Allt efni

Bækur, 17. maí 2019

Gagnrýnandi The London Review of Books er sammála mér í því að nýjasta skáldsaga Ians McEwan, handhafa alþjóðlegu Halldórs Laxness-verðlaunanna í bókmenntum, sé vindhögg. Ekki svo sem í frásögur færandi nema fyrir að ég rak augun í að greinarhöfundur vitnar í aðra bók, Murmur eftir Will Eaves, sem fjallar einnig um gervigreind og teflir fram sömu sögufrægu persónu og kemur fyrir í Machines Like Me eftir McEwan, enska stærðfræðingnum Alan Turing (1912 – 1954). Turing er aukapersóna í verki McEwans en í aðalhlutverki í hjá Eaves. Og Murmur er raunar frábær bók. Ég las hana fyrir nokkrum vikum í kjölfar þess að ég kynntist Eaves á Cúirt-bókmenntahátíðinni á Írlandi. Ljóðræn og falleg skáldsaga, sem hefur að útgangspunkti þegar Turing var handtekinn fyrir að svala holdlegum fýsnum sínum með ungum karlmanni, og var í kjölfarið dæmdur til þeirrar refsingar að vera geldur með lyfjagjöf; í sögunni taka honum að vaxa brjóst, sem auðvitað er ansi háðuleg refsing fyrir karlmenn sem ekki sækist eftir slíkri breytingu á líkama sínum. Afar sérstök og ljóðræn skáldsaga sem tekur á margvíslegum hugmyndum um eðlisfræði og sjálfsmynd, greind og mannleg samskipti. (SN.)

Flestir eiga í erfiðleikum með að skilja og meta samtímalist. Ég hef oft gert tilraunir til að fá fólk til að kunna að meta slíka list og mistekst það í flestum tilvikum. Þegar ég byrjaði að vinna á Viðskiptablaðinu á sínum tíma gerði ég nokkrar heiðarlegar tilraunir til að „mennta“ lesendur um gildi samtímalistar en komst svo á endanum að því að fólk þarf helst að vera opið fyrir listinni fyrirfram til að þessi menntun skili einhverjum árangri. Í vikunni las ég í annað sinn eina bestu bók sem ég hef lesið um samtímalist og áttaði mig á því að hún er að öllum líkindum ein besta „útskýring“ sem ég hef lesið á samtímalist og gildi hennar. Bókin heitir Seeing is Forgetting the Name of the Thing One Seesog fjallar um ævi og störf bandaríska myndlistarmannsins Robert Irwin. Í bókinni segir hann frá því hvernig hann byrjar að vinna sig hægt og bítandi úr abstrakt listinni í að vinna með liti og form og meira svæðisbundin verk. Mér finnst mjög verðmætt að fá svona djúpa innsýn inn í hugarheim myndlistarmanna. Eðli málsins samkvæmt er nær ómögulegt að færa þennan hugarheim í orð, enda ætti myndlist í flestum tilvikum að tala sínu máli „handan orða“. En í örfáum tilvikum er hægt að ræða myndlistina ítarlega og vel og ég held að ég hafi aldrei séð það jafn vel gert og í þessari bók. Mæli mikið með henni ef þú, lesandi góður, hefur áhuga á samtímalist eða vilt skilja hana betur. (KF.)


Óskalistinn:

Ég hef löngum haldið því fram að við mennirnir séu einungis lítilfjörlegar framlengingar á hinum sönnu konungum og drottningum jarðar – trjánum. Þau skapa lífsskilyrði okkar og á greinum þeirra vex safarík fæða. Þau boða stillingu og speki, ró og jarðtengingu. Og niður úr þeim klifruðum við löngu áður en við tókum að brytja þau niður. Út er komin á íslensku Bók um tré eftir Wojciech Grajkowski. Myndskreytir er Piotr Socha. Tré skoðuð út frá margvíslegum sjónarhornum. Lofar góðu.

Bráðskemmtileg grein um breska höfundinn Samuel Johnson (1709 – 1784), ærslabelg og djúpskyggnt gáfnaljón, nautnasegg og félagsveru, ólíkindatól og fjölhæfan skríbent. Kveikjan að því að Freya Johnston stakk niður penna og ritaði stúf um þennan keika átjándu aldar höfund er heljarmikið samsláttarrit með úrvali af skrifum Johnson, heilar 1344 blaðsíður að lengd, sem var að koma út.

Una útgáfuhús fylgir endurútgáfu Undir fána lýðveldisins eftir með tveimur nýjum verkum, annars vegar smásagnasafninu Það er alltaf eitthvað, þar sem tólf höfundar sitja í samsæti, og svo er fyrirhuguð útgáfa á Beðið eftir barbörunum, skáldsögu J.M. Coetzee sem lesin var í útvarpið árið 1894 undir heitinu Við bíðum, í íslenskri þýðingu Sigurlínu Davíðsdóttur, en hefur ekki komið út á bókarformi áður.

Þá er komin út skáldsagan Bjargfæri eftir argentíska höfundinn Samöntu Schweblin í þýðingu Jóns Halls Stefánsson. Hlakka mikið til að lesa hana. (SN.)

Af netinu, 17. maí 2019

Það er gott að vera klár – bara ekki of klár. Afburðagreind börn eiga oftar en ekki erfitt uppdráttar. Ákjósanleg er greindarvísitala er á bilinu 125-155 en fari maður mikið fyrir ofan það er hætt við að maður skeri sig um of úr, þyki vera furðufugl og eigi fyrir vikið undir högg að sækja félagslega. Hér má lesa um bölvun séníanna.

Chris Hughes, einn af stofnendum Facebook, vakti á dögunum mikla athygli fyrir grein sem hann birti í The New York Times. Þar heldur Hughes því fram að stærð og drottnun Facebook á sviði samfélagsmiðla – og mundu að Instagam og WhatsApp heyra undir Facebook – brjóti gegn lýðræðislegum hefðum í bandarísku samfélagi. Hann kveður Mark Zuckerberg orðinn alltof valdamikinn og telur að bandarísk stjórnvöld ættu að leysa fyrirtækið upp í smærri einingar.

Atli Bollason skrifaði grein um Ísrael, Palestínu og Hatara.

Tímarit Máls & Menningar hefur stofnað nýja vefsíðu. (SN.)

Ég hef verið að hugsa um þessa grein mjög mikið alla vikuna. Hún fjallar um hvernig (óskálduðum) bókum og fyrirlestrum mistekst oftast ætlunarverk sitt – að fræða lesendur/áheyrendur.

Hvernig hefur þessari konu tekist að skrifa 179 bækur á meðan hún hefur eignast níu börn?

Mjög djúp grein um hvernig hlutir breiðast út í gegnum net (e. network – erfitt að þýða þessi hugtök almennilega á íslensku). Hún er líka skemmtilega framsett – gagnvirk og fræðandi.

Þetta er besta grein um rusl sem ég hef lesið í langan tíma. (KF.)


Fyrir augu og eyru:

Fílaði þennan þátt með tónlistarkonunni Cat Power í Song Exploder-hlaðvarpinu. Hún er eitthvað svo svakalega mikill listamaður (á mjög heillandi hátt) og nær að tala um lagasmíðar á dýpri hátt en gengur og gerist. Hér kryfur hún tilurð eins síns þekktasta lags, „Woman“.

Virkilega fínt viðtal við myndlistarmanninn Mark Bradford í 60 mínútum. (KF.)

Ráðunautur Leslistans: Hermann Stefánsson

IMG-20190426-WA0001 (1).jpg

Hermann Stefánsson ásamt argentíska höfundinum Samöntu Schweblin. Nýlega kom út á íslensku skáldsaga hennar Bjargfæri, í þýðingu Jóns Halls Stefánsson, bróður Hermanns.

Fyrsta bók Hermanns Stefánssonar kom út árið 2003, Sjónhverfingar hét hún, skáldfræðirit, og árið eftir fylgdi smásagnasafnið Níu þjófalyklar. Síðan þá hefur Hermann sent frá sér fjölda bóka, ljóð, skáldsögur, minningaskrif, meðal annars hina frábæru Spennustöðin — stílabók(Tunglið: 2014), kostulega glæpasögu, Hælið (1005 tímaritröð: 2013), skáldsöguna Leiðina út í heim (Sæmundur: 2015), þar sem höfundur snýr upp á barnasöguna Palli var einn í heiminum, og Bjargræði (Sæmundur: 2016), um kraftaskáldið Látra-Björgu. Þá hefur Hermann þýtt verk erlendra höfunda, meðal annars Juan José Millás, Manuel Rivas og Zizou Corder, og þýðing hans á Fásinnu eftir Horacio Castellanos Moya er sérdeilis vel heppnuð. Ég tók Hermann tali í tilefni af útgáfu flunkunýrrar bókar eftir hann, Dyr opnast, sem er kímerubók.

  • Sverrir Norland

Sverrir Norland: Kæri Hermann Stefánsson, vertu velkominn í ráðuneyti Leslistans og hjartans hamingjuóskir með nýju bókina þína, Dyr opnast. Hvaða dyr eru það sem hér opnast okkur?

Hermann Stefánsson: Takk fyrir hamingjuóskirnar. Auðvitað vonar maður að dyr opnist að einhverjum nýjum sannleika hverju sinni með bækur en getur ekki vitað það.

Já, ég held að það sé mikilvægt að opna sem flestar dyr og helst glugga líka. (Hver var það aftur sem sagði að það væri einkenni á greindum og skýrum mannshuga að geta hýst tvær öndverðar skoðanir samtímis?)

Fyrsta skrefið í vígsluathöfninni er jafnan sáraeinfalt og svohljóðandi: Ertu að lesa eitthvað bitastætt í augnablikinu, og ef svo er, í hverju leynist sá galdur?

Ég er með ansi margar bækur opnar eins og endranær en er kannski ekki alveg á góðum lestrarfasa þessa dagana, hef verið eitthvað svo upptekinn. Eina af þessum bókum er ég búinn að treina mér lengi að lesa. Það er bók sem er í algeru uppáhaldi hjá mér, bara bókin mín, hreinlega: Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur. Ég hef hreinlega ekki þorað að lesa hana aftur af ótta við að eyðileggja fyrstu lestrarupplifunina með þeirri nýju, sem verði ekki eins góð, ekki eins mikil hugljómun. Ég þóttist einhvern veginn muna hana svo vel, ég gæti bara flett upp á hvaða blaðsíðu sem er í kollinum og þyrfti ekki að endurlesa. Maður les heldur aldrei sömu bókina tvisvar, annar lestur er alltaf öðruvísi. Eiginlega óttaðist ég mest af öllu að mér myndi hreinlega þykja þessi bók sem ég hef dýrkað svo lengi barasta léleg. Hrifnæmi mitt væri bara farið. Þessar áhyggjur reyndust blessunarlega ástæðulausar. Mér finnst Meistarinn og Margarítaenn stórkostleg bók. Að vísu hafði ég í minninu bætt við hana einu atriði eða ýkt það upp en ég er viss um að ég finn það aftur þegar ég fletti upp í bókinni að lestri loknum. Svo furða ég mig einhvern veginn svolítið á hvað ég sjálfur, eða bara allir, hafa verið opnir og læsir á bækur. Núna hef ég meiri tilhneigingu til að flokka hana sem erfiða og tilraunakennda bók. Á sínum tíma fannst mér hún hreinn skemmtilestur, furður og dásemdir út í gegn. Auðvitað breytist orðaforði tungunnar hratt, það gæti verið skýringin. Bókin var skrifuð á Stalínstímanum og kom ekki út fyrr en 1966 aldarfjórðungi eftir dauða höfundarins, og þá fyrst í ritskoðaðri útgáfu. Eða er ég kominn út í aðra spurningu? Myndirðu spyrja mig um efni bókarinnar og galdur hennar?

Já, efni bókarinnar? Það er nú sjálfsagt ýmsum lesendum kunnugt. Sjálfum fannst mér Meistarinn & margaríta frábær þegar ég las hana á unglingsárunum, „hreinn skemmtilestur“ og enn glórir sterkt af minningunni. Mig grunar að hún haldi velli hjá hinum fínt stilltari vitsmunaverum þjóðarinnar, einnig þeim yngri. Ég hef ekki endurlesið hana (geri það einn daginn). Nefnd skáldsaga Búlgakovs hefur greinilega reynst mörgum af okkar frumlegri rithöfundum gott veganesti; þér og hér er annað dæmi.

En hvernig barn varstu, Hermann? Varstu yfirhöfuð einhvern tímann barn?

Ég veit ekki til þess að ég hafi nokkru sinni hætt að vera barn. Alla vega ætti það að vera manns helsta takmark í lífinu, að glata ekki barninu í sjálfum sér. Það er mitt mottó og hefur alltaf verið. En ég var rólegt og blítt barn og frekar feimið. Það þurfti lítið að hafa fyrir mér. Ég mælti varla orð af vörum fyrstu fimm ár ævi minnar en byrjaði þá að tala og var altalandi. Hafði bara ekki fundist ástæða til að blanda mér í umræðuna fram að því. Enda er tungumálið svo sem stórhættulegt og best að segja sem minnst. Líklega var ég svolítið melankólískt barn því ég kynntist dauðanum snemma, eins og svo sem margir. Ég las mikið sem barn. En ég var líka fjörugur og ærslabelgur. Ég átti góða vini. Besta vinkona mín alveg frá eins árs aldri var Halldóra Geirharðsdóttir leikkona sem bjó við hliðina á mér og og fór með mér í gegnum alla skólagönguna alveg frá leikskóla, sú vinátta helst enn. Það var mikið fjör í götunni, líflegir útileikir og mikil sköpunargleði í ímyndunarleikjum. Það var líka samheldni í krökkunum og árið sem Sverrir Guðjónsson söngvari var kennarinn okkar var það besta. Ég las það annars í Meistaranum og Margarítu að fólk breyttist ekki, væri alltaf eins. Ég las líka þar að ragmennskan væri versti lösturinn. Sem barn var í mér blanda af feimni og fífldirfsku. Ætli ég sé ekki þannig ennþá.

Bækurnar þínar eru ólíkar eins og þær eru margar. Er það meðvitað? Heillastu af höfundum sem eru ólíkindatól og leita helst á nýjar slóðir með hverju verki?

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki neitt í neinu þegar fólk segir að ég sé ólíkindatól. Ég kvarta ekkert yfir því en sjálfur upplifi ég mig ekki þannig og geri ekkert til að vera ólíkindatól, mér vitanlega. Er þetta ekki bara annað orð yfir húmor? Húmor er auðvitað dauðans alvara eins og einhver sagði. Ég upplifi mig sem hreinskilinn og blátt áfram, einlægan og stundum kannski óþægilega gefinn fyrir að segja satt og stríða fólki, það er bara í ættinni. En maður ræður sem sé ekki yfir upplifun annarra á sér. Né heldur á bókum sínum. Ég er sammála þér að bækur mínar séu ólíkar. Sumir segja að þær séu „hermannskar“ og það má alveg, ég verð ekkert fúll, en mér finnst sjálfum að þær séu gerólíkar, þótt eflaust megi sjá ættarmót með þeim. Ef þær eru ólíkar felst það einfaldlega í því að ég kann ekki að skrifa bækur. Eða með öðrum orðum: Ég held að það sé ekki hægt að kunna að skrifa bækur vegna þess að það er sín aðferðin við hverja þeirra og þá þarf alltaf að byrja upp á nýtt. Læra nýja aðferð. Ég var á Iceland Writers Retreat hennar Elizu Reid í ár og enski rithöfundurinnn Sarah Moss lagði til þá aðferð sína við skáldsagnaritun að skrifa fyrst skáldsögu, henda henni svo (og tæma ruslið) og byrja alveg upp á nýtt á sömu skáldsögu, eftir minni. Þetta er frábær aðferð sem ég blóðöfunda hana af. Ég hef aldrei gengið svona langt þótt ég hendi miklu, ég geymi alltaf einhver öryggisafrit þótt ég sé komin að næstu drögum. Ég væri til í að prófa þetta. En annars er það svo að mér finnst ég þurfa að leita á nýjar slóðir með hverju verki, eins og þú segir — og stundum er maður lengi að komast út úr eigin bók, ég er fyrst núna að komast almennilega út úr skáldsögu minni Bjargræði, með nýrri bók, sem mér finnst sjálfum að sé gerólík henni. Ég henti ofboðslega miklu, alltof miklu, en svo bætti ég mörgu af því við aftur og meiru til því að það þýðir ekki að editera lífsmarkið úr bók.

Nei, það er auðvelt að editera allt líf úr list, við þurfum líka subbuskap, óreiðu og annmarka.

En heldurðu kannski, Hermann, að heimurinn yrði betri staður ef bækur hyrfu og öll samskipti færu fram í gegnum lítið rafbox sama stórfyrirtækisins með atbeina eins og sama forrits sama stórfyrirtækis? Heldurðu að slík þróun hafi örvandi áhrif á listsköpun, tjáningu og einstaklingshugsun?

Hvað meinarðu með „ef“? Erum við ekki komin á þennan stað? Og nei, ég finn það best á sjálfum mér að hugsunin breytist. Ég hætti á Facebook fyrir nokkrum mánuðum, enn eitt skiptið. Stefni ekki þangað aftur. Ég ætla ekki að vera með neitt svartagallsraus en ég held að það þurfi að taka það alvarlega sem margt bendir til, að félagsmiðlar séu varasamir fyrir margvíða hugsun, breyti einbeitingunni, hindri ýmislegt sem gott er, séu jafnvel hættulegir bæði lýðræði og skapandi hugsun, enda þótt þeir séu til margra hluta nytsamlegir og umfram allt: Skemmtilegir (annars væri enginn á þeim).

Stórskemmtilegir — og fá mig reglulega til að rifja upp hina ágætuAmusing Ourselves to Death eftir Neil Postman.

En hvaða ljóðskáld hæfir þig alltaf í hjartastað?

Þorsteinn frá Hamri. Síðustu ár hef ég í rólegheitum verið að þýða argentínska stórskáldið Alejöndru Pizarnik. Hún er svona uppgötvun löngu síðar, það bar lítið á henni meðan hún lifði (til 1972) en nú er hún á allra vörum í hinum spænskumælandi heimi. Reynar hæfir hún mig mjög í hjartastað og ég get ekki verið við þessar þýðingar lengi í einu, hún er svo biksvört. Bandarískur útgefandi hennar sagði mér að þeir sem hefðu spreytt sig hefðu hver og einn einasti næstum þurft frá að hverfa vegna þungbærra hugsana, sjálfsvígshugsana. Ráðlagður dagskammtur er sem sé ekki mikill og mér liggur ekkert á.

Ertu sammála því að vélin í gangvirki skáldskaparins sé minnið og því mikilvægt að höfundar reiði sig ekki um of á minnishækjur við skrifin, svo sem sítengingu við netið, og geti flögrað frjálsir um eigin huga með allri þeirri frelsandi gleymsku og glöpum sem jafnan ríða mannshöfði? Eru rangfærslur og misskilningur jafnvel skáldskapnum nauðsynlegt fóður?

Minnið er auðvitað kolómöguleg vél og þarf alls kyns hækjur. Það má sjá Wikipediu stað nokkuð víða og sú heimildavinna er einhvern veginn öðruvísi en heimildavinna með bókum, þetta verður gagnsærra. Maður sér þetta líka í sjónvarpsefni; ég hef verið að horfa á þá frábæru þætti Elementary á Netflix og stundum er neyðarlegt hvernig litlir fróðleiksmolar koma augljóslega beint af netinu, í gegnum handritshöfundinn og í munninn á Sherlock Holmes sem á að hafa þetta allt í kollinum. Ég held að það sé vert að skrifa með penna og nota minniskompur alla vega að einhverju leyti við skáldskaparskrif. Samband líkamans við textann verður allt annað þegar skrifað er með penna, það er líkamlegur verknaður að skrifa með penna og sá verknaður hefur líka annað samband við minnið en skrif á tölvu með aðstoð netsins.

Þú hefur löngum laðast að spænskum bókmenntum, ekki satt? Hvað finnurðu þar?

Sumt af því sem ég er hrifnastur af í spænskum bókmenntum eru hreinræktaðar héraðsbókmenntir frá Galisíu. Þaðan var stutt til Parísar í heimsmenninguna en fyrir var allskonar furðumenning, nornamenning, galdrar, þjóðlegir kenjar. Blandan af módernisma og þessu er svo ofboðslega fín. Margt af því sem ég er hrifnastur af er frá Suður-Ameríku, oftast kannski Argentínu þar sem var ótrúlegur suðupottur á síðustu öld. Það nýjasta er nýútkomin bók eftir Samöntu Schweblin sem heitir Bjargfæri (titillinn minnir mjög á bók eftir mig, Bjargræði, en hann er þýðandans, Jóns Halls bróður míns, sem fékk góðfúslegt leyfi hjá mér einfaldlega vegna þess að þetta var besta lausnin á merkingu titils á frummáli). Ég ataðist töluvert í að fá þessa bók útgefna, það vildi þannig til að við bræður fengum samtímis þá hugmynd að þýða hana án þess að vita af hugmynd hins. Ég vék eins og yngri bróður sæmir. Samanta kom á bókmenntahátíð og við héldum sameiginlegt útgáfupartý, með brúðuleikhúsi, upplestri og ekki síst Megasi og hljómsveit, mér fannst þetta algerlega frábært útgáfuteiti. En Samanta Schweblin er eiginlega eitthvert alstærsta nafnið í bókmenntum hins spænskumælandi heims í dag. Þetta er ansi svört bók. Hún hefur einstakt lag á hinu ósagða. Gefur mátulega litlar upplýsingar — það verður ansi hrollvekjandi, nístir mann. Kannski er þetta einmitt svipuð blanda af nútímaskáldskap og þjóðlegum kenjum og heillar mig við galisískan héraðsmódernisma. Í það minnsta finnst mér Samanta Schweblin vera eitt af því merkilegasta sem er að gerast í bókmenntum heimsins í dag.

Hvaða lykt fyllir þig fortíðarþrá og hvers vegna? Fyllir einhver þefur þig alveg sérstakri skelfingu?

Lyktin af tartalettum er góð. Þá langar mig til ömmu minnar sem hafði þær um jólin. Sama má segja um steikta rauðsprettu. Stundum finn ég ávæning af ofboðslega megnri og sérstakri lykt sem barst úr lestinni á loðnuskipi lengst norður í höfum sem ég var háseti á eftir að loðnan var orðin dragúldin. Hún fyllir mig dálítilli skelfingu vegna þess að hvort tveggja kviknaði í skipinu svo það næstum sprakk og svo var það næstum sokkið. Loks varð það vélarvana. Stundum berst þessi lykt með vindinum. Ég veit ekki hvaðan.

Ertu ánægður með nýju bókina þína? Hvernig vonastu til að henni verði tekið?

Já, ég held að ég sé bara ansi ánægður með hana. Ég vonast auðvitað til að henni verði tekið vel og ég hef fengið mjög góð viðbrögð. Það er kannski alltaf hætta í samtímanum að fréttapunktur yfirtaki viðtökur á bók, ég hef verið spurður mikið út í einn textann, „Vitaverðir rjúfa þögnina“. Það er marglaga texti, ekki einvíður. Það verða stundum til miklar umræður um bók sem fólk hefur ekki lesið. Það er kannski ekki það vitrænasta en ég er ekkert að kvarta.

Hefur fólk í litlu samfélagi eins og Íslandi tilhneigingu til að hampa bragðdaufu en samþykktu miðjumoði, t.d. í bókmenntum — verkum sem þeim, sem hrósinu útdeilir, stendur sjálfum lítil ógn af — og forðast að draga það sem raunverulega sker sig úr, er bitastætt og dýrmætt, um of fram í dagsljósið, af ótta við að slík aðgerð kynni að afhjúpa viðkomandi (þann sem hrósar) sem einmitt en einn meginstraumsfiskinn, jafnvel einungis pósufiman loddara?

Transgressívar bókmenntir eru kannski ekki beinlínis í algleymingi á Íslandi í dag. Þá er öruggast að hampa því sem ekki ögrar nema mátulega mikið, því sem ýtir á réttu takkana. Eftir að kommúnisminn féll fögnuðu menn ákaflega, meðal annars vegna þess að nú væri ritskoðun bókmennta úr sögunni, þeirrar sem sópaði m.a. Meistaranum og Margarítu út af sviðinu. Á þeim tíma tók ég svolítið viðtal við Álfrúnu Gunnlaugsdóttur (sem aldrei birtist). Hún varaði við því strax þá að menn skyldu kannski ekki fagna um of og ekki gerast of hróðugir, það væri ekki öruggt að kapítalisminn reyndist ekki jafn harður eða harðari húsbóndi þegar upp væri staðið, þótt hann notaði allt aðrar aðferðir og væri ísmeygilegri. Annars var ég fyrst núna að koma mér að því að lesa Ég er sofandi hurð eftir Sjón og er ansi hrifinn. Ritskoðunin sigrar sannarlega ekki alltaf.

Ég rak mig á það, þegar ég var að fara yfir útgáfulistann þinn, að ég virðist oftar en ekki hafa lesið verk þín í flugferð: Ég gleypti Hælið í mig í flugi til Frakklands, þýðingu þína á Fásinnu eftir Horacio Castellanos Moya las ég í flugvél á leiðinni til Íslands (og fannst ég hafa himin höndum tekið) og Bjargræði las ég einu sinni á leiðinni heim til New York. Ætli þetta sé tilviljun? Nýtur maður verka þinna best í háloftunum?

Og ætti ég að þjást af flugskömm? Eigum við öll að skammast okkar sem mest, sem oftast?

Það heitir „flugviskubit“, er það ekki? Ég er ekki sannfærður um að flugviskubitið muni vera það sem sigrar loftslagsvandann. Það fá ekki nógu margir nógu mikið flugviskubit. Að flokka plast? Er það mikið meira en örlítið viðleitni eða í versta falli friðþæging smáborgarans? Það eina sem getur spornað við vandanum eru stórfelldar stjórnvaldsaðgerðir. Mér er til efs að framtíðin beri annað í skauti sér en kvóta á flug. Í ljósi þess að stjórnvöld heimsins hafa ekki veitt miklu fé í að finna upp rafmagnsflugvélar. Nú mótmæla börn fyrir utan Alþingi á föstudögum. Vel að merkja fyrir utan Alþingi, ekki á bensínstöðvum eða flugvöllum. Hvað merkir það? Hlýtur það ekki að fela í sér beiðni um sterkt ríkisvald? Á loftslagsráðstefnum kemur alltaf upp það vandræðalega andartak þegar einhver bendir á að Kína hefur tekið forystuna í loftslagsmálum. Kína er alræðisríki. Grenndarkynning í lýðræðisríki felur í sér samtal og samráð við haghafa og allt það. Grenndarkynning í Kína felur í sér að yfirvöld segja plastpokaframleiðandanum bara að nú sé hann hættur þeirri framleiðslu. Ef hann ekki hlýðir því er hann bara settur í fangelsi eða skotinn. Það er mjög effektív grenndarkynning að skjóta fólk. Í norrænu þingunum er núna rætt um að gefa umhverfisráðherrum miklu meira vald en áður hefur verið, kannski ekki alræðisvald en vald til að taka fram fyrir hendurnar á öðrum ráðherrum þegar eitthvað liggur fyrir sem eykur loftslagsvandann. Auðvitað má fólk hafa flugskömm, ég tala nú ekki um þegar það flýgur mörgum sinnum á ári til þess eins að taka þátt í ráðstefnum um loftslagsvandann — og það jafnvel á einkaþotum — og sér ekkert athugavert við þetta, óskar sér bara hjartanlega til hamingju með hugsjónastarfið. En flugviskubitið leysir ekki vandann. Sjálfur flýg ég reyndar sáralítið en kannast vel við hvað það er gott að lesa í flugvél, það stafar ekki síst af því að þá er slökkt á netinu. En ég vona að það sé hægt að njóta bóka minna á jörðu niðri líka, að þær feli kannski í sér eitthvert flugtak sjálfar.

Já, það er gott að lesa í flugvél — en best er reyndar að lesa í lest. Og ég vona að lesendur hafi notið þess að þræða sig í gegnum þetta spjall okkar, kæri Hermann (og hafi jafnvel gert það í lest) og svo óska ég þér alls hins besta. Hjartanlega velkominn í ráðuneytið.

 

Bækur, 10. maí 2019

Hef verið að lesa bókina The Great Reframing eftir listmarkaðsbloggarann Tim Schneider síðustu daga. Bókin fjallar um þau áhrif sem tæknibreytingar hafa á listmarkaðinn og er í senn gott yfirlit fyrir þá sem hafa áhuga á myndlist og þá sem hafa áhuga á tækni. Mér finnst hann líka varpa ansi góðu ljósi á stöðu listmarkaðarins í dag. Kjarni bókarinnar fjallar um þá þversögn að tækniframfarir síðustu ára hafa það markmið að gera allt eins aðgengilegt og gegnsætt og mögulegt er á meðan listmarkaðurinn er í eðli sínu eins ógagnsær og óaðgengilegur og hugsast getur. Þegar þessir heimar koma saman gerist óhjákvæmilega eitthvað furðulegt. Hér er góð athugasemd um þennan forvitnilega bransa:
“As the iconic postwar gallerist Leo Castelli explained in 1966:   Why should anyone want to buy a Cézanne for $800,000? What’s a little Cézanne house in the middle of a landscape? Why should it have value? Because it’s a myth. We make myths about politics, we make myths about everything. I have to deal with myths from 10 a.m. to 6 p.m. every day… My responsibility is the myth-making of myth material—which handled properly and imaginatively, is the job of a dealer—and I have to go at it completely. One just can’t prudently build up a myth.” (KF.)


Óskalistinn:

Dyr opnast, kímerubók eftir Hermann Stefánsson, er komin út. Hér má lesa stutt viðtal við höfundinn. (SN.)

Socrates in Love er titill sem myndi líklega aldrei vekja áhuga minn ef ekki væri fyrir það eitt að Nassim Taleb, uppáhalds hugsuðurinn minn, mældi með þessari nýútkomnu bók á Twitter um daginn. Svo þegar ég kynni mér hana nánar þá sé ég að hún er býsna áhugaverð. Í stuttu máli fjallar hún Sókrates og uppruna hans.

Miðstöð íslenskra bókmennta tilkynnti á dögunum úthlutun þýðingarstyrkja. Margar spennandi bækur væntanlegar á þeim lista. (KF.)

 

Af netinu, 10. maí 2019

Skemmtileg grein um Ólaf Elíasson og það hvers vegna hann er svona góður listamaður.

Góð grein um annan góðan listamann.

Hér skrifar bókagagnrýnandi og blaðamaður um hversu erfitt það er að hafa í sig og á með því að skrifa í dag.

Forvitnileg tölfræði um hátt hlutfall kvenna í íslenskum háskólum.

Mjög fyndin grein hér. Ljóðskáld viðurkennir að geta ekki svarað krossaspurningum um eigin ljóð.

Viðtal við Björk í New York Times.

Hvað eru skrif? Góð spurning.

Þvert á það sem margir halda þá ráða stórfyrirtæki ekki lögum og lofum í bandarískum stjórnmálum. Þessu heldur einn hlekkjaðasti greinarhöfundur Leslistans fram í góðri grein.

Aðalfundur Berkshire Hathaway – fjárfestingafélags öldunganna Warren Buffet og Charlie Munger – fór fram fyrir nokkrum dögum. Af því tilefni las ég aftur þessa grein um speki hins síðarnefnda. (KF.)

Virkilega flott umfjöllun, um hægan dauða verksmiðjubæjarins Lordstown í Bandaríkjunum. Sá má muna fífil sinn fegri.

Einu sinni hélt mannkynið að við gætum ekki rústað jörðina – hún væri einfaldlega of stór. Það var rangt. Nú vilja sumir færa stóriðnað til tunglsins. Við getum ekki rústað geiminn – hann er of stór, segja menn. Ætli okkur skjátlist?

Einu sinni, endur fyrir löngu, voru The Paris Review-viðtölin öll aðgengileg ókeypis á vefsíðunni þeirra. Þá las ég þau næstum öll, enda um frábært efni að ræða, og skemmtileg hvernig oft tekst að kjarna hugmyndir og persónu höfundanna á hnitmiðaðan hátt. Á hinum síðustu og verstu er vefsíðan læst öðrum en áskrifendum, en þau opna reglulega fyrir eitt og eitt gamalt og gott viðtal, nú síðast þetta hér, við séníið Iris Murdoch.

Bendi svo loks á Samráðsgáttina. Verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun óskar eftir umsögnum um landsrýniskýrslu (e. Voluntary National Review) um innleiðingu Íslands á heimsmarkmiðunum. Sauðsvartur almúginn getur sent inn athugasemdir við staka kafla eða skýrsluna í heild – þar með talið þú. Gott til að dunda sér við þetta á síðkvöldum. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Hér er skrifað um Joni Mitchell og farið yfir feril hennar með því að spá í 33 lög eftir hana. Væri til í að sjá mun fleiri svona yfrlitsgreinar um listamenn. Einfalt en áhrifaríkt módel.

Myndi segja að þetta væri eitt besta viðtal sem ég hef hlustað á á árinu. Ég veit að allir eru komnir með leiða á Karl Ove Knausgård – en þetta viðtal er vel hlustunar virði hvort sem þú hatar hann eða elskar. (KF.)

David Wallace-Wells sendi frá sér eina umtöluðustu bók síðustu mánuða, The Uninhabitable Earth. Sú mynd, sem hann dregur upp af framtíðinni, er ekki björt og aðlaðandi. Hér er Wallace-Wells í ágætu spjalli við Longform-hlaðvarpið.

Og ef þú vilt enn fræðast um loftslagsbreytingarnar: BBC gaf nýlega út klukkustundarlanga heimildarmynd með Íslandsvininum David Attenborough, Climate Change – The Facts. Síðast þegar ég vissi hafði einhver réttsýnn jarðarbúi hnuplað henni af BBC-vefnum og lætt inn á YouTube svo að fólk úr öðrum heimshlutum en Bretlandseyjum gæti horft. (SN.)

Ráðunautur Leslistans: Kristinn Árnason

Kristinn Árnason er mörgum gáfum gæddur; ein þeirra skín skært í greiðu aðgengi hans að skáldskaparæðinni: ljóðinu. Nýlega gaf hann út falleg verk, Regntímabilið, sem hér má panta beint frá býli. Við Kristinn tókum okkur á víxl stuttar pásur frá fjörugu barnauppeldi og alls kyns daglegu amstri og skiptumst á hugleiðingum um lífið, listina og austræna speki. Það er einhver yfirvegaður og eftirsóknarverður tónn í rödd Kristins, kærkomið og þarft mótvægi við háreysti

– Sverrir Norland

Sverrir Norland: Kæri Kristinn, hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans og innilegustu hamingjuóskir með nýju ljóðabókina þína,Regntímabilið.

Til að hefja leik: Mér þætti vænt um það ef þú uppfræddir okkur aðeins um bókina?

Kristinn Árnason: Bókin er sprottin úr nokkurra ára tímabili í lífi mínu sem einkenndist af líkamlegum veikindum og í raun upplausn í sálarlífinu. Ég varð alvarlega veikur árið 2008, þegar ég var 27 ára og starfaði í útrásarteymi í íslenskum banka sem stefndi í þrot. Ég lét af störfum sumarið fyrir hrun því ég var farinn að þjást af alvarlegum sjóntruflunum, alls konar óútskýrðum verkjum og þrekleysi, höfuðverkjum og meltingarvandræðum, og svo framvegis. Og við tók þetta einkennilega tímabil umbrota sem bókin talar úr og fær heitið Regntímabilið. Aftast í bókinni er smáljóð eða textabútur sem ber þennan titil og smám saman varð það að viðeigandi nafni á bókina og þetta tímabil.

Þetta er ferðasaga en að forminu til er þetta ljóðabók. Skýringin á greininum í undirtitlinum, þ.e. „Ljóðabókin“, er sú að bókin á sér systurverk í lengra formi ferðasögu eða eins konar sjálfsögu. Það er annars lítið um tilraunir með form í bókinni sjálfri, ljóðin eru í ólíkum og frjálsum formum. Helsta formtilraun verksins er í raun upplýst með greininum í undirtitlinum.

Hvaða ljóðskáld, eða aðrir höfundar, eru í uppáhaldi hjá þér? Voru einhverjir þeirra þér til halds og stuðnings við skrif Regntímabilsins?

Um miðbik þessa tímabils, árin 2010 til 2012, bjó ég í Stokkhólmi. Ég var enn ómögulegur í augunum og líkamanum og varði tíma mínum m.a. í að ganga máttfarinn og verkjaður milli garða og kaffihúsa borgarinnar, sat inni í kirkjum og undir trjám og reyndi að hætta að hugsa. Ég var að vinna að einhvers konar núllstillingu, heilsunnar vegna. Og í Stokkhólmi er mikið af stórum trjám sem voru alltaf nálæg á ferðum mínum um borgina. Ég fór að gefa þeim mikinn gaum og á þessum tíma lærði ég loksins að horfa á tré. Að horfa á falleg tré er auðvitað eins konar ljóðalestur. Trén voru á bylgjulengd sem átti við kyrrðina sem var byrjuð að gera vart við sig innra með mér í bland við allan óróann. Ætli lauftrén í Skandinavíu séu því ekki bara þau skáld sem höfðu mest áhrif á mig við gerð þessarar bókar, ég myndi giska á það.

Annars varð ég mér líka út um ljóðabækur ýmissa mannlegri skálda eftir því sem augun tóku að róast aðeins og samband mitt við trén batnaði. Heilsan tók að sýna fyrstu merki um afar varfærnislegan viðsnúning og ljóð voru heppileg fyrir augun því þau eru oft frekar stutt! Ég dvaldi lengi við ljóðasöfn súfískra miðaldaskálda á borð við Kabir og Rumi, sem mér fannst hressandi og í þeim heimspekilega anda sem mér fannst skynsamlegur á þessum tíma. Eftir því sem á leið á fór ég svo að geta lesið meira og þá varð ég til dæmis mjög hrifinn af ljóðunum sem Fernando Pessoa skildi eftir sig undir öðrum nöfnum, og las Pablo Neruda og Juan Ramón Jiménez og Rilke, svo einhverjir séu nefndir.

Hvernig barn varstu — dreymið, leitandi, leshneigt, eða hávært, baldið, hugrakkt? Eða kannski þeytingur samsettur úr öllum fyrrgreindum eiginleikum?

Ég var orkumikill en ekkert sérstaklega dreyminn framan af, þótt ég hafi orðið það smám saman eftir því sem ég óx úr grasi. Þessi draumóraárátta er eitt af því sem ég hef þurft að hafa töluvert fyrir að vinda ofan af nú seinna mér. Ég var ekki áberandi listhneigður en mér féll vel við dýr og var viðkvæmur eða næmur á sumt. Eftir að ég byrjaði að geta lesið sjálfur fletti ég mest Atlasnum sem pabbi gaf mér þegar ég varð sjö ára. Af orðunum í spurningunni er „leitandi“ hugsanlega það sem lýsir mér skást sem barni. Annars er ég ekki einu sinni viss um það, og seinna meir hef ég hallast að því að draga sem allra mest úr þessari eilífu leit líka.

Áttu þér gullin trikk til að koma þér í skapandi gír við skrifin? Eða ertu maður hins óvænta, og óútreiknanlega, innblásturs?

Ég myndi segja að hugarástandið sé mér mikilvægast þegar kemur að ljóðum, ég þarf að stilla mig inn á líðandi stund og leyfa huganum að hljóðna svolítið. Ég má ekki vera of upptekinn og ég þarf að hafa næði og tíma til að dvelja einfaldlega við ástandið inni í mér og í kringum mig. Við þær aðstæður þarf oft bara litla kveikju og þá opnast fyrir eitthvað, og kveikjurnar eru alls staðar, allt sem er endalaust að eiga sér stað. Stundum hjálpar mér þó að vera að lesa ljóð frekar en aðra texta, þegar ég er að skrifa eða vinna með ljóð.

Nú veit ég að þú ert maður hugleiðslu og kennir meira að segja jóga. Liggur þráður í gegnum slíka andlega iðkun og skrifin? Eru lestur og skrif hugleiðsla?

Hjá mér liggur þráður þarna á milli já, en þá á ég ekki við neina hugmyndafræði heldur kannski einkum áhersluna á ástand vitundarinnar og vissa innhverfni, að huga að jarðveginum og hreinsa hann eftir fremsta megni, svo maður verði móttækilegur fyrir einhverju sem er ekki bara manns eiginn hugarburður. Að rækta með sér næmni og vinda ofan af hlutunum frekar en að blása sig út með hugmyndum og sjálfsmyndum. Í mörgum austrænum hefðum er þessi áhersla á skynjun og að læra að horfa á hlutina milliliðalaust og án orða. Ég velti þessu oft fyrir mér í sambandi við ljóðlistina. Það er ekki að ástæðulausu að mörgum ljóðskáldum er tíðrætt um þögnina og mikilvægi þess að geta sleppt því að nota orð þegar við horfumst í augu við hlutina. Ég hugsa að ég hefði ekki farið að skrifa ljóð hefði ég ekki þagnað svolítið hið innra fyrst. Allavega hugsa ég að hjá mörgum skáldum komi þögnin fyrst, svo ljóðið. Varðandi spurninguna um hvort lestur og skrif séu hugleiðsla mundi ég telja það afar misjafnt, en hvort tveggja býður upp á þann möguleika þegar best lætur.

Fyrst austræna speki ber á góma: Ég er staddur í Japan, mun eyða hér stórum hluta sumars og hef af því tilefni aðeins reynt, af veikum mætti, að setja mig inn í japanska hugsun (sem er ekki alltaf auðvelt vestrænu fólki). Eitt sem situr í mér: fegurð í gerð hluta er þegar notagildi og útlit fara saman. Þetta tvennt er raunar óaðskiljanlegt: fallegt áhald er líka ákjósanlegt verkfæri, ekki aðeins skrautmunur. Þetta stríðir í raun þvert á hugmyndafræði síðkapítalismans, sem reynir sífellt að búa til gerviþarfir og selja okkur gagnslaust skran eða skammlíft fjöldaframleiðsluvíl, breyta okkur í ósjálfbjarga neytendur söluvarnings. Nýjustu atlögunni virðist svo stefnt gegn hugum okkar og innra lífi: þú ert ekki til nema þú varpar daufri eftirmynd af þér inn í forrit gegnum raftæki undir vökulu eftirliti stjarnfræðilega auðugs stórfyrirtækis. Og þetta samþykkjum við, kannski vegna þess að fagurfræði samtímans — hugmyndir okkar um fegurðina, ef einhverjar eru — hafa beðið (furðu mótþróalausa) hnekki. Þetta umhverfi hampar ekki sjálfstæðri hugsun — einstaklingum, lesendum — heldur býflugnabúskrafti læksins. Fjöldasamþykkisins. Andhverfu bókmenntanna.

Getur verið að fegurð bókmennta rýrni í þessu staðlaða umhverfi stafrænunnar, sem útskýrir að nokkru yfirstandandi krísu fagurbókmennta og hugarspunnina frekar staðreyndadrifinna skrifa?

Og skiptir útlit bókmennta máli? Pappír vs. raf, og svo framvegis.

Nú vekurðu hjá mér töluverða löngun að vera í japanskri sveit. En jú, það er margt bogið við það hvernig tæknin neyðir okkur til lags við allt mögulegt sem við ættum helst að hlaupa í burtu frá. En hugur mannsins hefur kannski aldrei verið sérstaklega frjáls frá umhverfi sínu, þannig að það vandamál er eftir sem áður af sambærilegum toga og áður, hugsa ég, fyrir hvert og eitt okkar.

Og ég veit ekki með áhrif alls þessa á fegurð bókmennta. Ég er ekki viss um að vaxandi aðdráttarafl staðreyndadrifinna skrifa, svokallaðra, sé eitthvað sem ætti að líta á sem eitthvað andstætt fagurbókmenntum sérstaklega. Þetta er að vissu leyti þróun sem sumir spekingar kölluðu eftir fyrir löngu síðan, fyrir fagurbókmenntirnar. Svo eru mörkin í þessu öllu svo óljós og það er ekkert nýtt. Maður situr uppi með sjálfan sig. Mér finnst áhugavert verkefni að setja staðreyndadrifin skrif í fagurfræðilegan búning, ég get sagt það. Í ljóðum fást sumir við það.

Varðandi pappír og útlit bóka. Já, og Japan. Mér finnst góð endurskilgreiningin á efnishyggju, sem bendir á hefðir í zen búddisma, um að raunveruleg efnishyggja snúist um að hlúa vel að efninu og nýta það vel. Við verðum bersýnilega öll að fara í þá áttina, og þetta er jú allt orðið ansi brýnt, þetta með meðferð okkar á efninu, og það verður áhugavert að sjá hver áhrif alls þessa verða á bókmenntirnar. Bækur hafa auðvitað þann stóra kost að vera áþreifanlegar.

Einmitt — og áþreifanleikinn er vanmetinn. Og vanmetum við ekki líka — þjökuð af kvíða og minnimáttarkennd, þunglyndi og framtíðarbeyg — notagildi hins hægláta miðils sem prentaða ljóðabókin t.d. er? Ég yrki ljóð, og teikna, langoftast fyrir sjálfan mig: til að reyna að sjá veröldina betur sjálfur, án rafknúinnar hækju. Og mér finnst það hjálpa mér. Og mér finnst hjálpa mér að lesa ljóð, af pappír. Getur verið að í alltumlykjandi andapotti tækninnar fljóti hvergi lausn hinna mörgu aðstenjandi vandamála mannkyns — hrun náttúrunnar, hnignandi virsmunalíf og svo framvegis — heldur einmitt sjálf rót vandans?

Mig grunar — ég óttast — það.

En kærar þakkir fyrir spjallið, Kristinn Árnason. Ég hlakka mikið til að fá áþreifanlega útgáfu af Regntímabilinu í hendurnar (ég á nú þegar eitt sem bíður mín í Reykjavík).

Bækur, 3. maí 2019

Eru hlutir ekki fallegir þegar útlit og notagildi fara saman? Í The Beauty of Everyday Things (þýðing úr japönsku) skilgreinir Soetsu Yanagi japanska hugtakið mingei – ekki auðvelt verk, líkt og gildir um svo mörg japönsk hugtök – svo að það nái yfir fallega og einfalda hluti sem tilheyra alþýðlegu handverki og hafa hagnýtt notagildi.
One essential feature should be that the objects honestly fulfil the practical purpose for which they were made. In contrast, look at the machine-made objects that inundate our lives in recent years, which have fallen victim to commercialism and the profit motive, usefulness shunted aside. Among these objects ostenisibly made for practical use, there are many that are nothing more than frauds and fakes, displaying no attempt at honest usability.
Þegar ég las fyrrfarandi orð varð mér hugsað til greinarkorns, sem ég birti um daginn á Stundinni, og fjallaði meðal annars um þáttinn „Heimsókn“, þar sem gægst er inn í heimkynni valinkunnra Íslendinga. Ég hafði ekki náð að færa í orð, almennilega, hvað sló mig við að renna hratt í gegnum nokkur myndskeið með leiftrum frá ólíkum heimilum – og hvers vegna ég kom sjaldan auga á nokkra fegurð – en nú get ég það. Útlit og notagildi ættu að fara saman; það hefur mér alltaf fundist. En við, í okkar útlitsmiðaða heimi, leggjum langmesta áherslu á hvernig hlutirnir líta út og hvernig við komum fyrir; oft er notagildið aukaatriði, og jafnvel hverfandi – ekkert. Og hvað verður þá um fegurðina? Hún gufar líka upp og eftir stendur ekkert nema grafhýsi. Þess vegna fyllist ég líka ævinlega hryggð þegar ég sé bækur sem fyrst og síðast eru stofustáss til útstillingar, ljósmyndadoðrantar á kaffiborði og svo framvegis; hlutir þarfnast þess að eiga sér tilveru og hlutverk, rétt eins og við mannfólkið, eigi fegurð þeirra (og okkar) að koma fram. Ég mæli með ofannefndri bók, sem er þýð og greið lesning og tekur fyrir fjöldamörg japönsk hugtök, sem flest, ef ekki öll, ættu að vera samfélagi Leslistans nokkuð framandi.

Það kom flatt upp á marga nú í vikunni þegar Ian McEwan, breskur rithöfundur, hlaut alþjóðleg bókmenntaverðlaun sem kennd eru við Halldór Laxness. McEwan er á bókatúr um Bandaríkin, til að kynna nýjustu skáldsögu sína, Machines Like Me, og gat því ekki veitt verðlaununum viðtöku; ófáa grunaði að hann hefði raunar aldrei heyrt Halldórs Laxness getið fyrr en honum hlotnaðist áðurnefnd vegsemd. En hvað um það, eflaust er hinum alþjóðlegu verðlaunum ætlað að auglýsa HKL og halda nafni hans á lofti utan landsteinanna, og er það ekki bara gott og blessað? McEwan finnst mér vera höfundur yfir meðallagi – skrítin blanda af reyfarahöfundi, vísindagrúskara og tólf vasaklúta-eldhússrómansaskáldi – og ég ákvað að gera heiðarlegu atlögu við áðurnefnda skáldsögu, Machines Like Me. Sú gerist í alternatífri útgáfu af níunda áratuginum á Englandi og fjallar um hálfgert dauðyfli sem, af heldur óljósum ástæðum, ákveður að spandera nýfengnum peningaarfi í glænýja tegund af vélmenni. Smám saman kviknar ástarþríhyrningur á milli okkar manns, konunnar í lífi hans (sem er líka mikið dauðyfli) og vélmennisins (almesta dauðyflið). Skrítin bók. Þunglamaleg og hæg, og það örlaði lítt á frumlegum pælingum um þó áleitið svið: samskipti manna við tæknina. Mig langaði að sökkva inn í söguna en hið lífræna/rafknúna tríó vakti bara einhvern veginn engan áhuga hjá mér; loks lagði ég bókina því frá mér guðslifandi feginn, þá aðeins hálfnaður gegnum hana. Mæli frekar með t.d. The Comfort of Strangers, annarri skáldsögunni McEwan, eða Friðþægingu, sem til er í íslenskun Rúnars Helgis Vignissonar (sem greinilega er iðinn við kolann og skýtur hér öðru sinni upp kollinum í Leslista #63). Kannski breytist skoðun mín á Vélmennum af mínu sauðahúsi ef ég í angist minni og örvæntingarfullri leit eftir hugarfóðri manna mig einn góðan veðurdag mig upp í að lesa seinni hálfleikinn… (SN.)


Óskalistinn:

Forlagið tilkynnti nýlega um sigurvegara í handritasamkeppni sinni „Nýjar raddir“. Sá sem hlaut verðlaunin þetta árið heitir Birnir Jón Sigurðsson fyrir smásagnasaafnið Strá sem hægt er að nálgast hér.

Why Culture Matters Most er bókartitill sem vekur strax áhuga minn. Bókin fjallar um menningu sem lím og drifkraft allra samfélaga. Mjög mikilvæg umræða að mínu mati. (KF.)