Allt efni

Af netinu, 29. mars 2019

Einu sinni skrifaði ég óútgefið, óagað og óklárað skáldsöguuppkast sem gerðist í framtíðinni og var að mestu leyti sviðsett í „Nýju-Nýju Jórvík“; Manhattan-eyja var svo til sokkin í sæ og efstu stigar þjóðfélagsins höfðust við, bókstaflega, í efstu lögum borgarinnar, í svifhúsum sem sveimuðu yfir skýjakljúfunum. Hinir lægra settu og fátæku sigldu svo um neðstu lögin í göndólum og kajökum, og drukknuðu reglulega. Hér sé ég að Kim Stanley Robinson hefur skrifað skáldsögu, New York 2140, sem gerist í afar svipuðum heimi. Í nefndri grein er jafnframt tekið fram að vísindamenn ættu að hlusta í auknum mæli á listamenn – kannski verður hugarflugið okkar eina von í harðneskjulegri framtíð?


„Við megum aldrei gleyma því að mark­að­ur­inn er góður leið­bein­andi en afleitur hús­bónd­i,“skrifar Þröstur Ólafsson, hagfræðingur, og bendir á skort á samkennd og ábyrgð, sem áður hélt samfélögum saman, í nútímanum. „Nú er komið rof í þetta sam­fé­lags­lega lím, bæði innan þjóð­fé­laga sem og alþjóð­lega. Ofur áhersla hefur of lengi verið lögð á fram­gang ein­stak­lings­ins, for­gang hans og afkomu sem og rúm­gott sam­fé­lags­legt oln­boga­rými. Það er orðið lofs­yrði að skara eld að eigin köku.“
 

Gervigreindar-„listamaðurinn“ (listavélin? listfengi algóritminn?) AICAN hélt í samstarfi við Dr. Ahmed Elgammal sólósýningu í HG Contemporary-safninu í Chelsea nú nýlega, Faceless Portraits Transcending Time. Sumar myndirnar eru ansi flottar.Hér er svo án vafa áhugaverðasta greininn sem ég las í vikunni um samband myglusvepps og rafgeislunar.

Grein sem potar aðeins í nokkuð sem ég hef stundum velt fyrir mér: Hvernig stendur á því að næringarséní, hugsjóna-hipsterar og auglýsingastofur hafa gert aðfinnslur við nánast allt í ísskápnum okkar og forðabúrinu – fitu, sykur, kjöt, brauð, glúten, gos, vín, ost, jógúrt – en alltaf heldur kaffi áfram að skipa heiðurssess í lífi okkar?

Áhugavert um ellikerlingu: sífellt koma út fleiri og fleiri bækur um ellina og þau hryðjuverk sem hún vinnur á líkama og sál okkar. Er jákvætt að flest okkar séu að lifa lengur og lengur? Eða er einungis verið að draga dauðann á langinn? (SN.)

Hér er stórgott viðtal við myndlistarmanninn Luc Tuymans sem virðist vera nokkuð svartsýnn á stöðu heimsmála.

Svo er hér að finna ítarlega lýsingu á því hvernig dýr listaverk eru flutt á milli landa.

Heyrði fregnir af því að von væri á nýju safni tileinkað Dieter Roth á Seyðisfirði. Fagna því mjög mikið.

Teiknarinn Lóa Hjálmtýsdóttir var að birta mjög skemmtilega seríu um Reykjavík frá augum túrista í Guardian. Mæli með.

Það má segja ansi margt slæmt um Trump en svo virðist sem það sé orðum aukið að hann sé á einhvern hátt hliðhollur nýnasistum. Hér er farið yfir ummæli sem voru höfð eftir honum í kjölfar Charlottsville mótmælanna árið 2017 sem voru greinilega röng.

Sálfræðingurinn Jonathan Haidt er hér í löngu og góðu viðtali um aumingjavæðingu ungu kynslóðarinnar. Virkilega forvitnilegt.

Internetið hefur fjölgað starfsmöguleikum svo um munar – flestir vita bara ekki af því. Hér er rætt um það.

Um dauða, skatta og nokkra aðra hluti. Frábær greining Morgan Housel sem tekst einhvern veginn alltaf að láta texta um fjármál og fjárfestingar hljóma eins og ódauðlega lífsspeki.

Hvað eiga þorskar og menn sameiginlegt? Mun meira en ég bjóst við. (KF.)

 

Augu og eyru:

Kári fór í útvarpið og rabbaði um engin smáræðis tíðindi úr listheiminum: Met-safnið í New York mun frumsýna nýtt verk eftir Ragnar Kjartansson í sumar!

Einhvern tímann velti ég því fyrir mér hvernig segja mætti „brain drain“ á íslensku. Svo fékk ég svarið: Spekileki nefnist útvarpsþáttur í umsjón Höllu Þórlaugar Óskarsdóttur. Þar er spurt hvort spekileki ógni íslenska heilbrigðiskerfinu.

Góður maður benti mér á hlaðvarp sem ku vera skemmtilegt: The Rewatchables. Þar fara kvikmyndafróðir menn ofan í saumana á vinsælum bíómyndum frá Hollywood, mestmegnis hágæða poppmenningu frá níunda og tíunda áratuginum. (SN.)

Fyrir þá sem hafa áhuga á lífi hins vinnandi manns þá mæli ég með hlaðvarpinu Work Life með sálfræðingnum Adam Grant sem ég hef áður vísað í á þessum vettvangi. Í nýjasta þættinum fjallar hann um hversu slæm hugmynd það er að fylgja ástríðu sinni þegar kemur að því að velja starfsvettvang til framtíðar. 

Pókerspilarinn frægi Annie Duke fjallar hér í skemmtilegu viðtali um skilvirka ákvarðanatöku. Spjallið er svolítið miðað að fólki í fjárfestingabransanum en það á klárlega við um alla sem vilja taka skynsamlegri ákvarðanir. (KF.)

Bækur, 22. mars 2019

Ég treysti ekki heiminum, ég þurfti sífellt að búa hann tilskrifar Elísabet Kristín Jökulsdóttir í Heilræðum lásasmiðsins (JPV: 2007). Það er stórmerkileg og sterk bók. Minnti mig á mörg bókmenntaverk sem hlotið hafa lof og hylli á síðari árum í útlandinu: Chris Kraus (I Love Dick, Aliens & Anorexia), Maggie Nelson (The Red Parts, The Argonauts); og einnig frönsk átófiksjón skrif á borð við bækur Hervé Guibert (Le mausolée des amants, À l’ami qui ne m’a pas sauvé la vie). Íslenskar bókmenntir eru um margt frábærar, en einnig svolítið innræktaðar og einhæfar, og ég fór heljarstökk af gleði við að uppgötva bók í þessum anda: skáldaða sannsögu, sannsögulega skáldsögu, sem er – spennið beltin – vitsmunaleg og ögrandi á hátt sem er nær fáheyrður í íslenskri útgáfusögu síðustu áratuga. (Má segja svona? Æ, ég læt það bara gossa.) Mér varð hugsað til annars verks sem skautar á mörkum veruleika og skáldskapar hvað fagurfræði snertir: Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson, sem oft hefur borið á góma hér.
Hafið þið lesið Heilræði lásasmiðsins, kæru áskrifendur? Ef, ekki, ættuð þið að bæta úr því.
Svo er bókinni lýst á heimasíðu Forlagsins:
Elísabet og Algea kynntust þegar hún var á ferðalagi í New York. Hann bandarískur, hún íslensk; hann svartur, hún hvít; hann hattagerðarmaður og trommuleikari, hún skáld; hann stórborgarbúi, hún náttúrubarn. Þau eru ástfangin og eiga saman unaðsstundir; hann fylgir henni til Íslands og þau reyna að búa saman en bæði eiga erfitt með að skilja á milli ímyndunar og veruleika og það er margt sem truflar.“

Friðgeir Einarsson sýnir nú hinn bráðskemmtilega einleik Club Romantica í Borgarleikhúsinu. Friðgeir hefur einnig gefið út snarpar og hressilegar bækur á síðustu árum, smásagnasafnið Takk fyrir að láta mig vita og skáldsöguna Formaður húsfélagsins. Fyrir jól kom svo út þriðja bókin, annað smásagnasafn sem nefnist Ég hef séð svona áður, falleg bók með pálmatré á kápunni. Friðgeir hefur léttan og þjálan stíl, er lunkinn við að fiska út úr hversdeginum skemmtileg sjónarhorn og observasjónir og koma þeim með einföldum og hnitmiðuðum hætti á pappír. Sögurnar í safninu eru miseftirminnilegar, en maður les þær samt allar af góðri lyst því nærvera höfundarins er svo ljúf og ánægjuleg. Persónurnar standa oft í einhverju tilgangslausi brasi, eru ýmist túristar í bókstaflegri merkingu eða hálfgerðir ferðamenn í eigin lífi, og sumpartinn minnir estetík Friðgeirs mig á annan fyrirmyndar-höfund íslenskan; nefnilega Braga Ólafsson.


Óskalistinn:

This Is not Just a Painting, er titill nýrrar bókar sem ég sá auglýsta á einhverri bókmenntasíðu um daginn og vakti áhuga minn. Bókin snýst í kringum málverk eftir Poussin sem á endanum selst fyrir margar milljónir. Saga málverksins er rakin á meðan velt er vöngum yfir virði og verðmæti myndlistar. Veit ekki meira en þetta er nóg til að kveikja áhuga minn.

Skipulagsfræðingurinn bandaríski Charles Mahron heldur úti áhugaverðu verkefni sem kallast Strong Towns og snýst um að byggja upp kröftugt borgarskipulag sem er samfélögum til heilla – ekki bílastæðum. Ég tók einhvern tímann viðtal við hann fyrir Viðskiptablaðið og síðan þá höfum við verið tengdir á Linkedin. Gladdi mig að sjá að hann tilkynnti á dögunum nýja bók þar sem hann fer yfir speki Strong Towns verkefnisins. (KF.)

Haukur Már Helgason sendir frá sér í apríl næstkomandi bók með áhugaverðu heiti: Um þegnrétt tegundanna í íslenskri náttúru. Hlakka til að lesa hana.

Á svipuðum nótum: Fremdardýra- og hátternisfræðingurinn Frans de Waal var að senda frá sér nýja bók: Mama’s Last Hug. Áður sendi hann til að mynda frá sér hina fínu Are We Smart Enough to Know How Smart Animals Are? – og það er reyndar svoldið góð spurning. (SN.)

Af netinu, 22. mars 2019

Maður bjóst svo sem við því að gervigreindin myndi taka af okkur öll helstu störfin í framtíðinni en ekki grunaði mig að hún gæti leyst ljóðskáldin af hólmi!

Hér er nokkuð góður listi af bókum um listina við gerð borga.

Hef alltaf gaman af skrifráðleggingum þótt ég hunsi þau yfirleitt þegar ég skrifa sjálfur. Hér eru ansi góð ráð frá rithöfundinum Elmore Leonard.

Hér er djúp og merkileg umfjöllun um quantum computing. Þessi tækni er svo ný af nálinni að ég get ekki fundið neina almennilega íslenska þýðingu á fyrirbærinu. Skora á ykkur, kæru lesendur, að finna góða þýðingu!

Af hverju er Bernard Henri Levy álitinn svona klár? Þessi grein reynir að svara því.

Fín umfjöllun um dauða kaloríunnar og megrunarvísindi.

Ertu að leysa rétta vandamálið? Góð hugleiðing hér um einmitt það.

Mjög fínn pistill eftir Russ Roberts, vin Leslistans og umsjónarmann hlaðvarpsins Econtalk, um takmörk hagfræðinnar.

Rory Sutherland, annar góðkunningi Leslistans, skrifar góðan pistil um greindarvísitöluna og takmörk hennar. (KF.)

Áhugaverð hugleiðing um stærð þeirra dýra sem best vegnar á jörðinni. Það segir sig sjálft að oft er styrkur að vera stór. Maður er síður útsettur fyrir árásum og á auðveldara með að afla sér fæðu. Kannski útskýrir það að einhverju leyti hvers vegna mörg nútímadýr eru stærri en forverar þeirra: í slíkum tilfellum hefur tegundin smám saman stækkað í aldanna rás, og nefnist sú þróunarhneigð regla Cope í höfuðið á steingervingafræðingnum Edward Drinker Cope sem uppi var á 19. öld. Hvalir og höfrungar eru til að mynda komnir af spendýri á stærð við kött, forsögulegri veru sem undi sér til jafns á landi og í vatni. En hvers vegna eru öll dýr þá ekki feykistór? Hví er sem smærri tegundum vegni jafnvel betur um þessar mundir? Í fyrrnefndri grein eru settar fram mögulegar skýringar. Algengara er að nýjar tegundir spretti upp í smárri mynd, og eins þurrka fjöldaútrýmingar (líkt og sú sem nú stendur yfir af mannavöldum) frekar út stærri tegundir. Þarna leynist til að mynda skýringin á því hvers vegna hin svokallaða „megafána“ hvarf (loðfílar, risastór letidýr í Norður-Ameríku, vambar í Ástralíu sem voru á stærð við hesta, fleiri hressar tegundir): við drápum þær. Eitt sérstaklega ýkt dæmi: útþurrkun Steller-sjávarkýrinnar, sem „uppgötvaðist“ árið 1741 og var veidd af miklum móð og höfð í soðið uns hún þurrkaðist út – á aðeins 27 árum!

W. S. Merwin, bandaríska jóðskáldið, lést í vikunni. Gyrðir Elíasson hefur unnið það þjóðþrifaverk að íslenska nokkur ljóða hans (Tunglið braust inn í húsið, 2013). Hér er viðtal, sem fyrst birtist í The Paris Review árið 1987, þar sem Merwin ræðir skrif, sköpun, náttúruna. 
„As a child, I used to have a secret dread—and a recurring nightmare—of the whole world becoming city, being covered with cement and buildings and streets. No more country. No more woods. It doesn’t seem so remote, though I don’t believe such a world could survive, and I certainly would not want to live in it.“ 

Jóhann Helgi Heiðdal var í stuði í vikunni. Hér skrifar hann á naskan og kraftmikinn hátt um ungan franskan höfund, Édouard Louis, sem ég hef áður fjallað um í Leslistanum (og olli mér raunar vonbrigðum). Og hér skrifar JHH svo langa og kræsilega úttekt á Sögu tveggja borga eftir Dickens, sem nýlega kom út í þýðingu Þórdísar Bachman (sjálfur hef ég ekki enn lesið þýðinguna).

Ana Stanićević skrifar um skrif. „[T]il hvers að skrifa um bókmenntir þegar hlýnun jarðar ógnar tilveru okkar og við erum í hættuástandi sem ætti að gera eitthvað við núna strax, þó að það sé kannski þegar of seint?“

Ein erfiðasta lesning vikunnar: Útlendingastofnun (skýtur þetta heiti ekki skökku við í samtímanum?) ákvað að senda sýrlenskan leikskólakennara úr landi. (Og ég sem hélt einmitt að það væri vöntun á góðum leikskólakennurum á landinu). Úr greininni: 
„Hún kall­ar sig Sophiu þar sem hún tel­ur ekki óhætt að gefa op­in­ber­lega upp sitt rétta nafn af ótta við of­sókn­ir. Hún er ekkja og móðir fimm barna. Eig­in­mann­inn missti hún í stríðinu fyr­ir nokkr­um árum. Hún varð viðskila við börn­in í Sýr­landi þar sem þau dvelja enn. Nú eru liðin meira en þrjú ár síðan hún sá þau síðast.“ 

Anton Helgi Jónsson heldur úti skemmtilegri og margslunginni heimasíðu, þar sem má núorðið nálgast heildarsafn ljóða skáldsins í margvíslegu formi; sem texta á skjá, í hljóðformi, myndrænar útfærslur. Geta ljóð á vef veitt sömu lestrarupplifun og þau sem birtast í bók? Hentar vefurinn sumum ljóðum en ekki öðrum?

Falleg og vel rituð hugleiðing eftir Kathryn Schulz, um þema sem mörgum virðist hugleikið um þessar mundir – bókasafn föðurins.

Löng og sláandi grein um ástandið í Baltimore, sem er, eins og sakir standa, efalaust blóðugusta borg Bandaríkjanna.

The Dark Mountain er tímarit sem kemur út tvisvar á ári og er enn fremur netútgáfa. Þau lýsa markmiðum sínum meðal annars svo: „We intend to challenge the stories which underpin our civilisation: the myth of progress, the myth of human centrality, and the myth of our separation from ‘nature’.“ Þarna birtist margt áhugavert, fyrir þá sem vilja öðru hverju flýja mannhverfa rörhugsun. (SN.)


Augu og eyru:

Bill Frisell er að mínu viti einn mesti listamaður samtímans. Hér leikur hann á raflútu sína ásamt kontrabassaleikaranum unga, Thomas Morgan, og situr milli laga fyrir svörum, en svarar með semingi eins og hans er vandi. (SN.)

Hef lesið ansi mikið gagnlegt eftir Jason Fried, framkvæmdastjóra hugbúnaðarfyrirtækisins Basecamp. Hann skrifar og talar reglulega um vinnuumhverfi nútímamannsins og mikilvægi þess að róa það niður. Hér er hann í flottu viðtali.

Hér er mjög gott viðtal við Brian Koppelman, höfund sjónvarpsþáttaraðarinnar Billions og handritshöfund kvikmynda á borð við Ocean’s 13 og Rounders. Í viðtalinu fjallar hann um starfsumhverfi listamanna almennt þótt hann tali fyrst og fremst um gerð sjónvarpsþáttaraða. Mjög fróðlegt áheyrnar bæði fyrir starfandi listamenn og listunnendur. (KF.)

Af netinu, 15. mars 2019

Í síðasta lista vísaði ég á grein sem sagði frá íslandsför Arthur Koestler og minntist á veitingastað sem Koestler kvað nefnast Nausea og ölvaðan mann sem var kynntur sem „þjóðskáld“ Íslendinga. Við fengum nokkrar frábærar ábendingar frá lesendum um hvaða veitingastað væri að ræða og hvert „þjóðskáldið“ væri. Allir voru sammála um að veitingastaðurinn væri Naustið – enda ekki um marga aðra veitingastaði á Íslandi að ræða á þessum tíma. Ekki voru allir sammála um þjóðskáldið en ýmis nöfn bar á góma. (Þeim deilum við hins vegar ekki nema í einkaskilaboðum, af virðingu við umrædda menn.) Við þökkum kærlega fyrir ábendingarnar, kæru áskrifendur. Það er frábært að geta átt í góðu spjalli við ykkur og við tökum að vanda fagnandi á móti hvers kyns skilaboðum og ábendingum.

Hér er greinargott, djúpt og merkilegt viðtal við John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafa Trump og sigurvegara Mottumars þetta árið (og öll önnur ár ef út í það er farið).

Hér eru nokkuð áhugaverðar skrifráðleggingar frá Jordan Peterson – kanadíska sálfræðingnum sem allir voru að tala um á síðasta ári.

Og fleiri skrifráðleggingar: Hér koma góð ráð fyrir þá sem vilja skrifa skáldsögu.

Er eitthvað sameiginlegt með bókaútgáfu og sprotafjármögnun? Þessi greinkafar í málið.

Ég hef aldrei náð að átta mig almennilega á því hvort bandaríski myndlistarmaðurinn Matthew Barney er snillingur eða brjálæðingur. Í tilefni frumsýningar nýrrar myndar eftir hann veltir blaðamaður Washington Postfyrir sér hvort hann sé jafnvel einhvers konar költ-leiðtogi.

Hef alltaf gaman af tæknifjárfestinum Marc Andressen og því sem hann hefur að segja. Hér er gömul en greinilega sígild grein eftir hann þar sem hann fer yfir hvernig honum tekst að vera pródúktífur.

Talandi um Marc Andressen, sem er að öðrum ólöstuðum einn þeirra sem gerðu internetið að því sem það er í dag, þá sá ég nýlegt viðtal við hann sem er býsna gott. Í viðtalinu fjallar hann ekki einungis um tækni og viðskipti heldur um samleið viðskipta og lista – hvernig maður gerir hugmynd að veruleika og vekur athygli á þeirri hugmynd.

Fortnite er framtíðin – a.m.k. að mati höfundar þessarar greinar. (KF.)

Claire Lowdon veltir fyrir sér hinum geysivinsælum verkum Yuval Noah Harari, Sapiens og Homo Deus, leitar skýringa á vinsældum þeirra og metur hvort þau eru athyglinnar verð. Sjálfur er ég mjög tvíbentur, klofinn jafnvel. Mér fannst Sapiens áhugaverð tilraun (auðvitað misheppnuð) og sú síðari áleitin en einhvern veginn eins og skrifuð af auglýsingastofu.

Sagnfræðingurinn Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar á bráðskemmtilegan hátt um túristasprengjuna á Íslandi – á 19. öld!

Er Greta Thunberg stærsta hetja samtímans? Sennilega. Og fær hún friðarverðlaun Nóbels? Ja, hví ekki bara?

Siri Hustved segist skrifa fyrir lífi sínu. Hún var að gefa út nýja skáldsögu, Memories of the Future.

Ragnheiður Birgisdóttir skrifar um loftslagsmálin í Stúdentablaðið.

Brátt hefur göngu sína nýtt menningartímarit: Skandali. Af því tilefni tók Eiríkur Örn Norðdahl viðtal við einn af ritstjórum tímaritsins, Ægi Þór Jähnke.Heita má á verkefnið á Karolina Fund (og tryggja sér í leiðinni eintök af fyrstu tveimur tölublöðunum). Þá tekur Skandali við efni í fyrsta tölublað til 31. mars næstkomandi (skandali.timarit@gmail.com). Leslistinn fagnar vitaskuld þessu nýja systkini sínu í menningunni.


Augu og eyru:

Á RÚV hefur hafið göngu sína ný þáttaröð um loftslagsbreytingar á jörðinni, Hvað höfum við gert? Hvað veldur loftslagsbreytingum og hvenær byrjuðu þær? Hvaða áhrif hafa þær á jörðina og hvernig er hægt að bregðast við þeim? Stórar spurningar og vonandi að þeim verði svarað í eitt skipti fyrir öll í þessari þáttaröð, sem lofar góðu.

Fyrir latínugrána ætti þetta hlaðvarp svo að reynast happafundur. Allt frá árinu 1989 hefur útvarpsstöð ein í Finnlandi sent út vikulegan þátt með ýmsum fréttaskýringum … á latínu! (SN.)

Skemmtilegt viðtal við myndlistarmanninn Leif Ými Eyjólfsson. Nafn hans verður án vafa mun meira áberandi í framtíðinni. (KF.)

Bækur, 15. mars 2019

Ég hef átt Sjálfsævisögu Benjamin Franklin í nokkuð mörg ár og reynt að lesa hana nokkrum sinnum án þess að komast almennilega inn í hana. Eintakið sem ég á geymir einnig úrval ritgerða eftir hann og það var ekki fyrr en ég byrjaði á öfugum enda bókarinnar sem ég fór fyrst að hafa gaman af henni. Þar er að finna ótrúlega skemmtilegt og fróðlegt samansafn af hugleiðingum þessa merka manns sem eru bæði gagnlegar og skemmtilegar. Það sem mér fannst persónulega skemmtilegast að lesa voru spakmæli sem hann birti undir dulnefninu Richard Saunders í almanakinu Poor Richard’s Almanack. Maður lærir heilmikið um sögu Bandaríkjanna af þessari bók og ég er vís til þess að grípa til hennar með reglulegu millibili á næstunni. (KF.)

Hvernig lifir maður í heimi þar sem allt er að deyja? David Wallace-Wells, sem ritað hefur svo ötullega um umhverfismál á síðustu árum, tekst að nokkru leyti á við þá spurningu í nýrri bók sinni, The Uninhabitable Earth: Life After Warming. Efnisins vegna er þetta ekki auðveld lesning, en þó er bókin aðgengileg og rituð á máli leikmanna. Wallace skirrist ekki við að orða óhugnanlegar staðreyndir á blákaldan hátt:
„We have already exited the state of environmental conditions that allowed the human animal to evolve in the first place, in an unsure and unplanned bet on just what that animal can endure. The climate system that raised us, and raised everything we know as human culture and civilisation, is now, like a parent, dead.“ (24)
Síðar í bókinni merkti ég einnig við þessar línur: „There is nothing to learn from global warming, because we do not have the time, or the distance, to contemplate its lessons; we are after all not merely telling the story but living it. […] One 2018 paper sketches the math in horrifying detal. In the journal Nature Climate Change, a team led by Drew Shindell tried to quantify the suffering that would be avoided if warming was kept to 1.5 degrees, rather than 2 degrees––in other words, how much additional suffering would result from just that additional half-degree of warming.“ Svarið: Mörg hundruð milljónir mannslífa. Hvað dóu aftur margir í helförinni? Fyrri heimsstyrjöldinni? Tölurnar blikna í samanburði. Það sem veitir manni von er vitundarvakningin meðal fólks, einkum hinna yngri, sem er að verða úti um allan heim. (SN.)


Óskalistinn:

Sá nýlega að það væri komin út ný íslensk þýðing á bókinni Lacci eftir ítalska rithöfundinn Domenico Starnone. Ég hafði til umfjöllunar í gömlum Leslistaenska þýðingu á þessari skemmtilegu bók. Mér fannst hún það góð að ég hefði ekkert á móti því að kafa í þessa nýju þýðingu eftir Höllu Kjartansdóttur. Svo heyri ég að Starnone sjálfur verður gestur bókmenntahátíðar. Gaman. (KF.)

LEXÍA er ný íslensk-frönsk orðabók, verkefni á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í nánu samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þann fjórða apríl næstkomandi verður orðabókin kynnt sérstaklega fyrir frankófílum og öðrum áhugasömum í Alliance Française. „Ritstjóri og verkefnisstjóri LEXÍU, Rósa Elín Davíðsdóttir, kemur og talar um orðabókina og gefur nokkur sýnishorn úr henni ásamt því að spjalla almennt um þær áskoranir sem fylgja því að þýða á milli íslensku og frönsku,“ segir á síðu Alliance Française. Génial, alveg hreint. (SN.)

Ráðunautur Leslistans: Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir var að senda frá sér sína sjöundu ljóðabók,Undrarýmið, fallegt bókverk, ríkulega myndskreytt. Ég var svo heppinn að rekast á ljóðskáldið á förnum vegi og við áttum stutt spjall saman.

– Sverrir Norland

Kæra Sigurlín Bjarney, hjartanlega velkomin í ráðuneyti Leslistans og til hamingju með Undrarýmið, nýju ljóðabókina þína. Einstaklega falleg kápan og í stíl við ævintýralegt umhverfið hér í ráðuneytinu.

Kæri Sverrir! Takk fyrir gott boð.

Til að hefja leik: Einu hef ég verið að velta fyrir mér upp á síðkastið, ef ekki frá fæðingu — hvað er ljóð, veistu það?

Ég held að ljóð sé margt og eigi sér margar hliða, ljóðið býr einhvers staðar í björtu kjallaraherbergi með vinkonum sínum myndlist og tónlist og það er óttalegt ólíkindatól og neitar að láta skilgreina sig, um leið og maður hefur fest það niður í stól og gefið því skilgreiningu þá stekkur það upp með látum (eða laumast burt) og breytist í eitthvað annað. Í mínum huga er ljóðformið mest spennandi því þar er fullkomið frelsi og allt hægt, ljóð eru orð sem raðast saman á áður óvæntan hátt, umbreyta lesandanum ef móttökuskilyrðin eru til staðar, ljóðinu er alveg sama um viðtökur eða sölutölur eða vinsældir, það gerir það sem því sýnist og þess vegna er ekki annað hægt en að heillast gjörsamlega af því.

Já, kannski ljóðið sé einn síðasti útvörður frjálsrar og skapandi hugsunar — og uppreisnarinnar — í mannlegu samfélagi? Rokkið er dautt — en ljóðið lifir.

En manstu hvenær ljóðið smeygði sér fyrst inn í líf þitt, hvað varstu gömul, hvar varstu stödd?

Já, ljóðið er klárlega pattaralegur útvörður. Nei, ég man ekki hvenær nákvæmlega ljóðið læddist inn í taugakerfið, man að ég var byrjuð að fikta við ljóðagerð í 7. eða 8. bekk og þá helst gamankvæði um vinkonur mínar en svo tók alvaran fljótlega við, og fyrir há-alvarlegan ungling er gott að leita í ljóðin, þar er alveg jafn mikið pláss fyrir drama og hlátur. Var alltaf að skrifa hjá mér hugmyndir, ljóð og andvörp en hélt því fyrir mig. Gæti trúað að tónlist hafi haft mikil áhrif, lærði lengi á píanó.

Og áttu þér ljóðskáld sem fylgt hafa þér lengi, og þá hvernig og hvers vegna?

Þau eru nokkur ljóðskáldin sem hafa fylgt mér lengi, dettur helst í hug Sigurbjörgu Þrastardóttur og Óskar Árna Óskarsson en svo eru þarna líka Kristín Eiríksdóttir og Elísabet Jökulsdóttir og Kristín Ómarsdóttir. Þau eru öll svo frjó og búa til nýja rafleiðni í hausnum á mér, opna nýjar og gamlar (gleymdar) víddir. Féll fyrir nokkrum árum fyrir Tomas Tranströmer og svo er ég alltaf að hnjóta um eitthvað fallegt eftir Rilke.

Nýja bókin þín er skreytt afar fallegum og sérstæðum myndum, sem eru „birtar með góðfúslegu leyfi frá Hagströmer lækningasögubókasafninu, Karónlínsku stofnuninni í Stokkhólmi“. Hver var kveikjan að ljóðabókinni, ortirðu út frá myndunum?

Já, ég notaði myndirnar sem kveikjur eða stökkpall inn í skáldskapinn, ákvað síðan að leyfa kveikjunum að vera með í bókinni enda dáldið mergjaðar finnst mér. Mig grunar að úrvinnsla mynda og texta eigi sér stað á ólíkum svæðum í heilanum og þá kannski kannski myndast nýjar tengingar í því undrarými sem heilinn er þegar ljóðin eru lesin og myndirnar teknar inn á sama tíma. Skokk með tónlist í eyrunum er ein svakalegast ljóðakveikja sem ég þekki, nenni bara svo sjaldan að skokka að ljóðin koma seint og hægt.

Bækur, 8. mars 2019

Las tvær stuttar skáldsögur í vikunni, eftir höfunda af ólíkum kynslóðum. Önnur var Millilending eftir Jónas Reyni Gunnarsson, höfund sem situr í öndvegissessi í ráðuneyti Leslistans. Þessi fyrsta skáldsaga hans hlaut mikið lof, og verðskuldað. (Mér finnst nýjasta skáldsaga hans, Krossfiskar, reyndar ennþá betri.) Hin bókin nefnist Sonnettan og er eftir Sigurjón Magnússon. Hugmyndin að baki þessari nóvellu er mjög svolítið áhugaverð og áleitin: Menntaskólakennarinn Tómas hrekst úr starfi í kjölfar þess að hafa álpast til að velja þekkta sonnettu eftir Snorra Hjartarson í kennsluhefti fyrir nemendur sína. Fljótlega heyrast raddir sem fullyrða að umræddur kveðskapur Snorra sé andstæður fjölmenningu á Íslandi („land, þjóð og tunga: þrenning sönn og ein“). Tómas situr fast við sinn keip, ljóðið sé sígilt í íslenskum bókmenntum 20. aldar og fásinna að skýla krökkum fyrir hugmyndaheimi fortíðarinnar, auk þess sem rasískir undirtónar kvæðisins spretti einungis af rangtúlkunum hjá hinni hroð- og hraðvirku siðgæðisvél samtímans. Sjálf sagan gerist svo á Spáni, þar sem Tómas og konan hans, Selma, eru í fríi. Það hriktir í hjónabandinu, og endir sögunnar er hádramatískur – allt að því móralskur í því hvernig sumar persónanna fá makleg málagjöld (og minnti mig þar frekar á rússneskar bókmenntir, segjum, Tolstoj eða Tsjekhóv, en flest önnur – og kaldhæðnari – samtímaverk). Þá staldrar maður við og spáir hvernig komið er fyrir íslenskunni þegar manni finnst það að vissu leyti ljóður á verki hversu vel það er ritað – það skapaði svolitla fjarlægð á persónur og söguefnið hversu tær og snurðulaus stíllinn er. En að öllu því sögðu, þá stökk ég til og varð mér þegar úti um fleiri bækur eftir Sigurjón Magnússon, og hlakka til að lesa þær. Þar á meðal leynist skáldsagan Borgir og eyðimerkur, sem segir frá Kristmanni Guðmundssyni, höfundinum sem gat sér ungur mikla skáldfrægð á Norðurlöndum en átti undir högg að sækja þegar hann sneri aftur heim til Íslands (stafaði það af öfund samlanda hans?). Vorið 1964 lenti hann svo, eins og frægt er, í málaferlum við ungan rithöfund, frænda minn Thor Vilhjámsson, sem veist hafði að honum í tímaritsgrein og úr spunnust miklar, og hatrammar, ritdeilur. Mér finnst Sigurjón heyja sér áhugaverð viðfangsefni og mun áreiðanlega rekast á sitthvað fleira bitastætt í verkum hans. (SN.)

Eftir að ég minntist á Michael Polanyi fyrir einhverjum Leslistum síðan fékk ég ágæta ábendingu frá Stefáni Snævarr sem tilkynnti mér að hann hefði skrifað um hann í bók sinni Kredda í kreppu. Það minnti mig á að hann sendi mér bók sína, Bókasafnið fyrir einhverju síðan og ég fór að lesa hana í vikunni. Þetta er forvitnileg blanda af fræðitextum og skáldskap sem er vel athygli verð fyrir áhugamenn um hvoru tveggja. Þakka Stefáni kærlega fyrir sendinguna.

Stefán benti mér einnig á að Hannes Hólmsteinn Gissurason hefði eitthvað skrifað um Polanyi og þegar ég gúgglaði mér til um það fann ég skemmtilegt viðtal sem HHG tók við heimspekinginn Karl Popper sem ég hef mikið dálæti á. Sama hvaða skoðanir maður kann að hafa á Hannesi þá er viðtalið býsna áhugavert. Vilji menn kynna sér verk Poppers og þora ekki alveg að kafa í hans þekktustu verk – doðrantana Logik der Forschung og Open Society and Its Enemies – þá mæli ég með ritgerðarsafninu Ský og klukkur sem Háskólaútgáfan gaf út fyrir tíu árum síðan. Það hefur að geyma valdar ritgerðir eftir Popper í þýðingu Gunnars Ragnarssonar, og eru þær ansi góðar.

Samstarfskona mín lánaði mér bókina Psychoanalyst Meets Marina Abramovic á dögunum. Eins og titillinn gefur til kynna snýst hún um viðtöl gjörningalistakonunnar frægu við sálfræðinginn Jeannette Fischer þar sem þær þræða sig í gegnum verk hennar líkt og um persónulegan fund hjá sálfræðingi væri að ræða. Hafi maður gaman af list Abromovic er þetta mjög fín bók. Ég er sjálfur á báðum áttum með hvort mér finnist hún vera frábær eða tilgerðarlegur listamaður og fannst þess vegna bókin vera einmitt þannig – frábær og tilgerðarleg á köflum. (KF.)


Óskalistinn:


Sigurlín Bjarney Gísladóttir gefur út nýja ljóðabók, Undrarýmið. Leslistinn fagnar því og hlakkar til að lesa.

Þá hefur Silja Aðalsteinsdóttir þýtt Áfram konur!, norska myndabók um kvenréttindabaráttu í aldanna rás, eftir rit­höf­und­inn Mörtu Breen og teikn­ar­ann Jenny Jor­dahl. Megi hún rata sem víðast. (SN.)