Allt efni

Af netinu, 23. nóvember 2018

Grein vikunnar. Bill McKibben, ein af hetjum samtímans (og ég nota það orð ekki af neinni léttúð), skrifar um hvernig hinn byggilegi heimur okkar er, bókstaflega, byrjaður að skreppa saman. „The poorest and most vulnerable will pay the highest price. But already, even in the most affluent areas, many of us hesitate to walk across a grassy meadow because of the proliferation of ticks bearing Lyme disease which have come with the hot weather; we have found ourselves unable to swim off beaches, because jellyfish, which thrive as warming seas kill off other marine life, have taken over the water. The planet’s diameter will remain eight thousand miles, and its surface will still cover two hundred million square miles. But the earth, for humans, has begun to shrink, under our feet and in our minds.“ (SN.)

Stórskemmtilegt viðtal við listspekinginn Söruh Thornton sem er líklega einna þekktust fyrir bók sína Seven Days in the Artworld sem ég mæli mikið með. Tilefni viðtalsins er bók sem hún var að gefa út sem fjallar um listamanninn og eðli hans.

Þeir Patrick Collison og Michael Nielsen skrifa hér stórmerkilega grein um vísindin og hversu mikið hefur hægt á framförum á því sviði á síðustu árum. Ég er sammála hverju orði í niðurlagi greinarinnar: „The evidence is that science has slowed enormously per dollar or hour spent. That evidence demands a large-scale institutional response. It should be a major subject in public policy, and at grant agencies and universities. Better understanding the cause of this phenomenon is important, and identifying ways to reverse it is one of the greatest opportunities to improve our future.“

Vísindamaðurinn Laslo Barabasi hefur hannað sérstakan algóritma sem reiknar út hvaða vísindamenn eru líklegir til að vinna Nóbelsverðlaun. Samkvæmt þessum algóritma átti maður að nafni Douglas Prasher að vinna verðlaunin árið 2008 en í staðinn vinnur kauði á bílasölu í Alabama-fylki í Bandaríkjunum. Hérskrifar hann skemmtilega grein um þetta furðulega mál.

Spámarkaðir (e. prediction markets) eru forvitnileg fyrirbæri. Þau eru svo forvitnileg að mínu mati að ég skrifaði BS ritgerðina mína á sínum tíma um þá. Þess vegna fannst mér gaman að lesa þessa grein um kvikmyndaspámarkaði – þ.e. spámarkaði fyrir sölutölur kvikmynda og af hverju þeir eru ekki til staðar lengur.

Áðurnefndur Barabasi hefur verið ansi duglegur við tölfræðigreiningar. Hér er skrifað um nýlega greiningu hans á starfsferlum listamanna. Hún sýnir fram á að listamenn sem komast snemma undir verndarvæng áhrifamanna í listheiminum eru töluvert líklegri en aðrir til að ná árangri. (KF.)

Ekki líst mér á hvert þessi heimur stefnir. Fólk les minna en áður, heldur minni athygli við hlutina en áður, þénar minna en áður, drekkur minna en áður … og nú er fólk einnig byrjað að stunda minna kynlíf en áður! (SN.)

New York Times tók á dögunum saman lista yfir 100 áhugaverðar bækur sem komu út á árinu 2018.

MMR birti í tilefni af Degi íslenskrar tungu í síðustu viku könnun á lestrarvenjum landsmanna. Mér fannst gaman að sjá hversu margir Íslendingar lesa sér til skemmtunar og alveg sérstaklega forvitnilegt að sjá tölurnar flokkaðar niður eftir stjórnmálaskoðunum þátttakenda. (KF.)

Auður Jóns kemur skáldsystur sinni, Birgittu Haukdal, til varnar.

Dagur Sig. og bleika bindið hans Egils Helgason.

Ný ljóðabók eftir Hannes Pétursson er komin út, Haustsaugu. Af því tilefni er ekki úr vegi að rifja upp þessi skrif bókmenntafræðingsins Viðars Hreinssonar, um heildarsafn á ljóðum skáldsins. (Þarna leynist einnig grein um bók HP frá 2006, Fyrir kvölddyrum.) Hér er Hannes svo í fínu spjalli í Kiljunni.

Fín grein í The New Yorker um ógnvænlega útbreiðslu, og í raun yfirtöku, Amazon á bandarísku samfélagi. Nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins verða á tveimur stöðum, í Norður-Vermont annars vegar og hins vegar í Queens. Flestum New York-búum hrýs hugur við þessum áformum, og þó gerðu borgarvöld allt til að lokka Bezos og félaga til borgarinnar, fullyrða að þetta muni reynast borginni vel og hafa heitið Amazon alls kyns skattundanþágum. Mér finnst dapurlegt að í þessum hugsjónalausa og kaldhamraða síðkapítalisma sem öllu virðist stýra í samtímanum skuli borgaryfirvöld New York „neyðast“ til að leyfa einu stærsta fyrirtæki heims (í eigu ríkasta manns í heimi) að komast hjá því að greiða til baka til samfélagsins, sem er jú einu sinni jarðvegurinn sem fyrirtækið spratt upp úr. Í greininni segir meðal annars: „The very idea that a trillion-dollar company run by the world’s richest man could run an American Idol auction on more than two hundred thirty cities across the United States (and Canada and Mexico) to extract data on sites and on incentives, and pick up a handy three billion dollars of taxpayer money in the process, is a sad statement of extreme corporate power in our time.” Niðurlag greinarinnar er líka gott. (SN.)

 


Til að hlusta á:

Ég hef nokkrum sinnum minnst á Benedict Evans og ágætt fréttabréf hans um tæknigeirann. Hér heldur hann mjög góðan fyrirlestur um það sem hann sér fyrir sér sem framtíð tækniþróunar. (KF.)

Nýjasti þátturinn af Kveik er áhugaverður. „Umræður um loftslagsmál og skuldbindingar Íslands í þeim efnum, enda iðulega á þessum nótum: Til hvers að standa í öllu þessu veseni – orkuskiptum og skógrækt og landgræðslu og að þróa græna tækni – ef 70 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi koma frá framræstu landi?“ (SN.)

Af netinu, 16. nóvember 2018

Don DeLillo, einn virtasti skáldsagnahöfundur Bandaríkjanna, er að skrifa bóksem gerist í framtíðinni. Hann ferðast þó ekki langt fram í tímann í skrifum sínum að þessu sinni heldur aðeins um þrjú ár. „I’m not trying to imagine the future in the usual terms. I’m trying to imagine what has been torn apart and what can be put back together, and I don’t know the answer.“

Skemmtilegt viðtal við Hallgrím Helgason um nýju skáldsöguna hans. Lestursins virði, einkum vegna allra orðanna/nýyrðanna sem fæðast jafnóðum á vörum höfundarins: „innanfróð“, „flettiorka“, „feigðarfagurt fyllimenni“.

„It is not remotely implausible that in the near future, a tremendous amount of communication could be conducted in tandem with an A.I.“ Kannski verður Leslistinn brátt tekinn saman og skrifaður af gervigreind? Muntu taka eftir breytingunni þegar það gerist, kæri lesandi?

Heimurinn er að farast og flest okkar eru furðu róleg yfir því. Ekki þó samtökin Extinction Rebellion í Bretlandi.

George Monbiot skrifar um ofannefnd samtök, Extincton Rebellion, og veltir fyrir sér hvers vegna það gangi svo hægt að skipta um orkugjafa og stemma stigu við frekari hamförum. „The oligarchic control of wealth, politics, media and public discourse explains the comprehensive institutional failure now pushing us towards disaster. Think of Donald Trump and his cabinet of multi-millionaires; the influence of the Koch brothers in funding rightwing organisations; the Murdoch empire and its massive contribution to climate science denial; or the oil and motor companies whose lobbying prevents a faster shift to new technologies.“

Íslendingar láta sig einnig umhverfismálin varða. Hér heldur Andri Snær um pennann. (SN.)

Móðir mín er farin að skrifa reglulega pistla í Kjarnann um kynlegan fróðleik. Hér er nýjasti pistillinn hennar, sem fjallar um sköpunarsöguna. Mæli mikið með þessu!

Og talandi um kynlegan fróðleik. Hér er forvitnilegt viðtal við Camille Paglia.

Það þekkja fáir danska heimspekinginn Sören Kierkegaard jafn vel og hann Guðmundur Björn Þorbjörnsson (sem var einmitt fyrsti Ráðunautur Leslistans). Hann benti okkur nýlega á flotta grein um Kierkegaard og mikilvægi hans í netheimum. Þökkum Guðmundi kærlega fyrir ábendinguna.

Ég er nokkuð viss um að Edge.org sé gáfulegasta síðan á internetinu. Á henni birtast reglulega viðtöl við alls konar gáfumenni sem rista verulega djúpt. Þetta spjall við mannfræðinginn Mary Catherine Bateson er eitt þeirra. Í því fjallar hún um hvað okkur skortir almennt kerfishugsun (slæm þýðing mín á hugtakinu systems thinking). Hér er ein góð lína frá henni: „The tragedy of the cybernetic revolution, which had two phases, the computer science side and the systems theory side, has been the neglect of the systems theory side of it. We chose marketable gadgets in preference to a deeper understanding of the world we live in.“

Hér er ágætur langlisti yfir bestu viðskiptabækur ársins að mati 800-CEO READ (sem hljómar eins og símanúmer sem ég gæti hugsað mér að hringja í).

Fáir hafa greint þjóðernishyggju með jafn ítarlegum og gáfulegum hætti og Isaiah Berlin. Hér er ágæt grein í Foreign Policy sem fjallar um skrif Berlin um þjóðernishyggju og það ríka erindi sem sú greining á í dag. Hér er góð lína frá Berlin sjálfum sem rammar hugmyndir hans ágætlega inn: „Few things have done more harm than the belief on the part of individuals or groups (or tribes or states or nations or churches) that he or she or they are in sole possession of the truth.“

Frábær grein eftir John Gray, lærisvein Berlin, um það hvernig þvagskál Duchamp er ein sterkasta tákmynd hins frjálslynda vesturs.

Ég hef lengi lesið Farnam Street bloggið, og oft vísað á það á þessum vettvangi. Það er rekið af hinum kanadíska Shane Parrish. New York Times fjallaði nýlega um kauða og dregur upp fína mynd af honum.

Hér er skemmtileg grein í Guardain um „erfiðar“ bækur og af hverju þær eru mikilvægar.

Þessi skýrsla fjallar um helstu áhugamál mín – bækur og tölfræði. Hér eru tekin saman gögn um lestur fólks, þ.e. hversu margir klára tilteknar bækur. Áhugaverð samantekt – þótt gögnin vísi eingöngu til rafbóka. (KF.)

Tveir þekktir höfundar, Raymond Chandler og Ian Fleming, hittust einu sinnitil að ræða saman um spennusöguna…

Tim Parks skrifar um Leopardi, ítalska skáldið sem var krypplað af bogri yfir bókum. (SN.)

 

Til að hlusta á:

Sverrir spjallaði við Jórunni Sigurðardóttur í þættinum Orð um bækur. Aðrir gestir voru Fríða Ísberg og Haukur Ingvarsson. (SN.)

Ég hlustaði nýlega á virkilega forvitnilegt viðtal við uppeldissérfræðinginn Barböru Coloroso um hvernig maður á að ala upp ábyrg og hamingjusöm börn. Sá sem tekur viðtalið er áðurnefndur Shane Parrish sem heldur úti skemmtilegu hlaðvarpi sem nefnist The Knowledge Project.  (KF.)

Bækur, 16. nóvember 2018

Ég las loks King Kong Theory, eftir hina frönsku Virginie Despentes, sem gert hefur það gott að undanförnu með þríleiknum um Vernon Subutex. Despentes er magnaður höfundur, rödd hennar eins og elding. Í King Kong-kenningunni fjallar hún meðal annars um það þegar henni var nauðgað og skefur ekki utan af hlutunum. Mér finnst stimpillinn „skyldulesning“ oft kjánalegur, en set hann engu að síður á þessa bók. Eitt kraftmesta femínista-manífestó sem ég hef lesið. Fyrir þá sem ekki lesa frönsku: Bókin er til í vandaðri enskri þýðingu, sem gefin var út af The Feminist Press í New York, og hér má svo hlýða á Despentes í ágætu spjalli á alheimstungunni.

Dagur Hjartarson hefur gefið út nýja ljóðabók, Því miður. Þar snýr hann skemmtilega upp á kunnuglegar setningar sem iðulega óma í símsvörum fyrirtækja: Því miður eru allir þjónustufulltrúar okkar uppteknir… Höfundur hefur margt til síns máls um samskipti (eða samskiptaleysi) okkar í samtímanum, því miður.

Jón Ólafsson, tónlistarmaðurinn knái, hefur sent frá sér tvær sniðugar bækur, Sönglögin okkar og Vögguvísurnar okkar. Þar leynast laga- og vísnatextar, ásamt spilara með undirleik við lögin. Ég hef nýtt mér þennan spilara óspart og farið á kostum ásamt dóttur minni. Brjálað stuð, og stundum verið hringt á lögregluna í Queens. Bækurnar eru myndskreyttar á skemmtilega galgopalegan hátt af Úlfi Logason. Mæli mikið með þessum bókum fyrir söngelska foreldra sem vilja kenna börnunum sínum íslenska texta og halda uppi fjöri á síðkvöldum. (SN.)

Óskalisti Leslistans:

Hinn knái þýðandi, Sigurjón Björnsson, hefur sent frá sér aðra þýðingu á skáldsögu eftir franska meistarann Honoré de Balzak; Evgeníu Grandet. Ég las fyrri þýðingu Sigurjóns á annarri þekktri skáldsögu eftir Balzac, Föður Goríot, og einnig íslenskun hans á ævisögu Stefans Zweig um höfundinn franska. Báðar voru þær stórvel unnar, á ríku og auðugu máli. Hlakka til að næla mér í þessa. (SN.)

Ég hef séð mikið fjallað um nýja bók um Kaupþing eftir Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans. Bókin heitir Kaupthinking: Bankinn sem átti sjálfan sig og lofar ansi góðu miðað við það sem ég hef lesið og heyrt um hana. Hér er höfundurinn í viðtali í Silfrinu síðastliðna helgi.

Svo sá ég í Bókatíðindum minnst á þýðingu á bók eftir Arthur Koestler, Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki. Eftir smá gúggl sé ég reyndar að hún kom út í fyrra og skil ekki alveg hvernig sú útgáfa gat farið fram hjá mér. Koestler er einn af þessum höfundum sem maður hefur eins konar samviskubit yfir að hafa ánægju af, vegna þess hversu mikill hrotti hann var í daglegu lífi. Hann skrifaði tvær bækur sem eru á meðal bestu bóka sem ég hef lesið: Scum of the Earth og Darkness at Noon, sem er líklega hans þekktasta verk. (KF.)

Ráðunautur Leslistans: Sjón

1_G39a6oSXfUoPpKVdS3MATA

Ég mælti mér mót við Sjón klukkan 16:03 á ónefndu kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur. Fyrst þurfti ég reyndar að ljúka erindi hjá bókaforlagi einu í grenndinni og sat þar góðan fund ásamt forleggjara. Að svo búnu yfirgaf ég bækistöðvar nefnds forlags og rölti sem leið lá að kaffihúsinu. Ég var þangað kominn klukkan 16:02. Mínútu síðar, eða á slaginu 16:03, birtist Sjón inn úr gættinni. Slík nákvæmni er til fyrirmyndar, en um leið nánast absúrd. Hann hafði þá einnig verið að sinna erindi hjá bókaforlagi í grenndinni — raunar hjá sama bókaforlagi og ég — og ekki nóg með það heldur hafði hann ætlað að hitta þar sömu manneskju og ég hafði hitt og fundað með. Því miður hefði sú manneskja hins vegar verið, af augljósum ástæðum, vant við látin, „á fundi með öðrum höfundi“. Ég ljóstraði því upp að sá höfundur hefði að líkindum verið ég. Sjón tók því vel. Upp úr dúrnum kom í kjölfarið að við hlytum að hafa yfirgefið bækistöðvar forlagsins um svipað leyti, eða klukkan 15:56 og 15:57, og svo að líkindum gengið samsíða götur áleiðis að kaffihúsinu — ég Vesturgötuna, Sjón Ránargötu. Klukkan var nú orðin 16:05. Sjón tók fram að fundur minn með forleggjaranum hefði sem betur fer ekki hindrað hann í að reka sitt erindi hjá sama forleggjara, sem var að skrifa undir pappíra, hann hefði gert það í góðu samstarfi við aðra góða manneskju innan vébanda sama forlags. Við ákváðum að fagna farsælum lyktum erinda okkar með því að panta okkur kaffi; ég ameríkanó, Sjón latte. En nefndur latte kemur einmitt við sögu síðar í viðtalinu, á leikrænasta augnabliki þess.

– Sverrir Norland

Sæll og blessaður, Sjón, velkominn í ráðuneyti Leslistans. Oftast byrja ég nú bara á að inna fólk eftir því hvað það sé að lesa í augnablikinu… Ertu að lesa eitthvað sem þér þætti gaman að spjalla um, benda á?

Já, ég er að lesa einhverja allra sérkennilegustu skáldsögu, eða skáldsagnaflokk, sem ég hef nokkurn tímann komist í. Það er þríleikur eftir Mariu Gabrielu Llansol, sem er portúgalskur höfundur, hún var í útlegð frá herforingjastjórninni og bjó í Belgíu held ég meira og minna öll sín fullorðinsár. Á ensku heitir þríleikurinn A Geography of Rebels, og er gefinn út af Deep Vellum-útgáfunni í Texas. Bókin kom út fyrir bara nokkrum vikum. Þetta er texti sem er staðsettur einhvers staðar við öll hugsanleg mörk, og fer yfir þau — mörk veruleika, ímyndunar, nútíma, fortíðar, hins mennska, hins dýrslega. Það er eitthvert flot þarna sem ég hef aldrei séð áður í texta. Þarna eru þekktar persónur úr heimspeki og bókmennta- og trúarsögu, og taka á sig ýmsar myndir í huga höfundar og helsta sögumanns verksins. Nietzsche er þarna og flæmskir sértrúarmenn frá tímum siðaskiptanna… og þetta er bara einhver mest spennandi og furðulegasti texti sem ég hef komist í lengi. Já, þetta er ég sem sagt að lesa núna.

Hljómar vel.

Já, og ég er nýbúinn að lesa aðra bók úr hinum latneska heimi, það er bók sem er einnig nýkomin út í Bandaríkjunum, sú er eftir mexíkanskan höfund og heitir The Taiga Syndrome — Taige-heilkennið — og er eftir höfund sem heitir Cristina Rivera Garza. Það er einnig með sérstakari bókum sem ég hef lesið lengi.

Og er einnig skáldsaga?

Það er líka skáldsaga, stutt skáldsaga. Í upphafi þykist hún vera einhvers konar spennusaga, eða saga með einkennum spæjarasögunnar. Kona fær það hlutverk að hafa uppi á annarri konu sem hefur stungið af frá eiginmanni sínum með öðrum manni og hefur flúið inn á svæði sem heitið Taiga, þaðan sem fæstir eiga afturkvæmt. Og það verður þarna einhvern ofboðslega sérkennilegur heimur til sem minnir í ýmsu á Stalker, kvikmyndina eftir Tarkovsky, þarna verður til svæði þar sem öll lögmál mannlegs samfélags og náttúru eru úr skorðum. Mjög heillandi bók.

Og svo er ég nú líka að lesa eitthvað íslenskt. Ég er akkúrat í þessu augnabliki að lesa Kjalnesinga sögu.

Ja-há?

Hún er ógurlega skemmtileg. Létt og skemmtileg. Stutt. Tuttugu blaðsíður, eitthvað svoleiðis. Maður bara klárar hana.

Og ertu að lesa hana þér til gamans eða er þetta hluti af einhvers konar rannsóknarvinnu?

Ég er fyrst og fremst að lesa hana mér til skemmtunar en líka sem undirbúning fyrir bók sem ég mun hugsanlega skrifa eftir þrjú ár og kannski aldrei.

Svo er ég líka nýbúinn að lesa Patrick Modiano, skáldsögu sem heitir á ensku Such Good Boys. Góðir strákar.

Já, þýðingu sem var að koma út?

Einmitt, var að koma út. Þar er Modiano á slóðum æsku sinnar. Bókin segir frá drengjum í heimavistarskóla og lýsir því hvað um þá verður, og er sögð með þessari sérstöku aðferð sem Modiano notar jafnan, þar sem minningar og tilbúningur eru á floti. Það má eiginlega segja að allar þessar bækur, sem ég er að lesa, séu þannig: það verður eitthvert veruleikarof í þeim…

Ertu aðdáandi Modiano?

Já, mikill aðdáandi. Ég hafði fyrst gríðarlega fordóma gagnvart honum. Þegar hann fékk Nóbelsverðlaunin rámaði mig eitthvað í nafnið. Það voru til í bókabúðum eftir hann verk á ensku, á milli ’85 og ’95 komu út nokkrir titlar. Og ég mundi eftir honum, hafði lesið mér eitthvað aðeins til um hann, og svo þegar hann fékk Nóbelsverðlaunin og rökstuðningurinn var gefinn — að þetta fjallaði um minnið og það að maður gæti ekki munað og væri að reyna að muna, og væri staðsett mjög nákvæmlega á tilteknum stöðum í París, og að höfundurinn sneri alltaf aftur og aftur til þessara staða, þessara minninga — þá fannst mér þetta hljóma eins og … eins og …

Þreytandi kokteill?

… já, svakalega þreytandi, franskur, heimspekilegur skáldskapur. En svo, á meðan ég var í þessu fordómakasti, þurfti ég fyrir tilviljun að tala við Sigurð Pálsson í síma og sagði við hann: Hvað geturðu sagt mér um þennan Modiano? Mikið svakalega hljómar þetta eitthvað óspennandi.

Uppáhaldshöfundur Sigga …

Já, þá fékk ég bara tuttugu mínútna fyrirlestur um Modiano. Dreif mig svo út samstundis og náði í bók sem heitir á frummálinu Dóra Bruder. Og heillaðist alveg.

Sú er einmitt komin út á íslensku.

Já, kom út nú fyrir skemmstu í þýðingu Sigurðar. Og ég las hana og gat ekki hætt, lauk henni klukkan fjögur um nóttina. Og hugsaði með mér að jafnvel þótt maðurinn hefði aldrei skrifað neitt annað en þessa bók ætti hann skilið að hljóta Nóbelsverðlaunin.

Og síðan hef ég haldið áfram að lesa hann. Í rauninni er ég orðinn einn af þessum Modiano-fíklum, sem hann heldur í sífelldri spennu, með loforði um að segja alla söguna … og svo gerir hann það aldrei.

Hann minnir mig mjög á film noir, það er andrúmsloft film noir í sögum hans. Og alveg eins og þar er hann alltaf með sitt fasta persónugallerí sem endurtekur sig. Og ég get horft endalaust á film noir… Vúps!

[Hér hellir sjón niður latte-num sínum. Uppi verður fótur og fit. Ég tel, eftir á að hyggja, líklegt að Sigurður Pálsson hafi hér verið kominn til okkar í anda, uppnuminn yfir fjörlegum samræðum um eftirlætishöfundinn hann. Hann hafi af glettnisskap staðfest nærveru sína með því að pota í Sjón, sem svo rak sig í kaffibollann.]

[Mínútu síðar, þegar menn hafa jafnað sig eftir óhappið.] Hvaða bók, eða höfundur, kveikti á þér sem höfundi, hjálpaði þér að finna leið til að skrifa bækur?

Ég hef haldið mig við það síðustu þrjátíu og fimm árin að sú bók sem skipt mig hefur mestu sé Meistarinn og margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov. Ég las hana fyrst í enskri þýðingu, þá var hún ekki komin út á íslensku. Það var bók sem Alfreð Flóki lánaði mér og krafðist þess að ég læsi svo ég yrði viðræðuhæfur. Það voru þrjár bækur sem ég þurfti að lesa til að hægt yrði að tala við mig. Meistarinn og margarítaGólem eftir Gustav Meyrink og og Krókódílastrætið eftir Bruno Schulz.

Það er góð bók…

Sem er ein af mínum uppáhaldsbókum, já, líka. En Meistarinn og margarítaer sennilega sú bók sem hefur haft mest áhrif á mig og skipt mig mestu máli. Hún sýndi mér að það væri hægt að vinna með ólíka þræði, ólíkar aðferðir, innan sömu skáldsögunnar. Þarna ertu með þrjár sögur undir; söguna af djöflinum, eða Lúsífer, sem kemur til Moskvu og setur allt á annan endann, afhjúpar alla veikleika mannsins; svo er það saga meistarans og margarítu, sem er saga hins ofsótta höfundar og þeirrar manneskju sem veitir honum von í hinum harða heimi ofsókna Stalíntímans; og svo ertu með söguna af fundi frelsarans og Pontíusar Pílatusar. Og að hægt sé að vinna með þessa þrjá þræði í einu og sama verkinu er alveg með ólíkindum. Þarna ertu með harmleikinn, dramað, eina stærstu sögu vestrænnar menningar, og svo sögu sem er sögð af satanískri gleði — ærslasögu. Þetta er bókin sem í rauninni gerði það að verkum að mig langaði til að takast á við skáldsagnaformið. Fram að því fannst mér allar skáldsögur svolítið eins.

Auðvitað höfðu þó fleiri höfundar áhrif á mig: Guðbergur Bergsson, með bæði Tómasi Jónssyni: metsölubók og Ástum samlyndra hjóna og Thor Vilhjálmsson með Fljótt, fljótt sagði fuglinn og Turnleikhúsinu. Það eru skáldsögur sem sýna manni að það er hægt að gera hvað sem er.

Á sama tíma var ég líka að uppgötva höfunda eins og William Burroughs, sem hafði heilmikil áhrif á mig og mikla þýðingu fyrir mig. Úrvinnsla hans á alls konar reyfaraefni; glæpasögum, vísindaskáldsögum, samsærisbókum, manúölum um samsetningu á skammbyssum … hvernig hann gat steypt öllu þessu saman.

Þannig að þú heyrir að allir þessir höfundar eiga það sameiginlegt að þeir eru að steypa hlutum saman. Það er einhver ofgnótt í verkum þeirra. Og þó að ég hafi nú stundum getið haldið mig frá ofgnóttinni og skrifað svona frekar mínímalískar skáldsögur, þá hef ég ofboðslega gaman af því að reyna að hafa allan heiminn undir í einu og sama verkinu.

Hefurðu þá ekki lesið Lífið: notkunarreglur eftir Georges Perec?

Jú, jú, ég las hana á sínum tíma. Fyrir hundrað árum. Þá var það ein af þessum bókum sem allir urðu að lesa. Það er annar svona hvalur.

Annar nýrri hvalur, sem hafði mikil áhrif á mig á sínum tíma, er Infinite Jest eftir David Foster Wallace, tæpar tólf hundruð blaðsíður. Ég veit ekki hvort þú þekkir hana?

Ég þekki bara þetta nafn, kannast auðvitað við bókina og hef lesið mikið um hann. Hann höfðaði samt aldrei til mín. Það gerði hins vegar annar bandarískur höfundur, sem er á svipuðum aldri, William T. Vollmann. Hann er einn af þessum höfundum sem eru af einhverri stærð sem stendur fyrir utan okkar tíma.

Vollmann var einmitt að gefa út langt og þunglyndislegt verk um loftslagsbreytingarnar, Carbon Ideologies, í tveimur bindum — No Immediate Danger og No Good Alternative. (Sjá Leslista 14. september 2018.) En einhvern veginn hefur hann aldrei náð að snerta mig á jafn persónulegan, eða tilfinningalegan, hátt og Wallace.

Nei, nei, ég skil það mjög vel. Hjá Vollmann eru þetta svo stór prójekt. Hvalir.

Og fyrst þú nefnir lofslagsbreytingarnar — ég hét vinkonu minni, henni Laurie Anderson, sem ég kom fram með nýlega í New York, að beina talinu framvegis, í hverju einasta viðtali, aðeins að loftslagsbreytingunum. Getum við haft það með?

Við skulum hafa það með.

En hvenær uppgötvaðirðu galdur ímyndunaraflsins, gleðina að lesa? Byrjaðirðu að skrifa ljóð af því bara, eða tendraði eitthvað neistann?

Ég byrjaði að skrifa ljóð þegar ég uppgötvaði atómskáldin. Þá var ég fimmtán. Það var þannig, á þeim tíma, að það var staðnæmst við Stein Steinarr í íslenskri bókmenntasögu. Við fengum að lesa einhver þrjú, fjögur erindi úr Tímanum og vatninu. Og það var haft með sem eitthvað svona skringilegt í lokin. Skólaljóðabókin minnir mig að hafi endað á nokkrum erindum úr Tímanum og vatninu. Í rauninni vissi raunverulegur íslenskur krakki ekkert að til væri eitthvað sem hét nútímaljóð.

Ég hafði reyndar gluggað öðru hverju í bók sem var til heima hjá mér, hið fræga safn Erlend nútímaljóð, sem er þýðingar mest Birtingsmanna. Þessi bók var til heima, móðir mín átti hana. Og af því að ég var lesandi krakki var ég alltaf að athuga hvað væri í hillunum. Þarna voru nokkur ljóð sem snertu við mér. „Blökkumaður talar við fljót“ eftir Langston Hughes, svo var þarna ljóð eftir Nazik Hikmet, tyrkneska ljóðskáldið, einnig eftir Vítězslav Nezval, tékkneska ljóðskáldið, svo að ég á sterkar minningar um að þessi ljóð snertu við mér.

En svo var ég svo heppinn að vera einn af þeim sem voru í Háskólabíói þegar Listaskáldin vondu lásu upp. Ég var þrettán ára gamall. Við bjuggum uppi í Breiðholti, við móðir mín, og það hefur sjálfsagt verið sagt frá þessu undir lok fréttatíma eða verið lesin einhver tilkynning um þetta eftir fréttir, eða hvort það leyndist ekki lítil fréttatilkynning í Þjóðviljanum? Allavega, við mamma drifum okkur. Við fórum í bæinn og komum tímanlega, fengum góð sæti. Og ég varð þarna fyrir mjög mikilli upplifun, held ég að ég geti fullyrt. Þarna var stigið fram í nafni ljóðsins, í nafni skáldskaparins, og þetta var skemmtilegt.

Og margt fólk líka.

Fullt af fólki! Og svo var þetta bara svo skemmtilegt. Og skrítið á sama tíma. Ég held að það hafi setið í mér.

Sem sagt: Lesturinn á erlendu nútímaljóðunum. Og að hafa séð listaskáldin vondu. Og síðan, þegar ég er fimmtán ára, þá var ég sem sagt í Hólabrekkuskóla og var þar í nemendaráði, sem þýddi að maður hafði ákveðna aðstöðu í kjallaranum, þar voru geymslur, fjölritunarvélar og fleira sem nemendaráð þurfti að nota — og þar ofan í geymslu fann ég bók sem gefin hafði verið út af Bókaútgáfu námsbóka, eða hét það Íslenskar námsbækur? — — það var svona námsbókafélag ríkisins, sem gaf út allar skólabækur á Íslandi á þeim tíma — og þar leyndist bók sem var safnrit með nútímaljóðum. Og sjálfsagt hefur meiningin verið sú að maður lyki við að lesa Skólaljóðin, bláu bókina sem margir minnast með mikilli nostalgíu.

Og var endurútgefin nýlega.

Einmitt. Og þegar henni lyki — þá er maður kannski tólf, þrettán ára — þá fengi maður þessa sem viðauka. Nema að ég veit ekki til þess að hún hafi nokkru sinni verið kennd, eða nokkur hafi séð þessa bók. Þarna fann ég í geymslu bunka af þessum bókum. Og fékk að taka eina með mér, það átti ekkert að nota þetta hvort sem er. Ég tók þetta heim með mér og heillaðist algjörlega, einn, tveir og þrír, af Hannesi Sigfússyni. Upphafi Dymbilvöku. Bifreiðinni sem hemlar í rjóðrinu eftir Stefán Hörð.

Og fyrr en ég vissi var ég byrjaður að svara þessu.

Skrifa sjálfur…

Bækur, 9. nóvember 2018

„Viltu láta karlmann í bókinni þinni segja: Að vera faðir og eiginmaður mótaði mig og gaf lífi mínu tilgang og merkingu. Gerðu það fyrir mig, Hekla.“

Svo mælir Ísey, besta vinkona aðalpersónu Ungfrú Íslands, sem er nýjasta skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur. Ísey elur, rétt eins og Hekla, með sér skáldlega drauma en vegna barneigna og hversdagsanna gefst henni ekki færi á að þroska hæfileika sína. Hekla er á hinn bóginn staðráðin í að verða skáld, sama þótt samfélagið kæri sig ekki hætishót um gáfu hennar á því sviði. Hún flyst til Reykjavíkur í því skyni að verða rithöfundur – í rútunni bögglast hún við að lesa eitt samþykktasta meistaraverk tuttugustu aldar, Ulysses eftir einn samþykktasta karlsnilling 20. aldar, James Joyce, með stóra orðabók sér til handargagns – og síðar út í heim, til Danmerkur og loks suður á bóginn. Auður Ava hefur hér skrifað sitt Heimsljós. Hún snýr upp á dæmigerðar hugmyndir um kynin í bók sem er í senn léttleikandi og læsileg, en um leið full af áleitnum spurningum og hugmyndum.

Góður maður færði mér bók sem var utan seilingar minnar þegar hún kom út fyrir ári: Öfugsnáða eftir Braga Ólafsson. Ég las hana á flugvelli og svo aftur í flugvél. Þetta er ljóðabók, og ég var í skýjunum, bókstaflega, en einnig í óeiginlegri merkingu. Það er erfitt að umorða yrkisefni Braga – og kannski ekki hægt – en að vanda kemur þó Reykjavík fyrir og það hvernig við erum aldrei fyllilega ánægð með eigið hlutskipti. Ég tek sem dæmi ljóðið „Þögnina“. Þar hafa byggingarframkvæmdir aftrað ljóðmælanda (og fjölskyldu hans?) frá því að njóta útiveru í garðinum hjá sér sumarlangt, og svo þegar framkvæmdunum er loks lokið og hægt er að una sér að nýju í ró og næði úti í garði, er sumarið á enda. Sólin er ekki lengur eins hátt á lofti og tekið að glitta í haustið.

Önnur hrífandi ljóðabók: Nýlega komu út Reykjavíkurmyndir eftir Óskar Árna, safn ljóða hans og örsagna, og spannar þrjá áratugi. Ég hef lesið flestar bóka Óskars Árna sem dagsins litu ljós á 21. öldinni, en hreifst nú sérstaklega af fyrri hluta ferilsins, einkum og sér í lagi ljóðagerð hans frá níunda áratuginum. Í inngangsorðum að bókinni spyr Jón Kalman: „Ef Óskar væri tónlistarmaður … væri hann þá ekki munnhörpuleikari í blúshljómsveit, sem ætti það til að breytast í dreymna djasssveit?“

Og svo rúsínan í pylsuendanum. Nýlega barst mér í hendur jólagjöf sem lenti á vergangi – gríðarmikill doðrantur sem ég fékk að gjöf jólin 2016, en varð svo viðskila við á snotru kaffihúsi eða sóðalegum bar í miðbæ Reykjavíkur. Þetta er Jón lærði & náttúrurur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson, og hefur nú loks borist mér eftir miklum krókaleiðum; ég vafði hana strax úr gjafapappírnum, las hana í háloftunum – að vísu ekki alla; til þess hefði ég þurft að ferðast hringinn í kringum jörðina; bókin er um sjö hundruð síður – og ég finn að hún snertir einhvern streng í brjósti mér á hárréttum tíma. Verkið rekur ævi Jóns Guðmundssonar lærða (1574-1658), en höfundur heldur mörgum boltum á lofti og talar beint inn í samtíma okkar hvað snertir hugmyndir og samband okkar um og við náttúruna – og heimkynni okkar, jörðina. Dregin er upp mynd af hugmyndaheimi miðalda skömmu áður en heimssýn manna gjörbreytist:. „Leit að algildum lögmálum fyrir gangverk [náttúrunnar] varð til þess að vélræn hugsun náði yfirhöndinni. Hún bægði frá þeirri virðingu fyrir sköpunarverkinu sem fólst í lífrænni hugsun um náttúruna sem skynræna heild. Það gerðist samhliða upplýsingu, kapítalisma og iðnbyltingu. Náttúran varð smátt og smátt að hlutgerðu viðfangsefni, „auðlind“ sem mönnunum þótti óhætt að ráðskast með að vild.“ (25.) Í eftirspili segir Viðar svo: „Aldrei hefur velmegun manna verið meiri en nú, en sá árangur hefur náðst í krafti drottnunar á kostnað náttúrunnar. Hún slær til baka, vistkerfum hennra hefur verið raskað ótæpilega og loftslagsbreytingar, súrnun sjávar, mengun og ofnýting auðlinda ógna mannkyni.“ (661.)

 


 

Óskalisti Leslistans:

Og bækurnar streyma í búðir; væntanlegar eru meðal annars þrjár frá Benedikt bókaútgáfu sem ég mun lesa; Ritgerð mín um sársaukann eftir Eirík Guðmundsson; Hið heilaga orð eftir Sigríði Hagalín; og svo eftir Ég hef séð svona áður eftir Friðgeir Einarsson, einn skemmtilegasta smásagnasmið landsins.

Þá hlakka ég til að lesa Hasim – götustrákur í Kalkútta og Reykjavík eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, sem vikið var að hér að ofan. Auglýsi eftir eyðieyju og nokkurra mánaða frítíma. (SN.)

Af netinu, 9. nóvember 2018

Við fengum ábendingu frá Jóhanni Helga Heiðdal en hann skrifaði nýlega grein um Ísland, Nato og kjarnavopn. Þökkum honum kærlega fyrir ábendinguna.

Anna Pigott heldur því hér fram að mannkynið þurfi ekki að stráfella lífríki jarðar, eins og við gerum nú, heldur sé við ráðandi samfélagskerfi okkar að sakast: kapítalismann.

Starafugl birtir brot úr Stormskeri – fólkið sem fangaði vindinn, nýjustu bók Birkis Blæs Ingólfssonar, en fyrir hana fékk hann Íslensku barnabókaverðlaunin nú á dögunum. (SN.)

Mér fannst þessi grein eftir hagfræðinginn Eirík Ragnarsson um Evruna helvíti fín. Góð greining á mannamáli – sem er býsna sjaldgæft á meðal hagfræðinga, því miður.

Ég hef haft miklar mætur á því sem Scott Adams, höfundur Dilbert teiknimyndasagnanna, hefur skrifað í gegnum tíðina. Upp á síðkastið hefur hann öðlast frægð að nýju eftir að hann spáði því réttilega að Donald Trump myndi sigra forsetakosningarnar. Hann er enginn stuðningsmaður Trump en hann bendir (að mínu mati réttilega) á að Trump hefur alveg ótrúlegan sannfæringarmátt og að það hafi verið sá kraftur sem tryggði honum forsetastólinn. Hér er Adams í skemmtilegu viðtali þar sem hann ræðir m.a. um Trump.

Magnea Guðmundsdóttir, arkitekt, skrifar hér flotta grein um nýjan miðbæjarkjarna á Selfossi. Yfirveguð og góð greining á þessu skrítna máli.

Hér færir blaðamaður hjá tónlistarmiðlinum Pitchfork ágætis rök fyrir því að rapparinn Old Dirty Bastard úr Wu Tang Clan hefði verið stórstjarna í dag ef hann væri á lífi. (KF.)

Götustrákur í Reykjavík – um Hasim Ægi Khan, aðalviðfangsefni nýrrar bókar eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur.

Viðar Hreinsson ritar um Hvalárvirkjun – og samband okkar við náttúruna.

Gauti Kristmannsson fjallar um nýútkomna þýðingu á Víti eftir Dante. (SN.)

Af netinu, 2. nóvember 2018

Þetta er frábær grein um listsköpun og peninga. Fíllinn í herberginu, þegar kemur að því að fólk hafi ráðrúm til að búa til list, er einmitt sá að fjárstuðningur þarf að vera fyrir hendi og það eru jafnan foreldrar listamanna sem borga brúsann.

Og talandi um foreldra. Móðir mín skrifar hér geggjaða grein í Kjarnanum þar sem hún fer yfir „kynlegan fróðleik um menn“.

Mig langaði að vekja athygli á því að Nýlistasafnið er að fara af stað með skemmtilegt verkefni. Þar er nýbúið að stofna lestrarfélag sem kemur til með að hittast á vel völdum fimmtudagskvöldum til að ræða áhugaverðar greinar eða bókakafla. Fyrsta kvöldið er í næstu viku en hér er hægt að finna frekari upplýsingar.

Hér er viðtal við Susan Orlean um nýju bókina hennar, sem fjallar um bókasöfn. Mér finnst í raun bara áhugavert út af fyrir sig að það sé verið að gefa út bækur um bókasöfn.

Starf bóksalans er ekki jafn rómantískt og það virðist í fyrstu – í hið minnsta skv. þessari grein. Hún er ekki fyrir viðkvæma, enda koma ógeðfelldir líkamsvessar við sögu.

Yuval Noah Harari, höfundur Sapiens og eitt vinsælasta gáfumenni samtímans, mælir hér með bókum sem hafa haft mikil áhrif á hann.

Talandi um bókameðmæli, þá er hér skemmtileg samantekt frá handahófskenndum gáfumönnum um áhrifamestu bækur síðustu 20 ára.

Morgan Housel skrifar hér mjög mikilvæga hugleiðingu um „brjálaðar“ ákvarðanir. Eins og t.d. þá að kaupa gommu af lottómiðum þegar maður er fátækur. (KF.)

Ágúst Borgþór Sverrisson ritar rýni um nýjustu skáldsögu Gyrðis Elíassonar, Sorgarmarsinn.

Skemmtileg grein í Bókaskáp Ástu um þekkta bókmenntaritstjóra, skrifuð af því tilefni að einn af helstu samtímaritstjórum okkar Íslendinga, Sigþrúður Gunnarsdóttir, flutti nýlega erindi um bókaritstjórn á vegum Félags íslenskra fræða. Erindið byggðist á meistararitgerð hennar.

George Monbiot skefur ekki utan af hlutunum þegar hann skrifar um neysluvenjur okkar Vesturlandabúa.

Og hér er svo ein fyrir þá sem fá bara ekki nóg af Elenu Ferrante – hver svo sem hún annars er. (SN.)