Allt efni

Bækur, 1. febrúar 2019

Kláraði fimmtu og síðustu bókina um Tom Ripley eftir Patriciu Highsmith, Ripley Underwater. Hef ekki dottið svona hressilega inn í bókasyrpu, sem í heild er kölluð Ripliad, síðan ég las Elenu Ferrante-bækurnar á sínum tíma.

Í fyrstu bókinni, The Talented Mr. Ripley (1955), er Tom Ripley kynntur til leiks. Hann er ungur maður sem strögglar við að ná endum saman í New York, og stundar þar ýmsa smáglæpi. Dag einn víkur sér að honum auðugur maður á miðjum aldri, Herberg Greenleaf, og fer þess á leit við Ripley að hann ferðist til Mongibello, á Ítalíu, til að telja hinn óstýriláta son sinn, Dickie Greenleaf, á að snúa aftur til Bandaríkjanna og taka við fjölskyldurekstrinum. Ripley fellst á hugmyndina, slær upp vináttu með Dickie (sem var áður einungis málkunnugur honum) og endar á því [Spoiler Alert] að myrða hann í árabáti. Upphefst þá margslungin atburðarás, þar sem Ripley spinnur sífellt flóknari lygavef í kringum sig.

Næsta bók, Ripley Under Ground (1970), gerist sex árum síðar. Ripley lifir nú kyrrlátu lífi sem hverfist kringum fagrar listir og notalegar tómstundir í Belle Ombre, stórri villu í uppdiktuðu frönsku þorpi, Villeperce-sur-Seine. Ripley hefur komist í álnir, kvænst franskri konu af góðum ættum, Héloïse Plisson, og flækt sig í svikamyllu ásamt listfölsurum. Þessi er frábær og ekki síður sú þriðja, Ripley’s Game (1974), þar sem okkar maður lendir upp á kant við ítalska mafíósa (og kemur tveimur þeirra fyrir kattarnef með afar ógeðfelldum hætti).

Í fjórðu bókinni, The Boy Who Followed Ripley (1980), birtist 16 ára bandarískur drengur í Villeperce, kynnir sig fyrir Ripley sem „Billy“ og falast eftir vinnu hjá honum sem garðyrkjumaður. Brátt kemur á daginn að drengurinn er í raun Frank Pierson, sonur nýlátins bandarísks auðjöfurs. Drengurinn kveðst hafa myrt föður sinn: ýtt honum fram af kletti (faðirinn var í hjólastól). Þessi er eiginlega sú skrítnasta í syrpunni, og jafnframt sú lengsta. Þeir félagar verja til að mynda löngum stundum saman í litríkri Berlín fyrir fall múrsins, og oft er ýjað að hómóerótísku ástarbáli þeirra á milli. Síðasta bókin, áðurnefnd Ripley Underwater (1991), geymir svo einn háðulegasta dauðdaga sem ég hef orðið vitni að í skáldverki.

Frábærar bækur. Ripley er í raun prótótýpa vissrar tegundar af skáldpersónu sem farið hefur eins og eldur í sinu um vitund lesenda og kvikmyndaunnenda á síðustu árum; kaldrifjaður listunnandi, heillandi sósíópati. Hann er til dæmis, að mínu mati, forveri Patrick Bateman í American Psycho eftir Brett Easton Ellis (nema hvað hann er áhugaverðari persóna og Ripley-bækurnar betri, að Ellis ólöstuðum). En nóg um það. Við tekur tregans tómarúm, tilvera þrungin söknuði eftir Ripley og ævintýrum hans. Hvað les ég næst?

Jú: til dæmis bókmenntir um yfirvofandi heimsendi. Að vanda er ég varla kominn til Parísar þegar ég byrja að kaupa bækur, svona er ég bara, haldinn sjúkdómi, og reyni að lifa með því. Keypti til að mynda tvær, sem lengi hafa verið á listanum hjá mér, eftir Pablo Servigne og Raphaël Stevens: Comment tout peut s’effondrer (Hvernig allt getur hrunið) og Une autre fin du monde est possible; vivre l’effondrement (et pas seulement) (Önnur heimslok eru möguleg). Báðar bækurnar fjalla um hrun, ekki þó í þeim skilningi sem við Íslendingar leggjumst oftast í orðið, þ.e. hrun efnahagsins, heldur hrun í víðtækara samhengi: hrun náttúrunnar, hrun siðmenningarinnar, og hvernig við getum brugðist við því sem er að gerast á jörðinni; sjöttu útrýmingunni, fyrirsjáanlegum vatns- og matarskorti, hækkandi hitastigi, hækkandi yfirborði sjávar, aukinni tíðni náttúruhamfara og svo framvegis. Bækurnar, sem eru skrifaðar á auðskilinn og læsilegan hátt, án þess þó að reyna að höfða til treggáfaðra, gera ráð fyrir því að hrunið sé þegar hafið og eru þó ekki svartsýnislegar (heldur, að mati höfunda sinna, raunsæislegar), þær hafa að markmiði að opna augu okkar fyrir nýjum möguleikum á því hvernig haga má tilveru sinni í lífríki sem verður sífellt fátæklegra og einsleitara. (SN.)

Ég rambaði á bæði gagnlega og skemmtilega bók fyrir stuttu. Hún kallastSystems Bible og fjallar í stuttu máli um hvernig kerfi, bæði stór og smá, eru oftast dæmd til að klúðrast. Kerfi gegna mjög veigamiklu hlutverki í daglegu lífi okkar og það er í raun nokkuð forvitnilegt hversu lítið er fjallað um hvernig maður á að hugsa í kerfum og fara að því að hanna skilvirk kerfi. Bókin fjallar um kerfi út frá þeirri grundvallarreglu að þau virka jafnan frekar illa eða bara alls ekki. Því flóknari og stærri sem kerfi verða, því minni líkur eru á að þau nái að afreka það sem þeim var ætlað að gera. Það spillir ekki fyrir hvað bókin er læsileg og fyndin – ég fékk heilmikið út úr lestri hennar og er vís til að leita til hennar aftur síðar. Það er ekki oft sem ég kaupi bækur á Kindilinn og vil svo í kjölfarið kaupa hana á prentuðu formi, en ég er nokkuð viss um að ég geri það í þetta skiptið. (KF.)

 


Óskalistinn:

Ég er að manna mig upp í að ráðast á The Age of Surveillance Capitalism: The Fight for a Human Future at the New Frontier of Power eftir Shoshönu Zuboff. Virðist vera tímabær bók. Shoshana rabbaði um bókina við uppáhalds-útvarpsmanninn minn, Christopher Lydon, í Open Source, og setur þar fram naskar og sláandi samlíkingar: með iðnbyltingunni var náttúran gerð að söluvöru og henni að lokum fórnað með þeim katastrófísku afleiðingum sem nú eru teknar að dynja yfir, s.s. útdauða og minnkandi fjölbreytni í náttúrunni, og nú, í kjölfar stafrænu byltingarinnar, er hið sama uppi á teningnum nema það er ekki náttúrunni sem er fórnað heldur okkur mönnunum þegar reynslu okkar er jafnóðum breytt í upplýsingar og söluvöru. Segir Zuboff – sem er mun færari í að orða þessar hugsanir en ég.

Og þá yfir í meira uppörvandi fréttir: Út er komin bókin Hafið starfar í þögn minni: Þýðingar á ljóðum eftir Pablo Neruda. Ritstjóri er Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands. Ég sendi Hólmfríði skeyti og fræddist um útgáfuna:
„Ég hef um árabil verið að safna ljóðaþýðingum úr spænsku á íslensku,“svarar hún. „Mjög fljótlega kom í ljós að um umfangsmikið safn var að ræða og gagnabankinn fylltist hratt. Því kviknaði hugmyndin um að gefa safnið út í hlutum. Fyrst kom út bókin Gustur í djúpi nætur: Ljóðasaga Lorca á Íslandi(2007) – verk eftir 21 þýðanda –  og er þar að finna allar þýðingar sem komið hafa út á kvæmum spænska skáldsins og leikritahöfundarins Federico García Lorca á Íslandi. Í kjölfarið fylgdi Yfir saltan mar: Þýðingar á ljóðum eftir Jorge Luis Borges (2012) – 16 þýðendur alls. Og … nú síðast kom Hafið starfar í þögn minni: Þýðingar á ljóðum eftir Pablo Neruda (1018) – 18 þýðendur alls. Það eru Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfan sem standa fyrir útgáfunni, sem er tvímála. Ljóðin birtast fyrst á frummálinu og því næst þýðing þeirra. Þeim er raðað í tímaröð eftir útkomu á spænsku og í neðanmálsgreinum birtast upplýsingar um úr hvaða ljóðasafni þau koma og frá hvaða ári, ásamt útgáfuári þýðingarinnar og upplýsingum um þýðandann. Í bókunum er að finna inngang um ævi og rithöfundaferli skáldanna.
Hver bók er fjársjóður! Í ljósi þess að mörg ljóðanna komu út í blöðum og tímaritum, ekki öllum langlífum, eða sem viðbætur eða eftirmálar í ljóðasöfnum íslenskra ljóðskálda hafa þau ekki verið aðgengileg – hvað þá í heildarsafni. Markmið útgáfunnar er þess vegna tvíþætt, þ.e. annars vegar að halda á lofti þeirri frábæru vinnu sem íslenskir þýðendur hafa unnið og um leið að kynna umrædd stórskáld fyrir nýjum lesendum. Söfnin gagnast enn fremur sem ítar- og kennsluefni um skáldin og til rannsókna í bókmennta- og þýðingararfræði.“

Annað nýlegt safn, sem kitlar forvitni mína, kemur frá hinum enskumælandi heimi: The Penguin Book of Hell. Þar eru lesendur leiddir í gegnum þrjú þúsund ára hugmyndasögu Helvítis, hvorki meira né minna. (SN.)

Ég var að byrja að kíkja á og koma fyrir á náttborðinu mínu nýrri ævisögu Skúla fógeta sem nefnist Skúli fógeti: Faðir Reykjavíkur – Saga frá átjándu öld og er eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur. Ég veit lítið sem ekkert um Skúla og Íslandssöguna á þessu tímabili þannig að ég er býsna spenntur fyrir að kafa í hana. (KF.)

Af netinu, 1. febrúar 2019

Ef maður hefur áhuga á „að ná árangri“ (þá kannski sérstaklega sem frumkvöðull í hugbúnaðargeiranum) er þetta ágæt lesning. Fyrir okkur hin, dauðlegt fólk, er þetta fróðleg innsýn inn í heim metnaðarfullra.

Ragnar Kjartansson opnaði nýja sýningu í vikunni og af því tilefni var tekið skemmtilegt viðtal við hann fyrir Mbl.

Ég er mikill aðdáandi Costco, ekki endilega verslunarinnar sjálfrar heldur viðskiptamódelsins sem býr að baki hennar. Hér er ágæt glærukynning sem útskýrir kosti þess.

Dálkahöfundurinn og blaðamaðurinn Russel Baker lést nýlega og af því tilefni dró blaðamaður Atlantic fram nokkura ára gamalt viðtal við kauða. Ég kannaðist ekkert við hann áður en ég las viðtalið en mér fannst það virkilega skemmtilegt.

Það er greinilega ekki séríslenskt vandamál að eiga í erfiðleikum með að kaupa eigið húsnæði. Hér er ágæt erlend grein sem fer í saumana á vandamálinu.

Rory Sutherland skrifar hér algjöra neglu um skilvirknivæðingu auglýsingabransans. Get ekki beðið eftir að hlusta á hann tala í næstu viku.

Munuð þið eftir rokkstjörnunni Andrew WK? Hér er hann með frábært svar við hræðilegri spurningu. Hér er líka myndband með honum sem ætti að keyra helgina í gang fyrir ykkur. (KF.)

Pamela Anderson, fyrrum strandvörður, er hér í bitastæðu spjalli við tímaritið Jacobin og heimspekinginn Srećko Horvat um mótmælaölduna í Frakklandi, vandræði Evrópusambandsins, eigin aktívisma og margt fleira. (SN.)


Til að hlusta á:

Hallgrímur Helgason tók við íslensku bókmenntaverðlaununum og flutti skemmtilega ræðu. (SN.)

Talandi um Rory Sutherland, vin okkar. Ég var að uppgötva að hann væri með nýtt hlaðvarp á BBC. Búinn að hlusta á einn þátt og er vís til þess að klára alla seríuna á einu bretti.

Ég hlustaði í vikunni á stórgott viðtal við Josh Wolfe, sem er framkvæmdastjóri sprotasjóðs. Það sem mér fannst forvitnilegast við viðtalið var viðhorf hans til barnauppeldis og hvað hann telur barneignir eiga stóran hlut í að móta góðan stjórnanda. Annars ágætt spjall um hvernig maður á að taka ákvarðanir og hvernig maður á að tækla stór verkefni.

Ég hef stundum minnst á Patrick Collison, ungan frumkvöðul sem er einna þekktastur fyrir að hafa stofnað greiðslumiðlunarfyrirtækið Stripe. Þrátt fyrir að vera ungur að árum virðist hann bæði djúpur og víðlesinn. Fyrir ekki svo löngu minntist ég á frábæra grein eftir hann og Michael Nielsen, vin hans, þar sem þeir velta vöngum yfir því sem virðist vera minnkandi ábati af vísindum. Á mánudaginn síðastliðinn birtist svo viðtal við hann í uppáhalds hlaðvarpinu mínu, Econtalk, þar sem hann fjallar ítarlega um greinina og margt annað. Þetta var eiginlega með því besta sem ég hef hlustað á lengi – mæli mikið með þessu samtali.

Þetta var greinilega vika góðra hlaðvarpa hjá mér. Hef af og til hlustað á hlaðvarpið The Moment með handritshöfundinum Brian Koppelman. Nýlega tók hann viðtal við rithöfundinn Steven Pressfield sem er þekktur fyrir að skrifa skáldsögur og bækur um ritstíflu og hvernig rithöfundar og aðrir listamenn geta fundið leiðir til að útrýma henni. Ég las einmitt eina þeirra fyrir nokkrum árum sem ég mæli með. Hún kallast Nobody Wants To Reads Your Shit og er góð lesning fyrir hvern þann ætlar sér að starfa við einhvers konar ritstörf. Viðtalið fjallar einmitt um starf rithöfundarins, ritstífluna og hvernig atvinnumenn vinna bug á henni. (KF.)

Ráðunautur Leslistans: Jónas Reynir Gunnarsson

jónas

Jónas Reynir hefur mokað út góðum skáldverkum síðustu tvö árin og sendi nú síðast frá stórfína skáldsögu, Krossfiska (Partus Press: 2018). Ég sat fyrir um Jónas í dimmu húsasundi, stökk út úr fylgsni mínu þegar hann uggði ekki að sér og náði að leggja fyrir hann nokkrar spurningar. — Sverrir Norland

Kæri Jónas Reynir, vertu hjartanlega velkominn í ráðuneyti Leslistans.

Ég las fyrir jól nýju bókina þína, Krossfiska, aðra skáldsöguna sem þú sendir frá þér. Ég á mjög erfitt með að lýsa efni hennar í stuttu máli (og ætla ekki að reyna). Mér fannst eins og lýsingarnar á umhverfi aðalsöguhetjunnar endurspegluðu fyrst og síðast hugar- og tilfinningaástand hennar frekar en veruleikann (ef við gefum okkur að það orð hafi einhverja merkingu, veruleikinn) — en um leið er frásögnin afar myndræn og rennur mjög skýrlega fyrir hugskotssjónum lesandans, hálfvegis „eins og kvikmynd“. Svo mig langar að spyrja: Ertu mikill áhugamaður um kvikmyndir? Mundirðu segja að þú eigir þér frekar áhrifavalda sem starfa á sviði sjöundu listgreinarinnar (ég held að kvikmyndagerð sé stundum kölluð „sjöunda listgreinin“) en í bókmenntunum?

Kærar þakkir fyrir að bjóða mér!

Ég er sammála þér með að veruleikinn sé erfitt hugtak. Stundum er hægt að tala um hlutlæga eða huglæga frásögn, og þar finnst mér óhætt að setja Krossfiska í seinni flokkinn. Tilfinningalegt ástand söguhetju, og hvernig það er sett fram, skiptir þarna máli, og svo er það líka hugar- og tilfinningaástand lesandans, því þetta þarf ekki endilega að haldast í hendur. Til dæmis gæti hugarástand aðalpersónu bókar verið mjög jákvætt og höfundurinn notað öll möguleg frásagnartól til að draga upp þetta jákvæða ástand í textanum, í gegnum lýsingar og annað, en samt líður lesandanum óþægilega. Kannski vegna þess að hann býr yfir upplýsingum eða reynslu sem gefa honum forskot á persónuna, eða bara vegna þess að hann er nýbúinn að lesa kaflann á undan, sem vakti upp allt önnur áhrif sem hafa ennþá ekki fjarað út.

(Smá útúrdúr: Þetta með tvo kafla í röð sem vekja upp ólík áhrif minnir mig á frábæra heimildamynd sem heitir á ensku Fire at Sea og sameinar tvö ólík sögusvið: Annars vegar hversdagslíf tólf ára drengs, sem er stórkostlega fyndinn og sjarmerandi, á eyjunni Lampedusa, sem tilheyrir Sikiley, og hins vegar flóttafólk sem neyðist að hætta lífi sínu á leiðinni yfir Miðjarðarhafið fram hjá þessari eyju. Þessi blanda, og lágstemmd og yfirveguð kvikmyndagerðin gera myndina mjög áhrifaríka, ég mæli eindregið með henni.)

En semsagt, ég myndi segja að umhverfislýsingar og annað í bókinni eigi fyrst og fremst að búa til ákveðið hugar- og tilfinningaástand hjá þeim sem les, frekar en endilega að endurspegla innra ástand söguhetju. Það mætti nýta umhverfislýsingar mjög fínlega á þennan hátt — að þær endurspegluðu innra ástand hetjunnar, og um leið og lesandinn er farinn að skynja það, sér samkennd hans með öðru fólki (eða persónum í bókum) um afganginn. Sem dæmi, ef maður byrjaði með að hafa það að leiðarljósi að lýsingar héldust í hendur við innra ástand söguhetjunnar, og hætti því svo, eða skipti markvisst um nálgun í miðri bók (færi til dæmis yfir í mun hlutlægari lýsingar) væri samkennd lesandans ennþá virk og í fullri vinnu við að tengja við söguhetjuna, reyna að skilja hvernig henni líður og af hverju. Mér finnst þetta mjög áhugavert: Hvað sá sem les gengur í gegnum, hvenær reynir á þolinmæði og samkennd og hvort sá sem les bókina upplifi jafnvel að þessir jákvæðu eiginleikar eflist á meðan á lestrinum stendur. Til dæmis þegar lesandinn lendir í því að líka illa við sögupersónu eða að verkið veiti honum mótstöðu með einhverjum öðrum hætti. Þannig að aðgreiningin sem ég vildi gera er þessi: Að lýsingarnar geti dregið upp innra ástand söguhetju, en herrann sem textinn þjónar er fyrst og fremst sá sem er að lesa.

Það er spot on að tengja Krossfiska við kvikmyndir, því í upphafi ætlaði ég að gera þessa sögu að indie-kvikmynd sem ég myndi taka upp fyrir engan pening yfir nokkur ár með vinum mínum. Það var pælingin þegar ég skrifaði hugmyndina niður í fyrsta skiptið og hún spannaði bara tvö stílabókarblöð. Söguþráðurinn var ekki kominn nema í grófum dráttum, en tilfinningin, eða hugarástandið, sem verkið átti að búa til var orðið nógu skýrt til að ég gæti kallað þetta hugmynd. Svo breyttist verkið mjög fljótt í bók. Á upphafsstigum held ég að hugmyndirnar mínar séu bara hugmyndin um tilfinninguna sem verkið gæti búið til, frekar en endilega viðfangsefni þess, eða ákveðna list- eða bókmenntagrein (oft flakkar ein hugmynd á milli skáldsagna-, smásagna- og ljóðahandritaskjala, á meðan hún tekur á sig mynd). Svo eftir því sem hugarástandið, eða tilfinningin, sem verkinu er ætlað að búa til fer að skýrast, gerir verkið það líka, og þessi tvö fyrirbæri, verkið sjálft og tilfinningin sem verkið býr til, hafa gagnverkandi áhrif hvort á annað, mjakast áfram og loks verður eitthvað til.

Það er alveg óhætt að segja að ég eigi mér frekar áhrifavalda í kvikmyndum heldur en bókmenntum. Ég fékk áhuga á bókmenntum í gegnum kvikmyndir og finnst ég ennþá frekar illa lesinn. Að tala um áhrifavalda getur verið flókið, því yfirleitt er það algjör súpa hvað verður kveikja að verki, eða hefur áhrif á það, og svo getur eitthvað haft áhrif á mann í byrjun en algjörlega fjarað út þegar hugmyndin er farin að þróast. Byrjunin á einni Beethoven-sinfóníu sem ég rakst á hafði mikil áhrif á Krossfiska, allt frá byrjun ferlisins til loka. Hugarástandið sem tónlistin vakti upp í mér tengdist eitthvað áhrifunum sem ég vildi láta bókina búa til. Svefnhjólið eftir Gyrði Elíasson má líka nefna, eflaust Gangandi íkorna líka. Svo eru einhver málverk þarna líka og margt fleira, sumt sem er auðvelt að tengja við bókina og annað sem er líklega óljóst fyrir öllum nema mér. Mér finnst að Robert Bresson hljóti að hafa áhrif á mig, þótt ég viti ekki beinlínis hvernig. Alltaf þegar ég horfi á myndirnar hans finnst mér ég þurfa að hugsa allt upp á nýtt, nálgun mína við að búa eitthvað til. Snemma í ferlinu með Krossfiska hugsaði ég um Rainer Werner Fassbinder, hann er líka einn af mínum uppáhalds. Samt er ég heldur ekki viss um hvernig hann hefur áhrif á mig. Stundum er hann á einhverjum furðulegum landamærum húmors og ógnar og stundum er andrúmsloftið mjög nöturlegt. Mér dettur í hug þetta atriði hér.

En bara til að hnýta þessi tvö viðfangsefni saman, veruleika vs. huglægan veruleika og kvikmyndir, þá finnst mér við hæfi að grípa í leikstjórann Andrei Tarkovsky úr frábærri bók hans, Sculpting in Time. Hér tekur hann dæmi um atvik sem gerist í raunveruleikanum og vandamálið sem listamaðurinn stendur frammi fyrir þegar hann vill koma til skila þeim áhrifum sem hann varð fyrir:

You were walking along the street and your eyes met those of someone who went past you. There was something startling in his look, it gave you a feeling of apprehension. He influenced you psychologically, put you in a certain frame of mind.

If all you do is reproduce the conditions of that meeting with mechanical accuracy, dressing the actors and choosing the spot for shooting with documentary precision, you still won‘t achieve the same sensation from the film sequence as you had from the meeting itself. For when you filmed the scene of the meeting you ignored the psychological factor, your own mental state which caused the stranger‘s look to affect you with that particular emotion. And so for the stranger‘s look to startle the audience as it did you at the time, you have to prepare for it by building up a mood similar to your own at the moment of the actual meeting.

Þarna leynist sannarlega margt umhugsunarvert. Takk.

Sjálfur er ég með skæðan athyglisbrest sem lýsir sér einkum þannig að ég get ekki horft á sjónvarpsefni nema ég hafi, á einn eða annan hátt, verið sviptur ferðafrelsi mínu. Tilhugsun um að halda athygli við sjónvarpsþátt eða kvikmynd í tölvunni minni lengur en í átta mínútur er til dæmis afar fjarstæðukennd; ég tók mér minnst fimm pásur til að gera eitthvað annað einungis á meðan ég rembdist við að slá inn þessa spurningu til þín — spilaði á gítarinn, opnaði ísskápinn til að sækja mér meiri ost, dansaði við dóttur mína (hennar hugmynd), svaraði í símann (skakkt númer), skipti um sokka (þeir voru blautir, það er rigning úti). Mér finnst hins vegar mjög gaman að fara í bíó. Eina leiðin til að ég haldi athygli lengur en í tíu mínútur er ef ég er teymdur inn í sal, dyrunum lokað, ljósin slökkt. Þannig á þetta að vera, finnst mér: samverustund í draumnum, nokkrir inni í sal. Þegar ég bjó í París fyrir nokkrum árum og átti ekki barn fór ég oft í viku í bíó (geggjað að geta séð sígildar gamlar kvikmyndir fyrir 350 kall í bíósal). Hvernig finnst þér best að horfa á bíómyndir?

Mér finnst best að horfa á kvikmyndir á stórum skjá. Bíó er frábært. Einu sinni var á heimili mínu skjávarpi sem ég nýtti til hins ýtrasta til að horfa á myndir, stofan var eiginlega ekkert síðri en salur 4 í Bíó Paradís. Nú er ég bara með sjónvarp, og ég nenni aldrei að horfa af fartölvu. Ég glími sem betur fer ekki við þennan athyglisbrest varðandi það að horfa á myndir. Kannski byggði ég upp þol í kvikmyndafræðinni í Háskólanum þar sem ég sat gjarnan ósofinn inni í hlýjum og dimmum bíósal og þurfti að halda athygli yfir alls konar myndum sem nútímaáhorfanda gæti fundist erfiðar, í nokkra klukkutíma í senn. Ég finn til með þér.

Tja, ég ýki nú aðeins — og var kannski ekki nógu nákvæmur í orðavali. Ég á ekki í neinum vandræðum með að halda athygli við kvikmyndir í bíóhúsum (nema um sé að ræða nýlegar Hollywood-blokkböstera svo sem Sjóræningja Karíbahafsins eða síðustu Hringadrottinssögu-myndina; ég man enn hvað mig dreymdi meðan ég svaf í salnum) og ég hef setið í gegnum ólíklegustu verk án þess að mér leiðist, sjaldnast samt að mínu frumkvæði enda er ég frekar illa menntaður í góðri menningu, barnæska mín löðrandi í Arnold Schwarzenegger-myndum og Andrés Andar-syrpum (það hjálpaði í mínu tilviki að giftast inn í franska fjölskyldu; ég hefði til dæmis líklega ekki farið á fimm og hálfs tíma leiksýningu á kambódísku ef ástalíf mitt hefði þróast með öðrum hætti). En sem sagt: Vandinn tengist frekar kaótísku vinnulífi og foreldrahlutverkinu — allur „frítími“ hjá mér fer í lestur og skrif (samanber núna) plús að ég á ekki sjónvarp (ég þekki afar fáa undir fertugu sem eiga sjónvarpstæki; mér finnast sjónvörp núorðið skipa svolítið svipaðan sess og heimasími með snúru) og mér grútleiðist að horfa á meistaraverk kvikmyndasögunnar á litlum tölvuskjá og nota þá sama tæki og ég nota við vinnu yfir daginn. Það er eitthvað dapurlegt við að góna á sama tækið allar sínar vökustundir, jafnt í starfi sem leik; einu sinni reyndi ég að hysja upp um mig buxurnar og fjárfesti úti í New York í glæsilegum skjávarpa, en hann suðaði svo hátt og hitnaði svo mikið að ég heyrði ekki tal persónanna á skjánum og svo svitnaði ég eins og í gufubaði, og neyddist því að lokum til að selja hann aftur. Og því er niðurstaðan nú þessi — síðustu tvö árin, eða frá því að ég gerði veröldinni þann greiða að fjölga mér, hef ég einungis séð tvær kvikmyndir (báðar í bíó: Call Me by Your Name og The Old Man & the Gun, flottar) and that’s it. Frekar grátleg staðreynd. Ekki hjálpar til að í augnablikinu búum við fjölskyldan hvergi og verðum á faraldsfæti næstu mánuðina; og því sé ég ekki fyrir mér að sjá bíómynd aftur fyrr en … tja, árið 2021, ef ég er raunsær. En sem sagt: Mér finnast kvikmyndir deyja á tölvuskjánum (og athyglin).

Kannski er vandamálið eins og þú segir tölvan, því í henni fer athyglin oftar en ekki á flakk. Kannski er það að horfa á kvikmynd í tölvu eins og að elda inni á klósetti.

Já, það er ein besta samlíking sem ég hef heyrt hvað þetta snertir.

Ef fólk hefur áhuga á að horfa á kvikmyndir en á erfitt með að beita sig aga gæti hjálpað að læsa truflunarvalda eins og hljóðfæri, snjallsíma, fartölvu og ósjálfbjarga afkvæmi, inni í herbergi á meðan.

Hefurðu grátið í bíó, og ef svo er, hvaða mynd spilaðist á tjaldinu? (Játning til að brjóta ísinn: Ég hef grátið í bíó, oftar en einu sinni, en ég græt reyndar mjög mikið.)

Ég græt örugglega meira en flestir bældir karlmenn, en sjaldan á almannafæri. Ég grét t.d. ekki þegar ég fæddist. Ég fór á Konung ljónanna þegar ég var sjö ára og man að ég fékk kökk í hálsinn yfir henni. Ekki þó þegar [SPOILER ALERT] Múfasa dó, mér var alveg sama um hann, heldur þegar Tímon og Púmba voru leiðir yfir því að vinátta þeirra og Simba myndi enda. Ég táraðist yfir byrjuninni á Up, þá var ég orðinn fullorðinn. Ég horfði á Synecdoche, New York, einn heima hjá mér, kannski einu sinni á ári í þrjú ár, og hágrét. Ég horfði á hana aftur um daginn, þá var langt síðan ég sá hana síðast, en upplifði ekki það sama. Líklega hef ég alveg tæmt þann catharsis-brunn.

En ljóð, lestu líka ljóð?

Já, ég er til dæmis með á náttborðinu hjá mér núna Að lesa ský, frábærar ljóðaþýðingar Magnúsar Sigurðssonar sem komu út í fyrra. Ég er enn að fara í gegnum nokkur heildarsöfn skálda sem ég pantaði mér fyrir nokkru: Elizabeth Bishop, Fernando Pessoa, Jack Gilbert, Wisława Szymborska og Zbigniew Herbert. Það tekur sinn tíma og ekki hjálpar að ég fer gífurlega hægt í gegnum ljóðabækur. Ef ljóð hreyfir djúpt við mér þarf ég að loka bókinni og taka pásu, eins og bragðið sé enn í munninum og ég tími ekki að skemma það.

Ég veit að Sigurður Pálsson hafði mikil áhrif á þig sem höfund. Geturðu lýst hvernig, í hverju lá galdurinn hjá honum sem skáldi, manneskju?

Ég treysti mér alls ekki til að súmmera upp galdur nokkurs, hvað þá Sigurðar, en það er rétt að hann hafði mikil áhrif á mig. Hann kenndi mér að lesa og skrifa ljóð. Ég var áhugasamur og lærdómsfús nemandi og SP hafði þann frábæra eiginleika að geta alltaf mætt manni með metnaði og áhuga, og aukið hvorttveggja. Hann var ótrúlega hvetjandi kennari og upptendrunarmeistari. Hann var mjög gjafmildur á allt sem hann vissi um ljóðlist og skáldskap, það var ekki til í honum að halda einhverju út af fyrir sig. Það er ríkt í svo mörgum að hræðast að svipta hulunni af því hvað þeir eru að hugsa, hvað þeir hafa fundið út fyrir sjálfum sér, kannski vegna þess að þeir tími því ekki — þeim líður eins og þeir gefi frá sér eitthvað forskot — eða óttast að útskýringar sínar á einhverju jafn flóknu og listsköpun hljómi barnalegar eða ómerkilegar, eða jafnvel að þær séu í alvöru ómerkilegar, og þeir hrökkvi úr eigin dáleiðslu á sjálfum sér við að orða þær upphátt. Þannig var Siggi ekki og gjafmildi hans situr sterkt í mér. Það er uppörvandi viðhorf til lífsins sem ég held að sé hollt að temja sér.

Það gagnaðist Sigurði líka vel sem kennari hvað hann var með greinandi huga. Mér fannst vera svo ríkt í honum að vilja átta sig á virkni hluta, að skilja, og tólið sem hann hafði á valdi sínu til þess var ljóðlistin. Hann leiðbeindi mér með lokaverkefni í náminu og þegar við hittumst á fundum og hann var að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð, var hann ennþá að greina fyrir sér reynsluna með ljóðlist, með myndlíkingum. Ég man eftir líkingunni hans með lyfjameðferðina — að lyfin væru eins og klaufskur danspartner á skólaballi sem þyrfti að sýna þolinmæði, og reyna bara að njóta tónlistarinnar. Mér virtist sem ljóðlistin væri fyrir honum lífsviðhorf, sem vildi svo heppilega til fyrir hann (og okkur) að er líka til sem starfsgrein. Þess vegna fannst mér hann miðla einhverju til okkar nemenda hans sem var langt umfram bókmenntir. Eða þá að þessi mörk sem gerð eru á milli lífsins og bókmennta eða lista séu alls ekki til. Ég er mjög glaður að hafa kynnst SP. Ég sakna hans og hugsa oft til hans.

Sama hér, ég fæ enn orku bara við að hugsa til hans. Hvernig bók langar þig að skrifa næst (ef nokkra?)

Það er of mikið sem mig langar til að skrifa. Ef þú sæir bara Dropboxið mitt, Sverrir.

Það kann að vekja hjá þér skelfingu — en ég  Dropboxið hjá þér. (Sem betur fer sérðu mitt samt ekki!)

Áttu þér eftirlætis-höfund eða bók?

Höllin eftir Kafka. Það væri margt hægt að segja bæði um hana og höfundinn. Mér finnst Kafka stundum vera eins og að skákmeistari að lýsa því hversu flóknir útreikningar og afleiðingar liggja að baki einfaldri hreyfingu taflmanns — nema hvað varðar mannleg samskipti. Þó að aðstæður persónanna geti verið furðulegar gera innsýn höfundarins í sálfræði og samskipti þær sannar. Þessar aðstæður bjóða þó líka upp á miklar túlkanir, fólk er sífellt að greina Kafka frá alls konar vinklum. Það getur verið gagnlegt og áhugavert, en við fyrsta lestur þessar bókar mæli ég með því að lesa hana án þess að reyna að átta sig á neinu, setja neitt í samhengi eða tengja við veruleikann utan bókarinnar. Bara njóta hennar eins og máltíðar, skynja frekar en skilja, það er að minnsta kosti þannig sem hún verkar á mig.

Lestu líka grafískar skáldsögur, myndasögur? (Ég dýrka sjálfur franska myndasöguhefð — þar sem höfundar skrifa teiknaðar sögur sem njóta alveg jafn mikillar virðingar og hefðbundnar skáldsögur — og dettur þetta í hug vegna þess sem við sögðum um samband þitt við kvikmyndir hér að ofan.)

Ekki mikið, en ég væri alveg til í að bæta úr því. Ég glugga stundum í grafískar skáldsögur í hillunum í Nexus og finn oft bækur sem vekja áhuga minn. Ég hef bara því miður, eða sem betur fer kannski, ekki efni á öllu sem mig langar í.

Ein besta íslenska bók síðustu ára sem ég hef lesið er reyndar grafísk skáldsaga. Það er Gombri eftir Elínu Eddu. Rödd textans og teiknistíllinn mætir manni skýrt frá byrjun, það er einhver einkennileg ró og teikningarnar einfaldar en ítarlegar, þó að það hljómi kannski eins og þversögn. Áferð söguheimsins verkar sterkt á mann, hún felst m.a. í litapallettu og þróun hennar í gegnum söguna, einföldum uppstillingum persóna við blæbrigðaríka bakgrunni, þöglum römmum o.fl.

En takturinn í samtölum, og framvindunni í heild, er kannski eitt það magnaðasta við bókina. Tilfinning fyrir tíma er mjög sérstök, til dæmis gæti komið heil blaðsíða með nokkra ramma sem sýnir persónu fara þegjandi um borð í bát, með völdum nærmyndum, eitthvað sem maður býst kannski ekki við, áður en maður fletti, að myndi taka svona mikið rými. Svo springur sagan einstöku sinnum út í tjáningarríkum opnum þar sem veruleikinn leysist upp. Við lestur þessa bókar finnur maður fyrir því að höfundurinn óttist ekki áhættur og hafi gífurlegt vald á frásögninni. Það er svo yndisleg tilfinning við að lesa bækur að geta treyst höfundi fullkomlega til að fara með sig á áhugaverða staði. Frábær bók.

Já, ég hef heyrt um hana áður en ekki lesið. Bæti úr því. Á hvaða tungumáli lestu helst (ef nokkru)?

Helst les ég bækur á tungumáli og þá íslensku. Ég hef einmitt verið að bölva mér fyrir að kunna ekki sænsku. Ég las þýðingu á bók eftir Söru Lidman, Sonur minn og ég, og varð mjög hrifinn, en því miður hafa ekki fleiri bækur eftir hana verið þýddar á íslensku. Ég leitaði þá til enskunnar og þar fann bara tvær bækur sem búið er að þýða. Ég var að byrja á annarri þeirra í fyrradag, sem heitir í þýðingunni The Rain Bird. Bókarhönnun og frágangur er skelfilegur á þessari útgáfu, sem ýtir undir þessa sjálfsbölvun mína fyrir að geta ekki lesið á frummálinu.

Gefurðu bækur?

Já, stundum geri ég það. Hjúskaparmiðlun milli fólks og bóka er skemmtileg. Ég er alltaf að reyna að mana mig til að gefa bara bækur úr bókahillunum mínum sem mig langar til að eiga sjálfur, bækur sem ég myndi sakna.

Áttu þér sterka minningu af því að uppgötva töfra frásagnarlistarinnar? Ef svo er, hvar varstu staddur, hvernig varstu klæddur, hver var lyktin, varstu einn eða með öðrum, glaður eða hræddur, barn, táningur, fullvaxta? Og á hvaða formi var sögunni miðlað, manstu það?

Þær eru margar. Alltaf þegar ég uppgötva nýjan höfund eða leikstjóra finnst mér ég verða fyrir einhverjum göldrum. Mamma hefur sagt mér sögu af því þegar hún las fyrir mig Tótu tætubusku þegar ég var lítill. Þegar hún kom að martraðarkaflanum, þar sem Tótu dreymir að foreldrar hennar komi inn í herbergið hennar og rífi öll leikföngin í tætlur, fylltist ég skelfingu og fór að gráta. Ég bað mömmu að lesa þessa bók fyrir mig aftur og aftur, og þegar hún reyndi að hlaupa yfir martröðina, til að skelfa mig ekki og eyðileggja ekki fyrir mér daginn, bannaði ég henni það og heimtaði þennan hrylling aftur, og fór aftur að grenja og varð skelfingu lostinn. Líklega segir það eitthvað um samband mitt við frásagnarlistina, að verða fyrir töfrunum trompar löngunina til að viðhalda andlegu jafnvægi.

Af netinu, 25. janúar 2019

Hagfræðingurinn Tim Harford varð vinsæll fyrir rétt rúmum áratug síðan – þegar það var í tísku að skilja hversdagslega hluti út frá lögmálum hagfræðinnar. Hann skrifaði bókina Undercover Economist sem var feikilega vinsæl á þeim tíma, rétt eins og Freakonomics sem margir muna eftir. Svo varð hér hrun, eins og sumir muna, og hagfræðin datt svolítið úr tísku í kjölfarið. Sem meikar alveg sens – ef hagfræðin nýtist ekki við að skilja einmitt það sem hún var hönnuð til að útskýra, af hverju ætti einhver að nota hana til að skilja hversdagsleg fyrirbæri? Ég staldraði samt við þegar ég sá að Harford hafði skrifað skemmtilega grein í Financial Times um hvernig hann beitti kenningum atferlishagfræðinnar (e. behavioral economics) til að venja sig af snjallsímanotkun.

Hér er ansi góð grein um það sem rokkstjörnur geta kennt okkur um rekstur fyrirtækja.

Talandi um rokkstjörnur. Ég sé alveg fyrir mér að einn daginn mun ég eiga samtal við krakkana mína um hljómsveitir eins og Bítlana og Rolling Stones á meðan þau ranghvolfa augum og vita ekkert hvað ég er að röfla um. Einn daginn gleymist allt sem okkur finnst merkilegt í dag. En hvernig gerist þetta? Hvernig hverfa hlutir úr minni heilu samfélaganna? Hér er eðlisfræðingurinn Cesar Hidalgo í skemmtilegu viðtali um rannsóknarverkefni sitt sem fjallar einmitt um þetta – hvernig mannfólkið gleymir á endanum karakterum eins og John Lennon og Mick Jagger. Hidalgo hefur áður borið á góma á þessum vettvangi í tengslum við bókina Why Information Grows sem hann skrifaði og ég held mikið upp á.

Í síðasta Leslista minntist ég á ágæta grein eftir Jökul Sólberg félaga minn þar sem hann skrifaði um umhverfi sprotafyrirtækja. Hann skrifaði aðra áhugaverða grein nýlega um fyrirhugaðan þjóðarsjóð og gagnrýnir þau áform harðlega.

Hér er að finna virkilega góða grein úr New Yorker þar sem greinarhöfundur veltir fyrir sér listinni að taka ákvarðanir og reynir að draga fram hvað raunverulega býr að baki stórum ákvörðunum í lífi okkar.

New Yorker er greinilega með nokkrar neglur þessa dagana. Hér er brot úr dagbók eftir Robert Caro, þann mikla ævisagnameistara, sem hann skrifaði þegar hann dvaldist í Texas við rannsóknarvinnu vegna bókarflokks hans um Lyndon Johnson, bandaríkjaforseta.

Skemmtileg hugleiðing hér um vinnusemi og af hverju hún er ekki jafn mikil dyggð og af er látið. (KF.)

Grein þar sem reynt er að draga fram það jákvæða sem gerðist árið 2018.

Njóttu hvers kaffibolla – á meðan þú getur.
„Among the world’s 124 coffee species, […] 60 percent are at risk of extinction in the wild. Climate change and deforestation are to blame.“

David Byrne heldur úti fréttabréfi og vefsíðu: Reason to Be Cheerful. Ég sá hann ýta verkefninu úr vör á sínum tíma í The New School í New York, þar sem hann lýsti því hvað fyrir honum vakti á sinn einkennandi, taugaveiklaða máta. Hann sagði að við mættum ekki einungis starblína á hið hræðilega – aukna misskiptingu, loftslagsbreytingar, hrottalega valdhafa o.s.frv. – heldur þyrftum við einnig að sækja orku í það góða sem mannfólk áorkar. Og er ekki bara nokkuð til í því?

Heimskan sigrar endanlega á Íslandi.

Blaðamennska tórir enn, í hið minnsta hjá The New York Times. Viðtal við Jill Abramsson, fyrrum ritstjóra New York Times. Hún var að gefa út áhugaverða bók, Merchants of Truth: The Business of News and the Fight for Facts.

Mary Oliver, eitt þekktasta samtímaskáld Bandaríkjanna, lést í hárri elli í vikunni. Viðbrögð lesenda sýna að hún átti sér marga fylgjendur. Falleg lýsing á henni í þessari grein:
„Oliver lived a profoundly simple life: she went on long walks through the woods and along the shoreline nearly every day, foraging for both greens and poetic material. She kept her eyes peeled, always, for animals, which she thought about with great intensity and intimacy, and which often appear in her work not so much as separate species but as kindred spirits.“
Nýlega kom út úrval verka hennar, Devotions.

Óskar Arnórsson, dyggur fylgjandi Leslistans, benti mér á að til eru þessar ágætu íslensu þýðingar á ljóðum gríska skáldsins Kavafís. Þýðandi: Atli Harðarson. Þarna leynist meðal annars eitt eftirlætisljóða minna, „Borgin“, í laglegri (en þó ekki lýtalausri) þýðingu.

… Og þá rifjast upp fyrir mér að annar slyngur þýðandi, Þorsteinn Vilhjálmsson, sendi frá sér úrval þýðinga á grískum og rómverskum ljóðum árið 2016, Mundu líkami (Partus Press), og sú geymir meðal annars þýðingar á ljóðlist Kavafís. Ég sé að bókin er uppseld, sem er súrt því ég var ekki á réttri breiddargráðu þegar hún kom út og gat því ekki orðið mér úti um hana. Ef einhver vill senda Leslistanum eintak, þá má það…

Ásgeir H. Ingólfsson skrifar fína grein um listamannalaunin.
„Höfum það líka alveg á hreinu að fyrir ríkið eru þessar 650 milljónir smápeningar. Þetta er það sem kostar að malbika 13 kílómetra, Þjóðkirkjan kostar þrefalt meira (og þá eru sóknargjöld undanskilin), sem og varnarmál þessarar herlausu þjóðar, ört fjölgandi aðstoðarmenn ráðherra og þingmanna munu bráðum kosta nærri því jafn mikið og öll listamannalaun, framlög til stjórnmálaflokka eru hærri en listamannlaun, það kostar meira að reka Íslandsstofu (áður Inspired by Iceland) og jafnvel á menningarsviðinu sjálfu eru þetta litlir peningar; Harpan, Þjóðminjasafnið, Sinfóníuhljómsveitin og Þjóðleikhúsið eru allt stofnanir sem eru töluvert dýrari í rekstri en listamannalaun.“

Magnús Halldórsson ritar einnig ágæta hugleiðingu um listamannalaunin og bendir á hið augljósa:
„Það sem mér finnst slá­andi við lista­manna­launin er hversu lág þau eru. Hugs­unin að baki laun­un­um, eins og umfjöll­unin um þau er í lög­un­um, er að þau geti gefið lista­mönnum svig­rúm til að sinna list­sköp­un­inn­i. 
Ekki er hægt að segja 392.498 krónur á mán­uði séu góð laun. Þau veita ekki svig­rúmið sem þarf, eins og lagt er upp í lög­unum um lista­manna­laun­in. Það held ég að sé nokkuð aug­ljóst.“
 (SN.)

Bækur, 25. janúar 2019

Sverrir hefur talað um bókina Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson allavega þrisvar sinnum á þessum vettvangi. Ég hugleiddi hana ekkert sérstaklega fyrr en móðir mín lánaði mér hana um helgina og ég byrjaði aðeins að glugga í hana í kjölfarið. Svo einhvern veginn gat ég ekki hætt að lesa fyrr en ég hafði rokið í gegnum hana í einum rykk – sem gerist býsna sjaldan. Það situr í mér hvað Ragnari tekst að fjalla vel um tvö aðskilin fyrirbæri á ótrúlega vandaðan hátt – annars vegar andlát föður síns og hins vegar dvínandi mikilvægi bókarinnar fyrir samfélagið. Yfirleitt þegar menn ætla sér að gera tvennt í einu verður útkoman býsna misheppnuð (sporkurinn er t.d. bæði léleg skeið og lélegur gaffall) en honum tekst að skrifa um þetta í einni samfelldri og skemmtilegri frásögn. Bókin er virkilega falleg – bæði að innan og að utan – og skilur mjög mikið eftir sig. Ég þarf greinilega að fara að lesa meira af því sem Sverrir mælir með. (KF.)

Ég er orðinn háður Patriciu Highsmith. Spændi í gegnum þrjár skáldsögur eftir hana í vikunni: bækur #2, #3 og #4 í syrpunni um Tom Ripley. Ég segi það hreint út: Tom Ripley er nýja uppáhalds-skáldsagnapersónan mín. Hann skiptist á að fremja harðsvíruð morð, tárast yfir fegurð klassískrar tónlistar, lesa ódauðlegar bókmenntir, neyta lostætrar fæðu, ljúga að konunni sinni og sinna garðrækt. Er það ekki draumalífið? Leikar berast vítt og breitt um Evrópu: sveitir Frakklands, París, Hamborg, Róm, Berlín… Að mínu viti er Patricia Highsmith mun merkilegri höfundur en margir samtímamanna hennar og samlanda frá Bandaríkjunum sem nutu meiri hylli og voru í tísku: Philip Roth, John Updike. Frábærar spennusögur sem eru í senn rökrænar og órökrænar – eins og ívið óþægilegir draumar, sem maður vill ekki vakna upp af. 

Juan Rulfo (1917 – 1986) var einn virtasti rithöfundur Mexíkó á tuttugustu öld. Venjulega léti ég það stoppa mig – ég er með ofnæmi fyrir mjög virtum rithöfundum – en ég hafði lesið annað þekktasta verk hans, nóvelluna ágætu Pedro Páramo (1955), og líkað vel, og greip því í vikunni með mér þýðingu á hinu meginverki hans, The Plain in Flames (El Ilano en Ilamas, 1953), í enskri bókabúð í Oaxaca. Smásögur, afar knappar. Þungar. Ég les eina eða tvær, verð að leggja bókina frá mér, þamba helst áfengan drykk. Carlos Fuentes, Julio Cortazar, allir þessir karlar, voru eins konar lærisveinar Rulfo, dáðu hann og dýrkuðu, og Borges lofaði hann í hástert. Maðurinn sendi ekki frá sér nema um 300 blaðsíður yfir ævina. Góður, en – líkt og svo margt í mexíkóskum bókmenntum – aðeins of þunglyndislegur fyrir mig.

Annar stór höfundur, sem ég hef verið að glugga í, er Machado de Assis (1839 – 1908), einn virtasti höfundur Brasilíu. Ó, allir þessir virtu spekingar! Nýlega kom út doðrantur með enskum þýðingum Margaret Jull Costa á smásögum hans. Í formála er honum líkt við Chekhov – ég er ekki enn tilbúinn að setja hann í slíkan þungavigtarflokk. (Það jafnast reyndar enginn á við Chekhov.) Segi frekar: Ef Woody Allen hefði búið í Rio de Janeiro á seinni hluta 19. aldar hefði hann kannski skrifað sögur í þessum dúr. Bókin er falleg. „Eiguleg“, eins og stundum er sagt. Það mun taka mig dágóðan tíma að renna í gegnum allar sögurnar – ef ég geri það mun ég skýra samviskusamlega frá því hér. En nú þarf ég að ná flugvél til Parísar! Sjáumst í næstu viku. (SN.)

Bækur, 18. janúar 2019

Eftir því sem ég verð eldri skil ég betur og betur að sumt fólk hænist meira að burknum en öðrum manneskjum. Í Oaxaca Journal lýsir Oliver Sacks ævintýrum sínum með bandaríska burkna-samfélaginu (e. American Fern Society) í Oaxaca-héraði Mexíkó. Ég viðurkenni fúslega að ég er enginn sérstakur áhugamaður um burkna (hverjum líkar samt ekki vel við burkna?) en las bókina vegna þess að ég er aðdáandi Sacks og á ferðalagi um Oaxaca. Og viti menn, ég lærði ýmislegt um burkna (og Oaxaca).

Ennþá betri fannst mér Insomniac City eftir Bill Hayes, en þar kemur áðurnefndur Oliver Sacks einnig við sögu; þeir Hayes voru elskendur síðustu árin sem Sacks lifði. Andvökuborgin er alveg sín eigin bók, ólík öðru sem ég hef áður lesið. Hún fjallar einkum um sorg og ástvinamissi; fyrri elskhugi Hayes til margra ára deyr óvænt og í kjölfarið flyst Hayes frá San Fransisco til New York-borgar, þar sem hann verður ástfanginn á nýjan leik – annars vegar af borginni, hins vegar af Sacks. Fyndin, falleg, mannleg, einlæg, ljóðræn – og frábær lýsing á Sacks, þeim óendanlega heillandi og skrítna manni. 

Hér er brot úr kaflanum „Sumarið þegar Michael Jackson dó“ í fúskaralegri þýðingu minni:

„Ég man að O hafði enga hugmynd um hver Michael Jackson var. „Hvað er Michael Jackson?” spurði hann mig daginn eftir að fregnirnar [af andláti MJ] bárust – ekki hver heldur hvað – sem var í senn afar skrítin og um leið fullkomlega viðeigandi leið til að orða það, í ljósi þess hvernig söngvarinn hafði smátt og smátt breyst úr mannveru yfir í furðufyrirbæri. O kvaðst ekki hafa neina þekkingu á poppmenningu eftir árið 1955, og það voru engar ýkjur. Hann vissi ekkert um popptónlistt, horfði varla nokkurn tímann á annað sjónvarpsefni en fréttir, hafði ekki gaman af samtímaskáldskap og nákvæmlega engan áhuga á stórstjörnum eða frægð (þar með talið sinni eigin). Hann átti ekki tölvu, notaði aldrei tölvupóst eða sendi textaskilaboð; hann skrifaði með sjálfblekungi. Þetta voru alls engir stælar í honum; hann stærði sig ekki af þessu; þvert á móti var sú vissa hans að hann væri ekki alveg „með á nótunum“ vatn á myllu hinnar miklu hlédrægni hans. En smekkur hans var fastmótaður, venjur hans og hegðun – allt var það óumbreytanlegt, og tilheyrði ekki okkar tíma.“

Einmitt svona langar mig að verða þegar ég verð stór!

Andvökuborgin er falleg hugleiðing um söknuð og sorg, og um leið óður til lífsins. Bókina prýða ljósmyndir höfundar af mannlífi New York-borgar, og klæða textann afar vel. Mæli með. (SN.)

Af einhverjum ástæðum keypti ég bókina Stoner eftir bandaríska rithöfundinn John Williams (ekki kvikmyndatónskáldið) fyrir einhverjum árum og hef síðan geymt hana í bókahillunni minni. Ég byrjaði að lesa hana í vikunni og finnst hún rosaleg – þótt söguþráður hennar sé mjög óspennandi við fyrstu sýn. Bókin fjallar um ævi bókmenntaprófessorsins William Stoner, misheppnað hjónaband hans og akademíska vinnustaðapólitík. Ég furða mig enn á því að ég hafi keypt þessa bók – þetta er svakalega óáhugaverður söguþráður. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því almennilega af hverju hún er jafn góð og raun ber vitni. Það getur verið vegna þess að hún kafar svo djúpt í persónu þessa brjóstumkennanlega manns og kannski vegna þess að hún er líka einhvers konar ástaróður til bókmennta. Ég get í hið minnsta ekki fest fingur á það, en ég hvet alla til að lesa hana. (KF.)

Af netinu, 18. janúar 2019

Fallegt viðtal við Kristínu Jóhannesdóttur, þá snjöllu leikhús- og kvikmyndagerðarkonu, um Núna, verk sem hún sviðsetur í Borgarleikhúsinu og geymir frumraun þriggja höfunda í leikritaskrifum.
Talið berst að Sigurði Pálssyni, skáldi, sem kvaddi okkur á síðasta ári.
„Ég ætla að hafa Sigurð með mér hér áfram, þangað til ég veit ekki hvenær,“ segir hún ofureðlilega. „Það var einhver að minnast á það við mig um daginn, varfærnislega, að röddin hans væri enn í símsvaranum hér heima, hélt þetta væri eitthvað sem ég hefði ekki athugað. En ég geri það stundum bara sjálf að hringja heim og þá heyri ég röddina hans … ljóð muna rödd, segir einhvers staðar!“

Snorri Másson, blaðamaður, birti langt viðtal við Halldór Armand í Stúdentablaðinu. Talið barst meðal annars að stöðu skáldskapar, og bókarinnar, á okkar skrítnu tímum, og að listamannalaunum. (SN.)

Talandi um Halldór. Hann flutti nýlega mjög skemmtilegan pistil í Lestinni á RÚV um það hvernig hann misskildi góða tilvitnun í Andy Warhol.

Jökull Sólberg, stofnandi sprotafyrirtækisins Takumi, skrifaði aðsenda grein í Viðskiptablaðið í síðustu viku um umhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi. Mikið real-talk hér á ferð.

Hér er frábær greining á skapandi listum og mikilvægi þeirra fyrir samfélagið. Góð hugleiðing í tilefni útnefninga listamannalauna.

Marie Kondo og tiltektarráð hennar hafa öðlast miklar vinsældir. Hún hefur gefið út vinsælar bækur um naumhyggjulífstíl og var að byrja með þætti á Netflix um snyrtitlegt líferni. Hún hefur m.a. talað fyrir því að fjarlægja bækur af heimilum (í hið minnsta þeim sem vekja ekki gleði innra með manni). Hér er skrifað skemmtilega um einmitt það.

Fannst áhugavert að lesa þessa skýrslu frá Reuters þar sem rýnt er í framtíð fjölmiðla. Þar er m.a. talað um aukið mikilvægi hlaðvarpa og áskriftarmiðla á kostnað netmiðla sem reiða sig á auglýsingar og samfélagsmiðla.

Ég ræddi fyrir nokkrum mánuðum um bók sem ég las eftir Winston Churchill þar sem hann talar um ástríðu sína fyrir listmálun. Nú sé ég að út er komin ný bók þar sem fjallað er ítarlega um Churchill sem listmálara. Hér er fín grein um hana.

Uppáhalds slóvenski heimspekingur allra, Slavoj Žižek, skrifar hér ágæta greinum Metoo-byltinguna og afleiðingar hennar. Í henni minnist hann m.a. á Klaustursmálið alræmda.
(KF.)

Ef Pétur Gunnarsson skrifar eitthvað, les ég það. Hér er fjallað um klukkuna og tímann: „Það jaðrar við ofskynjanir að sjá þau trítla í myrkrinu með töskurnar á bakinu eins og litlir fallhlífarhermenn innan um æðandi stálflykkin, oft við akstursskilyrði sem nálgast blindakstur.“ (SN.)


Til að hlusta á:


Friðrik Rafnsson, íslenskur þýðandi Michels Houllebecq, segir frá nýjustu bókfranska ólíkindatólsins. (SN.)

Fannst skemmtilegt að heyra þetta viðtal við listfræðinginn Ólaf Gíslason á RÚV um ítalska ljóðskáldið og fræðimanninn Giacomo Leopardi sem hefur nokkrum sinnum verið til umfjöllunar á þessum vettvangi. Við Sverrir erum einmitt báðir miklir aðdáendur doðrantsins Zibaldone sem hefur að geyma hugleiðingar þessa merka manns. Leopardi er kannski þekktastur hér á landi fyrir að hafa skrifað Samtal á milli náttúrunnar og Íslendings sem er aðgengileg í íslenskri þýðingu Ólafs hér.

Ég hef sjaldan náð að klára að hlusta á heilt hlaðvarp frá Joe Rogan, sem er ein stærsta hlaðvarpsstjarna hins vestræna heims. Ég hlustaði þó á viðtal hans við bandaríska sálfræðinginn Jonathan Haidt frá byrjun til enda á dögunum og hafði mjög gaman af. Í viðtalinu fjallar hann fyrst og fremst um nýja bók sem hann skrifaði ásamt Greg Lukianoff og nefnist The Coddling of the American Mind. Í henni fjallar hún um hvað ofverndun barna getur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér og að slík ofverndun sé farin að hafa mikil áhrif á bandarískt samfélag. (KF.)