Allt efni

Ráðunautur Leslistans: Birnir Jón Sigurðsson

Ljósmyndari: Leifur Wilberg

Sverrir Norland: Kæri Birnir Jón Sigurðsson, hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans. Og gjörsovel, hér er ristað brauð með hunangi og tebolli, allt í lagi ef það fer mylsna á gólfið. Svo segirðu mér bara ef þú vilt að ég loki glugganum, það kemur stundum svolítill trekkur og ég vil ekki að það slái að fólki á meðan vígsluathöfnin í ráðuneytið fer fram.

Birnir Jón Sigurðsson: Takk fyrir það Sverrir, og kærar þakkir fyrir að innvígja mig. Endilega hafðu gluggann opinn, kuldinn er fínn og ferskt loft enn betra.

Ég geri það.

Meðan við hámum í okkur ristað brauð langar mig að inna þig oggulítið eftir fæðingarsögu smásagnasafnsins þíns, sem nefnist Strá og var að koma út á streymi sem bæði raf- og hljóðbók (til hamingju með það), um hvað ertu að skrifa, hefurðu alltaf skrifað, kom af sjálfu sér að skrifa smásögur?

Foreldrar mínir segja oft sögu af sjálfum mér þar sem ég er inntur eftir því hvað mig langi að vera þegar ég verð stór. Ég svara að ég ætli að verða geimrithöfundur. Þar hef ég blandað saman tveimur kostum sem mér þóttu spennandi, annarsvegar að skrifa sögur og hins vegar að fara út í geiminn. Ég hef alltaf átt erfitt með að velja mér hlutskipti, og er alltaf að skipta. Táningsárin fóru í að elta drauminn um atvinnufótboltamennsku, ég skrifaði smásögur í menntó, ætlaði svo að verða kvikmyndagerðarmaður, fór þaðan rakleiðis í leikhúsnám og gaf svo út glænýjar smásögur fyrir skemmstu. Í dag er ég hvað spenntastur fyrir að keppa í utandeildinni í fótbolta. Ég hef hinsvegar fjarlægst drauminn um geiminn, og orðið í raun heimakærari með árunum. Íslenska náttúran spilar stóra rullu í bókinni og svo heitir safnið líka eftir einni íslenskustu jurtinni, stráinu. Mér finnst Ísland vera gult strá.

Í stráinu er einhver einmanaleiki, það er hluti af heild en stingst eitt upp úr jörðinni og persónurnar í smásögunum eiga það margar sameiginlegt að vera einar. Ég fjalla svolítið um allt róf einmanaleikans, þar sem hann er þrúgandi og yfir í huggulegheitin.

Annars er bara komið auga á þessar útskýringar í baksýnisspeglinum. Þegar ég skrifaði sögurnar hafði ég engin fyrirframákveðin þemu sem mig langaði að dreypa á heldur lagði ég áherslu á að gera aðstæðurnar fyrir skrifin sem bestar. Ég mætti snemma á morgnana á bókasafn Kópavogs og markmiðið var að dvelja með andrúmsloftinu og reyna þannig að draga fram orðin. Allt annað var bannað, mér varð að leiðast. Þegar maður kemst yfir fyrstu leiðindagrindina án þess að hrasa inn í afþreyingu þá er yfirleitt hægt að komast í flæði.

En af hverju smásögur spyrðu, kom það af sjálfu sér? Ég hafði sett mér markmið um að setja mér lítil markmið. Ég hef margoft ætlað að gera risastór verk. Skáldsögur sem ná utanum heiminn, bíómyndir sem sprengja formið eða röð leikrita sem slær í gegn eftir dauða minn. Ég sá fyrir mér að geta klárað smásögu. Og það gerði ég, 6 sinnum, í þessu safni.

Áttu þér minningu, frá því að þú varst agnarlítill, af því að gömul manneskja segði þér sögu? Ef svo er, manstu um hvað sagan fjallaði og hvernig stemningin var, á hvaða tíma sólarhringsins þetta gerðist? Mæddu vindar á glugga, kom birtan frá rafljósi eða vaxkerti? Hvernig hljómaði rödd sögumannsins?

Ég og systir mín vorum að gista hjá ömmu og afa. Í árskógum 6, stóru blokkunum neðst í Breiðholtinu, á tólftu hæð. Við erum í litla herberginu inn af anddyrinu, þar sem ég og systir mín fáum að gista þegar við komum í heimsókn. Í þessu herbergi er gólfsíður horngluggi sem skagar út úr veggnum. Þar er hægt að standa og horfa til beggja átta, eða niður á jörðina fyrir neðan og líða eins og maður sé við það að detta. 12 hæðir er hátt uppi í himninum. Ef skýin hreyfast nógu hratt er maður á skipi. En á þessu tímapunkti stendur enginn í glugganum, það er myrkur úti, og jú, vindurinn hvín innum litla rifu. Amma er að reyna að svæfa mig með sögu, systir mín sofnaði alltaf langt á undan. Þetta er ljúf saga, um hund sem er voða góður. Líklega til þess að sefa mig fyrir myrkrinu. Ég var oft myrkfælinn en í þetta skiptið vildi ég aðeins meira aksjón, eitthvað fútt. Mér leiðist lullið og botna söguna “og svo kom stór úlfur og át hundinn.” Mér finnst viðbrögðin hjá ömmu ekki nægilega mikil þannig ég bæti við, með eins mikilli dramatískri áherslu og 5 ára drengur getur: “Hann var grimmur”. Ég sé að amma tekur fyrir munninn og kæfir skrítin hljóð. Vindurinn ýlfrar. “Amma” segi ég með eftirsjá yfir þessum agalegu áherslum “ekki vera hrædd”.

Síðar hef ég komist að því að þessi niðurkæfðu hljóð voru víst hláturrokur sem en ekki angistaróp.

Heldurðu að það henti okkur yngri kynslóðum (til að mynda okkur), sem alist hafa upp umkringdar sjónrænum miðlum, einkum kvikmyndum, betur að skrifa styttri sögur? Smásagan er svo náskyld kvikmyndaforminu, hefurðu skoðun á því?

Það er allt að breytast. Ég held að þessi upprisa smásögunnar sem er í gangi á Íslandi þessi árin sé nátengd nýjum athyglisháttum. Kvikmyndin er lík smásögunni í formi en ég held að fréttaveitan og litlu rauðu tilkynningarnar séu líklega stærsti þátturinn. Ég skrifaði BA-ritgerðina mína í Listaháskólanum um Athyglishagkerfið og hvernig athygli er að breytast. Stærstu fyrirtæki dagsins í dag áttuðu sig á því að þau geta gripið miklu stærri sneið af athyglisköku neytandans ef hún er skorin í marga litla bita. Fyrirtækin laumast svo í sem flestar ferðir að veisluborðinu.

Ég víla ekki fyrir mér að svara einum skilaboðum á meðan ég bíð eftir hraðsuðukatlinum en myndi hins vegar aldrei grípa í Önnu Kareninu þegar ég sit á klósettinu. Okkur finnst gott að geta klárað af disknum, við erum alin upp til þess. Við fjárfestum tíma okkar í bitanum, það er eins gott að skilja ekkert eftir. Þegar við skrollum í 10 mínútur í strætó erum við ekki að skrolla í tíu mínútur, við erum að klára að innbyrða hundrað og tíu upplýsingabita og komum út með hreinan disk. Anna Karenína er eins og páskaegg sem klárast ekki fyrr en í júní. Þetta beintengist inn í það sem ég sagði áðan, litlu markmiðin. Að klára er eftirsóttara en að dvelja. Ég held að ótti við slæma tímafjárfestingu komi sterkt inn í þetta. Tíminn og athyglin hefur aldrei verið verðmætari, ef þú byrjar á smásögu sem þú klárar ekki er minni skaði skeður en með skáldsögu. En kannski er ég að koma svartsýnt að þessu. Mér finnst smásagan líka æðisleg. Smásagan er lítill biti af persónu sem þú nartar. Bragðið er í fyrirrúmi en ekki magafyllin. Smásagan er eins og tapas á meðan skáldsagan er sunnudagslærið.

Áttu þér höfunda sem þú heldur sérstaklega upp á? Eða aðra listamenn?

Það eru tveir höfundar sem stökkva fyrst upp í hugann. Andri Snær Magnason og Kristín Eiríks. Ég virðist aðallega laðast að íslenskum höfundum, ég veit ekki hvers vegna, eða jú, ég veit það, þau skrifa á íslensku, ég elska íslensku. Þau eru gífurlega ólík þessi tvö, hugmyndirnar hans Andra festast utanámér en ég límist inn í sögurnar hennar Kristínar og get ekki hætt. Þau eiga bæði gjörsamlega frábær smásagnasöfn sem voru mikill innblástur fyrir Strá, Sofðu ást mín og Doris Deyr. Svo komu þrjú smásagnasöfn út í fyrra sem hafa að geyma geggjaðar sögur, Kláði; Ástin, Texas og Keisaramörgæsir. Út fyrir ritlistina eru sænsku kvikmyndagerðarmennirnir Ruben Östlund og Roy Anderson í miklu uppáhaldi. Reyndar sá ég Q&A með Roy Anderson á Spáni um daginn þar sem verið var að sýna Du levande. Hann mundi enga punkta, hitti ekki í míkrófóninn og fattaði ekki að hann var að klóra sér í pungnum fyrir framan fullan sal af fólki. En hann var ótrúlega spenntur fyrir nýju myndinni sinni.

Hvaða staður á jörðinni hefur dularfullt aðdráttarafl á þig?

Fögrufjöll við Langasjó. Þar er einhver djúpur kraftur. Hann smýgur inn í þig og kitlar þig þannig að allt verður fallegt. Ég get ekki lýst því miklu öðruvísi. Maður hlustar bara á þögnina, horfir yfir jökulinn og brosir.

Hvað felst að þínu mati í því að vera ungur Íslendingur árið 2019, ef eitthvað?

Er sú ristaða súrdeigsbrauðsneið, sem er tilvist okkar yngri kynslóða, smurð með næringarsnauðu viðbiti útflattrar alþjóðamenningar — Netflix, lággjaldaflugi, kaffihúsum sem öll líta eins út og selja avókadóbrauð, sömu samfélagsmiðlum, þykjustudjúpum þáttum á borð við Black Mirror, afþreyingarmenningu sem boðar einsleitni og leitast við að skapa keimlíka neytendur, sem selja má sömu vörurnar, jafnt í Kaliforníu, á Reyðarfirði og í Mexíkóborg — eða er enn til eitthvað sem kalla mætti þjóðmenningu?

Það sem ég á við: Ég held að menning sé alltaf bundin stað, lókal fyrirbæri, og henti illa til útflutnings eða túristavæðingar (og deyi raunar í slíkum árekstri) og það umhverfi, sem við búum í auknum mæli við, litist meira af afþreyingargildum (selja sem flestum) en sannri menningu (sem er, eða var einu sinni, spegill sjálfsmyndar). Menning (kúltúr) er ekki söluvara heldur verður til, í samfélagi manna, yfir langan tíma. Í dag virðast fyrirtæki og afþreyingarveitur hins vegar svolítið vera að taka yfir þetta hlutverk, og litlum kúltúr á borð við Ísland, sem stendur slíkum risum aldrei á sporði, stendur ógn af. Sjálfstæð hugsun er ekki í tísku heldur frekar stofnanavæðing tjáningar.

Það sem ég er að rembast við að færa í orð af veikum mætti: Er tilgerðarlegt að tala enn um Íslendinga? Er Íslendingur kannski að voða litlu leyti frábrugðinn Dana eða New York-búa? Hvað gerir Íslending að Íslendingi? Stuðningur við einhverja hljómsveit í Eurovision, óp af áhorfendapöllum á fótboltaleik, rifrildi á íslensku á Twitter? Harðfisksát eftir lotu í WorldClass eða spjall við franskan túrista í heita pottinum í Vesturbæjarlaug um hvað sundlaugarkúltúrinn okkar sé mikil snilld?

Jú það virðist sem brauð smurð með Chileskum avókadóum sé orðinn þjóðarréttur milli- og efristéttarinnar. Athyglin er orðinn mikilvægasti gjaldmiðillinn og það fyrirtæki sem beytir bestu brögðunum til að krækja í hana úr hinum ýmsustu símavösum sigrar í leiknum. Lággjaldaflugfélög eru undanskilin alþjóðlegum kvótum um losun og við friðum samviskuna með því að planta niður einni hríslu eða svo — ef við nennum að finna vefsíðu og slá inn kortanúmer — en getum ekki hugsað okkur að sleppa þessari „löngu“ helgarferð sem er löngu plönuð, af því að það er ódýrara að fljúga til austur Evrópu en að taka rútuna norður. Það er skyldufag eftir menntaskóla að fara í heimsreisu — ég þekki það sjálfur — og í einhverju tölfræðisamtali heyrði ég að 83% af þeim sem ákváðu að leggja leið sýna í bíó helgina 26–28 apríl sáu nýjustu Avengersmyndina. 17% sáu eitthvað annað sem var í boði í öllum bíóhúsum heimsins. Það er starbucks-bolli í Game of Thrones og samkomur í félagsheimili Neskaupsstaðar hafa aldrei verið færri. Allsherjar herjandi alþjóðavæðing.

Ég hef einmitt verið að hugsa um þennan Lókal-kúltúr sem þú talar um undanfarið. Nú er ég listamaður í startholunum. Er ennþá í flokknum „efnilegir“ og á sama tíma hefur spurningin „til hvers er ég að gera þetta“ aldrei verið jafn ákallandi og nú á tímum loftslagsbreytinga. Ég ólst upp við þá hugmynd að ég ætti að gera hvað sem ég vildi, og ég fór í frí til útlanda á hverju ári. Nú vakar á yfirborði heimsins þessi krafa um allsherjarendurskoðun á okkar gildum. Ég held að ég sé af síðustu kynslóðinni sem á að gera það sem hún vill. Næsta kynslóð á ekki að gera það, en hún þarf að finna tilgang í því að gera það sem jörðinni er fyrir bestu. Og þá spyr ég mig aftur, „til hvers er maður að þessu?“ og þá held ég að þessi lókal kúltúr sé eitt svar sem ég get haldið í. Ég er til í að reyna að búa til einhverja lókal stemningu. Ef eina menningin sem þú neytir er harðsoðin alþjóðamenning þá hættir þér til að verða sama um nærsamfélagið þitt. Ég held að lókal kúltúrinn geti hjálpað við að tengja þig við staðinn, næra jarðveginn fyrir ræturnar þínar. Ef nærsamfélagið bíður rótunum ekki neitt hættir að vera spennandi að vera þar og þá verður auðveldara að glepjast af gylliboðum um sólarstrendur og hamingju í útlöndum og við rætum okkur upp í skýið, í alþjóðamenninguna. Með því að kippa hamingjunni úr nærsamfélaginu er hægt að selja hugmyndina um að hún finnist einhversstaðar annarsstaðar. Ég hata flughafnir, ég hef komið í þær allar. Um leið og nærsamfélagið okkar verður flughöfn með Joe and the Juice, Subway og Te og kaffi, þá höfum við tapað í tengslaleiknum en verðum fyrir vikið hinn fullkomni neytandi, síeltandi leifturhitaðar og gerilsneyddar hugmyndir um hamingjuna bandandi næringarsveltum rótum um háloftin í von um eitthvað, bara eitthvað.

Við þurfum að hætta að fljúga, metafórískt og bókstaflega. Við þurfum að ræta okkur. Og lókallinn þarf að sinna þessum rótum, því ég nenni ekki að hanga í tölvunni í enn annarri flughöfn.

Geturðu lesið sem farþegi í bifreið án þess að fyllast flökurð?

Það hef ég aldrei getað, mínum einlæga unga Andrésar-andar-aðdáanda til mikillar ógleði. Þá sérstaklega á hlykkjóttum fjallavegum neyddist ég hér og þar til að kalla eftir stansi og maka vegkantinn fyrir tilstilli allt of spennandi Jóakims Aðalandarævintýra.

Hverjar eru kjöraðstæður þínar sem lesandi (í freyðibaði, á sólbekk á Tenerife, uppi í sófa undir flísteppi og svo framvegis)?

Ég oft reynt þetta rómantíska senaríó að sitja með bók í baði en án árangurs. Ég verð þreyttur í höndunum og sífellt hræddur um að bleyta blaðsíðurnar eða missa kyndilinn í kaf. Ég hugsa meira um vatnið en textann. Ég held að sumarbústaðasófi hljóti að teljast í uppáhaldi. Það er einhvernveginn betri kaffilyktin sem kemur í bústað, og tíminn er ekki fylltur af jafn miklum kröfum um afköst. Ég hef reynt að lesa úti en veðráttan á Íslandi er yfirleitt of breytileg til að vera í réttum fötum og á Spáni verð ég hræddur um að brenna. Nema í október síðastliðnum. Í sófa í sumarbústað eða á Spáni í október síðastliðnum.

Hvers konar bók, ef nokkra, langar þig til að skrifa næst? Og finnst þér þú vera þú þegar þú skrifar, eða breytistu í einhvern annan, jafnvel marga?

Það eru alltaf ýmsir draumar á sveimi. Ég er að reyna þessa dagana að hugsa ekki egósentrískt um næstu bók heldur um hugmyndirnar sjálfar. Ég á það á hættunni að hugsa um verðlaunaafhendingar og umfjallanir í blöðum um merkisskrif í stað þess að hugsa um skrifin sjálf. Jú, já, mér finnst ögn klisjukennt að segja það en ég breytist í einhvern annan þegar ég skrifa. En ég veit ekki hver það er. Er það einhver annar? Er það önnur útgáfa af mér? Er það nær mér? Það er eitthvað við það þegar maður kemst á flug sem er heillandi. Þegar maður er búinn að sitja í klukkutíma og kasta og svo bítur hugmyndin loks á pennann. Þá gleymir maður sér í 40 mínútur við það að skrifa þessi þúsund-tvöþúsund orð á blað á meðan maður dregur hugmyndina inn. Það er best meðan það endist en svo er líka einhver fullnægja sem fylgir því að bíta í uggann á nýskrifaðri hugmynd, halla sér aftur í stólnum, dæsa af ánægju með að eitthvað gerðist þann daginn. Þá er hægt að standa upp, ganga út í glugga og horfa spekingslegur yfir umhverfið og líða vel.

Til að gefa einhverskonar steypu í þetta svar (eitthvað concret) þá blundar í mér barnabók. Vonandi í ToveJansson-PhilipPullman-AstridLindgren-AndraSnæs-stíl.

Hvað er fegurðin og hefur hún praktískt gildi? Finnst þér fegurðarskyn okkar í samtímanum af háum kalíber eða vanrækjum við fegurðina í daglegu lífi okkar?

Hmm. Þessa þarf að melta. Praktískt gildi. Ég hef farið í Guðlaugu á Akranesi undanfarið, verið í grennd við Skagann og skroppið. Það er falleg laug við sandinn og sjóinn. Mér finnst huggulegt að vera í fallegu umhverfi og það veitir mér ánægju. Kannski er praktískt gildi fegurðar falið í því að hún verður velmetin dægradvöl. Ég nýt hverrar mínútu betur í fallegu umhverfi. Mér finnst tíma mínum vel varið ef ég verð fyrir fegurðarupplifun. Ég sé aldrei eftir neinu ef það er í fegurð. Kannski hefur hún praktískasta gildið af öllu því hún gildishækkar tímann? Ég get bara talað fyrir mig og að mörgu leiti vanræki ég fegurðina. Að mörgu leiti ekki. Ég fer alltof sjaldan út á morgnanna (fegurðin er mest úti, sjóndeildarhringurinn og svo framvegis). Á sama tíma á ég kött, rækta plöntur, les fagurbókmenntir. Þessi spurning, vanræki ég fegurðina, er mikilvæg. Því ætti maður ekki að alltaf að reyna að stækka fegurðarkökuna? Því það er praktískt, eins og góður eftirréttur kíttar hún í glufurnar í maganum. En fyrst við vorum að tala um alþjóðavæðingu: Við þurfum að passa okkur á því að gerilsneyða ekki fegurðina, hún er best lífræn.

Orð að sönnu, kæri Birnir. Allt er best lífrænt. Ég hef raunar dvalist síðustu þrjár vikurnar á bóndabýli hjá japönskum vini mínum, sem er bóndi og ræktar einmitt lífrænt grænmeti (fimmtíu ólíkar tegundir!) — og ég hef ekki borðað betri mat á ævi minni og sjálfsagt ekki heldur heilsusamlegri (og svo hjálpar að róta sjálfur í moldinni). Ég finn ótrúlega mikinn mun, líkamlega. Ég er vanur því að rumska stirður, með hálfgerðan magaverk, og dauðþyrstur eins og í eyðimörk — en hér vakna ég sprækur sem lækur klukkan fimm og stekk ólmur fram úr rúminu. Eiginlega þekki ég ekki lengur þennan mann sem þó er ég. Við erum það sem við borðum og andrúmsloftið sem við hölum inn um nasirnar. Og hér er maturinn hollur og loftið tært. Og svo er annað: enginn reynir að selja manni neitt. Engar auglýsingar, engar búðir. Yndislegt.

Það er þetta með fegurðarskynið: ég held að við mennirnir séum fagurkerar og okkur líði vel þegar við erum í fallegu umhverfi, höfum vandaða hluti fyrir augunum, sjáum að aðrir leggi alúð í hlutina. Er það ekki að lifa góðu lífi, að gera hlutina vel og tengjast umhverfi sínu? En það er alveg lygilegt hversu litla áherslu við leggjum í að hafa hlutina fallega. Til hvers að vera til ef það mætir afgangi? Einhvern veginn upphefja skyndibitakeðjur á borð við Joe & the Juice ekki slík gildi og ég óttast að þetta umhverfi dempi okkur og lempi. Síðkapítalisminn er það sem eftir stendur þegar öll gildi hafa verið þurrkuð út. Sá sem drekkur úr fallegum kaffibolla — og nýtur þess — er líklegri til að vera örlátur og gera gott en hinn sem hrærist í umhverfi sem gengur út á að selja okkur fjöldaframleitt ljótt drasl allar vökustundir (veit að þetta hljómar væmið en svona er þetta bara). Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég var feginn að komast burt frá New York (þar sem ég bjó í nokkur ár). Ég veit satt að segja ekki hvert þetta stefnir og lenti meira að segja sjálfur í krísu, eins og þú lýsir aðeins, varðandi listsköpun og umhverfismál; til hvers að sitja einn í herbergi og búa til vandamál, búa til persónur, þegar svona mörg aðsteðjandi vandamál hreinlega dverga okkur sem einstaklinga? En… ef við hættum að trúa á listina og skrifa sögur — og þar kikkar praktískt gildi fegurðarinnar inn — til hvers að vera til? Og þá værum við kannski ekki einu sinni að pæla í þessu heldur bara í nettri sveiflu á Joe & the Juice.

Til hvers að vera til ef fegurðin mætir afgangi? Þetta er góð spurning og ég spyr í kjölfarið: Hvar er fegurðin? Ég er sammála þér í því að hún búi í alúðinni sem fólk leggur við hluti. Alúð skapar fegurð og þá spyr maður sig: Drepur fjöldaframleiðsla sjálfkrafa fegurðina? Hún finnst ekki í einnota umbúðum, umbúðir sem eru skapaðar hundruðum saman á hverri sekúndu, hverjar og einar með lágmarksvinnu og lágmarksalúð. Kemur fegurð með tíma? Glæný borvél er tilkomumikil en vél afa þíns býr yfir einhverskonar fegurð, handbrögðin sjást utaná henni, maður finnur fyrir snertingu við tíma. Það er auðvitað ekki samasemmerki milli alúðar og tíma annarsvegar og fegurðar hins vegar, það þarf að bæta einhverju óþekktu inn í uppskriftina í hvert sinn, en ég held að þessir tveir eiginleikar myndi grunninn að fegurðinni. Og skáldsögur búa svo sannarlega yfir hvoru tveggja. Það verður verðugt verkefni næstu árin að finna þessi tvö innihaldsefni í samfélaginu sem byggir allt á hraða og skilvirkni. Kannski er lykillinn að hægja á?

Vinur minn útskýrði fyrir mér um daginn hvers vegna auglýsingaskilti í umferðinni eru svona stór. Þegar við keyrum inn umferðaræðarnar á 90 kílómetra hraða á klukkustund þá minnkar allt í umhverfinu og því þurfa skiltin að vera stærri til að möguleiki sé að lesa á þau. Kannski er fegurðin í eðli sínu smávaxin. Kannski er hún lyng í hrauni sem hægt er að leggja andlitið á eins og kodda. Og kannski missum við af henni um leið og við leggjum hraðbraut gegnum hraunið, fyrir aukið flæði, og þjótum framhjá á 90 kílómetrum á klukkustund.

Bækur, 17. maí 2019

Gagnrýnandi The London Review of Books er sammála mér í því að nýjasta skáldsaga Ians McEwan, handhafa alþjóðlegu Halldórs Laxness-verðlaunanna í bókmenntum, sé vindhögg. Ekki svo sem í frásögur færandi nema fyrir að ég rak augun í að greinarhöfundur vitnar í aðra bók, Murmur eftir Will Eaves, sem fjallar einnig um gervigreind og teflir fram sömu sögufrægu persónu og kemur fyrir í Machines Like Me eftir McEwan, enska stærðfræðingnum Alan Turing (1912 – 1954). Turing er aukapersóna í verki McEwans en í aðalhlutverki í hjá Eaves. Og Murmur er raunar frábær bók. Ég las hana fyrir nokkrum vikum í kjölfar þess að ég kynntist Eaves á Cúirt-bókmenntahátíðinni á Írlandi. Ljóðræn og falleg skáldsaga, sem hefur að útgangspunkti þegar Turing var handtekinn fyrir að svala holdlegum fýsnum sínum með ungum karlmanni, og var í kjölfarið dæmdur til þeirrar refsingar að vera geldur með lyfjagjöf; í sögunni taka honum að vaxa brjóst, sem auðvitað er ansi háðuleg refsing fyrir karlmenn sem ekki sækist eftir slíkri breytingu á líkama sínum. Afar sérstök og ljóðræn skáldsaga sem tekur á margvíslegum hugmyndum um eðlisfræði og sjálfsmynd, greind og mannleg samskipti. (SN.)

Flestir eiga í erfiðleikum með að skilja og meta samtímalist. Ég hef oft gert tilraunir til að fá fólk til að kunna að meta slíka list og mistekst það í flestum tilvikum. Þegar ég byrjaði að vinna á Viðskiptablaðinu á sínum tíma gerði ég nokkrar heiðarlegar tilraunir til að „mennta“ lesendur um gildi samtímalistar en komst svo á endanum að því að fólk þarf helst að vera opið fyrir listinni fyrirfram til að þessi menntun skili einhverjum árangri. Í vikunni las ég í annað sinn eina bestu bók sem ég hef lesið um samtímalist og áttaði mig á því að hún er að öllum líkindum ein besta „útskýring“ sem ég hef lesið á samtímalist og gildi hennar. Bókin heitir Seeing is Forgetting the Name of the Thing One Seesog fjallar um ævi og störf bandaríska myndlistarmannsins Robert Irwin. Í bókinni segir hann frá því hvernig hann byrjar að vinna sig hægt og bítandi úr abstrakt listinni í að vinna með liti og form og meira svæðisbundin verk. Mér finnst mjög verðmætt að fá svona djúpa innsýn inn í hugarheim myndlistarmanna. Eðli málsins samkvæmt er nær ómögulegt að færa þennan hugarheim í orð, enda ætti myndlist í flestum tilvikum að tala sínu máli „handan orða“. En í örfáum tilvikum er hægt að ræða myndlistina ítarlega og vel og ég held að ég hafi aldrei séð það jafn vel gert og í þessari bók. Mæli mikið með henni ef þú, lesandi góður, hefur áhuga á samtímalist eða vilt skilja hana betur. (KF.)


Óskalistinn:

Ég hef löngum haldið því fram að við mennirnir séu einungis lítilfjörlegar framlengingar á hinum sönnu konungum og drottningum jarðar – trjánum. Þau skapa lífsskilyrði okkar og á greinum þeirra vex safarík fæða. Þau boða stillingu og speki, ró og jarðtengingu. Og niður úr þeim klifruðum við löngu áður en við tókum að brytja þau niður. Út er komin á íslensku Bók um tré eftir Wojciech Grajkowski. Myndskreytir er Piotr Socha. Tré skoðuð út frá margvíslegum sjónarhornum. Lofar góðu.

Bráðskemmtileg grein um breska höfundinn Samuel Johnson (1709 – 1784), ærslabelg og djúpskyggnt gáfnaljón, nautnasegg og félagsveru, ólíkindatól og fjölhæfan skríbent. Kveikjan að því að Freya Johnston stakk niður penna og ritaði stúf um þennan keika átjándu aldar höfund er heljarmikið samsláttarrit með úrvali af skrifum Johnson, heilar 1344 blaðsíður að lengd, sem var að koma út.

Una útgáfuhús fylgir endurútgáfu Undir fána lýðveldisins eftir með tveimur nýjum verkum, annars vegar smásagnasafninu Það er alltaf eitthvað, þar sem tólf höfundar sitja í samsæti, og svo er fyrirhuguð útgáfa á Beðið eftir barbörunum, skáldsögu J.M. Coetzee sem lesin var í útvarpið árið 1894 undir heitinu Við bíðum, í íslenskri þýðingu Sigurlínu Davíðsdóttur, en hefur ekki komið út á bókarformi áður.

Þá er komin út skáldsagan Bjargfæri eftir argentíska höfundinn Samöntu Schweblin í þýðingu Jóns Halls Stefánsson. Hlakka mikið til að lesa hana. (SN.)

Af netinu, 17. maí 2019

Það er gott að vera klár – bara ekki of klár. Afburðagreind börn eiga oftar en ekki erfitt uppdráttar. Ákjósanleg er greindarvísitala er á bilinu 125-155 en fari maður mikið fyrir ofan það er hætt við að maður skeri sig um of úr, þyki vera furðufugl og eigi fyrir vikið undir högg að sækja félagslega. Hér má lesa um bölvun séníanna.

Chris Hughes, einn af stofnendum Facebook, vakti á dögunum mikla athygli fyrir grein sem hann birti í The New York Times. Þar heldur Hughes því fram að stærð og drottnun Facebook á sviði samfélagsmiðla – og mundu að Instagam og WhatsApp heyra undir Facebook – brjóti gegn lýðræðislegum hefðum í bandarísku samfélagi. Hann kveður Mark Zuckerberg orðinn alltof valdamikinn og telur að bandarísk stjórnvöld ættu að leysa fyrirtækið upp í smærri einingar.

Atli Bollason skrifaði grein um Ísrael, Palestínu og Hatara.

Tímarit Máls & Menningar hefur stofnað nýja vefsíðu. (SN.)

Ég hef verið að hugsa um þessa grein mjög mikið alla vikuna. Hún fjallar um hvernig (óskálduðum) bókum og fyrirlestrum mistekst oftast ætlunarverk sitt – að fræða lesendur/áheyrendur.

Hvernig hefur þessari konu tekist að skrifa 179 bækur á meðan hún hefur eignast níu börn?

Mjög djúp grein um hvernig hlutir breiðast út í gegnum net (e. network – erfitt að þýða þessi hugtök almennilega á íslensku). Hún er líka skemmtilega framsett – gagnvirk og fræðandi.

Þetta er besta grein um rusl sem ég hef lesið í langan tíma. (KF.)


Fyrir augu og eyru:

Fílaði þennan þátt með tónlistarkonunni Cat Power í Song Exploder-hlaðvarpinu. Hún er eitthvað svo svakalega mikill listamaður (á mjög heillandi hátt) og nær að tala um lagasmíðar á dýpri hátt en gengur og gerist. Hér kryfur hún tilurð eins síns þekktasta lags, „Woman“.

Virkilega fínt viðtal við myndlistarmanninn Mark Bradford í 60 mínútum. (KF.)

Ráðunautur Leslistans: Hermann Stefánsson

IMG-20190426-WA0001 (1).jpg

Hermann Stefánsson ásamt argentíska höfundinum Samöntu Schweblin. Nýlega kom út á íslensku skáldsaga hennar Bjargfæri, í þýðingu Jóns Halls Stefánsson, bróður Hermanns.

Fyrsta bók Hermanns Stefánssonar kom út árið 2003, Sjónhverfingar hét hún, skáldfræðirit, og árið eftir fylgdi smásagnasafnið Níu þjófalyklar. Síðan þá hefur Hermann sent frá sér fjölda bóka, ljóð, skáldsögur, minningaskrif, meðal annars hina frábæru Spennustöðin — stílabók(Tunglið: 2014), kostulega glæpasögu, Hælið (1005 tímaritröð: 2013), skáldsöguna Leiðina út í heim (Sæmundur: 2015), þar sem höfundur snýr upp á barnasöguna Palli var einn í heiminum, og Bjargræði (Sæmundur: 2016), um kraftaskáldið Látra-Björgu. Þá hefur Hermann þýtt verk erlendra höfunda, meðal annars Juan José Millás, Manuel Rivas og Zizou Corder, og þýðing hans á Fásinnu eftir Horacio Castellanos Moya er sérdeilis vel heppnuð. Ég tók Hermann tali í tilefni af útgáfu flunkunýrrar bókar eftir hann, Dyr opnast, sem er kímerubók.

  • Sverrir Norland

Sverrir Norland: Kæri Hermann Stefánsson, vertu velkominn í ráðuneyti Leslistans og hjartans hamingjuóskir með nýju bókina þína, Dyr opnast. Hvaða dyr eru það sem hér opnast okkur?

Hermann Stefánsson: Takk fyrir hamingjuóskirnar. Auðvitað vonar maður að dyr opnist að einhverjum nýjum sannleika hverju sinni með bækur en getur ekki vitað það.

Já, ég held að það sé mikilvægt að opna sem flestar dyr og helst glugga líka. (Hver var það aftur sem sagði að það væri einkenni á greindum og skýrum mannshuga að geta hýst tvær öndverðar skoðanir samtímis?)

Fyrsta skrefið í vígsluathöfninni er jafnan sáraeinfalt og svohljóðandi: Ertu að lesa eitthvað bitastætt í augnablikinu, og ef svo er, í hverju leynist sá galdur?

Ég er með ansi margar bækur opnar eins og endranær en er kannski ekki alveg á góðum lestrarfasa þessa dagana, hef verið eitthvað svo upptekinn. Eina af þessum bókum er ég búinn að treina mér lengi að lesa. Það er bók sem er í algeru uppáhaldi hjá mér, bara bókin mín, hreinlega: Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur. Ég hef hreinlega ekki þorað að lesa hana aftur af ótta við að eyðileggja fyrstu lestrarupplifunina með þeirri nýju, sem verði ekki eins góð, ekki eins mikil hugljómun. Ég þóttist einhvern veginn muna hana svo vel, ég gæti bara flett upp á hvaða blaðsíðu sem er í kollinum og þyrfti ekki að endurlesa. Maður les heldur aldrei sömu bókina tvisvar, annar lestur er alltaf öðruvísi. Eiginlega óttaðist ég mest af öllu að mér myndi hreinlega þykja þessi bók sem ég hef dýrkað svo lengi barasta léleg. Hrifnæmi mitt væri bara farið. Þessar áhyggjur reyndust blessunarlega ástæðulausar. Mér finnst Meistarinn og Margarítaenn stórkostleg bók. Að vísu hafði ég í minninu bætt við hana einu atriði eða ýkt það upp en ég er viss um að ég finn það aftur þegar ég fletti upp í bókinni að lestri loknum. Svo furða ég mig einhvern veginn svolítið á hvað ég sjálfur, eða bara allir, hafa verið opnir og læsir á bækur. Núna hef ég meiri tilhneigingu til að flokka hana sem erfiða og tilraunakennda bók. Á sínum tíma fannst mér hún hreinn skemmtilestur, furður og dásemdir út í gegn. Auðvitað breytist orðaforði tungunnar hratt, það gæti verið skýringin. Bókin var skrifuð á Stalínstímanum og kom ekki út fyrr en 1966 aldarfjórðungi eftir dauða höfundarins, og þá fyrst í ritskoðaðri útgáfu. Eða er ég kominn út í aðra spurningu? Myndirðu spyrja mig um efni bókarinnar og galdur hennar?

Já, efni bókarinnar? Það er nú sjálfsagt ýmsum lesendum kunnugt. Sjálfum fannst mér Meistarinn & margaríta frábær þegar ég las hana á unglingsárunum, „hreinn skemmtilestur“ og enn glórir sterkt af minningunni. Mig grunar að hún haldi velli hjá hinum fínt stilltari vitsmunaverum þjóðarinnar, einnig þeim yngri. Ég hef ekki endurlesið hana (geri það einn daginn). Nefnd skáldsaga Búlgakovs hefur greinilega reynst mörgum af okkar frumlegri rithöfundum gott veganesti; þér og hér er annað dæmi.

En hvernig barn varstu, Hermann? Varstu yfirhöfuð einhvern tímann barn?

Ég veit ekki til þess að ég hafi nokkru sinni hætt að vera barn. Alla vega ætti það að vera manns helsta takmark í lífinu, að glata ekki barninu í sjálfum sér. Það er mitt mottó og hefur alltaf verið. En ég var rólegt og blítt barn og frekar feimið. Það þurfti lítið að hafa fyrir mér. Ég mælti varla orð af vörum fyrstu fimm ár ævi minnar en byrjaði þá að tala og var altalandi. Hafði bara ekki fundist ástæða til að blanda mér í umræðuna fram að því. Enda er tungumálið svo sem stórhættulegt og best að segja sem minnst. Líklega var ég svolítið melankólískt barn því ég kynntist dauðanum snemma, eins og svo sem margir. Ég las mikið sem barn. En ég var líka fjörugur og ærslabelgur. Ég átti góða vini. Besta vinkona mín alveg frá eins árs aldri var Halldóra Geirharðsdóttir leikkona sem bjó við hliðina á mér og og fór með mér í gegnum alla skólagönguna alveg frá leikskóla, sú vinátta helst enn. Það var mikið fjör í götunni, líflegir útileikir og mikil sköpunargleði í ímyndunarleikjum. Það var líka samheldni í krökkunum og árið sem Sverrir Guðjónsson söngvari var kennarinn okkar var það besta. Ég las það annars í Meistaranum og Margarítu að fólk breyttist ekki, væri alltaf eins. Ég las líka þar að ragmennskan væri versti lösturinn. Sem barn var í mér blanda af feimni og fífldirfsku. Ætli ég sé ekki þannig ennþá.

Bækurnar þínar eru ólíkar eins og þær eru margar. Er það meðvitað? Heillastu af höfundum sem eru ólíkindatól og leita helst á nýjar slóðir með hverju verki?

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki neitt í neinu þegar fólk segir að ég sé ólíkindatól. Ég kvarta ekkert yfir því en sjálfur upplifi ég mig ekki þannig og geri ekkert til að vera ólíkindatól, mér vitanlega. Er þetta ekki bara annað orð yfir húmor? Húmor er auðvitað dauðans alvara eins og einhver sagði. Ég upplifi mig sem hreinskilinn og blátt áfram, einlægan og stundum kannski óþægilega gefinn fyrir að segja satt og stríða fólki, það er bara í ættinni. En maður ræður sem sé ekki yfir upplifun annarra á sér. Né heldur á bókum sínum. Ég er sammála þér að bækur mínar séu ólíkar. Sumir segja að þær séu „hermannskar“ og það má alveg, ég verð ekkert fúll, en mér finnst sjálfum að þær séu gerólíkar, þótt eflaust megi sjá ættarmót með þeim. Ef þær eru ólíkar felst það einfaldlega í því að ég kann ekki að skrifa bækur. Eða með öðrum orðum: Ég held að það sé ekki hægt að kunna að skrifa bækur vegna þess að það er sín aðferðin við hverja þeirra og þá þarf alltaf að byrja upp á nýtt. Læra nýja aðferð. Ég var á Iceland Writers Retreat hennar Elizu Reid í ár og enski rithöfundurinnn Sarah Moss lagði til þá aðferð sína við skáldsagnaritun að skrifa fyrst skáldsögu, henda henni svo (og tæma ruslið) og byrja alveg upp á nýtt á sömu skáldsögu, eftir minni. Þetta er frábær aðferð sem ég blóðöfunda hana af. Ég hef aldrei gengið svona langt þótt ég hendi miklu, ég geymi alltaf einhver öryggisafrit þótt ég sé komin að næstu drögum. Ég væri til í að prófa þetta. En annars er það svo að mér finnst ég þurfa að leita á nýjar slóðir með hverju verki, eins og þú segir — og stundum er maður lengi að komast út úr eigin bók, ég er fyrst núna að komast almennilega út úr skáldsögu minni Bjargræði, með nýrri bók, sem mér finnst sjálfum að sé gerólík henni. Ég henti ofboðslega miklu, alltof miklu, en svo bætti ég mörgu af því við aftur og meiru til því að það þýðir ekki að editera lífsmarkið úr bók.

Nei, það er auðvelt að editera allt líf úr list, við þurfum líka subbuskap, óreiðu og annmarka.

En heldurðu kannski, Hermann, að heimurinn yrði betri staður ef bækur hyrfu og öll samskipti færu fram í gegnum lítið rafbox sama stórfyrirtækisins með atbeina eins og sama forrits sama stórfyrirtækis? Heldurðu að slík þróun hafi örvandi áhrif á listsköpun, tjáningu og einstaklingshugsun?

Hvað meinarðu með „ef“? Erum við ekki komin á þennan stað? Og nei, ég finn það best á sjálfum mér að hugsunin breytist. Ég hætti á Facebook fyrir nokkrum mánuðum, enn eitt skiptið. Stefni ekki þangað aftur. Ég ætla ekki að vera með neitt svartagallsraus en ég held að það þurfi að taka það alvarlega sem margt bendir til, að félagsmiðlar séu varasamir fyrir margvíða hugsun, breyti einbeitingunni, hindri ýmislegt sem gott er, séu jafnvel hættulegir bæði lýðræði og skapandi hugsun, enda þótt þeir séu til margra hluta nytsamlegir og umfram allt: Skemmtilegir (annars væri enginn á þeim).

Stórskemmtilegir — og fá mig reglulega til að rifja upp hina ágætuAmusing Ourselves to Death eftir Neil Postman.

En hvaða ljóðskáld hæfir þig alltaf í hjartastað?

Þorsteinn frá Hamri. Síðustu ár hef ég í rólegheitum verið að þýða argentínska stórskáldið Alejöndru Pizarnik. Hún er svona uppgötvun löngu síðar, það bar lítið á henni meðan hún lifði (til 1972) en nú er hún á allra vörum í hinum spænskumælandi heimi. Reynar hæfir hún mig mjög í hjartastað og ég get ekki verið við þessar þýðingar lengi í einu, hún er svo biksvört. Bandarískur útgefandi hennar sagði mér að þeir sem hefðu spreytt sig hefðu hver og einn einasti næstum þurft frá að hverfa vegna þungbærra hugsana, sjálfsvígshugsana. Ráðlagður dagskammtur er sem sé ekki mikill og mér liggur ekkert á.

Ertu sammála því að vélin í gangvirki skáldskaparins sé minnið og því mikilvægt að höfundar reiði sig ekki um of á minnishækjur við skrifin, svo sem sítengingu við netið, og geti flögrað frjálsir um eigin huga með allri þeirri frelsandi gleymsku og glöpum sem jafnan ríða mannshöfði? Eru rangfærslur og misskilningur jafnvel skáldskapnum nauðsynlegt fóður?

Minnið er auðvitað kolómöguleg vél og þarf alls kyns hækjur. Það má sjá Wikipediu stað nokkuð víða og sú heimildavinna er einhvern veginn öðruvísi en heimildavinna með bókum, þetta verður gagnsærra. Maður sér þetta líka í sjónvarpsefni; ég hef verið að horfa á þá frábæru þætti Elementary á Netflix og stundum er neyðarlegt hvernig litlir fróðleiksmolar koma augljóslega beint af netinu, í gegnum handritshöfundinn og í munninn á Sherlock Holmes sem á að hafa þetta allt í kollinum. Ég held að það sé vert að skrifa með penna og nota minniskompur alla vega að einhverju leyti við skáldskaparskrif. Samband líkamans við textann verður allt annað þegar skrifað er með penna, það er líkamlegur verknaður að skrifa með penna og sá verknaður hefur líka annað samband við minnið en skrif á tölvu með aðstoð netsins.

Þú hefur löngum laðast að spænskum bókmenntum, ekki satt? Hvað finnurðu þar?

Sumt af því sem ég er hrifnastur af í spænskum bókmenntum eru hreinræktaðar héraðsbókmenntir frá Galisíu. Þaðan var stutt til Parísar í heimsmenninguna en fyrir var allskonar furðumenning, nornamenning, galdrar, þjóðlegir kenjar. Blandan af módernisma og þessu er svo ofboðslega fín. Margt af því sem ég er hrifnastur af er frá Suður-Ameríku, oftast kannski Argentínu þar sem var ótrúlegur suðupottur á síðustu öld. Það nýjasta er nýútkomin bók eftir Samöntu Schweblin sem heitir Bjargfæri (titillinn minnir mjög á bók eftir mig, Bjargræði, en hann er þýðandans, Jóns Halls bróður míns, sem fékk góðfúslegt leyfi hjá mér einfaldlega vegna þess að þetta var besta lausnin á merkingu titils á frummáli). Ég ataðist töluvert í að fá þessa bók útgefna, það vildi þannig til að við bræður fengum samtímis þá hugmynd að þýða hana án þess að vita af hugmynd hins. Ég vék eins og yngri bróður sæmir. Samanta kom á bókmenntahátíð og við héldum sameiginlegt útgáfupartý, með brúðuleikhúsi, upplestri og ekki síst Megasi og hljómsveit, mér fannst þetta algerlega frábært útgáfuteiti. En Samanta Schweblin er eiginlega eitthvert alstærsta nafnið í bókmenntum hins spænskumælandi heims í dag. Þetta er ansi svört bók. Hún hefur einstakt lag á hinu ósagða. Gefur mátulega litlar upplýsingar — það verður ansi hrollvekjandi, nístir mann. Kannski er þetta einmitt svipuð blanda af nútímaskáldskap og þjóðlegum kenjum og heillar mig við galisískan héraðsmódernisma. Í það minnsta finnst mér Samanta Schweblin vera eitt af því merkilegasta sem er að gerast í bókmenntum heimsins í dag.

Hvaða lykt fyllir þig fortíðarþrá og hvers vegna? Fyllir einhver þefur þig alveg sérstakri skelfingu?

Lyktin af tartalettum er góð. Þá langar mig til ömmu minnar sem hafði þær um jólin. Sama má segja um steikta rauðsprettu. Stundum finn ég ávæning af ofboðslega megnri og sérstakri lykt sem barst úr lestinni á loðnuskipi lengst norður í höfum sem ég var háseti á eftir að loðnan var orðin dragúldin. Hún fyllir mig dálítilli skelfingu vegna þess að hvort tveggja kviknaði í skipinu svo það næstum sprakk og svo var það næstum sokkið. Loks varð það vélarvana. Stundum berst þessi lykt með vindinum. Ég veit ekki hvaðan.

Ertu ánægður með nýju bókina þína? Hvernig vonastu til að henni verði tekið?

Já, ég held að ég sé bara ansi ánægður með hana. Ég vonast auðvitað til að henni verði tekið vel og ég hef fengið mjög góð viðbrögð. Það er kannski alltaf hætta í samtímanum að fréttapunktur yfirtaki viðtökur á bók, ég hef verið spurður mikið út í einn textann, „Vitaverðir rjúfa þögnina“. Það er marglaga texti, ekki einvíður. Það verða stundum til miklar umræður um bók sem fólk hefur ekki lesið. Það er kannski ekki það vitrænasta en ég er ekkert að kvarta.

Hefur fólk í litlu samfélagi eins og Íslandi tilhneigingu til að hampa bragðdaufu en samþykktu miðjumoði, t.d. í bókmenntum — verkum sem þeim, sem hrósinu útdeilir, stendur sjálfum lítil ógn af — og forðast að draga það sem raunverulega sker sig úr, er bitastætt og dýrmætt, um of fram í dagsljósið, af ótta við að slík aðgerð kynni að afhjúpa viðkomandi (þann sem hrósar) sem einmitt en einn meginstraumsfiskinn, jafnvel einungis pósufiman loddara?

Transgressívar bókmenntir eru kannski ekki beinlínis í algleymingi á Íslandi í dag. Þá er öruggast að hampa því sem ekki ögrar nema mátulega mikið, því sem ýtir á réttu takkana. Eftir að kommúnisminn féll fögnuðu menn ákaflega, meðal annars vegna þess að nú væri ritskoðun bókmennta úr sögunni, þeirrar sem sópaði m.a. Meistaranum og Margarítu út af sviðinu. Á þeim tíma tók ég svolítið viðtal við Álfrúnu Gunnlaugsdóttur (sem aldrei birtist). Hún varaði við því strax þá að menn skyldu kannski ekki fagna um of og ekki gerast of hróðugir, það væri ekki öruggt að kapítalisminn reyndist ekki jafn harður eða harðari húsbóndi þegar upp væri staðið, þótt hann notaði allt aðrar aðferðir og væri ísmeygilegri. Annars var ég fyrst núna að koma mér að því að lesa Ég er sofandi hurð eftir Sjón og er ansi hrifinn. Ritskoðunin sigrar sannarlega ekki alltaf.

Ég rak mig á það, þegar ég var að fara yfir útgáfulistann þinn, að ég virðist oftar en ekki hafa lesið verk þín í flugferð: Ég gleypti Hælið í mig í flugi til Frakklands, þýðingu þína á Fásinnu eftir Horacio Castellanos Moya las ég í flugvél á leiðinni til Íslands (og fannst ég hafa himin höndum tekið) og Bjargræði las ég einu sinni á leiðinni heim til New York. Ætli þetta sé tilviljun? Nýtur maður verka þinna best í háloftunum?

Og ætti ég að þjást af flugskömm? Eigum við öll að skammast okkar sem mest, sem oftast?

Það heitir „flugviskubit“, er það ekki? Ég er ekki sannfærður um að flugviskubitið muni vera það sem sigrar loftslagsvandann. Það fá ekki nógu margir nógu mikið flugviskubit. Að flokka plast? Er það mikið meira en örlítið viðleitni eða í versta falli friðþæging smáborgarans? Það eina sem getur spornað við vandanum eru stórfelldar stjórnvaldsaðgerðir. Mér er til efs að framtíðin beri annað í skauti sér en kvóta á flug. Í ljósi þess að stjórnvöld heimsins hafa ekki veitt miklu fé í að finna upp rafmagnsflugvélar. Nú mótmæla börn fyrir utan Alþingi á föstudögum. Vel að merkja fyrir utan Alþingi, ekki á bensínstöðvum eða flugvöllum. Hvað merkir það? Hlýtur það ekki að fela í sér beiðni um sterkt ríkisvald? Á loftslagsráðstefnum kemur alltaf upp það vandræðalega andartak þegar einhver bendir á að Kína hefur tekið forystuna í loftslagsmálum. Kína er alræðisríki. Grenndarkynning í lýðræðisríki felur í sér samtal og samráð við haghafa og allt það. Grenndarkynning í Kína felur í sér að yfirvöld segja plastpokaframleiðandanum bara að nú sé hann hættur þeirri framleiðslu. Ef hann ekki hlýðir því er hann bara settur í fangelsi eða skotinn. Það er mjög effektív grenndarkynning að skjóta fólk. Í norrænu þingunum er núna rætt um að gefa umhverfisráðherrum miklu meira vald en áður hefur verið, kannski ekki alræðisvald en vald til að taka fram fyrir hendurnar á öðrum ráðherrum þegar eitthvað liggur fyrir sem eykur loftslagsvandann. Auðvitað má fólk hafa flugskömm, ég tala nú ekki um þegar það flýgur mörgum sinnum á ári til þess eins að taka þátt í ráðstefnum um loftslagsvandann — og það jafnvel á einkaþotum — og sér ekkert athugavert við þetta, óskar sér bara hjartanlega til hamingju með hugsjónastarfið. En flugviskubitið leysir ekki vandann. Sjálfur flýg ég reyndar sáralítið en kannast vel við hvað það er gott að lesa í flugvél, það stafar ekki síst af því að þá er slökkt á netinu. En ég vona að það sé hægt að njóta bóka minna á jörðu niðri líka, að þær feli kannski í sér eitthvert flugtak sjálfar.

Já, það er gott að lesa í flugvél — en best er reyndar að lesa í lest. Og ég vona að lesendur hafi notið þess að þræða sig í gegnum þetta spjall okkar, kæri Hermann (og hafi jafnvel gert það í lest) og svo óska ég þér alls hins besta. Hjartanlega velkominn í ráðuneytið.

 

Bækur, 10. maí 2019

Hef verið að lesa bókina The Great Reframing eftir listmarkaðsbloggarann Tim Schneider síðustu daga. Bókin fjallar um þau áhrif sem tæknibreytingar hafa á listmarkaðinn og er í senn gott yfirlit fyrir þá sem hafa áhuga á myndlist og þá sem hafa áhuga á tækni. Mér finnst hann líka varpa ansi góðu ljósi á stöðu listmarkaðarins í dag. Kjarni bókarinnar fjallar um þá þversögn að tækniframfarir síðustu ára hafa það markmið að gera allt eins aðgengilegt og gegnsætt og mögulegt er á meðan listmarkaðurinn er í eðli sínu eins ógagnsær og óaðgengilegur og hugsast getur. Þegar þessir heimar koma saman gerist óhjákvæmilega eitthvað furðulegt. Hér er góð athugasemd um þennan forvitnilega bransa:
“As the iconic postwar gallerist Leo Castelli explained in 1966:   Why should anyone want to buy a Cézanne for $800,000? What’s a little Cézanne house in the middle of a landscape? Why should it have value? Because it’s a myth. We make myths about politics, we make myths about everything. I have to deal with myths from 10 a.m. to 6 p.m. every day… My responsibility is the myth-making of myth material—which handled properly and imaginatively, is the job of a dealer—and I have to go at it completely. One just can’t prudently build up a myth.” (KF.)


Óskalistinn:

Dyr opnast, kímerubók eftir Hermann Stefánsson, er komin út. Hér má lesa stutt viðtal við höfundinn. (SN.)

Socrates in Love er titill sem myndi líklega aldrei vekja áhuga minn ef ekki væri fyrir það eitt að Nassim Taleb, uppáhalds hugsuðurinn minn, mældi með þessari nýútkomnu bók á Twitter um daginn. Svo þegar ég kynni mér hana nánar þá sé ég að hún er býsna áhugaverð. Í stuttu máli fjallar hún Sókrates og uppruna hans.

Miðstöð íslenskra bókmennta tilkynnti á dögunum úthlutun þýðingarstyrkja. Margar spennandi bækur væntanlegar á þeim lista. (KF.)

 

Af netinu, 10. maí 2019

Skemmtileg grein um Ólaf Elíasson og það hvers vegna hann er svona góður listamaður.

Góð grein um annan góðan listamann.

Hér skrifar bókagagnrýnandi og blaðamaður um hversu erfitt það er að hafa í sig og á með því að skrifa í dag.

Forvitnileg tölfræði um hátt hlutfall kvenna í íslenskum háskólum.

Mjög fyndin grein hér. Ljóðskáld viðurkennir að geta ekki svarað krossaspurningum um eigin ljóð.

Viðtal við Björk í New York Times.

Hvað eru skrif? Góð spurning.

Þvert á það sem margir halda þá ráða stórfyrirtæki ekki lögum og lofum í bandarískum stjórnmálum. Þessu heldur einn hlekkjaðasti greinarhöfundur Leslistans fram í góðri grein.

Aðalfundur Berkshire Hathaway – fjárfestingafélags öldunganna Warren Buffet og Charlie Munger – fór fram fyrir nokkrum dögum. Af því tilefni las ég aftur þessa grein um speki hins síðarnefnda. (KF.)

Virkilega flott umfjöllun, um hægan dauða verksmiðjubæjarins Lordstown í Bandaríkjunum. Sá má muna fífil sinn fegri.

Einu sinni hélt mannkynið að við gætum ekki rústað jörðina – hún væri einfaldlega of stór. Það var rangt. Nú vilja sumir færa stóriðnað til tunglsins. Við getum ekki rústað geiminn – hann er of stór, segja menn. Ætli okkur skjátlist?

Einu sinni, endur fyrir löngu, voru The Paris Review-viðtölin öll aðgengileg ókeypis á vefsíðunni þeirra. Þá las ég þau næstum öll, enda um frábært efni að ræða, og skemmtileg hvernig oft tekst að kjarna hugmyndir og persónu höfundanna á hnitmiðaðan hátt. Á hinum síðustu og verstu er vefsíðan læst öðrum en áskrifendum, en þau opna reglulega fyrir eitt og eitt gamalt og gott viðtal, nú síðast þetta hér, við séníið Iris Murdoch.

Bendi svo loks á Samráðsgáttina. Verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun óskar eftir umsögnum um landsrýniskýrslu (e. Voluntary National Review) um innleiðingu Íslands á heimsmarkmiðunum. Sauðsvartur almúginn getur sent inn athugasemdir við staka kafla eða skýrsluna í heild – þar með talið þú. Gott til að dunda sér við þetta á síðkvöldum. (SN.)


Fyrir augu og eyru:

Hér er skrifað um Joni Mitchell og farið yfir feril hennar með því að spá í 33 lög eftir hana. Væri til í að sjá mun fleiri svona yfrlitsgreinar um listamenn. Einfalt en áhrifaríkt módel.

Myndi segja að þetta væri eitt besta viðtal sem ég hef hlustað á á árinu. Ég veit að allir eru komnir með leiða á Karl Ove Knausgård – en þetta viðtal er vel hlustunar virði hvort sem þú hatar hann eða elskar. (KF.)

David Wallace-Wells sendi frá sér eina umtöluðustu bók síðustu mánuða, The Uninhabitable Earth. Sú mynd, sem hann dregur upp af framtíðinni, er ekki björt og aðlaðandi. Hér er Wallace-Wells í ágætu spjalli við Longform-hlaðvarpið.

Og ef þú vilt enn fræðast um loftslagsbreytingarnar: BBC gaf nýlega út klukkustundarlanga heimildarmynd með Íslandsvininum David Attenborough, Climate Change – The Facts. Síðast þegar ég vissi hafði einhver réttsýnn jarðarbúi hnuplað henni af BBC-vefnum og lætt inn á YouTube svo að fólk úr öðrum heimshlutum en Bretlandseyjum gæti horft. (SN.)

Ráðunautur Leslistans: Kristinn Árnason

Kristinn Árnason er mörgum gáfum gæddur; ein þeirra skín skært í greiðu aðgengi hans að skáldskaparæðinni: ljóðinu. Nýlega gaf hann út falleg verk, Regntímabilið, sem hér má panta beint frá býli. Við Kristinn tókum okkur á víxl stuttar pásur frá fjörugu barnauppeldi og alls kyns daglegu amstri og skiptumst á hugleiðingum um lífið, listina og austræna speki. Það er einhver yfirvegaður og eftirsóknarverður tónn í rödd Kristins, kærkomið og þarft mótvægi við háreysti

– Sverrir Norland

Sverrir Norland: Kæri Kristinn, hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans og innilegustu hamingjuóskir með nýju ljóðabókina þína,Regntímabilið.

Til að hefja leik: Mér þætti vænt um það ef þú uppfræddir okkur aðeins um bókina?

Kristinn Árnason: Bókin er sprottin úr nokkurra ára tímabili í lífi mínu sem einkenndist af líkamlegum veikindum og í raun upplausn í sálarlífinu. Ég varð alvarlega veikur árið 2008, þegar ég var 27 ára og starfaði í útrásarteymi í íslenskum banka sem stefndi í þrot. Ég lét af störfum sumarið fyrir hrun því ég var farinn að þjást af alvarlegum sjóntruflunum, alls konar óútskýrðum verkjum og þrekleysi, höfuðverkjum og meltingarvandræðum, og svo framvegis. Og við tók þetta einkennilega tímabil umbrota sem bókin talar úr og fær heitið Regntímabilið. Aftast í bókinni er smáljóð eða textabútur sem ber þennan titil og smám saman varð það að viðeigandi nafni á bókina og þetta tímabil.

Þetta er ferðasaga en að forminu til er þetta ljóðabók. Skýringin á greininum í undirtitlinum, þ.e. „Ljóðabókin“, er sú að bókin á sér systurverk í lengra formi ferðasögu eða eins konar sjálfsögu. Það er annars lítið um tilraunir með form í bókinni sjálfri, ljóðin eru í ólíkum og frjálsum formum. Helsta formtilraun verksins er í raun upplýst með greininum í undirtitlinum.

Hvaða ljóðskáld, eða aðrir höfundar, eru í uppáhaldi hjá þér? Voru einhverjir þeirra þér til halds og stuðnings við skrif Regntímabilsins?

Um miðbik þessa tímabils, árin 2010 til 2012, bjó ég í Stokkhólmi. Ég var enn ómögulegur í augunum og líkamanum og varði tíma mínum m.a. í að ganga máttfarinn og verkjaður milli garða og kaffihúsa borgarinnar, sat inni í kirkjum og undir trjám og reyndi að hætta að hugsa. Ég var að vinna að einhvers konar núllstillingu, heilsunnar vegna. Og í Stokkhólmi er mikið af stórum trjám sem voru alltaf nálæg á ferðum mínum um borgina. Ég fór að gefa þeim mikinn gaum og á þessum tíma lærði ég loksins að horfa á tré. Að horfa á falleg tré er auðvitað eins konar ljóðalestur. Trén voru á bylgjulengd sem átti við kyrrðina sem var byrjuð að gera vart við sig innra með mér í bland við allan óróann. Ætli lauftrén í Skandinavíu séu því ekki bara þau skáld sem höfðu mest áhrif á mig við gerð þessarar bókar, ég myndi giska á það.

Annars varð ég mér líka út um ljóðabækur ýmissa mannlegri skálda eftir því sem augun tóku að róast aðeins og samband mitt við trén batnaði. Heilsan tók að sýna fyrstu merki um afar varfærnislegan viðsnúning og ljóð voru heppileg fyrir augun því þau eru oft frekar stutt! Ég dvaldi lengi við ljóðasöfn súfískra miðaldaskálda á borð við Kabir og Rumi, sem mér fannst hressandi og í þeim heimspekilega anda sem mér fannst skynsamlegur á þessum tíma. Eftir því sem á leið á fór ég svo að geta lesið meira og þá varð ég til dæmis mjög hrifinn af ljóðunum sem Fernando Pessoa skildi eftir sig undir öðrum nöfnum, og las Pablo Neruda og Juan Ramón Jiménez og Rilke, svo einhverjir séu nefndir.

Hvernig barn varstu — dreymið, leitandi, leshneigt, eða hávært, baldið, hugrakkt? Eða kannski þeytingur samsettur úr öllum fyrrgreindum eiginleikum?

Ég var orkumikill en ekkert sérstaklega dreyminn framan af, þótt ég hafi orðið það smám saman eftir því sem ég óx úr grasi. Þessi draumóraárátta er eitt af því sem ég hef þurft að hafa töluvert fyrir að vinda ofan af nú seinna mér. Ég var ekki áberandi listhneigður en mér féll vel við dýr og var viðkvæmur eða næmur á sumt. Eftir að ég byrjaði að geta lesið sjálfur fletti ég mest Atlasnum sem pabbi gaf mér þegar ég varð sjö ára. Af orðunum í spurningunni er „leitandi“ hugsanlega það sem lýsir mér skást sem barni. Annars er ég ekki einu sinni viss um það, og seinna meir hef ég hallast að því að draga sem allra mest úr þessari eilífu leit líka.

Áttu þér gullin trikk til að koma þér í skapandi gír við skrifin? Eða ertu maður hins óvænta, og óútreiknanlega, innblásturs?

Ég myndi segja að hugarástandið sé mér mikilvægast þegar kemur að ljóðum, ég þarf að stilla mig inn á líðandi stund og leyfa huganum að hljóðna svolítið. Ég má ekki vera of upptekinn og ég þarf að hafa næði og tíma til að dvelja einfaldlega við ástandið inni í mér og í kringum mig. Við þær aðstæður þarf oft bara litla kveikju og þá opnast fyrir eitthvað, og kveikjurnar eru alls staðar, allt sem er endalaust að eiga sér stað. Stundum hjálpar mér þó að vera að lesa ljóð frekar en aðra texta, þegar ég er að skrifa eða vinna með ljóð.

Nú veit ég að þú ert maður hugleiðslu og kennir meira að segja jóga. Liggur þráður í gegnum slíka andlega iðkun og skrifin? Eru lestur og skrif hugleiðsla?

Hjá mér liggur þráður þarna á milli já, en þá á ég ekki við neina hugmyndafræði heldur kannski einkum áhersluna á ástand vitundarinnar og vissa innhverfni, að huga að jarðveginum og hreinsa hann eftir fremsta megni, svo maður verði móttækilegur fyrir einhverju sem er ekki bara manns eiginn hugarburður. Að rækta með sér næmni og vinda ofan af hlutunum frekar en að blása sig út með hugmyndum og sjálfsmyndum. Í mörgum austrænum hefðum er þessi áhersla á skynjun og að læra að horfa á hlutina milliliðalaust og án orða. Ég velti þessu oft fyrir mér í sambandi við ljóðlistina. Það er ekki að ástæðulausu að mörgum ljóðskáldum er tíðrætt um þögnina og mikilvægi þess að geta sleppt því að nota orð þegar við horfumst í augu við hlutina. Ég hugsa að ég hefði ekki farið að skrifa ljóð hefði ég ekki þagnað svolítið hið innra fyrst. Allavega hugsa ég að hjá mörgum skáldum komi þögnin fyrst, svo ljóðið. Varðandi spurninguna um hvort lestur og skrif séu hugleiðsla mundi ég telja það afar misjafnt, en hvort tveggja býður upp á þann möguleika þegar best lætur.

Fyrst austræna speki ber á góma: Ég er staddur í Japan, mun eyða hér stórum hluta sumars og hef af því tilefni aðeins reynt, af veikum mætti, að setja mig inn í japanska hugsun (sem er ekki alltaf auðvelt vestrænu fólki). Eitt sem situr í mér: fegurð í gerð hluta er þegar notagildi og útlit fara saman. Þetta tvennt er raunar óaðskiljanlegt: fallegt áhald er líka ákjósanlegt verkfæri, ekki aðeins skrautmunur. Þetta stríðir í raun þvert á hugmyndafræði síðkapítalismans, sem reynir sífellt að búa til gerviþarfir og selja okkur gagnslaust skran eða skammlíft fjöldaframleiðsluvíl, breyta okkur í ósjálfbjarga neytendur söluvarnings. Nýjustu atlögunni virðist svo stefnt gegn hugum okkar og innra lífi: þú ert ekki til nema þú varpar daufri eftirmynd af þér inn í forrit gegnum raftæki undir vökulu eftirliti stjarnfræðilega auðugs stórfyrirtækis. Og þetta samþykkjum við, kannski vegna þess að fagurfræði samtímans — hugmyndir okkar um fegurðina, ef einhverjar eru — hafa beðið (furðu mótþróalausa) hnekki. Þetta umhverfi hampar ekki sjálfstæðri hugsun — einstaklingum, lesendum — heldur býflugnabúskrafti læksins. Fjöldasamþykkisins. Andhverfu bókmenntanna.

Getur verið að fegurð bókmennta rýrni í þessu staðlaða umhverfi stafrænunnar, sem útskýrir að nokkru yfirstandandi krísu fagurbókmennta og hugarspunnina frekar staðreyndadrifinna skrifa?

Og skiptir útlit bókmennta máli? Pappír vs. raf, og svo framvegis.

Nú vekurðu hjá mér töluverða löngun að vera í japanskri sveit. En jú, það er margt bogið við það hvernig tæknin neyðir okkur til lags við allt mögulegt sem við ættum helst að hlaupa í burtu frá. En hugur mannsins hefur kannski aldrei verið sérstaklega frjáls frá umhverfi sínu, þannig að það vandamál er eftir sem áður af sambærilegum toga og áður, hugsa ég, fyrir hvert og eitt okkar.

Og ég veit ekki með áhrif alls þessa á fegurð bókmennta. Ég er ekki viss um að vaxandi aðdráttarafl staðreyndadrifinna skrifa, svokallaðra, sé eitthvað sem ætti að líta á sem eitthvað andstætt fagurbókmenntum sérstaklega. Þetta er að vissu leyti þróun sem sumir spekingar kölluðu eftir fyrir löngu síðan, fyrir fagurbókmenntirnar. Svo eru mörkin í þessu öllu svo óljós og það er ekkert nýtt. Maður situr uppi með sjálfan sig. Mér finnst áhugavert verkefni að setja staðreyndadrifin skrif í fagurfræðilegan búning, ég get sagt það. Í ljóðum fást sumir við það.

Varðandi pappír og útlit bóka. Já, og Japan. Mér finnst góð endurskilgreiningin á efnishyggju, sem bendir á hefðir í zen búddisma, um að raunveruleg efnishyggja snúist um að hlúa vel að efninu og nýta það vel. Við verðum bersýnilega öll að fara í þá áttina, og þetta er jú allt orðið ansi brýnt, þetta með meðferð okkar á efninu, og það verður áhugavert að sjá hver áhrif alls þessa verða á bókmenntirnar. Bækur hafa auðvitað þann stóra kost að vera áþreifanlegar.

Einmitt — og áþreifanleikinn er vanmetinn. Og vanmetum við ekki líka — þjökuð af kvíða og minnimáttarkennd, þunglyndi og framtíðarbeyg — notagildi hins hægláta miðils sem prentaða ljóðabókin t.d. er? Ég yrki ljóð, og teikna, langoftast fyrir sjálfan mig: til að reyna að sjá veröldina betur sjálfur, án rafknúinnar hækju. Og mér finnst það hjálpa mér. Og mér finnst hjálpa mér að lesa ljóð, af pappír. Getur verið að í alltumlykjandi andapotti tækninnar fljóti hvergi lausn hinna mörgu aðstenjandi vandamála mannkyns — hrun náttúrunnar, hnignandi virsmunalíf og svo framvegis — heldur einmitt sjálf rót vandans?

Mig grunar — ég óttast — það.

En kærar þakkir fyrir spjallið, Kristinn Árnason. Ég hlakka mikið til að fá áþreifanlega útgáfu af Regntímabilinu í hendurnar (ég á nú þegar eitt sem bíður mín í Reykjavík).