð bók um að vera skáld, þar er sterkur sendill, Umbi sem er sendur. Sveitin er skáldskapurinn, biskupinn er sá sem sendi hann, Óðinn. Eða Gunnlöð.

Hvernig bók, eða hvað, langar þig að skrifa næst?

Búin að skrifa og myndskreyta meistarastykki, sem er leyndarmál, en má koma í þessu viðtali.

Og heyrðu, ertu í gamla kirkjugarðinum, við Ljósvallagötu?

Þar býr maðurinn sem ég er skotinn í.

Nei, ég er Fossvogskirkjugarði: fallegasta stað í Reykjavík.

Ó já …. þarsem krossarnir hallast í mýrinni.

Einmitt. Þar sem krossarnir hallast í mýrinni.

Ráðunautur Leslistans: Fríða Björk Ingvarsdóttir

fridabjork

Ljósmynd: Gunnar Andrésson

Fríða Björk Ingvarsdóttir er rektor Listaháskóla Íslands. Hún hefur einnig starfað sem háskólakennari í bókmenntum, ritstjóri og blaðamaður, einkum á sviði menningarinnar, og meðal annars ritað viðtöl, bókakrítík og sent frá sér þýðingar, til að mynda á einu skáldsögu Sylviu Plath, Glerhjálminum, sem kom út árið 2003 hjá Sölku, og Dætrum hússins eftir Michèle Roberts (Salka, 2007).

Sæl og blessuð, Fríða! Aldeilis gaman að fá í ráðuneyti Leslistans, hjartanlega velkomin og vel til fundið að fá sér sæti úti við gluggann, birtan er einmitt best hér. Fáðu þér svo endilega eins og þú vilt af kaffinu og pönnsunum meðan á spjallinu stendur. En segðu mér nú fyrst, hvaða bók/bækur ertu helst að lesa þessa dagana?

Ég er í miðju kafi við að lesa Min Kamp-trílógíuna hans Karls Ove Knausgaard, sem er ótrúlegur doðrantur. Þetta er á köflum langdreginn lestur því það er lítið sem dregur frásögnina áfram annað en mjög hvunndagslegt líf höfundarins. En undir niðri kraumar þó mikil glíma, við lífið í heild sinni, skáldskapinn, frásagnarmátann og formið, samfélagsgerðina og ekki síst tilganginn eða jafnvel tilgangsleysið í tilvistinni. Það er langt síðan ég hef lesið verk sem er jafn hugrakkt og hreinskiptið. Stundum minnir lesturinn á leit Proust að týndum tíma (À la recherche du temps perdu) en Knausgaard stendur manni nær í tíma og um leið greiningu á samtímanum. Trílógían er líka áhugaverð á tímum þar sem hraðinn eða skyndibitinn í afþreyingu og menningu er mál málanna. Það er ögrun í því að kúpla sig frá því sem er fljótafgreitt og leyfa Knausgaard að taka tíma manns yfir.

En ég hef tekið ýmsa úturdúra frá Knausgaard, var t.d. að lesa The Futureeftir franska heimspekinginn Marc Augé – sem mér fannst mjög áhugaverð lesning um tengsl okkar og afstöðu til hins óorðna. Ég var líka að lesa sonnettukransinn Lip eftir Anne Carson sem kom út hjá Tunglútgáfunni núna í síðustu viku. Carson er náttúrlega eitthvert áhugaverðasta skáld síðari tíma á heimsvísu – ég bíð alltaf eftir því að hún fái Nóbelinn.

Undirferli hennar Oddnýjar Eirar vakti líka mikla aðdáun mína núverið – það er langt síðan ég hef lesið íslenskt skáldverk sem tekur jafn fallega á stóru málunum og því hvernig við erum hluti af þeirri gjöfulu heild sem býr í arfleifð okkar og náttúrunni umhverfis. Hún minnt mig á GunnlaðarsöguSvövu Jakobsdóttur, að gæðum, dýpt og skilningi á íslenskum veruleika og vísunum í forna arfleifð okkar.

Eins og ef til vill sést á þessum lestri mínum þá hef ég mikinn áhuga á höfundum sem eru tilbúnir til að gera tilraunir með formið, eða hafa þrek og þor til að láta formið þjóna efniviði sínum með hverjum þeim hætti sem þeim finnst hæfa, frekar en að beygja sig undir það hefðbundna og kannski fyrirsjáanlega.

Og þá dettur mér í hug bókin sem ég las um helgina, Waitress in Fall, þýðingar Völu Thorodds á ljóðum Kristínar Ómarsdóttur. Þessar þýðingar eru snilldarlega vel gerðar. Það vakti eftirtekt mína því ljóðaþýðingar eru stundum (og reynar of oft) svo slakar. Það er mjög erfitt að þýða ljóð af kostgæfni og skilningi, ekki bara á orðum og hvað þau „þýða“, heldur á heiminum handan ljóðsins, undirtextanum og öllu því sem gerir ljóðformið svo einstakt.

Þarna er af nógu af taka, takk! En lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð? Ekki hika við að senda okkur ábendingar!

Ég les netsíður, vefmiðla og allskonar efni sem ég rekst á – en ekki mikið af tímaritum. Ég reyni að lesa Cabinet Magazine ef ég kemst yfir það. Var einu sinni áskrifandi en gleymdi að endurnýja, sem er nokkuð sem ég hef lengi ætlað að ráða bót á. Svo glugga ég í ýmislegt sem verður á vegi mínum, ekki síst í gegnum börnin mín eða manninn minn.

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Ætli ég lesi ekki mest á ensku. En líka heilmikið á íslensku – ég reyni að lesa flestar skáldsögur sem koma út á Íslandi. Ekki endilega í jólabókaflóðinu eins og þá áratugi sem ég var mjög iðin við gagnrýni, heldur eftir áramótin og fram eftir sumri, þegar öldurnar hefur lægt og kynningarefni og markaðssetning bókavertíðarinnar eru ekki að trufla mann.

Já, ef við aðeins ættum her af slíkum gagnrýnendum þessa dagana! En hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp hlustarðu mest á?

Ég hef ekki mikinn tíma yfirleitt til að hlusta því ég lifi frekar erilsömu lífi. Ef ég er heima þá hlusta ég á Rás eitt – mér finnst þáttargerðin þar oftast áhugaverð og innspírerandi. Og hún er heldur ekki svo krefjandi að maður geti ekki verið að gera eitthvað annað á meðan. Svo geri ég svolítið af því að setjast niður heima hjá mér og hlusta markvisst á tónlist með manninum mínum – Spotify hefur opnað manni svo stóran heim að það er erfitt að standast hann, þótt ég hafi miklar efasemdir um afstöðu þeirra, til tónlistarmannanna sjálfra sem bera nánast ekkert úr býtum. Tuttugustu aldar tónskáldin færa mér iðulega mest, þótt eldri klassík kveiki líka í mér. Ég er samt amatör í tónlist; ein af þeim sem þekki tónverkin – jafnvel út og inn – en veit lítið um þau. Ég hef aldrei sett mig inn í tónbókmenntir með sama hætti og ég stúdera bókmenntir, fylgi bara innsæinu og lönguninn hverju sinni.

Áttu þér eftirlætisbók- eða höfund?

Mér finnst þetta alltaf svo erfið spurning því það er svo margt sem hefur heillað mig. En jú, bók lífs míns er án efa þessi eina skáldsaga Sylviu Plath, The Bell Jar. Plath hefur mikla þýðingu fyrir mig sem höfundur.

Hvort finnst þér best að lesa sitjandi, liggjandi eða standandi? Og hvar? Viltu þá helst vera ein eða innan um aðra?

Ég get lesið hvar sem er og hvernig sem er. Og það er meira að segja merkilegt hvað annað fólk truflar mig lítið þegar ég les; ég hverf bara inn í þann heim sem er á síðunum. Kjöraðstæður, sem maður nær reyndar ekki alltaf, eru þó í uppáhaldsstólnum heima sem afi mannsins míns smíðaði, undir standlampanum og með góðan tebolla við hliðina. Á síðustu tímum hef ég þó líklega náð besta samfellda lestrartímanum í flugvélum. Mér finnst ég alltaf ná bestu tengingunni við skáldverk ef ég næ að lesa þau í einum rykk, eða sem fæstum lotum.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Fyrsta bókin sem ég las spjaldanna á milli og var ekki myndabók, var Ævintýraeyjan eftir Enid Blyton. Hún er mér minnisstæð þess vegna. Ekki síst vegna þess að það var eins og það hefði verið skrúfað frá krana, ég las linnulaust upp frá því alla mína æsku, allt sem hönd á festi frá Blyton og Dickens til ævisögu Thors Jensens og Selmu Lagerlöf. En það er erfitt að gera upp við sig hvað er áhrifamest. Ég man samt að bækur Ragnheiðar Jónsdóttur höfðu töluverð áhrif á mig – ekki síst vegna þess hversu mannbætandi þær voru. Þær kenndu manni svo mikið, vöktu meðvitaðan vilja til að vera almennileg manneskja.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Ég mæli yfirleitt ekki mikið með bókum, því bóklestur er svo persónuleg reynsla. En líklega hef ég gefið Birting Voltairs oftast. Ég kaupi hana gjarnan í fermingargjafir og bæti svo við einhverju öðru úr seríu Hins íslenska bókmenntafélags sem mér finnst hæfa viðkomandi. Stundum Susan Sontag, Kierkegaard eða Orwell – allt eftir karakter viðtakandans. Þetta eru örugglega ekki vinsælar gjafir hjá unglingum, en standast kannski tímans tönn betur en svo margt annað.

Finnst þér þú þurfa að klára bækur? Klárar maður kannski aldrei bestu bækurnar?

Já, mér finnst ég þurfa að klára bækur – líka misheppnaðar bækur, ekki síst ef höfundurinn er áhugaverður. Það er mjög ríkt í mér að gera bækur upp, leggja á þær minn dóm og súmmera fyrir sjálfri mér hvað heppnaðist og hvað ekki. Reyna að átta mig á ætlun höfundar og hvert bókin hefur tekið mig. En það kemur samt fyrir að ég gríp bækur sem eru einfaldlega svo innihaldslitlar eða lélegar að ég hef ekki tíma fyrir þær. Mjög sjaldan samt, því ég forðast slíkt efni markvisst.

Hvers vegna langaði þig að þýða Sylviu Plath? Hvað höfðaði sérstaklega til þín í höfundaverki hennar? Langar þig oft að þýða góða bók þegar þú lýkur við hana?

Mig langar stundum til að þýða bækur sem ég les, ekki spurning. Stundum vegna þess hvað orðfærið er stórkostlegur skáldskapur, en líka stundum af því efnið sem heild höfðar sterkt til mín. Ég myndi í öllu falli ekki nenna að þýða bók sem hefði ekki eitthvert gildi fyrir mig.

Skáldsagan hennar Sylviu Plath greip mig heljartökum þegar ég var mjög ung – rétt um tvítugt. Í raun áður en verkið varð að þessum mikla íkon í kvennabókmenntum og 20. aldar skáldsagnagerð. Ég keypti hanan fyrir tilviljun á ferðalagi í Hollandi í kringum 1980. Efnið talaði mjög sterkt til mín, því ég samsamaði mig þessari ungu konu sem langaði til að skrifa en komst hvergi að þar sem hún tilheyrði ekki réttu klíkunum, réttu hefðinni, rétta kyninu. Sjálf bjó ég heldur ekki í mínu eigin heimalandi á þessum tíma, rétt eins og Plath þegar hún skrifaði verkið, var ung móðir og stundum svolítið utangarðs, rétt eins og hún. Mín leið að Plath var því í gegnum þessa skáldsögu. Síðar lagðist ég yfir ljóðin hennar og þau styrktu mjög þá skoðun mína að hún hafi verið einstakur höfundur. Hún fór ótroðnar leiðir, bjó yfir einlægni og gríðarlegu þori, en einnig vitsmunalegum styrk sem gerir verkin hennar svo djúp og sérstök. Henni tókst að tvinna hefðir og menningu allt frá fornöld inn í samtíma sinn, með því að draga slíka hugmyndafræði inn í sitt eigið orðfæri, lúmskan húmor og ádeilu. Undirliggjandi alvarleikinn í verkum hennar tilheyrir samt hennar eigin tíð; sprettur upp úr víðtækri þekkingu og gagnrýni á það sem hefur mótað okkur sem fólk innan tiltekins menningarheims. Vitanlega er ekki allt úr hennar höfundarverki jafn mikil snilld, ekki frekar en hjá öðrum, en viljinn til að vera frumleg og djörf listrænt séð vinnur með henni – og fleytir mér af óskoraðri athygli í gegnum hverja einustu ljóðlínu. Ég hefði viljað sjá hvert þroskinn og árin hefðu tekið hana sem skáld – hún var náttúrulega svo ótrúlega ung þegar hún féll frá.

Ég hef tekið eftir því á síðustu árum, eftir því sem gott fólk opnar augu mín í síauknum mæli fyrir verkum ótal listamanna víðsvegar að úr heiminum, og eins þökk sé þeim forréttindum að ég hef um alllangt skeið búið í borgum þar sem ótal listaverk flæða í gegnum listasöfn og gallerí, að margir helstu listamanna síðustu aldar voru algjörir lestrarhestar og ótrúlega vel að sér í bókmenntum okkar tíma sem og fyrri alda. (Þetta er til dæmis eitt helsta einkennið á yfirlitssýningu hinnar frábæru Adrian Piper, sem nú stendur yfir í MoMA-safninu.) Það sama hefur svo oft komið upp úr dúrnum þegar ég hef kynnist listamönnum persónulega, einkum fólki af eldri skólanum: þetta eru lestrarhestar og stúdíóin jafnt sem heimilin þakin bókum. Telurðu að bókmenntirnar séu uppspretta hugmynda og innblásturs fyrir listamenn í öllum greinum, tónlist, leiklist, dansi, málaralist og svo framvegis, og heldurðu að listamenn sæki enn jafn mikið í þennan drjúga og góða brunn, bókmenntirnar, og þeir gerðu hér áður fyrr? Eða eru önnur form „lesefnis“, s.s. samfélagsmiðlar, skilaboð í snjallsímum og svo framvegis, listamönnum nú innblástur og efniviður til jafns á við bókmenntirnar og heimspekina?

Þessi spurning er efni í langa grein eða jafnvel heila bók. Sjálf var ég að flytja á síðasta ári og tók með mér 52 bókakassa eða rösklega 2000 bindi. En ákvað um leið að losa mig við næstum því jafnmikið. Að hluta til vegna þess að ég finn að bækur hafa annað aðdráttarafl í dag en þær höfðu fyrir mína kynslóð og munu ekki ferðast á milli kynslóða með sama hætti og áður.

Ég þekki töluvert af mjög góðum ungum listamönnum í öllum greinum sem ekki safna bókum af sömu ástríðu og mín kynslóð gerði. Uppspretta hugljómunar þeirra er annarsstaðar; í sjónrænni upplifun, á netinu, í kvikmyndum, ferðalögum og þar fram eftir götunum. Ég treysti mér ekki til að dæma þá tilhneigingu, því þótt hún tilheyri ekki mínu innra lífi þá virðist hún næra framúrskarandi hluti í öðrum. Heimurinn hefur breyst gríðarlega frá síðustu aldamótum hvað þetta varðar.

Bækur og bókasöfn eru rómantísk fyrirbrigði og vissulega uppspretta hugmynda og innblásturs, en eru samt ekki endilega mikilvægasta uppsprettan fyrir alla. Ég held samt að bækur eigi eftir að halda sjó, því bókmenntaformið er svo merkilegt að því leytinu til að innan spjalda bókar er hægt að skapa hvaða heim sem er. Formið – þessi huglæga upplifun eða kveikja sem höfundar vekja í lesendum sínum – er einstakt hvað þetta varðar og verður tæpast útfært í öðrum listformum. Hver gæti t.d. endurgert ósýnilegar borgir Italo Calvino með sama hætti í öðru listformi? Ekkert annað listform gæti spannað slíka hugmynd því hún er svo flókin og efnismikil. Svo eru bækur líka merkilegar vegna þess hversu greiðan aðgang þær eiga að þeim sem njóta þeirra, þær eru ódýrar í framleiðslu – miðað við leiklist, tónlist og myndlist t.d. Fólk bara kippir þeim með sér og fer síðan í ótrúlegustu ferðalög innra með sér þar sem því sýnist.

Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

Það er nú það! Ég er að fara í frí til Frakklands og hugsa að ég kippi með mér einhverju af því sem kom út hér á landi fyrir síðustu jól og ég hef ekki enn komist yfir. Og svo á ég náttúrulega síðasta bindið af Knausgaard eftir …

 

Ráðunautur Leslistans: Fríða Ísberg

fridaisberg

Ljósmynd: Saga Sigurðardóttir

Fríða Ísberg gaf á síðasta ári út ljóðabókina Slitförin og hlaut fyrir hana aldeilis góð viðbrögð. Hún hefur einnig meðal annars gefið út hlaðvarpið Póetrý Gó og skrifað fyrir The Times Literary Supplement, og þá er hún hluti af skáldahópnum Svikaskáld.

Hæ, Fríða! Og hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans, það gleður okkur að fá þig í hópinn. Hvaða bók/bækur ertu helst að lesa þessa dagana?

Sæll Sverrir! Takk fyrir að bjóða mér í hópinn. Ég var að ljúka við að lesa Okkar á milli eftir hina írsku, 26 ára Sally Rooney, í bland við Sögu Ástu eftir Jón Kalman. Ég man ekki hvenær ég gerði þetta síðast, að sikksakka svona á milli, en þetta var gaman. Þau mynduðu skemmtilegt dínamískt dúó, hið eilífa og hið stundlega, dauðinn og tölvupóstar.

Já og svo las ég þar áður fína skáldsögu eftir Sigrid Nunez sem heiti The Friend, hún er aðallega góð því hún fjallar svo mikið um skrif, sjálfsefann og bara skömm rithöfundarins, að finnast hann eiga erindi við heiminn – sögumaðurinn er rithöfundur sem missir besta vin sinn og fyrrum ritlistarkennara, en sá fellur fyrir eigin hendi og lætur henni eftir hundinn sinn, Stóra Dan.

Lestu einnig netsíður, vefmiðla, tímarit? Jafnvel dagblöð? Ekki hika við að senda okkur ábendingar!

Já, já. Ég svindla reyndar aðeins, notast við fréttavef sem kallast Lit Hub, hægt er að gerast áskrifandi að fréttablaðinu Lit Hub Daily eða Weekly, ókeypis. Þetta er í rauninni sama fúnktíón og Leslistinn, eins konar samantekt, bendir konu á hverjum degi/viku á nýjar greinar, sögur, ljóð sem hægt er að lesa á netinu. Í gær t.d. beindi Lib Hub mér á smásöguna Snake Stories eftir Lauren Groff sem kom á Iceland Writers Retreat í ár, úr nýja safninu hennar Florida. Annars les ég mest efni frá TLS og New Yorker, og svo Tímarit Máls og Menningar auðvitað.  

Á hvaða tungumáli lestu helst?

Ensku og íslensku.

Hvaða útvarpsþætti/hlaðvörp hlustarðu mest á?

Núna er ég að hlusta á allt frábæra stöffið sem var að detta inn á Rúv Núll. Femíníska hlaðvarpið Smá pláss í umsjón Sunnu Axelsdóttur og Elínar Elísabetar Einarsdóttur og Ástin í umsjón Nínu Hjálmarsdóttur. Tómas maðurinn minn setur svo á tónlistarhlaðvarpið Cocaine & Rhinestones þegar við erum að elda, sem fjallar um míkróþemu innan bandarískrar kántrítónlistar. Svo myndi ég vilja nefna Fiction Podcast á The New Yorker, þar sem höfundar lesa upp smásögur eftir aðra höfunda og ræða svo um skáldskapinn.

Áttu þér eftirlætisbók- eða höfund? Var jafnvel einhver einn höfundur, eða ein bók, sem blés þér á sínum tíma anda í brjóst og fékk þig til að vilja skrifa?

Ég á svolítið erfitt með þessa spurningu. Má ég segja pass?

Hér má segja allt sem manni dettur í hug. Hefurðu einhvern tímann, líkt og ein gömul vinkona mín, lesið bók á reiðhjóli og rankað við þér með gat á hausnum?

Ég hef rankað við mér á reiðhjóli eftir að hafa lesið bók sem var með gat á hausnum.

Hvaða bók hafði mest áhrif á þig í æsku?

Harry Potter. Bara svona út frá siðagildum, frekar en bókmenntum. Mín kynslóð er gjörsamlega gegndrepa af þrælasiðferðinu þaðan. Að trúa á hinn veika, hjálpa þeim sem minna mega sín. Dobby, Neville Longbottom, Luna Lovegood. Að vera aumingjagóður, að leggja ekki í einelti, að vera næs. Já, eða með öðrum orðum, samkennd.

Hvaða bók hefur þú oftast mælt með og/eða gefið öðrum?

Kok eftir Kristínu Eiríksdóttur hugsa ég.

Finnst þér þú þurfa að klára bækur?

Núna þarf ég að klára bækurnar því ég er með hundrað bóka áskorun á Goodreads í ár. Annars er mottóið að lesa ekki bækur sem fá mig ekki til þess að lesa.

Hvers konar bók langar þig að skrifa næst?

Ég hef ekki grænan grun. Ég var að enda við að skila af mér handriti svo að í þessum haus er blankalogn og blæs ekki í neina sérstaka átt.

Var einhver einn höfundur, eða jafnvel ein bók, sem blés þér á sínum tíma anda í brjóst og fékk þig til að vilja skrifa?

Ef svo er þá man ég ekki eftir því. En ég man svosem heldur ekki eftir því hvenær ég byrjaði að skrifa. Kannski var þetta bara öfugt, ég ákvað að vilja skrifa og fór svo að lesa bækur? Mér dettur eiginlega bara í hug barnalög, Krummi svaf í Klettagjá og Malakoff, eitthvað slíkt. Ég samdi svolítið af vísum um skólalífið þegar ég var lítil.

Svo er það kannski önnur spurning, en allar góðar bækur fá mig til að vilja skrifa.

Heldurðu að við séum smátt og smátt að fórna heilunum í okkur, og jafnvel mennskunni, á altari tækninnar? Verður smám saman erfiðara að skrifa skáldskap og sjá tilgang með því, í framtíðinni, eða fylgja bókmenntir –– sögur, ljóð, orðsnilld –– alltaf mannkyninu?

Er þetta ekki bara eins og Mátturinn í Stjörnustríði? Ef það er disturbance í The Force þá mun hann reyna að vega upp á móti því sem vantar. Ef það vantar mennsku þá mun fólk reyna að skapa pláss fyrir hana – og bækur eru svolítil mennska út af fyrir sig, á gervihnattaöld.

Og svo að lokum, hvaða bók hyggstu lesa næst?

Ég er orðin svo spennt fyrir Lauren Groff, var að fá Delicate Edible Birds í hendurnar í dag, sem er smásagnasafn, en svo langar mig líka að lesa nýja safnið hennar Florida.