Allt efni

Bækur, 11. janúar 2019

Þann 23. júní 1802 gerði prússneski náttúruvísindamaðurinn og landkönnuðurinn Alexander von Humboldt sér lítið fyrir og kleif ásamt fylgdarliði sínu upp Chimborazo, óvirkt eldfjall sem tilheyrir Andes-fjallgarðinum og var á þeim tíma talið hæsta fjall í heimi, tæpur sex og hálfur kílómetri. Aldrei fyrr hafði nokkur lifandi maður komist svo hátt til himna, andað að sér svo þunnu lofti. „Sem hann stóð á tindi veraldarinnar og virti fyrir sér fjallgarðinn sem teygði úr sér fyrir neðan hann, tók Humboldt að líta heiminn nýjum augum. Hann skildi að jörðin er ein stór lífvera þar sem allt tengist innbyrðis, og sló þar með tóninn fyrir nýja náttúrusýn sem mótar enn þann dag í dag hvernig við skynjum hinn náttúrulega heim.“

Þessi orð, hér í frekar lélegri þýðingu minni, eru tekin úr The Invention of Nature: Alexander von Humboldt’s New World eftir Andreu Wulf. Humboldt var af samferðamönnum sínum lýst sem frægasta manni í heimi á eftir Napóleon. Hann fæddist árið 1769 inn í prússneska aristókratafjölskyldu, en gaf forréttindalífið upp á bátinn og lagðist í flakk til að læra hvernig heimurinn virkaði. Ungur að árum hélt hann í fimm ára rannsóknarleiðangur um Suður-Ameríku og lenti oft í bráðum lífsháska, en uppskar fyrir vikið dýpri skilning á náttúrunni og í kaupbæti frægð um víða veröld. Hann var í miðpunkti vísindastarfs síns tíma, mikilsvirkur bréfritari og afkastamikill höfundur, og leit svo á að þekking ætti að vera öllum aðgengileg. Bækur Humboldts komu út á fjölmörgum tungumálum og voru svo vinsælar að ákafir lesendur mútuðu bóksölum til að tryggja sér fyrstu eintök; engu að síður dó Humboldt bláfátækur maður. Hann var annálaður fyrir þekkingu sína og vísindaleg vinnubrögð, en hélst þó sjaldan lengi við í vinnustofu sinni innan um bækur, vildi heldur þeysast um fjöll og firnindi, láta reyna á líkamlega getu sína. Vitaskuld mætti greina og analýsera fyrirbæri í náttúrunni, sagði hann, en ekki væri þó síður mikilvægt að kynnast náttúrunni milliliðalaust með skynfærum sínum og tilfinningum. Markmið Humboldts var að vekja með fólki ást á náttúrunni – nokkuð sem ekki er vanþörf á í samtímanum.  

Humboldt kemur einnig við sögu í einni af betri skáldsögum úr penna mikils eftirlætishöfundar hjá mér, hins argentíska César Aira: An Episode in the Life of a Landscape Painter. Þar sendir Alexander von Humboldt landslagsmálarann Johann Moritz Rugendas (1802-1858) í leiðangur um Suður-Ameríku, tilgangurinn að fanga stórbrotið landslagið þar á mynd. Á ferðum sínum um Argentínu verður Rugendas fyrir eldingu og kemst við illan leik aftur til byggða; slysið gerbreytir því hvernig hann man landslagið sem hann hefur verið að skoða. Aira hrærir saman sagnfræði, heimspeki og skáldskap í afar sérkennilegri, ljóðrænni og eftirminnilegri bók. (SN.)

Í vikunni hlustaði ég á magnað viðtal við stríðsfréttaritarann og rithöfundinn Sebastian Junger í uppáhalds hlaðvarpinu mínu, Econtalk. Viðtalið fjallaði um stutta bók sem hann hafði skrifað um áfallastreituröskun (e. PTSD) sem hann þjáðist sjálfur af eftir að hafa skrifað um stríðið í Afganistan. Bókin, sem heitir Tribe: On Homecoming and Belonging, fjallar samt í raun og veru um hvað nútímasamfélag hefur einangrað fólk í hinum vestræna heimi og hvað það er hægt að rekja mörg vandamál til þessarar einangrunar. Ég ákvað í kjölfarið að lesa þessa bók og var býsna hrifinn af henni. Að mörgu leyti kallast hún á við bjartsýnispostulana sem ég nefndi í hlekkjahlutanum hér að ofan. Á alla mögulega mælikvarða virðist heimurinn vera snúast til betri vegar, við erum ríkari, þjáumst af færri sjúkdómum og ofbeldi virðist vera á undanhaldi. Þrátt fyrir þetta erum við þunglyndari og sjálfsmorðstíðni hefur aukist. Mér finnst þessi bók komast ansi nærri því að útskýra þessa skrítnu þversögn. (KF.)

Ég er að fara í gegnum skeið þar sem ég fæ ekki nóg af verkum Patriciu Highsmith, þess fáláta sénís. Í ævisögu um hana, Beautiful Shadow: A Life of Patricia Highsmith eftir Andrew Wilson, er lýst atviki sem varð henni efniviður í skáldsögu um lesbískar ástir, The Price of Salt (1952, undir dulnefni), endurútgefinni árið 1990 undir réttu nafni höfundarins, sem Carol (nýlega var gerð eftir bókinni ágæt kvikmynd). Highsmith starfaði um skeið sem sölustúlka í Bloomingdale’s, og í desember 1948 kemur inn í búðina heillandi og fáguð ljóshærð kona í minkapels og kaupir handa dóttur sinni snotra dúkku, skráir niður heimsendingarupplýsingar. Highsmith fellur kylliflöt fyrir konunni við fyrstu sýn, og einu og hálfu ári síðar, að sumarlagi 1950, tekur hún meira að segja lest frá Penn Station, í New York, að heimili konunnar í New Jersey, þar sem hún sér henni aftur bregða fyrir. Í kjölfarið ritar höfundurinn ungi í dagbók sína: „Það var einkennilegt, en í gær fannst mér ég vera fær um að fremja morð, þegar ég fór að sjá konuna sem fangaði næstum hjarta mitt þegar ég sá henni bregða fyrir í desember, 1948. Morð felur í sér eins konar ástaratlot, yfirtöku. (Nær morðinginn ekki, í eitt augnablik, fullkominni og ástríðufullri athygli viðfangs síns?) Að þrífa skyndilega til hennar, hendur mínar grípa um hálsinn (sem ég þrái í raun að kyssa) og það er eins og ég sé að taka ljósmynd, geri konuna samstundis nákalda og stjarfa sem styttu.“

Þessi hugmynd – að morð sé náskylt ástaratlotum og feli yfir sér eins konar yfirtöku á líkama og sál fórnarlambsins – gengur eins og rauður þráður í gegnum eitt þekktasta verk Highsmith, skáldsöguna The Talented Mr. Ripley. Hinn ungi og munaðarlausi Tom Ripley myrðir ungan og efnaðan félaga sinn og (til skamms tíma) sambýling, Dickie, sem nýtur fjárstuðnings úr foreldrahúsum og hefur sest að á Ítalíu, þar sem hann dundar sér við að mála landslagsmyndir, án þess þó að státa af sérstökum hæfileikum á því sviði, og í framhaldinu tekur Ripley svo yfir persónu Dickeys, bregður sér í gervi hins látna og teymir alla á asnaeyrum. Fáir eru jafn flinkir í að magna upp draumkennda ógn, ávanabindandi spennu og Highsmith, og ég mæli sannarlega með þessari skáldsögu. Bækurnar um Tom Ripley eru samtals fimm talsins: lestu þær allar. (SN.)


 

Óskalisti Leslistans:

  

Ég sá nýlega mælt með bókinni Mannlíf milli húsa eftir danska arkitektinn Jan Gehl í nýrri þýðingu Steinunnar Stefánsdóttur. Lítur út fyrir að vera forvitnileg umfjöllun um arkitektúr og borgarskipulag sem mér finnst líklegt að ég lesi. (KF.)

Og svo er komin út ný skáldsaga eftir vitsmunaprakkarann Michel Houllebecq: Sérotonine. Hlakka til að lesa hana. (SN.)

 

Af netinu, 11. janúar 2019

Ég hef gaman af kommúnistatímaritinu bandaríska Jacobin þrátt fyrir að vera býsna langt frá því að geta talist vinstrisinnaður sjálfur. Fannst þess vegna áhugavert að lesa þessa fínu grein um tímaritið og stofnanda þess.

Hér er viðtal við bjartsýnispostulann Steven Pinker þar sem hann svarar m.a. gagnrýnendum sínum. Hann gerir það frekar illa að mínu mati, en dæmi hver fyrir sig.

Að öðrum bjartsýnispostula. Matt Ridley er rithöfundur sem ég hef ekkert sérstaklega gaman af en mér fannst þessi pistill hans (sem er mjög í anda bókarinnar Factfulness sem ég fjallaði um í árslistanum okkar) nokkuð fínn. Hann fjallar um af hverju fólk, og þá sérstaklega fjölmiðlar, heillast svona mikið af svartsýni.

Nokkuð góð grein í New York Times um breyttar siðgæðiskröfur til rithöfunda frá útgefendum.

Mér fannst þetta vera svakalega góð grein eftir Malcolm Gladwell um lögleiðingu maríjúana. Fékk mig til að hugsa tvisvar um þetta hitamál.

Hér eru ágætar skrifráðleggingar frá J.K. Rowling.

Þessi fína grein fer í ágætlega í saumana á verkum Nassim Taleb.

Frábær og ítarleg grein um bandaríska háskóla og af hverju þeir eru svona andskoti dýrir.

Hér er fjallað um nýja bók sem hefur að geyma verk eftir breska listmálarann Lucian Freud sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Annar höfunda þessarar bókar skrifaði líka kraftmikla bók um sama málara sem nefnist Man With a Blue Scarfog fjallar um það þegar hann sat fyrir á mynd eftir hann. Sú bók er ein allra besta bók sem ég hef lesið um myndlist – og ég hef lesið þær ansi margar.

Hér hefur snjall greinarhöfundur tekið saman gagnrýni um klassísk verk á Goodreads og komist að þeirri niðurstöðu að því lengri sem bækur eru – því betri séu þær.

Sálfræðingurinn Judith Rich Harris lést fyrir skömmu og af því tilefni tók gáfumannavefurinn Edge saman nokkrar greinar eftir hana og viðtöl við hana. Hér er mjög forvitnilegt viðtal við hana þar sem hún heldur því fram að foreldrar hafi lítil sem engin áhrif á börn sín.

Fann þessa mögnuðu frásögn frá ungum viðskiptablaðamanni sem glímdi við skæða heróínfíkn samhliða störfum sínum sem blaðamaður. (KF.)

Langar þig að lesa hnitmiðað yfirlit – að minnsta kosti nokkuð hnitmiðað – um fyrri heimsstyrjöldina? Þá er William T. Vollmann, sá yndislega ýkti og öfgakenndi höfundur, þinn maður.

Jón Bjarki Magnússon skrifar góða grein um dapurlega hlið á íslenskum leigumarkaði.
„Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins áætlar að á bilinu fimm til sjö þúsund manns haldi nú til í atvinnu- og iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þar af 860 börn. […] Atvinnu- og iðnaðarhverfi voru ekki hönnuð með íbúabyggð í huga og eru því almennt ekki hentug til búsetu.“

Rakst á þetta skemmtilega spjall, nokkurra mánaða gamalt, við teiknarann flinka, Elínu Elísabetu.

Maður sem starfað hefur árum saman sem penni hjá Sports Illustrated ekur nú á seinni hluta starfsferilisins sendibifreið á vegum Amazon. Tímanna tákn?
„Let’s face it, when you’re a college-educated 57-year-old slinging parcels for a living, something in your life has not gone according to plan.“

Og fyrst Amazon ber á góma: Ættum við öll að gefa skít í gamaldags bókaútgáfur og hverfa á náðir sjálfsútgáfu í faðmi Amazon-báknsins? Eru ritstjórar ekki brátt bara útdauð dýrategund og tilheyra gamaldags bókaforlög ekki eins fljótlega fortíðinni? Ég held ekki – en hitt er þó ljóst, að rithöfundar þurfa að hugsa og skipuleggja útgáfustarf með ólíkum hætti en áður.

Smásaga eftir ungan höfund, Maríu Elísabetu, en hún frumflytur annan hvern föstudag smásögu eða annan frumsaminn texta í morgunþættinum Múslí. (SN.)


Til að hlusta á:


Hér er áhugaverður þáttur af This American Life, „The Room of Requirement“, sem fjallar um bókasöfn. Í fyrsta hluta þáttarins er bókasafn eitt á landamærum Kanada og Bandaríkjanna tekið til umfjöllunar. Þetta er afar óvenjulegt bókasafn að því leytinu til að það tilheyrir, bókstaflega, tveimur löndum: landamærin kljúfa safnið í tvennt. Íranskir stúdentar í Bandaríkjunum hafa að undanförnu nýtt sér þetta safn í óvæntum tilgangi. Í öðrum hluta þáttarins er fjallað um The Richard Brautigan Library Project, sérkennilegt bókasafn sem sprettur beint út úr The Abortion, skáldsögu eftir Brautigan. Mjög skemmtilegt. Vinkona mín, Constance Parpoil, á heiðurinn að þessari fínu ábendingu.

Bækur, 4. janúar 2019

Ég naut lífsins á ströndu við Kyrrahafið yfir jól og áramót, og las nokkrar bækur á milli þess sem ég svamlaði í söltum sjó og át entomatadas.

En finir avec Eddy Bellegueule eftir Édouard Louis lýsir uppvexti höfundar í Hallencourt í Norður-Frakklandi. (Á ensku: The End of Eddy.) Bókin geymir sárar lýsingar á fátækt, ofbeldi, grimmd og angist, og vakti mikla athygli þegar hún kom út í Frakklandi, seldist í hundruðum þúsunda eintaka og hlaut prís og lof. Við vitum hins vegar, kæri lesandi, að fjölmiðlafár og hrós gagnrýnanda er ekki endilega ávísun á gott bókmenntaverk, og þó að umrædd bók sé vissulega lipurlega skrifuð fannst mér fátt við hana sérstaklega eftirtektarvert: Söguefnið – viðkvæmur, listrænn, samkynhneigður strákur í litlu þorpi á undir högg að sækja því allir hinir þorpsbúa eru vondir og hata háleit hugðarefni – er afar kunnuglegt, og úrvinnslan (stíll og frásagnaraðferð) nokkuð dæmigerð. Þarna leynast þó eftirminnilegar senur, til að mynda þegar móðir Eddys missir sér að óvörum fóstur í klósettið og reynir í fáti að sturta því niður og út í sjó. Stutt og fljótlesin skáldsaga/minningabók, en alls engin skyldulesning. Franska útgáfan af annarri metsölubók, Hillbilly Elegy eftir J.D. Vance, sem mér fannst skárri.

Öllu meira bragð var af Kitchen Confidential eftir einn ritfærasta kokk í heimi, Anthony Bourdain; það er raunar ein skemmtilegasta bók sem ég hef lesið lengi. Þarna bullsýður í hverjum potti, sósurnar malla, kaffið er sterkt og hressandi. Bourdain sló í gegn með nefndri minningabók og stjórnaði í kjölfarið árum saman vinsælum sjónvarpsþætti, No Reservations, þar sem hann ferðaðist vítt og breitt um jarðarkringluna og kynnti sér matarmenningu framandi þjóða. Bourdain stytti sér aldur á árinu sem er að líða og var fjöldamörgum aðdáendum sínum mikill harmdauði; eftir lestur þessarar sprellfjörugu og litríku bókar skil ég betur hvers vegna. Mæli mikið með henni; ég hló oft upphátt. Frábær bók fyrir þá sem þekkja vel til New York-borgar (eða hafa aldrei komið þangað); stórgóð lesning fyrir þá sem hafa áhuga á mat (eða alls engan áhuga á mat – en hvaða vítamínlausa vampíra væri það annars?). Bókin spannar allt frá æsku Bourdain – hann fær hugljómun í sumarfríi í Frakklandi, landi forfeðra sinna, þegar hann bragðar hráa ostru beint upp úr sjónum – og brokkgengan feril í eldhúsinu sem hefst með starfi fyrir skrautlegt sjávarveitingahús á Cape Cod og vafasömum vímuefnaknúnum veisluþjónusturekstri, og svo liggur leiðin til New York-borgar þar sem hæðir og lægðir á starfsferlinum eru býsna margar og sögurnar óborganlegar. Mikið smjör, mikið vín, mikið af eiturlyfjum, margar steikur, og stór skammtur af hvínandi blótsyrðum: eldhús undir stjórn Bourdain virðist raunar helst draga dám af þilfarinu á sjóræningjaskipi. Bókin minnti mig aðeins, í krafti orðkynngi sinnar og myndrænna lýsinga, á tvær frábærar (og alls kostar óskyldar) bækur: annars vegar hina frábæru A Fan’s Notes, eftir Frederick Exley, og hins vegar skemmtilegustu sjálfsævisögu poppstjörnu sem ég hef nokkru sinni lesið, Lifeeftir Keith Richards.

Loks endurlas ég hina meitluðu The Tale of the Unknown Island eftir uppáhaldshöfundinn José Saramago, portúgalska Nóbelsverðlaunaskáldið. Maður einn gengur fyrir konung í ónefndu konungsríki og biður hann um að gefa sér bát svo að hann geti lagt úr vör í leit að „óþekktu eyjunni“. Konungurinn fullyrðir að allur heimurinn hafi verið kortlagður; sérhverja eyju megi nú finna á landakorti. Nei, á landakortinu eru aðeins þekktar eyjur, segir maðurinn; ég er í leit að óþekktri eyju. Sögulokin eru óvænt – og falleg. Kjörinn inngangsreitur fyrir þá sem aldrei hafa lesið Saramago. (SN.)

Það er mikill misskilningur að maður þurfi að hafa lesið allar bækur sem eru í bókasafni manns. Margir hafa vísað í ítalska rithöfundinn Umberto Eco í þessu ljósi og minnst á að jafnvel þótt hann hafi verið gríðarlegur lestrarhestur hafði hann ekki lesið nema um helming þeirra bóka sem voru í bókasafni hans. Bókasafnið er, að hans mati, rannsóknartól – ekki minnisvarði um áður lesnar bækur. Ég hugsa mitt bókasafn með svipuðum hætti – í því liggja bækur sem mér áskotnaðust fyrir mörgum árum og ég hef ekki enn lesið. Ein þeirra er ágætt safn móralskra hugleiðinga grísk/rómverska sagnfræðingsins Plútark sem ég byrjaði að lesa nú á milli jóla og nýárs. Plútark þessi var uppi á fyrstu öld eftir að okkar tímatal hefst og er einna þekktastur fyrir að hafa skrásett ævisögur grískra og rómverskra keisara. Ritgerðirnar í þessu safni eru í enskri þýðingu og nefnist samantektin einfaldlega Essays. Þetta er í raun réttnefni, enda hafði Plútark gríðarleg áhrif á hinn franska Michel Montaigne sem er jafnan talinn faðir ritgerðarinnar (eða essegjunnar líkt og sumir vilja segja) eins og við þekkjum hana í dag. Ritgerðir þessar fjalla um allt milli himins og jarðar – ein þeirra um listina við að hlusta betur, önnur um hvernig maður á að greina raunverulega vini og enn önnur um hvernig maður á að byrgja inni reiði. Þetta eru sígild skrif í orðsins fyllstu merkingu og eiga alveg jafn mikið erindi við okkar samtíma og fyrir 1.000 árum síðan. Ég hlakka til að kafa í ævisögurnar eftir hann, en þær bíða mín þolinmóðar í bókasafninu mínu. Veit einhver glöggur lesandi og áhugamaður um fornfræði til þess að Plútark hafi verið þýddur yfir á íslensku? Ef svo er má sá hinn sami endilega senda mér línu. (KF.)


 

Óskalisti Leslistans:

 

Út er komin skáldsagan Rauður maður/Svartur maður eftir Kim Leine, í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar. Glæsileg þýðing Jóns Halls á fyrri skáldsögu Leine, Spámennirnir í Botnleysufirði, vakti mikla lukku á Íslandi, seldist vel og fór víða. (SN.)

Ég hef margoft vísað í greinar eftir hinn stórskemmtilega auglýsingamógul Rory Sutherland. Það gladdi mig mjög þegar ég sá að væntanleg væri ný bók í vor þar sem hann tekur saman speki sína um auglýsingabransann og hvernig hann hefur beitt atferlishagfræði í starfi sínu. Svo gladdi það mig jafnvel enn meira að sjá að hann er væntanlegur til landsins í febrúar með fyrirlestur.

Konseptlistamaðurinn Lawrence Weiner er einn af mínum eftirlætis listamönnum. Ég held að ég hafi sjaldan verið jafn star-strucked og þegar ég fékk þann heiður að taka viðtal við hann þegar ég vann sem blaðamaður hjá Viðskiptablaðinu. Eitt skemmtilegasta viðtal sem ég hef tekið. Ég sá nýlega að væntanleg er ný bók eftir hann sem hann vinnur í samstarfi við hönnuð sem hann hitti einu sinni á bar fyrir tilviljun. Hér er áhugavert spjall þeirra á milli um bókina. (KF.)

Af netinu, 4. janúar 2019

Hér er listi sem Literary Hub tók saman um þær bækur sem höfundar þessa ágæta miðils bíða hvað spenntastir eftir á nýju ári.

Þessi grein geymir frábæra hugleiðingu um „bók framtíðarinnar“ og hvernig bækur hafa þróast í allt aðra átt en menn höfðu spáð fyrir um. Framtíðin er ekki endilega fólgin í rafbókum eða flóknum rafrænum framsetningum á rituðu máli heldur er hún fólgin í auðveldari útgáfu bóka í krafti internetsins. Höfundur greinarinnar lýsir þessu töluvert betur – hvet alla til að lesa.

Skemmtileg áramótahugleiðing frá George Dyson um hina „hliðrænu framtíð“. Svolítið flókið en vel lestursins virði. Hér er ágætur bútur úr greininni:
„The next revolution will be the ascent of analog systems over which the dominion of digital programming comes to an end. Nature’s answer to those who sought to control nature through programmable machines is to allow us to build machines whose nature is beyond programmable control.“

Bandaríski blaðamaðurinn David Brooks velur árlega úrval greina sem hann telur vera þær bestu á liðnu ári. Hér er samantekt hans fyrir árið 2018 en þar er að finna nokkrar greinar sem hafa ratað í Leslistann á árinu.

Nassim Taleb, vinur okkar, hefur oft skrifað um greindarvísitöluna og hversu lélegur mælikvarði slíkar mælingar eru á raunverulegar gáfur. Hann tók þetta saman í ágætri grein sem hann birti á Medium síðu sinni á dögunum.

Flott grein í London Review of Books um skoðanir ýmissa Evrópubúa á Brexit. Mun áhugaverðari skrif en kann að virðast við fyrstu sýn.

Hér er djúp og forvitnileg grein um framfaratrúna sem oft hefur verið til umræðu á þessum vettvangi.

Evan Spiegel, forstjóri Snapchat, ræddi nýlega við blaðamann Financial Times um stöðu og stefnu þessa sveiflukennda samfélagsmiðils.

Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku, skrifar hér góða hugleiðingu í áramótablaði Viðskiptablaðsins um spádómsgáfu greiningaraðila. (KF.)

Ég er með sólsting í Mexíkó og hef ekkert verið á internetinu í vikunni. Kem hins vegar tvíefldur til leiks hér að neðan. (SN.)

Árslisti Leslistans 2018

featured_STACK-OF-BOOKS-facebook.jpg

Hér að neðan höfum við tekið saman þær bækur sem stóðu upp úr hjá okkur á árinu sem er að líða. Þetta eru ekki endilega alltaf bækur sem voru gefnar út á árinu 2018 heldur bara verk sem hafa glatt og frætt okkur persónulega. Vonandi hafið þið bæði gagn og gaman af.

-Kári og Sverrir

Listi Kára Finnsonar:

Af öllum þeim bókum sem ég las á árinu 2018 þá eru nokkrar bækur sérstaklega eftirminnilegar. Ég ákvað að velja sex bækur sem ég las á árinu sem mér finnst líklegt að ég lesi aftur. Ég held að ég hafi örugglega skrifað um allar þær bækur sem ég hef lesið og lauslesið á árinu á Leslistanum, enda styttist í að við fögnum ársafmæli listans. Þær voru flestar stórfínar en skilja þó mismikið eftir sig.

Ef ég set mér einhver áramótaheit fyrir árið 2019 þá verður það að lesa meira af slíkum bókum — bókum sem ég gæti hugsað mér að lesa aftur. Maður þarf nefnilega stundum að minna sig á að jafnvel mestu lestrarhestar heimsins ná aldrei að lesa nema brotabrot af öllum þeim bókum sem til eru þarna úti. Lífið er líka of stutt til að lesa leiðinlegar bækur. Á næsta ári ætla ég því að lesa færri bækur, lesa þær hægt og lesa þær vel.

Skin in the Game eftir Nassim Taleb

Ég hef ekki farið dult með það á þessum vettvangi að Nassim Taleb er einn af mínum eftirlætis hugsuðum og rithöfundum. Það kann að stafa af því að ég kynntist verkum hans þegar ég var í hagfræðinámi í miðju efnahagshruni. Þá var ég búinn að missa alla trú á þeim hagfræðikenningum sem ég hafði stúderað fram að þessu og fannst það sem kom fram í fyrstu tveimur bókum hans, Fooled by Randomness og Black Swan, vera ferskur andblær hugmynda sem gjörbyltu því hvernig ég hugsaði. Í þeim bókum fjallaði hann annars vegar um hversu mikið við vanmetum handahófskennda atburði og hins vegar um hvernig við vanmetum ólíklega atburði sem hafa miklar afleiðingar, svokallaða „svarta svani“. Nýjasta bókin, sem kom út á þessu ári, heitir Skin in the Game og snýst fyrst og fremst um siðfræði, þótt það sé erfitt að festa fingur á eitthvað eitt sem bókin fjallar um. Með „skin in the game“ á Taleb við mikilvægi þess að maður hafi eitthvað í húfi þegar maður lýsir yfir skoðunum sínum. Hversu miklu gagnlegra það er að dæma fólk af verkum þess frekar en því sem það segir og hvað það skiptir miklu máli að þekkja hlutina á eigin skinni áður en maður tjáir sig um þá. Hér lýsir höfundurinn kjarna bókarinnar, en ég hvet alla til að lesa hana — og fleiri bækur eftir hann.

Hinir smánuðu og svívirtu eftir Dostojevskí, (þýð. Gunnar Þorri Pétursson og Ingibjörg Haraldsdóttir)

Ég spændi í gegnum frábæra þýðingu þeirra Gunnars Þorra Péturssonar og Ingibjargar Haraldsdóttur á Hinum smánuðu og svívirtu eftir Fjodor Dostojevskí í sumar. Lesturinn sannaði fyrir mér að Dostojevskí er einhver allra mesti meistari skáldsögunnar sem uppi hefur verið. Ég hafði minnst á það í einhverjum Leslistanum að persónusköpun hans er svo lifandi að manni líður eins og hann sé að skrifa um ættingja manns. Nokkrum mánuðum eftir að ég lauk við lesturinn eru þessar persónur enn ljóslifandi í huga mér. Ekki spillir fyrir hvað þýðingin var afburðagóð.

Scale — The Universal Laws of Growth, Innovation, Sustainability, and the Pace of Life in Organisms, Cities, Economies, and Companies eftir Geoffrey West

Ég hef gaman af stórhuga rithöfundum og hugsuðum sem ætla sér að segja frá gangverki heimsins út frá einni ákveðinni hugmyndafræði. Gallinn við slík verk er augljós, þeim tekst að sjálfsögðu ekki ætlunarverk sitt enda er heimurinn flókinn, skrítinn og þversagnarkenndur í eðli sínu. Það er hins vegar hægt að læra margt af slíkum rithöfundum og verkum þeirra. Ein slík bók er Scale, eftir Geoffrey West. Eins og ég ræddi í Leslistanum fyrr á árinu fjallar hún í örstuttu máli um lögmál skölunar, sem snúast í mjög einfaldaðri útgáfu um hvernig kerfi bregðast við því þegar þau stækka. West útskýrir hvernig þessi lögmál tengja saman ólík viðfangsefni á borð við eðlisfræði, líffræði, borgarskipulag, fyrirtækjarekstur og margt fleira. Eftir að hafa melt bókina meira kann ég að meta það hversu vel honum tókst til með að útskýra þessi lögmál, enda sitja dæmin sem hann tekur í bókinni mjög fast í mér. Það eru kannski helstu verðmæti bókarinnar og trompa alla þá galla sem hún hefur.

Factfulness eftir Hans Rosling

Það kom mér á óvart hversu mikið ég fílaði bókina Factfulness eftir Hans Rosling. Ég hafði heyrt mikið talað um hana, lesið nokkrar greinar um hana og var strax viss um að þarna væri á ferðinni bók sem ég væri hjartanlega ósammála. Á yfirborðinu fjallar hún um að heimurinn sé allur að horfa til betri vegar, að mannkynið hafi náð gríðarlegum framförum á öllum helstu sviðum á síðustu áratugum og að staðan sé býsna góð þegar heilt er yfir litið. Í grunninn er ég ósammála þessu viðhorfi. Ég er þeirrar skoðunar að heimurinn sé hvorki að verða betri né verri — við erum alltaf sama mannskepnan, þótt við séum betur klædd og eigum ísskápa og iPhone. Svo las ég loksins bókina og hún kom mér skemmtilega á óvart. Hún fær mig ekki beinlínis til að skipta um skoðun, heldur fær hún mig til að líta á staðreyndir um stöðu heimsins öðrum augum. Ég hugsa t.d. með öðrum hætti um svokölluð „þróunarlönd“ eftir lestur bókarinnar og hef aðra mynd af stöðu heimsins en áður. Verðmæti bókarinnar fyrir mér var fyrst og fremst fólgið í því að breyta því hvernig ég nálgast heiminn og hún fékk mig til að hugsa frekar um staðreyndir málanna en eigin tilfinningar. Ég kannski bæti við öðru áramótaheiti — að lesa fleiri bækur eftir höfunda sem ég er ósammála. Maður lærir miklu meira af því.

The Case Against Education eftir Bryan Caplan

Talandi um höfunda sem maður er ósammála. Bókin The Case Against Education eftir hagfræðinginn Bryan Caplan hafði mikil áhrif á mig á árinu. Hún fjallar í stuttu máli um æðri menntun og nytsemi hennar. Caplan heldur því fram að háskólamenntun sé í besta falli dýrt „merki“ (e. signal) fyrir vinnumarkaðinn og að hún geri manni lítið sem ekkert gagn fyrir utan það. Ég er ekki alveg sammála þeirri nálgun, enda er ég þeirrar skoðunar að menntun eigi fyrst og fremst að snúast um að gera mann að heilsteyptri manneskju frekar en að einhvers konar tannhjóli fyrir atvinnulífið. Rökin sem hann færir hins vegar fyrir máli sínu eru skotheld og bókin er ótrúlega sannfærandi og vel unnin. Sama hvort maður sé sammála eða ósammála honum þá held ég að þetta sé holl lesning fyrir alla þá sem hafa einhvern áhuga á menntavísindum.

Kristur — saga hugmyndar — Sverrir Jakobsson

Ég fékk þessa ágætu bók í jólagjöf frá konunni minni og börnunum mínum og hafði virkilega gaman af henni. Bókin fjallar í stuttu máli um þær fjölmörgu hugmyndir sem hafa verið uppi um Jesú Krist, sem er að öllum öðrum ólöstuðum áhrifamesti maður allra tíma. Sverri tekst mjög vel til með að setja hlutina í samhengi, segja vandlega frá samtíma Krists og þeirri flóru trúarbragða og hugmyndafræði sem voru ríkjandi við upphaf okkar tímatals. Einnig fer hann vandlega yfir þær ýmsu hugmyndir sem hafa verið uppi um Krist og þá merkingu sem hann hefur haft á meðal kristinna manna. Þetta er viðfangsefni sem á erindi við alla, sama hvort þeir hafa áhuga á trúarbrögðum eða ekki. Kristin hugmyndafræði á mun ríkara erindi í okkar samtíma en margir vilja meina og þess vegna skiptir miklu máli að vita hvernig við höfum hugsað um Jesú og hans boðskap í aldanna rás. Ég er fullviss um að ég muni líta aftur til þessarar bókar síðar meir.

Listi Sverris Norland:

Mér sýnist í fljótu bragði að ég hafi lesið hátt í tvö hundruð bækur á síðasta ári og því ákvað ég að vera ekkert að iðka einhverja þykjustuhógværð tæpa á allmörgum titlum sem stóðu upp úr. Þetta eru ekki endilega „bestu“ bækurnar heldur frekar þær áhugaverðustu eða eftirminnilegustu — bækur þar sem höfundurinn tókst á við eitthvað nýtt og hressandi, sem er alltaf kærkomið í hinu stofnanakennda færibandaumhverfi netmiðlanna sem við lifum við.

Ég hnykki á því að hér er fjarri því einungis um að ræða bækur sem komu út á árinu 2018. (Góðar bækur eru alltaf nýkomnar út í huga þess sem opnar þær í fyrsta skipti.) Þá ætti ekki að ráða nokkra merkingu í uppröðun bókanna, sem er handahófskennd.

Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson

Gott ef þetta var ekki eftirminnilegasta bókin sem ég las á árinu. Ragnar Helgi lýsir því þegar hann þurfti að fara í gegnum 4000 titla bókasafn föður síns í kjölfar andláts hans.

Ég tek fram að ég las verkið í próförk (og að Ragnar Helgi er vinur minn) en það breytir einhvern veginn engu. Þetta er bók sem er engri annarri lík. Og ætti það ekki að vera mælikvarðinn á gott bókmenntaverk; að það snerti við manni og segi um leið eitthvað eftirminnilegt á alveg nýjan hátt?

Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur

Það er sjaldgæft að höfundur nái að segja jafn mikið á svo tæran og rembingslausan hátt og Auður Ava gerir hér í sjöttu skáldsögu sinni. Hún hefur skrifað sitt Heimsljós og snýr upp á dæmigerðar hugmyndir um kynin í bók sem er í senn léttleikandi og læsileg en um leið full af áleitnum spurningum og hugmyndum.

Tregahandbókin eftir Magnús Sigurðsson

Á sínum tíma skrifaði ég meðal annars: „Mér fannst Tregahandbókin eftir Magnús Sigurðsson eiginlega byggjast á eftirfarandi mótsögn: Maður les bækur til að gera lífið bærilegt — en eftir því sem maður les fleiri bækur, þeim mun óbærilegra verður lífið. Og eins: Maður les til að lina einmanaleika og þjáningu, en eftir því sem maður les meira, þeim mun meira einmana verður maður og þjáðari.“ Sannarlega með frumlegri og eftirminnilegri bókum sem ég las á árinu, og hefur vaxið og dafnað innra með mér frá því að ég lagði hana frá mér.

Kudos eftir Rachel Cusk

Lokahnykkurinn í skáldsagnaþríleik hinnar eitursnjöllu Cusk. (Fyrri bækurnar tvær eru Outline og Transit.) Cusk snýr upp á allar „reglur“ í persónusköpun og útkoman er skáldsagnaþríleikur sem líkist engu öðru sem ég hef lesið.

King Kong Theory eftir Virginie Despentes

Mér finnst stimpillinn „skyldulesning“ oft kjánalegur en set hann engu að síður á þessa bók. Eitt kraftmesta femínista-manífestó sem ég hef lesið. Despentes er magnaður höfundur, rödd hennar eins og elding, og í King Kong-kenningunni fjallar hún meðal annars um það þegar henni var nauðgað og skefur ekki utan af hlutunum.

Fyrir þá sem ekki lesa frönsku: Bókin er til í vandaðri enskri þýðingu, sem gefin var út af The Feminist Press í New York.

Jón lærði & náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson

Verkið rekur ævi Jóns Guðmundssonar lærða (1574–1658), en höfundur heldur mörgum boltum á lofti og talar beint inn í samtíma okkar hvað snertir hugmyndir og samband okkar um og við náttúruna — og heimkynni okkar, jörðina. Bók (doðrantur!) sem þyrfti að fara sem víðast.

After the Winter eftir Guadalupe Nettel

Ég seildist eftir þessari skáldsögu eftir hina mexíkönsku Nettel vegna þess að ég var á ferðalagi um fæðingarland hennar — og sá sko ekki eftir því. Cecilia flyst frá Mexíkó til Parísar í því skyni að leggja stund á bókmenntir; Claudio býr í New York og vinnur sem prófarkalesari hjá útgáfufyrirtæki. Sögur þeirra skarast með ófyrirséðum hætti. Mjög sterk skáldsaga, og persónurnar afar eftirminnilegar.

America: The Farewell Tour eftir Chris Hedges

Heimsveldi rísa og hníga og nú virðist sem Bandaríkin séu að liðast í sundur. Sú er í hið minnsta tilfinning mín — hefur aukist mikið eftir að Trump komst til valda — og ég veit að ekki er ég einn um það. Í America: The Farewell Tourfærir Chris Hedges rök fyrir því að Bandaríkin beri nú öll helstu einkenni deyjandi heimsveldis. Idíótarnir taka við stjórnartaumunum á lokadögum deyjandi siðmenningar, ritar hann. Fólk flýi í síauknum mæli inn í ímyndaða heima til að forðast að horfast í augu við veruleikann — símaskjái, kvalalosta, stríðsbrölt, haturskölt, vímuefni, klám. Ég þurfti margsinnis að líta upp úr bókinni og taka mér hvíld. Mögnuð.

Radio Free Vermont; a fable of resistance eftir Bill McKibben

Hinn 72 ára gamli útvarpsmaður Vern Barclay stofnar ásamt ungum tölvunörd á Asperger-rófi hreyfingu sem hefur að keppikefli að Vermont-fylki skilji sig frá Bandaríkjunum og lýsi yfir sjálfstæði. Bókin gerist í samtímanum (Trump er forseti) og tekur á ýmsum pólitískum málefnum með gamansömum hætti, einkum þó loftslagsmálum (McKibben er einn þekktasti umhverfissinni samtímans). Þessi kom skemmtilega á óvart.

On the Move: A Life eftir Oliver Sacks

Sjálfsævisaga Oliver Sacks, taugasjúkdómafræðingsins þekkta. Hér kynnist maður höfundinum afar náið. Ég vissi til dæmis ekki að Sacks hefði ungur verið með kraftlyftingadellu; að hann hafði verið samkynhneigður og að mestu í skápnum (skírlífur í meira en þrjátíu ár! — sögurnar sem lýsa fyrstu þreifingum hans í tilhugalífi eru vægast sagt pínlegar); að hann þjáðist af andlitsblindu og bar einkum kennsl á fólk af rödd þess, hreyfingum, fasi; að hann hefði verið með ástríðu fyrir mótorhjólum og næstum drepið sig í slysi sem hlaust af því áhugamáli; og svo framvegis. Loks var hann algjör graffómaníak og sískrifandi, einkum á stöðuvatnsbakkanum eftir nektarsundspretti í uppsveitum New York. Mjög eftirminnileg frásögn.

The Last American Man eftir Elizabeth Gilbert

Ævisaga Eustace Conway, bandarísks manns (og hálfgerðrar ofurhetju) sem fluttist sautján ára gamall út í skóg og hefur búið þar síðan, nánar tiltekið á Skjaldbökueyju, Turtle Island. Eustace er í senn ómótstæðilegur og óþolandi, heillandi og hræðilegur; hann lifir 100% utan neyslusamfélags nútímans, veiðir sér í matinn, saumar öll sín föt, byggir öll sín híbýli (hann bjó í meira en áratug í „teepee“-tjaldi) og svo framvegis. Hann er svona maður sem finnur dauðan íkorna úti í vegarkanti, kippir honum með sér heim, fláir hann og notar í súpu.

Walden eða lífið í skóginum eftir Henri David Thoreau, í íslenskri þýðingu Elísabetar Gunnarsdóttur og Hildar Hákonardóttur

Stórtíðindi útgáfu síðasta árs, 2017. Meistaraverk eins mesta höfundar í sögu Bandaríkjanna, í snilldarlegri íslenskri þýðingu.

Elsku drauma mín, minningabók Sigríðar Halldórsdóttur, skrásetjari Vigdís Grímsdóttir

Sigríður lýsir æskuheimili sínu, Gljúfrasteini, hinum þjóðþekktu foreldrum sínum, Auði og Halldóri Laxness, og rekur sögur af öðrum skyldmennum, vinum, ástmönnum — sumar eru fyndnar, aðrar sárari — og lífi sínu allt frá blábernsku og fram til dagsins í dag. Textinn er blæbrigðaríkur og lifandi og Sigríður slær, undir öruggri stjórn Vigdísar, einhvern heillandi tón sem helst út alla frásögnina; að lestri loknum líður manni eins og maður myndi heilsa henni úti í búð. Bók sem ýmist má bruna í gegnum á einni beit eða grípa niður í meðfram öðru.

Extra Yarn eftir Mac Barnett, myndskreytt af Jon Klassen

Afar falleg og eftirminnileg bók, með fléttu sem gengur upp á órökrænan hátt, eins og svo margt í góðum skáldskap. Annabelle finnur litla öskju með lopa í öllum regnbogans litum og tekur að sauma peysur á alla í þorpinu sínu — og síðan einnig á dýrin þar, húsin, trén. Lopinn virðist aldrei þrjóta.

Sparkie! eftir Jenny Offill, myndskreytt af Chris Appelhans

Skemmtilegasta barnabók sem rataði á mínar fjörur árið 2018. Lítil stelpa eignast letidýr sem gæludýr — og letidýrið nennir auðvitað ekki að gera neitt, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir stelpunnar til að bregða á leik með þessum nýja vini sínum.

Hin órólegu eftir Linn Ullmann í þýðingu Ingibjargar Eyþórsdóttur

Ullmann fjallar á fínlegan og djúpstæðan hátt um foreldra sína, heimsþekkta listamenn (Ingmar Bergmann og Liv Ullmann). Bók sem dansar á mjórri línu milli þess að vera skáldsaga og minningabók. Mjög flott, myndræn og áhrifamikil.

T. Singer eftir Dag Solstad

Kannski besta skáldsaga sem ég las á síðasta ári. Aðalpersóna bókarinnar er ósköp venjulegur og raunar fremur látlaus norskur bókasafnsfræðingur sem fer nokkuð hljóðlega í gegnum lífið. Á tímum veltir maður því fyrir sér hvort Singer sé nógu áhugaverður til að verðskulda heila bók um sig — en einmitt þar liggur svo, þegar upp er staðið, styrkur bókarinnar. Hversu margir menn eins og Singer eru ekki til í heiminum? Hinn norski Solstad fer meistaralega með söguefnið og tekst á afar sannfærandi hátt að draga af þolinmæði upp mynd af ævi venjulegs manns yfir heilu áratugina.

The Overstory eftir Richard Powers

Það er merkilegt hversu fáar (vel heppnaðar) skáldsögur hafa verið samdar um stærsta málefni samtímans, loftslagsbreytingarnar. Besta bókin, sem reynir með einhverjum hætti að glíma við þessi mál og ratað hefur á mínar fjörur, er The Overstory eftir Richard Powers. Hún fjallar fyrst og síðast um tré. Um menn og tré; samband manna við tré; og hvernig trén hafa verið hér miklu lengur en við og hafa vitsmuna- og tilfinningalíf sem okkur er framandi, en er eflaust ekki síður margslungið og flókið. Frábær, og ólík öllu öðru sem ég hef lesið.

Bækur, 28. desember 2018

Þegar smásagnasafnið Tales of Natural and Unnatural Catastrophes kom út árið 1987 var höfundur þess, Patricia Highsmith, gagnrýnd fyrir að sýna (mennskum) sögupersónum sínum ekki nægjanlega samúð. Highsmith er raunar með þekktari mannafælum í bókmenntum tuttugustu aldar. Einu sinni var hún innt eftir því hvers vegna hún byggi ekki til geðþekkari sögupersónur. „Eflaust er það vegna þess að mér geðjast ekki að neinum,“ sagði hún. „Hugsanlega munu síðustu bækur mínar fjalla um dýr.“

Annar sigursæll mannhatari, Alfred Hitchcock, lét einu sinni hafa eftir sér greindarlega athugasemd um frásagnarlist: ef innbrotsþjófur er fyrsta persónan sem við sjáum í kvikmynd, þá höldum við framvegis með innbrotsþjófnum. (Eitthvað svoleiðis; og ég held að ég fari rétt með að Hitchcock hafi sagt þetta.) Gott dæmi um slíkt söguupphaf væri „Moby Dick II; or The Missile Whale“, önnur sagan í fyrrnefndu safni Highsmith. Tveir búrhvalir synda um í söltum sjó og kýrin er um það bil að ala kálf – þegar hópur manna ræðst að hinu ástfangna pari og myrðir hana. Tarfurinn stendur því einn eftir, dapur og reiður. Hefst nú mikið ævintýri þar sem búrhvalurinn kemur tugum, ef ekki hundruðum, manna fyrir kattarnef – og það hlakkar í lesandanum.

Hinar sögurnar í safninu fjalla um ýmsar skemmtilegar hliðar jarðlífsins: kjarnorkustríð, siðblinda stjórnmálamenn, kakkalakka-faraldur. Mæli með.

Highsmith er auðvitað þekktust fyrir bækur sínar um hinn hæfileikaríka herra Ripley (sem kvikmyndaleikstjórinn Anthony Minghella gerði eftir frekar doðalegar kvikmyndir), og það er leitun að ósympatískari aðalpersónu en í þeim fimm bóka flokki. Það væri þá helst að sama höfundi hefði tekist að fitja upp á meira fráhrindandi sögupersónu í öðru verki sínu, This Sweet Sickness, sem kom út árið 1960 og fjallar um David Kelsey, afburðagreindan vísindamann sem starfar í plastverksmiðju, býr á gistiheimili í litlum bæ og ekur burt um helgar undir því yfirskini að hann verji frídögunum með veikri móður sinni. Sannleikurinn er hins vegar sá að móðir hans er löngu látin. David hefur keypt rándýrt hús undir fölsku flaggi, sem William Neumeister, og unir sér um helgar í sveitinni; þar ímyndar hann sér að Annabelle sé með honum og þau sötri í sameiningu kokteila, snæði fínan mat, hlusti á klassíska tónlist. David er með öðrum orðum ástsjúkur og ímyndunarveikur narsissisti sem missir smám saman tökin á lífi sínu og fjarlægist veruleikann. Lengi vel fannst mér að Highsmith hefði hér færst of mikið í fang; Kelsey/Neumeister væri einfaldlega of hrjúf og kaldranaleg persóna, en eftir því sem líður á verkið byggist upp knýjandi spenna og ég hlakkaði til að halda áfram með bókina. Sem sagt: Fínasta bók og festir Highsmith enn í sessi sem einn af eftirlætishöfundum mínum til að lesa í sumar- eða jólafríi. (SN.)

Ég fékk eina áhugaverða bók í jólagjöf frá konunni minni og börnunum mínum. Það er bókin Kristur – Saga hugmyndar eftir Sverrir Jakobsson sem við höfum áður rætt um stuttlega í Leslistanum. Mér fannst hún svo góð að ég ákvað að setja hana á áðurnefndan árslista okkar Sverris, en þar er hægt að lesa meira um hana. (KF.)

Þegar ég er á ferðalögum finnst mér alltaf skemmtilegt að grípa í bækur sem leynast á gistiheimilum eða í leiguíbúðum, uppi í hillum hjá vinum eða ættingjum. Í vikunni fékk ég þetta í andlitið. Við fjölskyldan höfum síðustu vikurnar verið á ferðalagi um Mexíkó, og því fannst mér við hæfi að glugga í The Vintage Book of Latin-American Short Stories, sem leyndist í kiljubroti í húsinu þar sem við gistum yfir hátíðardagana. Bókin var hundseyrð og nokkuð snjáð eftir talsverðan velting, en ég lét það ekkert á mig fá. Á mig runnu hins vegar tvær grímur þegar ég tók eftir því að fyrri lesandi hafði rifið út inngangsorð Julio Ortega (sem ritstýrði safninu ásamt Carlos Fuentes) og einnig fyrstu smásöguna, „The Aleph“ eftir Borges. Nokkuð pirrandi, en sjálfsagt hefur nefndur lesandi bara heillast svo ákaflega af kröftugri innsýn Ortega í heim suður-amerískrar smásgnalistar og jafnframt af hinni þekktu sögu Argentínumannsins, að hann stóðst ekki mátið og heftaði síðurnar inn í dagbókina sína. Gott og vel. Þegar ég hafði hins vegar lesið nokkrar sögur úr safninu og fundist sumar þeirra nokkuð endasleppar, tók ég eftir því að það var raunar engin tilviljun: í gegnum alla bókina var búið að rífa hér og þar út eina og eina blaðsíðu, eins og gagngert til að hrekkja græskulausan sakleysingja á borð við mig. Sem betur fer þekkti ég reyndar margar sagnanna fyrir – sumar þeirra birtustu nýlega í íslenskri þýðingu í Smásögum heimsins – Rómönsku Ameríku, sem ég las síðastliðið sumar – og því naut ég lestursins þrátt fyrir stöku gloppur og glompur. Ég held líka að í þessari ergelsislegu upplifun leynist efniviður í smásögu en ég á eftir að klóra mig fram úr því á hvaða lund hún verður, nákvæmlega. Ég mæli annars með smásögum frá þessum heimshluta; það kraumar í suður-amerískum bókmenntum einhver sérstakur kraftur, ólgar eitthvert sérstakt hugarflug sem þrífst ekki annars staðar.

Ragnar Jónasson, spennusagnahöfundur, gekk í ráðuneyti Leslistans í síðustu viku og mælti með fjölmörgum spennandi bókum, meðal annars The Mistletoe Murder eftir P.D. James. Ég tók Ragnar á orðinu og spændi í gegnum hana í stuttri flugferð. Ég hafði ekki lesið neitt eftir hina heimsþekktu P.D. James áður, og fundust sögurnar góðar, vel uppbyggðar – notalegar. (SN.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

  

Elísabet Kristín Jökulsdóttir gaf á dögunum út nýja ljóðabók, Lítil sál sem aldrei komst til jarðar. Hún fór auðvitað beint á óskalistann hjá mér og séðir áskrifendur Leslistans munu ekki tvínóna við að tryggja sér eintak. Hér er gamalt Leslistaspjall við skáldið. (SN.)

 

Af netinu, 28. desember 2018

Hér er skemmtileg grein um neikvæða gagnrýni og hvað skortur á slíkri gagnrýni getur verið skaðlegur.

Stórgott viðtal við vísindamanninn Laslo Barabasi sem hefur rannsakað ítarlega hvaða lögmál liggja að baki árangri í listum.

Financial Times tekur hér saman gagnlegar ráðleggingar um hvernig maður getur skapað sér meiri tíma til að lesa á komandi ári.

Falleg hugvekja til varnar letinni.

Hér eru gleðifréttir fyrir listunnendur. Höfundaréttur verður afnuminn af fjölda góðra verka árið 2019.

Hér er geggjað viðtal við Seamus Heaney þar sem hann fer yfir hvernig hann kennir fólki að skrifa. Góð lína hér:
“Poetry isn’t important in one sense — it’s more important to live your life and be a good person. Who cares about poetry, there’s plenty already around. Life is more important than art.” (KF.)

Ungur blaðamaður hjá The Spiegel skáldaði upp persónur, staðarlýsingar, atburði – og samstarfsfólk hans og lesendur gleyptu við bullinu. Fyrir hin skáldlegu skrif sín hlaut blaðamaðurinn ungi svo fjölda verðlauna. Hér er önnur úttekt á þessu skrítna máli.

Athyglisverð innsýn í líf manns sem selur maríúana til fastakúnna í New York-borg.

Nick Cave sendir út fréttabréf til aðdáenda sinna og glímir þar við dýpri spurningar en gengur og gerist hjá poppstjörnum. Mæli með bréfinu sem fjallar um ástvinamissi og sorg, og ekki síður þessu hér þar sem hann útskýrir hvers vegna hann kýs frekar að vera trúaður en trúlaus. (SN.)