Allt efni

Af netinu, 15. mars 2019

Í síðasta lista vísaði ég á grein sem sagði frá íslandsför Arthur Koestler og minntist á veitingastað sem Koestler kvað nefnast Nausea og ölvaðan mann sem var kynntur sem „þjóðskáld“ Íslendinga. Við fengum nokkrar frábærar ábendingar frá lesendum um hvaða veitingastað væri að ræða og hvert „þjóðskáldið“ væri. Allir voru sammála um að veitingastaðurinn væri Naustið – enda ekki um marga aðra veitingastaði á Íslandi að ræða á þessum tíma. Ekki voru allir sammála um þjóðskáldið en ýmis nöfn bar á góma. (Þeim deilum við hins vegar ekki nema í einkaskilaboðum, af virðingu við umrædda menn.) Við þökkum kærlega fyrir ábendingarnar, kæru áskrifendur. Það er frábært að geta átt í góðu spjalli við ykkur og við tökum að vanda fagnandi á móti hvers kyns skilaboðum og ábendingum.

Hér er greinargott, djúpt og merkilegt viðtal við John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafa Trump og sigurvegara Mottumars þetta árið (og öll önnur ár ef út í það er farið).

Hér eru nokkuð áhugaverðar skrifráðleggingar frá Jordan Peterson – kanadíska sálfræðingnum sem allir voru að tala um á síðasta ári.

Og fleiri skrifráðleggingar: Hér koma góð ráð fyrir þá sem vilja skrifa skáldsögu.

Er eitthvað sameiginlegt með bókaútgáfu og sprotafjármögnun? Þessi greinkafar í málið.

Ég hef aldrei náð að átta mig almennilega á því hvort bandaríski myndlistarmaðurinn Matthew Barney er snillingur eða brjálæðingur. Í tilefni frumsýningar nýrrar myndar eftir hann veltir blaðamaður Washington Postfyrir sér hvort hann sé jafnvel einhvers konar költ-leiðtogi.

Hef alltaf gaman af tæknifjárfestinum Marc Andressen og því sem hann hefur að segja. Hér er gömul en greinilega sígild grein eftir hann þar sem hann fer yfir hvernig honum tekst að vera pródúktífur.

Talandi um Marc Andressen, sem er að öðrum ólöstuðum einn þeirra sem gerðu internetið að því sem það er í dag, þá sá ég nýlegt viðtal við hann sem er býsna gott. Í viðtalinu fjallar hann ekki einungis um tækni og viðskipti heldur um samleið viðskipta og lista – hvernig maður gerir hugmynd að veruleika og vekur athygli á þeirri hugmynd.

Fortnite er framtíðin – a.m.k. að mati höfundar þessarar greinar. (KF.)

Claire Lowdon veltir fyrir sér hinum geysivinsælum verkum Yuval Noah Harari, Sapiens og Homo Deus, leitar skýringa á vinsældum þeirra og metur hvort þau eru athyglinnar verð. Sjálfur er ég mjög tvíbentur, klofinn jafnvel. Mér fannst Sapiens áhugaverð tilraun (auðvitað misheppnuð) og sú síðari áleitin en einhvern veginn eins og skrifuð af auglýsingastofu.

Sagnfræðingurinn Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar á bráðskemmtilegan hátt um túristasprengjuna á Íslandi – á 19. öld!

Er Greta Thunberg stærsta hetja samtímans? Sennilega. Og fær hún friðarverðlaun Nóbels? Ja, hví ekki bara?

Siri Hustved segist skrifa fyrir lífi sínu. Hún var að gefa út nýja skáldsögu, Memories of the Future.

Ragnheiður Birgisdóttir skrifar um loftslagsmálin í Stúdentablaðið.

Brátt hefur göngu sína nýtt menningartímarit: Skandali. Af því tilefni tók Eiríkur Örn Norðdahl viðtal við einn af ritstjórum tímaritsins, Ægi Þór Jähnke.Heita má á verkefnið á Karolina Fund (og tryggja sér í leiðinni eintök af fyrstu tveimur tölublöðunum). Þá tekur Skandali við efni í fyrsta tölublað til 31. mars næstkomandi (skandali.timarit@gmail.com). Leslistinn fagnar vitaskuld þessu nýja systkini sínu í menningunni.


Augu og eyru:

Á RÚV hefur hafið göngu sína ný þáttaröð um loftslagsbreytingar á jörðinni, Hvað höfum við gert? Hvað veldur loftslagsbreytingum og hvenær byrjuðu þær? Hvaða áhrif hafa þær á jörðina og hvernig er hægt að bregðast við þeim? Stórar spurningar og vonandi að þeim verði svarað í eitt skipti fyrir öll í þessari þáttaröð, sem lofar góðu.

Fyrir latínugrána ætti þetta hlaðvarp svo að reynast happafundur. Allt frá árinu 1989 hefur útvarpsstöð ein í Finnlandi sent út vikulegan þátt með ýmsum fréttaskýringum … á latínu! (SN.)

Skemmtilegt viðtal við myndlistarmanninn Leif Ými Eyjólfsson. Nafn hans verður án vafa mun meira áberandi í framtíðinni. (KF.)

Bækur, 15. mars 2019

Ég hef átt Sjálfsævisögu Benjamin Franklin í nokkuð mörg ár og reynt að lesa hana nokkrum sinnum án þess að komast almennilega inn í hana. Eintakið sem ég á geymir einnig úrval ritgerða eftir hann og það var ekki fyrr en ég byrjaði á öfugum enda bókarinnar sem ég fór fyrst að hafa gaman af henni. Þar er að finna ótrúlega skemmtilegt og fróðlegt samansafn af hugleiðingum þessa merka manns sem eru bæði gagnlegar og skemmtilegar. Það sem mér fannst persónulega skemmtilegast að lesa voru spakmæli sem hann birti undir dulnefninu Richard Saunders í almanakinu Poor Richard’s Almanack. Maður lærir heilmikið um sögu Bandaríkjanna af þessari bók og ég er vís til þess að grípa til hennar með reglulegu millibili á næstunni. (KF.)

Hvernig lifir maður í heimi þar sem allt er að deyja? David Wallace-Wells, sem ritað hefur svo ötullega um umhverfismál á síðustu árum, tekst að nokkru leyti á við þá spurningu í nýrri bók sinni, The Uninhabitable Earth: Life After Warming. Efnisins vegna er þetta ekki auðveld lesning, en þó er bókin aðgengileg og rituð á máli leikmanna. Wallace skirrist ekki við að orða óhugnanlegar staðreyndir á blákaldan hátt:
„We have already exited the state of environmental conditions that allowed the human animal to evolve in the first place, in an unsure and unplanned bet on just what that animal can endure. The climate system that raised us, and raised everything we know as human culture and civilisation, is now, like a parent, dead.“ (24)
Síðar í bókinni merkti ég einnig við þessar línur: „There is nothing to learn from global warming, because we do not have the time, or the distance, to contemplate its lessons; we are after all not merely telling the story but living it. […] One 2018 paper sketches the math in horrifying detal. In the journal Nature Climate Change, a team led by Drew Shindell tried to quantify the suffering that would be avoided if warming was kept to 1.5 degrees, rather than 2 degrees––in other words, how much additional suffering would result from just that additional half-degree of warming.“ Svarið: Mörg hundruð milljónir mannslífa. Hvað dóu aftur margir í helförinni? Fyrri heimsstyrjöldinni? Tölurnar blikna í samanburði. Það sem veitir manni von er vitundarvakningin meðal fólks, einkum hinna yngri, sem er að verða úti um allan heim. (SN.)


Óskalistinn:

Sá nýlega að það væri komin út ný íslensk þýðing á bókinni Lacci eftir ítalska rithöfundinn Domenico Starnone. Ég hafði til umfjöllunar í gömlum Leslistaenska þýðingu á þessari skemmtilegu bók. Mér fannst hún það góð að ég hefði ekkert á móti því að kafa í þessa nýju þýðingu eftir Höllu Kjartansdóttur. Svo heyri ég að Starnone sjálfur verður gestur bókmenntahátíðar. Gaman. (KF.)

LEXÍA er ný íslensk-frönsk orðabók, verkefni á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í nánu samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þann fjórða apríl næstkomandi verður orðabókin kynnt sérstaklega fyrir frankófílum og öðrum áhugasömum í Alliance Française. „Ritstjóri og verkefnisstjóri LEXÍU, Rósa Elín Davíðsdóttir, kemur og talar um orðabókina og gefur nokkur sýnishorn úr henni ásamt því að spjalla almennt um þær áskoranir sem fylgja því að þýða á milli íslensku og frönsku,“ segir á síðu Alliance Française. Génial, alveg hreint. (SN.)

Ráðunautur Leslistans: Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir var að senda frá sér sína sjöundu ljóðabók,Undrarýmið, fallegt bókverk, ríkulega myndskreytt. Ég var svo heppinn að rekast á ljóðskáldið á förnum vegi og við áttum stutt spjall saman.

– Sverrir Norland

Kæra Sigurlín Bjarney, hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans og til hamingju með Undrarýmið, nýju ljóðabókina þína. Einstaklega falleg kápan og í stíl við ævintýralegt umhverfið hér í ráðuneytinu.

Kæri Sverrir! Takk fyrir gott boð.

Til að hefja leik: Einu hef ég verið að velta fyrir mér upp á síðkastið, ef ekki frá fæðingu — hvað er ljóð, veistu það?

Ég held að ljóð sé margt og eigi sér margar hliða, ljóðið býr einhvers staðar í björtu kjallaraherbergi með vinkonum sínum myndlist og tónlist og það er óttalegt ólíkindatól og neitar að láta skilgreina sig, um leið og maður hefur fest það niður í stól og gefið því skilgreiningu þá stekkur það upp með látum (eða laumast burt) og breytist í eitthvað annað. Í mínum huga er ljóðformið mest spennandi því þar er fullkomið frelsi og allt hægt, ljóð eru orð sem raðast saman á áður óvæntan hátt, umbreyta lesandanum ef móttökuskilyrðin eru til staðar, ljóðinu er alveg sama um viðtökur eða sölutölur eða vinsældir, það gerir það sem því sýnist og þess vegna er ekki annað hægt en að heillast gjörsamlega af því.

Já, kannski ljóðið sé einn síðasti útvörður frjálsrar og skapandi hugsunar — og uppreisnarinnar — í mannlegu samfélagi? Rokkið er dautt — en ljóðið lifir.

En manstu hvenær ljóðið smeygði sér fyrst inn í líf þitt, hvað varstu gömul, hvar varstu stödd?

Já, ljóðið er klárlega pattaralegur útvörður. Nei, ég man ekki hvenær nákvæmlega ljóðið læddist inn í taugakerfið, man að ég var byrjuð að fikta við ljóðagerð í 7. eða 8. bekk og þá helst gamankvæði um vinkonur mínar en svo tók alvaran fljótlega við, og fyrir há-alvarlegan ungling er gott að leita í ljóðin, þar er alveg jafn mikið pláss fyrir drama og hlátur. Var alltaf að skrifa hjá mér hugmyndir, ljóð og andvörp en hélt því fyrir mig. Gæti trúað að tónlist hafi haft mikil áhrif, lærði lengi á píanó.

Og áttu þér ljóðskáld sem fylgt hafa þér lengi, og þá hvernig og hvers vegna?

Þau eru nokkur ljóðskáldin sem hafa fylgt mér lengi, dettur helst í hug Sigurbjörgu Þrastardóttur og Óskar Árna Óskarsson en svo eru þarna líka Kristín Eiríksdóttir og Elísabet Jökulsdóttir og Kristín Ómarsdóttir. Þau eru öll svo frjó og búa til nýja rafleiðni í hausnum á mér, opna nýjar og gamlar (gleymdar) víddir. Féll fyrir nokkrum árum fyrir Tomas Tranströmer og svo er ég alltaf að hnjóta um eitthvað fallegt eftir Rilke.

Nýja bókin þín er skreytt afar fallegum og sérstæðum myndum, sem eru „birtar með góðfúslegu leyfi frá Hagströmer lækningasögubókasafninu, Karónlínsku stofnuninni í Stokkhólmi“. Hver var kveikjan að ljóðabókinni, ortirðu út frá myndunum?

Já, ég notaði myndirnar sem kveikjur eða stökkpall inn í skáldskapinn, ákvað síðan að leyfa kveikjunum að vera með í bókinni enda dáldið mergjaðar finnst mér. Mig grunar að úrvinnsla mynda og texta eigi sér stað á ólíkum svæðum í heilanum og þá kannski kannski myndast nýjar tengingar í því undrarými sem heilinn er þegar ljóðin eru lesin og myndirnar teknar inn á sama tíma. Skokk með tónlist í eyrunum er ein svakalegast ljóðakveikja sem ég þekki, nenni bara svo sjaldan að skokka að ljóðin koma seint og hægt.

Bækur, 8. mars 2019

Las tvær stuttar skáldsögur í vikunni, eftir höfunda af ólíkum kynslóðum. Önnur var Millilending eftir Jónas Reyni Gunnarsson, höfund sem situr í öndvegissessi í ráðuneyti Leslistans. Þessi fyrsta skáldsaga hans hlaut mikið lof, og verðskuldað. (Mér finnst nýjasta skáldsaga hans, Krossfiskar, reyndar ennþá betri.) Hin bókin nefnist Sonnettan og er eftir Sigurjón Magnússon. Hugmyndin að baki þessari nóvellu er mjög svolítið áhugaverð og áleitin: Menntaskólakennarinn Tómas hrekst úr starfi í kjölfar þess að hafa álpast til að velja þekkta sonnettu eftir Snorra Hjartarson í kennsluhefti fyrir nemendur sína. Fljótlega heyrast raddir sem fullyrða að umræddur kveðskapur Snorra sé andstæður fjölmenningu á Íslandi („land, þjóð og tunga: þrenning sönn og ein“). Tómas situr fast við sinn keip, ljóðið sé sígilt í íslenskum bókmenntum 20. aldar og fásinna að skýla krökkum fyrir hugmyndaheimi fortíðarinnar, auk þess sem rasískir undirtónar kvæðisins spretti einungis af rangtúlkunum hjá hinni hroð- og hraðvirku siðgæðisvél samtímans. Sjálf sagan gerist svo á Spáni, þar sem Tómas og konan hans, Selma, eru í fríi. Það hriktir í hjónabandinu, og endir sögunnar er hádramatískur – allt að því móralskur í því hvernig sumar persónanna fá makleg málagjöld (og minnti mig þar frekar á rússneskar bókmenntir, segjum, Tolstoj eða Tsjekhóv, en flest önnur – og kaldhæðnari – samtímaverk). Þá staldrar maður við og spáir hvernig komið er fyrir íslenskunni þegar manni finnst það að vissu leyti ljóður á verki hversu vel það er ritað – það skapaði svolitla fjarlægð á persónur og söguefnið hversu tær og snurðulaus stíllinn er. En að öllu því sögðu, þá stökk ég til og varð mér þegar úti um fleiri bækur eftir Sigurjón Magnússon, og hlakka til að lesa þær. Þar á meðal leynist skáldsagan Borgir og eyðimerkur, sem segir frá Kristmanni Guðmundssyni, höfundinum sem gat sér ungur mikla skáldfrægð á Norðurlöndum en átti undir högg að sækja þegar hann sneri aftur heim til Íslands (stafaði það af öfund samlanda hans?). Vorið 1964 lenti hann svo, eins og frægt er, í málaferlum við ungan rithöfund, frænda minn Thor Vilhjámsson, sem veist hafði að honum í tímaritsgrein og úr spunnust miklar, og hatrammar, ritdeilur. Mér finnst Sigurjón heyja sér áhugaverð viðfangsefni og mun áreiðanlega rekast á sitthvað fleira bitastætt í verkum hans. (SN.)

Eftir að ég minntist á Michael Polanyi fyrir einhverjum Leslistum síðan fékk ég ágæta ábendingu frá Stefáni Snævarr sem tilkynnti mér að hann hefði skrifað um hann í bók sinni Kredda í kreppu. Það minnti mig á að hann sendi mér bók sína, Bókasafnið fyrir einhverju síðan og ég fór að lesa hana í vikunni. Þetta er forvitnileg blanda af fræðitextum og skáldskap sem er vel athygli verð fyrir áhugamenn um hvoru tveggja. Þakka Stefáni kærlega fyrir sendinguna.

Stefán benti mér einnig á að Hannes Hólmsteinn Gissurason hefði eitthvað skrifað um Polanyi og þegar ég gúgglaði mér til um það fann ég skemmtilegt viðtal sem HHG tók við heimspekinginn Karl Popper sem ég hef mikið dálæti á. Sama hvaða skoðanir maður kann að hafa á Hannesi þá er viðtalið býsna áhugavert. Vilji menn kynna sér verk Poppers og þora ekki alveg að kafa í hans þekktustu verk – doðrantana Logik der Forschung og Open Society and Its Enemies – þá mæli ég með ritgerðarsafninu Ský og klukkur sem Háskólaútgáfan gaf út fyrir tíu árum síðan. Það hefur að geyma valdar ritgerðir eftir Popper í þýðingu Gunnars Ragnarssonar, og eru þær ansi góðar.

Samstarfskona mín lánaði mér bókina Psychoanalyst Meets Marina Abramovic á dögunum. Eins og titillinn gefur til kynna snýst hún um viðtöl gjörningalistakonunnar frægu við sálfræðinginn Jeannette Fischer þar sem þær þræða sig í gegnum verk hennar líkt og um persónulegan fund hjá sálfræðingi væri að ræða. Hafi maður gaman af list Abromovic er þetta mjög fín bók. Ég er sjálfur á báðum áttum með hvort mér finnist hún vera frábær eða tilgerðarlegur listamaður og fannst þess vegna bókin vera einmitt þannig – frábær og tilgerðarleg á köflum. (KF.)


Óskalistinn:


Sigurlín Bjarney Gísladóttir gefur út nýja ljóðabók, Undrarýmið. Leslistinn fagnar því og hlakkar til að lesa.

Þá hefur Silja Aðalsteinsdóttir þýtt Áfram konur!, norska myndabók um kvenréttindabaráttu í aldanna rás, eftir rit­höf­und­inn Mörtu Breen og teikn­ar­ann Jenny Jor­dahl. Megi hún rata sem víðast. (SN.)

Af netinu, 8. mars 2019

Stórtækur listaverkaþjófur leysir frá skjóðunni í skemmtilegu viðtali við GQ.

Þar sem áskrifendur Leslistans eru upp til hópa skapandi og áhugavert fólk fannst mér tilefni til að minna á að búið er að opna fyrir umsóknir hjá Samfélagssjóði Valitor sem styður við margvísleg menningar-, mannúðar- og samfélagsmál. Ef þið lumið á áhugaverðu verkefni sem þarf á stuðningi á að halda þá mæli ég með því að þið skoðið. Hér er hægt að sjá fyrri úthlutanir.

Rambaði á brot úr æviminningum rithöfundarins David Pryce Jones þar sem hann ræðir um kynni sín af ungverska rithöfundinum Arthur Koestler, sem er einn af mínum eftirlætis rithöfundum. Mér þótti alveg sérstaklega gaman að sjá að niðurlag þessa greinarstúfs fjallar um hálf súrrealíska Íslandsför þeirra tveggja í tengslum við skákeinvígi Spasskí og Fischer ‘72. Hér er einn bútur:
“Could the restaurant where we took our meals really have been called Nausea? The place had its comic turn too. A man alleged to be the Icelandic national poet was lying at the foot of the bar. Every so often he would haul himself up, point a finger and bellow, “I know you! You are Hungarian, yes! But not Koestler — your name is Istvan Szabo!” and then relapse to his position on the floor.”
Veit einhver hvaða veitingastað hann gæti verið að vísa í? Eða hvaða skáld hefði verið flokkað sem þjóðskáld Íslands árið 1972? 

Fjárfestirinn og hugsuðurinn Naval Ravikant er hér með ágætis hugleiðingar um auðævi.

Svakaleg greining á því hvernig viðskiptamódel samfélagsmiðla eru með allt öðru sniði en hjá öðrum fyrirtækjum.

Flott hugleiðing frá Kolbeini Hólmari Stefánssyni um fátækt íslenskra öryrkja.

Rory Sutherland, vinur okkar, hittir naglann á höfuðið í nýjasta pistli sínumsem fjallar m.a. um af hverju það tók okkur svona langan tíma að skella hjólum á ferðatöskur.

Ég ætlaði að hlusta á lag eftir R Kelly en hætti snarlega við eftir að ég las þessa fínu grein eftir Steinunni Ólínu Hafliðadóttur um hvort hægt sé raunverulega að skilja list frá listamanni. (KF)

Við fengum ábendingu frá Hlín Agnarsdóttur, um The Dictionary of Obscure Sorrow. Ansi skemmtilegt fyrir hungraða orðháka.

Er það kannski fyrst og fremst grimmdin sem gerir okkur mennsk?

Um The Spirit of Science Fiction, nýjustu ensku þýðinguna á verki eftir Roberto Bolaño.

Steindór Grétar Jónsson skrifar um fjóra unga listamenn sem kjósa að búa í Berlín frekar en á Íslandi. Mjög skemmtileg grein og það væri gaman að sjá oftar jafn djúpa umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum. (SN.)


Augu og eyru:


Ég er búinn að hlusta á tvö ágæt viðtöl við hinn stórtæka bandaríska fjárfesti Howard Marks sem er einna þekktastur fyrir kjarnyrt minnisblöð sín sem hann hefur birt í nokkur ár. Hann er virkilega fær í því að koma flóknum skilaboðum áleiðis í einföldu máli og það sem hann skrifar getur hæglega náð til fleiri en þeirra sem hafa áhuga á fjárfestingum og viðskiptum. Hér er hann í samtali við Barry Ritholtz og hér spjallar hann við Shane Parrish.

Fyrir þá sem hafa áhuga á alþjóðastjórnmálum er þetta viðtal við stjórmálaspekúlantinn Peter Zeihan alveg stórkostlegt áheyrnar. Í viðtalinu ræðir hann um hvernig heimsskipulagið eins og við þekkjum það stefnir í að liðast í sundur og færir sannfærandi rök fyrir því að viss lönd muni standa sterkari eftir og að öðrum hnigni. Ég mæli mikið með þessu spjalli – það fékk mig til að hugsa með allt öðrum hætti um stöðu alþjóðamála. (KF.)

Ráðunautur Leslistans: Guðrún Eva Mínervudóttir

Guðrún Eva Mínervudóttir ætti að vera lesendum að góðu kunn, hún hefur sent frá sér fjöldamargar bækur og á sér marga aðdáendur. Hún var vígð inn í ráðuneyti Leslistans undir skafheiðum, bláum himni nú í vikunni, og að því tilefni áttum við stutt og kjarnríkt spjall — um lestur, skrif og, síðast en ekki síst, sálina.

  • Sverrir Norland

Kæra Guðrún Eva, hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans. Mér datt í hug að við gætum stigið út á svalir og haft fyrir augunum útsýnið yfir hafið á meðan við röbbum saman, það örvar heilann að komast út í súrefnið. Og gjörsovel, heitur tebolli til að ylja sér á lófum og í kverkum.

Takk innilega, Sverrir.

Þú hófst rithöfundaferilinn með smásagnasafni, Á meðan hann horfir á þig ertu María Mey, og sendir nú á dögunum frá þér safn númer tvö,Ástin, Texas (frábær titill!). Hvernig finnst þér að skrifa smásögur í samanburði við skáldsögur, er mikill munur, ef nokkur, þar á? Hvernig mundirðu skilgreina smásöguformið (ef þú þá skilgreinir það yfirhöfuð)?

Smásögur eru svo spennandi, bæði aflestrar og að skrifa þær, vegna þess að í samanburði við skáldsöguna eru þær mikil ólíkindatól. Þú veist aldrei hvert þær ætla með þig. Það vandræðalega við skáldsagnaformið er að það er iðulega hægt að setja skáldsögu inn í formúluna: Aðalpersóna (stundum fleiri en ein) gengur í gegnum eitthvað dramatískt og lærir af því/breytist. Smásögur (í það minnsta af þeim toga sem ég kann helst að meta) snúast meira um það að höndla óræðan en samt raunverulegan sannleika í gegnum reynslu persónanna. Þær skilja þig eftir með þá tilfinningu að þú hafir upplifað eitthvað sem þú sem lesandi þarft sjálfur að leiða til lykta. Að loknum lestri verður smásaga hluti af manni með öðrum hætti en skáldsaga. Skáldsaga er meira eins og heill hlutur, aukalíffæri, kannski, sem þú lætur græða í þig. Smásaga getur verið eins og skinnágræðsla; aukaskinn sem bráðnar smám saman við það skinn sem fyrir er þar til mörkin mást út. Þetta á auðvitað aðeins við í þeim tilvikum sem skáldsaga eða smásaga hefur djúp áhrif á lesandann. Líkaminn á það til að hafna aukahlutum.

Þetta er frábærar, og virkilega áhugaverðar, skilgreiningar. Það höfðar til mín að hlutgera bókmenntaverk svona, skynja þau sem líffæri. Rímar líka við upplifun mína sem lesandi: mörg eftirlætisverk eru eins og framlengingar á heilanum í mér, geyma reynslusvið sem eru mér allt eins nærtæk og atburðir úr lífi mínu; þarna eru handleggir sem ég veifa, fótleggir sem ég dansa á, augu sem ég nota til að skoða veröldina…

Svo eru aðrir sem mundu fetta fingur út í skilgreininguna á skáldsögunni. Reka upp ramakvein og fullyrða að um einföldun sé að ræða. Vissulega sendir kunnugleg formúla aðalpersónuna í gegnum reynslu sem þroskar viðkomandi, breytir, eflir jafnvel; og ritstjórar og ritlistarkennarar hvetja sjálfsagt margir höfunda sína og nemendur sína til að sníða sögur á slíkan hátt. (Ég gerði það vísvitandi í annarri skáldsögunni minni, Fyrir allra augum, til að sanna fyrir mér að ég gæti það: sagan fylgir klassískri byggingu í þremur hlutum og persónan hefur tekið út lærdóm og þroskast undir lokin. Þetta gat ég!) Ég óttast samt stundum að þessi formúla beri vitsmunalegri leti og dvínandi hugarflugi okkar vitni; og að Hollywood-þroskasagan verði altæk, innprentuð svo freklega í vitund okkar að öðruvísi sögur orki ekki lengur á okkur.

Því þetta gildir engan veginn um allar skáldsögur, eða hvað? Margar þeirra bestu eru alveg sín eigin verk, fylgja engri formúlu, eru kannski frekar eins og ljóð (eða opnar smásögur). Jafnvel meistaraverkin: Anna Karenína, þar fremur titilpersónan sjálfsmorð og síðasti hluti verksins fylgir eftir afdrifum hálfgerðrar aukapersónu í verkinu. Þroskast einhver? Það er ógerningur að súmmera upp efni þeirra skáldsögu sem er sú besta sem ég hef lesið á þessari öld: 2666 eftir Roberto Bolano. Sama gildir um Infinite Jest eftir David Wallace (er það skáldsaga?) og stuttu skáldsögurnar hans Cesar Aira. Sjálfur leita ég alltaf að nýstárnlegum félagsskap þegar ég les bækur og laðast að skáldsögum sem kannski eru varla skáldsögur: Richard Brautigan, Hervé Guibert, José Saramago, Marguerite Duras, Chris Kraus …

Milan Kundera — þú afsakar allt þetta nafnatog, úff! — mundi ábyggilega skilgreina skáldsöguna, sérstaklega stórar skáldsögur frá 19. öld og byrjun þeirra 20., sem eins konar dótakassa þar sem allt er leyfilegt. (Skáldsögurnar hans eru líka dæmi um vinsæl verk, sem brjóta formúluna, og daðra við að vera ritgerðir.) Maður án eiginda eftir Robert Musil væri annað gott dæmi; hér má allt. Og svo önnur, nýlegri, sem fer í flokk með þeim bestu sem komið hafa út á síðustu áratugum: The Last Samurai eftir Helen DeWitt (það má þó kannski segja að þar þroskist persónurnar, ég veit það ekki). Íslenskt dæmi: Kristnihald undir jökli?

Getur verið að við séum vönkuð, að vitsmunaleg fimi okkar sé að dala? Að við séum latir lesendur sem vilja láta mata sig á því kunnuglega og að þessi vegna hafi smásagan, sem virðist vera í svolítilli sókn, svona hressandi áhrif á okkur? Að þar megi endurstokka reglurnar með hætti sem ekki leyfist lengur í skáldsögum? Útgefendur spyrja þegar höfundur kemur með handrit inn á forlag: Fyrir hvern er þetta? Það er hættulegt fyrir listgrein ef hún þarf að mata stirðnaðan neytendahóp með fyrirframgefnar kröfur. Því ég held nebbla að virkilega góð skáldsaga sé ekki fyrir neinn þegar hún kemur út — hún gerir eitthvað alveg nýtt og segir við lesendur:

Hér er ég, þú vissir ekki að þú þarfnaðist mín fyrr en ég kom óvænt inn í líf þitt …

Ó, já, takk innilega fyrir þessa fínstillingu. Vissulega hafa verið skrifaðar fjölmargar skáldsögur sem falla ekki nákvæmlega í formið. Og aðrar sem falla í formið en gera það svo vel að maður tekur ekki eftir því. Þegar ég gaf út mínar fyrstu bækur, á tíunda áratug síðustu aldar, var mikið rætt um póstmódernisma og það þótti sjálfsagt að skrifa óhefðbundnar skáldsögur. Það er helst á síðustu tuttugu árum eða svo sem mér finnst að góðar og gegnar vangaveltur um strúktúr hafi verið teknar full bókstaflega. Hér áður fyrr spáði fólk mikið í stíl en svo fór orðið plott að heyrast æ oftar í tengslum við fagurbókmenntir. Þetta hélst í hendur við vinsældir glæpasögunnar. Eins og fagurbókmenntir fengju allt í einu minnimáttarkennd gagnvart glæpasögunni. Sumir eru jafnvel viðkvæmir fyrir því að aðgreina með þessum hætti, en mér finnst sjálfsagt að greina á milli glæpasagna og fagurbókmennta því þar með er ekki verið að segja að eitt sé betra en annað. Við sækjumst eftir ólíkum hlutum í þessum ólíku tegundum skáldskapar.

Þessi krafa um hefðbundið plott er hvorki höfunda- né lesendavæn. Hún er mögulega markaðssetningavæn. En fyrst og fremst, held ég, byggð á þeim misskilningi að lesandinn sé svo Disney-væddur að hann þoli ekkert annað en formúlu af einhverjum toga. Það er ekki rétt. Lesendur eru stórkostlega vanmetnir og eiga betra skilið. Fyrst og fremst eiga þeir skilið fjölbreytni.

Sem höfundur tek ég ekkert af þessu nærri mér. Ég á í einföldu sambandi við skáldskapargyðjuna. Hún segir mér hvað hún vill, án þess þó að vera með dólg. Ég reyni að hlusta almennilega og hlýði síðan með bros á vör. En sem lesandi verð ég stundum fyrir vonbrigðum. Það gerist æ oftar að ég fæ í hendur það heitasta utan úr heimi, eitthvað sem ég hef áður lesið um og litist vel á. Við lesturinn breytist forvitni í hrifningu: Þvílíkur sagnaheimur! Þvílíkir hæfileikar! En svo kannski um eða eftir miðja bók fer einhver svona klunnaleg plott-vél í gang og þar með rofna töfrarnir. Þá segi ég við sjálfa mig til huggunar að þessi tiltekni höfundur hljóti að vera fæddur til að auðga heiminn með opnum smásögum eða óhefðbundnari skáldsögum en sé bara ekki almennilega búinn að gefa sér leyfi til þess ennþá.

Allt þetta sem ég er að segja er auðvitað ekki annað en mínar upplifanir og alls enginn algildur sannleikur. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af stöðu skáldskaparins sem listgrein í nútímanum. Það er stöðugt verið að framleiða hugvíkkandi, vekjandi og dýpkandi skáldskap. Töfra sem rofna ekki. Þá er ekki endilega (en þó einnig!) að finna meðal þess sem mest er haldið að manni. Og á síðustu árum hef ég helst fundið þessa töfra í vissri tegund af smásögum en einnig í svokölluðum sannsögum (já, Karl Ove Knausgard) og hugrenningabókum á borð við þær sem Patti Smith er að skrifa (Just Kids, M-Train).

Einmitt, og þríleikurinn hennar Rachel Cusk, hann er frábær og skyldur verkum Knausgaards.

En hlustaðu nú: Ég heyrði þig einu sinni tala á höfundarkvöldi í Gunnarshúsi, að mig minnir, og þar nefndirðu að alltaf hefði legið vel fyrir þér að skrifa góðan stíl, en síður, í hið minnsta til að byrja með, að setja saman plott — skýran og samhangandi söguþráð. Þú skrifaðir fallegan texta sem átti til, ef þú passaðir þig ekki, að enda út í móa. Af þessum sökum hefðirðu tekið þig til og virkilega kafað í sagnagerð, strúktur, og snúið svo aftur að sagnagerðinni tvíefld, þá búin að læra tökin á því að byggja upp skáldsögur, eins og sannast á bókunum þínum. Er ég að búa þetta til, eða er þetta á sannleika byggt, ljóstraðirðu þessu upp þetta dimma vetrarkvöld í Gunnarshúsi, meðan snjóiðurnar þyrluðust um ljóskeilur götustauranna? Og hvað gerðirðu, nákvæmlega, þegar þú stúderaðir sögubygginguna, tókstu í sundur sígild meistaraverk bókmenntanna, kafla fyrir kafla, klipptir jafnvel í sundur bækur og hengdir upp á þvottasnúru til að fá heildaryfirlit, eða lastu leiðbeinandi verk um ritstörf, eða æsktir ráða hjá vitru fólki? Og hvað nú, plottarðu bækurnar þínar, skref fyrir skref, áður en þú skrifar þær? Ertu til í að veita Leslistanum örlitla innsýn í sköpunarstarfið hvað þetta snertir, eða er ég of nærgöngull, alltof nærgöngull?

Það er rétt að hér áður fyrr eltist ég fyrst og fremst við fegurð augnabliksins með fiðrildaháfinn á lofti og skrif mín báru þess merki. Fyrstu skáldsöguna skrifaði ég átján og nítján ára og hún var eiginlega 200 síðna prósaljóð. Hún kom aldrei út en var mér góður skóli og höfundarröddin tók að mótast. Það var ekki fyrr en tíu árum síðar, eða með Yosoy sem kom út 2005, að ég áttaði mig á að efnið sem ég var að vinna með hrópaði á strúktúr. Þar voru margar fyrirferðarmiklar persónur og hver og ein þeirra þurfti sinn söguboga. Allt þurfti síðan að falla saman saumlaust. Ég átti maraþonsamtöl við gáfaða vini, flest við Val Antonsson, Nýhíl ljóðskáld og heimspeking sem var lengi vel óformlegur ritstjóri minn. Ég las bækur um kvikmyndahandrit, vegna þess að þær voru svo skírar og skorinorðar að það var ekki nokkur leið að taka þær alveg hátíðlega (á blaðsíðu 50 skal vera vendipunktur númer eitt, hahaha). Frá og með Yosoy hafa skáldsögur mínar staðið undir nafni og haft grjótharðan strúktúr sem samt fellur þannig inn í landslagið að lesandinn á ekki að verða var við hann sem slíkan. Þær eru Skaparinn, Allt með kossi vekur, Englaryk og Skegg Raspútíns.

En ég myndi aldrei plotta bækurnar fyrirfram. Starf mitt felst fyrst og fremst í að þvælast sem minnst fyrir undirvitundinni. Eins og Stephen King (sem fyrirfram-plottar heldur ekki sínar bækur) lýsti því þá má líkja skáldsagnaskrifum við það að grafa upp risaeðlubeinagrind. Það væri fljótlegast að nota stórvirkar vinnuvélar, en þær leggja allt í rúst. Þess vegna er maður að potast þetta með teskeið og mjúkan bursta og láta heildina smám saman koma í ljós. Þá er samt betra að vita eitthvað um anatómíu forndýra og að sama skapi að hafa kynnt sér hvernig plott virkar.

Líkingin hans Stephen King um risaeðlur finnst mér sniðug og „spot on“. Nærtækari líking fyrir mig sem er af annarri kynslóð er samt niðurhal. Maður þarf að leyfa þessu að hlaðast niður í rólegheitum og það gerist helst þegar líkaminn er í slökunarástandi. Stundum vakna ég um miðjar nætur og átta mig á að andardrátturinn er eitthvað þvingaður. Þá leyfi ég mér að ofanda í smástund og eftir það hefst niðurhalið. Þetta er allt í andardrættinum, eins og jógarnir segja. Ég er eiginlega hætt að rjúka á fætur um miðjar nætur til reyna að skrifa allt niður. Eftir að niðurhalið kemur er innihaldið aðgengilegt, bara þegar hentar. Það að reyna að plotta eða skrifa áður en niðurhalið kemur er ekki til neins annars en að tefja fyrir. Þess vegna bíð ég bara róleg eftir að undirvitundin skili af sér einni og einni kjúku og stundum lærlegg. Eins og ég er innilega óþolinmóð manneskja. Minn heittelskaði þarf til dæmis stöðugt að minna mig á að leyfa bílnum að nema staðar áður en ég stekk út.

Hvað finnst þér um skáldsöguna almennt þessa dagana, er hún að syngja sitt síðasta eða einungis rétt að hefja flugið? Sumum virðist mjög í mun að lýsa því reglulega yfir að hún sé á dánarbeðinum — en þó þykist ég nokkuð viss um að hún muni koma í útför okkar beggja, rjóð í vöngum og í góðu formi, enda ekki svo ýkja gömul, bara nokkurra hundrað ára (og það er enginn aldur). Hvað finnst þér?

Skáldsagan er ekki að syngja sitt síðasta, heldur rétt að hefja flugið, eins og þú segir. Eða eru ekki fuglar himinsins einmitt beinir afkomendur risaeðlanna?

Jú!

Og svo er það smásagan: Áttu þér einhverja eftirlætis-smásagnahöfunda, innlenda, erlenda? Ef svo er, hvernig koma galdrarnir fram hjá þeim?

Ég á mér mjög marga eftirlætis smásagnahöfunda og það sem þeir eiga sameiginlegt er nánd og hægð. Þeir eru nærgöngulir við persónur sínar og sýna breyskleika þeirra í nærmynd en hætta ekki fyrr en við höfum eignast einhvers konar samúð og skilning. Vegna þess að reynsla persónanna er núna reynsla okkar líka. Vegna þess að höfundurinn hefur með nákvæmni og þolinmæði sett okkur í þeirra spor. Galdurinn felst líka í því að hafa söguna opna í báða enda án þess þó að segja of mikið eða of lítið. Lesandanum á helst að finnast fullkomlega eðlilegt að sagan endi þar sem hún endar, en án þess þó að vita nákvæmlega hvers vegna sögunni lýkur á akkúrat þessum stað.

En á hvað trúirðu, Guðrún Eva, hver ertu? Og hvers vegna gerðistu rithöfundur?

Nú fyrst geristu nærgöngull. Það er gott hjá þér! (Mér er alveg sama þótt fólk viti hvernig ég vinn. Það er bara tæknilegt atriði.)

Fyrst seinni spurningin og þú mátt velja svarið úr eftirfarandi möguleikum: a) Ég gerðist rithöfundur vegna þess að fyrsta skáldsagan byrjaði að hlaðast niður. b) Ég þráði að tengjast heiminum gegnum lestur og skrif. c) Mig langaði að vekja á mér athygli? d) Níutíu og fimm ára feneysk kona aumkaði sig yfir mig átján ára bjálfa á interrail ferðalagi og forðaði mér frá því að eyða nótt á síkisbakka. e) Eftir barns- og unglingsævi sem einkennist af stanslausum lestri er náttúrulegt viðbragð að byrja að skrifa, næstum sjálfsögð kurteisi, líkt og að svara þegar á mann er yrt.

Síðan seinni spurningin: Áðan sagði ég að þetta væri allt í andardrættinum og nú geng ég enn lengra: Ég er andi. Ég er ekki líkami með sál heldur sál íklædd líkama. Ég finn fyrir smá hræðslu í hvert sinn sem ég viðurkenni þetta vegna þess að fullt af fólki sem ég met mikils hefur ofnæmi fyrir lífsskoðunum á borð við þessa. En maður verður víst að standa og falla með því sem maður er. Auðvitað gæti ég haft rangt fyrir mér — sem er í góðu lagi, það er hin sjálfgefna áhætta sem maður tekur í hvert sinn sem maður leyfir sér að hafa skoðun — ég veit ekkert fyrir víst frekar en aðrir. En á endanum er þetta minn daglegi veruleiki og mín fyrirferðarmesta sjálfsmynd: Ég er sál.

Bækur, 1. mars 2019

Las Keisaramörgæsir eftir Þórdísi Helgadóttur. Frábær, og ekki beint hægt að segja að þetta smásagnasafn beri þess merki að hér sé um fyrsta verk höfundar að ræða. Hér er spjall við Þórdísi sem gekk á sínum tíma í ráðuneyti Leslistans.

Las einnig Þorpið, nýjustu spennusögu eftir Ragnar Jónasson, annan ráðunautLeslistans. Þar leikur höfundur sér með ýmis þekkt minni: lítið afskekkt þorp þar sem búa kynlegir kvistir, drykkfellda aðalpersónu sem getur ekki stólað á minni sitt, dáin börn sem sækja á þá sem eftir lifa. Snaggaraleg og spennandi saga, skemmtilega skrítin á köflum – hæfilega ógnvekjandi, hæfilega kósý.

Og fyrst við erum komin inn á myrkar lendur glæpasögunnar: The London Times útnefndi Patriciu Highsmith einhvern tímann besta glæpasagnahöfund allra tíma. Ég er ekki frá því að ég sé að verða sammála því vali. (Er reyndar ekki sérlega víðlesinn í glæpabókmenntum, viðurkenni það.) Brenndi í gegnum The Two Faces of January. Frábær inngangsreitur fyrir þá sem ekkert hafa lesið eftir Highsmith. Hún er svo nösk í að láta venjulegt fólk rata í hræðilegar aðstæður – og svo versnar ástandið og versnar eftir því sem söguhetjurnar reyna að bæta fyrir mistök sín.

Að síðustu hef ég svo verið að rifja upp kynnin við Reading Like a Writer eftir Francine Prose, bók sem ég las í ritlistarnámi á sínum tíma. Þá fannst mér Prose einblína óhóflega á orðaval og strangtæknileg atriði, en nú, eftir margra ára ströggl við að setja sjálfur saman sögur, finnast mér innsæi hennar og þekking æðisleg, og eins lag hennar á að miðla fáránlega djúptkafandi pælingum um, tja, efnisgreinina sem listrænt verkfæri. (Nokkuð sem ég hef sjálfur pælt mikið í.) Frábær lesning fyrir þá sem skrifa en einnig hvern þann sem hefur áhuga á texta, frásagnarlist, lestri. Óhjákvæmilegt að hripa hjá sér ýmsar góðar ráðleggingar, til að mynda þessa beinu tilvitnun um hvers vegna maður ætti alltaf að hafa handritsdrög sín yfir upphátt, innlifaðri röddu (bls. 56):
„A poet once told me that he was reading a draft of a new poem aloud to himself when a thief broke into his Manhattan loft. Instantly surmising that he had entered the dwelling of a madman, the thief turned and ran without taking anything, and without harming the poet. So it may be that reading your work aloud will not only improve its quality but save your life in the process.“ (SN.)


Óskalistinn:

Út er komin ný ensk þýðing á bók eftir uppáhaldshöfundinn minn, Cesar Aira: Birthday. Lestu hana – og allt annað eftir Aira.

Þá er hin mexíkanska Valeria Luiselli að senda frá sér nýja skáldsögu, Lost Children Archive. Hún er mjög klár og áhugaverður höfundur. Hefur í síðustu tveimur verkum sínum tekið fyrir innflytjendastraum frá Mexíkó til Bandaríkjanna, og einkum beint sjónum sínum að hlut barna.

Þá finnst mér Nervous States: Democracy and the Decline of Reason virka spennandi. Sú hlaut lof í The New York Times. Ég vitna í höfundinn: „As we become more attuned to ‘real time’ events and media, we inevitably end up placing more trust in sensation and emotion than in evidence. Knowledge becomes more valued for its speed and impact than for its cold objectivity, and emotive falsehood often travels faster than fact.” 

Ný íslensk bókaútgáfa, Una útgáfuhús, stendur fyrir endurútgáfu á Undir fána lýðveldisins eftir Hallgrím Hallgrímsson. Opnunar- og útgáfuhóf í Mengi sjötta mars næstkomandi. Ég ætla að mæta þangað ef einhver vill finna mig í fjöru. (SN.)

Hef lengi lesið bloggið Marginal Revolution sem bandaríski hagfræðingurinn Tyler Cowen heldur uppi ásamt kollega sínum Alex Tabarok. Hef nokkrum sinnum vísað á greinar eftir þá tvo og minnst á bækur eftir Cowen. Ég var því mjög glaður að sjá að það er væntanleg ný bók eftir Cowen sem er lofsöngur til kapítalismans. (KF.)